Hún kom eins og stormsveipur.

 

Það vissi enginn hver Anna Sólveig Jónsdóttir var þegar hún gerði óvænt atlögu að eignarhaldi Góða fólksins að stærsta verkalýðsfélagi landsins, Eflingu.  En Eflingu hafði Góða fólkið erft frá áum sínum sem voru verkalýðs eitthvað, oftar verkalýðsforingjar eða pólitískir leiðtogar hinna svokölluðu verkalýðsflokka, en sjaldnar verkafólk.

Að stóli var genginn mætur maður, kannski sá síðasti sem þekkti til gömlu verkalýðsbaráttunnar, náði ungur að upplifa þá tíma þegar gustaði um menn eins Gvend Jaka eða Björn Jónsson að ekki sé minnst á kvenskörunginn Aðalheiði Bjarnfreðsdóttur.

 

Sigur Sólveigu Önnu var mikið áfall fyrir Góða fólkið, íslenskufræðingur innan raða þess hefur örugglega gripið tækifærið á krísufundi og gripið til forníslensku; "félagar, núna misstum við spón úr aski okkar".

Vandinn var að þó allt Góða fólkið skilgreindi sig vinstramegin við miðju, sem félagshyggjufólk, jafnaðarmenn, kvenréttindasinna eða annað álíka, þá voru tengsl þess við hinn vinnandi mann orðin ansi fjarlæg, þar sem best lét átti það gamlar myndir uppá hálofti, í einhverju dóti sem hafði farist fyrir að henda, myndir af þeim forfeðrum og formæðrum sem höfðu barist fyrir réttindum verkafólks á sínum tíma.

Sólveig Anna var hinsvegar verkalýðssinni og einlæg baráttukona fyrir bættum kjörum verkafólks, og það sem var miklu verra, hún tók hlutverk sitt alvarlega.

 

Til að byrja með umbar Góða fólkið Sólveigu Önnu, svona á meðan það virtist að spjót hennar beindust gegn auðvaldinu og atvinnurekendum, kannski samt ekki rétt að nota sögnina "að umbera", frekar ætti maður að segja að rógurinn og níðið úr ranni Góða fólksins hafi ekki veið skipulagður, engin herferð í gangi eins og varð seinna meir.

Eða allt þar til að Efling boðaði til verkfalls ófaglærðra hjá leikskólum Reykjavíkurborgar og Dagur borgarstjóri Góða fólksins var spurður í beinni útsendingu (þess vegna var ekki hægt að bjarga málunum með klippingu) af hverju hann stæði gegn þeirri hógværu kröfu Eflingar að ófaglært starfsfólk leikskólanna gæti lifað af launum sínum??

Þar gat Dagískan (sérstakt tungumál góða fólksins að segja fátt eða ekkert með mörgum skrúðmæltum orðum) ekki bjargað þeim skaða að allir sáu að hin meinta umhyggja og góðmennska Góða fólksins gagnvart sínum minnum bræðrum og systrum var aðeins skrautfjöður, leiktjöld, jafnvel hinn nakti Nýi keisari var klæðamikill miðað við allsleysi þess.

 

Þar með varð Sólveig Anna Óvinurinn, tók þann sess sem Davíð Oddsson hefði eitt sinn haft á meðan blóð rann í æðum hans, Bjarni Ben í dag, Sjálfstæðisflokkurinn, allt vék fyrir skipuninni einni, að ná höggstað á Sólveigu Önnu.

Það er óþarfi að fara í gegnum þá sögu alla saman, sem söguáhugamaður (pólitískur óþverri og undirróður á sér langa fróðlega sögu) þá gat ég samt ekki annað en dáðst af hæfninni við að finna allskonar smáfólk sem var dubbað upp og gert að einhverju, en allur þessi óþverraskapur var aðeins eldskírn og Verkalýðsleiðtogi var okkur fæddur.

Verkalýðsleiðtogi sem lætur ekki staðar numið, annaðhvort er hún höggvin, eða sigrar.

 

 

Fyrirsögn þessa pistils vísar í fornminni barnæsku minnar, frá einni fyrstu sjónvarpsauglýsingu sem ég sá í svarthvíta sjónvarpstækinu sem kom á heimili foreldra minna rétt fyrir eða um 1970,en hún auglýsti þann eðaldrykk Sinakóla.

Þreytt skúringarkona koma inná skrifstofu í óreiðu, andvarpaði en sá þá flösku af sinakóla á borðinu, teygaði hana, og allt í einu rétti hún úr sér, allt yfirbragð þreytu og ömurleika horfið, sem glæstur stormsveipur fór hún um skrifstofuna sem varð gljáfægð á eftir.

 

Þannig kom skúringarkonan Sólveig Anna inní þreytt og útbrunnið kerfi verkalýðsbaráttunnar á Íslandi, og hver getur á móti mælt að ekki hafi verið vanþörf???

Allavega tel ég alvörumennirnir, menn sem enginn efast um að hafi einlægan áhuga á að vinna að bættum hag og kjörum umbjóðenda sinna, sem eru í sárum í dag, ættu að svara þessari spurningu játandi, það var þörf á Stormsveip inní íslenska verkalýðsbaráttu.

 

Sólveig Anna er vissulega stríðlynd, það voru líka hinar gömlu hetjur verkalýðsbaráttunnar sem lyftu Grettistaki í árdaga baráttunnar fyrir mannsæmandi kjörum verkafólks, það var stéttarstríð og stríðleiðtogar eru stríðlyndir, annars ná þeir engum árangri.

Þess vegna er óþarfi að grenja þó menn telji ekki vel að sér vegið, sá grátkór er aðeins vopn í höndum Góða fólksins sem hatast í Sólveigu Önnu út í eitt.

Þeir verða einfaldlega að spyrja sig; hvað er það sem skiptir í raun máli, þeirra særindi, sem enginn efast um að sé af gefnu tilefni, eða raunveruleg kjarabarátta.

Það má vel vera, og er reyndar líklegt, að hefðbundin stöðubarátta samningaborðanna hafi ekki skilað betri kjörum, en stríðsátök hafa ekki verið reynd.

Efling stefnir í stríð, og það er óþarfi að leggja fjendum hennar lið í þeim átökum.

 

Þetta ættu menn að hafa í huga.

Og sé það rétt mat hjá mér að þeir Aðalsteinn og Vilhjálmur séu alvörumenn, þá hafa þeir þetta ekki í huga.

Þeir vita þetta.

 

Vita að það eiga aðrir að kljást við Stormsveipinn en þeir.

Og það sem meira er, þeir eiga að koma til hjálpar, gerist þess þörf.

 

Svo einfalt er það.

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is „Mælirinn orðinn fullur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

Það eru til ótal bækur um samningatækni (sölumensku) og allar miðast þær við að komast að einhverju samkomulagi

Nú er það svo að ekki næst alltaf samkomulag eða þá lokayfirlýsingin er orðin svo útþynnt að hún hefur enga merkingu

Sérstaða kjaraviðræða er að þær munu enda með samningi þó svo að samningsaðilar gangi í fússi frá borði og skelli hurðum á eftir sér 

Það taka bara við ótengdir aðilar út í bæ  sem ákveða kaup og kjör

Grímur Kjartansson, 8.1.2023 kl. 13:27

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Grímur.

Þetta er allt alveg mikið rétt og mönnum mjög í huga sem náðu samkomulagi eftir langvarandi störukeppni samningaborðsins.  Og þar náðu mætir menn góðum samningi, efist einhver þá legg ég til að hann lesi nokkra góða pistla alvörumannsins Vilhjálms Birgissonar á feisbókarsíðu hans.

Sá samningur tengist vissulega skrifum mínum að ofan, vík að samskiptum Sólveigu Annar og þeirra Vilhjálms og Aðalsteins með þessum orðum; "alvörumennirnir, menn sem enginn efast um að hafi einlægan áhuga á að vinna að bættum hag og kjörum umbjóðenda sinna, sem eru í sárum í dag" því þeir töldu "ekki vel að sér vegið".  En út frá því legg ég niðurstöðu þessa pistils, að þeir eigi ekki og megi ekki falla í þá gryfju að láta þau sárindi sín skipa sér á bás óvinafagnaðar Sólveigu Önnu.  Nógu mikið hefur hið Vanheilaga bandalag Góða fólksins og globalauðsins skaðað lífskjör íslensks verkafólks, þó menn gerist ekki sjálfskipaðir róðraþrælar á þeirri galeiðu.

Sólveig er að fara í stríð, ekki samningaviðræður, að gefnu tilefni.

Þeir eiga að virða það.

Sem og að virða að Verkalýðsleiðtogi er fæddur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.1.2023 kl. 14:25

3 identicon

Við erum orðnir sjóaðir í vonbrigðunum, kæri Ómar.

Maður hefði haldið að samstaða Vilhjálms, Ragnars Þórs og Sólveigar Önnu hefði haldið, en gerði því miður ekki.

Tek undir þau orð þín að fremur dapurlegt sé að lesa ákúrur Vilhjálms í garð krafna Eflingar.  Hélt að Skaga-ljónið væri meiri maður en svo, og það sjóaður í baráttunni, að hann réðist ekki gegn öðeu verkalýðsfélagi og kröfum þess.  Það er dapurlegt.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 8.1.2023 kl. 16:57

4 identicon

Bara ein leiðrétting, um leið og ég þakka fyrir góðan pistil þinn ... drykkurinn hét nær örugglega réttu nafni, Sinalco, án þess að það skipti neinu meginmáli.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 8.1.2023 kl. 17:15

5 identicon

Sæll Ómar; og þökk fyrir samskipti liðnu áranna - og sælir:: þið Grímur og Pétur Örn, einnig !

Pétur Örn !

Þjer að segja; hugði jeg Vilhjálm Birgisson vera búinn að segja skilið við II. stærsta glæpaflokk Íslandssögu 20. og 21. aldanna, hver kennt hefur sig við Framsókn (þessi hroða flokkur er jú á pari við hina drazlara hjerlends mannlífs : (Sjálfstæðisflokk - Samfylkingu - Vinstri Græna - Pírata gerpin og Viðreisn - á eftir að átta mig á Miðflokknum, og fyrir hvað hann stendur, raunverulega)jeg hefi verið í ágætum tengzlum við Vilhjálm / Ragnar Þór Ingólfsson, sem og Aðalstein Baldursson á Húsavík á fyrri árum, en . . . . fjandinn hafi það, jeg átta mig ekki á, hvernig Samtök atvinnilífsins, sem og stelpu fíflið í stjórnarráðinu (Katrín Jakobsdóttir) og fl. stjórnarliðum tókst að ljúga sig inn á Starfsgreina fólkið, sem og Verzlunarmannafjelags- menn eins, og kom svo óhugnanlega snaggaralega á daginn.

Sólveig Anna Jónsdóttir; á hinnar fyllstu virðingar að njóta, enginn vingulsháttur í hennar ranni / sjálfri sjer samkvæm, í hvívetna, vill a.m.k. vera það.

Hitt er annað mál; Pétur Örn, sem og þið hinir,, að þau Sólveig Anna - Gunnar Smári Egilsson og aðrir fjelaga þeirra, ættu fyrir löngu að vera búin að kasta Sósíalistaflokks heitinu fyrir borð - og taka upp Verkamannaflokks heitið t.d. þess í stað, virkar ekki, að vera að dragnazt með þá Marx og Engels og Lenín í aftursætinu:: eins, og jeg var margbúinn að benda Gunnari Smára á, löngu fyrir Haustkosningarnar 2021, við fremur dræmar undirtektir Gunnars Smára, reyndar - og oftsinnis síðan.

Þetta var nú útúrdúr; frá hinni eiginlegu Verkalýðsmála umræðu, en mjer þykir miður, að þeir : Vilhjálmur / Ragnar Þór og Aðalsteinn, ásamt fjölmörgum annarra collega sinna, hafi náð að kyngja þegjandi og hljóðalaust fagurgala Samtaka atvinnulífsins, svo ekki sje nú talað um margfaldar stjórnarráðs lygarnar og raupið - sem áratuga langa prettina og svikin, af þeim slóðum.

Það er vel; á meðan Sólveig Anna Jónsdóttir og hennar Eflingar- lagsfólk þori - og treysti sjer til, að standa uppi í hári arðræningja- og þjófa  klíku íslenzka stjórnmála glæpa- og þjófa gengisins, ágætu drengir.

Með beztu kveðjum; sem endranær, af Suðurlandi /

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 8.1.2023 kl. 18:26

6 identicon

Mæltu manna heilastur, Óskar Helgi.  Tek undir öll þín góðu greiningarorð.  Heyr, heyr!

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 8.1.2023 kl. 18:56

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Pétur Örn.

Hann hét Sinakóla í minni barnæsku, hvernig útlendingar skrifuðu orðið eða báru fram, var einfaldlega upp og fyrir ofan heim okkar krakkanna, svona líkt og tunglið, Appaló geimförin og Lucy in the Sky.

Pistillinn var reyndar tengdur frétt þar sem Aðalsteinn Baldursson, hrútabóndi á Húsavík sagðist eiga fullan mæli, og það væri meintum áróðri Sólveigu og félögum að kenna, eitthvað sem ég skil í sjálfu sér en varaði við félagskap óvinafagnaðarins líkt og ég hnykki á í andsvari mínum til Gríms.

Fulltrúi þess óvinafagnaðar, Dóri hjá SA tjáði sig í fréttum Ruv í dag, sé hvorki Aðalstein eða Vilhjálm sóma sér vel í þeim félagsskap.

Vilhjálmur hefur hins vegar haldið sig til hlés frá því að hann varði samning sinn, sem vafalaust var sá besti í stöðunni fyrir hans félagsmenn, því það vita allir sem vilja vit að á landsbyggðinni er enginn að fara í verkfall, en allir fögnuðu jólabónus hinna afturvirkra launahækkana, Aðalsteinn lét hins vegar blaðamann Mbl.is nappa sig í "sárinda" viðtal, eitthvað sem hann hefði betur sleppt, svona í ljósi hins einbeitta bandalags Góða fólksins og SA gegn Sólveigu Önnu og réttlætisbaráttu hennar.

Núna er þeirra hlutverk að halda sig til hlés en í hljóði að óska Sólveigu Önnu alls hins besta.

Hún háir stríð sem þarf að há.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.1.2023 kl. 19:34

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Óskar Helgi, þú hinn tæpitungulausi maður.

Ég held að málið sé aðeins flóknara en svo að Villi og félagar hafi láið glepjast af einhverjum fagurgala, þeirra hlutverk var að ná þeim besta samningi sem í boði var fyrir þeirra félagsfólk, miðað við þá vígstöðu sem þeir hafa og höfðu.  Það er enginn að fara í verkfall út á landsbyggðinni, allavega ekki í sjávarþorpum landsins, það hafa það allir gott, nema vera skyldi nokkur öryrkjagrey sem búa ekki að betur skaffandi maka.

Undantekningar eru vissulega nokkrar, en þeir sem missa fótanna leita yfirleitt til Reykjavíkur/Reykjanesbæjar, þar hleðst upp öreigastéttin, þar er jarðvegur sem fólk eins og Sólveig Anna getur sáð í og uppskorið.  Mistakist það hjá henni, þá má aldrei rekja þann ósigur til persónulegra sárinda eða annars sem fær félaga til að lána Góða fólkinu og níðsveit þess rýtinga níðstungunnar.

Ef ég hefði verið þú þá hefði ég spurt Gunnar Smára að því hvernig væri að vera sósíalisti, er léttar yfir honum en þegar hann var verkfæri auðs og útrásar??

En allavega þá skamma ég hér rétta aðila, ekki alvörumenn, þó það megi segja þeim til betri vegar.

Slíkt er bara almenn kurteisi þeirra sem veginn rata.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.1.2023 kl. 19:44

9 identicon

. . . . þakka þjer fyrir eindrægan stuðninginn við minni málafylgju Pétur Örn; sem þíns var að vænta, ágæti drengur.

Ómar síðuhafi !

Jú Ómar; minn gamli góði hugmyndafræðilegi fjelagi, í víðu samhengi.

Verkfalls aðgerðir; gátu þeir Vilhjálmur - Ragnar Þór - Aðalsteinn og aðrir fjelagar þeirra gripið til, allsendis að fölskvalausu, það er vald almennings og samtakamáttur, sem Samtaka atvinnulífsins - alþingis og stjórnarráðs flónin hefðu þurft að sæta:: þorri íslenzkra stjórnmála- og embættismanna er drifin áfram af persónulegri valdafíkn og ofur- græðgi (er fígúran Guðni Th. Jóhannesson suður á Bessastöðum t.d., ekki með um cirka 3.5 - 3.6 Milljónir í mánaðarlaun ?, dreng stauli, sem er eins konar merkisberi íslenzkrar brodd borgara ónáttúru, að sönnu).

Hvað ætti að vera í veginum Ómar; að RAUNVERULEGA vinnandi stjettir í landinu risu upp til kröfunnar, um sanngjarna skiptingu náttúru auðæfanna, til lands og sjávar, Austfirðingur mæti ? 

Jú Ómar; auðvitað er Gunnar Smári, bráðskarpur maðurinn, fyllilega meðvitaður um brokkgengni sína í þágu auðmanna ýmissa, á árunum fyrir samfjelags fallið 2008, en er ekki hyggilegazt úr því sem komið er, að hann nái að hreinsa sig frá þeim vandræðalegu yfirsjónum úr því, sem komið er ?

Við vitum báðir Ómar; sem flestir annarra, að Spanksgrænu þrif, þurfa oft að eiga sjer stað á + og - pólum rafgeymanna, til sjós og lands, sem víðar - má ekki segja, að Gunnar Smári sje að reyna að þrífa frá sjer:: hina huglægu Spanksgrænu ?, vel gengur honum að halda úti Samstöðinni á vef miðlum t.d., auk ýmissa annarra þarfra verka, a.m.k. 

Með sömu kveðjum; sem hinum fyrri, að sjálfsögðu /   

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 8.1.2023 kl. 20:20

10 identicon

Sæll Ómar

Sá annars ágæti maður, Vilhjálmur á Skipaskaga, tjáði sig einnig við fjölmiðla og það á líkan hátt og Aðalsteinn.

Höfum það á hreinu.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 9.1.2023 kl. 00:04

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Góðan daginn Pétur.

Skal játa að ég fylgist lítið með fjölmiðlum en Villi dúkkar reglulega uppá feisbókarsíðu minni og þar las ég varnarræðu hans, ásamt þeim orðum að þar með væri skrifum hans lokið og hann óskaði Eflingu alls góðs með sína samningagerð. Hafi hann þurft að tjá sig eftir það, þá reikna ég með að hann  hafi neyðst til að svara rangfærslum hinna herskáu Eflingamanna enda liggur í eðli stríðlyndra að fara ekki alltaf rétt með enda slíkt ekki vænlegt til árangurs í stríðum.

Við getum ekki tekið þann rétt frá Vilhjálmi eða Aðalsteini sem náðu sögulegum varnarsamningi miðað við það þjóðfélag og kerfi sem við búum við.  Það að þeir hafi ekki haft nokkra vígstöðu til að skora kerfið á hólm eða reyna bylta því, gerir þá ekki á nokkurn hátt að verri mönnum fyrir vikið, en eins og ég reyni að segja á eins mjúkan hátt og mér er unnt, þá er það ekki sama hvernig það er gert.  Því það er mjög auðvelt að þjóna þá sameiginlegum óvini í þeirri vörn sinni.

Orðalagið; "Mælirinn er fullur", er framsetning sem hreyfði við mér, en ég var samt nokkuð lengi búinn að hugsa að skrifa nokkra pistla um baráttu Sólveigu Önnu fyrir mannsæmandi lífi hinna ómenntuðu og ófaglærðu, en hin menntaða yfirstétt Góða fólksins virðist líta á þann hóp sem eitthvað úrhrak, og að það verði ekki að fólki nema að það sé menntað, þá fyrst eigi það rétt á mannsæmandi launum.

Þetta tvennt tengi ég saman í pistli mínum Pétur, það er það umhverfi sem Sólveig Anna heyir sína baráttu, og það að menn verða að skilja að stríðlyndir, sem ætla í stríð, þeir höggva, bíta frá sér, stíga jafnvel á tær fyrrum samherja, og þó það sé eðlilegt að mönnum sárni, þá þurfa þeir samt að sjá hlutina í stærri heildarmynd.

Þar koma við sögu alvörumennirnir Aðalsteinn og Vilhjálmur, og þeirra sáru tær, og tilefnið er orð Aðalsteins.  Þó ég dragi Vilhjálm inní umræðuna, og það af gefnu tilefni, þá finnst mér ekki rétt að orð Aðalsteins séu gerð að orðum hans, viti menn einhver sambærileg, þá er ekkert að því að ræða þau orð, og hvað mig varðar þá myndi ég spá í samhengið sem þau voru sett fram í, og svo hvernig þau tengjast þeirri heildarmynd sem ég er að reyna að teikna uppí pistli mínum.  Umræðan fyllir alltaf uppí myndina sem er alltaf teiknuð fáum dráttum því þó orðin séu mörg þó eru þau samt alltof fá ef allt á að komast til skila.  Takmörkin eru jú alltaf að það er tilgangslaust að skrifa pistla, ef þeir eru það orðmargir að enginn nennir að lesa þá.

Ég hygg að ég hafi komið niðurstöðu minni til skila; "Vita að það eiga aðrir að kljást við Stormsveipinn en þeir. Og það sem meira er, þeir eiga að koma til hjálpar, gerist þess þörf.". 

En þessu þarf ég að koma til skila án þess að efna til óvinafagnaðar.

Í því er lítill stuðningur fólginn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 9.1.2023 kl. 10:09

12 identicon

Vel mælt, Ómar.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 9.1.2023 kl. 11:37

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Ja Óskar Helgi, ætli sú staðreynd að hinar vinnandi stéttir eru í miklum minnihluta í samfélaginu, standi í vegi þess að þær rísi upp og krefjist réttlátar skiptingar.  Lýðræðið eða réttara sagt auðræðið er þeim andstætt, og uppreisn minnihlutans er sjaldnast árangursrík. Og síðan eins og ég benti þér á Óskar, þá hefur fólk það almennt þokkalegt á landsbyggðinni og er í nákvæmlega engum uppreisnarhug.  Hafi einhver efast þá tók atkvæðagreiðslan um samninga Starfsgreinasambandsins af allan vafa þar um. 

Ragnar Þór er síðan í allt annarri stöðu, hann leiðir millitekjulaunþegafélag í bland við hátekjufólk og hefðbundinn láglaunahóp afgreiðslufólks í verslunum, hjá honum er allt önnur dýnamík en hjá Sólveigu Önnu, en mér finnst mjög ósanngjarnt að ætla honum ekki baráttuhug eða vilja til að bæta kjör sinna félagsmanna.

Það er nefnilega þannig Óskar að við getum ekki ætlast til að aðrir fari niður í bæ og geri byltinguna fyrir okkur, teljir þú að það eina skorti að einhver kaupi sér kassa, og haldi síðan eldmessu niður á torgi, þá skora ég á þig að gera slíkt.  Ég tel hins vegar að atlaga að kerfinu sé aðeins raunhæf þar sem jarðvegur er fyrir hana, ásamt því að í þann jarðveg sái raunverulegt baráttufólk, og slíkt fólk höfum við í raun ekki átt þarna á höfuðborgarsvæðinu í áratugi eða svo, þar til núna.

Sólveig Anna ætlar að reyna, og gangi henni vel, málstaður að láglaunafólk sé líka fólk, þó ómenntað sé, og eigi sama rétt til mannsæmandi lífs og aðrir þjóðfélagshópar, er góður málstaður og vonandi ber góðu fólki gæfu til að standa að baki hennar.  En ég held að það sé lítill stuðningur í blóðugum skömmum á varfærnari samherja hennar, í alvöru Óskar, ég tel það.

En frá því í allt annað, það er spansgrænuhreinsun, allt mikið rétt sem þar er skrifað.  En hefur ekki hvarflað að þér að Gunnar sé ennþá í vinnu hjá sínum gömlu húsbændum??, að hann sé einhvers konar flugumaður sem eigi að sjá til þess að ekkert komi út úr baráttu rótæks fólks sem vill gagngerar breytingar á samfélagi okkar??

Sósíalisminn hefur aldrei gert verkafólki eitt eða neitt gott, nema þá óbeint þegar borgarastéttin gaf eftir rétt sinn til að umgangast vinnandi fólk sem hverjar aðrar skepnur, því það var svo óttaslegið eftir byltingu bolsévika. 

Sú uppgjöf, sú viðurkenning að vinnandi fólk væri líka fólk, manneskjur sem bæri að virða og ætti sinn rétt, var upphafið að mesta velmegunarskeiði alþýðunnar frá því að sögur hófust, og því skeiði lauk ekki fyrr en með aðför Hagfræði andskotans að því lími sem hélt vestrænum samfélögum saman, velferðarkerfinu og samhjálpinni.

Í dag er vinnandi fólk ekki fólk, heldur kostnaður, og hið vanheilaga bandalag Góða fólksins við Glóbal auðinn, sáttin um hið frjálsa flæði, leggur nótt við dag að hamra hlekki á vinnandi fólk um allan heim.  Í dag óttast hið nýja auðmagn glóbalsins ekki byltingu sósíalistana, en það er gott að veifa framan í verkafólk röngu tré kenninga þeirra svo aldrei verði eitt eða neitt úr frelsisþrá þess, að öll barátta fjari út í pyttum kennisetninga sem sagan hefur afgreitt sem rusl.

Veistu Óskar, ég tel Gunnar Smára það skarpan að hann viti þetta, samt tekur hann fálega í hugmyndina um Verkamannaflokk.

Það er ekki spansgrænan sem fær mig til að efast, heldur gjörðin.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 9.1.2023 kl. 13:15

14 identicon

Sælir - sem áður !

Ómar !

Fjarri því; að jeg geri ráð fyrir því, að hin sköruglega barátta Önnu Sólveigar dugi til:: ein og sjer, til þess að landsmenn kasti oki þeirra viðrinis stjórnmála okurs og græðgi

sem er að kafsigla leifum siðaðs samfjelags, hjerlendis.

Ætli; Sjómenn - Bændur - Iðnaðarmenn euk annarra margra, þyrftu ekki að leggjazt á árar, ef svo lukkulega mætti verða á komandi árum, fornvinur góður ?  

Skil mæta vel; tortryggni þína til Gunnars Smára, það er einhver fjandinn í vegi þess, að hann umpóli algjörlega frá Marx- Lenínismanum, yfir til hin íslenzka raunveruleika -

sjáum til:: jeg á enn eftir að þjarka í pilti, þó ekki væri nema í tilefni nýafstaðinna áramóta.

Sjáum; hvað setur.

Hinar beztu kveðjur; til ykkar allra - sem áður /

   

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 9.1.2023 kl. 23:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 463
  • Sl. sólarhring: 710
  • Sl. viku: 6047
  • Frá upphafi: 1399986

Annað

  • Innlit í dag: 419
  • Innlit sl. viku: 5183
  • Gestir í dag: 405
  • IP-tölur í dag: 400

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband