Rænum og ruplum.

 

Söng Glanni glæpur, og var fyndinn, enda tók hann enginn bókstaflega, enda persóna í barnaleikriti.

 

En fólkið sem vildi vega að lífi og heilsu um 60 þúsund Íslendinga, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, dómarar, lögfræðingar, þeir eru ekkert í barnaleikriti.

Þeir hrópa ekki, sýkjum og drepum, en þeir börðust samt fyrir ótímabæru andláti samborgara sinna.

 

Og fara ekkert í jailið frekar en Glanni glæpur, enda hann sögupersóna sem þarf að ganga laus fyrir framvindu leikritsins, en hvert er hlutverk þeirra sem vega að, og leggja sig fram um að valda samborgurum sínum ótta við að sýkjast, þjáningum ef þau veikjast, og ótímabærum dauða ef veiran nær í gegnum varnir líkamans.

Hvert er hlutverk þessa fólks í leikritinu sem við köllum raunveruleiki, og þar sem um líf og dauða er að tefla fyrir um 60 þúsund samlanda okkar?

 

Skiptir það engu, því til er fólk með meiri völd og áhrif í Sjálfstæðisflokknum, sem heldur þessum villidýrum dauðans í skefjum, og að þjóðin hlustar ekki á lögfræðinga og fordæmir dómarann.

Lítur á hann eins og hvert annað viðrini sem þannig séð á að vera á safni innan um vaxstyttur af Axlar Birni, Hannibal Lecter og annað stórskrýtið krípí fólk.

 

Hvað sagði þingmaður Sjálfstæðisflokksins aftur, og lét hundruð fylgjenda sinna fá blæti af æsingi; að sóttvarnir eigi "að höfða til almennrar skynsemi og samstarfsvilja almennings", hve mörg þúsund samlanda okkar væru fallin, ekki lengur meðal vor.

Vinir, ættingjar, jafnvel okkar nánustu fjölskyldumeðlimir, að ekki sé minnst á fólkið allt í kringum okkur, fólkið sem við köllum dagsdaglega samferðafólk okkar.

 

Eða eigum við að tala um Moggann og myrkrið sem yfirtók ritstjórnarherbergi þess og hvatti til þess í Reykjavíkurbréfi að veiran fengi frelsi til að ráðast á þessa 60 þúsund samlanda okkar.

Hefur síðan ötula nagað gegn sóttvörnum þjóðar okkar, og gert rugli og hálfsannleik jafn hátt undir höfuð og alvöru fréttum, sem vissulega hafa fengið sitt pláss á síðum Morgunblaðsins.

Líkt og blaðið teldi sig vera uppfærslu á leikriti um doktor Jekyll og herra Hyde, annar góðmenni, hinn viðbjóðslegur fjöldamorðingi, en báðir deilandi sama líkama.

 

Ef maður hugsar út í þetta, hina fjársterku sérhagsmuni, sem ná inní dýpsta valdakjarna Sjálfstæðisflokksins, þetta kolruglaða lið sem berst fyrir frelsi veirunnar  til að veikla og drepa, í nafni öfugsnúinna mannréttinda og brenglaðs veruleikaskyns á frelsi, þá getur maður ekki annað en tekið ofan hattinn fyrir manninum í brúnni, Bjarna Ben, formanni Sjálfstæðisflokksins, sem allan tímann hefur haldið haus, og aldrei samsinnað sig ruglinu.

Hvað það varðar er hann ekki ættleri Engeyingaættarinnar, heldur í raun ættarlaukur á við þá bestu sem þessa merka sjálfstæðisætt hefur gefið þjóð okkar.

Í raun ætti hattlaus maður eins og ég að kaupa hatt til að taka ofan.

 

Heimsfaraldur kórónuveirunnar er alls ekki búinn, í raun höfum við aðeins séð forstig hans, líkt og svikafriður seinna stríðs sem kenndur var við veturinn 1939-1940, þegar átök voru aðeins forsmekkur þess sem síðar kom, og sterk öfl innan borgarstéttar Vesturlanda hvöttu til friðar, og seinna uppgjafar, fyrir Þýskalandi nasismans, þar væri herfáninn gegn hinum guðlausu kommúnistum Sovétanna.

Blekking sem dró þróttinn úr og seinna eyðilagði varnir Frakklands.

Þá hélt samt kjarni borgarlegra íhaldsmanna haus, og sigur vannst að lokum.

 

Í dag trúum við því að faraldurinn verði brátt að baki, við sjáum birtuna við sjóndeildarhringinn, en lokum svo augum þegar glittir í svartan kólgubakka í fjarskanum.

Veiran er stjórnlaus í fjölmennum löndum eins og Indlandi, hún mallar í Suður Ameríku, á lokametrum bólusetningarinnar opna heimskir stjórnmálamenn Vesturlanda fyrir leiðir hennar inní samfélögin, enginn veit hvenær stökkbreytta afbrigðið sem bólusetningin bítur ekki á, kemur fram, það eina sem er vitað, þegar það gerist, þá er leiðin greið fyrir nýjan faraldur.

Svikafriðurinn verður að grimmu ófriðarbáli sem margir munu ekki lifa af.

Þetta er að gerast, aðeins kraftaverk getur hindrað, og því miður er lífið ekki Hollywood mynd sem endar vel.

 

Borgarlegir íhaldsmenn sem halda haus, eru skjól okkar og skjöldur gegn nagi fjársterkra sérhagsmuna sem láta sig dauðan og djöfulinn varða líf og limi samlanda sinna, enda nokkuð augljóst úr hvaða jarðvegi hugmyndafræði þeirra er ættuð.

Aðrir stjórnmálamenn eru svo sundraðir og auðkeyptir, að þeir eru engin fyrirstaða gegn hinum fjársterku sérhagsmunum.

Það sannaði sig í hildarleiknum 1939-1945, og mun sanna sig í komandi stríði við kórónuveiruna.

 

Hvað þetta varðar hefur Íslands ógæfa ekki orði allt að vopni.

Gæfa þjóðarinnar eru menn eins og Bjarni sem hafa haldið haus.

 

Það er það sem skiptir máli.

Ekki hitt.

 

Fögnum því að þessir 60 þúsund samlandar okkar hafa fengið skjól þar til bólusetning handa þeim er tilbúin.

Slíkt er og var ekki sjálfgefið.

 

En þetta tókst, við færðum öll fórnir.

En þetta tókst.

 

Svo er ofurdeildin úr sögunni.

Kveðja að austan.


mbl.is 60 þúsund í áhættuhópi vegna Covid-19
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Þú skrifaðir nýlega pistil sem fékk misjafnar undirtektir, Ómar, þar sem þú sagðir íslenzk stjórnvöld orðin rasísk. Hér minnist þú á hildarleikinn 1939-1945 og mannfallið þar. 

 

Spurningin er þessi: Ertu enn sammála því að sænsk stjórnvöld og önnur stjórnvöld sem verja ekki landsmenn sína fyrir veirunni nægilega séu jafnsek og nazistarnir í seinni heimsstyrjöldinni sem með helförinni útrýmdu Gyðingum kerfisbundið? 

 

Það sem hvetur mig til að koma með athugasemd eru þessi líkindi, fólkið sem deyr út af veirunni og fólkið sem deyr út af styrjöldum eða mannhatri tengdu styrjöldum. 

 

Önnur markverð spurning og heimspekileg: Nú eru býsna margir þeirrar skoðunar að Kínverjar hafi sent þessa Covid-19 veiru viljandi af stað útí andrúmsloftið til að efla sitt ríki og fækka öðrum, hafi jafnvel bólusett elítuna hjá sér fyrirfram. Spurningin er þá þessi: Er þetta ekki þjóðamorð og eitthvað enn svakalegra en það sem gerðist í umræddri styrjöld, sem mest hefur verið gagnrýnd og þeir sem stóðu fyrir henni? 

 

Er ekki orðið tímabært að átta sig á því að til eru fleiri ógnir en nazistar eins og þú gerir? 

 

Ég er enginn kapítalisti, heldur þjóðernissinni og ef þú ert hriflungur að ætterni þá lærði ég að meta stefnu Jónasar frá Hriflu á mínu heimili, þar sem talið var hryllingur að ganga í Evrópska efnahagssvæðið og gangast undir erlenda áþján og kúgun. Þar var talað um hvort þjóðin hefði ekkert lært af öldunum sem Danir gáfu okkur maðkað mjöl. 

 

Þú kemur inn á marga áhugaverða punkta í þessum pistli.

 

Kapítalisminn hlutgerir manneskjur, í þeirri hugmyndafræði er það píramídaskipulagið sem ræður, samvizkulausir, ofurríkir billjarðamæringar á toppnum, Bill Gates og slíkir menn sem gefa til mannúðarmála til að þagga niður í óánægjuröddum og mótmælum, en láta svo aðra eins billjarða í eitthvað sem þolir kannski ekki dagsins ljós og er ekki rætt um. 

 

Sjálfstæðisflokkurinn og íslenzkt auðvaldslið er ekki í efsta hluta píramídans en lýtur sömu reglum. Gleymum því ekki að vinstriflokkarnir og jafnaðarflokkarnir eru langflestir með í þessum leik, þiggja múturnar, samsekir. 

 

Í bókinni "Falið vald" eftir Jóhannes Björn Lúðvíksson kemur fram hvernig Rothschildar og Rockefellerar og slíkar stórættir fjármögnuðu styrjaldir fortíðarinnar. Eru þessar ættir enn að stjórna? 

 

Íslenzk spilling er hluti af sama meiði og sú erlenda er. 

Ingólfur Sigurðsson, 25.4.2021 kl. 14:43

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Ingólfur.

Það er ekki oft sem mér leiðist svo United leikur að ég hendi inn pistli í hálfleik, en svo fékk ég þessa athugasemd þína sem gerði kröfu á kaffibolla, sem ég útvegaði mér og settist svo niður með, samt með eyrað við Völlinn, það er kjaftaþáttinn um leiki helgarinnar. 

Í það fyrsta langar mig að bregðast við fyrstu setningu þinni, þessu sem fylgir í starfslýsingunni hjá kallinum á kassanum, að það þurfi að segja það sem segja þarf þó jarðvegurinn sé misgrýttur fyrir þau orð, en ég þannig séð var að benda á víti sem eru aldrei réttlætanleg, að nýta almannahagsmuni til að setja lög eða reglur sem mismuna.  Tónninn var vissulega hvass, annað markleysa, því það þurfti að mæta þessu ef mönnum var virkilega alvara með þessa nálgun sína á sóttvörnum.  Þó ég fylgist ekki mikið með þá efa ég ekki að fleiri hafi vakið máls á þessu, og stjórnvöld gert sér grein fyrir á hvaða hálan ís þau voru komin, en það þurfti lendingu stjórnarandstöðunnar til að lenda þessu máli.  En þeir sem skrifa um þjóðfélagsmál, og átta sig ekki á þessu víti, þeir er ekki hæfir, eða eru hluti af einhverjum hagsmunum þar sem rétt eða rangt miðast út frá viðkomandi hagsmunum.

Þess vegna Ingólfur er gott að vera Hriflungur, við erum jú útdauðir.

En þetta tengist spurningu þinni þar sem þú tengir orð mín um seinna stríð, við pælingu hvort vísvitandi lélegar eða ófullnægjandi sóttvarnir séu líkja megi við sekt Þjóðverja í útrýmingu þeirra á hinu óæðri.  Ég nota orðið óæðri því það voru miklu fleiri en gyðingar sem lentu í þeim hremmingum, en allt byrjaði þetta þegar engin reis upp og mótmælti þegar hugmyndafræðin var komin fram, og var farin að sýna viðleitni í þá átt sem seinna varð þessar hremmingar sem allir vildu stöðva hafa, eftir á.

Það þarf að segja satt þegar svona kemur uppá og það þarf að hafa kjark til að taka umræðuna.

Hins vegar man ég ekki eftir því að hafa talið sænsk stjórnvöld, þó ég hafi benti á að þau væru fjöldamorðingjar, og skjalfestar staðreyndir hafa leitt það í ljós að það var viljaverk að vernda ekki hjúkrunarheimilin nægjanlega til að byrja með, séu jafnsek og nasistar, veit ekki til þess að ég hafi nokkurn tímann borið þessa sekt saman.  Hef hins vegar sagt að þetta eru mestu fjöldamorð í vestrænni sögu frá seinna stríði, en þá er ég að vísa í nagið gegn sóttvörnum og þær afleiðingar sem þær hafa haft.

Hins vegar eru fingraför þess í neðra auðséð á naginu, en það hefur ekki haft þann styrk sem þarf til að jafna óhæfu nasista eða skáka henni.  Um það er ég einmitt að fjalla í þessum pistli, það er að borgarlegir íhaldsmenn hafa sýnt styrk og staðið gegn óhæfunni, líkt og þeir gerðu í seinna stríði, en ég tók það sem dæmi því ég óttast að við séum aðeins í byrjun átakanna við veiruna og liðsmenn hennar í mannheimum, en ég vona innilega að ég sé ekki sannspár.

Og sektin verður svo sem ekki rædd fyrr en að hildarleiknum loknum.

Þetta er þegar langt mál, við hverju öðru er að búast hér á þessari síðu, og ég ætla því að svara restinni í annarri athugasemd, þar tengjast pælingar þínar og spurningar.

En á meðan er það kveðjan úr hafsúldinni hér fyrir austan.

Ómar Geirsson, 25.4.2021 kl. 15:35

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Já blessaður aftur Ingólfur.

Í sjálfu sér eru pælingar þínar hérna að ofan um hið falda valda sem ég tengi við hið svarta djúpt í iðrum Wall Street um margt svipað og ég pistlaði oft um í árdaga þessa bloggs og langt fram eftir þessum áratug, en lítið nennt síðustu ár.  Það er engin eftirspurn eftir svona pælingum, samsæriskenningar hafa yfirtekið þær, og það er engin stjórnmálastefna eða stjórnmálaflokkur sem maður getur tengt sig við. 

Það er staðreynd að Wall Street kom að fjármögnun rússnesku byltingarinnar, þó þýska gullið sem Lenín kom með frá Sviss hafi gert bolsévikum kleyft að borga hermönnum sínum kaup, og það var ekki fjöldinn, verkafólkið sem útskýrði valdatöku þeirra, heldur Rauði herinn, það er sama gamla sagan, sá sem getur fjármagnað her, hann vinnur oftast.

Wall Street sannarlega fjármagnaði þýsku nasistana, og það er svo augljós tenging inní rætur valdakerfis evrópsku borgarstéttarinnar, tenging sem skýrir hrun Frakklands, og uppgjafatóninn sem náði inní bresku ríkisstjórnina í stríðsbyrjun.  Menn hafa tengt þetta þeim tilgangi að ná fram árásarafli gegn hinum óguðlegu kommúnistum í Sovétinu, en ég hygg út frá fyrri fjármögnun á öfgahreyfingum, baráttunni gegn Keynismanum í USA á kreppuárunum, að eini tilgangurinn hafi verið ófriður, að skapa forsendur ófriðar, alveg eins og að dýpka kreppur, til að verða ríkari, pælingin sé ekki dýpri en það.

Efist menn, af hverju gat hagtrú á útjaðri öfganna, kennd við frjálshyggju, náð völdum í vestrænum háskólum, og svo seinna og síðan samhliða í vestrænum stjórnmálum??

Ja, hvernig komust kommarnir til valda, hvernig komust nasistar til valda, af hverju var reynt að magna upp mannlegar hörmungar í kjölfar verðbréfahrunsins á Wall Street 1929, er þetta ekki bara spurning um fjármögnun sem fær bolta til að rúlla??

Ég fann ekki uppá þessum tengingum, en ég hef sett þær í samhengi við þróun mannsandans og skilnings hans á góðu og illu, það er óhugnanleg líkindi milli hugmyndafræði Nýfrjálshyggjunnar og þess sem maðurinn í árdaga trúarbragðanna tengdi við illsku og þau öfl í alheiminum sem bæru ábyrgð á henni.

Spáðu svo í freistnina sem Kristi var boðið á fjallinu af freistaranum, þetta færðu ef þú fellur á kné og lýtur mér.  Er það ekki það sem auðhyggjan gerir í dag??, býður mönnum gull og græna skóga ef þeir selja æru sína og sál??

Ætla ekki að fara dýpra í þetta, man ekki einu sinni hvar skrif mín þar um eru.

En Kínverjar dreifðu ekki veirunni, þeir eru ekki heimskir.

Aðeins heimskur maður hefði reiknað með þeirri heimsku sem stjórnaði viðbrögðum vestrænna ríkja við veirunni, þegar misvitrir stjórnmálamenn töldu sig vita betur en þekkingin.

Hefðu menn brugðist rétt við þá hefðu menn strax einangrað Kína, og síðan útrýmt þeim smitum sem þegar höfðu borist þaðan, eitthvað sem tók um 12 vikur.

Kína í djúpum skít og vestræn ríki á leið úr þrælahagkerfi alþjóðavæðingarinnar.

Kínverjar voru hins vegar bara heppnir og það er allt önnur saga.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 25.4.2021 kl. 15:56

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Góðan daginn Ingólfur.

Er  að bíða eftir að tíminn líði því ég er á leið í andans kaffi með góðum vini, svo ég ætla aðeins að fylla uppí þetta sem ég sagði hér að ofan.

Þú talar um kapítalismi þegar þú lýsir því sem í raun er auðræði, það er völd einstakra fyrirtækja og auðmanna eru það mikil að þeir hafa mikil ítök í stjórnmálunum, jafnvel eiga þau, hafa mikil áhrif á löggjöfina, samkeppni er öll brengluð vegna stærðar þeirra, markmið þeirra eru í raun orðin önnur en að stunda viðskipti á markaði, heldur er leitnin að sjúga til sín allt, auð og völd líkt og svarthol í þyngdarsviðinu.

Þetta er það sem ég kalla Nýfrjálshyggjuna, sem er í raun bara endurbætt útgáfa af frjálshyggju 19. aldar, og aðgreini skýrt frá hinni hefðbundnu borgaralegan kapítalisma, sem var höfuðóvinur frjálshyggju 19. aldar, og í raun innlimaði hana (frjálslyndir smáflokkar sameinuðust íhaldsflokkum) þegar baráttan við sósíalismann og óttinn við kommúnismann þjappaði saman borgarstéttinni á fyrstu áratugum síðustu aldar. 

Borgarlegur kapítalismi byggisti vissulega á kapítalistum sem starfa á markaði, en hann er hluti af samfélaginu, aðlagar sig gildum hans, byggist á sterku ríkisvaldi (annars urðu þjóðir undir í samkeppni þjóðanna) og vinnur innan ríkis og er þá hluti þess, hjálpar því að ná markmiðum sínum, bæði í sambandi við uppbyggingu innviða og í hinni einu samkeppni sem ræður framtíð ríkja, það er samkeppni þjóðanna. 

Bara hinn bitri raunveruleiki sögunnar að veik ríki voru innlimuð í stærri, oft rænd og rupluð, íbúarnir drepnir og svo framvegis.

Nýfrjálshyggjan verður til með annars vegar kenningum Friedmans um algildi markaðarins, markaðurinn er þá ekki lengur hluti af hinu borgarlegri samfélagi heldur upphefur hann sig yfir það, verður alfa og omega hans.  Hins vegar kenningum Hayek, sem eru falshagfræði, að markaðurinn blómstri því fyrst þegar ríkisvaldið er í lágmarki, og helst afnumið, nema þá til að tryggja löggæslu á öreigalýðinn.

Falsið er að þegar ríkisvaldið er brotið niður, þá þjappar auðurinn sér stjórnlaust saman, brýtur niður alla samkeppni, hagræðir lögum og reglum sér í hag, og ekki hvað síst, veikir innviði það mikið að ríkið hrynur í samkeppni þjóðanna, eða vegna innbyrðis átaka höfðingjanna, kallað borgarstríð í gamla daga líkt og Rósastríðin voru til dæmis í Englandi, eða Kína í aðdraganda sigurs Quin ættarinnar.

Tíminn útrunninn, en þetta er það sem við glímum við í dag, og í raun var borgarlegur kapítalismi fyrsta fórnarlamb nýfrjálshyggjunnar.

Ég sé hins vegar ekki hvernig hægt er að skipa málum í framleiðslu og viðskiptum nema með markaði og fjölda einstaklinga og fyrirtækja sem starfa á honum. 

Málið er að það þarf að vera skýrar reglur og það má enginn fá það mikið vægi að hann ógni heildinni.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 26.4.2021 kl. 09:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 737
  • Sl. sólarhring: 765
  • Sl. viku: 6321
  • Frá upphafi: 1400260

Annað

  • Innlit í dag: 672
  • Innlit sl. viku: 5436
  • Gestir í dag: 638
  • IP-tölur í dag: 624

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband