9.1.2023 | 09:41
Að vera útlendingur í eigin landi.
Fjaðrafok í Vestamannaeyjum, 1984 og annað sem í hugann kemur í vikubyrjun, svona á meðan er beðið frétta af byltingunni hennar Sólveigu Önnu.
Mönnun er helsta áskorun ferðamannaþjónustunnar segir í fyrirsögn þeirrar fréttar sem þessi samtíningapistill minn er tengdur við, í sömu frétt segir að nýjar fjárfestingar í greininni séu nokkuð margar í kortunum.
Og maður spyr sig, af hverju er þessi sjálfvirka útþensla ekki tekin úr sambandi??
Finnst okkur eðlilegt að á stórum tíma ársins líði innlendum eins og þeir séu útlendingar í eigin landi, það er ekki þverfótað fyrir túristum, vegirnir eru fullir af stórhættulegu fólki, jafnt á rútum sem á bílaleigubílum, og maður þarf að kunna erlend tungumál til að fá þjónustu, ef maður á annað borð vogar sér út á þjóðvegina. Það er ekki von að fólk leiti til Kanaríeyja, þar rekst maður þó á Íslendinga og þar er líka hægt að fá þjónustu á íslensku.
Og hve lengi gengur það að meint barátta stjórnvalda við hlýnun jarðar byggist á að hækka álögur á landsbyggðarfólk og ráðast á þann hluta þjóðarinnar sem hefur ekki efni á nýjum dýrum rafmagnsbílum? Á sama tíma þar sem ferðamannaiðnaðurinn margfaldar árlega útblástur jafnt bíla sem flugvéla, að ekki sé minnst á þann hroða sem skemmtiferðaskipin eru í mengunarlegu tilliti.
Er þetta samfélagið sem við viljum og af hverju fær Fjárfestirinn að móta það??
Fjaðrafok í Vestamannaeyjum var satíra sem leikin var í fréttatímum Ruv í gær og fjölmiðlar fjármagnaðir af hrægömmum og útrásarvíkingum tóku undir.
Er ekki alltí lagi með fólk??, hvaða rasismi er fólginn í því að auðkenna Heimi Hallgríms með meintum arabaklæðnaði?? Var það rasismi sem fékk marga nábleika áhorfendur á HM í Katar til að klæðast arabahúfu??, hvað þá með hina svörtu, gulu og rauðu sem voru líka með sama höfuðfat?, voru þeir þá líka rasistar?? Eða eru bara nábleikir rasistar, aðrir að tjá menningarlega fjölbreytni?? Og hvað ef Heimir hefði þjálfað KR, væri það þá menningarleg fyrirlitning eyjasamfélagsins gagnvart höfuðborgarsvæðinu að klæða tröllið í KR búning??
Það er ekki öll vitleysan eins, en hún var samt toppuð þegar sett var út á að Edda Falk var látin taka við af Páleyju lögreglustjóra sem skelfir sem hæfði ímynd tröllkonunnar. Edda, sem dónakallar landsins óttast mest allra, fékk þarna veglegan sess, og miklu viðurkenningu á baráttu sinni fyrir að dætur þjóðarinnar geti lifað án ótta við Úlfinn í skóginum. Þeim mun merkilegra að karlremburnar í eyjum skildu meðtaka mikilvægi baráttu hennar, því það er ekki svo langt síðan að þeir skildu ekki alvarleika þess hve margar nauðganir voru framdar á þjóðhátíðinni í Eyjum, að hún skildi vera í raun veiðilenda nauðgara.
Menn geta svosem endalaust haft skoðanir á húmor Eyjamanna og áráttu þeirra til uppnefningar, en að túlka hlutina á annan hátt en þeir eru, er farið að minna óþægilega mikið á hugsanalögreglu skáldsögunnar 1984 eftir Orwell. Við hneykslumst á svipaðri tegund lögreglu í Íran, en okkur er farið að þykja hún eðlileg í samfélagi okkar.
Ég ætla ekki Eyjamönnum að rísa upp eins og almenningur í Íran, en á einhverjum tímapunkti þurfum við að staldra við og spyrja hvar endar þetta??
Það var ekki gaman að lifa í London um miðja 17. öld þegar Púrítanar réðu þar ríkjum, og það er ekkert gaman að lifa í Íran í dag, ofstæki elur alltaf af sér ofstækismenn og það er ríkt í náttúru þeirra að vilja stjórna öðrum með boðum og bönnum, og beita til þess afli.
Eigum við ekki aðeins að staldra??
Hver eru svo lokaorðin í þessum samtíningi vikubyrjunarinnar??
Er það ekki bara viðtalið við Kára þar sem hann segist vera sammála Birni, Bjarna og Runólfi, en samt ósammála þeim öllum.
Líklegast vegna þess að Kári sér kjarna málsins; Hægfara svelti drepur að lokum. Þess vegna voru hinir langsveltu hestar í Borgarfirði aflífaðir af dýralækni, þeir myndu aldrei ná holdi aftur.
Hvort hagfræði andskotans, síkrafan um flatan 2% niðurskurð hafi komið Landsspítalanum í þá stöðu að honum er ekki viðbjargandi, má guð vita, en karp fullorðna manna sem dreymir um að endurupplifa hina áhyggjulausu æsku smástráksins, og taka því uppá að karpa sem slíkur, leysir ekki einn eða neinn vanda.
Munum bara að sú stjórnun sem krefst þess að fólk hlaupi hraðar, að sífellt sé reynt að fækka rúmum til að ná meintri hámarksnýtingu, dreinar allt líf úr bæði starfsfólki og kerfinu sem slíku. Afleiðingarnar verða því aldrei leystar með þeirri hugmyndafræði, það þarf því nýja nálgun, nýja sýn, kannski út frá forsendum mennsku og heilbrigðar skynsemi.
Og að menn hætti þessu þrasi og síbendingum á hvorn annan.
Það er of mikið undir til að menn geti leyft sér annað.
Það er nefnilega oft gott að staldra við þegar hlutirnir eru að fara úr böndunum, eða eitthvað er að gerast sem við í raun viljum ekki.
Spyrja spurninga, til dæmis hvort við viljum halda í þjóð okkar, menningu og tungu, eða viljum við fara sænsku leiðina og skapa eitthvað nýtt??
Viljum við hugsanalöggu eða rétttrúnaðarlöggu og enda fyrir framan byssukjaftana líkt og almenningur í Íran sem einmitt staldraði ekki við heldur lét verra taka við af vondu.
Og viljum við tapa því sem liðnar kynslóðir byggðu upp, heilbrigðisþjónustu fyrir alla þegar þeir þurftu á henni að halda, bara vegna þess að við erum ófær að takast á við núverandi vanda eins og fullorðið fólk.
Veit ekki, en það er allavega gott að staldra við.
Kveðja að austan.
Mönnun starfa stærsta áskorunin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 111
- Sl. sólarhring: 602
- Sl. viku: 5695
- Frá upphafi: 1399634
Annað
- Innlit í dag: 95
- Innlit sl. viku: 4859
- Gestir í dag: 94
- IP-tölur í dag: 94
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Nafnið á þessum pistli er þannig Ómar að menn hræðast að láta tilfinningarnar stjórna sér og skrifa eitthvað í ógáti sem gæti valdið því að Katrín og haturslöggan hennar fari að amast við þeim. Ég er svo sammála Guðjóni Hreinberg um vafasamt gildi þess að elta löggjöfina í Bandaríkjunum, sem miðast við sambúð miklu fleiri þjóðarbrota en hér í miklu lengri tíma og þau vandamál sem eru rótgróin í bandarískt samfélag þessvegna.
Þessir hryðjuverkapiltar eru toppurinn á ísjakanum í þessum málum grunar mig. Með því að handtaka þá þrátt fyrir að sérfræðingar telji þá hættulausa er mögulegt að verið sé að efla einhverja aðra sem hafa þetta í hyggju. Yfirleitt eru svona atvik ekki einstök, heldur dæmi um hreyfingu sem er að byrja, og endar á sama hátt og dæmi er um í útlöndum.
Annars minntist ég á þig í nýjasta pistlinum mínum í sambandi við heilbrigðisvandann, sem er bæði skortur á fjármagni og vinnuafli. Ég hef svo oft lesið frábæra pistla eftir þig þar sem þú segir pólitíkusum til syndanna umbúðalaust. Ég held að það hafi áhrif. Ég er ekki í topp tíu hvað sem síðar verður þannig að mín áhrif eru minni, og finnst mér einnig rétt að viðurkenna að oft eru pistlarnir þínir kjarnyrtari og beittari en mínir, nema einstaka sinnum þegar þannig liggur á mér og mér er mikið niðri fyrir.
En þessi pistill þinn er mjög góður og finnst mér hugleysi af fólki að þora ekki að leggja orð í belg. Ég ritskoða yfirleitt allt sem ég skrifa, því neikvæðni verður að stilla í hóf og hún verður að vera málefnaleg, þótt stafsetningavillur slæðist stundum inn hjá mér.
Málið er það að Íslendingar hafa svo oft verið gæfuríkir að vera sjálfstæðir. Það er mesti misskilningur að halda að útlönd setji okkur í viðskiptabann þótt flokkar eins og Miðflokkurinn eða Íslenzka þjóðfylkingin næðu völdum. Með lögum skal land byggja en ekki með ofríki og með ólögum eyða. Það er munur á því að hleypa landinu í stjórnleysi vegna yfirgangs þjóðernisöfgahópa og að hræðast umræðu um þessi mál og missa sjálfstæðið.
Já, hægfara svelti drepur að lokum, það eru orð að sönnu. Það eru svo margir orðnir samdauna allskonar rökleysu í pólitíkusum og fleirum að hnignun er á ýmsum sviðum.
Almenningur er búinn að heyra um vanda spítalanna lengi. Samt er sagt að það sé í heimsklassa, gott starfsfólk og tæki. En hvar er þá þakklætið í garð þeirra sem standa sig vel???
Ingólfur Sigurðsson, 9.1.2023 kl. 19:36
Sæll Ómar, og gott að sjá ákvæðabloggarann mættan til leiks. Þetta eru orð í tíma töluð í annars fáorðum en yfirborðsmiklum pistli, og verðskulda amen úr efra.
Magnús Sigurðsson, 9.1.2023 kl. 21:09
"yfirgripsmiklum" átti það að vera, -að vera minnislaus, málahaltur og lesblindur allt í senn er ekki gæfulegt.
Magnús Sigurðsson, 9.1.2023 kl. 21:12
Segðu Magnús, þakkaðu samt fyrir að þjást ekki af því málhelti sem einn góður vinnufélagi sagði við bróðir sinn þegar sá horfði á mig í forundran, eftir að ég hafði sagt eitthvað sem var gegn öllu mínu látbragði og ég hafði lagt áherslu á fyrr í samtali okkar; "Hvað er þetta, skilur þú ekki Vaðlvísku", og hafði þá reynt á eigin skinni að stundum höfðu orð mín þveröfuga meiningu við það sem ég ætlaði að segja, seinna þróaðist vaðlvíska mín þannig að mér er oft fyrirmunað að koma erlendum nöfnum, sérstaklega mannanöfnum rétt úr úr mér.
Sem er sök sér nema að strákarnir mínir taka ekkert tillit til þessa málheltis míns þegar ég spila við þá Trival, Bessevisser eða núna um jólin líka Gott gisk og Gettu betur. Sama þó ég segi aftur og aftur, "já en ég sagði það", þó aumka þér sér stundum yfir gamla manninn þegar tengslin við það sem kom út úr mér og rétt svar er nokkuð augljóst. Þeir voru samt ekki eins aumingjagóðir þegar ég sagði; "já ég vissi þetta", eftir að rétt svar var lesið upp, en þá bar ég fyrir mér minnileysi þess sem var alveg að komast á sjötugs aldurinn. Já pabbi, það er ekki nóg að vita, maður þarf líka að muna til að segja svarið.
Svona fatlanir eru bara erfiðar Magnús, það er bara svo, og ekki bætir það úr að eldast yfir á seinni hlutann, en það kemur bara annað í staðinn, til dæmis róinn og friðurinn, já og tilhlökkunin eftir barnabörnunum, þeim getur maður sagt draugasögur, álfasögur eða almennar ýkjusögur, þau munu örugglega taka afa sínum eins og hann er. En það er víst einhver ár í það, en eins og tíminn flýgur áfram, þá heldur maður í vonina.
Takk fyrir innlitið Magnús.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 10.1.2023 kl. 09:16
Blessaður Ingólfur.
Einn af styrkum þess vettvangs sem Moggabloggið er að þar hafa alltaf verið nokkrir höfundar sem fjalla um menn og málefni á persónulegan og heiðarlegan hátt, í heimi ofgnóttar, þar með á pistlum og skoðunum á veraldarvefnum, eru kannski ekki alltaf margir sem lesa, en þeir sem það gera, fá eitthvað fyrir lestur sinn, hugsun, nýjar röktengingar eða þá bara ánægjuna að vera ekki alltaf í hávaðnum eða látunum sem einkennir svo mjög nútíma okkar.
Ég vil þakka þér fyrir innlegg þitt, það stendur alveg fyrir sínu, en þó ég vænti þess að Íslenska þjóðfylkingin fái seint fylgi, þá vil ég draga þau orð sem á eftir komu út fyrir sviga; "Það er munur á því að hleypa landinu í stjórnleysi vegna yfirgangs þjóðernisöfgahópa og að hræðast umræðu um þessi mál og missa sjálfstæðið.".
Það mættu fleiri skilja þetta.
Varðandi haturslögregluna eða rétttrúnaðarlögguna þá tel ég ekki rétt að kenna hana við Kötu, hún er aðeins hluti af þeim nútíma þar sem þessi ónáttúra hefur yfirtekið. Að baki eru hagsmunir þess fjármagns sem hefur því sem næst yfirtekið allan auð jarðarbúa, fjármagn sem ég til dæmis kenni við Glóbal eða hina Örfáu.
Þetta fjármagn fíflar fólk út í eitt, og á meðan nær það ekki vopnum gegn ránum þess og gripdeildum, einn brandarinn sem það hefur fengið margan hægri manninn til að trúa er að hinir svokallaðir vinstri menn eða meint vinstrmennska sé gerandi í heiminum í dag. Á Íslandi gengur Góða fólkið erinda þess að mestu, og það sem þú kallar haturslögguna en ætti réttara að vera rétttrúnaðarlögregla, er valdtæki svipað því og Maó notaði til að æsa upp ungt fólk á dögum Menningarbyltingarinnar til að ráðast á meinta andstæðinga sína inna Kommúnistaflokksins. Þá var hrópað og bent þar til enginn hafði stjórn á neinu, og þá dugði jafnvel ekki að fólk teldi sig hafa spilað með í hávaða og ásökunum, það vissi enginn hver lenti næst í kjaft múgæsingarinnar.
En við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því á Moggablogginu, það veit ekki nokkur sála af tilvist okkar hér, þó vissulega þurfi menn að gæta almennra mannasiða, og kynda ekki undir fordóma gagnvart öðru fólki í samfélaginu.
Ég er blessunarlaus við það, tjái aðeins hugleiðingar mínar á mannamáli sem þokkalega skýrt fólk les og skilur, og það ágæta fólk getur alveg tjáð sig hérna líka án þess að nokkur lögga kíki í heimsókn.
En fólk er bara ekki svo mikið að tjá sig í dag í athugasemdarkerfum okkar bloggarana, kannski þarf meiri hita í umræðuna, veit það ekki, svona er þetta bara.
Takk fyrir innlit og athugasemd Ingólfur.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 10.1.2023 kl. 09:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.