25.2.2023 | 13:21
Stríð svartstakkanna.
Við lifum skrýtna tíma á Íslandi í dag.
Forhert klíka Svartstakka hefur hreiðrað um sig í stjórn Samtaka Atvinnulífsins og virðist vera í svona heilögu stríði gegn áratuga viðurkenndum rétti verkafólks að nýta sér verkfallsréttinn ef félög þeirra og samtök eru ekki sátt við það sem boðið er við samningaborðið.
Þessi réttur hefur sjaldan verið nýttur á þessari öld nema í einstaka tilvikum hjá stéttarfélögum opinbera starfsmanna, en á almenna vinnumarkaðnum erum þau ákafleg sjaldgæf, og þá almennt staðbundin nema verkfall sjómanna 2016 sem má segja að hafi endað með ósigri þeirra.
Samt taka ráðherrar í ríkisstjórn Íslands undir þessi sjónarmið eða aðför að verkfallsréttinum, tala um að það þurfi að breyta vinnulöggjöfinni því verkföll skaði samfélagið.
Hvað er þá eftir í vopnabúri verkalýðshreyfingarinnar ef vinnulöggjöfin setur verkfallsréttinum svo þröngar skorður að í praxís sé búið að afnema þennan grundvallarrétt launafólks??
Á hún þá að treysta á miskunn, náð, góðvild bæði atvinnurekanda eða stjórnvalda í þeirri eilífðarbaráttu að tryggja vinnandi fólki sanngjarnan hlut af þjóðarkökunni??
Víðir lögga sagði hjá Gísla Marteini í gær þegar hann hrósaði Sólveigu Önnu fyrir staðfestu sína, að ýmis réttindi launafólks, sem við töldum sjálfsögð í dag, eins og orlofsréttur, laun í veikindum, lífeyrissjóðir, allt þetta hefði ekki komið að sjálfu sér heldur vegna baráttu launafólks, þar á meðal viljanum til að fara í verkfall til að knýja í gegn kjarabætur.
Samt upplifum við aðför ofsamanna að þessum rétti svo einna helst má líkja þegar Mússólíni í upphafi valdatíðar sinnar lét svartstakka sína lemja verkafólk á Ítalíu til hlýðni, þar vegna þess að hann þoldi aðeins eitt vald á Ítalíu, sitt vald.
Hér er nútímaútgáfa sömu Svartstakka að lemja láglaunafólk til hlýðni með níð og rógsherferðum, með því að misnota embætti ríkissáttasemjara, með algjöri óbilgirni við samningaborðið, og þegar það dugði ekki, fordæmalaust verkbann sem reyndar má deila um hvort er frekar beint að ríkisstjórninni en Eflingu.
Hver eru svo rök Svartstakkanna gegn sanngjörnum kröfum Eflingar???, það vita jú allir að villimennskan á húsnæðismarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu hefur étið upp allar kjarabætur liðinna ára og að lægstu launin duga ekki lengur fyrir lágmarks framfærslu, ástand sem ætti að brenna jafnt á atvinnurekendum sem og launafólki því sveltur maður sinnir ekki vinnunni sinni vel.
Kröfur Eflingar eru sagðar fara fram úr launaviðmiðum, séu hærri en aðrir hópar hafi fengið. En laun æðstu stjórnenda, jafnt á almenna markaðnum sem og hjá hinu opinbera, hafa hækkað töluvert meira á liðnum árum en laun láglaunafólks. Það er því skinhelgi að taka til sín stærri hluta af launakökunni og ætlast síðan til að starfsfólkið á lægstu laununum bæti það upp með hógværð í sínum kröfum.
Það er búið að semja við 80% launþega, þar á meðal aðildarfélög Starfsgreinasambandsins, við getum ekki samið við önnur félög um hærri kjör. Eitthvað sem stenst enga skoðun, samningar annarra geta ekki svipt láglaunafólk í Reykjavík réttinn til að semja um sín eigin kjör, hvað þá svipt það réttinn til að fara í verkfallsaðgerðir telji það þess þurfa. Það er samningafrelsi í landinu en ekki svokallað hópfrelsi að stærsti hópurinn ákveði kjör annarra hópa.
Loks er talað um efnahagslegan stöðugleika, það séu óvissutímar og óraunhæfir kjarasamningar auki verðbólguna ef ekki er innistæða fyrir þeim.
Allt gild rök í sjálfu sér en sanngjarnt fólk getur ekki ætlast til þess að láglaunafólk í Reykjavík axli eitt ábyrgð á þeim stöðugleika, með því að svelta, því þvílík er villimennskan að þegar fólk hefur borgað leigu, eða borgað af húsnæðislánum sínum, þá er ekkert afgangs fyrir brýnustu lífsnauðsynjum.
Það eru gild rök fyrir kaupkröfum Eflingar, og ef eitthvað er þá eru þær alltof hógværar miðað við hinn bitra raunveruleik láglaunafólks að til dæmis hækkanir á húsaleigu hafa þegar étið upp væntanlega kauphækkanir, og meira til.
Síðan eru hinar væntanlegu launahækkanir ekki að spýta meiri fjármunum inní hagkerfið en aðrar launahækkanir, nema síður sé. Það er einfalt reiknisdæmi að sjá 5% hækkun á 800 þúsund króna grunnlaun er sama upphæð og 10% hækkun á 400 þúsund króna grunnlaun.
Eftir stendur kannski stóra spurningin, hafa menn efni á þessum launahækkunum??
Þá er fyrst að geta að sérhver vaxtahækkun Seðlabankans tekur háar fjárhæðir úr rekstri fyrirtækja og færir þá fjármuni í vasa fjármálastofnana, enginn spyr þá hvort fyrirtækin hafi efni á þessu, aðeins spurt þegar hækka á laun okkar minni bræðra.
Síðan eru það ofurlaun forstjórnanna, arðgreiðslurnar, hagnaðartölur fyrirtækja með því besta sem hagasaga okkar þekkir, ekkert af þessu bendir til kreppu í hagkerfinu enda hefur það vaxið mikið á liðnum árum.
Það er aðeins þegar skúringarkonan bankar kurteislega á dyr og biður um salt í grautinn að allt verður vitlaust, forstjórarnir fara inní fataskápinn og taka út mjölétin jakkaföt sem einkaritari þeirra fékk hjá Hjálpræðishernum, einkaritarinn síðan í snarhasti látinn farða á þá sultarsvip, og skúringarkonunni tjáð að því miður standi svo illa á en kannski eigi hann nokkur slitin skópör sem hún geti fengið til að sjóða úr súpu, gamalt húsráð frá tímum Móðuharðindanna.
Það er nefnilega ekkert eðlilegt í þessum viðbrögðum við hógværa kröfugerð Eflingar.
Þau bæði ráðast á heilbrigða skynsemi fólks sem og sjálfan raunveruleikann, það er þensla í þjóðfélaginu sem sést á öllum eyðsluhagtölum.
Og ef ástandið væri vissulega svona tvísýnt, og þá vegna ytri óvissu, þá er fyrsta skref Samtaka Atvinnulífsins að tilkynna sitt eigið fordæmi, til dæmis að lækka ofurlaun sín um sirka 10%, frysta arðgreiðslur, safna í sjóði fyrir erfiða tíma.
Stjórnvöld myndu síðan setja ýmis Þök, til dæmis á hækkun verðtryggingarinnar (taka út erlenda hækkunarliði), hækkanir á opinberum gjöldum, á hækkanir á leigumarkaði, á vaxtahækkanir Seðlabankans, og ekki hvað síst, að hjálpa láglaunafólki að eignast Þak yfir höfuð.
Það eru nefnilega fordæmin sem setja viðmiðin, og fordæmum er fylgt séu þau sanngjörn, og taka tillit til aðstæðna allra, ekki bara hinna ofurríku og fyrirtækja þeirra.
Þetta er líka eitthvað sem sanngjarnt og heiðarlegt fólk veit þó það kannski fari með veggjum í dag, og láti ofsa og öfgamenn komast upp með að stríða við láglaunafólk þjóðarinnar sem sannarlega á erfitt með að ná endum saman í dag.
Í stríði sem virðist hafa það eina markmið að afnema verkfallsréttinn hjá launafólki.
Af hverju er svona komið fyrir okkur sem þjóð??
Að öfgarnar stjórni öllu, hvar sem er litið.
Af hverju ber okkur ekki gæfu til að setjast niður til að setja niður og ræða málin??
Það er svo mikið ójafnvægi í samfélaginu í dag, kerfin okkar, hvort sem það er heilbrigðiskerfið, vinnumarkaðskerfið, húsnæðiskerfið, eða efnahagskerfið, allt virðist vera komið að því að springa vegna þessa ójafnvægis, og umræðan er öll út á túni í einhverju bulli, upphrópunum, upphlaupum, og á sama tíma er ráðafólk okkar upptekið í útlöndum að fá að vera Memm meðal hinna stóru þjóða meginlandsins.
Við líðum þetta stríð Svartstakkana, samt vitum það er rangt, það er rangt að svipta launafólki verkfallsvopni sínu, og það er ranglátt, aðeins barbarar og þaðan af verra fólk reynir að réttlæta laun sem duga ekki fyrir framfærslu, í landi þar sem smjörið drýpur, hjá þjóð sem hefur aldrei verið ríkari.
Sumum finnst það kannski alltí lagi því það gæti fellt ríkisstjórnina og flýtt því ferli að við segjum okkur til sveita hjá Brusselvaldinu, en þá ættu þeir sumu að spá í sinn innri mann, það hljóta að vera önnur tæki og tól til að ná því markmiði, annað en ranglátt stríð ofsa og öfgamanna gegn þeim sem hallast standa i samfélagi okkar.
Því það er á svona stundum þar sem innri maður fólks kemur í ljós.
Í gær heyrðist óvæntur sáttatónn, kannski mun þessi deila leysast farsællega eftir allt saman.
Það er vel ef svo verður.
Eftir stendur þá reynslan sem við verðum að læra af, sem og ástæður þess að Efling fór af stað með launakröfur sínar, þær eru ennþá allar til staðar.
Og það er lítið verið að gera, yfirleitt vinnur hver höndin gegn annarri, þjóðarbúið er eiginlega á sjálfstýringu þessa dagana, þegar þörfin fyrir styrka stjórn hefur aldrei verið meiri.
Sáttartónninn getur síðan verið blekkingin ein og boðað verkbann komi til framkvæmda í næstu viku.
Björgunin gæti þá legið hjá Ástráði skipuðum ríkissáttasemjara sem virkilega hefur vaxið af störfum sínum og ný miðlunartillaga frá honum gæti verið forsenda sáttar.
Tíminn einn veit, og það er af mörgu öðru að hugsa þessa helgina.
Ég spái því að Efling hafi sigur í þessari deilu, á einn eða annan hátt.
Að atlögu Svartstakkana verði hnekkt, að skynsamt fólk grípi inní hjá Samtökum atvinnurekanda.
Eftir stendur stríð sem aldrei átti að verða.
Skömm þeirra sem hófu það er mikil.
En hún er ekki síðri hjá þeim sem spiluðu með, hvort sem það eru fjölmiðlar, ráðherrar, verkalýðsarmur Samfylkingarinnar eða aðrir sem mönnuðu skotgrafir Svartstakkanna á einhverjum tímapunkti.
Við erum nefnilega ekki svona þjóð.
Við bara gleymum því stundum.
En ekki núna, þökk sé Eflingu.
Að vekja okkur af værum blundi.
Það er nefnilega bjart úti og hækkandi sól.
Kveðja að austan.
Eitt fyrirtæki ákveðið að taka ekki þátt í verkbanni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:29 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 256
- Sl. sólarhring: 691
- Sl. viku: 5840
- Frá upphafi: 1399779
Annað
- Innlit í dag: 225
- Innlit sl. viku: 4989
- Gestir í dag: 221
- IP-tölur í dag: 221
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Fyrir mér horfir málið svona, og varðar fyrirhugað verkbann SA í Eflingu:
Félagar í Eflingu eru rúmlega 20.000.
Ef vinnudeilusjóðurinn greiddi hverjum 25.000 á dag, alls 500.000.000 á dag, þá mundi sjóðurinn verða galtómur eftir örfáa daga. Það var hinn eini tilgangur SA með verkbanni, að brjóta endanlega niður alla kjarabaráttu launþega, ekki bara Eflingar, heldur yrði þetta verkbannsvopn notað af SA eins og her, þar sem herlög eru sett, til að brjóta niður alla andstöðu og svipta fólk rétti til frjálsra samninga, og svipta starfsfólk sitt lífsviðurværinu meðan á verkbanni stæði. Svo alvarleg er staðan, og mig undrar að forystulið flokkanna á þingi, einkum sjálfkallaðra vinstri flokka, skuli þegja á meðan þessu fer fram.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 25.2.2023 kl. 14:33
í átti vitaskuld að vera á
sem leiðrétt hljóðar svo:
og varðar fyrirhugað verkbann SA á Eflingu.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 25.2.2023 kl. 14:37
Ekkret við þennan þrumupistil að bæta Ómar.
Sorglega sannur og sýnir einfaldlega hver íslenskt þjóðfélag stefnir.
Það erum VIÐ og þið hin eruð ekki þjóðin svo vitnaö sé í hin frægu
orð Ingibjargar Sollu.
Sigurður Kristján Hjaltested, 25.2.2023 kl. 21:19
Samkvæmt fréttur virðast svartstakkar SA einnig vera komnir í heilagt stríð við lítil fyrirtæki venjulegs fólks, sem kemur ekki á óvart, enda eiga smáfyrirtæki meira sameiginlegt með láglaunafólki en auðrónum.
Magnús Sigurðsson, 26.2.2023 kl. 07:30
@ Magnús
Nákvæmlega.
Fyrirhugað verkbann SA þjónar einmitt - og einnig - því hlutverki að valda smáfyrirtækjum sem mestu tjóni, þannig að eitthvert stórfyrirtækja SA, með krumlurnar í vasa lífeyrissjóða og fjármálastofnana, geti sölsað það undir sig og drepið í dróma.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 26.2.2023 kl. 12:38
Blessaður félagar og takk fyrir innlitið.
Vil aðeins hnykkja á að þetta verkbann er aðeins birtingarmynd þessa stríðs sem hefur það eina markmið að stóratvinnurekendur stjórni líka vinnumarkaðnum og þeir sem fara gegn þeim verði vegnir með öllum ráðum.
Það sorglegast í þessu öllu saman er meðvirknin út í samfélaginu, sérstaklega hjá hinum ráðandi stéttum. Það er eins og fólki, hvort sem það er fjölmiðla eða stjórnmálafólk, finnist það fyndið að vera eign, og engin grunngildi þess samfélags sem ól okkur og fóstraði, séu þess virði að verja.
En það er hækkandi sól og bjart úti.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 26.2.2023 kl. 12:39
Það dugir ekkert minna þegar við blóðþyrsta stalínista er að kljást sem sjá ekkert nema ógeð, viðbjóð og vitfirringu í Íslenskum fyrirtækjum og beita öllum brögðum til að útrýma þeim.
Forvitnilegt að tug milljarða sjóðir sem félagsmenn hafa greitt í til að geta stundað vinnudeilur sér að skaðlausu og staðið af sér áhlaup auðvaldsins verða ekki notaðir til að létta undir með þeim félögum sem þess þurfa nauðsynlega í þessari vinnudeilu. Sennilega eru launin bara það góð nú þegar að allir eiga sparifé og þurfa enga aðstoð.
Vagn (IP-tala skráð) 27.2.2023 kl. 01:31
Margur heldur mig sig komrad Vagn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 27.2.2023 kl. 07:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.