7.5.2019 | 07:16
Óbærilegur léttleiki tilverunnar.
Ögmundur Jónasson er staðfastur í andstöðu sinni við markaðsvæðingu orkuauðlinda landsins en virkar stundum einn þessa dagana innan VinstriGrænna.
Rök hans eru kristalskýr en það er ekki verra en þau stuðning frá öðru áhrifafólki innan VG.
Þess vegna ætla ég að endurbirta hluta af ræðu Steingríms Joð Sigfússonar forseta Alþingis, þáverandi formanns VinstrGrænna.
Hafi einhver efast sem les rök Ögmundar, þá efast hinn sami ekki lengur eftir að lesa þessa magnaða ræðu Steingríms;
" Herra forseti [...] ég tel að hér sé á ferðinni eitt stærsta mál á sviði raforkumála sem við höfum um langt árabil haft í höndunum á Alþingi Íslendinga. Hér stendur sem sagt hvorki meira né minna til en að Alþingi fyrir sitt leyti blessi að Ísland falli frá stjórnskipulegum fyrirvara gagnvart því að tilskipun Evrópusambandsins um innri markað í raforkumálum gangi einnig í gildi fyrir Ísland.
Herra forseti [...] Það er kannski lýsandi fyrir þann færibandahugsunarhátt eða þá færibandaaðferðafræði sem í reynd er að verða á afgreiðslu mála sem koma þessa boðleið inn í íslenska löggjöf gegnum tilskipanir sem Evrópusambandið hefur afgreitt og síðan sameiginlega EES-nefndin tekið upp, [...]
Herra forseti. Við getum þá spurt okkur hve mikið erindi á Ísland og íslenski orkumarkaðurinn inn í þetta samhengi. Er ekki jafnaugljóst í raun í þessu tilviki eins og það var þegar tilskipun um innri markað fyrir jarðgas og gegnsæi t.d. í verðlagningu á jarðgasi var afgreitt í Evrópu, að við eigum ekkert erindi inn í þetta samhengi af þeirri einföldu ástæðu að íslenski orkumarkaðurinn er einangraður? Hann er eyja og án tengsla við orkumarkað meginlands Evrópu og tengdra nálægra eyja. Sæstrengirnir sem stundum hefur borið á góma hafa ekki verið lagðir enn og ekki er í sjónmáli að það verði gert og fyrr verður Ísland ekki í beinum skilningi tengt þessum orkumarkaði þannig að héðan gæti flust raforka til notkunar á meginlandi Evrópu eða öfugt.
Það sem ég vil leggja sérstaka áherslu á í þessu sambandi og rökstyðja um leið fyrir mitt leyti hvers vegna það er ekki skynsamlegt að Alþingi heimili að fallið verði frá þessum stjórnskipulega fyrirvara að svo stöddu er þá í fyrsta lagi þessi staðreynd sem snýr að stöðu Íslands sem eyju.
Í öðru lagi er sérstaða Íslands hvað orkumál varðar mjög mikil. Hún er mikil vegna þess að við framleiðum nánast alla okkar raforku úr innlendum orkugjöfum, að mestu endurnýtanlegum þar sem fallorka vatnanna á í hlut, og við erum þar af leiðandi ekki háð erlendum orkumörkuðum í þessum skilningi, hvorki í þeim skilningi að við kaupum eða seljum raforku um strengi né heldur að við flytjum inn eldsneyti til framleiðslu á raforku hér, nema í svo óverulegum mæli að ég hygg að það megi sleppa þeim þætti. Við erum að sjálfsögðu einnig í mjög sérstakri stöðu hvað varðar uppbyggingu og skipulag orkumála hér. Framleiðsla, dreifing, eignarhald og fleiri þættir eru með mjög sérstökum hætti af eðlilegum ástæðum og lúta séríslenskum aðstæðum.
Í þriðja lagi má nefna þær sérstöku landfræðilegu aðstæður sem þjóðin býr við í þeim skilningi að hér býr mjög fámenn þjóð í mjög stóru en orkuríku landi. Ef við lítum svo, herra forseti, í þessu ljósi á meginmarkmið orkutilskipunarinnar, er strax ljóst að a.m.k. tvö af fjórum meginmarkmiðum tilskipunar Evrópusambandsins um sameiginlegan innri markað fyrir raforku eiga alls ekki við á Íslandi, þ.e. það fyrra, að gera raforkugeirann að hluta af innri markaði Evrópusambandsins, fellur um sjálft sig í þeim skilningi að ekki er um sambærilegar samkeppnisaðstæður að ræða eða möguleika vegna einangrunar orkumarkaðarins hér.
Og hvað hið síðara snertir, að auðvelda viðskipti milli landa með raforku, þá fellur það strax algjörlega um sjálft sig af því að engin slík viðskipti eru í tilviki Íslands möguleg þar sem hér er ekki um að ræða mögulega flutninga á orku til eða frá landinu og inn á markaði annarra landa Evrópska efnahagssvæðisins. [...] Það vakna þegar af þessum ástæðum, herra forseti, spurningar um hvað þeim samningamönnum Íslands sem tóku ákvörðun um að setja Ísland inn í þetta samhengi gekk til. Hvers vegna í ósköpunum var ekki frá byrjun gert ráð fyrir því að leita eftir varanlegri undanþágu fyrir Ísland hvað varðaði þennan innri markað í raforkumálum, af þeirri einföldu ástæðu að við erum af efnislegum og landfræðilegum ástæðum ekki hlutar af honum?
Í fyrsta lagi hefði auðvitað strax við gerð samningsins um Evrópskt efnahagssvæði þurft að gera þarna fyrirvara og í öðru lagi átti ekki að standa að þeirri ákvörðun í sameiginlegu EES-nefndinni sem tekin var [...] Eins og ég áður sagði, herra forseti, þá var sú leið valin af næsta augljósum ástæðum að fá varanlega undanþágu frá tilskipun Evrópusambandsins um gagnsæi verðlagningar og gegnumflutninga á jarðgasi á Evrópska efnahagssvæðinu. Þó að það hafi reyndar stundum gleymst og menn hafi staðið frammi fyrir því á Alþingi að næsta fáfengilegum hlutum hafi skolað hingað upp á strendur af því að mönnum hafi láðst af eðlilegum ástæðum að undanskilja Ísland jafnvel frá hlutum sem varða járnbrautarsamgöngur eða eitthvað því um líkt á þessum markaði.
Ég tel að það hefði átt að nálgast þetta með raforkuna með sambærilegum hætti og setja það sem skilyrði að Ísland fengi þarna varanlega undanþágu eða a.m.k. allt annan og rýmri aðlögunarfrest og sérmeðhöndlun að ýmsu leyti. Herra forseti. Víða í löndum Evrópusambandsins hafa áform um markaðsvæðingu og samkeppni í orkumálum og veitumálum valdið miklum deilum og reyndar er það svo að þessi tilskipun 96/92/EB er niðurstaða af mjög átakamiklu ferli og er í eðli sínu málamiðlun ólíkra sjónarmiða milli ríkja Evrópusambandsins. Engu að síður er ljóst að innleiðing hennar hefur í för með sér margháttaðar breytingar fyrir Ísland og skapar vandamál sem er ekki augljóst hvernig leyst verða þegar menn standa frammi fyrir þeim.
Ég vil þar nefna sérstaklega þá staðreynd að eignarhald á orkufyrirtækjum á Íslandi er nánast alfarið opinbert, þ.e. ekki er því fyrir að fara hér að orkufyrirtækin séu í eigu ríkis og sveitarfélaga og samkeppni milli margra fyrirtækja á markaði í einkaeigu eða blandaðri eigu og eru ekki forsendur fyrir slíku eins og mál standa, a.m.k. nú um stundir á Íslandi. [...]
Í þriðja lagi vil ég nefna að það er algerlega ljóst að undirbúningur undir óumflýjanlegar breytingar á lögum og fyrirkomulagi raforkumála, svo sem varðandi skipulag og rekstur fyrirtækja eigi tilskipunin að ná fram að ganga, er mjög skammt á veg komin. Þetta lýtur ekki aðeins að t.d. uppskiptingu fyrirtækja eins og Landsvirkjunar sem er ljóst að verður að hluta niður í fleiri en eitt og jafnvel fleiri en tvö fyrirtæki ekki síður en stórveldið Microsoft ef af verður, þetta lýtur einnig að breytingum á lögum og reglum, þetta lýtur að skipulagi, uppbyggingu og hlutverki annarra fyrirtækja, svo sem Rafmagnsveitna ríkisins og orkufyrirtækja á vegum sveitarfélaganna, þá má nefna Orkuveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Suðurnesja og fleiri. [...]
.... Einnig er rétt að minna á að lokum, herra forseti, að einn megintilgangur tilskipunarinnar og markmið með henni er að innleiða samkeppni í orkugeiranum. Ef að líkum lætur er í tengslum við það og í kjölfarið ætlunin að fylgi einkavæðing opinberra fyrirtækja á þessu sviði. Það vantar að sjálfsögðu ekki að söngurinn er einnig uppi í þessu tilviki að lausnarorðið stóra og mikla sé einkavæðing. En þá, herra forseti, vaknar líka stórar spurningar og þeim er ekki síður ósvarað en þeim sem ég hef hérna velt upp. Þar ber auðvitað hæst, hvernig ætla menn að tryggja jöfnun á raforkuverði um allt land í slíku samkeppnisumhverfi eða ætla menn alfarið að gefa það markmið upp á bátinn? Mér vitanlega hefur ekki verið sýnt fram á það með hvaða einföldum aðferðum eða jafnvel yfir höfuð færum leiðum menn geta varðveitt markmið um jöfnuð í raforkuverði annars vegar og það að innleiða samkeppnisaðstæður í þessum efnum hins vegar.
Það er líka rétt, herra forseti, að benda á að þá væri um að ræða einkavæðingu fyrirtækja sem eru í eðli sínu í einokunar- eða í besta falli fákeppnisaðstöðu og þá minnug þess að reynslan af slíkri einkavæðingu þegar í hlut eiga fákeppnis- eða einokunarfyrirtæki einmitt á sviði veitumála er mjög slæm. Ætli þeir finni ekki fyrir því á Bretlandseyjum sem hafa verið að borga einkaeinokunarfyrirtækjunum sem þar voru búin til fyrir vatn og rafmagn, gas og fleiri hluti, hversu góð útkoman er af því að búa við einkaeinokun. Íslendingar þekkja hana mætavel. Versta tímabil sem Íslendingar hafa upplifað í viðskiptamálum er tímabil einkaeinokunarinnar, þ.e. hinnar illræmdu dönsku einokunarverslunar en hún var lengstum, herra forseti, einkaeinokun, þ.e. Danakonungur seldi í hendur einkafyrirtækja einkaleyfi til að okra á Íslendingum. Reyndar var það þannig að skástu tímabilin í þeirri sögu voru þegar Danakonungur sjálfur fór með verslunina. Segja má að hún hafi verið ríkiseinokun en miklu verr vegnaði okkur þegar um einkaeinokun væri að ræða af skiljanlegum ástæðum enda yfirleitt ekki um það deilt að versta mögulega fyrirkomulag í viðskiptum er einkaeinokun, þegar einkaaðili er einn í aðstöðu til að þvinga menn til viðskipta við sig til að hagnast á þeim sjálfur og hefur sjálfdæmi meira og minna um verðlagningu og jafnvel að einhverju leyti þjónustu. Menn eru í ósköp lítilli samningsaðstöðu gagnvart aðilanum sem á einu raflínuna inn í húsið hjá sér eða vatnslögnina eða annað í þeim dúr. [...]
Herra forseti. Ég tel tvímælalaust skynsamlegast við núverandi ástæður, vegna þeirra mistaka sem ég tel að hafi verið gerð að setja Ísland inn í þetta án þess að leita þarna eftir varanlegri undanþágu, að við af léttum ekki stjórnskipulegum fyrirvara. ... Hins vegar að setja í gang skoðun á því hvort nýta megi ákvæði 24. gr. tilskipunarinnar til þess að semja varanlega um sérstöðu Íslands í þessum efnum. [...]".
Þó þessi þingræða sé 18 ára gömul og tilefnið er samþykkt fyrsta orkupakka Evrópusambandsins þá dregur Steingrímur Joð upp meginástæður þess að Íslendingar eigi ekki að innleiða orkutilskipanir Evrópusambandsins að óbreyttu.
Hafi inní þessari fyrstu orkutilskipun verið ákvæði um yfirþjóðlegt vald, þá er næsta víst að hátalarakerfi Alþingis hefði sprungið, jafnvel þó það hefði ekki verið tengt, þvílík hefði hneykslan Steingríms orðið.
Frá því að þessi ræða var haldin hefur ekkert breyst, nema eitt pínu pínu oggulítið atriði.
Þá var Steingrímur í stjórnarandstöðu, núna er flokkur hans í ríkisstjórn, og þau völd þarf að verja.
Í því felst að ganga á bak orða sinna.
Að styðja markaðsvæðingu, að styðja ferli sem óhjákvæmilega leiðir til einkavinavæðingar orkugeirans.
Eins og Ögmundur bendir réttilega á, eins og Steingrímur Joð benti réttilega á fyrir 18 árum síðan.
Það er óbærilegur léttleiki þessa máls.
Þetta er svo grátbroslegt ef ekki væri fyrir dauðans alvöru þessa máls.
Af hverju eru völd ætíð tekin fram yfir þjóð??
Ef þetta tvennt skarast á.
Kveðja að austan.
Kveðja að austan.
Pylsan skorin niður í pakka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:13 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 60
- Sl. sólarhring: 608
- Sl. viku: 5644
- Frá upphafi: 1399583
Annað
- Innlit í dag: 51
- Innlit sl. viku: 4815
- Gestir í dag: 50
- IP-tölur í dag: 50
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Algjörlega galin pólitík. Mætti ég biðja um menntaðan einvald.
Júlíus Valsson, 7.5.2019 kl. 10:15
A la Platon, hefur það ekki líka verið reynt með misjöfnum árangri??
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 7.5.2019 kl. 11:33
Sæll Ómar - sem aðrir gestir þínir, að venju !
Ómar minn !
Í Guðanna bænum: taktu EKKI 1 einasta mark, á þessu fífli (Ögmundi Jónassyni).
Ómerkingur - sem hljóp í felur / og HUNZAÐI algjörlega, að hitta mig að máli, árin 2009 - 2010, þegar ég hugðist leita atfylgis hans, við stuðningi að reisingu Áburðarverksmiðju norður við Hrútafjörð, í þágu þeirra Húnvetninga:: sem og Strandamanna, sem ALLRA annarra lands manna reyndar, eins og ég hét nokkrum frænda minna í Húnavatnssýslum að ljá máls á við Ögmund, í einni söluferða minna: nyrðra.
Hann svaraði ENGUM skilaboðum mínum: hvað þá símhringingum, hljóp í felur 1 skiptið, þegar ég kom í ráðuneytið til hans (Innanríkis ráðuneytið) t.d.
Svona viðlíka Bjöllusauður - og þorri íslenzkra stjórnmálamanna í gegnum tíðína:: EN,, ......... því duglegri við, að skara Elda að sinni köku, eins og lenzkan hefur verið, hjá STÆRSTUM hluta þing manna, í gegnum tíðina ! ! !
Með beztu kveðjum: engu að síður, austur í fjörðu, af Suðurlandi /
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 7.5.2019 kl. 12:52
Jamm og jamm og jæja Óskar, það er kannski ekki alveg mælikvarði fyrir mig hvort ég taki mark á mönnum í umræðunni þó þeir hrökklist undan stríðsmönnum að Mongólakyni af langfeðratali.
Og eiginlega passar þessi lýsing þín á Ögmundi ekki við Ögmund, þó hún örugglega geti átt við ýmsa stjórnmálamenn.
Eiginlega svona þvert á móti.
Svo held ég að frændur þínir í Húnaþingi ættu bara að þakka guði fyrir að hafa ekki fengið áburðarverksmiðju, það er margt gæfulegra hægt að gera við líf sitt en að vinna í svoleiðis fabrikku.
Hins vegar vill ég reisa styttu af Ögmundi við mynni Norðfjarðarganga, en það er annað mál.
Læt það órætt að sinni.
Kveðja suður í gróandann úr nepjunni að austan.
P.s. Það er reyndar sól í augnablikinu en napur er hann.
Ómar Geirsson, 7.5.2019 kl. 13:22
Sæll Ómar, nú verð ég að vera á sömu nótum og Óskar. Að vísu ekki hvað Ögmund varðar. En guðanna bænum vitnað aldrei í bjöllusauð alþingis þegar gott á að vita.
Þetta er hreinræktaður Reykás, sem hafði þann starfa að lýsa kappleikjum áður en hann gerðist pólitískur stórlygari. Tókst aldrei að gera greinarmun á milli liða sem íþróttaþulur annan en litinn, þær voru annaðhvort stúlkurnar í rauðu eða bláu blússunum.
Það eru svona ómerkingar orðsins sem hafa gert það að verkum að manni dettur hvorki í hug að fylgjast með íþróttakappleikjum í sjónvarpi né kjósa pólitíska fulltrúa það sem maður á eftir ólifað. Þetta er maðurinn sem kom því í lög að ekki mætti rannsaka hans gerir fyrr en eftir hundrað ár.
Það á eftir að verða rannsóknarefni næstu aldirnar hvernig stóð á því að þetta skoffín komst svo langt að komast til ábyrgðarstarfa fyrir þjóðina eftir að hafa gert sig að fábjána í sjónvarpi, og stundað hreinar lygar frá fyrsta degi sem þjóðkjörinn fulltrúi.
Með kveðju, að mér liggur við að segja, úr neðra, drengur minn góður eins og Óskar hefði orðað það.
Magnús Sigurðsson, 7.5.2019 kl. 14:23
Ekki gleyma því að Ögmundur er ekki lengur á þingi og þarf ekki að greiða atkvæði með eða á móti. Hins vegar skulum við aldrei gleyma að hann greiddi atkv´ði með Buchheit-samningnum eftir að hafa fyrst neitað að gera það, en síðan notað tækifærið til að tuska til sín 3. valdamesta ráðuneytið. Þannig er bragðarefnum Ögmundi ekki treystandi fyrir horn, ekki fremur en Steingrími J., sem nokkrum sinnum hefur stundað pólítískt vændi. Núverandi þingmenn VG eru ekki upp á marga fiska síðan "villikettirnir" og Jón Bjarnason yfirgáfu Alþingi.
Ennfremur getum við þakkað IcesaveIII fyrir að vita nú hvern mann Bjarni Ben hefur að geyma. Hann og flokkur hans streittist á móti lögum um ríkisábyrgð á Icesave samningnum þangað til 8. greinin var (með leynd) tekin út úr samningnum. Þá greiddi hann (og nokkrir aðrir í flokknum) atkvæði með samningnum eftir ískalt eiginhagsmunamat. Síðan Davíð Oddsson hætti á þingi hefur Sjálfstæðisflokkurinn smám saman farið hraðbyri til helvítis. Eiginhagsmunirnir koma í fyrsta sæti, sjálfstæði þjóðarinnar er mjög neðarlega á listanum.
Ég get spáð um það hvernig ástandið verður á Íslandi eftir nokkur ár þegar ACER/ESB stjórna íslenzkri orkuframleiðslu/-dreifingu. Þá verður það eins og í Portugal (a.m.k. í Lisboa) þar sem öll raforka til heimila er skömmtuð. Það er gert með því að gera raflagnirnar þannig að aðalrofanum í ljóstöflunni slær út ef fleiri en tvö raftæki eru í sambandi í einu, eða orkufrek heimilistæki eins og t.d. ketill og þvottavél.
Árið er 2050 heima hjá Jóni og Gunnu í Kópavogi:
Gunna: "Ætlarðu að þvo í dag, elskan?"
Jón: "Já, ég ætla að fara í það núna."
Gunna: "Láttu mig vita þegar þú ert búinn, svo ég geti fengið mér kaffi og ristað brauð."
Aztec, 7.5.2019 kl. 14:44
Blessaður Magnús.
Þegar þú þarft að skemmta skrattanum þá er mörgum boðið í það partí og ég man ekki betur en að Churchill hafi drukkið te með Stalín í Teheran, svo mikið lá við að skemmta litla manninum með skeggið þarna í Berlín.
Svo fannst mér Steingrímur vera fínn í sjónvarpinu og svo sýndi hann mikið frá blaki, enda við gamlir blakfélagar. Og hann er skemmtilegur og söngmaður mikill, þegar hann og Bubbi þjálfari tóku aríurnar, þá dugðu ekki einu sinni heyrnarskjól til að fá flóafrið við glasatæmingar.
Síðan get ég sagt þér það að ég hefði fylgt Steingrími á heimsenda ef hann hefði tekið upp baráttuna haustið 2008, út frá forsendum sinnar frægu ræðu sem hann hélt á þingi og talaði eins og landsfaðir.
Seinna þegar hann fór sérstaklega í taugarnar á mér þegar honum var svo tíðrætt um að hann ynni dag og nótt við að selja þjóðina, þá endurbirti ég oft búta úr þessari ræðu hans hér á bloggsíðu minni. Ekki að ég gerði mér vonir um að þeir örfáu VG liðar sem lásu blogg mitt myndu frelsast undan þjónkun sinni við svikin, heldur bara vegna þess að mér fannst þau góð. Reyndar fannst mér líka mjög gaman að stríða þessum sem þó lásu.
Í dag er málið ekki í sömu skotgröfunum, og það er greinilegt, allavega miðað við viðtalið í Kastljósinu við Stefán Má, að fjölmiðlafólk er opið fyrir að kynna sér staðreyndir mála.
Og ef það gerir það, þá ætti það að spyrja VG liða hvað hefur breyst??
Eru rökin ekki þau sömu nema að varnaðarorðin um markaðsvæðinguna hafa gengið eftir.
Sem og hið yfirþjóðlega vald.
Svo Magnús, fyrst þú ert að senda kveðju úr neðra, þá ættir þú að spyrja skrattann ef þú hittir hann á förnum vegi hvort honum sé bara ekki skemmt.
Sakar ekki að spyrja.
Hins vegar er ég að fara skemmta mér við að horfa á leik milli Hattar og Fjarðabyggðar í þriðja flokki núna á eftir. Af öðru ólöstuðu finnst mér það mikilvægasta hlutverk ykkur Héranna að eiga til gott fótboltalið fyrir strákana mína að keppa við, enda hafa þeir keppt ótal leiki frá 6 ára aldri og alltaf jafn gaman að horfa á.
Það er nefnilega líka hægt að skemmta sér án þess að skemmta skrattanum í leiðinni.
Sólarkveður úr neðra til ykkar í efra.
Að austan.
Ómar Geirsson, 7.5.2019 kl. 17:02
Blessaður Aztec.
Langt síðan ég hef séð þig á ferli hér í netheimum.
En þetta er góður punktur hjá þér, Ögmundi og Jón Bjarnasyni ætla ég þó að segja til tekna að þeir reyndu að standa ístaðið gegn mestu vitleysunni frá Brussel.
En ef hann væri í ráðherraliðinu í dag, og hefði gleymt fyrri heitstrengingum, þá hefði ég bara haft formálann af ræðu Steingríms öðru vísi.
Og ánægjan af því að núa honum þessi orð sín um nasir, engu minni fyrir vikið.
Það er nú bara svo.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 7.5.2019 kl. 17:07
Sælir - á ný !
Ómar !
Fyrst: þú lætur svona vel af Ögmundi, mætti þá ekki ætla, að hann sé gæddur eiginleikum Kamelljónsins (að skipta litum: huglægt a.m.k.) eftir einhverjum behag, hverju sinni ?
Hvað áburðinn snertir - finnst mér nógsamlegur innflutningur fyrir, á ýmsum þeim vörum / sem hæglega mætti framleiða hér, ekki satt ?
Magnús Sigurðsson !
Þakka þér fyrir: afar myndrænar og sanferðugar lýsingar, af þessum ekkisenz bjálfa (Ögmundi Jónassyni), ekki síður.
Aztec, !
Þakka þér jafnframt: þínar lýsingar, á þessum óláns- grip, sem Ögmundur hefur haft / og hefur enn, að geyma.
Skemmum ekki þolanlegan dag - með því að nefna Steingrím J. Sigfússon neitt frekar, þetta sinnið, a.m.k. piltar.
Með sömu kveðjum: sem seinustu /
e.s Ómar !
Ég mun: síðar í vikunni, reyna að ná tali af Birni Leví Gunnarssyni, og læt þig fylgjast gjörla, með framvindu allri, þar: um.
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 7.5.2019 kl. 17:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.