6.6.2019 | 22:28
Til hvers að samþykkja regluverk ??
Þegar þú ert annað hvort á móti viðkomandi regluverki, og samþykkir það með þeim fyrirvara að það gildi ekki, eða þú afneitar innihaldi þess, segir að það fjalli um eitthvað allt annað en stendur í því.
Það fyrra er fáránlegt því ef þú ert á móti regluverkinu, þá setur þú ekki haldlitla fyrirvara heldur hafnar því, það seinna er heimskt og ætti ekki að vera til umræðu á Alþingi Íslendinga.
Spurning Arnars Þórs; "Til hvers voru Íslendingar eiginlega að samþykkja þriðja orkupakkann ef þeir vilja síðan ekki flytja raforku til annarra landa" mun verða spurð í háðungarskyni um langa framtíð og mun verða notuð sem dæmi í kennslubókum um langa framtíð um að samþykkt lög gildi, þó brotamenn haldi öðru fram.
Krakkarnir sem hafa staðið í eldlínu skítverkanna skilja ekki þessa spurning og munu aldrei gera. Og það er ekki við þá að sakast, mannavalið og vitsmunirnir á þingi er á okkar ábyrgð sem þjóðar, ekki þeirra sem komust á þing fyrir tilverknað almannatengla og ímyndasmiða.
Þeir sem eru eldri og standa á bak við, þeir bæði skilja þessa spurningu, og vita svarið við henni. Því þeir eru í raun svarið.
Sem og raunveruleikinn sem þeir búa við.
Sá raunveruleiki sem Arnar Þór lýsir svo vel í viðtalinu og erfitt að taka eitt úr. En í sambandi við þessa spurningu er kjarninn kannski þessi;
"Miklar breytingar hafa átt sér stað á EES-samstarfinu á þeim 25 árum sem Ísland hafi verið aðili að því, segir Arnar Þór. Lýðræðisleg vinnubrögð hafi þannig til að mynda vikið fyrir valboði ofan frá. Dómstólar og eftirlitsstofnanir taka ákvarðanirnar og stýra ferlinu, en ekki kjósendur og lýðræðislega kjörin löggjafarþing. Þetta þarf að ræða heiðarlega, sérstaklega út frá hagsmunum smáþjóða í alþjóðlegu samstarfi. Hér er runninn upp nýr veruleiki sem ég tel að við þurfum að vera vel vakandi gagnvart sé okkur á annað borð umhugað um fullveldi Íslands og efnahagslegt sjálfstæði.".
Þetta er raunveruleikinn og svarið er uppgjöf.
Þeir hafa hvorki andlegan eða pólitískan styrk að fara gegn regluveldinu, þeir hafa fyrir löngu verið samlagaðar, þeir samþykkja allt, neita engu.
Annað er fyrir þá pólitískt sjálfsmorð, endalok launanna, eftirlaunanna og hinna ímynduðu valda sem þeir telja sig hafa á meðan þeir passa sig á að samþykkja.
Ægivaldið er það mikið að það sligar ekki bara meðalmanninn, vandséður er sá stjórnmálamaður sem stæðist það.
Í ICEsave þurfti heila þjóð til, og eins er það með þetta regluverk sem sviptir okkur forræði yfir orkuauðlindum okkar, og mun knýja orkuna okkar á hinn sameiginlega samkeppnismarkað Evrópusambandsins.
Það þarf heila þjóð því þó það sé hægt að klekkja á einstökum stjórnmálamönnum, þá er það flóknara að knésetja þjóð.
Það þarf líka heila þjóð til að skera fullveldi okkar úr snörum EES samningsins.
Því ef einu rök stjórnmálamanna okkar fyrir samþykki regluverksins, sem þeir segjast sjálfir vera á móti, og þess vegna setja þeir lög sem banni að það taki gildi, séu þau að þeir óttist afleiðingarnar að virkja skýr ákvæði samningsins um ágreining, þá er ljóst að samningurinn er ekki á milli tveggja jafnrétthárra aðila. Heldur meira svona eins og sambandið er á milli húsbænda og hjúa.
Samningurinn er skýr, jafnvel fyrir torlæsa, svo óttinn hlýtur að byggjast á einhverri ógn sem stjórnmálamenn okkar telja raunverulega eða upplifa sem raunverulega.
Því eins og Arnar Þór bendir réttilega á; "Ekkert er því til fyrirstöðu að við höfnum því að innleiða þessa tilskipun Evrópusambandsins. Slík ákvörðun truflar ekki samstarfið við það. Þetta er hagsmunagæsla. Ef við megum ekki gæta okkar eigin hagsmuna, hvað segir það þá um stöðu okkar? Erum við ekki frjáls þjóð í viðskiptum við Evrópusambandið?".
Ótti er ekki rök hjá frjálsri þjóð, hvort sem deilt er um smámál eða stórmál, og stærri verða þau ekki en þegar forræði yfir sjálfum orkuauðlindum þjóðarinnar er að ræða.
Í þessu samhengi skiptir engu hvort EES samstarfið hafi verið farsælt eður ei, ef það hefur þróast með þeim hætti að stjórnmálamenn okkar þora ekki öðru en að samþykkja allt sem frá Brussel kemur, að þá er tími til kominn að skipta um stjórnmálamenn, og skipta út samningi sem vekur þennan ótta.
Fyrir til dæmis viðskiptasamning þar sem við kaupum vörur af Evrópusambandinu, og þeir kaupa vörur af okkur, svo setja þeir sínar lög og reglur án afskipta okkar, og við setjum okkar lög og reglur án afskipta þeirra.
Eitthvað sem heitir gagnkvæm virðing fyrir fullveldi hvors annars.
Eins og Arnar Þór á þá er löngu tímabært að ræða eðli EES samningsins, og í því samhengi er enginn eðlismunur, aðeins sá stigsmunur sem felst í framgang tímans, að nýta dómstóla eða skriðdreka til að knýja fram vilja sínum gagnvart öðrum sjálfstæðum ríkjum, eða eigin þjóðum sbr. þessi orð Arnars; "Evrópusambandið virðist nú starfa með þeim hætti, segir hann, að ef ekki sé hægt að koma markaðsbreytingu í gegn með lýðræðislegum hætti, vegna þess að kjósendur vilja það ekki, skuli það gert í gegnum dómstólakerfið."
Þeirri umræðu má þó fresta ef orkupakki 3 fær eðlilega lýðræðislega umfjöllun, út frá rökum og staðreyndum, en ekki forheimsku og blekkingum, og ef Alþingi kemst að þeirri niðurstöðu að það sé sátt við innhald hans, það er hið evrópska yfirvald og markaðsvæðing orkunnar sem seld er á samkeppnismarkaði sbr. single market, þá samþykkir það hann án fyrirvara.
Þá reynir ekki á EES samninginn, heldur lýðræðið því vandséð er hvernig Alþingi gæti samþykkt slíkt regluverk án þess að málið hafi verið kynnt fyrir kjósendum í aðdraganda kosninga, næsta skref þess gæti þess vegna verið að það legði niður lýðveldið Ísland, eða einkavæddi það, seldi það hæstbjóðenda eða annað sem geðþóttinn einn ræður.
Þá reynir á hvort þjóðin sé sátt við gerræðið, eða rís upp gegn því. Í því samhengi öllu er EES samningurinn alltaf aukaatriði málsins.
Ef Alþingi er hins vegar á því að þetta regluverk eigi ekki við Ísland og íslenskar aðstæður, þá samþykkir það ekki haldlausa fyrirvara, því slíkt er aðeins fífla háttur, heldur vísar málinu til sameiginlegu EES nefndarinnar, og þar verður svo samið um sá hluti regluverksins sem varðar tengingar yfir landamæri, og yfirþjóðlega vald, verði ekki tekið upp í íslenska löggjöf.
Punktur.
Og þar með er náttúrulega ekkert regluverk til að samþykkja, nema þá hugsanlega það sem tekur á gasleiðslur yfir landamæri.
Ef EES samningurinn virkar, þá verður samið því Ísland er ekki tengt við hinn sameiginlega orkumarkað, og ef til þess kæmi að væri gagnkvæmur vilji Evrópusambandsins og Íslands að leggja sæstreng til landsins, þá verður það gert með tvíhliða samning.
Það er aðeins forræðið sem þjóðin er ekki tilbúin að semja um, og aðeins illvilji setur sig ekki í þau spor smáþjóðarinnar.
Virki EES samningurinn, þá má vissulega hafa áhyggjur af þróun hans í náinni framtíð, og vissulega má spyrja spurninga um umfang regluverksins og þann gífurlega kostnað sem því fylgir, sem er náttúrulega bara kostnaður sem dreginn er beint frá lífskjörum almennings.
En hann virkar samt sem áður.
Og verður ekki vefengdur af þeirri forsendu einni saman.
Þess vegna er svo mikilvægt að hnúturinn um orkupakka 3 sé leystur í sæmilegri sátt við heilbrigða skynsemi og hagsmuni þjóðarinnar.
Fyrsta skrefið er því að stjórnmálamenn affíflist og ræði regluverkið út frá innihaldi þess, og ef einhver undirliggjandi ótti býr að baki, ræði hann af hreinskilni.
Næsta skrefið er sáttin.
Sátt um sannsögli, heiðarleika, hagsmuni almennings.
Hana má finna í sumar.
Vilji er eina sem þarf.
Kveðja að austan.
Verið að samþykkja óheft flæði raforku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 534
- Sl. sólarhring: 657
- Sl. viku: 6265
- Frá upphafi: 1399433
Annað
- Innlit í dag: 453
- Innlit sl. viku: 5308
- Gestir í dag: 415
- IP-tölur í dag: 408
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Góð samantekt um stöðu málsins. Og við skulum vona að málinu verði frestað fram yfir næstu kosningar.
Enginn ríkisstjórnarflokkanna boðaði það fyrir síðustu kosningar að þeir ætluðu að afhenda Brusselvaldinu auðlindir þjóðarinnar. Varla ætla þeir að það sé þeim ráðlegt að fífla gjörsamlega eigin flokksmenn, hafa þá að algjörum fíflum, án eftirmála og niðurbrots ríkisstjórnarflokkanna?
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 6.6.2019 kl. 23:06
Trump hefur boðið Bretum MJÖG góð viðskiptakjör ef þeir hunskast einhvern tíman út úr ESB
Afhverjur ætti hann ekki líka að bjóða Íslandi góð kjör ef við segjum skilið við ESS?
Það eru margir góðir kostir við það - við gætum til dæmis farið að selja Rússum aftur fisk og gert Gunnar Braga að sendiherra á Krímskaga sem væri gott fyri alla
Hvað hefur annars hann Gulli verið að gera í Utanríkisráðuneytinu?
Hann virðist ekkert hafa horft til USA þó svo að þar hafi margvísleg tækifæri opanast eftir að hvalavinurinn Obama hætti.
Ef Gulli treystir sér ekki til að benda Trump á að við eigum ekki að vera í frystikistusambandi við USA þá þarf að finna annan utanríkisráðherra.
Grímur (IP-tala skráð) 6.6.2019 kl. 23:18
Takk fyrir góðan pistil Ómar.
Mig langar til að bæta einu við og það er stjórnarskrárbrotið sem 54 þingmenn virðast hafa ætlað sér að fremja með því að leggja drög að endanlegu framsali íslenskra yfirvalda til erlends valds, með innleiðingu 3. orkupakkans.
Þá heimild til framsals er hvergi að finna í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins og því væri það rof á lögum laganna hér á landi. Einungis þeir sem þekkja ekki friðinn og siðinn, láta sér detta í hug að rjúfa bæði. Að slíkt skuli 54 þingmönnum láta sér detta í hug er sturlun þeirra.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 6.6.2019 kl. 23:30
Vil svo nefna alveg sérstaklega, að héraðsdómarinn Arnar Þór Jónsson á mikinn heiður skilinn fyrir að rísa upp og fylgja eftir og verja grundvallaratriði íslensku stjórnarskrárinnar.
Að framsal til erlends valds er hvergi heimilað í lögum íslenskra laga, stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Af því mættu þingmenn mikið læra, því þeir sverja eið að virða hana og skulu því gera svo, ella er hætta á að þeir fremji stjórnarskrárbrot og það er vægast sagt siðrof og friðrof að gera svo.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 6.6.2019 kl. 23:59
Vel mælt, Pétur Örn!
Jón Valur Jensson, 7.6.2019 kl. 01:33
Þakka góðan pistil Ómar. Vandaðan og vel fram settann, eins og þín er von og vísa. Arnar Þór á heiður skilinn fyrir einfalda og greinagóða lýsingu á því sem þetta hefur í för með sér. Fyrstur til að mótmæla er að sjálfsögðu Jón Frímann, sem ég er nokkuð viss um að er annað tveggja ekki til, eða Ösuur, ´´jú nó´´.
Gott innlegg Péturs Arnar ber einnig að þakka.
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 7.6.2019 kl. 01:45
Rosalega flottur pistill. Sem á erindi við alla þjóðina en ekki hvað síst við þá aumu þingmenn sem ætla að innleiða þetta regluverk ESB yfir orkuauðlindum þjóðarinnar. Landhelgi Íslands væri ennþá bara 6 mílur ef við hefðum haft þessar heybrækur á þingi alla síðustu öld !
Gunnlaugur I., 7.6.2019 kl. 03:14
Blessaður Símon Pétur.
Ég veit ekki hvort það er alvarlegra að ætla að samþykkja svona valdaafsal á einni af grunnstoðum samfélagsins án samtals við þjóðina, eða allar lygarnar og blekkingarnar sem hafa verið ofnar í kringum þetta regluverk, hvoru tveggja er atlaga að lýðræðinu og lýðveldinu.
Og ef það er ekki snúist til varnar, þá upplifum við endalokin, við tekur auðræði og harðstjórn (tyranní) hans.
Og vörnin felst í að ráðast að rótum vandans.
Það er það sem ég er að undirstinga í þessum pistli mínum.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 7.6.2019 kl. 08:13
Blessaður Grímur.
Held að þetta sé bæði aðeins flóknara en það sem og einfaldara.
Það þarf markað til að selja og vöru til að selja á honum, viðskiptakjör hafa auðvitað eitthvað að segja og þess vegna er þróun alþjóðaviðskipta í þá átt að draga úr hindrunum ýmiskonar því slíkt er allra hagur. En það er sama hvað varan er góð, það þarf að vera markaður fyrir hana.
Og í augnablikinu seljum við því sem allt inná hinn innri markað.
Og við njótum þar góðra kjara, og nutum góðra kjara fyrir EES samninginn. En í þeim samningi er ákvæði að ef sundur slitnar, þá gilda fyrri kjör.
Það er hið einfalda í málinu sem vill oft gleymast í öllum hræðsluáróðri óttans.
Síðan er ekkert að óttast, þetta eru bara tröllasögur.
Það er ekkert að óttast að hálfu ESB, óttinn er bara heimatilbúinn.
Það mun semjast ef innlendur vilji er til staðar, verði friðurinn rofinn og EES samningurinn undir, þá er það líka innlend deila.
Auðvitað mun ESB hafa ekkert á móti því að innlima okkur sem nýlendu eða hjálendu þar sem innlendir höfðingjar lúta Rómarvaldinu hinu nýja, en ef höfðingjarnir og leppar þeirra tapa stríðinu við þjóðina, þá semur ESB.
Því annað er heimska, og munum að börnin og fíflin eru innlend.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 7.6.2019 kl. 08:22
Blessaður Pétur Örn.
Siðrof og friðrof í máli sem er sagt léttvægt og snúist aðallega um að aukið gagnsæi í birtingu ársreikninga (hugsaðu að Þórdís Kolbrún skuli hafa látið þetta út úr sér, hverjum er ekki sama um gegnsæi ársreikninga?) sem og neytendavernd, er mikið afrek og augljóst að til þess þarf aukinn meirihluta líkt og þegar stjórnarskrá er breytt.
En jafnvel þó samhljóða verði með öllum greiddum atkvæðum, þá er slíkt alltaf dæmt til að mistakast nema í bakhendinni sé nokkuð fjölbreytt úrval skriðdreka og annarra vopna, sem og það alræði líkt og það sem gat tryggt þögnina í Kína um fjöldamorðin á Torgi hins himneska friðar.
Og þetta vita hinir eldri og reyndari meðal stjórnmálastéttarinnar (hvað skyldu þeir annars vera margir??, skyldi einhentur maður sem vantar á nokkra fingur geta talið þá upp til hlítar??), samt stöðva þeir ekki þessa feigðarför. Vargöld, óöld býður þjóðarinnar meðan heljartök djúpríkisins eru brotin á bak aftur.
En það sem mér þykir merkilegast við þessa frétt Mbl.is að loksins tekur fjölmiðill ítarlegt viðtal við mann ótengdan stjórnmálum og hagsmunum málsins, sem algjörlega slátrar krökkunum í forystu Sjálfstæðisflokksins.
Þetta eru tímamót, því það er eins og fjórða valdið sé þrátt fyrir ekki dautt á Íslandi.
Ég reikna með því að núna fái krakkarnir þau ráð frá formanninum að þegja, að humma umræðuna fram af sér, og eftirfylgni Morgunblaðsins á alveg eftir að koma í ljós. En skaðinn er skeður, jafnvel þeir blaðamenn blaðsins sem eru svag fyrir ESB, eða í grimmri hagsmunagæslu fyrir hagsmuni, sjá rökþrotið þegar þeir bera þetta viðtal saman við viðtalið sem var tekið nýlega við Áslaugu Örnu eftir feisbókarfærslu Arnars Þórs.
Það er ekki steinninn eftir, það er líkt og rof tímans hafi veðrað rökin í milljónir ára svo aðeins fíngerður sandur rökleysunnar blasir við og ekkert kornið gnæfir yfir annað.
Og þessi setning er snilld, ég verð að endurtaka hana;
"Til hvers voru Íslendingar eiginlega að samþykkja þriðja orkupakkann ef þeir vilja síðan ekki flytja raforku til annarra landa?".
Og í samhengið sem hún er í er jarðarför heimskunnar sem hefur gegnsýrt málflutning krakkanna.
" Þannig sé inngangur tilskipunar 2009/​72/​EC, sem er hluti af þriðja orkupakka Evrópusambandsins, skýr hvað þetta varðar sem og markmið og skuldbindingar ríkja sem undirgangist hana.
„Gegnumgangandi í textanum er áhersla á að ríki skuldbindi sig til að ryðja úr vegi hindrunum í þessu sambandi. Markmiðið er sömuleiðis kristaltært, það er að auka samkeppni á þessu sviði milli landa. Komi til þess að Alþingi maldi á síðari stigum í móinn munu ráðamenn í Brussel spyrja sömu spurningar og ég spyr nú: Til hvers voru Íslendingar eiginlega að samþykkja þriðja orkupakkann ef þeir vilja síðan ekki flytja raforku til annarra landa?“ segir Arnar Þór ennfremur.".
Heimskan var valkostur hinna "upplýstu", en hún var veginn í gær.
Jarðarför hefur þegar farið fram.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 7.6.2019 kl. 08:52
Takk fyrir innlitið Jón Valur.
Núna finnst mér kominn tími á eina drápu frá ykkur skáldunum.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 7.6.2019 kl. 08:53
Takk fyrir það Halldór.
Veistu, ég held að perlan okkar hann Jón Frímann sé orginal og gaman að fá hann aftur á ritvöllinn. Ég sá að hann var með grein nýlega í Mogganum. Og núna farinn að blogga af eldmóð.
Hvað sem um hann má segja, þá vill hann vel og stendur með sínu fólki.
Og það er ekki hægt að saka hann um lygar og blekkingar, hann trúir hverju orði sem hann segir.
Mættu fleirum það vera gefið þarna í landsöluhópnum.
Af mörgu slæmu finnst mér falsið vera verst.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 7.6.2019 kl. 08:57
Blessaður Gunnlaugur.
Ætli hún væri ekki bara í gömlu góðu 3 mílunum, eða jafnvel dreginn milli annesja, ef hún væri þá til.
Það er ginningargap milli okkar eldri og hinna yngri varðandi mikilvægi fullveldis og sjálfstæði þjóðarinnar.
Ég efa að þingmenn munu lesa þennan pistil og er öruggur að þjóðin gerði það ekki þó honum yrði dreift inná hvert heimili. Þó það væri ekki annað en út af lengdinni á tímum þar sem jafnvel tíst þykja í lengra lagi.
En fjöldinn hefur aldrei breytt einu eða neinu einn og sér, allar breytingar má rekja til einstaklingsins og síðan hóp einstaklinga sem setja sér markmið og vinna af þeim. Sbr til dæmis fjöldinn bylti Frakklandi, markmiðalausir radikalar reyndu að nýta sér ástandið, en einbeittur einstaklingur uppskar byltinguna og var einráður alveg þar til að hann áttaði sig á þeim sannindum að kyrkislanga reynir aldrei að gleypa fíl, hefur eitthvað með stærðina að gera.
Ef hópur einstaklinga nær sátt um það sem sameinar, grefur stríðsaxirnar hvað hitt varðar, og deilir þeirri sýn að rót vandans liggi í þróun EES samningsins, frá viðskiptasamningi yfir í einveldi stórríkisins, þá verður sjálfstæði þjóðarinnar varið. Aðeins tíminn veit atburðarrásina sem og form hinnar endanlegu niðurstöðu, en fyrirfram vitum við að það verður varið.
Þessi pistill er skrifaður fyrir þennan hóp, og ég get ekki vanþakkað lesturinn.
Og hann segir mér, bæði á þessum og öðrum sem ég hef skrifað nýlega, og það getur hver lesandi þessa bloggs vottað að þeir eru engin skemmtilesning, að það er jarðvegur þarna úti.
Jarðvegur fyrir forystufólk að sá í.
Það mun uppskera.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 7.6.2019 kl. 09:17
Takk fyrir gott og efnismikið svar þitt Ómar.
Mig langar að minna á þá staðreynd, að drengskaparheit dómara við dómstóla landsins eru samhljóða
og þau kveða einungis á um að þeir fylgi stjórnarskrá og gegni skyldum sínum af árvekni og samviskusemi.
Það drenskaparheit virðir Arnar Þór í hvívetna, en þingmenn og ráðherrar, löggjarvaldið og framkvæmdavaldið, virðast hins vegar flestir vera tilbúnir til að brjóta stjórnarskrána.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 7.6.2019 kl. 11:00
Um þetta er fjallað í stundinni.is og þar segir að með miklum launahækkunum hafi dómarar hins vegar allt fram til 2010 heitið því að vera stjórnvöldum, handhöfum framkvæmdavaldsins, trúir og hlýðnir. Þar segir einnig að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, dómsmálaráðherra m.m., vilji að þeir dómarar séu ekki leystir undan því heiti sínu.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 7.6.2019 kl. 11:09
Alltaf góður, Ómar blessaður!
54 Svokallaðir ráðamenn þjóðarinnar ætla að framkvæma landráð,og þetta er þaulskipulagt í mörg ár.
Með öðrum orðum skipulögð glæpastarfsemi gegn Íslendsku þjóðinni.
Kv frá Suðurlandi
Óskar Kristinsson, 7.6.2019 kl. 11:32
Mig langar til að taka það skýrt fram og undirstrika, að Arnar Þór var skipaður héraðsdómari í upphafi árs 2018.
Hann fylgir því eingöngu, og það eðlilega og af réttmæti, því drengskaparheiti sem nú gildir
um dómara dómstóla landsins, að þeir skuli fylgja stjórnarskrá og gegna skyldum sínum af árvekni og samviskusemi.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 7.6.2019 kl. 11:45
Pétur. Eldra orðalagið þar sem dómarar heita því að vera stjórnvöldum trúir og hlýðnir var eingöngu notað fyrir héraðsdómara, allt fram til ársins 2010 þegar Áslaug Björgvinsdóttir neitaði að skrifa undir þann texta þar sem hann braut í bága við þrígreiningu ríkisvaldsins. Þessi orð voru þá felld brott úr heitinu og hefur það svo breytt verið notað æ síðan.
Það breytir því þó ekki, eins og þú réttilega bendir á, að enn eru starfandi héraðsdómarar á grundvelli eldra orðalags drengskaparheitsins, trúir og hlýðnir stjórnvöldum. Þetta vandamál kristallaðist í dómum um gengistryggingu, sem Áslaug dæmdi réttilega ólöglega eins og var síðar staðfest af Hæstarétti, á meðan Arnfríður Einarsdóttir sem þá var héraðsdómari var eini dómarinn á landinu sem taldi hana löglega en Arnfríður var skipuð 2006 og hét því þá að vera stjórnvöldum trú og hlýðin. Þess má geta að Arnfríður var svo síðar skipuð dómari við Landsrétt, ein þeirra fjögurra sem dómsmálaráðherra valdi fram yfir álit matsnefndar, og einmitt sú sem Mannréttindadómstóll Evrópu dæmdi að hefði verið skipuð í andstöðu við lög. Það væri fróðlegt að vita hvað þeim dómstól hefði fundist ef þá hefði einnig legið fyrir að hún hefði í áratug áður starfað sem héraðsdómari, en heitbundin trú og hlýðni við stjórnvöld.
Guðmundur Ásgeirsson, 7.6.2019 kl. 16:03
Hún er skrautleg en sönn lýsingin sem Palli Vill. gefur á "hæstvirtum" utanríkisráðherra 3. orkupakkans, Gulla sjálfum, sem felur sig nú neðan þilja en lætur tvær þóttafullar smástelpur taka alla ágjöfina.
Og ekki er mannsbragurinn meiri yfir Junior Bjarna. Skyldi hann einnig híma neðan þilja meðan gefur á bátinn? Hvernig skyldi hann hugsa þetta? Skyldi neðan þiljs hímið vera hans eina skjól núna?
Er þá öll helsta "forusta" Flokksins upp talin.
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 7.6.2019 kl. 16:43
Blessaður Guðmundur.
Er ekki sérfróður í þessu, vægast sagt, en hvað koma orð þín við því drengskaparheiti að virða stjórnarskrána, og hvaða samhengi er á milli þess og að vera hlýðinn og góður,.
Varla ertu að reyna að bera blak af fávisku Smára, Helga og Björns í þessu máli??
Að gera þeirra heimsku að þinni??
Þeir eru viðrini umræðunnar, en síðast þegar ég vissi varst þú það ekki Guðmundur.
En ég játa að menn geta orðið samdauna af stuðningi svið slíkt fólk.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 7.6.2019 kl. 17:28
Blessaður Óskar.
Frá ákveðnu sónarhorni er þessi greining þín rétt.
En ég held að ráðafólk okkar upplifi atburðarrásina ekki á þann hátt.
Nema vera skyldi þeir sem eru beintengdir hagsmununum.
Og vita að þjónusta þeirra er metin.
Til fjár.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 7.6.2019 kl. 17:53
Blessaður Símon.
Eitthvað kannast ég við þessa nálgun Páls, segjum svo að kvak spörfuglanna hafi ekki áhrif.
En mikið er ég sammála Páli.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 7.6.2019 kl. 18:07
Ómar. Ég var nú bara að svara Pétri með nánari skýringum á tilteknu atriði og sýnist þú hafa lesið úr þeim einhverjar aðrar meiningar en efni stóðu til.
Guðmundur Ásgeirsson, 8.6.2019 kl. 12:56
Sæll Ómar, ástæða þess að ég vakti athygli á þessu varðandi drengskapheit dómara og þá jákvæðu breytingu sem gerð var 2010 um að þeir skyldu umfram allt fylgja stjórnarskránni, lögum laga íslenska lýðveldisins, og gegna skyldum sínum þar um, af árvekni og samviskusemi
kom til vegna eftirfarandi rökræðna Arnars Þórs á feisbókarsíðu hans við Björn Bjarnason, sem ég hef áður vitnað til í athugasemd við pistil þinn Bann við banni. Þar tel ég ljóst að Arnar Þór hafi m.a. í huga að hann sem dómari er einungis bundinn stjórnarskrá íslenska lýðveldisins og vill sinna því starfi af árvekni og samviskusemi, þegar hann andmælir hinni "dýnamísku" dómaframkvæmd:
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 8.6.2019 kl. 14:12
Ókey Guðmundur, hvernig var þetta aftur orðað??, stóðst ekki freistnivandann.
Slíkt fylgir þeim tímum þar mikið er undir.
Egill orðaði þetta samt betur; "hann lá vel við höggi".
En það hlýtur að koma að því að ég fæ góða frétt til að tengja við, og þá þarf ekki athugasemdarkerfið til að skammast, eða lauma inn setningu inní pistil sem fjallar um annað.
Á meðan er það friðurinn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 8.6.2019 kl. 22:44
Takk Pétur fyrir að rifja þetta upp.
Megi fleiri fylgja í fótspor Arnars Þórs.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 8.6.2019 kl. 22:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.