27.3.2021 | 12:33
Grínlandið Ísland.
Við erum í upphafi fjórðu bylgju kórónuveirufaraldursins og aðeins snögg og ákveðin viðbrögð heilbrigðisyfirvalda geta bjargað því að annars vegar nái veiran lítilli útbreiðslu, og þar með að fáir veikist illa, sem og að tíminn sem fer í hinar hörðu sóttvarnir, verði sem stystur, að við endurheimtum daglegt líf okkar eftir hinar ætluðu þrjár vikur hinna hörðu sóttvarna.
Svo fólk geri sér grein fyrir alvöru málsins þá var víða í Evrópu ekki gripið til strangra aðgerða fyrr en veiran hafði grafið um sig og þá dugði ekki annað en allsherjarlokun þar sem fólk má fátt annað en að mæta í vinnu, það er ef vinna þess felst ekki í að veita öðrum beina þjónustu, því allt slíkt er bannað.
Það sér ekki fyrir endann á þessum lokunum, mannlíf lamað, ef við tökum til dæmis hlutfall látinna í Tékklandi og færum yfir á okkur, þá væru um 700 manns látnir hérna innanlands. Auk allra hinna sem væru veiklaðir á eftir, munum að afleiðingar Akureyrarveikinnar komu fram eftir að fólk hafði náð sér af veirusýkingunni, fólk varð smán saman veiklað, óstarfhæft, jafnvel ófært um einfaldar daglegar athafnir, vegna þrekleysis sem engin önnur skýring var á en afleiðingarnar af veirusýkingunni.
Afleiðingar kóvid er ekki bara sá mikli fjöldi eldra fólks sem kafnar lifandi, heldur líka allir þeir sem veikjast og verða ekki samir á eftir, verða jafnvel skurnin af því sem þeir voru.
Við getum öll náð þessu ef við leggjumst öll á eitt.
Nema það er bara ekki reyndin, það er eins og ákveðinn hluti þjóðarinnar búi ekki á Íslandi heldur á landi sem kalla má Grínlandið Ísland.
Hvað skýrir annað fjöldann sem þyrpist á Reykjanesið, ekki bara til að gera heiðarlega tilraun til að drepa sig ef vindátt breytist snögglega, heldur á tíma þar fólk er beðið um að forðast mannsafnað, vegna þess að það gengur veira laus í samfélaginu.
Eitt samfélagssmit greindist í gær vegna þessarar fáheyrðu heimsku sem einna helst líkist atferli Dúdú fuglsins í einhverri Ísöldinni (tær snilld teiknimyndanna).
Þau hefðu getað verið 5 eða 15, og það er í raun ekki útséð um það, þó allir voni sitt besta. En það er ekki fólkinu sem býr i Grínlandinu Íslandi að þakka.
Á sama tíma og við heyrum um að skóli eftir skóla sé að setja nemendur og starfsfólk í sóttkví, á sama tíma og fyrirsjáanlegt er að skólar landsins verði lokaðir eftir páskafríið, sviðslistir enn einu sinni sviptar tekjum sínum, þá hagar fólk sér svona.
Eins og ekkert sé vitið, engin sé alvaran gagnvart hlutum sem þarf að taka alvarlega.
Hlutum sem eru dauðans alvara.
Angi af sama meiði eru þau fáheyrðu viðbrögð forstjóra Vinnumálastofnunar sem kom í fjölmiðla gær ybbandi sig, hvað úr um að skrifræði hennar væri ekki um að kenna að veiran slyppi inni í landið.
Rökin, fjöldi atvinnuleitanda sem þurfa að endurnýja vottorð sín, sem hlutfall af heildar fjöldanum sem kemur til landsins.
Hún vissi ekkert um fjölda smita sem hefði verið rakinn til þessa hóps, eða annað sem viðkom sóttvörnum, í raun það eina sem hún vissi var að hún kynni ennþá prósentureikning.
Alvarleikinn í þessu er að það eru göt á landamærunum, veiran hefur sloppið í gegnum varnir, og þó það hafi í flestum tilvikum náðst að finna þau tilvik og einangra, þá er núna vitað að allavega eitt smit hefur sloppið í gegn, og náð að breiða úr sér.
Og eitthvað skrifræði á ekki að verða þess valdandi að auknar líkur séu á slíku smiti, við lifum á 21. öldinni og þó það sé hugsað sem hindrun sem dregur úr ásókn í atvinnuleysisbætur, þá höfum við ekki efni á slíkri hindrun í dag.
Vinnumálastofnun eins og aðrir verður að nýta sér rafeindaheim til að gefa út vottorð og samþykkja vottorð en ekki að ýta undir óþarfa ferðalög frá stórsmituðum svæðum Evrópu sem bera með sér hættuna og ótann við nýtt samfélagslegt smit innanlands.
Þriðja fréttin í gær var um að þrátt fyrir tilmæli, sem ítrekuð eru eftir hinar hörðu sóttvarnir vikunnar, að þá sækir fólk ennþá ástvini sína á Keflavíkurflugvöll, þó slíkt sé með öllu bannað.
Ekki vegna þess að menn hafa svo gaman að því að banna, heldur vegna þess að það er knýjandi nauðsyn að stöðva smitleka inn fyrir landamærin.
Samt gera Grínlendingar þetta, og samt komast þeir upp með þessa hegðun sína.
Líkt og landið okkar sé eitt stórt djók.
Það virkar nefnilega þannig síðustu dagana að Þórólfur, já og fóstbróðir hans Kári, séu þeir einu sem hafa áhyggjur af ástandinu.
Þeir séu svona hrópendur sem enginn hlustar á, séu án stuðnings yfirvalda og löggæslunnar, og að almenningur hafi flutt búsetu sína frá Íslandi til Grínlandsins Ísland.
Eins og okkur sé slétt sama hvort það náist að setja veiruna í bönd og síðan útrýma henni, eða ef það tekst, að þá sé okkur slétt sama hvort nýtt og nýtt smit sleppi framhjá vörnum þjóðarinnar og öll hringavitleysa samfélagslegra lokana hefst á ný.
Því öll vitum við hvað er í húfi, það er ekki afsökunin fyrir Dúdú hegðun okkar.
Það sem er í húfi er líf okkar, vorið og sumarið.
Að við getum lifað nokkurn veginn eðlilegu lífi ef við náum að verja landamæri okkar.
Að við séum ekki stöðugt í herkví sóttvarna.
Og Þórólfur reddar þessu ekki einn.
Höfum það á hreinu.
Kveðja að austan.
Fjórir greindust innanlands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 13
- Sl. sólarhring: 14
- Sl. viku: 459
- Frá upphafi: 1412821
Annað
- Innlit í dag: 13
- Innlit sl. viku: 398
- Gestir í dag: 12
- IP-tölur í dag: 12
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll Ómar
það er eins og stjórnvöld hér búi í einhverju allt öðru landi.
það er búið að loka nánast öllu börum, líkamsræktarstöðvum, sundlaugum, leikhúsum, skíðasvæðum ....
og rekstaraðilar þar fá sekt fyrir brot á sóttvarnarlögum.
en svo safnast lýðurinn óátalið á gosstöðvunum og þvertbrýtur allar sóttvarnarreglur og
ferðamenn sem eiga að vera í sóttkví streyma þanagað og það er eins og stjórnvöld hafi ekki hugmynd um þetta
hætt er við að allir þeir sem hafa orðið að loka vegna sóttvarnarráðstafana muni lögsækja ríkið og krefjast skaðabóta.
hér ekki verið að gæta meðalhófs.
kv. hrossabrestur
Hrossabrestur, 27.3.2021 kl. 15:51
Ég skil ekki þennan pirring út í fólk sem röltir til að skoða eldgosið
Líkurnar á smiti þar, hvort sem menn vilja slá um sig með orðum og kalla það samfélagslegt smit eða hópasmit,
hljóta að vera margfalt minni en t.d. á leikskólunum og í öðrum lokuðum rýmum innan dyra með aragrúa snertiflata
Grímur Kjartansson, 27.3.2021 kl. 17:44
Blessaður Grímur.
Við erum nýkomin út úr samfélagslegum lokunum þar sem fólk mátti lítið eða ekki neitt, ekki stunda íþróttir, ekki fara í leikhús, líkamsrækt eða annað sem eflir bæði sál og líkama. Við máttum ekki jarða nema í fámenni, ekki hittast á góðum stundum líkt og í merkisafmælum og svo framvegis. Og já, skólar á unglingastigi og háskólastigi voru lokaðir.
Það tók langan tíma að ná þjóðinni út úr þessu ástandi, fyrst og síðast vegna þess að of seint var gripið til lokana, og svo dróst þetta á langinn vegna leka á landamærunum.
Núna er ljóst að það er komið smit út í samfélaginu sem ekki er hægt að króa inni með sóttkví í kringum það, hið svokallaða samfélagslegt smit, sem er fagleg lýsing á ákveðnu ástandi.
Það er réttilega brugðist við í tíma, og sóttvarnir hertar þannig að þetta smit getur aldrei smitað nema fáa einstaklinga í einu, og sóttkví í kringum það mun ná að hindra frekari útbreiðslu þess. Sem þýðir að þessar þrjár vikur eiga að duga, við eigum að geta endurheimt daglegt líf okkar aftur um miðjan apríl.
NEMA menn klúðri framkvæmdinni í Grínlandinu Íslandi.
Þetta snýst þannig séð ekki um hvað þú skilur eða skilur ekki Grímur, heldur hvað yfirvöld skilja og gera, og síðan hvað heildin, það er almenningur skilur og hvort hann fari eftir reglum um hópamyndanir og annað sem er forsenda þess að við náum veirusmitum hratt og örugglega niður.
Þegar sóttvarnarlæknir leggst gegn hópamyndun, þá er það ekki vegna þess að honum finnist það líklegt að almenningur geti ekki passað uppá sig í jarðarförum eða fermingarveislum, að ekki sé hægt að gæta að fjarlægðarmörkum á líkamsræktarstöðvum eða í leikhúsum, heldur snýst þetta um það að þegar það tekst ekki, að þá sé ekki mikill ótengdur fjöldi smitaður, en tenging milli smitaðra er forsenda smitrakninga og síðan árangursríkrar sóttkvíar.
Hópamyndun þúsunda á gosstöðvunum gengur gegn þessari hugsun, það er klár aumingjaskapur hjá yfirvöldum að stöðva hann ekki, sem og það er ótrúlegur tvískinnungur hjá almenningi að vera hlynntur hörðum sóttvörnum til að hindra að ný bylgja fari af stað, og fara svo þvert gegn tilmælum sóttvarnarlæknis um að horfa á eldgosið heima í stofu, því þetta er tíminn þar sem við öll þurfum að fara varlega, forðast fjöldann, virða reglur, aðeins þannig hefst þetta.
Á mannamáli er svona hegðun kennd við tæra heimsku.
Varðandi leikskólana þá er látið slag standa vegna samfélagslegra áhrifa lokana þeirra, en það er ekki víst að veiran sýni því mikinn skilning. Allavega er ljóst að hún þarf ekki mörg svoleiðis göt á sóttvörnum til að dreifa sér óheft út í samfélagið.
Hins vegar á að vera hægt að verja eitt og eitt, að því ge4fnu að fólk gæti að sér að öðru leiti.
En ekki mörg.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 27.3.2021 kl. 18:48
Blessaður Hrossabrestur minn góði.
Vísvitandi hleyping veirunnar inní landið síðasta sumar olli tugum þúsunda miklu tjóni og búsifjum.
Þá fannst mér ótrúlegt að fórnarlömb heimskunnar skyldu ekki taka sig sama í hópmálssókn gegn þeim ráðherrum sem ábyrgðina bera, menn eiga ekki að komast upp með að fara gegn þekkingu og heilbrigðri skynsemi, og valda þar með öðrum tjóni, því þá gera þeir þetta bara aftur og aftur.
Og þetta aftur virðist aftur vera komið á skrið.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 27.3.2021 kl. 18:51
"því þetta er tíminn þar sem við öll þurfum að fara varlega, forðast fjöldann"
Leggjast upp í rúm, breiða sængina upp fyrir haus og bíða eftir heimsendi
Grímur Kjartansson, 28.3.2021 kl. 09:04
Blessaður Grímur.
Útúrsnúningur er eitt en keldan sem maður þarf að krækja kallast að gera sig ekki dálítið stupido í leiðinni.
En ég setti inn forsendu þess að sóttvarnaryfirvöld vilja kæfa fjórðu bylgju í fæðingu og ætla að endurtaka hana;
"Það sér ekki fyrir endann á þessum lokunum, mannlíf lamað, ef við tökum til dæmis hlutfall látinna í Tékklandi og færum yfir á okkur, þá væru um 700 manns látnir hérna innanlands. Auk allra hinna sem væru veiklaðir á eftir, munum að afleiðingar Akureyrarveikinnar komu fram eftir að fólk hafði náð sér af veirusýkingunni, fólk varð smán saman veiklað, óstarfhæft, jafnvel ófært um einfaldar daglegar athafnir, vegna þrekleysis sem engin önnur skýring var á en afleiðingarnar af veirusýkingunni.
Afleiðingar kóvid er ekki bara sá mikli fjöldi eldra fólks sem kafnar lifandi, heldur líka allir þeir sem veikjast og verða ekki samir á eftir, verða jafnvel skurnin af því sem þeir voru.".
Varðandi það síðastnefnda var harmrænt viðtal við unga konu, um þrítugt í fréttatíma sjónvarps, sem er hægt og hljótt að missa heilsu og líf sitt, og hún er aðeins eitt dæmi af mörgum sem mun mynda faraldur á næstu árum, fólk á besta aldri sem er ófært um að gera það sem það gat, og það sér ekkert fyrir endann á vanheilsu þess.
Er þér sama um þetta Grímur, eða skilur þú þetta ekki??
Tékkar hafa læst sjálfa sig inni frá því í haust, samt deyr fólk þar umvörpum, eftir stendur spurningin hvað hefðu margir dáið ef þeir hefðu ekki læst sig inni??
Þeir gátu kæft bylgjuna í fæðingu í lok ágúst, hefðu þá setið uppi með dánartölu svipaða okkar, sem er hér um 30 manns. En þeir lutu stjórn manna svag fyrir hægri heimsku, og þegar þeir loksins skildu að maður drepur bylgju á fyrstu stigum hennar, þá sátu þeir uppi með mannfall sem er líkt og um 500 manns hefðu dáið hér. Allsherjarlokun a la Nýja Sjáland hefði ekki getað fært þeim þegar dánu eða smituðu líf sitt aftur.
Núna spyr ég þig Grímur, seint gripið inní, en þó gripið inní, 500 manns uppá íslenskan raunveruleika.
Þekkir þú persónulega einhverjar 500 manneskjur sem þér finnst skilið að kafna lifandi??, eða segir þú þetta bara vegna þess að fyrst að þú þekkir ekki fórnarlömb veirunnar, að þá megi þau kafna lifandi þín vegna??
Heiðarlegt svar óskast því á einhverjum tímapunkti verður þú sem og aðrir sem styðja frelsi veirunnar til að drepa samborgara þína, að feisa hvað býr að baki þeim orðum og skoðunum.
En Tékkar þurftu ekki að grípa inní, hefðu til dæmis getað lesið nýjasta pistil Bjarna Jónssonar, auk nokkurra eldri, og komist að því að þetta væri meinlítil veira sem kallaði ekki á sértækar sóttvarnir.
Heilbrigðiskerfið þar, sem og annars staðar, bjargar x fjölda frá því að deyja, fólk sem hefði dáið ef nútímalæknavísinda nyti ekki við. Þetta x hefur allavega gildið 5, og það virkjast þegar heilbrigðiskerfið hrynur, annars vegar vegna álags sem það ræður ekki við, örmögnunar starfsfólks sem og það fellur í hrönnum vegna nálægðarinnar við veiruna á hverjum degi.
Það gera 3.500 einstaklingar miðað við íslenskan raunveruleika, bara út frá þeim sem eru þegar dánir, en þau dauðsföll eru svona fá, þrátt fyrir allt vegna hinna ströngu sóttvarna sem gripið var til í haust.
Óheft veira?? Tíföld þessi tala?? 35.000??
Það veit enginn Grímur, það hefur hvergi reynt á það, vegna sóttvarna, sem í flestum löndum hafa ekki verið nægar til að útrýma veirunni úr samfélaginu, en samt það strangar að smitstuðli hennar hefur verið haldið niðri.
Á meðan henni er haldið niðri, þá geta menn gasprað um að hún drepi svona og svona fáa, jafnvel engan í Færeyjum, en málið snýst um hvað hún gerir fái hún að smita óheft eins og flensan fær á hverju ári.
Milljónir á milljónir ofan hefðu dáið, tugmilljónir á tugmilljónir ofan væru veiklaðir, jafnvel fyrir lífstíð, heilbrigðiskerfið væri lamað því öðrum sjúkum væri ekki sinnt, stór skörð væru höggin í raðir heilbrigðisstarfsfólks, sérfræðilæknir með 15 ára samfelda menntun, er ekki endurnýjaður með reynslulausum kandídat, og svo framvegis.
Og hún kæmi svo aftur og aftur.
Það er endir þess heims sem við þekkjum, hvað svo sem tæki við.
En að hafa lágmarks vit og þroska til að fara eftir reglum, og gera það sem þarf að gera, er ekki endir neins.
Nema vera skyldi heimskunnar og þeirrar úrkynjunar að hafa ekki döngun til að verja líf sitt og samfélag, því ég þarf að fara út að leika.
Fullorðið fólk.
Kanntu annan??
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 28.3.2021 kl. 11:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.