Sumir eiga 416 milljónir.

 

Og kaupa sér þakíðbúð á besta stað í bænum.

 

Aðrir eiga ekki krónu, kaupa sér því ekki íbúð, og þeir eru í verkfalli.

Telja sig hafa engu að tapa, gætu hins vegar eignast draum um að eignast íbúð einhvern daginn.

 

Sá sem á 416 milljónir er hins vegar ekki í verkfalli.

Hann þarf ekki að eignast draum um að eignast í búð, því hann á íbúð.

Ef það er eitthvað sem pirrar hann, þá er þetta fólk þarna sem er í verkfalli.

Hvað er það eiginlega að pæla, skilur það ekki mikilvægi stöðugleika??

 

Svona getur líf fólks og sjónarmið verið mismunandi.

Líkt og það tilheyri ekki sömu þjóð, sé jafnvel af sitt hvorum heiminum.

Þeir sem eru sælir í þessum heimi og þeir sem eiga að vera sælir í næsta heimi.

 

Það er ekki von þó menn skilji ekki hvora aðra.

En í því skilningsleysi er þó betra að vera maðurinn sem á íbúð.

Því hann á svo margt annað líka.

Til dæmis bíl, stjórnmálamenn, sumarbústað, ríkissáttasemjara, jafnvel villu í heitara landi.

 

Eignir er vissulega ekki nein bein ávísun á hamingju, en það er gott að eiga þær ef maður vill losna við pirring, til dæmis pirring yfir veðrinu, þá er hægt að skella sér í villuna, eða pirring yfir verkföllum, þá hringir maður bara í ríkissáttasemjara.

Svona eftir að stjórnmálamaðurinn sem maður á hefur sett það í lög að Nei þýðir já,  pottþétt kerfi eins og svikamyllan í gamla daga.

Já, það er ekki von þó að þessi þarna sem á ekki einu sinni draum um að eignast íbúð, skilji ekki þennan sem á íbúð á 416 milljónir og þá er fátt eitt talið upp af eignum viðkomandi.

Það er bara mjög skiljanlegt að hann skilji hann ekki.

 

Það er svona, sumir eiga, sumir eiga ekki.

Og fólk skilur ekki hvort annað.

Eiginlega er það vandi Íslands í dag.

Líklegast ekki flóknara en það.

 

Hvernig úr má bæta veit ég ekki.

Kannski auglýsa eftir honum í útvarpinu í gamla daga þegar háseta vantaði á bát eða ráðskona óskast í sveit, má hafa með sér barn.

Svona eins og; Skilningur óskast, má eiga íbúð, þarf aðeins að skilja að öðrum langar kannski líka að eiga eitthvað eins og til dæmis húsaskjól.

 

Já, þetta er ekki svo vitlaust.

Prófum.

 

Skilningur óskast.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Keyptu þakíbúð á 416 milljónir króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragna Birgisdóttir

Sæll Ómar. Svo eiga margir margar íbúðir og leigja þær þeim sem ekki eiga íbúðir ,fyrir háar mánaðarlegar greiðslur sem myndu duga til afborganna á lánum fyrir nýrri íbúð en bankarnir vilja ekki lána .....þetta er langloka en Íslenskur heimskur veruleiki í handónýtu Íslandi.Kveðja austur.

Ragna Birgisdóttir, 1.2.2023 kl. 09:22

2 Smámynd: Jón Magnússon

Ríka og fátæka hefur þú alltaf hjá þér Ómar minn. Þeim mun fleiri ríkir í þjóðfélaginu, sem eru orðnir það án þess að arðræna aðra er gott. Ég er t.d. mjög ánægður með að Haraldur Þorleifsson sé orðinn milljarðamæringur og það mundi ekki þvælast fyrir honum að kaupa íbúð fyrir 400 milljónir.  Hann kýs hinsvegar að nota peningana sína m.a. til að hjálpa fötluðum og á heiður skilið fyrir það. 

Svo er það hvað menn sjá í því að kaupa svona dýrar íbúðir. Mér finnst það rugl, en greinilegt að þeim sem keypti finnst það ekki. Kaupin sýna þó ekki sérstaklega fram á misskiptingu í þjóðfélaginu. 

Vandinn í sambandi við þessi mál Ómar er hvernig ríkisvald og sveitarfélög sérstaklega Reykjavíkurborg hafa staðið að byggingar- og íbúðarmálum.

Er ekki tími til kominn, að frjálslyndir hægri menn og þið sem til vinstri eruð í póltíkinni tökum upp gömlu stefnu Sjálfstæðisflokksins um eign handa öllum. Auk þess að veita virka aðstoð fyrir venjulegt fólk við kaup á fyrstu íbúð eins og var. Víkja til hliðar þeirri stefnu sem hefur heltekið stóru stjórnmálaflokkana að miða íbúða- og húsnæðismál við hagsmuni stórra byggingaraðila og leigusala.

Kveðja að sunnan frá Glóaldinlandinu.

Jón Magnússon, 1.2.2023 kl. 10:06

3 identicon

Það þarf ekki að eiga 416 milljónir til að kaupa 416 milljóna íbúð. 

Vagn (IP-tala skráð) 1.2.2023 kl. 11:09

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður félagi Vagn.

Vissulega rétt, eins veit ég að höfuðborg Kína heitir og Peking, og sonur minn veit hvað höfuðborg Maldvíeyja heitir, en það er bara vegna þess að hann er að fara keppa í Gettu betur.

Við vitum svo margt Vagn, en það breytir því nú samt ekki að ég hóf þennan pistil á þeim orðum að Sumir ættu 416 milljónir, og lagði svo út af því.

Út af því en ekki öðru.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 1.2.2023 kl. 16:17

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Jón og takk fyrir innlitið.

Svona til að fyrirbyggja allan misskilning þá lagði ég þennan pistil út frá fyrirsögn þessarar fréttar, hef reyndar ekki hugmynd um hver eða hverjir eiga í hlut því ég les ekki svona fréttir, mér er nákvæmlega sama um líf og sorgir þess fólks sem Frægafólks-síða Moggans gerir út á.  Ef þetta var Haraldur, þá er það bara fínt mál, alveg eins og ef þetta væri einhver annar, pistill minn er jú um Suma, ekki aðra.

En samt, fyrir vikið fékk ég þessa setningu frá þér, vissulega gamalt vín, oft sagt áður, en mér finnst samt eins og menn gleymi þess oft í dag, og því vil ég endurtaka hana hér í athugasemd minni; "Þeim mun fleiri ríkir í þjóðfélaginu, sem eru orðnir það án þess að arðræna aðra er gott."  Því Jón, þetta er eiginlega kjarninn, að mínum dómi einn af hornsteinum hins borgaralega kapítalisma, sem þrátt fyrir að vera eins og önnur mannanna verk, meingallaður, þá er hann það besta sem mannsandinn hefur þróað til að auka velsæld og velferð fjöldans, ásamt breiðri sátt þar um.

Eign handa öllum segi þú, gerum leiguliða að smáborgurum sagði Margrét Thatcher þegar hún réttlæti sölu félagslegra íbúða á hagstæðum kjörum.

Verkamanníbúðir sögðu Óli Thors og Einar Olgeirs þegar þeir handsöluðu sáttina sem kennd var við Nýsköpun.

Sú sátt var reyndar lausnin, og virkaði alveg með þróun tímans þar til skammsýnir stjórnmálamenn tóku hana af lífi.  Og Jón, þetta með hagstæð kjör vegna fyrstu íbúðar, er dæmi um lausnir innan þessarar sáttar.

Í dag veit unga fólkið sem stjórnar ekki hvað orðið Sátt þýðir, í sjálfu sér reynir það oftast að segja ekki neitt, ef það segir eitthvað þá spyr maður sig sem eldri er, hvað fór úrskeiðis í uppeldinu?? hvenær hætti þetta fólk að fatta að brauðið, lífsbjörgin sjálf, verður ekki til að sjálfu sér.

Og lífið er fullt af ógnum og áskorunum sem þarf að takast á við, og það verður ekki gert með blaðri út í eitt, eða það sem verra er, afneitun á alvöru og lögmálum lífsins.

Þetta er ástæða þess Jón að kjaradeila Eflingar er í hnút, ungu krökkunum sem ráða og stjórna, er fyrirmunað að takast á við erfiðleika og finna lausnir.

Það er meinið og við sem erum á hliðarlínunni fáum þar um engu breytt, þó við vissulega getum lagt orð í skjóðu í von um að einhver lesi og íhugi.

Finnst það nú samt ekki líklegt, en tillaga þín er góð og gild, og mættu fleiri íhuga hana.

En svo ég leiðrétti annan misskilning, þá erum við Hriflungar miðjumenn, því þó ferli lífsskoðana okkar séu um margt líkt með braut rafeinda um kjarna atóms, út og suður um allar trissur, þá er þéttleiki skoðana okkar mestur í kringum miðjusvæðið.  Og þar sem ég er af frændgarði Bjarts frá Sumarhúsum, þá slær hjartað vinstra megin við þá miðju, en breytir samt ekki um miðjuna.

En það síðastnefnda er reyndar það sem kallað er tittlingaskítur, og kemur umræðunni um að höggva á hnúta ekkert við.

Rétt skal samt vera rétt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 1.2.2023 kl. 17:52

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Ragna.

Nákvæmlega, og þetta kerfi forheimskunnar var geirneglt hjá ríkisstjórn Góða fólksins kennda við Jóhönnu og Steingrím.

Þau sögðu að þeim þætti svo vænt um fátækt fólk, eða réttara sagt kannski ungt fólk að kaupa í fyrsta skiptið, lágtekjuhópa og aðra hópa sem Góða fólkinu þykir alveg rosalega vænt um, að þau vildu ekki að fólk fengi lán sem það gæti kannski ekki staðið skil á.

Lausnin var sem sagt ekki að hjálpa því, heldur að neita því.

Algjört aukaatriði að allir þurfa Þak yfir höfuðið, og borga því flestir mun hærri upphæð í húsaleigu en það mynd borga af afborgunum af húsnæðislánum.

Það er ekki logið uppá þetta skítapakk sem kennir sig við góðmennsku, og í kjarna er þetta hnúturinn sem þarf að höggva á til að leysa þessa deilu, en þeir eru reyndar fleiri.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 1.2.2023 kl. 17:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 202
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 168
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband