Ef lygin er endurtekin nógu oft.

 

Þá hugsanlega gætu ráðherrarnir sjálfir í nauðvörn sinni trúað því sem þeir segja.

Á þeirri vegferð er Þórdís Kolbrún.

 

Tökum fullyrðingar hennar og skoðum:

1. "... með inn­leiðingu orkupakk­ans sé verið að fram­selja vald­heim­ild­ir um­fram það sem stjórn­ar­skrá­in leyf­ir,".

Stefáns Más Stefánssonar prófessors og Friðrik Árni Friðriksson landsréttarlögmaður; 

"Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða höfunda álitsgerðarinnar að verulegur vafi leiki á því hvort framsal ákvörðunarvalds til ESA samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 713/2009, eins og ráðgert er að taka hana upp í EES-samninginn samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017, rúmist innan ákvæða stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Er þá m.a. tekið tillit til þeirra almennu stjórnskipulegu viðmiðana sem líta ber til í þessum efnum, sbr. kafla 4.2.2 og 4.2.3, og þeirra sérstöku sjónarmiða sem eiga við um það viðfangsefni sem hér er til athugunar. Skal sérstaklega tekið fram að sjónarmið um forsendur EES-samningsins64, afmörkun framsalsins og víðfeðmi þess, sbr. kafla 4.3.2. og 4.3.3, teljast vega þungt i þessu sambandi. Með vísan til framanritaðs er það álit höfunda að ekki séu að óbreyttu forsendur til þess að Ísland aflétti stjórnskipulegum fyrirvara við umrædda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um að taka þriðja orkupakkann upp í EES-samninginn, sbr. 1. mgr. 103. gr. EES-samningsins, nema tryggt sé að reglugerð nr. 713/2009 verði innleidd i íslenskan rétt á þann hátt að samræmist stjórnarskránni".

Hver er að afvegleiða hvern, sá sem fullyrðir, eða sá sem rökstyður út frá stjórnskipunarrétti??

 

2. ".. að hingað verði lagður sæ­streng­ur sem muni hækka raf­orku­verð mikið".

Eitt meginmarkmið tilskipunar ESB um orkumál er að koma á samkeppnismarkaði sem nær yfir landamæri aðildarríkja, " "Í fimmta tölulið forsendna reglugerðarinnar um þriðja orkupakkann kemur fram að aðildarríkin geti í raun ekki gert neina fyrirvara eða sett aðrar lagalegar hindranir: "Aðildarríkin skulu vinna náið saman og fjarlægja hindranir í vegi viðskipta með raforku og jarðgas yfir landamæri í því skyni að ná fram markmiðum Bandalagsins á sviði orku.".  Og þessi markmið virka ekki ef einstök aðildarríki setja fyrirvara sem koma í veg fyrir slík viðskipti, eins og til dæmis að leggja bann við að raforkukerfi viðkomandi lands sé tengt hinum sameiginlega markaði.  Slíkir fyrirvarar halda ekki nema um þá sé samið upphaflega, og þá gilda þeir aðeins tímabundið.

 

3. "... að verið sé að veita ESB heim­ild til að „krukka í okk­ar auðlind­um“ varðandi virkj­an­ir.". 

Regluverkið skilgreinir orku sem vöru sem á að flæða frjáls um hinn sameiginlega markað, og eftirlit með því hefur "Orkustjórnsýslustofnunin, ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators)", hún hefur beint boðvald ef til ágreinings kemur milli einstakra ríkja og henni ber að sjá til þess að Orkustofnun sé algjörlega sjálfstæð gagnvart stjórnvöldum, og Orkustofnun ber að sjá til þess að efni tilskipunarinnar gildi á íslenskum raforkumarkaði.  Þetta snýst ekki um að krukka í orkuauðlindinni varðandi virkjanir, heldur að regluverk Evrópusambandsins setur rammann og skorðurnar, og íslensk stjórnvöld hafa fátt um málið að segja.  Og orkupakkar 4 og 5 munu skerpa ennþá á þessu sjálfstæði, þannig að í raun verður yfirstjórn orkumála í Evrópu undir einni stjórn, yfirþjóðlegri.

 

Þetta er raunveruleiki, það er ekki verið að afvegleiða einn eða neinn.

 

"En við leggjum ekki sæstreng, treystið því", en af hverju ætti fólk að treysta henni ef hún getur ekki viðurkennt þann raunveruleika sem felst í regluverki ESB. 

Og hún vill sæstreng, telur þjóðina hafa hag af tengingunni við hinn sameiginlega orkumarkað.  Hún hefur sagt það í viðtölum, og hún hefur lýst vilja sínum á opinberum vettvangi; "Iðnaðarráðherra áréttar að orkan tilheyri eignarrétti á landi og sé ekki þjóðareign líkt og fiskurinn í sjónum. Milljarðaverðmæti liggi í sölu umframorku um sæstreng, og orkupakkarnir hafi verið markaðspakkar." segir í Viðskiptablaðinu um orð ráðherra á ársfundi Landsvirkjunar.

Reiknar hún með að Sjálfstæðisflokkurinn þurrkist því sem næst út og muni engu ráða um stjórnun landsins næstu árin??

En hvað með hina flokkana sem eru jafn hallir undir ESB og markaðssjónarmið þess??

 

Afvegleiðingin er nefnilega sú árátta að afneita raunveruleikanum því menn hafa ekki kjark til að ræða kosti og galla hins sameiginlega evrópska orkumarkaðar, og því er látið eins og regluverkið sé bara eitthvað sem gerist í útlöndum.

Það er hvorki heiðarlegt eða sanngjarnt gagnvart kjósendum flokksins eða þjóðinni.

Og ekki síður er það óheiðarlegt að bera öðrum það á brýn sem menn ástunda sjálfir.

 

Aftur og aftur þarf að leiðrétta ráðherra þegar þeir fullyrða eitthvað sem stenst hvorki reglur eða raunveruleika.

Og það er ekki merkilegur málstaður sem þarf á slíkum vinnubrögðum á að halda.

 

Segir í raun allt sem segja þarf.

Kveðja að austan.


mbl.is Viljandi verið að afvegaleiða umræðuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábær pistill Ómar. 

Þessi pistill ætti heima, sem innsend umsögn til utanríkisnefndar þingsins um þriðja orkupakkann.

Hvet þig eindregið til þess.

Með vinsemd og virðingu 

Símon Pétur frá Hákoti

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 18.4.2019 kl. 00:54

2 identicon

Veit samt, að enn betra og beinlínis afbragðsgott væri að þú settir saman úr þessum og fyrri pistlum þínum um þetta mál, eina naglfasta umsögn um málið.  Þú átt í þeim allan efniviðinn og rökin fyrir höfnun á þriðja orkupakkanum.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 18.4.2019 kl. 01:03

3 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Þakka stórgóðan pistil, eins og þín er von og vísa, í flestöllum tilfellum;-)

 Málflutningur ráðamanna varðandi O3 er allt að því Göbbelskur. Það kann ekki góðri lukku að stýra og vonandi næst að koma í veg fyrir samþykkt þessa óbermis.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 18.4.2019 kl. 01:52

4 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Kærar þakkir fyrir pistilinn. Það er hreint ótrúlegt að fylgjast með beinum ósannindum ráðherra ríkisstjórnarinnar sem snúa öllu á haus sér í hag. Heilaþvottur kallast það og það eina sem þau geta komið með er að gera þá sem mæla fyrir staðreyndum tortyggilega. Eins og þú sýnir réttilega með tilvitnunum í Stefan Má og Friðrik Árna. Vonandi sendir þú rökin inn sem umsögn til Alþingis ....við ættum flest að gera það.  Kær kveðja,

Gústaf Adolf Skúlason, 18.4.2019 kl. 04:20

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Símon minn kæri.

Skotheldu pistlarnir hafa komið á færibandi frá Bjarna Jónssyni hérna á Moggablogginu og i raun skil ég ekki í að ekki sé linkur á sérstakt pistlasafn hans sem gæti til dæmis heitið Orkublogg Bjarna Jónssonar, á umræðusíðunni hans Frosta, Orkan okkar.

Linkur á síðu Bjarna er  https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/

Síðan hefur Ögmundur Jónasson, sem gerir ekkert annað en að þroskast og batna með aldrinum, skrifað pistla sem hreyfa við öllu skynsömu fólki, í raun þarf aðeins að fjölrita þá og dreifa inná öll heimili eins og kirkjubréfi Sigga prests hérna á Norðfirði.

Pistlar mínir eru hins vegar eins og þú veist innlegg í orrahríð dagsins, og eiga aldrei að lesast út frá öðru sjónarmiði.

Kveðja að austan.

 

 

 

Ómar Geirsson, 18.4.2019 kl. 08:42

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður aftur Símon í annað sinn.

Þegar ég var að setja inn innslagið hér að ofan þá rifjaðist upp fyrir mér bútur úr einum af pistlum Bjarna, þar sem hann vitnar í Elías B Elíasson verkfræðing og sérfræðing í raforkumálum, og leggur út frá því á yndislegan hátt.

Eitthvað sem fólk ætti að hengja uppá vegg hjá sér.

En hér kemur tilvitnunin í Bjarna og svo fólk eigni mér ekki textann þá sleppi ég kveðjunni í þetta sinnið;

"Fyrir aðra lesendur en ESB-sinna verður hér klykkt út með tilvitnun í málsvara heilbrigðrar skynsemi í þessum efnum, Elías B. Elíasson, í umræddri Morgunblaðsgrein hans:

"Þegar orkulögin voru sett 2003 og við samþykktum að vera í innri orkumarkaði ESB, grunaði engan, að ESB mundi taka þá stefnu að gera allt svæði innri raforkumarkaðarins að einu verðsvæði og breyta mörkuðunum, svo [að] þeir virki betur í þá átt.  Til að koma þeirri stefnu örugglega fram lætur ESB þjóðþing landanna setja sérstakan yfirmann, landsreglarann, yfir raforkugeirann, utan valdsviðs hverrar ríkisstjórnar, en í reynd með ráðherravald og náin tengsl við ACER.  ESB tryggir síðan með reglugerðum, að landsreglarinn sé fulltrúi þjóðar sinnar í viðræðum, sem jafnvel geta valdið henni verulegum fjárskuldbindingum."

Þetta sýnir, hversu óútreiknanlegt EES-samstarfið er.  EFTA-löndin vita ekkert að hverju þau ganga, þegar þau innleiða Evrópugerð, því að hún getur tekið nýja stefnu, eins og breytingin frá Orkupakka #2 til Orkupakka #3 sýnir.

Þá hefur verið bent á, að erlend orkufyrirtæki geta hæglega keypt sér aðgang að orkulindunum með því að stofna hér til virkjanafyrirtækja.  Ekki má mismuna eftir þjóðernum við úthlutun virkjanaleyfa.  Ef öll raforkuviðskipti hér utan gildandi langtímasamninga verða sett á frjálsan markað og á meðal kaupenda er öflugur aðili, sem yfirbýður aðra, þá er afleiðingin ekki einvörðungu sú, að hann ryður veikari kaupendum af markaðnum hérlendis, heldur stjórnar hann þá óbeint nýtingu orkulinda landsins.

Líklega hugnast fáum Íslendingum þessi skefjalausi kapítalismi á orkusviðinu, heldur vilja þeir líta á orkuna sem afurð sameiginlegra náttúruauðlinda, sem nýta eigi heimilum landsins og fyrirtækjum til hagsbóta.  Það þýðir, að gæta á mikils hófs í arðsemiskröfum til orkufyrirtækjanna, eins og gert hefur verið fram að þessu, og halda spákaupmennsku með orkuna fjarri."

Ómar Geirsson, 18.4.2019 kl. 08:47

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Halldór.

Ég er nú ekkert ofurmenni og jafnvel slík geta ekki skrifað stórgóða pistla í öllum tilvikum svo öllum líki.

Sighvatur orðar þetta vel í Morgunblaðsgrein þar sem hann bendir á að í raun hafi Guðlaugur samið við sjálfan sig um fyrirvara sem eigi svo að halda.

Síðan spyr Sighvatur að ef það á ekki að fara eftir þessum markaðspakka, hver er þá ávinningurinn??

Til hvers að innleiða eitthvað sem á ekki að fara eftir.

Svona rök og mörg önnur, sem eðli málsins þurfa endilega ekki að vera rétt, eða réttasta nálgunin á málið, að þeim er ekki svarað.

Aðeins fabúlerað eins og einhver almannatengill hafi gefið þá línu að ráðherrar og aðrir eigi að tala um fullyrðingar sem standast ekki skoðun, um að umræðan sé afvegleidd, að hún sé lýðskrum og þjóðernishyggja, jafnvel einangrunarhyggja, og síðan eigi að endurtaka í sífellu, að þessi markaðstilskipun eða markaðspakki eins og Þórdís kallar hann, eigi ekki við Ísland því landið sé ekki tengt, og ekki standi til að tengja það.

Þetta er of einsleitt til að önnur skýring komi til greina, svo í raun er eina spurningin hver er þessi dularfulli almannatengill sem stjórnar umræðu ráðherra og þingmanna í dag.

Og hver er hagsmunatenging hans??

Það væri gaman að vita.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 18.4.2019 kl. 08:57

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið Gústaf.

Mig minnir að þessi álitsgerð þeirra Stefáns og Friðriks sé hluti af fylgiskjölum þingsályktunartillögu ráðherra.

Í lok henni kemur fram að ráðuneytið hafi gert athugasemdir við niðurstöðu þeirra og þrýst á að henni yrði breytt. Þegar það gekk ekki eftir þá dúkkaði upp í umræðunni stórfurðulegt bréf þar sem þeir Stefán og Friðrik drógu fyrri niðurstöðu til baka.

Sem er algjört bakslag fyrir málflutning okkar andstæðinga orkupakkans ef rétt er.

Þess vegna las ég greinargerð þeirra til að skoða rökstuðningin, og hann einn og sér heldur, og þegar þeir drógu niðurstöðu sína til baka, þá var það gert með orðum, en ekki með nýjum rökstuðningi þar sem fyrri rök voru vegin og metin og léttvæg fundin.

Í kjölfar skrifaði ég pistil þar sem ég lagði út frá fleygum orðum Galíleós um að jörðin snérist samt um sólu þó hann hefði verið neyddur til að segja annað opinberlega.  Hér er linkur á þann pistil;

Af þumalskrúfum og keyptum skoðunum.

Þess vegna nýt ég áfram rök þeirra félaga og niðurstöðu, þau hafa ekkert breyst þó þeir hafi verið beittir einhverjum óþekktum þrýstingi til að segja annað.

"Jörðin snýst samt".

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 18.4.2019 kl. 09:08

9 identicon

Sæll Ómar - sem og aðrir gestir, þínir !

Ómar !

Þórdís þessi Kolbrún Reykfjörð (REYKÁS) Gylfadóttir: hefur líkt og öðrum undirlægjum Engeyinganna verið innprentuð ásjóna illsku og græðgi, líkt og hennar mórölsku fyrirmyndar:: Bjarna bandítts Benediktssonar, og hans innsta hrings.

Þessi manneskja - er viðurstyggilegt flagð ómennzku og sí- hrörnunar Kapítalismans, og álíka taglhnýtingur íslenzku Mafíunnar, eins og þær dyrgjur Vinstri grænna og Framsóknarliðsins, sem hafa SELT undan sér allan vott mögulegrar samvizku / hafi einhvern tímann:: örlað á.

Á eftir: dingla flón flestra hinna flokkanna, einungis Íslenzka þjóðfylkingin og Frelsisflokkurinn, hafa EKKI ENNÞÁ a.m.k. látið mengazt, svo vitað sé.

Fróðlegt væri að vita Ómar - og þið hinir piltar, hversu mörgum brúnleitum umslögum MÚTU fjár hafi verið dreift til þessa liðs, sem flækst hafa í vefi : Bjarna bandítts - Þórdísar Kolbrúnar og Guðlaugs Þórs (Styrkja- Gulla), undir handarjaðri Katrínar Jakobsdóttur (lesizt: Steingríms J. Sigfússonar).

Gangi áform þessa illþýðis eftir: er það BORGARALEG skylda allra landsmanna, að ákæra alþingismenn þá, sem að þessum svika pappírum standa - og JAFNFRAMT Guðna Th. Jóhannesson á Bessastöðum suður, fyrir að bregðazt sinni vaktstöðu, sem jú:: hann var kosinn til, af nokkrum hluta landsmanna (þó ekki hafi ég kosið hann, fremur en aðra hans fyrirennara), Sumarið 2016 !!!

Með beztu kveðjum - engu að síður, sem oftar, af Suðurlandi /// 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 18.4.2019 kl. 11:49

10 identicon

Þú sannar fyrirsögnina á sjálfum þér, 3 blogg á dag undanfarið og það er ekki laust við að þú sért farinn að trúa egin bulli, lygum og vitleysu.

Vagn (IP-tala skráð) 18.4.2019 kl. 16:49

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Vagn minn.

Frumlegur sem fyrr, og veldur ekki vonbrigðum.  Nema þeirri að svara ekki spurningum.  Mætti halda að þú sért ekki forritaður til þess.

Eins og þú sért ekki með vitund, og því ekki mansal að nota þig í skítverk.

En geta reikniforrit tekið á sig kvenlega mynd, líkt og vélmennið í Tortímandanum 3??

Þú getur þó fengið leyfi til að svara þessari spurningu.

Eitthvað má nú.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 18.4.2019 kl. 18:55

12 identicon

Annar vinkill er að þeir sem hæst láta um að ACER hafi í raun ekkert boðvald á Íslandi hallast eindregið að því að dómar Mannréttindardómstóls eigi að vera öllum lögum Íslands æðri. Sem er náttúrlega þversögn einsog flest í sambandi við O3

Grímur (IP-tala skráð) 18.4.2019 kl. 18:58

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Óskar.

Það má vel vera að svo verði endirinn þó við vitum ekki um ósa þeirra fljóta sem nú rennur að.

En Þórdís er sterk og traust, fyrir utan að gleðja augu okkur sem eldri eru, og gerir örugglega það sem hún telur réttast.

Ég skammast í henni með rökum Óskar, tel það virka best.

Hitt er bara að láta orðin missa allan máttinn, og slíkt er ekki háttur stríðsmanna af mongólsku kyni.

Það vitum við báðir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 18.4.2019 kl. 18:59

14 identicon

Sælir - á ný !

Ómar !

EKKERT: ekkert réttlætir uppivöðzlu Þórdísar Kolbrúnar / fremur en annarrs lagsfólks hennar, Á KOSTNAÐ OKKAR hinna, sem byggjum þetta land.

Og því vildi ég bæta við - að kæmi til mögulegra ákæra á hendur þessu fólki, þyrftu að fara fram handtökur á því, með tilstyrk Lögreglu - Tollheimtumanna (Tollgæzlu), að meðtöldum Landhelgisgæzlu mönnum, vitaskuld.

Engin ofantalinna stétta: gæti né mætti skorazt undan þeim verkum, ef til þyrftu að koma, enda borðliggjandi, að þeir hinir sömu yrðu þátttakendur í Bráðabirgða byltingarstjórn í landinu, hvort eð væri.

Að minnsta kosti er nú fullljóst Ómar síðuhafi - að ekki yrði bjóðandi í framtíðinni, að skemmdarverka öfl alþingis og stjórnarráðs fengju að gefa almenningi fingurinn lengur, ekki sízt í ljósi þeirrar staðreyndar, hversu þau hafa fengið að hygla sér og sínum - Á OKKAR KOSTNAÐ:: óáreitt, til þessa !!!

Að: Guðna Th. Jóhannessyni og snobbliðinu í kringum hann: meðtöldum !

Með þeim sömu kveðjum - sem áður og fyrri /  

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 18.4.2019 kl. 20:17

15 Smámynd: Júlíus Valsson

Stöndum þétt saman Íslendingar gegn yfirráðum erlends valds í okkar eigin orkumálum! Annað er hrein fásinna gagnvart komandi kynslóðum. Það er ekki nóg að hafa yfirráð yfir auðlindinni, yfirráð yfir raforkunni sjálfri skiptir öllu máli fyrir framtíð þjóðarinnar!

Júlíus Valsson, 19.4.2019 kl. 11:06

16 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Grímur.

Það dregur það enginn í efa að Ísland er í Evrópuráðinu og hefur undirgengist þær samþykktir sem Mannréttindadómstóll Evrópu byggist á.  Deilan snýst um hvort eigi að áfrýja til æðra dómsstigs eða ekki, en ljóst er að ef dómurinn um Landsrétt verði staðfestur, að þá verður reynt að koma til móts við hann.

Varðandi ACER að þá held ég að fáir afneiti lengur boðvaldi þeirrar stofnunar, en ESB sinnar halda því fram að þar sem landið sé ekki tengt evrópska raforkumarkaðnum, að þá þurfi ekki að hafa áhyggjur af því boðvaldi.

Þeir hafa hins vegar ekki svarað því hvað á að gera ef reynir á það boðvald, til dæmis ef í næstu orkupökkum verður ekki lengur talið skilyrði að lönd tengist orkumarkaðnum, að ESB/EFTA dómur krefjist þess að leyfi til sæstrengs verði veitt, eða vilhöll stjórnvöld leyfi lagningu slíks strengs.

Hvort ætla menn þá að segja upp stjórnarskránni eða EES samningnum??

Fróðlegt að fá að vita.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 19.4.2019 kl. 17:23

17 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Óskar.

Eins og ég sagði í fyrri athugasemd minni þá tel ég ekkert útilokað að til þess komi, þetta fólk rífur grið af einhverjum annarlegum ástæðum.

En það gerist ekki að sjálfu sér.

Þess vegna minnti ég þig á hvernig mongólskir stríðsmenn börðust.

Kveðja að austan.

 

 

 

Ómar Geirsson, 19.4.2019 kl. 17:26

18 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Júlíus.

Ég held að samþykkt orkupakkans verði fallaskil, að ljóst sé að stjórnmálastéttin vill fara með sjálfstæði þjóðarinnar í bútum til Brussel þar til ekkert verði eftir.

Og það gegn vilja þjóðarinnar.

Ef henni tekst það, þá verður engin sátt í samfélaginu.

Það eitt er víst.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 19.4.2019 kl. 17:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 109
  • Sl. sólarhring: 600
  • Sl. viku: 5693
  • Frá upphafi: 1399632

Annað

  • Innlit í dag: 94
  • Innlit sl. viku: 4858
  • Gestir í dag: 93
  • IP-tölur í dag: 93

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband