20.9.2023 | 12:01
Ekki benda mig.
Bendum á aðra, sannmælumst svo um að kenna skúringarkonum um þetta, það er þeirri sem þrífur Seðlabankann og þeirri sem þrífur gamla tukthúsið við Arnarhól, það fréttist víst að þær höfðu farið saman til Tene í hittihittifyrra, áhrif þess eru víst ennþá að koma fram í aukinni þenslu.
Það er nefnilega svo auðvelt að axla ekki ábyrgð og benda á aðra, og hvar væri heimurinn staddur ef það væri ekki þessi skúringarkona þarna með sitt breiða bak sem fer létt með að taka á sig allar sakir.
Staðreyndin er samt sú að verðbólgan er að hluta til innflutt, allflestar þjóðir heims glíma ennþá við afleiðingar peningaprentunar kóvid áranna og einhverja skuld má skella á stríðið milli Moskvu og Kiev, þó þær blammeringar minni um margt á meinta sekt skúringarkonunnar.
En fyrst og síðast er verðbólgan innlent sjálfsskaparvíti, drifin áfram af umframeftirspurn eftir húsnæði.
Umframeftirspurn sem er drifin áfram af stjórnlausum innflutningi farandverkafólks því þenslan í hagkerfinu er ekki sjálfbær, langt umfram getu samfélagsins til að manna tilfallandi störf, hvort sem það er í ferðaþjónustu eða byggingariðnaði.
Í því liggur sjálfskaparvítið, og stanslausar vaxtahækkanir bíta ekki á það víti nema að litlu leiti.
En virka hins vegar vel til að kæfa allt annað i samfélaginu, fyrir utan að vera sniðugt tæki til að flytja auð frá almenningi til auðróna.
Jafnvel aular með 6 háskólagráður skilja þessi sannindi og vita að vaxtahækkanir við þessar aðstæður eru fóður verðbólgunnar, framlengja líftíma hennar og skilja eftir sviðna jörð í "innlenda" hluta hagkerfisins.
Jafnvægi næst ekki á húsnæðismarkaðnum fyrr en bönd eru sett á hinn stjórnlausa fólksinnflutning og hagkerfið verði gert sjálfbært á ný.
Fyrir utan að við erum að verða útlendingar í eigin landi og erum talin skrýtin og gamaldags að tala íslensku, þá sýður alltaf uppúr suðupotti, og hagkerfi okkar er suðupottur í dag. Með hrörnandi innviðum og stýrt af fólki sem virðist það eitt kunna að benda á aðra.
Það er ábyrgðarleysi að gera ekkert, að hafa þjóðarskútuna á sjálfstýringu þegar brim og boðaföll eru framundan, þeir sem slíkt gerðu voru aldrei til frásagnar á eftir.
Deilur okkar ágæta ráðafólks, milli ríkisstjórnar og seðlabanka, milli stjórnar og stjórnarandstöðu, minna óþarflega á lítil börn í sandkassa, nema lítil börn í sandkassa eru ekki svona barnaleg.
Það þarf að horfast í augu á vandanum, og mæta honum síðan með einhverju sem ætlað er að takast á við og leysa.
Fyrsta skrefið er samt að viðurkenna hin raunveruleg vandamál, og hafa kjark til að ræða þau. Leiða þannig umræðuna í stað þess að láta bullumsullið afvegleiða hana.
Það er það sem fullorðið fólk gerir á erfiðleikatímum, á hættutímum.
Þar virðist Bjarna eitthvað vera að fatast flugið og hann er ekki einn um það.
Og það að hann er ekki einn um það er hið raunverulega mein sem knýr áfram verðbólguna, dýpkar og breikkar gjána milli þeirra sem ná léttilega endum saman og hinna sem gera það ekki, ýtir undir óróa og deilur í samfélaginu.
Það er auðvelt að benda á allt og alla.
Mun erfiðara en að axla ábyrgð og reyna sitt besta í því embættum og störfum sem þjóðin hefur treyst viðkomandi fyrir.
Og líklegast engin eftirspurn eftir slíkum mannkostum ef marka má þjóðmálaumræðuna í dag.
Breytir því samt ekki að ferð á sjálfstýringu gegnum brimgarð endar alltaf illa.
Þess vegna eiga menn að víkja ef þeir treysta sér ekki til að stýra.
Ef þeir treysta sér ekki til að gera það sem þarf að gera.
Það mættu bendarar landsins hafa í huga í dag.
Kveðja að austan.
Dálítið langsótt af Ásgeiri að vísa ábyrgð annað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:14 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 620
- Sl. sólarhring: 636
- Sl. viku: 6351
- Frá upphafi: 1399519
Annað
- Innlit í dag: 532
- Innlit sl. viku: 5387
- Gestir í dag: 487
- IP-tölur í dag: 481
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þessi hagfræði almúgans og hugmyndafræði verkalýðsins var, sællar minningar, prufuð í ein fimmtíu ár fram að þjóðarsáttarsamningunum á tíunda áratug síðustu aldar. Nú er þessi afturganga komin aftur á skrið og útkoman var fyrirsjáanleg. Hærri laun til að bæta fyrir þann skaða sem of miklar launahækkanir ollu síðast. Og náttúrulega einhverjum öðrum um að kenna. Ekkert nýtt, ekkert óvænt og lausnin sú sama og áður: að lemja sig í hausinn með hamri til að fæla höfuðverkjadjöflana út. Má bjóða þér önnur fimmtíu ár af verðbólgum, óðaverðbólgum og kreppum? Þú einn getur stöðvað það, þú einn hefur hag af því að stöðva það og enginn gerir það fyrir þig. Samt já? Ok, verði þér að góðu.
Vagn (IP-tala skráð) 20.9.2023 kl. 16:21
Jamm og jæja féagi Vagn.
Þú ert bara góður í dag.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 20.9.2023 kl. 16:29
Vagn. Hvað eru "of miklar launahækkanir"? Eru það of miklar launahækkanir sem leiða til þess að ráðstöfunartekjur nægi til að borga fyrir húsaskjól og kaupa í matinn?
Guðmundur Ásgeirsson, 20.9.2023 kl. 19:15
Guðmundur, "of miklar launahækkanir" eru launahækkanir sem leiða til verðbólgu. Hvað þú telur þig þurfa að borða eða hvernig þú vilt búa kemur því ekkert við hvert raunverulegt verðmæti vinnu þinnar er og þá verðmæti þeirra króna sem þú færð. Þú getur ekki rökstutt háar launakröfur með því að annars getir þú ekki haft nautalund annan hvern dag og humar hina. Og þó svo þú fáir það í gegn þá kippir það ekki hagfræðilögmálum úr sambandi. Fimmtíu ár af ég þarf samt meira til að lifa, þó ég hafi það bara nokkuð gott núna hefði átt að kenna fólki hvert sambandið milli launahækkana og verðbólgu er.
Vagn (IP-tala skráð) 20.9.2023 kl. 20:01
Vagn. Launahækkanir leiða ekki til verðbólgu. Það er enginn launaliður í vísitölu neysluverðs. Hún hækkar ef verð á vörum og þjónustu er hækkað og launafólk hækkar ekki verð heldur atvinnurekendur. Það var enginn að tala um nautalund og humar, slíkt er bara þinn útúrsnúningur.
Ég skal gera spurninguna skýrari í von um að það hjálpi þér að svara án útúrsnúninga: Eru launakröfur sem myndu duga fyrir lágmarksframfærslu "of miklar" að þínu mati?
Fræddu okkur þá líka endilega um hversu lág laun þurfa að vera svo það valdi ekki verðbólgu, samkvæmt þeim kenningum sem þú trúir á. Þýðir það að búa í tjaldi og borða kvöldmat einu sinni í viku og fara aldrei til tannlæknis? Hvaða viðmið telur þú rétt að nota í þessu sambandi?
Guðmundur Ásgeirsson, 20.9.2023 kl. 21:01
Ekkert svar frá Vagni við því hvaða launakröfur má gera svo það rúmist innan þeirra kenninga sem hann aðhyllist???
Guðmundur Ásgeirsson, 22.9.2023 kl. 17:17
Það er bara slökkt á honum Guðmundur.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 22.9.2023 kl. 21:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.