Evrópusinnarnir í Sjálfstæðisflokknum.

 

Þessir, sem eru komnir upp á kant við grasrót flokksins vegna einbeitts brotavilja þeirra við að koma orkuauðlindum þjóðarinnar undir beina stjórn Brussel skrifinnanna, skrifa núna grein eftir grein um mikilvægi EES samstarfsins fyrir þjóð og land.

 

Eitthvað sem maður hefur ekki lesið frá því að lærðar greinar voru skrifaðar (og þá las maður það á Landsbókasafninu) í Þjóðviljann um dásemd Stalíns frænda og áætlunarbúskaps hans. En eins og menn vissu þá var það Stalín að þakka að fólk vann, að verksmiðjur voru reistar, að korn óx á akrinum, og að sólin kæmi upp á morgnanna.

Sem gat alveg verið rétt, því allt þetta gerðist í valdatíð Stalíns, hann var leiðtoginn og kommúnisminn var kerfið, en galli rökfærslunnar var sá að korn óx í öðrum löndum, og það miklu meira en á ökrum samyrkjubúanna, fólk vann í öðrum löndum, og vann fyrir miklum meiri verðmætum en í áætlunarbúskap Stalíns, sólin kom líka upp í öðrum löndum og í raun hafði fólk það miklu betra á Vesturlöndum en í dásemd kommúnismans.

En í lofgreinunum skipti slíkar staðreyndir engu máli.

 

Áslaug Arna skrifar grein í Morgunblaðið í dag, líklegast fyrir fólk um fertugt og yngra þó aldurstakmark sé ekki gefið upp, þar sem allt gott sem gerst hefur hér á landi, og í Evrópusambandinu sé hinu innri markaði og frjálsu flæði vöru, þjónustu og fjármagns að þakka.

Samt hefur enginn hagvöxtur verið í Evrópusambandinu í um 10 ár, og ekkert útlit fyrir að það breytist næsta áratuginn.  Fólk er þar í uppreisn gegn kerfinu og er í raun að krefjast að fá gömlu samfélögin sín til baka.

Í öðrum iðnvæddum löndum er hagvöxtur og gróska, þó hafa þau ekki hinn innri markað og hið frjálsa flæði, en þau njóta alþjóðaviðskipta, tækniframfara og annað sem knýr áfram hagvöxt til jafns við Evrópulönd.

Alveg eins og það er hægt að gera hlutina á annan hátt en í kommúnistaríkjunum í gamla daga, þá er hægt að reka þjóðfélög og stunda frjáls viðskipti þó þjóðir séu ekki hluti af regluveldi Brussel.

 

Bábiljurnar sem boðið er uppá vekja hins vegar spurningu um þroskastig og reynslu þess fólks sem núna er i framvarðasveit Sjálfstæðisflokksins.

"Menn vissu og trúðu því að auk­in viðskipti milli landa myndu færa okk­ur aukna hag­sæld, að það væru tæki­færi fólg­in í því að geta menntað sig og starfað er­lend­is, að fá hingað til lands fólk til starfa og að flytja fjár­magn óheft á milli landa....

Ávinn­ing­ur­inn af þess­ari framtíðar­sýn um öfl­ugra og betra sam­fé­lag er ótví­ræður og það er ljóst að lífs­kjör á Íslandi væru lak­ari fyr­ir alla lands­menn ef við vær­um ekki hluti af EES-sam­starf­inu. ".

 

Íslendingar menntuðu sig og ferðuðust milli landa fyrir EES samstarfið og stunduðu frjáls viðskipti, fáar þjóðir höfðu eins mikil utanríkisviðskipti en Íslendingar, fáar þjóðir áttu hlutfallslega fleiri námsmenn í erlendum háskólum en við Íslendingar. 

Og lífskjör þjóðarinnar á öllum mælikvörðum voru á við það besta sem gerðist í heiminum.

Svisslendingar sem er í EFTA en utan EES samstarfsins eru ekki að gera það síður en við Íslendingar á þeim tíma sem þjóðin hefur verið aðili að EES. 

Sú þróun að losa um höft og hömlur var hafin áður en þjóðin gekk í EES og hefði örugglega haldið áfram því það er enginn eyland í heiminum.

 

 

Áslaug segir að gjaldeyrishöftin hafi horfið við aðildina að EES; " EES-sam­starfið veitti okk­ur aðgang að innri markaði Evr­ópu og færði okk­ur úr gjald­eyr­is­höft­um sem höfðu þá varað í rúm 60 ár.".

Gjaldeyrishöftin voru afleiðingin hjá þjóð sem bjó við einhæft atvinnulíf og þurfti að nota mikinn hluta af útflutningstekjum sínum við að byggja upp innviði og fjárfesta í atvinnutækjum því hér var byggt upp úr engu í allt.

Í dag standa fleiri stoðir undir gjaldeyrisöfluninni, sérstaklega vegur þar þungt uppbygging stóriðju sem var löngu hafin áður en landið gekk í EES og ferðamannaiðnaðurinn, og hvað sem sagt verður um hinn innri markað, þá blómstrar ferðamannaiðnaður á fleiri svæðum í heiminum.

En eins og játendur Stalínsátrúnaðarins sögðu; "þið vitið ekki", og gátu alveg haft rétt fyrir sér.  Til dæmis var lítið um þungaiðnaði í Kongó eða Afganistan og í þeim samanburði komu Sovétríkin vel út.

En það var iðnaður í Rússlandi fyrir byltingu Kommúnistanna og það var líf á Íslandi fyrir EES.  Það var ákaflega líklegt að þróun hafi átt sér stað í Rússlandi þrátt fyrir byltingu bolsévika og eitthvað grunar mig að áratuga uppbygging Íslands hefði haldið áfram þó þjóðin hefði ekki undirgengist regluverk ESB.

Maður veit svo sem ekki, en ein vísbending ætti að gefa manni hint, sólin hélt áfram að koma upp í Sovétríkjunum eftir daga Stalíns, og það er líf á þessu svæði eftir hrun kommúnismans.

 

Það er nefnilega fólkið sem skapar samfélögin.

Ekki regluverkið.

 

Eitthvað sem játendur rétttrúnaðarins vilja stundum gleyma.

Kveðja að austan.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Mér er sagt að unga fólkið í Valhöll lesi nú bókina “Í austurvegi” eftir Laxness á kvöldin ti að fá innblástur.

Júlíus Valsson, 30.4.2019 kl. 09:01

2 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Maður bara gapir Ómar.

"EES-sam­starfið veitti okk­ur aðgang að innri markaði Evr­ópu og færði okk­ur úr gjald­eyr­is­höft­um sem höfðu þá varað í rúm 60 ár"

Það er svona heimska sem fær mann til ekki bara að álykta, heldur einnig til að fá staðfasta og afar vonda trú á því að þarna séu því miður fullkomnir fáráðlingar á ferð. Þvílíkt þvaður, blaður, fáviska, lygar, fals og sögufölsun. Forysta flokksins virðist jafn heimsk og íslenskir útrásarvíkingar uppblásturstímabilsins voru. En þeir voru sannarlega bjánar sem heldu að þeir vissu allt, en sem vissu ekkert.

Það sem er rétt, er að þar var EES-samningurinn sem skellti á okkur gjaldeyrishöftum 2008. Gömlu höftin voru ekki höft, heldur liður í þróun frá örbyrgð til ríkidæmis. Engar þjóðir Evrópu á þeim tíma höfðu frjálsa kapítalmarkaði.

En ef við hins vegar hefðum verið í Evrópusambandinu í EES-bankahruninu 2008, þá hefði ekki bara verið skellt á okkur gjaldeyrishöftum, heldur einnig peningaskömmtun. Þá hefði hún ekki getað tekið út fyrir humrinum sínum í hennar eigin mynt. Lok lok og læs innan í sínu eigin landi: FULLT SOVÉT!

Þetta lið er hreint ótrúlegt fyrir þá sakir einar að það skuli vera þarna. Þetta er allra versta sort kjána: þ.e. fólk sem veit ekki hversu miklir kjánar það er. Hættulegt fólk.

Bandaríkin eru eina landið í heiminum í dag sem er með algerlega frjálsa kapítalmarkaði, og það líður meira að segja fyrir það, því allur heimurinn hendir umfram-sparnaði sínum í hausinn á Bandaríkjunum til ávöxtunar og varðveislu, en sem hafa bara ekkert við þessa erlendu peninga að gera. Þeir eiga meira en nóg af þeim sjálfir og þurfa ekki á þessu innflæði að halda. Það er slæmt fyrir þá.

Allt hitt í heiminum er meira og minna í höftum enn þann dag í dag. Í hvert skipti sem ég keypti erlendan gjaldeyri til vörukaupa (innflutningur) í Danmörku frá 1988 til 1997, þá var það alls ekki sjálfgefið að það væri alltaf hægt. Frá 1988 til 1997 var danska gjaldeyriseftirlitið strangt. Og svo seint sem í dag getur venjulegt fólk í flestum ESB-löndum ekki opnað gjaldeyrisreikning í banka sínum, nema að sérstök og mikilvæg ástæða sé tilgreind. Spákaupmennska er ekki ástæða sem tekin er gild, nema í fjárfestingarbönkum og á sérstökum "trading platforms". 

Maður fyrirver sig orðið fyrir að vera í flokki með þessu fólki.

Kveðja

Gunnar Rögnvaldsson, 30.4.2019 kl. 09:53

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Gunnar og takk fyrir innlitið.

Þú veist að kátari verða menn ekki í dag en ég þegar þeir lesa brýningar þínar.

Við deilum ekki um það Gunnar, þjóðlegir íhaldsmenn hafa hafið upp raust sína á þann hátt að áður hefur slík raust ekki heyrst í sögu þjóðar okkar.

Og þó er af mörgu góðu að taka.

Við getum svo sem deilt um Bandaríkin, þú fattar það seinna, en við deilum ekki við rök þín hér að ofan.

Slíkt gera aðeins börn, en ósammála eru vissulega þeir sem vilja selja, hvort sem það er orkan eða sjálfstæðið, eða hvorutveggja líkt og fáráðarnir sem kalla sig jafnaðarmenn eða félagshyggjufólk.

Ég vona að þegar okkur greinir á, að þú núir mér því ekki um nasir, að á ákveðnum tímapunkti hafi ég treyst þessu fólki, sem í raun á enga æru, eða helg vé sem þarf að verja.

En mundu að ég er ekki alone, félagi Ögmundur tjáir svo margt sem Hriflungar geta tekið undir.

Og við sem erum aðeins eldri en  fjórtán ára hristum hausinn yfir svona skrifum, og svona barnaskap sem almannatengillinn fékk þau sem eru varla mikið eldri en fjórtán ára til að skrifa.

Því Áslaug skrifaði ekki þennan pistil, ekki frekar en Þórdís Kolbrún gerði í Moggann um síðustu helgi, eða var það þar áður?

Við sáum hroka almannatenglanna í Silfrinu um helgina, þetta eru illa lesnir menn, kannski ekki illa greindir, en alveg ólesnir.

Og Sjálfstæðisflokkurinn treystir þeim fyrir fjöreggi sínu.

Fáviska og fáfræði í bland, slíkt er ekki góður kokteill.

Þess vegna skipta brýningar máli.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.4.2019 kl. 10:14

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er þarft verk sem þið vinnið hér, Ómar og Gunnar, frábært að fá þessi viðbrögð ykkar, þar sem stungið er upp í þennan reynslulitla, óupplýsta ungpólitíkus.

Fyrir hvað ætli hún og Þórdís KRG hafi náð svona langt í flokknum, önnur er ráðherra og hin formaður utanríkismálanefndar. Fengu þær ákveðin verkefni að vinna að, þegar formaðurinn gaf þeim grænt ljós á landsfundi (þessum sem þau þrjú hafa æ síðan reynt að svíkjast gegn í orkumálunum)?

Athyglisverð var skelegg ábending Arnþrúðar Karlsdóttur á Útvarpi Sögu í dag, um að ekki var orkupakkinn kynntur né boðaður með einu einasta orði í kosningabaráttu flokksins fyrir síðustu alþingiskosningar.

Samt er keyrt á þetta mál, þó að um og yfir 80% þjóðarinnar séu á móti þriðja orkupakkanum! Umboð þingmanna til að kjósa hann er EKKERT, og sjálft nýtur þingið aðeins 18% trausts meðal almennings! Treysta þingmenn sér, með 18% traust landsmanna, til að standa gegn orkupakka-andstöðu 80% þjóðarinnar og að skella skollaeyrum við eindregnum óskum um þjóðaratkvæðagreiðslu?

Jón Valur Jensson, 30.4.2019 kl. 12:38

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Jón Valur.

Virkilega þörf spurning; " Treysta þingmenn sér, með 18% traust landsmanna, til að standa gegn orkupakka-andstöðu 80% þjóðarinnar og að skella skollaeyrum við eindregnum óskum um ".

Og það er vítavert að voga sér að afgreiða svona grundvallarmál með þeim rökum að þetta sé bara einn ein ESB reglugerðin sem þarf að samþykkja.

Og þess vegna komi þjóðinni þetta ekkert við.

Mér er til efs að jafnvel harðsvíruðustu einræðisherra þyrðu að haga sér svona, en ef þetta gengur eftir þá er ljóst að lýðræðið virkar ekki lengur, að stjórnmálastéttin vill ekki lengur eiga samtal við þjóð sína um grundvallarmál, að hún líti svo á að þjóðin hafi ekki vit, og geti því ekki tekið ákvörðun um sín brýnustu mál.

Slíkt kann aldrei góðri lukku að stýra.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 1.5.2019 kl. 10:32

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Það skyldi þó aldrei vera Júlíus.+

Takk fyrir innlitið.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 1.5.2019 kl. 10:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 19
  • Sl. sólarhring: 473
  • Sl. viku: 5510
  • Frá upphafi: 1327334

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 4920
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband