Ginnungargapið.

 

Það er ljóst að það er ekkert annað en ginnungagap á milli þeirra sjónarmiða að vilja vernda líf, og leyfa því að drepast ef einhver ytri ógn bankar á dyr.

Sóttvarnir, barátta við skógarelda, flóðvarnir, allt er þetta hálfvonlaust í þeirri merkingu að baráttan endar aldrei, það gjósa alltaf upp nýjar pestir, nýir eldar kvikna í sífellu, og alvarlegum flóðum fjölgar sífellt með hækkandi hitastigi jarðar.

Eðlilegt að yfirstéttin spyrji sig, er þetta kostnaðarins virði, dugar ekki að ég hugi að mínu öryggi og láta hitt hafa sinn gang.

Einu sinn þarf jú hver að deyja og segir að almúginn, sérstaklega sá hluti hans sem á varla fyrir skeiðinni, hvað þá hnífnum, er hvort sem er alltaf að berjast við ótímabæran dauða.  Eða hvaðan koma hinar myndrænulýsingar að vera á horriminni eða rétt að skrimta.

 

"Eigi veit ég um hin dýpri rök" sagði hlýðin eiginkona ein við matarboð eiginmannsins þar sem hann og aðrir ræddu kostnaðinn við einhvern óþarfann og að það væri gegn vilja guðs að grípa inní fátæktina, "ég veit hins vegar hver er skylda mín sem kristin manneskja".

Þar með var ginnungagapið milli frjálshyggju og íhaldsmennsku fært í orð, og íhaldsmenn höfðu betur í Manchester þegar sameiginlegir sjóðir voru notaðir til að berja niður kóleru en til þess þurfti að leggja skólp í jörð og útvega öllum aðgang að rennandi vatni.

Auðvitað bölvað bruðl og grét margur góðborgarinn yfir skattinum sem hann borgaði til að fjármagna framkvæmdirnar, hann sá ekki samhengið milli launanna sem hann borgaði og þess að hinn stritandi vinnulýður var ekki aflögufær í sameiginlega sjóði.

 

Mér flaug þetta ginnungagap í hug þegar ég renndi yfir Reykjavíkurbréf Davíðs núna í morgun.

Þar sá maður af hverju Morgunblaðið hefur gefið heimskunni rödd og rær núna með dauðanum.

"Freistandi er að líta á þetta tal sem ábendingu um að við verðum að grípa næsta kostinn á eftir „hjarðónæminu“ sem rætt var um og einhenda okkur í að fletja út yfirferð veirunnar og segja það upphátt og gæta þá einungis þeirra sem varnarlausastir eru. Því það er næstum óhugsandi að þetta þýði að við gætum þurft að skella hundruðum eða þúsundum manna reglubundið í fjölbreyttar tegundir af sóttkví, sem sífellt verður ólíklegra að haldi, af því að við séum enn að reyna að gera landið algjörlega veirulaust. Taka verður af skarið ekki seinna en strax.".

 

Fyrir utan það að það er rangt að sóttvarnir virki ekki, eða ætli kóleran, kýlapest eða ebóla geysi þarna á Móunum, þar er jú hrjóstrugt og afskekkt svo hugsanlega hefur það ekki frést, en held samt ekki, þá er er það ljóst að meint hjarðónæmi kostar mörg mannslíf, mikla veiklun vegna alvarlegra veikinda, að enginn er óhultur, og stór hluti þjóðarinnar mun kjósa að loka sig inni vegna smitótta.

Og hvernig er hægt að vera svo heimskur að halda að slíkur fylgi ekki efnahagslegur kostnaður sem er margfaldur á við tekjurnar sem hægt er að hafa af milljónamæringum að veiða rafrænt í Rangá og öðru fengsælum laxveiðaám. 

Rafrænt því það mun ekki finnast það fífl sem heimsækir pestarbæli í miðri farsótt.

 

Smitvarnir virka ef skorið er á smitleiðir, að vísa í árangursleysi þeirra þegar slíkt er ekki gert, er dæmi um aðra heimsku.

Það væri enginn í sóttkví í dag ef stjórnvöld hefðu virt fræðin haft landamærin áfram lokuð nema að undangenginni sóttkví.

Smitsjúkdómar geta blossað upp þrátt fyrir það, þá er tekist á við slíkt ástand, líkt og er gert á Nýja Sjálandi í dag, eða gert var víða um heim þegar kílapest eða Svarti dauði blossaði upp víða um heim seinni hluta síðustu aldar.

 

Og ekki hvað síst, mannsandinn slæst við sjúkdóma og hefur lagt marga að velli.

Hvaða ungt fólk í dag þekkir á eigin skinni það sem kallað var barnasjúkdómar um miðja síðustu öld??

Eða hafa menn ekki heyrt af því að Stóru bólu hefur verið útrýmt?

Og mannsandinn mun finna lækningu við kóvid, ekki síðar heldur bráðum.

 

Á meðan er það að þrauka.

Og hleypa ekki röddum heimskunnar.

Röddum dauðans inní umræðuna.

 

Það er líklegast stærsta smitvörnin í dag.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Ginnungagap á milli sjónarmiða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Hvernig er hægt að vera svo heimskur að halda að líf þeirra sem glata því vegna hruns í atvinnustigi skipti engu máli? Hvernig er hægt að vera svo heimskur að ímynda sér að eina dánarorsök fólks sé kórónuveiran?

Eða snýst málið kannski ekki um heimsku? Snýst það einfaldlega um það að vera nákvæmlega sama um alla aðra en sjálfan sig og vera tilbúinn að fórna lífsviðurværi, lífi og heilsu tugþúsunda til að verja sjálfan sig fyrir hugsanlegum veikindum?

Þorsteinn Siglaugsson, 22.8.2020 kl. 09:56

2 identicon

Aldrei skal á móatýru treysta:

Viðey

EES (norsk taglhnýting Íslands við ESB)

Einkavæðingu bankanna

Símapeninga sem hurfu

Landsspítala sem enn er hola niðrí jörðina

Sjónleika fáránleikans

Smjörklípur

Hentistefnu

Hrun.

Smjörklípur 

Leikfang leiðans

Veglaus og týndur 

"Varaði við" en var þó aðalleikarinn

Stiklur staksteinanna sem hrynja

í endalausu tapi

því engin er eftirspurnin

nema þú sért hluti af Smartlandi

eða leitir uppi minningargrein

um löngu látinn mann.

Nú herðir að

Krosstré bregðast

Rekur stjórnlaust undan eigin fýlu

og veit ekki hvert halda skal.

Holur er nú tónninn

"engar hugsjónir, ekkert"

Hrun Moggans.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 22.8.2020 kl. 12:32

3 identicon

En mikið er það gott að sem flestir átti sig nú á að Davíð er kominn algjörlega út úr skápnum

sem sá nýfrjálshyggjumaður sem hann hefur þó allan tímann verið með hugmyndafræðingi sínum, hinum reagan/thatcher/blairíska Hólmsteini Gissurarsyni.

Undarlegt hvernig gamlir íhaldsmenn og jafnvel hriflungar hafa lengi valið sér að láta blekkjast.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 22.8.2020 kl. 13:36

4 identicon

En umfram allt vil ég þakka þér Ómar fyrir pistlasyrpu þína að undanförnu og minna lesendur þína á að lesa þennan pistil þinn samhliða pistli þínum um raddir þeirra sem dásama heimskuna, forheimskuna, raddir þeirra Eiríks Bergmann, Smára McCarthy, Pawel Bartozek og nú í þeirra samfylkta kór, Davíðs Oddssonar, sem þenur þar sitt brjóst og dillar stélinu í takt þessara ESB sinna, sem tala nú tilgang íslenskra sóttvarna sem mest niður.

Hafðu þakkir fyrir að benda lesendum þínum á hverjir eru þar helstu samherjarnir gegn íslenskum sóttvörnum.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 22.8.2020 kl. 14:47

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Þorsteinn.

Ég er enn og aftur glaður að fá þig inní athugasemdarkerfið og tel mig eiga vissan heiður á að þú kunnir að nota orðið heimskur.

En þér að segja, þá skil ég ekki orð að því sem þú segir, ertu að segja að það séu einhverjir að deyja vegna sóttvarna??, hvað hefur þú fyrir þér í því??, hefur hitt einhvern??

Og ertu að segja í seinni málsgrein þinni að ég sé veiran??, er ég kominn svo á heilann á þér??

Ég held að þú eigir erfitt með að pústa frá þér þegar þú verður rauður í framann og þá kemur allt öfugt út úr þér.

Jafnvel þveröfugt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.8.2020 kl. 20:20

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir það Símon Pétur.

Og ég skyldi alveg sneiðina en þér að segja þá tel ég Davíð Oddsson einn af hinu stóru stjórnmálaleiðtogum þessa lands, þó það sé undir hælinn lagt hvenær við erum sammála.

Vissulega féll hann fyrir tálsýn frjálshyggjunnar á unga aldri, líkt og Maggi elsti bróðir minn sem féll fyrir marxisma og hafði teiknaðar myndir af Marx, Lenín og Maó uppá vegg í herberginu sem ég fékk lánað í heilan vetur til að sofa í.

Maggi er í dag íhaldsmaður, Davíð er það líka, þó hann fatti það stundum ekki sjálfur.

Maggi fattar það hins vegar alltaf.

Sem segir mér að íhaldið sigri alltaf ruglið að lokum.

Mér líst hins vegar ekki á arftaka hans.

Og held að hann sé að spila með kallinn.

Því spillerí hefur alltaf verið veikleiki Davíðs, en enginn er svo stór að ekki hafi hann veikleika.

Það er bara svo.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 22.8.2020 kl. 20:27

7 identicon

Takk fyrir svarið Ómar.

Það sem ég var fyrst og fremst að benda á

er þetta:

Það er enga ljóstýru að finna nú um stundir

í Ginnungagapinu, tómið er algjört í Valhöll,

"engar hugsjónir, ekkert."  En það er ekki þar með sagt að ljósið finni sér ekki farveg,

fyrr en síðar mun vonarglætan upplýsa myrka hellisveggina.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 22.8.2020 kl. 20:53

8 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég sé að það er heimskan sem ræður ríkjum. Þú ímyndar þér það greinilega, Ómar Geirsson, að langtímaatvinnuleysi tugþúsunda hafi engar afleiðingar. Lifðu sæll með þeirri ímyndun, og afganginum af fábjánahætti þínum.

Þorsteinn Siglaugsson, 22.8.2020 kl. 21:11

9 identicon

@ Þorsteinn,

það er óreiðukennt stefnuleysið, sem ræður för

hjá ríkisstjórninni, sem er hin tæra heimska.

Fábjánahátturinn er einkennandi fyrir allt það sem t.d. varaformaður Sjálfstæðisflokksins hefur tekið sér fyrir hendur og úttalað sig um í þessum faraldri.

Það er léleg rökfræði að kenna Ómari um fábjánahátt hennar og heimsku ríkisstjórnarinnar.

Það hefur beinlínis verið átakanlegt að verða vitni að þeim ósköpum, vandræðagangi og úrræðaleysi sem stafar fyrst og fremst af algjörum skorti á leiðtogahæfileikum.  Sem eru reyndar svo ógurlegir að formaður Sjálfstæðisflokksins kýs sér að fela sig undir pilsfaldi puntudúkku Steingríms J. og Svandísar Svavarsdóttur Gestssonar.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 22.8.2020 kl. 21:44

10 identicon

Og mundu Þorsteinn,

meiri gungu og bleyðuhátt, er vart hægt að sýna af sér, en fela sig ráðalaus og áttlaus, undir þeim pislsfaldi.

M.a.s. Davíð var ekki sú gunga og drusla, þótt smjörklípur hafi hann sleikt og skammtað sér vel til ríkisverðtryggðs ofur lífeyris.  Og þykist hann þó sjálfstæður maður, þó aldrei hafi verið.  Hvað þá sá sem fékk hundruðir milljarða afskriftir á tímum allsherjarráðherra Vg.  En það segir e.t.v. eitthvað um það hví hann hangir þar núna undir pilsfaldinum.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 22.8.2020 kl. 21:56

11 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

... svo heitir það ginnungagap, ekki ginnungargap.

Þorsteinn Siglaugsson, 22.8.2020 kl. 22:39

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Þorsteinn.

Það gleður mig alltaf að sjá að ég hafi hjálpað þér að útvíkka orðaforða þinn, hjálpsemi er kannski reyndar mér ekki í blóðið borið, en hún er rík í móðir minni svo það má segja að þarna sé ég að kippa í kynið.

Af svari þínu fá ég samt engan meiri skilning á fyrstu athugasemd þinni, nema ég les samt út úr því að þú hafir allavega ekki hitt neinn á förnum vegi sem hefur dáið vegna sóttvarna.  Gætir jafnvel hafa rifjast upp fyrir þér orð Ölmu landlæknis að hliðarfall vegna kóvid faraldursins hafi ekki verið mælt, en þá hefur þú líklegast aftur þrútnað og svarið orðið eins og það er.

Einnig les ég út úr þögn þinni að þú teljir mig ekki vera veiru, en þá er síðasti votturinn af sens farinn úr seinni málsgrein þinni.

En þú gerir kannski aðra tilraun, og trúðu mér, mín yrði ánægjan að lesa þá tilraun og reyna síðan að fá botn í hana.

Síðan þakka ég þér kærlega fyrir málfarsleiðréttinguna, verst að þú skyldir ekki hafa aðgang að stjórnborði mínu, þá hefðir þú getað leiðrétt mig því vandinn við eiginkonu sem vill að maðurinn geri annað á laugardagsmorgni en að skrifa pistla, til dæmis að koma sér út í bíl, er sá að enginn tími er til yfirlestrar, aðeins keyrt á stafsetningarforritinu, sem reyndar gaf upp vitlausan rithátt, sem ég leiðrétti eftir eins og ég  væri að riða nýtt net, svo mikil var trúgirnin. 

Þá er gott að eiga fasta lesendur sem benda á hvað betur mætti fara.

Eigðu svo góða rest í kvöld Þorsteinn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 23.8.2020 kl. 00:01

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Símon Pétur.

Það má vel vera að lítil sé ljóstýran í Valhöll, en Bjarni er nú samt öflugastur af því liði sem er í boði í íslenskum stjórnmálum, vissulega er margt skynsamleg sem Sigmundur og Miðflokkurinn hefur lagt til, en Sigmundi hefur þorrið innri styrk til að rísa upp sem stjórnmálaleiðtogi sem hefur áhrif.

Ég hugsa ekki þá hugsun til enda hvað væri í gangi í dag ef Bjarna hefði ekki notið við í því embætti sem hann er.

En það er þetta með steingeitina uppí Móum, ég er ekki mikið fyrir að steingeitur séu skammaðar fram úr hófi, og þó vissulega megi telja upp hinar og þessar klípurnar, þá gleymi ég aldrei þeirri sem gerðu foreldrunum mínum kleyft að lifa mannsæmandi lífi á elliárunum.  Aðrir göspruðu en Davíð framkvæmdi.  Og það var ekki ríkisstjórn Geirs Harde að þakka að við komust lifandi frá Hruninu, höfum það á hreinu.

Mannannaverk, það er þeirra sem koma einhverju í verk, eru þannig að það takast alltaf á hlutir sem manni geðjast að og telur góða, og það er manns eigið gildismat, aðrir geta haft eitthvað allt annað, og síðan það sem manni geðjast minna að eða jafnvel miður að.

Núna er orrahríðin um líf eða dauða og hana tekur maður.

Það þurfa allir að eiga vin sem til vamms segir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 23.8.2020 kl. 00:13

14 identicon

Skil ekki alveg lofgjörð þína um Bjarna og Davíð.

Einn daginn skammarðu þá, næsta berðu þá lofi.

Ég hef listað upp misgerðir þeirra, en það dugir ekki til.  Kannski ertu svona hrifinn af Bjarna vegna Orkupakka ESB og samþykkt Icesave 3?

Hvað veit ég hvað steingeitur hugsa innra með sér.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 23.8.2020 kl. 13:54

15 identicon

En svo er það í þessu lífi, að þegar hið rétta og hið ranga strika hvort annað út, hvað réttlæti og ranglæti varðar, þá eru bara lætin eftir.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 23.8.2020 kl. 14:06

16 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Nei Ómar. Ég hef ekki hitt lík á förnum vegi sem hefur orðið fórnarlamb atvinnuleysis sem ljóst er að leiðir af lokun ferðaþjónustunnar. Raunar hef ég aldrei hitt lík á gangi úti á götu. Það að þú skulir telja þá staðreynd sanna mál þitt gefur auðvitað athygliverða innsýn í hvernig þú hugsar (sé rétt að nota það hugtak í þessu tilfelli). Annars vegar að þú haldir að allt sem þú hefur ekki sjálfur séð sé ekki til, og hins vegar að það sé hluti af daglegri upplifun þinni að ganga fram á liðin lík á rölti.

Þorsteinn Siglaugsson, 23.8.2020 kl. 15:06

17 Smámynd: Ómar Geirsson

Ja Þorsteinn, ef þú hefur ekki hitt lík á förnum vegi, en hér fyrir austan köllum við dáið fólk á ferli, framliðið, og ekki getur þú vísað í heimildir, hvort sem það er tölfræði andláta, upplýsingar heilbrigðisyfirvalda eða annað, nema þá kannski þá slæma martröð sem þú vaknaðir upp af og þorir ekki að geta hér sem heimild (skil ekki óttann, ber mikla virðingu fyrir martröðum og þær eru oft fyrirboði hjá berdreymnum), þá botna ég ekkert í fyrri málsgrein þinni.

Um hvað ertu eiginlega að tala??

".. vera svo heimskur að halda að líf þeirra sem glata því vegna hruns í atvinnustigi skipti engu máli? Hvernig er hægt að vera svo heimskur að ímynda sér að eina dánarorsök fólks sé kórónuveiran".

Hvaða atvinnustig hefur hrunið sem kostar mannslíf??

Var þetta sýn frá 19. öld í einhverri bresku iðnaðarborginni??, eða hefur þú ekki heyrt minnst á velferðarkerfið, atvinnuleysisbætur og svo framvegis??  Ertu að vísa í fyrri faraldra þar sem fólk hefur fallið vegna atvinnumissis??  Eða heldurðu að svona í ljósi þess að það þótti furðufrétt þegar einhver sagði frá því að þegar hann kom inná gisti eða veitingahús, sjoppur eða greiðasölur, að hann gæti mælt á íslenska tungu til að fá þjónustu, að vondir íslendingar munu loka alla þessa útlendinga inni einhverjum kofa eða jarðhýsi, og svelti þá þar til næsti erlendi ferðamaðurinn bankar upp??

Varðandi seinni spurninguna þá verður þú að svara henni sjálfur, en það hvarflar ekki að mér að þú sért heimskur Þorsteinn þó þú spyrjir svona vitlausrar spurningar.

En enn og aftur er ég feginn að þú teljir mig ekki vera mannsmynd kórónuveirunnar og þögn þín þar um þýði að þú sért búinn að fatta að það er kórónuveiran sem kallar á sóttvarnir, og það er hún sem skýrir hrun ferðaþjónustunnar í heiminum.

Þetta hefst allt með tímanum Þorsteinn minn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 23.8.2020 kl. 18:32

18 Smámynd: Ómar Geirsson

Nei Símon minn, hvað veist þú hvað Steingeitur hugsa, ekki ætlast ég alla vega til þess.

Og af hverju segir þú að ég skammi Davíð einn daginn en annan beri ég hann lofi, skiptin sem ég hef skammað Davíð eru ekki talin á fingrum annarrar handar, þó viðkomandi sem teldi hefði misst einn eða tvo í hjólsög.  Eða alla vega minnir mig það.

Rökhugsun Símon, rökhugsun, þó ég segði Hitler hafa lagt vegi og útvegað vinnandi höndum vinnu, eða Stalín byggt um rússneska þungaiðnaðinn og gert Rússland að risaveldi, eða ég segði að Kínverjar væru fjölmennir og töluðu kínversku, þá er slíkt bara faktur, og ekki á nokkurn hátt lofgjörð um nasismann, Stalín eða kínverska kommúnista.

Í alvöru talað Símon, sérðu ekki rugludallahópinn í stjórnarandstöðunni??, og innan ríkisstjórnarinnar, hver annar en Bjarni Ben hefur styrk til að gera það sem gera þarf??

Gleymdu því ekki að fyrstu viðbrögð ríkisstjórnar og Seðlabanka eru úr kennismiðjum borgarlegra hagfræðinga sem kenna sig við Keyne, á þessu heyktist vinstristjórn Jóhönnu.

1-0 fyrir Bjarna.

Og hann mun skora fleiri mörk ef það tekst að koma sanngjörnum ábendingum ferðaþjónustunnar, samtaka fólks í afþreyingariðnaði, og ASÍ, inní umræðuna, fá hana út úr fávitafarveginum sem hún hefur fallið í síðustu daga, þar sem fólk áttar sig ekki á að í miðjum heimsfaraldri erum við ekki gerendur, við stjórnum því ekki hvort fólk ferðist, eða hvort fólk kaupi útflutningsvörur okkar.

En við stjórnum vörnum okkar.

Og í alvöru talað Símon Pétur, ég færi með faðirvorið fimm sinnum á dag ef Bjarni hefði verið farinn úr íslenskum stjórnmálum, og óvitarnir leiddu flokkinn undir styrkri handleiðslu guðmóðurinnar.

Mannauðurinn í íslenskum stjórnmálum er ekki á minni eða þinni ábyrgð, en hann er faktur, líkt og fjöldi Kínverja og sú staðreynd að enskur matur er vondur, og meðan til er fólk sem reynir að gera rétt á neyðarstundu, þá skammast ég ekki í því.

Sem og ég þakka fyrir að það sé leiðtogi í þessum hópi sem reynir að gera rétt.

Það er bara svo.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 23.8.2020 kl. 18:55

19 Smámynd: Ómar Geirsson

Og Símon 15., ég tek ekki að mér kennslu í heimspeki og get því ekki tjáð mig um það sem þú spurðir, hugsanlega er svarið að finna í bókum Páls Skúlasonar, þess mikla húmanista.

Ekki síðra kveðja en í fyrra skiptið, þetta var góð fótboltahelgi.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 23.8.2020 kl. 18:58

20 identicon

Sæll Ómar,

skil viðhorf þitt og get reyndar samsinnt þér að ekki er samfylktaviðreisnarpírata gengið burðugt.

Bestu kveðjur austur.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 23.8.2020 kl. 19:29

21 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Samhengi ótímabærra dauðsfalla og atvinnuleysis er staðreynd, staðfest í fjölda rannsókna. Ef einhver annar en þú héldi á penna myndi ég benda viðkomandi á að kynna sér þær. En ég veit að í þínu tilfelli er það tilgangslaust, enda er löngu ljóst að áhugi þinn á að komast að réttum niðurstöðum er nákvæmlega enginn. Áhuginn liggur einvörðungu í því að röfla einhverja vitleysu.

Þorsteinn Siglaugsson, 24.8.2020 kl. 10:18

22 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Þorsteinn.

Það er ótrúlegt hvað allt verður miklu skiljanlegra hjá þér þegar þú róar þig niður og reynir að ræða málin út frá þeim sjónarmiðum sem þú vilt halda á lofti í umræðunni.

Ef þú bætir inní fyrstu setningu þína "langvarandi", það er langvarandi atvinnuleysis, þá ertu með þetta, en því miður þá fór þetta allt þversum ofaní þig og kom frá þér algjörlega óskiljanlegt í fyrstu athugasemd þinni, og fór síðan aðeins hægt skánandi.

Það er engin þekkt tengsl milli skyndilegs atvinnuleysis og fjölgunar dauðsfalla, það liggur í sjálfsbjarghvöt lífsins, að reyna að þrauka og finna leiðir út úr vandanum.  Fyrstu merki uppgjafarinnar er síðan aukin drykkja og óregla, og svo og svo, algjört niðurbrot manneskjunnar, upplausn fjölskyldna, og já, sjálfsmorð, sem og banvænir sjúkdómar sem má rekja til atvinnuleysisins.

Að ekki sé minnst á félagslegu vandamálin, áhrifin á börnin og framtíð þeirra. 

Finnar tala um týndu kynslóðina og það var skýring þess að í fjármálakreppunni 2008 var reynt að þróa mótvægi gegn þessu í ráðstöfunum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttir því margt er hægt að gera innan velferðarkerfisins ef vilji er til staðar.  Og ég skal alveg viðurkenna það þó ég sé einn hatrammasti gagnrýnandi þeirra Steingríms og Jóhönnu, vegna þess að þau sviku, að það fór betur en á horfðist í upphafi kreppunnar.  Sérfræðingar benda líka hin félagslegu tengsl hérlendis, sérstaklega stendur stórfjölskyldan saman á erfiðleika tímum.

En það vill svo til að drepsóttir hafa líka langvarandi afleiðingar, bæði heilsulega sem og að óttinn sem grefur um sig, afskræmir svo margt.  Ótti brýtur niður mótstöðu líkamans, langvarandi innilokun getur leitað út í óheilbrigt líferni, bæði varðandi drykkju, mataræði og hreyfingu, hann sker á fjölskyldutengsl því eldra fólk óttast smit og vill því ekki umgangast barnabörnin sín, sem og að þeir yngri draga úr samneyti við þá eldri af sömu ástæðum. 

Og ótti dregur úr neyslu sem er jú drifkraftur hagkerfisins. 

Svo langvarandi og langvarandi, debet og kredit, þetta er ekki vitað en vissulega eru ábendingar þínar réttmætar, eða ég tel mig ekki hafa verið óréttlátan þegar ég hjólaði í félaga mína til vinstri vegna viðbragða vinstri stjórnar Jóhönnu og Steingríms við fjármálakreppunni, einmitt meðal annars á þeim forsendum sem þú hefur haldið fram.

Það er líka skýring þess að í vor þegar ljóst var að tök voru komin á fyrri bylgjuna, að þá endaði ég raðpistla mína á ákalli um aðgerðir handa þeim sem urðu fyrir barðinu á þessum heimsfaraldri sem og ég hrósaði ríkisstjórninni fyrir það sem vel var gert.

Þetta ákall hef ég reglulega ítrekað i pistlum mínum, og debatið sem ég átti hér að ofan við Símon Pétur er vegna þess að honum mislíkar að ég skuli hrósa gömlum fjandvini fyrir hafa reynt að gera rétt í öllum þessum erfiðleikum. Þó ég vissulega kalli á meira og finnst það ósvinna að óvissa skuli ríkja um hlutabótaleiðina, sem og það þarf að tilkynna aðgerðir um endurfjármögnun þeirra fyrirtækja sem misstu rekstrargrundvöllinn vegna faraldursins.

Hins vegar breytir þörfin á langtíma aðgerðum ekki neitt um mikilvægi þess að bregðast hratt og rétt við í upphafi faraldurs, aðeins þannig er hægt að lágmarka tjónið sem er óhjákvæmilegt.

Atvinnuleysi drepur vissulega, en bara ekki strax, heldur er það æxli sem grefur um sig.  Ekki síður er eignamissir vegna ófyrirséðra atvika, hvort sem það er fjármálahrun, heimsfaraldur, náttúruhamfarir eða annað, æxli sem drepur, ekki bara þá sem missa allt, heldur líka dómínó áhrifin á störf og viðskipti annarra. 

En þetta æxli tengist vonleysi, að það sé ekkert gert, að það sé engin samfélagsleg trygging sem tekst á við tjónið á þann hátt að því sé dreift aðra sem betur sluppu.  Þetta er hugmyndafræðin að baki Viðlagasjóði, og við getum spurt okkur hvernig ástandið væri víða á Íslandi ef hans hefði ekki notið við, til dæmis í Vestmannaeyjum eða fyrir vestan.

Veiran drepur hins vegar strax Þorsteinn, og aðeins nútímalæknavísindi og sóttvarnir halda henni í skefjum.

Þeir sem trúa því að svo sé ekki, og hundsa orð framlínufólksins í vörnum okkar, ættu að taka að sér að vera sjálfboðaliðar á sjúkrahúsum, og afþakka geimverubúninginn sem notaður er til hlífðar.  Þrátt fyrir hann hefur heilbrigðistarfsfólk fallið, sérstaklega á þeim svæðum þar sem sýkingin náði að verða stjórnlaus.

En kannski dó þetta fólk úr hysteríu, og það er aðeins ein leið til að sanna það.

Sem er að mæta veirunni án varna.

Ég skal hlusta á þessi sjónarmið eftir svona tilraun, í Bandaríkjunum er heilbrigðisstarfsfólk víða komið andlega og líkamlega i þrot, það myndi alveg þiggja sjálfboðaliða sem léttu þeim störfin.

En fram að því ætla ég að taka mark á þessu fólki frekar en þér.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 24.8.2020 kl. 11:52

23 identicon

Það verð ég að segja, Ómar, að athugasemd þín, merkt hér nr. 22, er það efnismikil og góð að hún er á við þann besta pistil sem þú hefur skrifað

og ætti það því skilið að vera birt sem slíkur.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 24.8.2020 kl. 12:20

24 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Símon minn.

Vitræn umræða á ekkert erindi inná Moggabloggið, þeir sem það reyna, gefast fljótt upp, nema algjörir þrjóskuhausar eins og Bjarni Jóns, eftir rað Ip tölur innan við 5100 á dag.  Já og reyndar Einar Björn líka, hann hlýtur að vera manískur.

Þú eyðir ekki orku í það sem skilar engum tilgangi.

Svona ekki til lengdar, það er nú bara svo.

Vissulega skýt ég inn einum og einum pistli sem er efnismikill, þar sem ég rökstyð mitt mál, og út í það er farið, þá eru lengri pistlar sérstaða mín miðað við aðra sem eru á topp fimm listanum yfir lestur.

Ef langar mig að segja eitthvað að viti, þá skýt ég mig næstum því alltaf í fótinn, hvað varðar lestur og undirtektir, en fæ reyndar viðbrögð frá fólki sem mér þykir vænt um, og þá veit ég að þetta er ekki lesið.  Þess vegna reyni ég oft að enda á svona pistlum, það er þegar ég ætla að taka mér frí frá blogginu.

Þú þarft ekki að halda það Símon minn að ég kunni ekki að tjá mig í stuttum frösum líkt og kóngurinn (sem reyndar hefur ítrekað lagt dýpt í nokkra pistla sína undanfarið) eða skrifað frasa ádeilunnar sem andófið lækar grimmt við, þyrfti þá kannski að vera á öðrum bloggvettvangi, eða fóðrað íhaldssamt fólk á ádrepum á rétttrúnað, loftslagsátrúnað eða annað.

Þetta er ekki bara mín deild, og frá upphafi hef ég haldið mínu striki út frá þeim forsendum sem ég kynnti í upphafi bloggferils míns, og haldið mig við sambland af áreiti í bland við hugsjónir og dýpri umfjöllun rökstuðningsins.

Strikið hefur ítrekað kostað mig lestur, og andófið sem ég höfðaði til í upphafi, er löngu horfið úr lesendahóp mínum.  Í raun stendur fátt eftir annað en sá sérviskuhópur sem ennþá les, er til hægri, og kíkir á pistla hér á Moggablogginu.

Í þeim hópi eru fastir lesendur sem kíkja athugasemdarkerfið, og þar lesa þeir svona athugasemd, sem og athugasemdir annarra, sem fylla uppí, bæta við efnið, eða skapa umræðu eða áreiti sem ég bregst við.

Félagi Þorsteinn hefur reynst mér mjög notadrjúgur til að orða hugsanir, ég er ekki að meina þegar ég er að stríða honum, heldur að takast á við um margt skynsamleg rök hans og sjónarmið.

Athugarsemdarkerfið er í raun bónuspakki þessa bloggs.

Misvirkt að vísu, eiginlega steindautt lengi, en samt líf, þökk sé þeim sem ennþá þrauka við að tjá sig, hvort sem þeir eru sammála, fylla uppí efnið, eða ráðast á það, hvort sem það er með rökum eða fúkyrðum.

Nei Símon minn, þetta á ekkert erindi í pistil, lestur er jú forsenda áróðursbloggs, það er ef þú vilt hafa áhrif á umræðuna.

Þó í örlitlum mæli sé.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 24.8.2020 kl. 16:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 4
  • Sl. sólarhring: 19
  • Sl. viku: 450
  • Frá upphafi: 1412812

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 389
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband