Firring umræðunnar.

 

Styrmir Gunnarsson á einn af pistlum ársins í laugardagsblaði Moggans.  Og sá ágæti pistill var tilefni þessarar fyrirsagnar þar sem ég fór að velta fyrir mér af hverju við sem þjóð höfum ekki náð okkur uppúr hjólfari átakaumræðunnar frá Hruni. En hugleiðingar um það eru inntak pistils Styrmis.

 

Áður en ég vík að því hvað það var hjá Styrmi sem hreyfði við mér langar mig að taka nokkur dæmi um skrumskælingu staðreynda og afvegleiðingu umræðunnar, og fyrsta ber að nefna manninn sem gerði ákaflega heiðarlega tilraun til að leggja sjávarbyggðir landsins í eyði á sínum tíma.

Þessi orð eru höfð eftir Þorstein Pálssyni í frétt Mbl.is; "..seg­ir Sam­herja­málið þannig vaxið að nú þurfi að fá óháða aðila til að meta hvað Sam­herji hafi borgað sam­an­lagt fyr­ir veiðirétt í Namib­íu og hvernig það sé í sam­ræmi við greiðslur hér heima.

Þegar Þorsteinn Pálsson var sjávarútvegsráðherra þá barðist hann fyrir því að engin höft væru á framsali aflaheimilda og vísaði títt í árangur Nýja Sjálendinga við að ná fram hagræðingu í sínu kvótakerfi.  En á um 5 árum höfðu allar minni útgerðir í landinu selt frá sér kvótann og eftir voru 3 risar sem skiptu aflaheimildum sín á milli.  Menn geta ímyndað sér auðnina sem varð í sjávarbyggðum þegar örfáir menn gátu selt frá sér verðmæti og flutt í burtu með fulla vasa fjár, en eftir sátu samfélög án atvinnu og verðlausar eignir.  Síðan má bæta við að kerfið reyndist ekki betur en það, að helstu fiskistofnar hrundu og í kjölfar þess samdráttar þá fengu risafyrirtækin þrjú heimild til að ráða verktaka frá Thailandi og víðar til að veiða fyrir sig fiskinn. Kaup og kjör og annar aðbúnaður var þess eðlis að að þessi skip komust á lista samtaka sem berjast gegn nútíma þrælahaldi.

En frjálshyggjan hans Steina Páls spyr ekki að því, hún spyr bara um hagræðinguna.

Spurningar sem Þorsteinn Pálsson endurtekur núna í kjölfar nýjustu frétta frá Namibíu.

 

Fiskveiðikerfið í Namibíu er hannað eftir draumsýn Þorsteins sem hann náði ekki að innleiða á Íslandi, svo ég vitna í Sighvat Björgvinsson, fyrrverandi framkvæmdarstjóra Þróunarsamvinnustofnunarinnar, kvótakerfi þar sem ólíkt á Íslandi, aflheimildir boðnar hæstbjóðanda.

Þessi ófögnuður frjálshyggjunnar var gjöf okkar Íslendinga til namibísku þjóðarinnar og núna þegar íslenskt fyrirtæki fór eftir þeim leikreglum, og gerum okkur grein fyrir því að þetta íslenska fyrirtæki ber enga ábyrgð á kerfinu, þá er allt brjálað hér á Íslandi, talað um níðingshátt, arðrán og algjöran skort á samfélagslegri ábyrgð.

En ég spyr, hvar voru þessar raddir þegar ófögnuðurinn var sendur suður eftir??

Og við skulum gera okkur grein fyrir því að það er ekkert mál fyrir íslenska stórútgerð að borga há veiðigjöld ef hún getur frýjað sig frá hlutaskiptakerfinu og ráðið til sín fólk á þriðjaheims kaupi, ber enga samfélagslega ábyrgð, og megi þess vegna taka ákvörðun um það að hafa bara eina verstöð þar sem risaskip eru gerð út og landa afla sínum.

En viljum við slíkt samfélag, sjávarbyggðir rústir einar, peningaöflin ráða öllu, kerfi sem hefur spillingu og misnotkun innbyggt í sér??

Já segir íslenska Andófið, fólkið á móti sem bergmálar raddir Þorsteins Pálssonar og félaga hans hjá Viðreisn, þvílík er firring þessa fólks.

 

Talandi um bergmál frjálshyggjunnar þá las ég annan góðan pistil í morgun, Stóra prófið eftir formann VR, Ragnar Þór Ingólfssonar.  Hefði meir að segja marserað með honum ef ég hefði ekki hnotið um tungutak frjálshyggjunnar í herhvöt hans.

Ragnar segir; "Viðhorfið er svo sjúkt og ríkjandi að eftir er tekið á erlendri grund, sem einhvers konar þjóðaríþrótt Íslendinga. Og erum við listuð upp sem fremst á meðal jafningja þegar kemur að peningaþvætti og annarri spillingu.".  Fyrir utan ruglið eða skrumið að við séum fremst meðal jafningja í peningaþvætti, þá endurrómar Ragnar hér atlögu peningaafla að tilvist og tilverugrundvelli þjóðarinnar.  Með því að reyna telja okkur í trú um að það sem er að hér, og það er vissulega margt, sé eitthvað sér íslenskt, jafnvel líkt og við hefðum fundið upp leikreglur hins frjálsa flæðis, eða leikföng auðmanna eins og skattaskjól, aflandsfélög og annað sem hefur mjög komið við sögu í umræðu síðustu daga.

Við sem þjóð erum fórnarlömb kerfis sem smátt og smátt var komið á í Evrópusambandinu á níunda og tíunda áratug síðustu aldar.  Fjármálareglurnar sem gera allt þetta kleyft koma þaðan, hið frjálsa flæði á fátæku farandverkafólki kemur þaðan, og óeðli frjálshyggjunnar, hinn tvíhöfða þurs, kvöðin um að leita eftir og taka the cheapest bid svo ég vitni í gúrúinn Frú Thatcher, og krafan um að almanna gæði séu boðin út á markaði hæstbjóðanda, er meitlað í allt regluverk ESB.

Það er þetta kerfi sem hefur alið af sér sundrunguna og misskiptinguna á Vesturlöndum síðustu áratugina, og er skýring hinnar miklu stjórnmálalegu ólgu sem núna ríður röftum.  Hinn vinnandi maður er í uppreisn gegn kerfinu og frjálshyggju þess, það skýrir kosningu Trumps og uppgang hinna svokölluðu hægri öfgaflokka eða populistaflokka í Evrópu.

Þetta vita allir nema þeir sem eru samdauna tungutaki frjálshyggjunnar og gera sér grein fyrir að kerfinu þarf að breyta, það þarf að skipta út óeðlinu sem sundrar samfélögum okkar og þjónar þeim eina tilgangi að gera þegar ofurríka, ofsaríka, og þó það sé gert lokal, þá breytist ekkert ef menn gera sér ekki grein fyrir að meinið er global.

 

Styrmir Gunnarsson orðar eina birtingarmynd þessa vanda mjög vel í grein sinni;

"Á heimsvísu er það svo­nefnd alþjóðavæðing sem hef­ur átt mest­an þátt í að skapa ójöfnuð en helztu mál­svar­ar henn­ar hafa verið jafnaðar­menn á Vest­ur­lönd­um. Það er fyrst nú á allra síðustu árum sem þeir virðast vera að byrja að átta sig á að með því hafa þeir gerzt tals­menn alþjóðlegra stór­fyr­ir­tækja sem nýta sér lág laun í þriðja heim­in­um til þess að fram­leiða vör­ur sem seld­ar eru á markaði ríku þjóðanna fyr­ir eins hátt verð og nokk­ur kost­ur er. Þannig verður yf­ir­gengi­leg­ur gróði alþjóðlegra stór­fyr­ir­tækja til auk þess sem þau nýta sér alla mögu­leika til þess að kom­ast hjá skatt­greiðslum og geng­ur vel".

En þegar les skrif Drífu Snædals eða Ragnars Ingólfssonar þá er eins og þau geri sér ekki grein fyrir þessu.  Það er eins og þau líti á afleiðinguna sem orsök, og þau bergmála raddir frjálshyggjunnar um að meinsemdir kvótakerfisins séu lagfærðar með ofurskattlagningu sem þjappar saman fyrirtækjum, gerir í raun út af við hina smáu sem eru valkostur hins vinnandi manns gegn þrúgandi ofríki stórfyrirtækjanna, með tilheyrandi atvinnuleysi og jafnvel lokun heilla byggðanna.

Enda sést þetta skilningsleysi einna best á því þegar byggingarfélag í eigu launþegasamtaka var staðið að því að nýta sér lág laun i Eystrasaltslöndum við að ná niður kostnaði við íbúðarbyggingar sínar. 

Hvernig er hægt að berjast fyrir hærra kaupi og bættum kjörum, og um leið að treysta sér ekki til að skipta við þau fyrirtæki sem þurfa að greiða þau laun sem barist er fyrir??

En slík er firring umræðunnar að menn já ekki samhengið. 

 

Víkjum þá frekar að Styrmi.

Fyrir þá sem falla í þá gryfju að styðja ofurskattlagningu ökutækja, hina svokölluðu vegtolla, þá ættu þeir vel að íhuga þessi orð Styrmis; "... og upp­lif­ir þar það sem hún kallaði of­beldi gagn­vart al­menn­um borg­ur­um. Úti um allt séu mynda­vél­ar sem smelli mynd­um af núm­era­plöt­um á bíl­um og síðan séu fólki send­ar rukk­an­ir vegna veggjalda. Hér sé orðið um svo háar upp­hæðir að ræða að al­menn­ir launa­menn hafi tæp­ast efni á því að ferðast um í einka­bíl".

Veggjöld líkt og aðrir ofurskattar eru verulega íþyngjandi fyrir venjulegt launafólk, þau eru lögð á óháð efnahag, þau mismuna eftir búsetu, og þau eru sumpart refsiskattur sem lagður er á fólk sem flýr ultra hátt fasteignaverð miðkjarna út í úthverfin.

Hugmyndafræði þeirra er úr ranni frjálshyggjunnar, að fólk greiði fyrir þá þjónustu sem það notar, sama eðlis og skólagjöld eða þjónustugjöld í heilbrigðisþjónustunni, eru hugsuð til að draga úr notkun, og að sjálfsögðu bitna þau á fátækari hluta samfélaga.  Þar sem frjálshyggjan er sjúkust hefur efnaminna fólk ekki efni á að nýta sér heilsugæslu, mennta börn sín, nýta vegakerfið og svo framvegis.

Samt er firring umræðunnar slík að góða fólkið, þetta sem segist vera félagshyggjufólk og þykir alveg ofsalega vænt um allt fátækt fólk, að það styður skattlagningu af svona meiði, kallar það reyndar kolefnisskatt eða skatta til að takmarka notkun jarðefnaeldsneytisfarartækja eða hvað nafni það nefnir hina nýja skattheimtu sem á að bjarga jörðinni, en í eðli sínu er þetta allt skattar sem gera efnaminna fólki illkleyft eða ókleyft að taka þátt í nútíma samfélagi. 

Það eru nefnilega fátæklingarnir sem eru sökudólgarnir, það eru þeir sem bera meginábyrgðina á hlýnun jarðar.  En ofsalega þykir okkur vænt um þá.

 

Og þá er ég kominn að því sem kveikti á efni þessa pistils.

Styrmi er tíðrætt um átakaumræðuna, svo ég vitni í hans orð;

"En þrátt fyr­ir það rík­ir óár­an í sam­fé­lag­inu og í sam­skipt­um fólks. Að ein­hverju leyti er það vegna þess að sá trú­verðug­leiki og það traust sem brast í hrun­inu hafa ekki skilað sér á ný. Fólk ber mjög tak­markað traust hvort sem er til land­stjórn­ar­inn­ar í breiðum skiln­ingi eða stofn­ana sam­fé­lags­ins".

Mikið rétt en af hverju skyldu efnahagsböðlar innlendu og erlendu hrægammanna ná svo góðum árangri að kynda undir upplausn og óáran umræðunnar?

Skoðum þessi orð Styrmis; "Okk­ur hef­ur tekizt ótrú­lega vel að vinna okk­ur upp úr hrun­inu".

En er það svo, er það alskostar rétt??

 

Vissulega eru hagvísar góðir, og margt gat farið verr en það fór, og það er staðreynd að kaupmáttur hefur vaxið mikið síðust ár.

En það breytir ekki þessum staðreyndum, það breytir ekki illviljanum og illmennskunni sem stjórnmálastétt okkar gerði sig seka um í endurreisn landsins.  Með því að afskrifa skuldir hinna auðugust, ganga hart fram gegn venjulegu fólki, og skilja tugþúsundir eftir á köldum klaka, þar sem margir napra enn þann dag í dag.

"„Réttarríkið Ísland“ hefur núna í nær 10 ára refsað fórnarlömbum fjármálaglæps af hörku fyrir glæp sem þau ekki frömdu. Gerendurnir hafa hins vegar hagnast stórkostlega á lögbrotum sínum.... Frá hruni hafa 10.000 fjölskyldur misst heimili sín á uppboðum og sennilega eru þær a.m.k. jafnmargar sem hafa misst heimili sín án þess að til uppboðs hafi komið. Varlega áætlað hafa því fleiri en 15.000 fjölskyldur misst heimili sín eða á bilinu 45.000 – 60.000 einstaklingar sem samsvarar öllum íbúum Kópavogs og helmingnum af Garðabæ. Á sama tíma hafa verið gerð 164.000 fjárnám hjá þessari 360.000 manna þjóð. Þar af voru 127.000 fjárnám árangurslaus.".

 

Það er firring að skauta fram hjá þessum staðreyndum.

Þær eru holundarsár sem ennþá blæðir úr þjóðarsálinni.

Þær eru gjaldþrot mennskunnar, gjaldþrot mannúðarinnar.

Og þjóðfélag án mannúðar og mennsku, er eins og þjóðfélagið sem við lifum í dag.

 

Það er firring að halda öðru fram.

Það er firring að afneita helför heimilanna.

Og á meðan það er gert mun ekkert lagast á Íslandi í dag.

 

Firring eða afneitun staðreynda er nefnilega meinsemd í sjálfu sér.

Sem grefur um sig þar til samfélagið eins og við þekkjum það gefur upp öndina.

 

Og í hvers þágu er það??

Kveðja að austan.

 

 


mbl.is Alvarlegt áfall fyrir þjóðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll Ómar

Þetta er afbragðsgóður pistill.

Hef ekki fleiri orð um hann, enda tek ég heils hugar undir hvert orð í pistlinum.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 17.11.2019 kl. 18:11

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ómar, aldeilis magnaður. Tjallinn talaði um "hat trick" í fótboltanum í gamla daga, þessi pistill er svo miklu meira.

Með kveðju úr efra.

Magnús Sigurðsson, 17.11.2019 kl. 18:25

3 identicon

Við þjóðhollir íhaldsmenn segjum eftir lestur þessara skrifa það sem vera ber eftir efninu:

Amen.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 17.11.2019 kl. 19:23

4 Smámynd: Óskar Kristinsson

Sæll vertu og blessaður 'Omar ritsnillingur, Er alveg sammála gestunum tveimur, hrein snilld.

Óskar Kristinsson, 17.11.2019 kl. 19:23

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Óskar.

Pistill Styrmis er tær ritsnilld, vel orðaður, yfirgripsmikill en samt um leið fókusaður á ákveðna niðurstöðu, er nærri sannleikanum í ansi mörgu.

Megi hann fara sem víðast.

Kannski á ég eftir að upplifa þann dag að Styrmir geri upp við frjálshyggjuna, og játi að hann hafi haft rangt fyrir sér.

Semji síðan óð til borgarlegra gilda, og borgarlegs kapítalisma.

En ég er bara rebel með gamlan framhlaðning.

Hlutverk sem einhver verður að sinna,.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 17.11.2019 kl. 21:55

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Og amen eftir því kæri Simon Pétur.

Takk fyrir innlitið sem og félagar Magnús og Pétur Örn.

Ég hafði það allavega af að orða þessa hugsun, út frá rökfærslu, nokkurn veginn skammlaust;

"En viljum við slíkt samfélag, sjávarbyggðir rústir einar, peningaöflin ráða öllu, kerfi sem hefur spillingu og misnotkun innbyggt í sér??

Já segir íslenska Andófið, fólkið á móti sem bergmálar raddir Þorsteins Pálssonar og félaga hans hjá Viðreisn, þvílík er firring þessa fólks.".

En mér er til efs að margir botni nokkuð í rökfærslunni, hvað þá niðurstöðunni.

Það eru jú skýringar á því að ástandið er eins og það er.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 17.11.2019 kl. 22:03

7 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Aldeilis góður pistill hjá þér, Ómar. Svo sem ekki við öðru að búast.

Það er litlu hægt að bæta við en vil þó aðeins koma inn á svokölluð veggöld, þann skatt sem núverandi samgönguráðherra lofaði kjósendum fyrir hrun að yrði aldrei settur á á hans vakt.

Þarna er verið að fara á nýja leið hérlendis, gjaldtakan í gegnum Hvalfjarðargöngin voru annars eðlis. Þarna á að fara í skattheimtu vítt og breytt um vegakerfið, jafnvel þó engin leið sé að komast aðra og seinfarnari leið án skatttöku. Þessa skatttöku skal sinna með myndavélakerfi. Þarna láta stjórnvöld eins og þau séu að finna upp hjólið, að um algera nýjung sé að ræða og gefa í skyn að kostnaður verði lítill sem enginn. En þetta er engin nýjung, hefur verið reynd erlendis um árabil. Það er komin reynsla á þessa aðferð og er hún vægast sagt slæm. Þar er ég þó ekki að tala um þær njósnir sem sumum þykja ógnvænlegar, heldur er ég að tala um peningalegu hliðina, þessa sem mörgum þykir mestu skipta. Það er komin vitneskja um kostnað á slíku kerfi, hversu marga bíla þarf að rukka á hverjum sólahring til að greiða fyrir kostnaði við kerfið og þá er hægt að reikna hvað fjöldinn þarf að vera mikill til að eitthvað hafist upp úr krafsinu. Ráðherra gerir hins vegar ráð fyrir að allir aurarnir komist í ríkissjóð, sem sýnir fávisku.

Sem dæmi hafa Norðmenn, okkar næstu nágrannar, reynt þessa aðferð, þ.e. rukkun á skatti með myndavélaeftirliti. Á fæstum leiðum sem sá skattur er innheimtur skilast nokkuð í ríkiskassa Noregs og í sumum tilfellum er kostnaður svo hár að það kostar norska ríkið eina og hálfa krónu að rukka inn eina krónu. Þó búa 5,3 milljónir í Noregi, meðan við Íslendingar teljumst einungis einn fimmtándi þess fjölda.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 18.11.2019 kl. 07:51

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir þetta innlegg þitt Gunnar.

Þetta er eitt af því mörgu sem bent hefur á sem ágalla vegtolla, það er kostnaður við að innheimta þá, eitthvað sem kastalaeigendur á miðöldum sem hindruðu eðlileg viðskipti með tollahliðum sínum vissu mæta vel.  Þess vegna hækkuðu þeir bara tollana svo aðeins dýrmætasti varningur gæti farið á milli staða.

Ég las einu sinni grein fyrir margt löngu, þar sem færð voru rök fyrir því að bara sú aðgerð að rífa tollhlið í hinu nýsameinaða Þýskalandi Prússa, hefði verið mesti einstaki hvati fyrir hagvextinum sem fylgdi í kjölfarið og gerði hið nýja Þýskaland að helstu ógn hina gömlu stórvelda, Rússlands, Frakklands og Stóra Bretland.

Þetta vita allir hjartasjúklingar, þræðing sem fjarlægir hindranir í æðakerfinu eða lyf sem vinna á blóðtöppum, margfalda lífsgæði þeirra.

Varðandi þetta með Noreg þá benti einn ágætur maður sem heimsótti bloggið reglulega hjá mér í árdaga, að rannsóknir þar sýndu að hátt í 80% allra tollhliða hjá bæru sig ekki, umferð væri ekki næg til að standa undir innheimtunni.

Samt var innheimt því það er innvinklað í þá hagtrú sem kennd er við frjálshyggju að notendur skuli greiða fyrir notkun, og það sé hin rétta leið til að fjármagna hlutina.

Áhangendur hennar fatta ekki flæðið sem skapar skilyrði fyrir vöxt og viðgang, að það er gróskan sem er jarðvegur hagvaxtar og velmegunar, þaðan kemur fjármagnið sem borgar hinar nauðsynlegu fjárfestingar.

En það er ekki bara þessi heimska sem gerir mig andvígan vegtollum, heldur líka er þetta í eðli sínu ákaflega óréttlátur skattur, því ef þú ætlar að láta notendur vegakerfisins greiða viðbótarskatta til að standa undir nýfjárfestingum, þá er það ekki réttlátt þegar allir hafa greitt bifreiða og olíuskatta, að á einu tímapunkti er sagt, núna greiðir þú fyrir nýfjárfestingu, en aðrir sem eru svo heppnir að nota fjárfestingu sem er eldri, þeir greiða ekki viðbótarskatta.

Það er mismun sem gengur gegn jafnréttisákvæðum stjórnarskráarinnar að búseta valdi því að sumir sem keyra í 30-60 mínútur í vinnuna greiði viðbótarskatta til að geta stundað atvinnu sína, meðan aðrir sem keyra svipaða veglengd gera það ekki.  Báðir aðilar slíta vegakerfinu jafn mikið, og miðað við almenna keyrslu þá hafa þeir greitt áður svipaða upphæð til uppbyggingar vegakerfisins í gegnum skatta sína.

Af hverju annar en ekki hinn??

Þetta er svona svipað eins og mannvitsbrekkan Sigurður Ingi myndi í kjölfarið leggja til að eftirleiðis myndu vera lögð á sérstök komugjöld á þá sem nýta sér þjónustu nýbyggðra heilsugæslustöðva, þeirra sem sæktu nám í nýjum skólabyggingum, og svo framvegis.

Borgar viðbótarskatt fyrir nýtt, borgar hann ekki fyrir að nýta það gamla.

En auðvitað vita stjórnmálamennirnir okkar allt um þetta, meinið er að þeir eru í þjónustu þeirra sem sjá svona innheimtukerfi sem féþúfu.

Eru tilbúnir að fjármagna stærstu framkvæmdirnar þar sem innkoman er trygg, og ætla sér að smyrja vel ofaná.

Það segja allavega sporin sem hræða frá Evrópu.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 18.11.2019 kl. 09:25

9 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll aftur Ómar.

Ein af þeim rökum sem slengt er fram er að rafbílar borga ekki eldsneytisskatt, þessar 130 krónur á hvern lítir eldsneytis. Mikið rétt, en það breytir ekki þeirri staðreynd að skattur fyrir að aka einstaka vegakafla mun vera jafn óréttlátt. Eftir sem áður sleppa rafbílar við skattinn, svo fremi þeir þurfi ekki að aka gegn linsu skattstjóra.

En það er lítið mál að laga þetta, að allir borgi til samfélagsins eins og þeim ber. Allir rafbílar eru búnir fullkomnum tölvum svo einfalt er að sjá hversu mikið þeir hafa ekið. Síðan er hægt að skattleggja hvern kílómeter. Í þeirri tækni sem við búum við væri auðvelt að hafa aflestur af þessum bílun þráðlaust, á ákveðnum stöðum og ákveðnum tímum. Aðrir bílar, sem ganga fyrir eldsneyti munu áfram búa við sama kerfi og verið hefur, enda margir þeirra ekki svo fullkomnir að sama hætti væri hægt að lesa akstur þeirra. Nú ef stjórnvöld eru svo skini skroppin og utanvið þá þróun sem tæknin býður upp á, mætti allt eins setja akstursmæla á hjólnöf nýrra rafbíla, svona eins og díselbílar höfðu hér á árum áður. Svo má auðvitað einnig hugsa sér að ríkið hætti að innheimta skatt af eldsneyti og allir bílar greiði samkvæmt akstri, óháð hvar er ekið.

Eftir sem áður eru hugmyndir samgönguráðherra, þessar sem hann var svo duglegur að hafna fyrir kosningar, eins óréttlátt kerfi og hugsast getur.

Og að lokum mætti líka kannski nefna að sumar af þeim framkvæmdum sem áætlaðar eru, eru algerlega óþarfar, næsta áratuginn eða svo. Nefni þær sem eru mér næstar, tvöföldun Hvalfjarðagangna og Sundabraut. Þarna er um hreinræktaðan flottræfilshátt að ræða, svona eins og nýjar höfuðstöðvar Landsbankans.

Vissulega var oft biðröð við göngin en henni lauk jafn skjótt og gjaldtaka var afnumin. Það var vegna gjaldtökunnar sem tafirnar mynduðust, ekki getu gangnanna til að taka við umferðinni. Þetta veit ég mæta vel, fer til vinnu minnar gegnum hringtorgið norðan gangnanna og hef gert um langan tíma, auk þess að aka um þessi göng mjög oft. Sundabraut er vissulega þörf til að dreifa umferð milli hverfa í Reykjavík, en fyrir umferð vestur á land skiptir hún litlu máli. Taka mætti 10% af þeim kostnaði sem sú braut er talin kosta og afnema öll hringtorgin í Mosfellsbæ, með mislægum gatnamótum.

Nær væri að ljúka við viðunnandi vegtengingum út á landi, þar sem sumstaðar eru enn malarvegir og fjallvegir sem eru stór hættulegir á veturna. Við hér á suð vestur horninu ættum ekki að þurfa að gráta þó við stundum þurfum að ætla okkur örlítið meiri tíma til að komast á milli staða.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 18.11.2019 kl. 11:49

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Mælstu manna heilastur Gunnar, það skaðar ekki að hafa skynsemina með í för sem förunaut.

En þegar viðtalið var tekið við Sigurð Inga þar sem hann notaði einmitt skattleysi rafbíla sem rök fyrir vegtollum, þá með þeim rökum að þar með greiddu þeir líka sitt, þá spáði ég alvarlega hvort eitthvað væri af vitsmunum mínum.

Því hvernig gat blaðamaðurinn hlustað á svona þvælu án þess að spyrja ráðherra hvort hann væri að fíflast í honum??  Eða gleypti hann við rökunum??

Ef fjöldinn gleypir, er þá eitthvað að manni að þykja svona vitleysa vera vitleysa?

Í það fyrsta notar aðeins hluti rafbíla þau samgöngumannvirki sem rukkað er fyrir, og hvað eiga þá hinir að sleppa algjörlega, vera free rider??  Og hvernig getur meint skattleysi eins verið rök fyrir því að hækka skatta á aðra??

Það er ekki þannig að það sé óvinnandi vegur að skattleggja rafbíla til jafns við aðra eins og þú bendir réttilega á.

Menn eiga ekki að komast upp með svona málflutning án þess að vera kurteislega spurðir af því hvort þeir séu fífl.

Bara það eitt myndi laga mikið á Íslandi í dag.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 18.11.2019 kl. 13:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 202
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 168
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband