5.11.2022 | 15:49
Einvígið sem aldrei varð.
Frá því sem elstu menn muna, og fyrir daga þeirra er skráð í heimildir, hefur Sjálfstæðisflokkurinn ætíð verið klofinn í tvær fylkingar, og farsælir hafa þeir formenn verið taldir sem hafa náð að láta þessar fylkingar una þokkalega sáttar við sitt. Stríð hinna stríðandi fylkinga hefur þá verið háð í bakherbergjum, með stingandi augnaráði manna á milli, eða þá einhverjum átökum í ungliðafylkingum flokksins, Heimdalli, SUS og Vöku.
Hvað veldur þessum klofningi er ekki gott að segja, kenningar hafa verið settar fram um að þarna séu átakalínur sem urðu til svo snemma sem á heimstjórnarárunum, klassísk átök milli frjálslyndis og íhaldssemi, sem síðan hafi komið fram í klofningi borgarastéttarinnar í Íhaldsflokkinn annars vegar og Frjálslynda flokksins hins vegar, og þau átök hafi síðan haldið áfram eftir sameiningu flokkanna undir hatt Sjálfstæðisflokksins. Veikleiki þessar kenningar er að Íslendingar hafa aldrei verið fyrir hugmyndafræði, en þeim mun meira fyrir "Atvinnu", þess vegna hafa hugmyndafræðingar alltaf verið fylgilitlir á jaðrinum, hvort sem það er til hægri eða vinstri, og Frjálslyndi flokkurinn var örflokkur þegar hann fékk náðarskjól í Sjálfstæðisflokknum.
Mun líklegri skýring er rætur átakanna liggi í fjölskyldum, menn fæðist inní deilur sem enginn veit hvernig byrjuðu, kannski var það vegna þess í árdaga stjórnmálanna hafi annar fengið sætustu stelpuna á ballinu, og sú afbrýðissemi og höfnun hafið grafið um sig í óvild sem kynslóðirnar hafi svo erft.
En það þarf ekki að skýra allt, þetta er bara svona, baráttan um völd og áhrif er jafn gömul erfðasyndinni, hefur fylgt manninum frá því í árdaga. Eiginlega er það merkilegt stjórnunarlegt afrek að flokkurinn sé aðeins tvíklofinn, og menn skuli hafa oftast látið hið stingandi augnaráð duga við vega mann og annan.
En tímarnir breytast, og jafnvel Sjálfstæðisflokkurinn líka.
Guðlaugur Þór er vissulega fulltrúi þess valdahóps sem sækir að eignarhaldi Engeyinga og bandamanna þeirra, og eigi skal vanmeta manninn sem hefur stjórnkænskuna til að planta út stuðningsmönnum sínum í þær grunnstoðir sem tilnefna fulltrúa á landsfund.
Hængurinn bara er að helmingur mannkyns er kvenkyns, og af einhverjum ástæðum sem guð má vita hverjar, eru þær ekki lengur sáttar við að þeirra hlutverk sé að brosa og vera sætar, og laga svo kaffi handa köllunum.
Já og skrifa fundagerðir, þær eru alveg kjörnar í ritarastöðu allra flokka og félaga.
Þarna liggur hreyfiaflið sem Bjarni hefur náð að virkja en Guðlaugur ekki.
Bjarni er á förum en hefur aðeins dregið brottför sína á meðan krónprinsessurnar fá aukinn þroska og reynslu, það er svo þeirra samkomulag hvor þeirra tekur formanninn næst.
Guðlaugur er ekki að vega sitjandi formann til að láta sér 2 ár duga, kosning hans mun því kalla á formannsátök eftir 2 ár, ofaní þessi.
Sem engin vitglóra er í.
Síðmiðaldra karlar hafa af einhverjum ástæðum talið að þeirra tími sé kominn, þegar öllum ætti að vera augljóst að hann er liðinn.
Því munu margir þeirra, sem hugsanlega hefðu kosið Guðlaug, forða flokknum frá þeim hjaðningavígum sem yrðu eftir 2 ár, þau yrðu alltaf skaðleg, og þrátt fyrir allt þá snúast stjórnmál um völd, völd flokksins og flokksmanna, og þar er aðgangur að stjórnkerfinu lykilatriði.
Og flokkar klofnir í herðar niður hafa sjaldan þá lykilstöðu.
Konurnar vilja sinn formann, þar eru engar refjar enda vandséð hvernig nútíma stjórnmálaflokkur geti hundsað það kall vegna kaldrifjaðar valdabaráttu síðmiðaldra karla sem þekkja ekki sinn vitjunartíma.
Þess vegna mun Bjarni taka þessar kosningar auðveldlega.
Á þessu er aðeins einn varnagli.
Að kvenkynið þekki heldur ekki sinn vitjunartíma.
Í þeim nagla er ekki mikið hald.
Kveðja að austan.
Beint: Framboðsræður á landsfundi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 4
- Sl. sólarhring: 18
- Sl. viku: 450
- Frá upphafi: 1412812
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 389
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Margir þeirra sem voru íhaldssamastir og lengst til hægri í Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum kjósa nú Miðflokkinn.
Stofnaðir voru frjálslyndi flokkurinn Viðreisn, sem er hægrisinnaður flokkur, og Miðflokkurinn, sem er íhaldssamastur og lengst til hægri af þeim flokkum sem sæti eiga á Alþingi.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur allt frá árinu 1929 fyrst og fremst verið kosningabandalag frjálslyndra og íhaldsmanna.
Fólk sem kýs Sjálfstæðisflokkinn aðhyllist frjálslyndi, frjálshyggju eða íhaldsstefnu.
Meira kraðak er nú varla til í einum stjórnmálaflokki og samstaðan oft lítil, enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn margsinnis klofnað og brot úr flokknum myndað ríkisstjórn með öðrum stjórnmálaflokkum.
Þorsteinn Briem, 5.11.2022 kl. 16:50
Flokkur fólksins er einnig hræringur úr Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum en er þó lengra til vinstri en Miðflokkurinn.
Og Framsóknarflokkurinn er hinn raunverulegi miðflokkur.
Sósíalistaflokkurinn er lengst til vinstri og Vinstri grænir og Samfylkingin eru vinstrisinnaðir flokkar, enda þótt sá síðastnefndi sæki einnig fylgi sitt að nokkru leyti til miðjunnar í íslenskum stjórnmálum.
Þorsteinn Briem, 5.11.2022 kl. 17:12
Þetta er því miður rétt hjá þér í meginatriðum. Því miður vegna þess að öfgafemínismi í öllum flokkum þýðir að Ísland mun fara útaf í allskonar skurði, sem önnur lönd eru að fara líka í.
Sigríður Á. Andersen er sú manneskja sem hefur hefðir flokksins á bakinu og stjórnvizku á við Bjarna eða hvaða karl sem er. Það er nú búið að dæma hana svolítið úr leik með fjölmiðlaáróðri, eða þá að hún hafi ekki fallið inní stereótýpuna af femínista nógu vel hjá pressunni og vinstriöfgafólkinu.
Ég hef einmitt verið að pæla í þessu sama. Hvernig verður þjóðfélagið eftir 2 ár ef Þórdís Kolbrún eða Áslaug Arna verða formenn, og er allt verður gefið á fullt í flóttamannamálum í kjölfarið, landamærin opnuð uppá gátt?
Þú ert það rökvís maður að þú skilur ábyggilega að þá verðum við Svíþjóð númer 2, með tilheyrandi skotbardögum og sprengingum, nauðgunum og slíkum hryllingi.
Ég hef oft viljað lifað í þeirri draumsýn að allt yrði gott með femínisma. Ég kaus Kvennalistann einu sinni og Samfylkinguna tvisvar, en svo hefur þetta rjátlazt af manni og maður hefur séð að þetta er útópía, einsog draumur eða martröð Stalíns um alvald kommúnismans.
Hér finnst mér þú takast á við vanda nútímans nokkuð rösklega, sem er gott, en svarið finnst ekki, hvernig þetta verði góð framtíð.
Reyndar held ég að Guðlaugur sé ekki endilega táknmynd fyrir gamla tíma eingöngu. Hann er óskrifað blað, sem annað og meira en mubbla eða sá sem hlýðir. Hann gæti hreinsað til í flokknum, sem gæti verið gott, ef það er gert hóflega og í sæmilegri sátt.
Með því að kjósa Guðlaug er verið að kjósa óvissu, með því að kjósa Bjarna stöðugleika. Það eru kostir og gallar við hvort tveggja.
Það er rétt að gamla gengið treystir á Guðlaug, því gagnrýni hans er það sem Eiríkur Bergmann kallar lýðskrum í anda Trumps, að hann segist ætla að endurvekja glæsilega fortíð flokksins og landsins, en innan raða stuðningsmanna Guðlaugs eru allskonar skoðanir reyndar og ekki allt þjóðernisíhald.
En það bendir flest til að Bjarni vinni þetta glæsilega á morgun. Fólk vill ekki rugga bátnum.
Ingólfur Sigurðsson, 5.11.2022 kl. 17:18
Blessaður Steini.
Takk fyrir stjórnmálaskýringu þína, mun skemmtilegra að lesa þig en hlusta á stelpurnar sem rétttrúnaðurinn lét taka við af Óla Harðar, sem er náttúrulega Stjórnmálaskýrandinn með stóru Essi.
Ég veit ekki hvernig nokkur formaður hefði getað komið í veg fyrir klofningin í Viðreisn, Evróputaugin er það sterk meðal atvinnurekanda svo pirringurinn hlaut að leita útrás og sjálfsagt betra fyrir Sjálfstæðisflokkinn heldur en að hafa allt klofið í herðar niður vegna þeirra deilna.
Ef maður fer eftir anda skattalaga, og gerir upp saman móðurfélag og dótturfélag, þá er gamli Sjálfstæðisflokkurinn ekki að skaffa svo illa, sérstaklega í ljósi þess að tíðarandinn meðal ungs fólks hefur verið í átt til ruglanda og vitleysu, það sem áður var forsenda tilverunnar, og barist var um, það er brauðið og skipting þess, hefur unga fólkið talið sjálfsagt, og telur sig getað hundsað það sem gerði hinum vitiborna manni kleyft að leggja undir sig heiminn, það er vitið.
Og svo ég víki að efni þessa fjölpistla minna, þá hefur Bjarni ekki verið svo slæmur skaffari, og ég hygg að hann sé eina skýring þess að skoðanakannanir um 20% fylgi, eða jafnvel innan við það, hafa ekki gengið eftir.
Í öllu ruglinu og kynsegin bullinu sem fjölmiðlar bjóða uppá vikuna fyrir kosningar, þá virkar hann stundum sá eini sem er með fulle fimm, ekki að það séu ekki fleiri meðal forystufólks flokkanna, en hann er það sterkur rökfylgjumaður að brimskaflar forheimskunnar virðast fyrst brotna á honum, og það hefur skilað nokkrum prósentum óákveðinna, sem er aftur ástæða þess að flokkurinn hefur haldið lykilstöðu sinni í íslenskum stjórnmálum.
Það er eins og síðmiðaldra karlarnir átti sig ekki á hve hitt væri verra.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 6.11.2022 kl. 10:43
Blessaður Ingólfur.
Það er ekkert gott í framtíðinni og eina spurningin hvort siðmenningi lifi af, er vart spurning lengur.
Á því eru tvær skýringar, samofnar í eina, forystuleysi og við höfum týnt niður hvötinni að verja lífið sem við ólum.
Þú þarft ekki að hafa nokkrar áhyggjur af sænsku leiðinni, sjálftöku kerfi góða fólksins er við það að springa, við erum of smá miðað við fjöldann sem er þarna úti. Síðan mun þetta snúast um, ekki innan svo langs tíma, hvort vestræn samfélag hafi afl til að halda úti hungruðum fjölda sem leitar inn, eða það sem er ekki ólíklegt, að við sjálf brauðfæðum okkur ekki vegna ytri aðstæðna lofslagshlýnunar og innri ástæðna forheimsku og fávitaháttar í orku og matvælaframleiðslu.
Sigríður Andersen hefur þann styrk sem Bjarni hefur, nema hún hefur ekki kjörþokkann, og skoðanir hennar eru jaðar, þeir sem vilja hana, vilja smáflokk, jafnvel örflokk, og þar með engin áhrif á stjórnun landsins. Hún er hins vegar valkyrja og gæti leitt menn í raunverulegum orrustum, en þó ég sé ekkert sérstaklega bjartsýnn, þá verður samt einhver bið á þeim.
Guðlaugur er ekkert óskrifað blað, hann er sama blað og Bjarni, munurinn milli þeirra liggur í því að Bjarni er eina skýring þess að Sjálfstæðisflokkurinn reif sig uppúr 20% fylgi skoðanakannana, í þessi 25-27% sem flokkurinn hefur náð í kosningum undanfarið. Guðlaugur hefur engan kjörþokka og hefði aldrei náð að breyta einu eða neinu.
Og það sem meira er, Guðlaugur fékk tækifæri uppí hendurnar til að sýna að hann væri ekki sama froðan og frasinn og allir hinir,það er þegar hann varð umhverfisráðherra. Tækifæri sem hann nýtti ekki.
Og já, þú ert ekki einn um það að hafa upplifað skipbrot fólks sem þú hélst að hefði eitthvað að segja og gæti gert samfélagið betra, en svona er þetta bara, fátt annað í stöðunni en að reyna gera eitthvað gott úr henni, eða allavega eitthvað nothæft.
Ég vorkenni hins vegar mjög fólki sem heldur að stjórnmál á Íslandi snúist um að berja á gömlu borgarastéttinni og flokki hennar, Sjálfstæðisflokknum.
Og kýs þess vegna ógæfufólk í vasa global auðsins.
Sá vasi er vasi tortímingar, skipbrot drauma okkar um betra samfélag, og mannsæmandi framtíð fyrir börnin okkar.
En hins vegar Ingólfur þá þýðir ekkert að örvænta eða gráta Björn bónda, Ten Hag hefur uppreist mína menn þannig að vonin um sigur er alltaf til staðar, en fyrst og síðast, ánægjan að horfa á drengi sem leggja sig fram og gera sitt besta.
Ekki svo langt síðan að það var aðeins botnlaus örvænting að horfa á leiki með United.
Sem sýnir hið fornkveðna, að þegar ekki einu sinni vonin er eftir, þá gerist eitthvað.
Hver hefði trúað því að skynsöm manneskja myndi fá rússneska kosningu til formanns í Samfylkingunni??
En ég held að það sé dáldið langt í að Manju verði meistarar á ný.
Maður missir ekki trúna fyrir það.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 6.11.2022 kl. 11:22
Þakka þér þessa fræðslu Ómar Geirsson. Oft er skrifað að þegar víxlararnir fái of mikil völd í flokknum, þá verði hann 10 til 20 % flokkur. Bráðum tekur þú heilmyndina, tveggja rifu tilraunina til greiningar. Hún er mjög einföld. Ég leitaði og fékk á aðra milljón svör. Þær voru svo flóknar að engin, fáir lesa þær. Þannig fóru þeir að því að fela tveggja rifu tilraunina fyrir fólkinu. Hún er grunnur heilmyndarinnar sem við köllum veröldina, lífið.
Gangi þér allt í haginn.
Egilsstaðir, 06.11.2022 Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson, 6.11.2022 kl. 14:20
Blessaður Jónas.
Ég þarf ekki að flækja hlutina Jónas, mér nægir að vita þetta með "vasa global auðsins".
Viljir þú fara dýpra þá upplifum við tíma löngu fyrirséðra Ragnaraka í hinni eilífri baráttu Góðs og ills.
Mikill hugsuður, með klassískrar rætur í kaþólskri trú, sem upplifði uppgang helstefna kommúnisma og nasisma, gerði þessari baráttu skil í miklu sagnabálk, þar sem ævintýrið dreif söguna áfram.
Hans kjarni, hans niðurstaða var að það sem er skapað úr illsku, á rætur sínar í illsku, getur aldrei getið af sér annað enn illt, þó einhverjir fáráðir telji að slíkt megi nota til góðs.
Vasi globalauðsins, þessi þarna sem tókst að breyta öllu andófi til vinstri í aumkunarverðan samanhóp bullukolla og froðusnakkara, sem veit ekki einu sinni hvernig börnin verða til, fjármagnaði hagtrú, nýfrjálshyggjuna, sem náði öllum völdum í vestrænni hagstjórn, og er til dæmis drifkraftur hins frjálsa flæði Evrópusambandsins.
Öll hugmyndafræði hennar og forsendur eru ættaðar úr neðra, það er skapað úr illsku, á rætur sínar í illsku, og hún er tæki mannsandans til að takast á við nauðsynleg orkuskipti áður hlýnun jarðar gengur að siðmenningunni dauðri.
Eftir 30 ára þrautlausa baráttu er þetta árangurinn.
"Á undanförnum mánuðum hafa þúsundir látist vegna veðurhamfara. Minnst var á gífurleg flóð sem lögðu Pakistan og Nígeríu í rúst, þurrka sem versnuðu í Afríku og vesturhluta Bandaríkjanna, fellibyli sem riðu yfir Karíbahafið og ófyrirséðar hitabylgjur sem gengu yfir þrjár heimsálfur".
Nei, það þarf ekki að flækja málin Jónas.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 6.11.2022 kl. 16:35
Þakka þína kennslu. Við hyggjum að málefnunum.
Egilsstaðir, 06.11.2022 Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson, 6.11.2022 kl. 17:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.