4.8.2020 | 11:31
Upp er runnin Ögurstund.
Þar sem næstu dagar skera úr um hvort sóttvarnaryfirvöld nái tökum á innflutta smitinu.
Þar verðum við öll að leggjast á eitt, hversu ósátt við annars erum við að vera lent í þessa stöðu, eða þær ákvarðanir sem leiddu til hennar.
Samstaðan og fullur stuðningur er okkar eina vopn á þessari Ögurstundu, að við hlýðum Víði sem aldrei fyrr, og gætum að okkar eigin sóttvörnum.
Og munum að eigin sóttvarnir eru ekki fyrir okkur sem slík, heldur er það skylda okkar við náungann að hann þurfi ekki að óttast að við smitum, því þetta er slæm pest sem þar að auki getur verið lífshættuleg fyrir marga.
Lán okkar Ögurstundinni er gikkurinn Kári klári og sú óendanlega þrjóska hans að hafa byggt upp fyrirtæki sem er í fremstu röð á sínu sviði í heiminum.
Hæfni Íslenskrar erfðagreiningar til að rekja og þefa uppi dulið smit í samfélaginu mun ásamt okkar persónulegu sóttvörnum skipta sköpum og við munum sigra þennan vágest líkt og við gerðum síðast þegar honum var viljandi hleypt inní landið.
Sem og að Kári bendir á hið augljósa, við sigrum ekki þetta stríð nema lokað sé fyrir nýsmit í gegnum landamærin.
Í þessu efni er ekkert val og ábyrgðina þurfum við að axla.
Við þurfum líka að axla þá ábyrgð að krefjast að okkur sé sagt satt og þeir sem tóku þær ákvarðanir sem leiddu til þessarar seinni bylgju axli líka sína ábyrgð.
Með því að biðjast afsökunar og lofa því að endurtaka ekki sömu mistökin aftur, næg verða þau samt sem liggur í hlutarins eðli þegar menn glíma við óþekktan vágest sem er síbreytilegur og ógnar svo mörgu, hvort sem það er efnahagur, lífstíll okkar eða það sem skiptir mestu, heilsu, lífi og velferð fólks.
Þessa ábyrgð þurfa sóttvarnaryfirvöld að axla, á Ögurstundu gengur ekki að benda sífellt á aðra, ekki ef menn ætlast til þess að þessir aðrir axli sína ábyrgð og geri það sem þarf að gera.
Það er rétt hjá sóttvarnarlækni að á meðan lækning ekki finnst, þá munum við upplifa svona tímabil þar sem veiran blossar upp, þrátt fyrir ýtrustu aðgæslu, og þá þarf að herða sóttvarnarreglur, en jafnframt er nauðsynlegt að slaka á þeim og leyfa fólki að lifa eðlilegu lífi eins og hægt er með svona vágest vomandi yfir.
En það afsakar ekki þær röngu ákvarðanir sem leiddu til núverandi bylgju, ekki frekar en það er afsökun hjá slökkviliðsmanninum sem var handtekinn í Kaliforníu fyrir að hafa vísvitandi kveikt nýja elda, að þeir hefðu kviknað hvort sem er.
Við hið óviðráðlega verður ekki ráðið, en við ráðum yfir því sem við ráðum.
Náttúran sér um að kveikja elda á þurrkasvæðum, en hún þarf ekki okkar hjálp til þess. Ekki frekar en að farsóttin þurfi okkar hjálp til að smita á ný.
Okkar skylda er að hindra það, ekki að stuðla að því.
Við megum aldrei gleyma að sóttvarnaryfirvöld vissu að skimun á landamærum væri ekki örugg, og þó almenningur sem slíkur gerir sér ekki grein fyrir því, þá er það meitlað í grunn þekkingar sóttvarna, að farsótt þarf aðeins eitt smit til að blossa uppá ný.
Það er skýring þess að læknarnir sem voru í fremstu víglínu brugðust harkalega við fyrstu fréttunum af ótímabæri opnun landamæra þjóðarinnar.
Þetta sögðu þeir áður en þaggað var niður í þeim.
"Fyrrum yfirlæknir COVID-19 deildar Landspítalans segir það hafa komið heilbrigðisstarfsfólki í opna skjöldu þegar yfirvöld tilkynntu um að landið verði opnað fyrir ferðamönnum með takmörkunum 15 júní.
Það verður að viðurkennast að mér fannst þetta koma eins og þruma úr heiðskíru lofti. Ég áttaði mig ekki alveg á því að við værum að fara að opna landið svona snemma. En að sama skapi, það veit enginn hvenær rétti tímapunkturinn er. Er það núna eða er það seinna? Þarna náttúrlega togast ólík hagsmunaöfl á, segir Ragnar Freyr Ingvarsson, sem gegndi stöðu yfirlæknis á COVID-19 deild Landspítalans á meðan kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst hér á landi.... Auðvitað erum við pínu óróleg yfir þessu plani. Ég held að þarna ráði önnur sjónarmið för en heilbrigði Íslendinga og ég held að það hafi ekki átt sér stað neitt víðtækt samráð við heilbrigðisstarfsfólk um þessa opnun, segir Ragnar.".
Það eru margir sem eiga þessum manni og samstarfsfólki hans líf sitt að þakka.
Orð hans voru léttvæg metin og algjörlega hundsuð.
Og Már Kristjánsson yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landsspítalans var ekkert að skafa utan af því þegar hann sagði; "Ég held að þessi sterku viðbrögð fólks séu að sumu leyti angist eða ótti um að við séum að kalla yfir okkur hörmungar, sem kann að vera að við séum að gera í ljósi þess sem við þekkjum utan úr heimi, þar sem samfélög fóru hryllilega illa út úr þessu. Við virðumst hafa sloppið fyrir horn enn þá alla vega. Mér finnst þetta vera réttmæt tilfinning hjá fólki að þetta muni kannski verða eitthvað hræðilegt tímabil. Það er alveg skiljanlegt.".
Mótrök sóttvarnarlæknis var að þessir læknar hugsuðu aðeins dæmið út frá þröngum sjónarmiðum síns sérsviðs, það yrði líka að gæta að heilbrigði þjóðarinnar í víðara samhengi.
En ljósi þess að þjóðin var eins og kálfar að vori þegar sóttvörnum var aflétt, fólk naut frelsis, ferðaðist um land sitt, hreyfði sig meira, ánægt að fá að lifa eðlilegu lífi, þá er fátt sem rennir stoðum undir þessi orð sóttvarnarlæknis, nema hugsanlega áhyggjur af þotuliðinu, að það upplifði einhvers konar áfallaröskun að geta ekki lengur ferðast að vild.
Heilbrigðisrök lágu því ekki að baki samþykkis sóttvarnaryfirvalda, allan tímann var ljóst að áhættan sem tekin var myndi fyrst og síðast bitna á heilbrigði þjóðarinnar, bæði beint með sýkingu og óbeint með öllum þeim áhrifum sem hertar sóttvarnir hafa á daglegt líf fólks, hinn undirliggjandi ótti, sjálfskipuð einangrun fólks í áhættuhópum, að ekki sé minnst á skerðingar á heimsóknum á dvalarheimili aldraða.
Þrýstingur hagsmunaafla og hin svokölluðu efnahagsleg rök skýrðu ákvörðun þeirra eins og slíkt sé á þeirra verksviði að meta.
Að það sé hlutverk sóttvarnarlæknis að þagga niður í gagnrýnisröddum heilbrigðistétta og kóa með rangri ákvörðun stjórnvalda út frá heilbrigðissjónarmiðum um að opna landamæri þjóðarinnar.
Sem og að efnahagslegu rökin voru allatíð umdeild.
Þjóð í höftum sóttvarna er um leið þjóð í efnahagslegum höftum, ávinningur af opnun landamæra þarf því að vera mikill til að hægt sé að réttlæta slíka ákvörðun.
Og hann er mikill ef vel tekst til, það er ekki spurning, opnun landamæra hlýtur alltaf að vera langtímamarkmið stjórnvalda, spurningin var miklu frekar um tímapunktinn.
Hversu skynsamlegt það er að opna landamæri í miðjum heimsfaraldri farsóttar?, sérstaklega í ljósi þess að það var vitað að við búum ekki yfir nógu góðri tækni til að greina öll smit með skimun.
Í dag þarf ekki að ræða þetta.
Spurningin snýst ekki um ávinninginn heldur hversu mikill skaðinn er.
Viðbrögð listamanna, veitingamanna og annarra sem urðu af miklum tekjum um síðustu helgi gefa vísbendingu, ef höftin eru komin til að vera vegna þess að við náum ekki að höndla okkar Ögurstund, þá er ljóst að margur reksturinn sem átti von, hefur fengið sitt síðasta rothögg.
Sem og að þeirri spurningu var aldrei svarað, hver er rekstrarlegur ávinningur af nokkrum tugþúsundum erlendra ferðamanna fyrir atvinnugrein sem ræður við að sinna hundruð þúsundum á álagstíma sínum.
Ef enginn lokar, ef allir veðja, þá er víða gífurlegur taprekstur í greininni því tekjur duga ekki fyrir breytilegum útgjöldum.
Það sem er vont verður aðeins verra.
Afsökunin er þrýstingur hagsmunaafla sem er skiljanlegur, það er svo mikið undir.
Fyrirtæki í góðum rekstri eru allt í einu komin á vonarvol vegna ytri aðstæðna sem þau ráða ekkert við.
Og það er hrein og klár heimska af ætt óendanleikans að reyna ekki að tryggja tilveru þessara fyrirtækja og atvinnugreina sem heimsfaraldurinn ógnar, því faraldurinn gengur yfir og veldur nógum skaða, þó mannlegar ákvarðanir kenndar við hringekju innheimtulögfræðinga skilji ekki líka eftir sig sviðna jörð þegar þörf er á vinnufúsum höndum og öflugum fyrirtækjum til að hefja uppbygginguna að nýju.
Um þetta þarf ekki að deila, þrýstingurinn er skiljanlegur.
Málið er að örvæntingin er aldrei góður ráðgjafi, en varfærinn skynsamur maður er það hinsvegar á svona tímum.
"Skynsamlegt að taka lítil skref" er haft eftir Gylfa Zoëga, prófessor í hagfræði í frétt á Ruv þann fjórða júní síðatliðinn.
Rök úr ranni skynseminnar og mikillar þekkingar á hagfræði, rök sem aldrei var svarað eða rædd í fjölmiðlum vegna hjarðhegðunar eða beinna hagsmuna eiganda þeirra.
En raunveruleikinn ræddi og lagði í dóm;
" ... Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði, segir mikilvægt að meta áhættuna sem hlýst af því, til dæmis ef faraldurinn tekur sig upp á ný hér í haust. Það versta sem getur gerst er að það verði jafn mikill eða verri faraldur í haust og í vetur, því að það sem er gott hérna er að það hefur tekist að ná tökum á þessu þannig að hagkerfið innanlands og samfélagið er að komast í eðlilegt horf, segir Gylfi. Og það má alls ekki gerast eins og hefur gerst svo oft í sögunni hér að hagsmunir fárra megi ekki verða til þess að heilsu og afkomu annarra sé stefnt í hættu.
Gylfi telur að hagkerfið geti náð sér á strik þó svo að hingað komi ekki fjöldi ferðamanna á þessu ári. Innlend neysla landsmanna hafi dregið úr samdrætti og myndi gera það áfram. Samdráttur í landsframleiðslu er 8% á þessu ári, og það er vel hægt að búa við hann, hann færir okkur bara aftur til 2016. Vandinn er sá að hann bitnar mjög mikið á hluta af þjóðinni, þeim sem að unnu í ferðaþjónustu. Þetta eru oft ungt fólk og innflytjendur, segir Gylfi. Kjör annarra hafi skerst mun minna eða jafnvel ekkert. Þetta auki ójöfnuð. Nær væri að koma til móts við þá sem verst urðu úti með öðrum hætti. Þá sé ekki víst að það auki hagvöxt að opna landið. Þó að erlendir ferðamenn komi inn með gjaldeyri sé hætt við að Íslendingar fari með fjármuni úr landi á móti. Þá geti kostnaðarsöm sýnataka og hættan á tveggja vikna sóttkví fælt ferðamenn frá. Þegar að það er svona mikil óvissa þá er alltaf skynsamlegt að taka mörg, lítil skref, segir Gylfi, og bendir á að læknar séu ekki sammála um hvernig fara skuli að.
Ertu að leggja til að fresta opnun landsins? Það að bíða hefur gildi, segir Gylfi. Þetta eru svona almannagæði að geta búið í landi þar sem að er ekki farsótt, þar sem að fólk getur mætt í vinnu, farið út að borða, það getur hist. Og þessi almannagæði eru svo mikilvæg að maður má passa sig að gera ekkert sem að stefnir þeim í voða.".
En Gylfi er ekki óviti og óviti þarftu að vera í dag til að á þig sé hlustað.
Eða þú sameinar það að vera frægur og vitlaus.
Þannig stjórnar auðurinn okkur í gegnum sína keyptu stjórnmálamenn og fjölmiðla sína.
Breytir samt ekki því að við upplifum Ögurstund, og við henni þurfum við að bregðast.
Sameinuð sem eitt.
Þannig sigrum við núna, og næst og næst.
Þrátt fyrir allt er það gott fólk sem leiðir okkur.
Við verðum að treysta því, og við vitum að það gerir sitt besta.
Og þess besta er það besta sem við höfum.
Lærdómurinn er síðan okkar allra.
Jafnt sóttvarnaryfirvalda, stjórnvalda sem og almennings.
Trúum og treystum.
Það er okkar sterkasta vopn.
Kveðja að austan.
Þrjú innanlandssmit í gær | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:33 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 717
- Sl. sólarhring: 769
- Sl. viku: 6301
- Frá upphafi: 1400240
Annað
- Innlit í dag: 656
- Innlit sl. viku: 5420
- Gestir í dag: 622
- IP-tölur í dag: 608
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Mörg eru orðin, en þetta setningarbrot höfundar segir nóg: [...]"ávinningur af opnun landamæra þarf því að vera mikill til að hægt sé að réttlæta slíka ákvörðun."
Esja frá Kjalarnesi (IP-tala skráð) 4.8.2020 kl. 13:47
Þetta er frábær samantekt, Ómar.
Hafðu miklar þakkir fyrir.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 4.8.2020 kl. 14:39
Og mikið mælist Gylfa Zoëga viturlega og vel.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 4.8.2020 kl. 14:43
Blessaður Esja minn.
Allir sem þekkja til etnísku vita að flas er ekki til fagnaðar, sem og það sem skiptir máli, er sjaldnast sagt með fáum orðum, nema þá einna helst kynningar.
Ég taldi fulla ástæðu til að draga saman kjarnann, í skrifum mínum og gagnrýni, núna þegar ég feisa þá staðreynd að "þess besta er það besta sem við höfum", og það er í raun það eina sem við byggjum á í dag.
Bandamenn héldu friðinn á meðan ágreiningur þeirra var smærri en ógnin.
Og jafnvel ég get þagað þegar þess þarf.
Núna hlýðum við Víði.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 4.8.2020 kl. 16:54
Takk fyrir það Pétur Örn.
Við smáfuglarnir vitum að stundum þarf að gæta hógværðar sem og segja það sem þarf að segja, þó litlar líkur séu á tímum æsinga og vanlestrar, að slíkt sé lesið til gagns og ánægju.
En ef engin eldmessan á rætur, þá endar öll umræða í báli líkt og á eldvirka tunglinu á braut um Júpiter þar sem aldrei ætlar að hætta að gjósa, og aðeins hitinn og bráðnunin mótar yfirborð.
Það er mikið undir í dag að vel takist til, en samt megum við ekki gleyma skynsemisorðum viturra manna sem vöruðu við feigðarflaninu.
Því þá verður feigðarflanið reglan og sú braut sem skilar samfélaginu heilu áfram og fram á við, fordæmd á þann hátt að hún sé allt sem hún er ekki, öfgar þegar hún er skynsöm, fals þegar hún er rétt, eða það sem verst er, að hún ógni tómhyggju og firringu umræðu dagsins, að hugsun og skynsemi sé það versta sem hægt er að bjóða fólki uppá.
Þess vegna munum við Gylfa, og þökkum honum.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 4.8.2020 kl. 17:06
Með skimun hefur tekist að finna hver er smitaður
en mér finnst enn fátæklegar upplýsingar um hvernig, hvenær og hvar smitin hafa átt sér stað.
Það eru fjölmargir möguleikar á að bera smit frá önundarfærum A til öndunarfæra B þó líklegast sé að smitið berist með loftinu næst smitbera A
Grímur (IP-tala skráð) 4.8.2020 kl. 17:32
Stuttur og hnitmiðaður bragðast textinn best eða eins og enskan segir: KISS (Keep It Short and Simple).
Esja frá Kjalarnesi (IP-tala skráð) 4.8.2020 kl. 18:04
Ætli ég segi ekki bara við þig Esja minn góður líkt og Trjáskeggur sagði við unglingana, sem reyndar höfðu lifað einhver árþúsund, þú skilur þetta þegar þú eldist.
Vissulega hefði Tolkien komið innihaldi Hringadróttinssögu fyrir í einni bók, jafnvel einu minnisblaði ef hann hefði skrifað fyrir Reagan, eða jafnvel einni setningu; Beware, the evil is coming, fight it before it eats you, en hann sagði nú sína sögu fyrir því með eins fáum orðum og hann taldi mögulegt svo sagan kæmist til skila.
Hann treysti á að til væri læst fólk þarna úti sem borgaði fyrir prentkostnaðinn, annars var honum gott sama.
Hann hafði jú sögu að segja sem þurfti að segjast, hitt var síðan undir öðrum komið.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 5.8.2020 kl. 07:05
Blessaður Grímur.
Þeir tala um snertismit hérna, í fyrri bylgju sagði Þórólfur fá dæmi um loftsmit.
Þess vegna mælir hann ekki með grímum nema í miklum þrengslum líkt og í flugi eða strætó, og líkamsræktarsölum, þar var þetta öndunarsmit sem hann talaði um.
Síðan er veiran snörp og síbreytileg, núna virðast hinir sem töldu sig ósnertanlega sýkjast í þessari bylgju, svo best er að vera laus við helv.
Hlýðum Víði.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 5.8.2020 kl. 07:36
Algengasta snertismitið hlýtur að vera þegar káfað er á óþverranum og puttar svo reknir upp í nef eða munn og vissulega reynir maður í dag að muna hvar hendurnar voru síðast áður borað er í nefið.
Grímur telur að grímur til að hefta loftsmits útbreiðslu frá smituðum einstaklingi geti verið úr hvaða drasli sem er, en ef andlitsgríman á að verja þann sem hana ber þá þarf mjög vandaða grímu
Grímur (IP-tala skráð) 5.8.2020 kl. 16:37
Þetta er alveg rétt hjá þér Grímur.
Að ég held.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 5.8.2020 kl. 16:47
Nú gæti ég ekki bætt neitt um betur í texta kommans frá Litlu Moskvu.
Nema að ég skil ekki af hverju við stoppum ekki hælisleitendur frá því að streyma hingað við þessar aðstæður og teppa öll farsóttarhúsin okkar?
Til hvers andskotanse er þetta svona?
Bara fyrir Helgu Völu og lögfræðingastóðið sem fyrir löngu hefur tekið við af verkfræðingastóðinu hans Sverrisar Hermannss?
Halldór Jónsson, 5.8.2020 kl. 23:22
Framundan er hin árlega flensa og alltaf er allskonar í gangi, krabbamein og annað. Og nú er verið að framleiða atvinnuleysi með sínum fylgikvillum. Ég vona að einhver sé að hugleiða heildarmyndina.
Geir Ágústsson, 6.8.2020 kl. 00:55
Takk fyrir það Halldór.
Nú er stórt spurt, og fátt um svör.
Ætli meginn vandinn sé ekki að kostnaðinum er alltaf komið yfir á aðra.
Það dygði annað af tvennu til þess að þetta hætti, góða fólkið ynni í sjálfboðavinnu í stað þess að vera í áskrift af skattfé, og eða flugfélögin bæru ábyrgð á innflutningi sínum.
En þetta er hlálegt á tímum heimsfaraldurs að það sé ekki hægt að sinna innlendum því sóttvarnarhúsið er fullt af fólki sem er að verða sér úti um ódýrt og gott frí.
Munum svo að raunverulegir flóttamenn eru í flóttamannabúðum, þar sem okkur ber skylda til að hjálpa með fjárframlögum, því enginn getur flúið þá skyldu sem meitluð er í stein, þú skalt gæta bróður þíns.
Glæpamannaiðnaðurinn sem kenndur er við flóttamenn hefur ekkert með slíkt að gera.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 6.8.2020 kl. 08:27
Blessaður Geir.
Heildarmyndin er að hlúa að sínu, bæði heilsu, atvinnu, rekstrarumhverfi fyrirtækja.
Ekkert af þessu þrífst á meðan drepsótt gengur laus, óttinn heldur öllu í heljargreipum.
Það er hins vegar framleitt í Hubei héraði eins og aldrei fyrr, ástæðan ekki bara sú að þar drápu menn veiruna, heldur líka sú að hugmyndafræðin sem þú styður, flutti alla grunnframleiðslu þangað, þar eru störfin sem þú hefur áhyggjur af.
Það er tálsýn að halda að hagkerfi lifi á því að menn gefi hvor öðrum að borða, kovid afhjúpaði þá tálsýn.
Og verkefni morgundagsins er að gera upp við þá hugmyndafræði sem rændi samfélögin innan frá, jafnt verðmætum sem störfum.
Það býr hver af sínu og út frá því stunda menn viðskipti sín á milli, á forsendum frjálsra manna, frjálsra einstaklinga sem fá sanngjarna umbun erfiðs síns sbr verðugur er verkamaður launa sinna og skráð var í helgri bók.
Frjáls maður keppir aldrei við þræla, hann útrýmir þrælahöldurum.
Og hann drepur veirur áður en þær drepa hann.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 6.8.2020 kl. 08:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.