29.6.2020 | 09:45
Hið vítaverða og ábyrgðin.
Það er leitun af annarri eins heimsku, nema jú náttúrulega rök Bjarna Ben fyrir samþykkt orkupakkans, og þegar forráðamenn Breiðabliks leyfðu sýktri manneskju að spila með kvennaliði sínu í fótbolta, og gerðu þar með heiðarlega tilraun til að eyðileggja íslenska fótboltasumarið.
Grunnhygginn segir vissulega, "við vissum þetta ekki", en fullorðið fólk með heilbrigða skynsemi veit að það er smithætta af fólki sem er nýkomið af svæðum þar sem drepsótt geisar.
Sá heimski segir, reglurnar leyfðu þetta, en óvitaóráð er aldrei afsökun þegar dauðans alvara er annars vegar. Það væri leitun af því fífli sem væri út að borða með tígrisdýri, þó umhverfisráðherra missti endanlega alla jarðtengingu í náttúruvitund sinni, og lýsti því yfir að það væri óhætt því hann hefði lesið í merkri bók kennda við Hálsaskóg, að öll dýrin í skóginum væri vinir, og tígrisdýr eru skógardýr eins og allir vita.
En öruggt er að enginn hefði verið svona heimskur, hefði hann vitað að heimska hans sætti ábyrgð, því heimska er oft valkvæð og er fylgifiskur ábyrgðarleysis.
Hefði KSÍ strax í upphafi markað þá stefnu að liðin bæru ábyrgð á sóttvörnum sínum, sem eru þekktar og virka, og þar með bæri þeim skylda til að mæta á leikdegi og spila, ella leikur dæmdur tapaður 3-0, þá hefði þetta atvik ekki átt sér stað.
Bæði hefði viðkomandi leikmaður farið strax í sóttkví, og ef það hefði ekki verið gert, þá hefðu þau lið sem mættu Breiðabliki, krafist þess að leikurinn yrði flautaður af, og með úrslitunum 3-0.
Þessi regla hefði líka þýtt að einstakir leikmenn hefðu gætt að hegðun sinni utan vallar, því sóttkví innan hóps þýðir að það þarf að fara út fyrir hópinn til að ná í leikmenn. Á Ítalíu spilaði 3. flokkur fyrir eitt deildarfélagið, það eru líka til oldboys og svo framvegis.
Aðalatriðið er að á tímum drepsóttar, er tvennt í boði, gera ekki neitt eða sýna þá ábyrgð og skynsemi sem þarf til að halda landinu smitlausu, og mannlífinu gangandi.
Vegagerðin hefur undanfarin ár vogað sér að hundsa árþúsunda gamla reynslu siðmenningarinnar um hvernig bik er blandað og flatt út.
Hið náttúrulega efni tjara komst alltí einu á bannlista, líklegast vegna þess að hún er á sama ættartré og olía, sem ku víst ekki vera inn hjá góða fólkinu þessi misserin. Svona álíka gáfuleg tenging og að banna ketti því ljón eiga það til að borða fólk.
Í stað hennar er íblöndun ýmissa náttúruafurða sem eiga það allt sammerkt að vera ekki tjara og virka ekki.
Afleiðingin er malbik sem endist miklu skemur, sem sóðar út farartæki og umhverfi, og drepur.
Rétttrúnaðurinn drepur.
Vegna þess að kerfið er ósnertanlegt og kemst endalaust upp með afglöp sín og forheimsku.
Og enginn sætir ábyrgð.
Það er engin lögreglurassía í húsakynnum vegagerðarinnar, það verða engar ákærur gefnar út vegna manndrápa, og þeim sem málið er skylt, ætla aðeins að þegja.
Og þegja sjálfsagt aftur þegar næsti deyr.
Lífræn drulla í malbiki er umhverfissóðaskapur á hæsta stigi.
Í nafni rétttrúnaðar umhverfisverndarinnar.
Sami rétttrúnaður knúði fram reglugerð fyrir áratug eða svo, þar sem skylt var að þynna eldsneyti með annarri lífrænni drullu, kallað lífeldsneyti.
Fyrir utan kostnaðinn sem leggst á fjölskyldur landsins, þá er drullan mengunarvaldur vegna verri bruna í bílvélinni, og þar sem hún er ræktuð, þá falla regnskógar umvörpun vegna hennar.
Er líklegast stærsta einstaka skýringin á eyðingu regnskóga í dag.
En fíflin sæta ekki ábyrgð, þau eru örugg í fílabeinsturni rétttrúnaðarins.
Ef eitthvað er sagt vera í nafni umhverfisverndar, þá skiptir ekki máli hversu heimskt það er, eða skaðlegt, bæði fólki og umhverfi, það er ósnertanlegt, og ekkert fær það stöðvað.
Slík er forneskjan, slíkt er miðaldamyrkrið í umræðu samtímans.
Engin ábyrgð eða afleiðingar af röngum skaðlegum ákvörðunum.
Ábyrgðarleysið gegnsýrir allt kerfið, menn geta vegið að lífi og limum náungans og komist upp með það.
Þess vegna flugu Max vélarnar þó tæknimenn vissu að þær væru ekki öruggar, og þegar fólk dó, alveg eins og uppá Kjalarnesi í gær, þá var engin lögreglurassía í höfuðstöðvum Boeing eða þess stjórnsýsluapparats sem bar ábyrgð á að gölluð hönnun fór í loftið.
Sorrý Stína, gangi ykkur betur í næsta lífi.
Eða eigum við aftur að ræða þá vísvitandi tilraun til manndrápa sem aflétting sóttkvíar við komu til landsins er, frá löndum þar sem drepsóttin gengur ennþá laus??
Það veit enginn hver deyr, og sjálfsagt myndu óvitarnir ekki skipa fyrir um þessi fáráð, ef þeir fengju kristalkúluna lánaða hjá Siggu Klíng, og sæju að sá fyrsti til að deyja væri einhver þeim nákominn, ekki nema siðblindan sé algjör og þeim langi í arfinn.
En nafnleysið og óvissan á ekki að vera afsökun fyrir okkur hin að grípa ekki inní og mótmæla.
Önnur drepsóttarbylgja er ekki óumflýjanleg nema þar sem fífl og óvitar stjórna. Það er auðvelt að ná tökum á drepsóttinni og þau lönd sem það hafa gert, geta haft eðlileg samskipti sín á milli, önnur þurfa að ná tökum, eða bíða eftir lækningu ella.
Sú heimska að vitna í efnahagsleg rök fyrir opnun landamæra á smiti er óboðleg, það þrífst ekki eðlilegt mannlíf á drepsóttarsvæðum, það lamast allt, og þar með allt sem kennt er við efnahag.
Þetta veit skynsamt fólk, en óvitarnir stjórna.
Og stjórna eins og óvitar á meðan ábyrgðin eltir ekki gjörðir þeirra.
Hvað er til ráða??
Hvað er til ráða í heimi þar sem rangar ákvarðanir eru ítrekað teknar, fáum til hags, en fjölda til tjóns??
Svarið er kannski fólgið í máli réttvísinnar gegn eiturefnaframleiðanum sem úðar krabbameinsvaldandi illgresiseyði um allar jarðir.
Fátækur svartur verkamaður, helsjúkur af krabbameini, fékk lögfræðing til að lögsækja risann, og vann.
Því lögin undanskilja nefnilega ekki einn eða neinn.
Hvort sem það er stórfyrirtæki, eða kerfiskarl í skjóli ríkisvaldsins.
Það eru nefnilega allir jafnir fyrir lögum.
Ef Vegagerðin verður lögsótt, ef óvitarnir verða lögsóttir, þá eltir ábyrgðin hið vítaverða.
Ef alvöru umhverfissamtök lögsækja skrifræðið í Brussel, eða samtök fórnarlamba fégræðgi yfirmanna Boeing, þá hugsa aðrir sig um tvisvar áður en þeir valda öðrum vísvitandi skaða vegna eigin hagsmuna.
Heimskan er nefnilega ekki náttúrulögmál, hún er valkvæð.
Og hörfar þegar að henni er sótt.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 61
- Sl. sólarhring: 608
- Sl. viku: 5645
- Frá upphafi: 1399584
Annað
- Innlit í dag: 52
- Innlit sl. viku: 4816
- Gestir í dag: 51
- IP-tölur í dag: 51
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Jæja Ómar, hann gengur ekki lengur á með skúrum í neðra, heldur glórulausri grjóthríð.
Svona til að byrja með þá átti ég eitt sinn Tiger og vinskapur okkar var aldrei meiri en þegar við gæddum okkur saman á harðfiski.
Dýrin í skóginum eru nefnilega vinir og öll jafn rétthá þó svo að frumbygginn Mikki refur hafi verið réttdræpur í mannheimum á Íslandi hvar sem til hans hefur sést.
Þessi pistill hjá þér er náttúrulega tóm tjara, en eins og þú bendir réttilega á þá er tjara náttúrulegt og vistvænt efni.
Þó svo að sérfræðingarnir hafi komist að skaðsemi hreinu tjörunnar, var það svo merkilegt með malbikið, að á svipuðum tíma og þeir eyðilögðu bindingu þess samkv. Brussel spekinni, þá juku þeir hörku fylliefnisins og fluttu inn Norskt grjót því engin steintegund var nógu hörð á öllu Íslandi fyrir malbik.
Þannig að nú er Norskt grjótkast í framarúðum landsmanna, og úti um móa og mela, á meðan bindingslaus lífdiesel repjan lekur niður vegstikurnar, vegna þess að allt þetta transport er svo ofboðslega umhverfisvænt og hagvaxið, fyrir utan að það má malbika sama vegspottann helmingi oftar fyrir margfalt hærra verð með fjármögnuðu einkaframkvæmdum.
Ég tek undir það með þér að það er kominn tími til að lögsækja óvita eftir að þeir eru komnir með hátt í milljón á mánuði eða meira, hvað þá þá sem stunda sjálftöku og selja sjálfstæðið svo hægt sé að uppræta skóginn þar sem öll dýrin voru vinir, og það gert jafnvel þó það kosti mörg mannslíf á klakanum um há sumar.
Annars, magnaður pistill að venju.
Með kveðju úr efra.
Magnús Sigurðsson, 29.6.2020 kl. 13:33
Jamm og jæja Magnús.
Hvað get ég sagt??
Annað en jamm og jæja.
Bið samt að heilsa Tiger.
Kveðja úr neðra upp til Múlaþings (ha, ha ha)
Ómar Geirsson, 29.6.2020 kl. 15:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.