28.1.2023 | 10:41
Öfugmæli.
Öll embætti, hversu mæt þau annars eru, geta lent í klóm hagsmunaaðila, og hætta því að gegna hlutverki sínu, verða svona Leppar og Skreppar þeirra hagsmuna sem þau þjóna.
Í dag er það öfugmæli að kalla Aðalstein Leifsson; ríkissáttasemjara, og tillögu hans; miðlunartillögu.
Aðalsteinn gengur erinda annarra, ekki þess embættis sem honum var trúað fyrir, og meint miðlunartillaga hans er grímulaust tilboð Samtaka Atvinnulífsins sem Efling hafði þegar hafnað.
Rök Aðalsteins halda ekki vatni, þau eru vanvirðing við bæði skynsemi sem og hlutverk og tilgang embætti hans.
Hann segir deiluna komna í hnút vegna þess að menn nýttu aðeins mínútu til að spjalla saman. Ef hann er ekki skyni skroppinn þá veit hann að slíkt er aðeins eðlilegt í átakaferli þegar menn skekja skildi og hrópa ókvæðisorð að hvorum öðrum, svona bara uppá pepp og móralinn.
Efling hefur ekki einu sinni fengið samþykki félagsmanna sinna fyrir takmörkuðu skæruliðaverkfalli sínu, hvað þá að félagið hafið boðað til allsherjarverkfalls.
Sem þjálfaður samningamaður á Aðalsteinn að vita að deilan er ennþá í gerjun, á eftir að springa út, og þá á hún eftir að þroskast, aðeins þá kemur í ljós styrkleiki verkfallshótunar Eflingar sem og vilji atvinnurekanda að standast þá hótun.
Auðvita veit Aðalsteinn þetta, hann er enginn heimskingi þó hann kjósi að spila sig slíkan, en þeir sem ganga erinda annarra grípa oft til undarlegra röksemda til að réttlæta erindarekstur sinn.
Öllu alvarlegra er þegar Aðalsteinn missti út úr sér að hann hefði viljað að félagar Eflingar fengju að greiða atkvæði um tilboð Samtaka atvinnulífsins, eins og það væri hans hlutverk að meta slíkt.
Þetta er ekki heimska, þetta er aðför, og hann má ekki komast upp með hana.
Ekki frekar en ríkislögreglustjóra að banka upp hjá fólki og leggja undir sig eigur þess í krafti embættis síns, og þegar fólk neitar, þá beiti hann valdboði til að knýja fram rupl sitt.
Í þessu tilbúna dæmi eiga undirmenn ríkislögreglustjóra og dómstólar að neita embættisvaldinu, í hinu raunverulega dæmi á Efling ekki að virða Aðalstein viðlits eftir að ljóst var að hann væri kominn í erindarekstur.
Og væri einhver döngun hjá öðrum í kerfinu þá myndu þeir hundsa beiðnir hans um inngrip lögreglu og dómsstóla.
Umgangast hann eins og Persona non grata eins og hann er í dag.
Vilji sá sem Aðalsteinn gengur erinda fyrir að félagsmenn Eflingar greiði atkvæði um lokatilboð Samtaka atvinnulífsins, þá geta viðkomandi sjálfir snúið sér til dómsstóla með þá kröfu sína.
Ekki nota embætti Ríkissáttasemjara sem millilið.
Því annað er í raun aðför að leikreglum sem ætlast er til að allir virði.
Bein eyðilegging á því embætti sem Aðalsteinn Leifsson gegnir.
Þó menn telji mikla ógn stafa af þeirri hógværu kröfu Eflingar að fólk geti lifað mannsæmandi lífi af launum sínum, þá hljóta þessir sömu menn, þessir sömu hagsmunaaðilar, að hafa önnur úrræði til að brjóta þessa ósvífni á bak aftur en að fórna samningakerfinu á vinnumarkaðnum sem hefur reynst honum svo vel.
Því öfugmæli Aðalsteins ganga af því kerfi dauðu séu þau knúin fram með valdboði.
Það er stór fórn til að stöðva eina manneskju.
Jafnvel þó hún berjist fyrir réttlæti.
I have a dream.
Kveðja að austan.
Launareiknivél ríkissáttasemjara komin í loftið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:46 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.1.): 0
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 129
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 113
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það er e.t.v. skemmtilegur leikur fyrir þá sem hafa gaman að því að leika sér að því að lesa í tjáningu embættismannsins valdamikla; að ímynda sér hvað hann hugsi, hvað hann ætli sér eða langi til; að giska á við hverja hann tali oftast og um hvað og um hverja; hvort hann upplifi samningaviðræður sem kappleik og í hvaða liði hann langar þá að vera.
En betra væri fyrir verkafólk og allan almennning að fréttamenn spyrðu embættismanninn sjálfan milliliðalaust spurninga sem máli skipta.
Blaðamannafundur embættismannsins skildi eftir margar ósvaraðar spurningar en svaraði engri spurningu sem máli skiptir af því að enginn við borðið spurði. Aðgerðir Eflingar frá því fundinum lauk sýna það best.
Esja frá Kjalarnesi (IP-tala skráð) 28.1.2023 kl. 12:56
Þetta er komið miklu meira en nóg, Aðalsteinn.
Það sér það hver heilvita maður að það er ekki leið til sátta, að þjösnast áfram á þeirri braut sem hefur nú þegar leitt þig í algjörar ógöngur. Þjösnaskapur og þvermóðska er aldrei heillavænleg leið til sátta, hvað þá traustvekjandi.
Traust almennings til stjórnsýslustofnana landsins hefur eftir hrunið mælst afar lítið í könnunum. Varla ertu svo skyni skroppinn, að telja það vaxa með því að fá einhvern dómara í héraði til að dæma þér í vil?
Þér væri núna sæmst að draga "miðlunartillögu" þína til baka og vera maður til að viðurkenna og taka mark á varúðarorðum ASÍ, BHM, BSRB, KÍ, SGS og VR. Og biðja deiluaðila afsökunar á gönuhlaupi þínu.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 28.1.2023 kl. 13:25
Blessaður Esja.
Góður, augljós punktur, silkihanskar fjölmiðlafólks eru mjög dupíusir, svo ekki sé meira sagt.
Þetta einstaklingsframtak Aðalsteins hefur náð að sameina forna fjendur að baki Eflingar, og ef það var ekki tilgangurinn, hver var hann þá??
Það er ekkert í þessari kjaradeilu, það er á þessu augnabliki, sem kallar á þessa drottningarfórn embættisins, og miðað við viðbrögð launþegahreyfingarinnar, þá stendur kóngurinn óvaldaður á miðju taflborðinu.
Ég held að fáir komi Aðalsteini til varnar fyrir utan Björn Bjarna og Davíð Oddsson, og þeir gera þetta bara af gömlum vana.
Það sem allir sjá, sér ekki fjölmiðlafólk.
Sorglegt.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 28.1.2023 kl. 13:54
Blessaður Pétur Örn.
Ég efa það dugi, maðurinn er rúinn trausti.
Það er fátt í hans stöðu annað en afsögn.
Ótrúlegt að ráðherra sé ekki þegar búinn að hringja í hann.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 28.1.2023 kl. 13:55
Ég er svo aumingjagóður að eðlisfari, kæri Ómar, að mér fannst rétt að benda Aðalsteini á undankomuleið og hann svo prjónað sig út úr sjálfheldu sinni og hann gæti haldið einhverri virðingu eftir, sem maður.
Meiri menn en hann hafa fallið vegna hybris, svo sem henti Akkiles.
Ef ekki, þá er hann endanlega rúinn virðingu og trausti.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 28.1.2023 kl. 14:18
Ja, það verður þá allavega erfið leið til baka.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 28.1.2023 kl. 14:40
Sæll sem oftar Ómar; sem og aðrir gestir, þínir !
Ómar og Pétur Örn !
Ykkur að segja; vex Sólveigu Önnu einungis ásmegin, sem hennar liðsfólki, við þessa foráttu ljelegu aðför Aðalsteins Leifssonar (fyrrum Ríkissáttasemjara - má segja, með tiliti til
hans gönuhlaupa og heimskupara, þessi dægrin) í þágu auðstjettarinnar sjer- íslenzku, hver er að merja niður allt eðlilegt mannlíf, í landinu.
Með siðferðislausri; sem og ó- lagalegri aðför sinni að Eflingu, er Aðalsteinn einfaldlega að múra sig inni í einhvers konar kreddu hvelfingu hjegóma og hræsni, til þess eins, að
þóknazt burgeisa stóðinu í landinu, nokkuð:: sem kemur einfaldlega niður á honum sjálfum, hvar allt venjulegt fólk mun snúa baki við honum, þá frá líður.
Það er Aðalsteins stærsti feill; að falla í Ormagryfju Okurs- og græðgis aflanna hjerlendu, og það áreynzlulaust: algjörlega.
Með hinum beztu kveðjum; sem oftar, af Suðurlandi /
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 28.1.2023 kl. 15:00
@Óskar Helgi
Já, líkast til hafið þið Ómar á réttu að standa. Skaðinn er skeður.
Þó skyldi aldrei vanmeta styrk valdhafa hér á landi og einbeittan brotavilja þeirra, að styðja við óhæfuverkin. Næg höfum við dæmi þess í gegnum árin, áratugi og aldir.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 28.1.2023 kl. 19:42
Blessaður Óskar Helgi.
Ekki má heldur gleyma yfirmanni hans, vinnumálaráðherra sem skilur uppá 10 hvers virði verkfallsréttur er fyrir baráttu verkafólks, enda útlærður í sósíalískum fræðum á löngum fundarsetum með félaga Steingrími.
BUT, hann treystir ríkissáttasemjara, hann, það er ríkissáttasemjari, fer sko eftir lögum.
Þarf að segja meir um hvar hjartað slær??
Ókei, ég kom upp um mig með því að gefa þá vísbendingu að hann hefði lært fræðin hjá Steingrími Joð, svo allir vita náttúrulega svarið.
Já, hjartað slær með völdum.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 28.1.2023 kl. 21:11
Blessaður Pétur Örn.
Ég hafði vissar áhyggjur af baklandi samninganefndar Eflingar, fannst boðað verkfall hjá einni keðju vera veikleikamerki, svona líkt og menn væru ekki vissir um vígstöðuna, og því væri um könnun að ræða um hugsanleg viðbrögð hinna almennu.
En svo fær Sólveig Anna bara sína vígstöðu uppí hendurnar, ein gegn valdinu og ólögum beitt gegn henni.
Það er gott að eiga góða að, og þá leitar hugur til vina og velgjörðarmanna, en svona óvinir eru gulls ígildi.
Þeir eru ófærir um málefnalega umræðu um þá djúpstæðu gjá sem er milli velmegunar og þeirra sem eru á gaddi leigumarkaðarins og kerfið beinlínis hannað til að blóðmjólka þá með því að neita þeim um húsnæðislán, þeir eru ófærir að ræða um þá kerfisbilun að allt hið Frjálsa flæði Evrópusambandsins er hannað til að halda launum við hungurmörk, eða hvað taumlaus fjölgun erlends verkafólks þýðir fyrir spennuna á leigumarkaðnum, og síðan þá, er þetta Villta vestur samfélag sem við viljum??
Í stað þess beita þeir persónurógi og skít gagnvart forsvarsfólki Eflingar, og þá sérstaklega Sólveigu Önnu, og þegar það dugar ekki, og þeir óttast að tapa slagnum innan Eflingar, þá er gripið til ólaga, og embætti Ríkissáttasemjara notað til þeirra skítverka.
Þetta kallar maður að búa til leiðtoga sér til höfuðs.
Valdið er vissulega grimmt og þrautreynt, en það er bara komið að uppgjöri við hið Frjálsa flæði frjálshyggjunnar, við misskiptingu og almennt siðleysi Góða fólksins sem telur þrælahald ófaglærðra sjálfsagt í allri grunnþjónustu.
Nútíma þrælarnir hafa fengið sinn leiðtoga, en mér sýnist að valdastéttin sé án forystu, klaufsk og á köflum heimsk.
Það verður fróðlegt að sjá Pétur, hverju fram vindur.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 28.1.2023 kl. 21:28
Sjáfagt var þetta illa hugsuð illhvitni af minni halfu,biðst afsökuna en vænti hennar ekki.
Kveðja úr neðra.
Bjarni (IP-tala skráð) 30.1.2023 kl. 11:02
Æ láttu ekki svona Bjarni, þú værir ekki að koma hingað inn ef við höfum ekki vissa ánægju af hvorum öðrum.
Ég tók þessu ekki á nokkurn hátt illa, en það er þetta með púkann og það sem fóðrar hann.
Kveðja vestur að austan.
Ps. svo ertu ennþá á vitlausum þræði.
Ómar Geirsson, 30.1.2023 kl. 13:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.