30.1.2023 | 16:57
Með lögum skal land byggja en ólögum eyða.
Þessi grunnsannindi laga og reglna hafa einhvern veginn flogið út um gluggann þarna hjá þeim í Reykjavíkinni, líklegast um að kenna tíðum veðrum, vetrarveðrum sem firring nútímans kallar óveður.
Samt skárri firring en að telja að réttlætiskrafa Eflingar verði leyst í dómssölum, eða Efling styrki málstað sinn með því að eyða peninga í lögfræðinga í stað þess að styðja baráttufólk verkfallanna.
Ég hef áður efast um stríðsráðgjöf Sólveigar Önnu, núna veit ég að þar er úldinn maðkur í mysu, svo úldinn að jafnvel dönsku einokunarkaupmennirnir hefðu veigrað sig við að selja þá, og jafnvel sá maður sem fyrirleit þá mest, Jónas frá Hriflu, hefði jafnvel ekki borið slíkar firrur á borð lesanda Þjóðernis-Íslandssögu sinnar, þó sagði hann margt slæmt um þá.
Sá sem skorar valdið á hólm, hann hefur málstað, hann hefur rétt, og hann veit að sá réttur, að sá málstaður er ekki dæmdur eftir ólögum þess sama valds.
Það liggur við að manni gruni að óttinn um digra sjóði Eflingar vegi þyngra en réttmæti baráttunnar, því alveg eins og ólög beita fyrir sig skriðdrekum á Torgi hins himneska friðar, eða á götum Minsk gegn almenningi sem krafðist réttlátra kosninga, þá sækja þau í sjóði verkalýðsfélaga ef þau setja sig uppá móti gerræði þess valds sem hefur fyrir löngu keypt upp lögin.
Hvað sem veldur þá er Sólveig Anna á rangri braut.
Sá sem hefur réttinn sín meginn, hann tefur ekki dóm með vísan í að lögfræðingum vanti vinnu, að þá þurfi að fóðra líkt og gullfiska í búri.
Því fyrir dómi þá greinir hann aðeins frá Rétti sínum, og mætir svo óhræddur örlögum sínum.
Eins og Jóhanna frá Örk, eins og Sophie Scholl (Hvíta rósin) sem fékk jafnvel saksóknara Þriðja ríkisins til að tafsa þegar hann krafðist hins þyngsta dóms samkvæmt lögum Þriðja ríkisins.
Hann tafsaði eins og frægt er orðið því jafnvel hann átti erfitt með að dæma sakleysið, mennskuna, réttlætið sem kristallaðist í varnarræðu Sofíu, með vísan í þau ólög sem hinn endanlegi dómur átti að byggjast á.
Reyndar ætla ég ekki íslenskum dómurum að tafsa þegar þeir vísa í ólög, líkt og aðrir lögfræðingar nútímans þá fengu þeir aldrei kennslu í að lög ættu að vera réttlát, að þau væru tæki siðmenningarinnar sem greindi hana frá villimennskunni, frá skálmöld og vargöld.
En réttlætið veit muninn, og almenningur er ekki eins fávís og valdið heldur.
Dómur ólaga hefur aldrei haldið hjá siðaðri þjóð.
Það þarf ekki að ræða framgöngu ríkissáttasemjara, afglöp hans og svik við embættið, það útskýrði settur forseti Alþýðusambandsins samviskusamlega í ályktun Rafiðnaðarsambandsins þar sem hann er formaður.
Ekkert stendur eftir nema bein aðför að sáttinni milli aðila vinnumarkaðarins sem tók áratugi að byggja upp, og sú aðför snertir allt samfélagið, leikreglur þess og þá samfélagssátt að frekar skal leita friðar en ófriðar.
Hugsun sem Þorgeir Ljósvetningagoði ljáði orð eftir langa íhugun undir feldi, og kom þar í veg fyrir illvígan innanlandsófrið.
Lögin áttu að byggja landið, ekki eyða því.
Lög eiga að byggja landið, ekki eyða því.
Að ætla héraðsdóm að skilja þá visku er ofætlun, sama hvað marga yfirvinnutíma lögfræðingar Eflingar fá borgað til að orða hana á lagamáli.
Stjórnmálamenn okkar hafa örugglega þá vitsmuni sem þarf til að skilja þessi grundvallarsannindi friðar og reglu, en valdið sem þeir þjóna vill frekar ófrið en frið, dagskipun þess er að Eflingu skuli knésetja með öllum ráðum.
Varðandi stuðningsyfirlýsingu Katrínar og Guðmundar þá megum við ekki gleyma að þau bæði kunna sannarlega að tannbursta sig og reima skó, meiri vitsmuni þarf ekki til að skilja raðafglöp ríkissáttasemjara, þau eru ekki heimsk, ekki frekar en sá sem krafðist dóms yfir Sofíu Scholl eða sá sem öskraði og æpti yfir dauðasaklausu fólki í Moskvuréttarhöldunum 1936.
Eða eins og segir í Wikipedíu um réttarhöld ólaga; "Sýndarréttarhöld eru réttarhöld þar sem ákvörðunin um sekt eða sakleysi sakbornings hafa verið ákveðin fyrirfram. Slík réttarhöld eru oft fyrirferðamikil í fjölmiðlum og gjarnan af pólitískum toga, það er að segja, að baki þeim liggur annað og meira en grunur um að framinn hafi verið tiltekinn glæpur. Að baki getur legið vilji til þess að koma höggi á pólitíska andstæðinga og að útbúa víti til varnaðar fyrir aðra".
Reyndar er dálítið sætt að Katrín skuli á 21. öldinni heiðra þessa minningu íslenskra sósíalista með stuðningsyfirlýsingu sinni við Aðalstein Leifsson.
En það er ekkert sætt eða fallegt við þá ráðgjöf myglunnar að Efling skuli dansa með.
Að félagið skuli ekki þekkja sinn vitjunartíma.
Og mæta dómi Ólaganna með reisn.
Berjast svo gegn þeim dómi og hafa sigur.
Það er nefnilega þetta með erindrekanna.
Og þekkta erindreka.
Að þó maður trúi á álfa og huldufólk, að þá leyfi maður sér að efast um heilindi Nýsósíalista.
Samt var maður farinn að efast um efann.
Veit ekki.
En ég veit þó að eitthvað er að hjá Eflingu.
Hvað sem það er, hvað sem veldur.
Þá mun leiðsögn "slyðruorðsins" aldrei vinna nokkra orrustu, hvað þá nokkuð stríð.
Ekki frekar en ólög byggja land.
Kveðja að austan.
Hefðum viljað fá lengri frest | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:29 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 202
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 168
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll Ómar
Þú ert kraftmikill að venju og óvenju skýr á íslensk lög.
Það er erfitt að sækja rétt sinn við Ríkisvaldið. Sérstakega þegar þarf að etja við lög sem Alþingi hefur sett til hjálpar sínum Ríkisstarfsmönnum í vinnu sinni.
Þau lög byggja ekki á réttlætiskennd eða góðri siðmennt.
Ég get verið sammála þér um að Efling sé að sólunda fé sínu með að taka til varnar Ríkissáttasemjara, því það virðist vera barátta við vald sem hefur keypt lögin og niðurstöðuna.
Það má skoða sérstaklega í ljósi skipunar dómara í þessu tiltekna máli.
Eggert Guðmundsson, 30.1.2023 kl. 18:25
Blessaður Eggert og takk fyrir innlitið.
Þessir pistlar mínir höfða ekki mikið til fólks til hægri, í allri sinni regnbogaflóru hættir því oft að fetta fingur út í hismið, sem er meint róttækni Sólveigu Önnu og tengsl hennar við nýsósíalistann Gunnars Smára. Íhaldsamt fólk geldur líka varhug við ólgu og upplausn, flest eldra en tvívetra og veit á eigin skinni kostnaðinn við slíkt ástand.
Tek þetta fram vegna þess að Moggabloggið, sá útnári sem það er, á lesendahóp mun til hægri en hitt, þó ég til dæmis hef alveg fengið að heyra að bæði sveitungar mínir sem og ættingjar hafi lesið pistla mína, eitthvað sem ég skil lítt því slíkt tengsl hafa ekkert að gera með nálgun mína á menn og málefni.
Því gleður mig innlit þar sem umræðan er málefnaleg og hismið glepur ekki.
Það er stundum eins og hægri menn fatti ekki að það er þeirra að verja lýðræðið og leikreglur þess, ekki meintir radikalar og nýsósíalistar. Algjörlega hvort menn séu sammála kröfugerð Eflingar eður ei.
Ég sakna þessarar nálgunar Eggert, og á sjálft lýðræðið vil ég láta reyna.
Vil svo minna á þessi orð Bjarna Gunnlaugs sem ég fékk í athugasemd við fyrri pistil; "Embættismenn geta nefnilega alveg farið út af sporinu og gert tómar gloríur án þess að brjóta lög. Það er algjörlega óvíst að nokkur lög banni ríkissáttasemjara að grípa allt of snemma inn í kjaradeilu!".
Það er náttúrulega hægt að vega löglega að leikreglum lýðræðisins, og mér finnst hreint út sagt ótrúlegt að hér sé þingmeirihluti sem skipar ráðherra, sem og minnihluti sem á að veita ríkisstjórninni aðhald, að fáir eða enginn í þeirra röðum átti sig á prinsippinu sem býr að baki, og knýr áfram fordæmingu launþegahreyfingarinnar á þessa gloríu eða afglöp, hvort sem þau voru með vilja eður ei.
Eins og menn fatti ekki að þetta er ekki dómsmál, heldur grundvallarmál, og þeim er ekki svarað í dómssölum heldur á umræðuvettvangi þjóðarinnar.
En fólk sem þekkir ekki vetrarveður, það kannski þekkir ekki grundvallarmál heldur.
Það er kannski meinið.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 30.1.2023 kl. 19:04
Sæll aftur
Lögbrot með ásetningi er vörn sem stjórn Eflingar heldur fram í kæru sinni. Ég get alveg tekið undir þau sjónarmið.
Eg get einnig tekið undir sjónarmið, ( ef fram koma), að heimska og skilningleysi á málsstöðunni hafi ráðið för Ríksisáttasemjara til dómstólanna.
Ég get einnig verið sammála þér um að þetta mál er grundvallarmál og ætti að vera meðhöndlað sem slíkt.
Síðast en ekki síst þá verður þú að halda áfram að finnast það ótrúlegt að Alþingi (meiri og minnihluti) átti sig ekki á prinsippum í samfélagingu.
Því verður ekki breitt með þeim einstaklingum sem sitja þetta þing.
Eggert Guðmundsson, 30.1.2023 kl. 20:23
Nei reyndar ekki Eggert, reyndar ekki.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 30.1.2023 kl. 20:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.