9.8.2020 | 14:28
Eftir höfðinu dansa limirnir.
Eftir að ráðherra ferðamála afhjúpaði fáheyrða heimsku og vanþekkingu þegar hún taldi sig umkomna að rífast við raunveruleikann og við Gylfa Zoega prófessor, sér miklu fróðari mann um hagfræði, í viðtali sem hvorki forsætisráðherra eða fjármálaráðherra hafa séð ástæðu til að leiðrétta, þá er ljóst að þjóðin er leidd af fólki sem tekur faraldurinn ekki alvarlega.
Enda skýrði sóttvarnarlæknir frá því óbeint í viðtali við Rúv í hádeginu, að hann yrði líka að taka tilliti til fólks sem vildi hafa landamærin því sem næst galopin.
Núna berast fréttir af því að ástandið sé næstum stjórnlaust að kveldi til í Miðborg Reykjavíkur, og lögreglan á vettvangi valdlaus til að grípa inní.
Hafi veiran farið út að skemmta sér með einhverjum smitbera, þá er ljóst að hún hefur smitað marga þetta eina kvöld, og muni halda áfram að gera svo ef yfirvöld grípa ekki inní.
Sem ekkert bendir til þess að þau geri, heldur herði reglur hjá saklausu fólki, læsi eldra fólk inni og hreki fólk með undirliggjandi sjúkdóma í felur.
Ástandið í miðbæ Reykjavíkur endurspeglar nefnilega ástandið í ríkisstjórn Íslands, nema að í miðbænum voru fyllibyttur að verki, en óljóst að svo sé á fundum ríkisstjórnarinnar.
Meðan ríkisstjórnin tekur faraldurinn ekki alvarlega, hvernig er hægt að ætlast til að ungt drukkið fólk geri slíkt??
Í þessu sem og öðru þegar dauðans alvara ógnar öryggi þjóða, heilbrigði og heilsu, þá verður fordæmið, leiðsögnin að koma að ofan.
Limirnir taka ekki vals varúðarinnar þegar höfuðið vill tjútta dansinn kenndan við Hruna.
Þar sem endalokin eru þekkt og víðkunn.
Ef lögreglan hefði haft vald til að loka þeim stöðum þar sem sóttvarnir voru ekki virtar, þá yrði ekki kvartað um næstu helgi, veskið sæi til þess.
Hvort skemmtanaþyrst ungt fólk fyndi sér annan farveg er öllu erfiðara að spá um, þar reynir á sóttvarnir okkar hinna sem eldri eru, hvort við grípum inní þegar nágrenni okkar er breytt í skemmtistaði.
En þetta er verkefni sem þarf að takast á við.
Hins vegar skiptir litlu máli hvað við limirnir gerum ef höfuðið er staðráðið í að hleypa smiti inní landið óháð þeim skaða sem það hefur valdið, og þeirri ógn gagnvart daglegu lífi fólks sem sóttvarnaryfirvöld boða á næstu dögum.
Undir eru skólar, menning, listir, að ekki sé minnst á blessaðan fótboltann sem berst fyrir því að fá að klára mót sín.
Og það eina sem höfuð segir, til fjandans með þetta allt saman.
Þá er gott að eiga gikkinn Kára sem talar þó mannamál á góðri íslensku;
"Kári segist vilja að við gerum þá kröfu að þeir sem hingað koma fari allir í skimun, fimm daga sóttkví og síðan aftur í skimun, það sé einfaldlega spurning um líkindi.
Kári segir að það eigi ekki að hvíla á herðum Þórólfs að ákveða hvað skuli gera. Stjórnvöld ættu að setja fram beiðni á grundvelli þess sem þau kjósa og Þórólfur ætti að ráðleggja stjórnvöldum í samræmi við það.
Kári segir það algjört grundvallaratriði að börn geti farið í skóla og við sem samfélag stundað það menningarlíf sem við nærumst á.".
Við getum lifað án ferðaþjónustunnar, en ekki til lengdar án lifandi samfélags.
Með samfélagslegum og peningalegum aðgerðum má hjálpa ferðaþjónustunni að komast í gegnum þennan heimsfaraldur, fyrir utan að smitlaust land verður alltaf aðlaðandi kostur fyrir fólk sem vill flýja smitóttan heima fyrir.
Það eru nefnilega tækifæri í smitlausu landi.
Kári stjórnar ekki, hefur aldrei beðið um það hlutverk.
Ríkisstjórnin þykist ekki stjórna, heldur felur sig að baki sóttvarnalækni sem á völd sín undir að hlýða henni í einu og öllu.
Og hann á að hengja ef illa fer.
Það er ef við rísum ekki upp og segjum eins og forðum.
"Vér mótmælum öll".
Eða sættum okkur við Hrunadansinn.
Kveðja að austan.
Sumir staðir í bullinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 13
- Sl. sólarhring: 14
- Sl. viku: 459
- Frá upphafi: 1412821
Annað
- Innlit í dag: 13
- Innlit sl. viku: 398
- Gestir í dag: 12
- IP-tölur í dag: 12
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Oft vill það nú fara svo að höfuðið ræður ekki við limina.
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 9.8.2020 kl. 16:42
Jú ætli maður kannist ekki við það Hörður, hinn ljúfasti taktur og tónn í höfði verður eins og argasta pönk þegar limir eiga að dansa eftir, svo dæmi sé tekið.
Að ekki sé minnst á þegar limirnir vilja fara út og suður seint að kveldi eða nóttu, þegar hausinn hefur tekið strikið heima á við, eftir gleðskap nætunnar.
Verra er það hins vegar þegar limirnir dansa eftir höfðinu, á dauðans alvöru tímum.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 9.8.2020 kl. 17:02
Hvað hafa mörg smit verið rakin til skemmtistaða?
Guðmundur Ásgeirsson, 9.8.2020 kl. 17:12
Jón var að mótmæla fyrir hönd bænda nýjum lögum frá danska þinginu sem bönnuðu endanlega þrælahald og vistbönd. Í staðinn fengu þeir fardaga kerið.
GB (IP-tala skráð) 9.8.2020 kl. 17:54
Jón var að mótmæla valdníðslu fulltrúa konungs á héraðsþingi Íslendinga, ámóta atburðir áttu sér stað víða í Danaveldi, og konungsvaldið gaf smán saman eftir.
Það hvarflar að manni GB að þú hafir lært sagnfræði hjá Guðna forseta miðað við dýptina í hundalógík þinni.
En hver hefur sitt böl að draga.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 9.8.2020 kl. 18:10
Blessaður Guðmundur.
Sá að þú spurðir þess sama hjá nafna mínum, eins og þú haldir að þegar við nafni sögðum að allir ættu að hlýða Víði, þýddi að þar með yrðum við að Víði.
Get ekki svarað þessari spurningu.
Og sé ekki tenginguna við pistil minn eða pistil nafna.
Hins vegar fór ég á öldurhús í Reykjavík þegar ég var á Reycup, fékk þar ljúfan forrétt og ljúfan Guinnes, en enga kórónu, mikil skömm ef mannanna heimska verði til þess að klippt verði á rekstur þessara staða, það er miklu auðveldara að drepa þá en að endurreisa, alla þá flóru og fjölbreytni sem núna er í miðbæ Reykjavíkur, sem og víða um land.
Þess vegna þarf í dag að hlýða Víði og hlusta á Kára, og í framhaldinu að aflétta öllum álögum á veitinga og gistibransann, fallin atvinnugrein greiðir ekki gjöld og skatta, ekki frekar en dauður maður. Þá lógíg skyldi Kublai Khan, barnabarn Genghis sem vann Kína, og skipaði hermönnum sínum að láta af þeim þjóðlega sið Mongóla að drepa allt kvikt á herteknum svæðum.
Ríkti síðan yfir ríku landi og varð frægur fyrir.
En sjálfsagt hefði eitthvað risið uppúr rústunum þó hann hefði ekki lagt eyru við vísdómsorðum hins aldna öldungs sem benti honum á þessi einföldu sannindi.
Dauðir menn borga ekki skatta, gjaldþrota fyrirtæki borga ekki skatta, leyfðu mannlífinu að þrífast án ótta, og tekjurnar streyma inn.
So simple.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 9.8.2020 kl. 18:22
Víðir spyr:
"Spurning hvort menn séu traustsins verðir?"
Þar á hann við knæpueigendur í miðbæ Rvk.
Með hliðsjón af þessum góða pistli þínum,
má þó spyrja hvort þeir sem hærra sitja en þeir
séu traustsins verðir.
Minnir mig á vísuna gömlu:
Stelirðu litlu og standirðu lágt
í steininn ferðu.
En stelirðu miklu og standirðu hátt
í stjórnarráðið ferðu.
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 9.8.2020 kl. 19:01
Þar er efinn Símon Pétur sem næstu dagar skera úr um.
Ég hlýði Víði og styð Kára.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 9.8.2020 kl. 20:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.