25.1.2022 | 18:16
Þegar lygin er vopn.
Það eru ekki nýjar fréttir að fólk á jaðri samfélagsins sé líklegra til að trúa samsæriskenningum, og því miður bulli og vitleysu.
Það eru jú skýringar þess að fólk er á jaðrinum, og eigi skal gleyma að byltingar fortíðarinnar urðu vegna þess að það fólk tók markmið þeirra upp á sína arma, eða hver trúir að millistéttarmaðurinn Marx hefði náð hljómgrunn hjá öðru millistéttarfólki, sem hafði svo miklu meir að tapa en óljós grunur um ávinning seinnar meir.
Fólk á jaðrinum hugar öðruvísi, til dæmis vegna þess að það býr yfir meir sköpunarmátt sem og það tekur hið viðtekna ekki gefið, það spyr, það hugsar, það er oft ekki eins og við hin.
Því miður þá veit hið svarta vald þetta, og hefur lengi gert út á sköpun og hrekkleysi fólksins, sem á árum áður ógnaði auð þess og völdum.
Með allskonar vitleysu og vel markaðssettu bulli þá breytist fólkið á jaðrinum úr breytingarafli, í einskonar hjörð vitleysinga, sem engu ógnar, sem nær ekki að lyfta hug sínum og anda yfir nafla hinna markaðssettu vitleysu og fjarstæðu sem það er fóðrað með.
Hér á Íslandi er það Fréttin.is, eitthvað er ekki nógu heimskt að það sé birt þar.
Eða þegar poppstjörnur vísa ekki í Lennon, heldur skosk heilbrigðisyfirvöld sem eiga víst að hafa komist að því að bólusettir séu líklegri til að deyja vegna kóvid, en þeir sem eru óbólusettir.
Maður getur brosað, og maður veit að veiran fækkar grimmt í þessari vitleysingahjörð.
Eins og að hún sé vopn eða tæki til að fækka fólkinu sem spyr, sem tekur ekki arðrán, auðrán, til dæmis atlögu auðsins að framtíð lífsins hér á jörðu með því að fjármagna loftslagsfífl í valdastól sem flytja minna mengandi framleiðslu frá Vesturlöndum til mengunarverksmiðja glóbalsins, sem gefnu, heldur bregst við, berst gegn hinni augljósu tortímingu siðmenningarinnar.
Og þá spyr maður sig, hverjir þjóna þeir sem nota lygina sem vopn til að fífla hið skapandi fólk á jaðrinum??
Augljóst er að benda á hægri veitur frjálshyggjunnar sem hafa virkjað trúfífl í Bandaríkjunum og víðar, sem núna berjast fyrir ótímabæru andláti fólks vegna kórónuveirunnar, en slík ábending er grunnhyggin, eins og þessi könnun vísar í, þá er margt fólk til vinstri tortryggið og sú tortryggni fær það til að trúa bulli og vitleysu, það er í raun í vanheilögu bandalagi með öflum sem lengst er til hægri í stjórnmálum, öflum sem geta ekki opnað munninn um samfélag eða samfélagsmál, án þess að orðið frelsi sé annað hvert orð sem það notar í rökstuðningi sínum.
Eins og vinstri fólk viti ekki að hið meinta frelsi er orðskrípi yfir þá leitni hinna Ofurríku að setja restina, almenning, fólkið í þrælabönd arðráns og örbirgðar.
Eins og þetta vinstri fólk hafi gleymt hinni hatrömmu baráttu áa sinna fyrir frelsi almennings úr fjötrum fátæktar og arðráns hinna Örfáu sem áttu allt, og gáfu ekkert eftir nema vegna blóðugrar baráttu verkalýðsstéttarinnar.
Hvernig hægri öfgar náðu að mynda bandalag með vinstra fólki, stjórnleysingjum, fólki sem fyrirfram ætti að vera þess helsti andstæðingur, má guð vita.
En það má samt sjá trend þar að baki hinu augljósa bulli eru staðreyndir afskræmdar, í besta falli, oftast eru þær búnar til að kaldrifjuðu hægra öfgafólki sem matar svo stjórnleysið, vinstra fólkið með einhverju sem gæti alveg verið satt, nema hængurinn er sá að uppspuni frá rótum býr að baki.
Hér á Moggablogginu er fátt um vinstra fólk, endrum og eins slæðast inn athugasemdir einhverja tapsárra meintra jafnaðarmanna sem ennþá gráta ósigur sinn í ICEsave stríði breta gegn íslenskri alþýðu, annars erum við hér inni fólk sem er oftar til hægri, fyrir utan þá örfáu sem eru ekki neitt í pólitískum skilningi.
Og leitt er að segja það, hér fækkar óðum vitibornu fólki, hjól tímans er þar líklegasta skýringin, engin rífst við meintan aldur eða dauða, en ekki að vitleysingum hafi fjölgað, þeir verða aðeins meir áberandi eftir því sem hinum fækkar.
Það trend afhjúpar kóvid umræðan, líklegast þarf að fara víða um hinn víða heim til að finna aðra eins hjörð fólks sem vanvirðir hægra heilahvel homo sapiens, en nýtir órökhyggju hins vinstra til að réttlæta skrif sín og viðhorf.
Svo er það fólkið sem lýgur vísvitandi, kinnroðalaust fóðrar það vitleysingahjörðina með blekkingum, rangfærslum og beinum lygum.
Til dæmis þegar Ingileif Jónsdóttir, okkar fremsti vísindamaður í ónæmis og veirufræðum, vitnaði í rannsóknir breskra og ísraelskra vísindamanna, um tíðni aukaverkana vegna bólusetninga, þá voru góð ráð dýr, múgæsingin gegn bólusetningum var afhjúpuð, ruglið og bullið átti sér enga stoð í raunveruleikanum.
Alvarlegar aukaverkanir vegna hjartaóreglu eða hjartasjúkdóma, voru svo sjaldgæfar að þær mældust vart marktækar hjá börnum og unglingum, en voru örfá tilvik per milljón hjá karlmönnum á aldursbilinu 20-40 ára.
Gegn þeirri staðreynd var logið hér beint á Moggablogginu, ekki hjá vitleysingahjörðinni, heldur hjá manni sem þekktur er að fara rétt með staðreyndir í ýmsum málum.
Svona eitthvað sem minnti á underkóver útsendara Stasi (leyniþjónusta Austur Þýskalands) í Vestur Þýskalandi á dögum Kalda stríðsins, þeir afhjúpuðu sig úr öruggu gervi hins venjulega þegar húsbóndinn í Kreml taldi afhjúpunina þjóna tilgangi í hinum köldu stríðsaðgerðum sínum.
Logið var ekki beint, heldur vísað í einhvern huldulækni, sænskan, sem las það út úr þeirri tilraun sem Ingileif vitnaði rétt í, að niðurstöðurnar réttlættu að hætt væri við bólusetningu yngra fólks.
Rangt farið með staðreyndir, trúverðugleikinn notaður til að ljúga að fólki.
Ekki að fólki að jaðrinum, heldur að góðlátlegu eldra hægri sinnuðu fólki.
Vörn þess, bólusetningarnar, sem gerir það nokkuð öruggt á tímum heimsfaraldurs kórónuveirunnar, gert tortryggilegt, undirliggjandi að ýta undir ótímabærum dauða þess fólks sem fellur í hunangsgildru þess svarta sem fóðrar dauðann gegn þessu sama fólki.
Og þessi atlaga að lífinu er gerð undir merkjum málfrelsis og lýðræðislegrar umræðu.
Eitthvað sem gömlu Stalínskommarnir hefðu þegið þegar þeim var sagt að lygar og blekkingar þeirra væru ekki innan þess ramma sem lýðræðið setur lýðræðislegri umræðu.
Þetta snýst nefnilega ekki um fólkið á jaðrinum sem er líklegast til að trúa samsæriskenningum.
Þetta snýst um trúverðuga borgarlega miðla sem umbera beinar lygar og blekkingar, gleymd er sú Snorrabúð sem setti slíku skorður þegar illvígar manndrápskenningar, hvort sem þær sóttu næringu til Berlínar eða Moskvu, herjuðu að siðmenningunni og borgarlegum gildum.
Þá voru borgarlegir fjölmiðlar ekki akur lyga og blekkinga helstefna, eða fólks sem markvisst vinnur að ótímabærum dauða samborgar sinna.
Þeir voru klettur sem helstefnur kommúnismans eða nasismans steytti á, afhjúpuðu lygar og blekkingar þess fólks sem þjónuðu Helinu, gegn lífinu.
Í dag er Snorrabúð stekkur.
Borgarleg öfl verjast ekki.
Illgresi kæfir fjölmiðla þeirra.
Svo eftir stendur spurningin.
Hver verst þá??
Hver ver hin borgarlegu gildi, hið borgaralega samfélag??
Sem er forsenda þeirrar velferðar og þeirrar velmegunar sem við búum við í dag.
Svarið er einfalt.
Ef borgarleg öfl gera það ekki, þá gerir enginn það.
Í því samhengi verðum við skilja gildi borgarlegra fjölmiðla.
Þar er Mogginn á villugötum.
En ekki ennþá; "Blessuð sé minning hans".
En hve lengi??
Kveðja að austan.
Fólk á jaðrinum líklegast til að trúa samsæriskenningum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 2
- Sl. sólarhring: 30
- Sl. viku: 448
- Frá upphafi: 1412810
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 387
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ingileif hlýtur að vera ánægð með að þú trúir henni, en takir ekkert mark á sérfræðingum á borð við frönsku læknaakademíuna og ráðgjafarnefnd breskra stjórnvalda.
Þorsteinn Siglaugsson, 25.1.2022 kl. 19:39
Blessaður Þorsteinn.
Þessi athugasemd þín er eiginlega fyrir neðan virðingu þína sem skynsemisveru.
Þetta snýst ekki um að trúa fólki sem vitnar rétt í rannsóknir, ef þú efast þá getur þú vitnað beint í viðkomandi rannsókn eftir lestur á niðurstöðum hennar.
Ég reyndar gerði það, og las þá ísraelsku líka.
Þér til fróðleiks, ef þú skyldir á einhverjum tímapunkti vilja verða aftur vitsmunavera Þorsteinn, sem fer rétt með, þá var þessi eini sem varð alvarlega veikur í Ísrael vegna hjartavöðvabólgu, ekki verr veikur en það, að hann lifði af.
Svona í ljósi þeirra hátt í 200 hundruð þúsund manns sem hafa dáið í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna frá því 1. júní síðastliðnum, megnið óbólusett.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 25.1.2022 kl. 19:52
Vandamálið er bara hver á að hafa vald til að skera úr um hvað sé samsæriskenning og hvað séu upplýsingar sem eigi raunverulega erindi við almenningi?
Slíkt vald hefur enginn óskoraðan rétt til að taka sér. Aftur á móti er tjáningarfrelsið verndað í stjórnarskrá og nær líka yfir tjáningu sem einhverjum finnst vera jaðarskoðun.
Eitt sem sagan hefur kennt er að sumt sem áður var úthrópað sem samsærikenning hefur síðar reynst dagsatt. Í faraldrinum hefur slíkt ítrekað gerst á styttri tíma en áður þekktist.
Sem dæmi er það ekki lengur nein tryllt samsærikenning að veiran gæti hafa komið frá rannsóknarstofu í Kína, heldur er það núna álitin trúverðug tilgáta þó ósönnuð sé.
Því ber að varast alla þá sem þykjast vera flutningsmenn hins eina endanlega sannleika um hverskyns mál þar sem fiskur gæti mögulega legið undir steini.
Guðmundur Ásgeirsson, 25.1.2022 kl. 19:55
Hvers vegna heldur þú að franska læknaakademían og ráðgjafarnefnd breskra stjórnvalda mæli gegn bólusetningu barna Ómar? Af því að þeir aðhyllist samsæriskenningar?
Þorsteinn Siglaugsson, 25.1.2022 kl. 21:20
Bar að benda á bloggið hjá Arnari Sverrissyni.
„Enn er það svo, að fjöldi fólks finnur ekki til nægjanlegs, einstaklingsbundins ótta; svo kynni að vera, að umræddir telji sér borgið í ljósi lágrar andlátstíðni í eigin lýðhópi, jafnvel þó svo sé, að áhyggjur kynnu að vera vaxandi … [A]uka þarf ógnartilfinningu hvers og eins meðal hinna sjálfsánægðu, beita hnitmiðuðum tilfinningahlöðnum skilaboðum. Svo að tilganginum verði náð, verður einnig að gera þeim ljóst, til hvaða ráða megi grípa til að minnka hættuna [og þar með] efla þá að valdi (empower).“
Í sama skjali var einnig gefinn fjöldi ráða til að auka auðsveipni við stjórnvöld. Til að mynda var minnst á gildi fjölmiðlunar til að magna óttann.
Það fer hrollur um fleiri en Simon. T.d. segir starfsbróðir hans, Gary Sidley: „Það er engu líkara en að skapast hafi vísir að iðnaði í kringum stjórn faraldursins. Hann útilokar framandi raddir. Það sjást vaxandi áhyggjur innan míns vettvangs um það [snjallræði] að beita ótta og smán sem aflvaka hegðunarbreytinga.“
Haukur Árnason, 25.1.2022 kl. 22:54
Heldur þykir mér þú, Ómar minn, fara frjálslega með tölur um hjartavöðvubólgu í kjölfar bólusetninga þar sem þú talar um aðeins örfá tilvik per milljón.
Eftirfarndi linkur vísar á fjölda skráðra tilfella hjartavöðvubólgu kjölfar bólusetningar gegn Covid í Ísrael og ná aðeins yfir tímabilið frá des. 2020 - mai 2021.
Samtals komu fram 304 tilfelli af um 5,1 milljón tvíbólusettra og þar af 1 dauðsfall.
Þetta þýðir um 6 tilfelli per 100 þúsund, en ekki eitthvert rugl og bull um örfá tilvik per milljón svo maður gripi nú til þinna eigin orða.
Israeli Study Details Myocarditis Risk Associated with Pfizer COVID-19 Vaccine (practicalcardiology.com)
Daníel Sigurðsson, 25.1.2022 kl. 23:35
Ég er stoltur af því að vera stundum kallaður hluti af "fámennum jaðarhópi pólitískra viðriðna" (sem dæmi). Það þýðir um leið að ég er tortrygginn og gagnrýninn og ekki tilbúinn að gleypa boðskap æðstuprestanna hvort sem þeir tilheyra kaþólsku kirkju miðalda, félagsskap seiðkarla í afrískum þorpum eða opinberra starfsmanna íslenska ríkisins.
Betra að vera uppnefndur og smáður af blaðamönnum en kokgleypa og hugsa ósjálfstætt.
Geir Ágústsson, 26.1.2022 kl. 07:51
Blessaður aftur Þorsteinn, gott að byrja á að klára þig af.
Erindið var nú ekkert annað en að bjóða þig aftur velkominn í hóp skynsemisvera, þú hefðir líka getað bætt við að íslenskur heimilislæknir skrifaði vandaða grein í Morgunblaðið þar sem hann spurði hvort rétt væri að bólusetja börn í miðjum faraldri, sérstaklega þar sem bóluefnið væri þannig séð órannsakað hvað varðar langtímaáhrif, það er ennþá á tilraunastigi.
Allt gild sjónarmið, laus við lygar og blekkingar, hvað þá að spyrja einhvern hvort hann trúi vísindamanni sem vitnar í niðurstöður ritrýndra rannsóknar.
Eftir stendur kannski spurningin af hverju þú ert að setja inn þessa athugasemd þína við pistil sem fjallar um lygar sem vopn, og er spunninn út frá niðurstöðum hávísindalegrar könnunar sem segir að fólk á jaðrinum er líklegast til að trúa samsæriskenningum.
Skynsamleg, vitræn umræða um kosti og galla bólusetninga barna hefur ekkert með samsæriskenningar að gera.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 26.1.2022 kl. 09:38
Blessaður Geir.
Ég hélt að þú værir frjálshyggjumaður og rauðhærður, það eitt og sér dygði til uppnefningar, en að það leiði til þess að þú sért pólitískt viðrini sé ég ekki alveg samhengi þar á milli.
En ég skil nú samt ekki þessa píslavættisduld þína, hvaða blaðamaður var að smána þig og hæða??, það að spjalla við íslenskan vísindamann og segja að eitthvað sé líklegast í fyrirsögn, getur nú seint talist vera persónuleg árás á þig.
Hins vegar er stýrð hugsun ekki að hugsa sjálfstætt, en það er önnur saga.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 26.1.2022 kl. 09:46
Blessaður Daníel.
Vísa beint í bresku rannsóknina í Nature; "The risks are more evenly balanced in younger persons aged up to 40 years, where we estimated the excess in myocarditis events following SARS-CoV-2 infection to be 10 per million with the excess following a second dose of mRNA-1273 vaccine being 15 per million. ", þeir vísa í israelskar rannsóknir með þessum orðum;
"Two further studies from Israel add to our observations by providing clinical review to ensure robust case ascertainment22 and reporting investigations and outcomes in individual patients with myocarditis following the BNT162b2 vaccine23. Witberg et al.21,22 observed a small excess in events 3–5 days following the second dose of BNT162b2 vaccine, but most were mild presentations and just one classified as fulminant. ".
Fulminant er ekki deadly.
Þarf eitthvað hafa fleiri orð um þetta Daníel??
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 26.1.2022 kl. 11:52
Blessaður Haukur.
Ég hef gaman að lesa Arnar þegar hann skrifar um kynjamál, minnir að ég hafi eitthvað peistað frá honum inní fróðleikspunktaeinkasafn mitt.
En ég skil ekki orð í þessu sem þú vitnar í, dettur einna helst í hug ímyndunarveiki.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 26.1.2022 kl. 11:55
Ómar,
Ég er ekki rauðhærður en Vagninn vinur okkur skrifaði í gær að ég væri hluti af "fámennum jaðarhópi pólitískra viðriðna" og það var því upplagt fyrir mig að nota það í athugasemd þína. Hann hlýtur að hafa rétt fyrir sér því ég er hættur að geta notað Google til að finna nokkuð nothæft, og er það ekki Google sem passar að réttu skoðanirnar séu þær einu sem finnast?
Geir Ágústsson, 26.1.2022 kl. 12:41
Mikill er máttur phótóshoppsins Geir, þegar ég var ungur, og ekki var til neitt nema raunveruleikinn, þá kallaðist þessi litur þarna á myndinni rauður, þó strangt til tekið voru fæstir rauðhærðir sem sagðir voru rauðhærðir, mig minnir að það hafi dugað rauð slikja á annars ljósu hári.
Varðandi félaga Vagn þá hlýtur félagi rafeind að hafa tekið yfir, hún er bæði geðvond og úrill, ekki góð blanda. En varðandi Gúgla frænda, þá hygg ég að þú þjáist af skammtímaminnistruflunum sem hindra heila þinn að setja inn leitarorð um það sem þú vilt lesa.
Ég er ekki í nokkrum vandræðum að finna hvaða vitleysingasíðu sem er, frekar að vandinn sé að komast framhjá þeim ef margir í hjörðinni deila. En ég hygg að þú teljir það ekki vandamál.
Ítreka svo að ég held að blaðamaðurinn hefi ekki á nokkurn hátt verið að sneiða að þér persónulega.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 26.1.2022 kl. 13:16
Blessaður Guðmundur, loksins náði ég að vinna mig upp, bévítaðar þessar truflanir sí og æ sem kenndar er við daglegt líf.
Hvað er sannleikur, hvað er samsæriskenning, hvað er jaðar, svona er endalaust hægt að spyrja, fólk þarf aðeins að passa sig á að enda ekki eins og forngrísku þrætuspekingarnir sem gátu ekki orðið opnað munninn nema með búkhljóðum, því þeim var fyrirmunað að nota venjulegt mál án þess að skilgreina orðin fyrst, og um þá skilgreiningu urðu þeir aldrei sammála.
Ég skal segja þér eina góða samsæriskenningu. Steve Bannon og aðrir drifkraftar sem fóðra hið heimska hægra fyrir vestan hjá Sámi frænda, eru málaliðar, vinna fyrir þann sem borgar, vita ekki hvað hugsjón eða pólitísk lífsýn er. Núna þegar þeir hamast gegn bólusetningum með orðsnilld sinni og hæfninni til að afskræma raunveruleikann, þá eru þeir í vinnu hjá hluta glóbalfjármagnsins sem fékk tilfelli þegar það komst að því að Trump var alvara með því að gera Bandaríkin great again, og hans fyrsta verk var að ráðast að þessu sama glóbali. Þess vegna hætti Stebbi Bann hjá Trump, og tók til að rægja hann niður.
Þeirra helsti ótti er að kallinn hafi heilsu og þrek til að fara fram aftur, þá rúllar hann upp prófkjörum repúblikana, og mun vinna síðan kosningarnar þar sem nokkur lykilríki falla með honum. Þá eru góð ráð dýr, og kórónuveiran kærkomin lausn, hún nefnilega drepur vitleysinga, það eina sem þarf er að fá þá til að láta ekki bólusetja sig. Í ríki eins og Flórída þar sem kosningar vinnast með minnsta mun, þá munar um þessi hátt í 20.000 stuðningsmenn Trumps sem veiran felldi seinni hluta sumars og í byrjun haust.
Ókei, ég veit að þetta eru orð án sannanna, svona svipað eins og þegar Bush stjórnin laug gjöreyðingarvopnum uppá Saddam kallinn, en það eru líka fullyrðingarnar um að veiran hafi sloppið út úr veirustöðinni í Wuhan. Málið og meinið er að þegar opinberir embættismenn eins og forseti USA fullyrðir slíkt eins og Trump gerði, eða gefur í skyn eins og Biden gerði, þá eru þeir ekki Pétur og Páll útí bæ, þeirra er sönnunarbyrðin. Ennþá er sönnunarfærsla þeirra í flugumynd miðað við það sem þó var reynt til að sannfæra heimsbyggðina um gjöreyðingarvopn Íraka, breska leyniþjónustan vann til dæmis skýrslu uppúr háskólaritgerð nemanda við Berkley háskólann þar sem meintar sönnur áttu að vera færðar á vopnin, en það er ekki einu sinni gefin út leyniþjónustuskýrsla sem vitnar í grunnskólanemanda í Alaska.
Mér vitanlega hefur engin meint samsæriskenning um kóvidfaraldurinn reynst vera dagsönn þegar tíminn hefur skorið úr.
En mín gæti verið sönn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 26.1.2022 kl. 13:37
Blessaður aftur Daníel.
Vissulega er hægt að hafa fleiri orð um þetta. Ég vil byrja á að hrósa þér fyrir að halda þér við raunveruleikann, tilvitnun þín í ísraelsku rannsóknina er lofsverð því þar ferðu gegn lyginni sem gegnsýrir skemmtimiðilinn Frétt.is.
304 tilfelli af rúmum 5,1 milljónum tvíbólusetta geta seint talist rök gegn bólusetningum, en er bara staðreynd og hentar því ekki lyginni.
Eina það sem þú flaskaðir á er að ég var að vitna í þann hluta rannsóknarinnar sem fjallaði um áhættuna hjá yngri aldurshópum, og þar fundu þeir það út að hún væri til staðar, og því ætti að velja bóluefni eftir því; "Further research is required to understand why the risk of myocarditis seems to be higher following mRNA-1273 vaccine. Although the wider societal benefits of controlling the spread of virus to those who are more vulnerable are substantial, these data may help inform public health policy and the choice of vaccine offered to younger adults.".
Ekki veit ég hvort þessi eini sem dó hafi verið sá sami og ég las um á annarri ísraelsku rannsókninni (leit yfir þetta í morgun), en ef textinn er lesinn í þessum rannsóknum, þá kemur skýrt fram að fólk sem er í áhættuhópi veirunnar, og þá með allavega 2 áhættuþætti (til dæmis of hár blóðþrýstingur, sykursýki) að það er almennt líklegra til að fá leiðinda aukaverkanir af bóluefnum. Og þetta er líka fólkið sem fyrirfram er vitað að bóluefnin veita ekki fulla vörn gegn alvarlegum veikindum.
En hætta er til staðar, um það er ekki deilt, til dæmis hér á Íslandi er ekki hægt að útiloka eitt dauðsfall megi rekja til veirunnar ef marka má vef Lyfjastofnunar þar um. Síðan er ekki vitað um langtímaáhrifin af síendurteknum dælingu á þessu bóluefnum inní líkamann, það er vitað að þau espa ónæmiskerfið þó reynt sé að vinna gegn því með því að sprauta í vöðva og svo framvegis.
Æskilegast væri að bóluefnin væru ekki með þessa ágalla, og það er unnið að því að þróa bóluefni sem herja á veiruna en ekki mannslíkamann í leiðinni, þetta er jú bara fyrsta útgáfan.
En svona er raunheimur lyfjanna, og þar er margt sem er gefið með miklu hærra dánarhlutfall aukaverkana.
Ég gleymi aldrei þegar ég las viðtal við breskan hjartalækni sem var að spá í hvort það ætti að gefa öllum Bretum eftir ákveðinn aldur, hjartamagnyl, þetta ódýra og áhrifaríka meðal við hjartasjúkdómum og hjartaáföllum. Það gæti sparað vel yfir 200 þúsund mannslíf árlega, hængurinn var að blóðþynningin yki líkur á heilblóðfalli, svona 30 til 60 þúsund á ári.
Honum fannst þetta ekki spurning, og ég veit að hjartalæknar mæla með hjartamagnyl, en eitthvað yrði nú sagt ef dánarhlutfallið væri svona hátt hjá kóvidbóluefnum.
Ef aðeins er talað um skammtímaáhrifin því við þekkjum ekki langtímaáhrifin þá eru þau mjög neðarlega á lista lyfja yfir hættulegar aukaverkanir.
Og það væri engin að ræða það ef það hentaði ekki pólitískum öfgaöflum í Bandaríkjunum að kynda undir þá umræðu. Stjórnleysingjarnir einir og sér myndu aldrei ná þessari umræðu á það flug sem hún er í dag, ekki heldur fólkið úr náttúrulækningageiranum eins og Guðrún Bergmann frænka mín.
Ætli fjöldin óbólusettra sem veiran hefur fellt sé ekki í dag komin upp í 180.000 í Bandaríkjunum einum.
Það er há tala Daníel, mun hærri en 1 af 5,2 milljónum.
Það sjá allar skynsemisverur.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 26.1.2022 kl. 14:05
Dauðsföll sem afleiðing af sprautunum Ómar er ekki nema að litlu leyti bundin við hjartavöðvubólgu. Heilablóðfall mun vera langalgengasta dánarorsökin vegna sprautanna. Þannig að þessi samanburður hjá þér hér að framan með 1 af 5,3 milljkónum á engan veginn við.
Bara svo við tökum Ísland þá mun tala látinna af völdum Covid vera um 36 ef ég man rétt og tala látinna í kjölfar bólusetninganna vera e-ð svipuð eða 35 að mig minnir.
Daníel Sigurðsson, 26.1.2022 kl. 16:57
Blessaður Daníel.
Ekki láta mig iðrast að hrósa málefnalegri umræðu þinni.
Hjartakvillar eru algengustu fylgikvillar bólusetningar vegna kóvid.
Ég veit að málaefnaleg umræða þín er áfall fyrir vitleysingahjörðin sem sækir sér íslenska næringu í skemmtimiðilinn Fréttin.is, en samt Daníel, hjá þeim máttu iðrast líkt og Galíleo forðum, en þú þarft ekki að spila þig dupíus hérna í athugasemdarkerfi mínu.
Þú átt að vita að ég skrifa fyrir vitiborið fólk, vitleysingahjörðin er ekki hérna inni, hún mun aldrei lesa orð þín, hvað að hún hafi vitsmuni til að skilja þau.
Slepptu því þessu sem þig minnir, það er of heimskt fyrir vitsmunaverur, eiginlega of heimskt fyrir allar þær undirtegundir sem kenna sig við sapiens, vissulega má gera ágreining um orðið Homo, það er ef við ætlum homo stupidius sem sérstaka undirtegund.
Ef ég væri þú Daníel, þá myndi ég eiginlega biðja mig um að þurrka út þessa athugasemd þína, og biðja mig töku 2.
Svona þér til ábendingar þá eigum við Þorsteinn og Geir alveg ágætis spjall, án þess að þeir kviki frá grunnskoðunum sínum, en virða um leið heilbrigða skynsemi, bæði hjá mér sem og þeim.
Taka 2 Daníel, og ég skal bæði þurrka út athugasemd þína, sem og þá sorg sem orð mín hér að ofan tjá.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 26.1.2022 kl. 18:03
Nei, Ómar, ég stend við þessar tölur samanburðarlega séð að fjöldi þeirra sem látist hafa úr Covid og þeirra sem látist hafa í kjölfar bólusetninga er u.þ.b. sá sami.
Ég fullyrði að þæt tölur sem ég nefndi 36 annars vegar og 35 hins vegar eru ekki fjarri lagi.
Hafði ekki tíma til að fara in á Covid.is og lyfjastofnun.is. til að nálgast nýjustu skráningu en ætla að skoða þetta á eftir því nú hef ég nægan tíma.
Daníel Sigurðsson, 26.1.2022 kl. 21:48
Héna eru nýjustu tölur Ómar.
Andlát vegna Covid komiö uppí 45 skv. Covid.is en ekki 36 eins og mig minnti.
Andlát í kjölfar bólusetninga 35 skv. Lyfjastofnun.is eins og mig minnti.
Það skal auðvitað viðurkennt að það er lengra á milli talnanna en mig minnti.
Þannig að réttara hefði verið að segja að stærðargráðan sé svipuð.
Daníel Sigurðsson, 26.1.2022 kl. 22:40
Blessaður Daníel.
Ég get ekki annað en ítrekað við þig að þú þarft ekki að spila þig hérna inni, hér ertu í skjóli fyrir vitleysingahjörðinni sem þú af einhverjum ástæðum kýst að samsinna þig við.
Lestu bara það sem þú skrifaðir hér að ofan, vissulega í þeim tilgangi að argast eitthvað í mér enda veistu að mér þykir slíkt ekki leiðinlegt, en þú vitnaðir í rannsóknir, staðreyndir. Hvernig var þetta aftur, nenni ekki að kíkja en eftir minni þá sagðir þú af 5,2 milljónum tvíbólusettra í Ísrael hefðu 304 tilvik um hjartakvilla verið greind, þar af 1 dauðsfall.
Núna skammast þú þín ekki fyrir að vitna í heildartölu tilkynninga og kemst að því að 45 hafa fallið hér af völdum bólusetninga hjá rúmlega 300 þúsund manna þjóð.
Tilkynningarnar í Ísrael voru auðvitað margfalt margfalt fleiri því til að hægt sé að vega og meta hugsanlegar aukaverkanir þá þarf að tilkynna allt sem kemur uppá eftir að viðkomandi lyf er tekið í notkun. Þar sem bóluefnin hafa ekki gengið í gegnum langtímafasa rannsókna, þá er þetta sérstaklega mikilvægt núna, að tilkynna, rannsaka og meta.
Hérna á Íslandi hafa menn auðvitað gegnt þessari skyldu, og það sem meira er, menn hafa líka rannsakað þó kannski hátt hafi ekki farið. Fyrst þú getur flett uppá vef Lyfjastofnunar Daníel, þá gastu alveg eins klikkað á linkinn um þær rannsóknir, það er ef þig langar að halda þér upplýstum og að geta tekið vitræna umræðu við fólk.
Af þeim tilvikum um hjartavöðvabólgu sem voru rannsökuð var eitt tilvik talið líklegt að væri vegna afleiðinga kóvid bólusetningar, og þær niðurstöður stemmdu við rannsóknir úti, það er sem hlutfall af fjölda bólusettra.
Þetta eina tilvik hefðu menn ekki fundið ef allar tilkynningarnar hefðu ekki komið til, því menn rannsaka ekki fyrst og tilkynna svo.
Þetta veistu alveg Daníel, þú ert það skynsamur og vel gefinn maður, þú kýst bara að segja annað.
Þetta sér alveg vitiborið fólk, um það er ekki deilt.
Þannig að Daníel, ég veit ekki. Hugsanir manns eru auðvitað frjálsar, og maður ræður hvaða hópi maður vill tilheyra. Margur maðurinn sem sá alveg kúgunina og ofbeldið í gamla Sovétinu, en kaus samt að tilheyra kommunum, þar voru menn eitthvað.
En Daníel, samt, ég veit ekki.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 27.1.2022 kl. 08:49
Þú sagðir orðrétt hér að ofan í innleggi nr. 15:
Ætli fjöldi óbólusettra sem veiran hefur fellt sé ekki í dag komin í 180.000 í Bandaríkjunum einum.
Það er há tala Daníel, mun hærri en 1 af 5,2 milljónum.
Það sjá allar skynsemisverur.
Jú, mikið rétt eða um 2000 sinnum hærri! Þarna er rosalegur munur á stærðargráðu, en forsendur samanburðarins eru bara ekki réttar eins og ég benti á.
Ég sagði í innleggi nr. 16:
Dausföll sem afleiðing af sprautunum Ómar eru ekki nema að litlu leyti bundin við hjartavöðvubólgu. Helablóðfall mun vera langalgengasta dánarorsökin vegna sprautanna. Þannig að þessi samanburður hjá þér hér að faman með 1 af 5,2 milljónum á engan vegin við.
En þar sem mig skorti tölur frá Bandaríkjunum þá tók ég Ísland sem dæmi:
Andlát vegna Covid 45 (eftir leiðréttingu, en ekki 36) og andát í kjölfar bólusetninga 35.
Hver er hlutfallslegi munurinn þarna?
Hann er ekki nema 45/35 = 1,28 sem segir að stærðargráðan sé svipuð.
Þú ert e-ð að misskilja Ómar minn að ég sé að samsama mig við einhverja vitleysingahjörð þó ég leyfði mér að leiðrétta rangan tölfræðilegan samanburð sem þú settir fram innleggi þínu nr. 15. Þar með er ég ekki að halda því fram að þú kunnir ekki sæmileg skil á tölfræði. Nei, þú varst einfaldlega of fljótur að smella á send held ég, enda skynsemisvera.
Að lokum þakka ég svo bara fyrir skemmtilegar skylmingar.
Daníel Sigurðsson, 27.1.2022 kl. 13:21
Blessaður Daníel.
Þegar ég tala um vitleysingahjörð, svona fyrir hæfnina að trúa hvaða fjarstæðu sem er, þá er ég að vísa í fólk sem skilur ekki þessa setningu sem má lesa um á vef Lyfjastofnunar; "Mikilvægt er að hafa í huga að um er að ræða tilkynningar vegna gruns um aukaverkun. Það merkir að tilkynnt tilvik hafa átt sér stað í kjölfar bólusetningar gegn COVID-19, en segir ekki til um hvort um orsakasamhengi er að ræða milli tilvikanna og bólusetningarinnar".
45 manns hafa ekki dáið vegna kóvid bólusetningar, að halda því fram er vitglöp. Og ég veit ekki hvaða afsökun þú hefur Daníel, fyrst þú kannt að fara inná vef Lyfjastofnunar, þá er þér í lófa lagt að klikka á linkinn sem segir frá rannsóknum á þessum meintum aukaverkunum. Þar fyrir utan hafði ég meir að segja fyrir því að segja þér frá niðurstöðunni varðandi hjartabólguna.
Heilablæðing er EKKI langalgengasa dánarorsökin í kjölfar bólusetninga.
Innlendar dánartölur segja ekkert til alvarleik veirunnar, hér voru stífar samfélagslegar lokanir fram að bólusetningum, sem sannarlega verja um 90% fólks í áhættuhópum fyrir alvarlegum veikindum.
Tölurnar í Bandaríkjunum koma frá prómil landsins þar sem það fór saman lágt bólusetningarhlutfall og samfélagslegum hömlum var aflétt of snemma. Þar náði veiran að grassera hjá óbólusettu fólki, sem að megninu til var yngra en 60 ára og ekki í áhættuhópum.
En fyrst og síðast Daníel, þú kaust að gera fyrstu athugasemd þína út frá þekktri rannsókn, þar sem mengið var 5,2 milljónir. Þú hlaust að sjá fáránleikann að bakka síðan í margfaldan fjölda dauðsfalla í miklu smærra mengi. Annað dæmið útilokar hitt, nema það fyrra er úr viðurkenndri rannsókn líklegast þróaðasta vísindasamfélags heims, hitt tilkynnt dauðsföll án nokkurrar sannaðar tengingar.
Kommon Daníel, kommon.
Það er ekki bæði sleppt og haldið.
Kveðja að austan.
PS. Ég þakka spjallið líka.
Ómar Geirsson, 27.1.2022 kl. 15:20
Mér sýnist að síðasta innlegg þitt þurfi smá athugunar við Ómar.
Byrja á því að leiðrétta þig í s.b.v. töluna um fjölda aukaverkana í kjölfar bólusetninga sem þú skrifar. Hún er ekki 45 heldur 35 skv. lyfjastofnun.is., eins og ég var búinn að benda á.
Mér sýnist þú ætlir að halda því fram til streitu að hjartavöðvubólga sé eina orsök dauösfalla af völdum bóluefnanna í Bandaríkjunum sem er fjarri lagi. Ætla ég ekki að elta lengur ólar við það.
Engar alvörurannsóknir hafa verið gerðar um hvort orsakasamhengi sé á mill skráðra dausfalla í kjölfar bólusteningar og bóluefnanna, a.m.k. ekki hérlendis. Engar krufningar voru gerðar. Þó að einhver matsnefnd telji sig ekki hafa fundi neitt sannar það á engan hátt að bóluefnunum sé ekki um að kenna.
Landspítalinn hefur að undanförnu úpplýst að nú loks sé farið að gera greinarmun á því hvort einstaklingur á bráðadeild sé með Covid, en innlagður af öðrum orsökum, eða vegna Covid. Þannig að nú vaknar sú spurning hvort hluti þeirra skráðu 45 Covid-dauðsfalla hafi verið einstaklingar sem voru lagðir inn með Covid en ekki vegna Covid. Líklega er ekkert hægt að sanna í þeim efnum úr þessu.
Nýlega féll dómur þess efnis að bóluefnaframleiðendum væri skylt að opinbera öll gögn er lúta að tilraunir þeirra áður en bóluefnin fengu skilyrt markaðsleyfi. Þeir urðu að hlýta þessum dómi þannig að þegar er búið að birta mikið af gögnum. Þeirra kröfu um 50 ára leynd var hafnað. Þessi skjöl eru nú aðgengileg á netinu,
Í hluta af þessum skjölum, sem þegar hafa verið birtur, kemur fram að alvarlegar aukaverkanir og dauðsföll komu fram í tilraununum í miklu meira mæli en framleiðandinn lét í veðri vaka. Tekið skal fram að um tilraunir var að ræða þar sem öðrum hópnm var gefið lyfleysusprauta en hinum bóluefnasprauta.
Þannig að ekki þarf að koma á óvart að allt að merihluti þeirra 35 tilkynntra dauðsfalla í kjölfar bólusettninga hér á landi sé bóluefnunum að kenna. Í öðru lagi er alls ekki vitað með neinni vissu hvort bóluefnin eigi sök á daudsföllum sem eiga sér stað löngu eftir bólusetningu.
Daníel Sigurðsson, 27.1.2022 kl. 16:55
Daníel.
Lestu þessa setningu yfir sem ég tók úr bresku rannsókninni; " "Further research is required to understand why the risk of myocarditis seems to be higher following mRNA-1273 vaccine. Although the wider societal benefits of controlling the spread of virus to those who are more vulnerable are substantial, these data may help inform public health policy and the choice of vaccine offered to younger adults."." Nú þegar hafa yfirvöld skipulagt örvunarskammta eftir þessum ábendingum, ungir karlar fá ekki það bóluefni sem eykur líkurnar á hjartabólgu, alveg eins og menn lærðu af harmleiknum í Noregi þegar nokkrar ungar konur dóu sannarlega vegna AstraZen bóluefnisins.
Menn leggja þetta til vegna þess að þetta er megin riskþátturinn, það er þess vegna sem menn eru að rannsaka þetta en ekki annað.
Að segja annað er tilbúningur og skammaðu þann sem kom því inn hjá þér að heilblæðingar væru aðaláhættuþátturinn.
Annað, ég reikna með að þú hafir uppgötvað að þú sért ekki það mikil kona að þú skiljir í raun ekki þessa setningu sem tekin er af vef Lyfjastofnunar; "Mikilvægt er að hafa í huga að um er að ræða tilkynningar vegna gruns um aukaverkun. Það merkir að tilkynnt tilvik hafa átt sér stað í kjölfar bólusetningar gegn COVID-19, en segir ekki til um hvort um orsakasamhengi er að ræða milli tilvikanna og bólusetningarinnar".
En mótrök þín eru ákaflega kvenlæg, það er ekkert krufið, ekkert rannsakað, aðeins matsnefnd. Rökleysan í þessu er sú Daníel, að rannsóknir á aukaverkun lyfja eru ekki gerðar með krufningu, ef svo væri þá væru líkskurðarmenn fjölmennasta stéttin innan heilbrigðiskerfisins. Það sem þú kallar matsnefnd, er ferlið þar sem sérfræðingar fara yfir sjúkraskýrslur viðkomandi, bæði það sem þegar var til um viðkomandi sjúkling sem og þau veikindi hans sem í þessu tilviki leiddu til dauða. Þeir skoða líka öll tölfræðileg frávik því tíðni sjúkdóma er þekkt og öll frávik frá þeim tekin alvaralega.
Þetta er hið viðurkennda ferli og það er ekkert öðruvísi í þessu frekar en öðrum rannsóknum á aukaverkunum nema kannski við Íslendingar eru ekki vanir að rannsaka þetta sérstaklega, en niðurstöður okkar eru í takt við niðurstöður annarra. Og það er skýrt tekið fram á í liknum á vef Lyfjastofnunar sem fjallar um niðurstöðu þessarar rannsóknar og öll skot á vangetu Landsspítalans dæma sig sjálf. Og í alvöru talað Daníel, það þarf mjög sterkt vinstra heilhvel á móti mjög veikri rökhugsun þess hægra að vefengja staðreyndir með þeim rökum sem þú grípur til.
Kjarninn er sá að allt þetta er rannsakað og menn taka þetta alvarlega, út frá þeirri þekkingu sem menn búa yfir og með þeirri aðferðafræði sem vísindin hafa þróað. Komi fram tölfræðileg frávik þá taka menn þau alvarlega, og það er útilokað að læknavísindin um allan heim séu í einhverju samsæri við að þagga niður dæmi um hugsanlegar aukaverkanir, lönd eru ekki einsleit, og auk hins þróaða heilbrigðiskerfis í hinum vestræna heim, þá eru ríki Austur Asíu í fremstu röð, ef það eru frávik, þá er einhvers staðar tekið eftir þeim.
Þetta er það sem heilbrigð skynsemi segir manni, og því segir hún manni það líka að þessi meintu leyniskjöl sem þú ert að vísa í, er sögn, eða lygi réttara sagt, hin myrku öfl sem fjármagna andstöðuna gegn bólusetningum víla sér ekki fyrir að fjármagna meinta sérfræðinga sem ljúga um hvern annan þveran.
Þú kemst ekkert upp með að falsa rannsóknir, spurðu bara Boeing, raunveruleikinn afhjúpar alltaf slíkt fals. Ennþá hefur hann gengið í takt við niðurstöður skammtíma rannsókna lyfjafyrirtækjanna, og mundu að þó þessi bóluefni sé kennd við ákveðin lyfjafyrirtæki þá hafa svo margir margir aðrir komið að þeim, en réttilega veit enginn um langtímaáhrif, þó fyrri reynsla að notkun svipaðra bóluefna bendir til þess að menn hafa náð að hemja ágallann (áreita ónæmiskerfi líkamans) við notkun þessara nRna efna.
Það er það eina sem eftir stendur í rökfærslu þinni Daníel sem er rétt. Meðal annars þess vegna er vísindamenn á fullu við að þróa bóluefni sem hafa ekki þetta áreiti, lækningin má jú ekki vera verri en veikindin. Og þetta eru gild rök fyrir að vilja ekki bóluefni á tilraunastigi með þessum þekkta ágalla. Þess vegna er ég til dæmis á móti skyldubólusetningu, völin og kvölin hlýtur alltaf að vera einstaklingsins.
Bábiljurnar og vitleysurnar eru hins vegar aldrei rök í þessu dæmi, frekar en í öðrum.
Og þar minnist þú á eitt sem virðist núna verið notað til að blekkja fólk um meintan alvarleik faraldursins í dag. Kóvid er þekktur skilgreindur sjúkdómur, afleiðingar hans geta verið banvænar í vissum tilvikum. Sé það það sem dregur fólk til dauða, þá á að skrá andlát þess á kóvid, ekkert annað. Ef maður með kvef fær hjartaáfall og deyr, þá skráist andlát hans ekki á kvefið.
Alveg eins er það með fólk sem deyr, er með kóvid, en deyr af elli eða öðrum sjúkdómum, það er fölsun á dánartölum að skrá slíkt á kórónuveiruna.
Þessi orðrómur er á kreiki í dag og Landspítalinn hefur ekki hreinsað sig af honum. Sem er miður og vekur uppi grunsemdir.
Blekkingar eru alltaf ólíðandi, það er bara svo.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 28.1.2022 kl. 09:04
Þú mættir vera nákvæmari Ómar og hafa rétt eftir.
Ég hélt því því aldrei fram að heilablæðingar væru algengasti riskþátturinn varðandi alvarlegar aukaverkanir í kjölfar bólusetninganna. Ég hélt því hins vegar fram að heilablæðingar væru algengasta orsökin þegar um dauðsföll í kjölfar bólusetninga væri að ræða.
Við vorum að deila um hlutföll dauðsfalla í s.b.v. ísrelska rannsókn, eitt dauðsfall per 5,2 milljón í Ísrael vegna hjartavöðvubólgu. Hinns vegar sýndi sama rannsókn fram á 304 tilkynningar um aukaverkanir vegna hjartavöðvubólgu. Hjartvöðvubólga er auðvitað litin mjög alvarlegum augum enda skemmdir á hjartavef ekki afturkræfar skemmdir heldur varanlegar og hefur í mörgum tilfellum leitt til dauað siðar meir, áður en þessu bóluefni komu til sögunnar.
Ég stend hinsvegar við þá staðhæfingu mína að heilablóðfall er helsta orsök dauðsfalla í kjölfar bólusettninga og mætti bæta við blóðtappa í lungum. Þetta eru til að mynda langhelstu orsakir dauðsfallanna í kjölfar bólusetninga hér á landi en alls ekki hjartavöðvubólga ef þá nokkur.
Þannig að ég vísa vitaskuld eftirfarandi ummælum þínum til föðurhúsanna:
Að segja annað er tilbúningur og skammaðu þann sem kom því inn hjá þér að heilablæðingar væru aðaláhættuþátturinn.
Að lokum ætla ég að nýta þetta tækifæri til að koma eftirfandi á framfæri varðandi innlegg mitt hér að framan undir nr. 21:
Þar setti ég fram að hlutfallslegur munur á fjölda andláta, 45 vegna Covid og andláta 35 í kjölfar bólusetninga, væri 45 / 35 = 1,28.
Strangt til tekið eru forsendurnar þarna ekki alveg réttar því þarna eru inni tölur allt frá og með árinu 2020 en á því ári var ekki byrjað að bólustetja gegn Covid og því ber að sleppa dauðsföllunum vegna Covid fyrir þetta ár í þessum tölfræðilega samanburði. Þá standa eftir aðeins 11 dauðsföll vegna Covið fyrir árið 2021. Þannig að ef við tökum árið 2021 þá lítur hlutfallstalan út svona, þar sem ég set núna dauðsföll í kjölfar bólusetninga í teljara og dauðsföll vegna Covid í nefnara:
Þ.e.a.s. 35 / 11 = 3,18 M.ö.o. er dánartala í kjölfar bólusetninga rúmlega 3 sinnum hærri en vegna Covid árið 2021.
Daníel Sigurðsson, 28.1.2022 kl. 15:10
Blessaður Daníel.
Þú átt virðingu mína fyrir að reyna.
En þú lítilsvirðir bæði vitsmuni þína sem og mína með því að halda þig við tölu hinna tilkynnta dauðsfalla.
Það eina sem ég sagt við þig og ítrekað, þú ert ekki í því umhverfi að þú þurfir að spila þig fífl til að vera gjaldgengur.
Ég veit alveg Daníel að það þarf vitsmuni og rökhyggju til að halda á málum eins og þú gerir hér sem og áður.
Hættu því að hengja þig á þessa vitleysu að leggja grun að jöfnu sem staðreynd.
Þú ert miklu betri en þetta.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 28.1.2022 kl. 15:32
Í þessum tölfræðilega samanburði kemur skýrt fram hjá mér að dausföllin 35 komi í kjölfar bólusetninga, eins og hún er skráð hjá Lyfjastofnun. Í samanburðinum er því engin afstaða tekin um hvort dauðsföllin séu af völdum bóluefnanna eða ekki, en þau áttu sér sannanlega stað í kjölfar bólusetninga.
Ástæðan fyrir því að Lyfjastofnun skráir þetta svona þó einhver matsnefnd telji sig ekki hafa fundið orsakasamhengi, í einhverjum tilfellum eða jafnvel öllum, að þá liggja ekki fyrir neinar sannanir fyrir því að bóluefnin séu ekki sökudólgurinn. Grunurinn er semsagt í það minnsta fyrir hendi.
Um þetta held ég að við getum verið sammála Ómar, ekki satt (!?)
Annars takk fyrir gott spjall.
Daníel Sigurðsson, 28.1.2022 kl. 18:48
Daníel, reyndar ekki.
En það breytir ekki því að þú ert verðugur andstæðingur að takast á við.
Það er eins og þú sért deyjandi tegund Daníel.
Og núna, lokaorðin.
Takk fyrir spjallið, það er gefandi, fyrir mig sem hefur upplifað að svona pistlar hafa fyrir löngu þjónað sínum tilgangi, nennan er engin, í því samhengi ert þú líkt og ljós í myrkri óskoðanaskipta.
Játa hins vegar fúslega að þar er sökin mín, það er langt síðan að ég missti þann mátt að orð mín hreyfðu við þó þessa lesendur bloggs míns.
Kallast þetta ekki að vera úreltur??
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 28.1.2022 kl. 18:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.