Þegar heimskan fékk rödd.

 

Þá var vitnað í prófessor í stjórnmálafræði sem og stjórnleysingja, og frjálshyggjumann.

Heimskan sagði, það eru svo fá smit, og það eru borgarleg réttindi fólks að fá að vera heimskt, og smita aðra.

 

Víkjum að því fyrra, fá smit, staðfesta að sóttvörn er að virka, sem er jú tilgangur þeirra.

Þær eru jú til lítils þegar smit er orðið útbreitt, það liggur í veldisaukningu veirusmits og þá er eina ráðið að skella í lás, líkt og yfirvöld í Kína, á Ítalíu og Spáni neyddust til að gera.

Hinn möguleikinn var að láta drepsóttina hafa sinn gang, og drepa.

Sem er jú hvatning til fjöldamorða og ætti að liggja við þung refsing, líkt og hvetja til hryðjuverka, þjóðernishreinsana eða annars viðbjóðs.

 

Á neyðartímum eru borgarleg réttindi það fyrsta sem víkur, rétturinn til að vera heimskur, til að ganga úr takt, er ekki liðinn.

Til dæmis er það geirneglt í sjórétti að í sjávarháska eða öðru sem ógnar öryggi skips og áhafnar, að skipstjóri hafi þá alræðisvald, og hann má aflífa þá sem ganga gegn skipunum hans á neyðarstundu.

Án þess að ég viti það alveg, þá held ég að sama gildi um borð í flugvélum, þó prófessor í stjórnmálafræði, stjórnleysingi og frjálshyggjumaður segi að það sé borgarleg réttindi þeirra að fá að opna neyðarútgang á flugi til að fá sér ferskt loft, þá er það bara ekki svo, og áhöfn, sem og aðrir farþegar mega beita öllum ráðum til að hindra heimsku þeirra og afglöp.

Jafnvel þó rödd þeirra fái dálka á síðu Morgunblaðsins, sem aftur vekur reyndar spurningu um hvaða óværa hefur grafið þar um sig.

 

Í samkeppni þjóðanna eða baráttu þeirra fyrir tilveru sinni, þá er réttur stjórnvalda á neyðar og stríðstímum ótvíræður, fólk hlýðir eða er fjarlægt, jafnvel hengt uppí næsta tré ef þörf þótti, öðrum fíflum til aðvörunar.

Að öllu jöfnu er það borgarlegur réttur fólks að fá að kveikja ljós á kvöldin, en það var allt að dauðasök á Englandi á meðan flugvélar Görings flugu yfir og leituðu upp skotmörk sín.

Eins hefur það verið talinn sjálfsagður réttur að senda bréf og fréttir yfir landamæri til vina og ættingja, en amman sem vildi ólm segja Gunther frænda fréttir um manna og skipaferðir í nágrenni sínu á því herrans ári 1941 í gegnum transistortæki sem hann hafði skilið eftir nokkrum árum áður, hún fékk val, reyndar ekki lýðræðislegt val, heldur val um gálga eða senda Gunther falsaðar fréttir, annað var ekki í boði, þó hún væri gráhærð, amma og vildi nýta sér borgarlegan rétt sinn til að segja fréttir.

 

Svona má lengi lengi telja, á stríðs og ófriðartímum víkja borgaleg réttindi fyrir hagsmunum ríkis og þjóðar.

Í sjávarháska er það allir fyrir einn og einn fyrir alla.

Á tímum farsótta hefur enginn rétt til að sýkja aðra, hvað þá að dreifa smiti og sjúkdómum.

Einfaldlega forsendan til að lifa af.

 

 

Úrkynjun velmegunarinnar fær oft fólk til að gleyma þessum einföldu sannindum.

Eins  er vel þekkt að annarlegir hagsmunir drífa oft einstaklinginn áfram gegn heildinni, þó fjöldinn tapi getur einstaklingurinn oft grætt á upplausn og sundurlindi.

Eitthvað slíkt hlýtur að vera í gangi í dag því það er svo óendanlega heimskt að nota árangur sóttvarna sem rök gegn þeim.

Hvað þá að berjast fyrir frelsi drepsóttar til drepa náungann.

Þessu væri ekki einu sinni logið uppá Satanista í þriðja flokks hryllingsmynd.

Hvað þá að svona umræða fengi skjól á rótgrónu borgarlegu blaði eins og Morgunblaðið er.

 

Þetta er með ólíkindum, að loksins þegar árangur næst, og óttinn við að smitast eða smita náungann er að hverfa úr samfélagi okkar, að þá eru forsendur þess árangurs nagaður niður á síðum Morgunblaðsins.

Að kverúlantarnir skuli fá rödd sem er tengd við gjallarhorn niðri á torgi.

Slíkt hefur ekkert með lýðræðislega umræðu að gera, ekki frekar en myndbönd Ríki Íslams eða dreifirit Al Qaeda sem útskýrðu skilmerkilega hundrað og eina aðferð við drepa vantrúaða, sérstaklega ef hann bjó í nágrenninu. 

 

Við erum í miðjum heimsfaraldri veirusýkingar sem ógnar lífi samborgara okkar, og enginn veit hvernig mun hegða sér fái hún að ganga laus.

Næsta bylgja getur verið mildari, en hún getur líka verið illvígari líkt og var með Spænsku veikina forðum.

Og í stað þess að ræða varnir þjóðarinnar, og hvernig við sem þjóð eigum að takast á við afleiðingar hennar svo byrðum sé jafnt axlað, þá er miskunnarlaust grafið undan sóttvarnayfirvöldum með kjaftæði um borgaleg réttindi eða alvarleiki veirunnar talað niður með því að vísa árangur sóttvarna, og nota það sem rök fyrir því að hún sé ekki svo hættuleg eftir allt saman.

Fávitahátturinn er slíkur að það vantar aðeins að samtök Íslamista krefjist réttar til að búa til bílsprengjur eða sprengibelti fyrir opnum tjöldum, með vísan í borgaleg réttindi til hryðjuverka, og rökin að sprengjur sem lögregla nær að aftengja í tíma, sanni að sprengjur hryðjuverkamanna ógni ekki lífi og limum fólks.

 

Það er mál að linni.

Meðal annars með því að graftarkýlið sem skaut nýlega rótum á Morgunblaðinu verði hreinsað út.

Borgarlegt blað getur aldrei verið griðastaður öfga og mannhaturs, til þess var jú Neistinn eða Stéttarbaráttan í gamla daga, þar voru jú Pol Pot og Maó formaður lofsungnir.

Það var enginn söknuður af þessum blöðum, það var enginn söknuður af þeirri pólitík sem mærði fjöldamorð og fjöldamorðingja.

 

Það ætti ritstjórn Morgunblaðsins að hafa bak við eyrað.

Slík iðja er engu skárri þó hún kenni sig við frelsi.

Aðeins nýjar umbúðir um sama innihald.

 

Aðför að borgarlegu samfélagi.

Aðför að mannhelgi.

Aðför að öllu því sem Morgunblaðið hefur staðið fyrir í gegnum árin og áratugina.

 

Hvað breyttist??

Af hverju er Mogginn kominn í stríð við lesendur sína??

 

Mér er spurn.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Þrengt að borgaralegum réttindum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Þetta er útum allt hjá þér.

Veit ekki hvort þú ert hlynntur borgaralegum réttindum eða á móti þeim.  Út frá bara því sem þú skrifar.

Ásgrímur Hartmannsson, 20.8.2020 kl. 19:22

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Hvað þá með fólk sem neitar að láta bólusetja börnin sín við mislingum, barnaveiki, lömunarveiki, rauðum hundum, hlaupabólu  og berklum en krefst þes að mega senda þau á leikskóla með venjulegum börnum?

Á  ekki að gera skyldubólusetningar aðgangskilyrði að skólakerfinu? 

Sem gamall Bolsévikki  Ómar þú hlýtur að hafa skoðun á þessu athæfi sumra foreldra.

Halldór Jónsson, 20.8.2020 kl. 19:46

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

"Heimskan fær rödd", já, sú rödd galar í viðstöðulausri panikk á þessari bloggsíðu.

Þorsteinn Siglaugsson, 20.8.2020 kl. 19:59

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ómar ég tek undir með þér hvað prófessors bjálfann varðar og staksteininn á Mogganum, jafnvel þó svo að þeim yrði skyndilega annt um mannréttindi.

Ég hef tekið eftir því í pistlunum þínum upp á síðkastið að þú hefur því sem næst mært Panamaprinsinn og borið blak af Valhallar dúkkulýsunum hans, en vonandi fer nú að birta til í því kóvinu neðra.

Þangað til væri ágætt að melta eina og eina samsæriskenningu svona rétt áður en kynni að fara svo að setið yrði uppi með samsærið sjálft. Ég sendi þér því eina úrvals samsæriskenningu til samanburðar. https://www.youtube.com/watch?v=bslRpc_p_aI&t=16s

Með kveðju úr efra.

Magnús Sigurðsson, 20.8.2020 kl. 19:59

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Halldór.

Eru þær ekki skylda??

En í sjálfu sér er þetta sama prinsippið, þú þarft að virða lög og reglur samfélagsins.  Sértu ekki sáttur þá getur þú reynt að finna þér griðastað þar sem þú fellur inní hópinn, eða barist fyrir breyttum reglum.

En ekkert samfélag lifir af ef það leyfir einstaklingnum að ganga gegn reglum þess í grundvallarmálum, þau leysast alltaf upp eða önnur sterkari innlima þau.

Ég held annars að þú sért að vísa í bandarískar aðstæður, þar eru ýmsir sjúkdómar að blossa upp með tilheyrandi þjáningum og mannfelli, vegna þess að margir eru ekki samþykktir bólusetningum og láta ekki bólusetja börnin sín.

Börnin deyja svo.

Og ég get svo svarið Halldór, ef þetta fólk færi til dæmis pestarbælanna á norðausturströnd Suður Ameríku, að það myndi láta bólusetja sig, eða hver hefur gaman að því að drepast út gulu eða malaríu??

En skítt með börnin, þau mega missa sig, alltaf hægt að skjóta í ný við tækifæri.

Kveðja að austan.

PS, Halldór, ég er kominn af framsóknarmönnum langt fram í aldir, í báðum ættleggjum, svo bolsi??, að kalla mig Hriflunginn slíku ónefni er líkt og ég kallaði þig Pírata því ég hafi frétt að þú kunnir að prjóna leista, eða allavega amma þín.!!

Ómar Geirsson, 20.8.2020 kl. 20:06

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Orðið pírati er ekki ónefni heldur vísar það einfaldlega til aðildar viðkomandi að tilteknum stjórnmálaflokki. Sama á við um orðið framsóknarmaður.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.8.2020 kl. 20:10

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Ásgrímur.

Lesgleraugu þín hljóta að hafa verið laus á nefi, eða jafvel á hvolfi ef þú upplifir línulega pistil minn hér að ofan út um allt, það eina sem hugsanlega er óljóst, er hvort ég sé í prinsippinu fylgjandi þessu með nýtingu á trjám, en ég get fullvissað þig um að það er ég ekki, hef alltaf tekið mark á grunnboðorði mennskunnar, þú skalt ekki mann deyða.

Síðan er ég að fjalla um borgarlega skyldu á neyðar eða ófriðartímum, ekki borgarleg réttindi almennt.

Þannig að ég spyr þig bara hreint út á móti, hvað í ósköpunum fær þig til að spyrja þessarar spurningar eftir lestur þessa pistils??

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 20.8.2020 kl. 20:18

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Guðmundur.

Þegar ég henti inn svarinu til Halldórs þá átti það að koma strax á eftir athugasemd hans, verður að lesast í samhengi.

En ég var ekki á nokkurn hátt að sneyða að Pírötum, hins vegar veit ég að Halldór yrði ekki hrifinn af þeirri nafngift.

Ekki frekar en ég að vera nefndur bolséviki þegar íslenskan á svo miklu betra orð yfir þá sem eru bornir og barnfæddir á Neskaupstað, það er kommatittur. 

Er eiginlega að hóta Halldóri að láta hart mæta hörðu, en hvort það slái á stríðni hans, það er önnur saga.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 20.8.2020 kl. 20:24

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Þorsteinn minn.

Ég sé alveg í anda hvað hláturtaugin lét þig kumra að kæti þegar settir inn þessa hnyttni þína.

Hvað get ég sagt??

????

En mín er alltaf ánægjan að fá þig hér inn í athugasemdarkerfið, eins og ég sagði síðast, þá var ég farinn að sakna þín, og það meir en pínu pons.

Það er bara svo.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 20.8.2020 kl. 20:28

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Það er ótrúlegt hvað margt getur breyst þegar menn taka allt í einu uppá því að kasta grjóti úr sömu skotgröfunni, meir að segja börn eru talin geta tekið út þroska á einni nóttu og eru ekki lengur óvitar svo dæmi séu tekin.

Þannig er þetta bara, í sjálfu sér ræð ég ekki hverjir eru í stjórn, eða hvort þeir séu farnir að gera meir að viti en óviti, fagna því bara þegar svo er.

En varðandi Bjarna má alveg deila um hvort ég hafi verið mæra hann eður ei í pistli mínum um Leiðtogann, leiðtoginn í því samhengi var jú Sigríður Andersen, sem er leiðtogi stjórnarandstöðunnar í dag, og viðbrögð Bjarna við því eru nú svona, svona.

Allavega skortur á kjarnyrtri íslensku þó kannski þurfi ekki að hóta fólki höfuðmissi, en að líða þetta!!!!, það er alla vega ekki í anda Grettis sterka eða Egils Skallagrímssonar.

Síðan blak eða ekki blak, eigum við ekki bara að segja að ég sé ekki mjög mikið fyrir umræðu á persónunótum, sérstaklega ekki þegar í skjóli hennar er æpandi umræðuleysi um annað sem þarf að ræða, mig minnir að ég hafi endað á ákalli til siðar og siðmenningar, en það er aftur eins og það er, þegar eitthvað er reynt að segja að viti, þá skortir mig styrkinn til að segja það en ég er alltaf að vona að einhver annar segi það svo eftir sé tekið. 

Tilvitnun mín í dómsmálaráðherra, í athugasemd var hinsvegar einföld lókal móðgun út í annan þingmann, sem örugglega las ekki pistil minn, þó hann hafi lesið þá þegar ég fékk útrás á þeim Jóhönnu og Steingrími.

Það er bara svo Magnús, stundum á maður samleið, stundum ekki, ég er alltaf í stærra samhenginu, að agnúast í andskotann og hans pótintáta og því geispa ég alltaf þegar ég les eða horfi á svona samsæriskenningar, vorkenni eiginlega manninum fyrir þá firringu að nýta sér varnarbaráttu gegn drepsótt til að hnykkja á ofsóknaræði sínu. 

Mín samsæriskenning er hins vegar sú að allar þessar samsæriskenningar eru úthugsaðar og fjármagnaður af þessu svarta þarna sem ég kenni við Wall Street, til þess að hindra að vel meinandi og réttsýnt fólk nái að mynda mótstöðu gegn auðráni og rupli hagfræðinnar sem ég kenni við andskotann, rétt viðbrögð gagnvart afleiðingum sóttvarna, er að ýta undir og hvetja samfélög til að deila byrðum, og tileinka sér grósku og garðyrkjuspeki Meistarans sem við kennum við Nasaret.

En meðan fólk er í bullinu þá er slíkt náttúrulega borin von, og til þess er leikurinn gerður.

Ekki verri samsæriskenning er hver önnur.

Spádómar Opinberunarbókarinnar eru hins vegar ekki samsæriskenningar, og nú þegar deyr fiskur vegna þess að höfin sjóða og súrna, engisprettur hrekja tugmilljónir á vergang, og drepsótt geisar.

Efist menn, þá má hafa í huga að antikristnin, það er hagfræði andskotans er þegar ráðandi, svo hvað þurfa menn frekar til vitnis??

Núna vantar bara Schwarzenegger að rota þann í neðra, og þá náði ég á gamals aldri að upplifa í raunveruleikanum söguþráðinn í einni af minni uppháhaldsmyndum, End of Days.

En djóklaust, við lifum umbrotatíma þar sem það sem var mun ekki verða það sem verður, en hvað verður, efa ég að jafnvel tíminn viti.

Eiginlega líst mér ekkert á þetta.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 20.8.2020 kl. 21:15

11 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þakka þér fyrir greinagott svar Ómar, -sem er í raun heill pistill.

Það þarf að taka tímann út úr dæminu til fá hugmynd um hvað verður. Því rétt eins og peningar þá er tíminn einungis mælikvarðinn á hvenær hugmynd eða atburður varð til, þetta hefur m.a. að gera með það að tveir plús tveir þurfa ekki að vera fjórir frekar en manni sýnist, enda eru fjórir bara útkoman sem við höfum gert að samkomulagi.

Eina færa leiðin út er leiðin inn, þá er ekki átt við "if you can´t beat them join them", heldur leiðinn inn á við til sjálfsins. Því rétt eins og Biblían hefur að geima opinberunarbókina þá hefur hún að geyma setningar á við; "já yðar sé já og nei sé nei það sem umfram er kemur frá hinu vonda".

En þetta er nú kannski full háfleyg samsæriskenning svona fyrir svefninn.

Bestu kveðjur úr efra í neðra. 

Magnús Sigurðsson, 20.8.2020 kl. 21:50

12 identicon

Rétt er það að nauðsyn er samstöðu á ólgutímum og þá verða allir að ganga í takt.

En þá er líka aldrei meiri þörf á að gæta að barnið fari ekki út með baðvatninu, að frelsið hverfi undir ok reglugerðarfargansins. 

Það sem í upphafi var gert af skynsemi endar sem bann bannsins vegna.  Góð dæmi um slíkt er bann múslíma við svínakjötsáti og áratuga bann við hundahaldi í Reykjavík. 

Við þurfum í raun að vera á öllum sviðum með þá sömu hugsun og Þórólfur sóttvarnarlæknir, að skerða frelsið eins lítið og mögulega er hægt til að ná þó þeim árangri sem að er stefnt.

Eins þurfum við eins og Víðir hefur bennt á, að taka með opnum hug allri gagnrýni á það sem gert er.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 21.8.2020 kl. 07:33

13 identicon

Það er reyndar dálítið skemmtileg pæling að velta fyrir sér þessum þrem helstu leiðum sem þjóð á að geta valið sér gagnvart frelsinu og máta þær við íslenska pólitík.

Vel má rökfæra að Hrunið hafi stafað af of miklu frelsi athafnamanna til að skerða frelsi annarra. 

Einskonar frelsisfyllerí, löngum tengt við Sjálfstæðisflokk. 

Til að koma okkur úr ógöngunum voru tvær leiðir helstar. A. foræðishyggja í ætt við dæmi í pistli um vald skipstjóra eða flugstjóra á neyðarstundu, Framsóknarflokkur (nú Miðflokkur)

og B.  Trúin á reglugerðirnar, að hægt sé að búa til svo fullkomið prógram að það lagi sjálfkrafa allt það sem að er.  Samfylking í bland við V.G. 

Þannig höfum við þessar þrjár meginlínur, trúna á frelsið, prinsipplitla þjóðholla forræðishyggju og búrokratíuna.     

Við höfðum lengi þá fjórðu sem var trúin á kommúnismann en hún varð sjálfdauð út í haga þó draugarnir séu enn á kreiki. 

Þetta passar prýðilega við gamla fjórflokkinn sem hefur í raun verið þríflokkur síðan múrinn féll. Innan megin línanna eru svo einhverjar skiptingar. 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 21.8.2020 kl. 07:46

14 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Bjarni.

Á neyðartímum, hvort sem það er vegna stríðs, hamfara eða drepsóttar, þá er umræða um frelsi, forræðishyggju, borgarleg réttindi eða annað eins og hvert annað kjaftæði, kemur málinu ekkert við.

Roy Keane var með þetta þegar hann gekk að Ronaldo ungum í miðjum leik og sagði við hann, "ég lem þig ef þú gerir þetta aftur".

Spurningin um taktleysi versus takt var útkljáð í Galíu um 60 fyrir Krist, hefur ekki verið rædd síðan en vissulega er það rétt að allskonar apakettir á öllum tíma þekkja ekki til þeirrar umræðu eða niðurstöðu hennar, en það kemur heldur ekki niðurstöðunni við.

Þetta snýst um forystu og þeirra leiða sem hún leitar til að ná árangri, það er hann sem dæmir og um hann að leikslokum er spurt hvort hann hafi verið þess virði.

Síðan veistu að spurningum þínum hefur fyrir löngu verið svarað, að reifa þær á þessu stigi er í besta falli til þess að rugla þá sem hafa gaman að láta ruglast. 

Skipstjóri má vissulega henda útbyrðis úr björgunarbát manni sem hann telur ógna lífi allra, eða setja mann og annan í bönd ef hann telur öryggi skips og áhafnar ógnað.  Sjóréttur sker síðan úr um hvort þetta hafi verið rétt hjá honum eður ei, og enginn lætur sér detta í hug að hann geti þetta af því bara.

Eins er það með öll neyðarlög, um þau hafa þróast reglur í tímans rás, ein sú helsta að þau eru alltaf tímabundin, sama gildir um neyðarráðstafanir.  Sé þeim viðhaldið þegar ekki er lengur þörf á þeim, þá er það vísbending um bresti í lýðræðinu, sem hafa sem slíkir ekkert með tilefnið að gera.

Annað hvort virða menn reglurnar eða ekki, og þeir sem ekki virða þær, þeir nýta sér tilefni en það eru ekki tilefnin sem fá þá til þess.

Háskinn fylgir lífinu, að skynja hann ekki, eða kunna ekki að bregðast við honum, er vísasta leiðin til að verða undir í einu samkeppni lífsins, þeirri sem kennd er við að lifa af.

Ekkert flóknara en það.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 21.8.2020 kl. 08:30

15 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Magnús.

Tíminn er til, hann er vitur því hann þekkir söguna, en ekki það vitur að hann viti framtíðina.

Skil pointið með að útkoman ráðist af innkomunni, kannski er það skýring þess að bjartsýni mín hefur oft verið meiri, en ég trúi á samt á eitt sterkasta afl lífsins.

Vonin um að útkoman verði eitthvað betri en það sem lagt var upp með.

En???

Síðast þegar ég frétti af þessari von var hún á vergangi, orðin ósýnileg flestum.

Þannig að??

Veit ekki.

En það þýðir ekki að hætta að skamma mann og annan fyrir því.

Allavega ekki þegar fótbolti sona minna er undir.

Annar drifkraftur er svo sem ekki til staðar í augnablikinu, en er það sem er.

Og mér er algjörlega fyrirmunað að sjá það sem verður.

Ætli ég sé bara ekki orðinn svona gamall.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 21.8.2020 kl. 08:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 8
  • Sl. sólarhring: 17
  • Sl. viku: 454
  • Frá upphafi: 1412816

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 393
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband