17.4.2019 | 08:28
Orkan okkar er auðlind.
Og hvað felst í því að hún sé auðlind??
Því svarar Þórólfur Gíslason svo ekki verður betur gert í þessu viðtali þar sem hann gagnrýnir hugmyndafræðina við þjóðarsjóðinn.
Arðurinn kemur frá samfélaginu, samkeppnishæfni þess og lífskjörum almennings;
"Þórólfur bætir við að nýta þurfi auðlindirnar skynsamlega, og þar með raforkuna því hún þurfi að vega upp á móti öðrum kostnaði sem Íslendingar hafi af vörum og flutningi og slíku. Því finnst mér miklu eðlilegra að fallorkan sé nýtt til að auka samkeppnishæfni samfélagsins og fyrirtækja og auka kaupmátt almennings, frekar en að ríkið sé með orkuna á sínum vegum að gera einhvern sjóð sem ég hef miklar efasemdir um að menn hafi einhverja stjórn á, og ætli að láta verða einhvern öryggissjóð. Ég held að þetta verði bara einhver framkvæmdasjóður. Við höldum ekki kaupmætti uppi í samfélaginu nema samkeppnishæfni samfélagsins sé í lagi, segir Þórólfur.".
Við erum eyja langt frá öllum mörkuðum og við erum fámenn, náum því sjaldnast einhverri stærðarhagkvæmni.
En eyjan okkar er gjöful, hreint vatn, hreint loft, hrein orka. Og þær gjafir eigum við að nýta til hagsældrar allra, ekki aðeins þeirra Örfáu sem hafa fjármuni til að kaupa upp stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka, og fá þá til að setja þessi gæði í einkaeigu, svo hægt sé að mjólka okkur hin fyrir að nýta þessi gæði.
Þá verður byggðabrestur því kostirnir eru farnir en ágallarnir fara ekkert.
Hugmyndin um þjóðarsjóðinn er angi af þeirri hugmyndafræði að orkan sé ekki auðlind, heldur vara, og arðsemi hennar felist í því verði sem hægt er að fá fyrir hana.
Gróska mannlífs, gróska atvinnulífs, velmegun og velsæld fjöldans er ekki mæld þegar sú arðsemi er metin.
Eða sú staðreynd að núverandi fyrirkomulag hefur skilað almenningi hagstæðasta rafmagnsverði miðað við kaupmátt sem þekkist í vestræna heimi.
Nei, það vantar samkeppni, líklegast til að hækka verð til almennings svo hægt sé að bjóða stærri kaupendum lægra verð. Svipað og við sjáum með flutningana þar sem almenningur borgar afslætti stórfyrirtækja með hærri flutningsgjöldum.
Og samkeppni sem lækkar verð á höfuðborgarsvæðinu en hækkar í hinum dreifðu byggðum, er samkeppni sem elur á sundrungu og sundurlyndi.
Svo vitnað sé í iðnaðar og nýsköpunarráðherra í nýlegu útvarpsviðtali;
"Það sem er jákvætt úr þessum orkupakka er að fyrsti og annar orkupakki opnuðu fyrir samkeppni á þessum markaði og ég er almennt hrifinn af samkeppni og nú er það í umræðunni að raforkuverð hafi hækkað, það er ekki rétt. Dreifikostnaður raforku hefur hækkað, það skýrist aðallega að fjárfestingarþörf á dreifingarkostnaði á landsbyggðinni. Það sem gerist með þessu er að það er búið að skilja á milli framleiðslu á rafmagni, flutningi á rafmagni og dreifing á raforku og sala á raforku. Áður var þetta allt í sömu súpu og neytendur vissu ekki hvað kostaði hvað. Núna vitum við hvað kostar að dreifa raforku, hvað kostar að flytja raforku, og hvað raforkan sjálf kostar. Og það er samkeppni hérna í sölu á raforku."
Hún sem landsbyggðarþingmaður er stolt af þeirri hækkun á raforku í hinum dreifðu byggðum sem varð í kjölfar innleiðingar á orkupökkum Evrópusambandsins, og hún vill skerpa á þeirri hækkun.
Hjálpa þannig til að ganga að innlendri matvælaframleiðslu dauðri, allt í nafni gagnsæis og samkeppni.
Hugsar ekki á móti að fyrst við erum ekki ein þjóð í nafni samkeppninnar, að þá þurfa bændur ekki að láta land sitt endurgjaldslaust fyrir raflínur til höfuðborgarsvæðisins, eða við sem framleiðum gjaldeyrinn eigum þá líka að njóta markaðslögmálanna, og fá að ráða því hverjum við afhendum gjaldeyrinn, og á hvaða verði.
Því ef markaðslögmálin ganga í báðar áttir, þá býðst höfuðborgarbúum ekki lág orka, heldur rándýr orka, og grundvöllur verslunar og þjónustu er horfinn, því innspýtingin, gjaldeyririnn verður seldur dýrum dómi.
Það er nefnilega ekki þannig að það sé bara hægt að selja landsbyggðinni allt á samkeppnisverði og hún láti allt í staðinn á kostnaðarverði, frumskógarlögmálin og sérhyggjan gilda þá í báðar áttir.
Af hverju vildu forfeður okkar ekki svoleiðis þjóðfélag??
Ætli það sé ekki það vit að hafa séð hvað kynnti undir ólgu og átök í Evrópu í hundruð ára, og við sjáum víða í Afríku í dag þar sem barist eru um auðlindir. Eða í múrunum í kringum hverfi ríkra í Mið og Suður Ameríku þar sem fólk lifir í stöðugum ótta við þá sem voru skildir eftir í fátækt og örbirgð sérhyggjunnar.
Samkennd og samhygð er nefnilega forsenda velmegunar og velferðar.
Og friðar.
Friðar.
Rjúfum ekki friðinn þó einhverjir auðmenn geti orðið ríkari fyrir vikið.
Þeir eru ekki þjóðin.
Höldum sátt um það sem hefur reynst okkur svo vel.
Annað er ógæfan ein.
Kveðja að austan.
Gagnrýnir þjóðarsjóðinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.1.): 18
- Sl. sólarhring: 28
- Sl. viku: 2037
- Frá upphafi: 1412736
Annað
- Innlit í dag: 18
- Innlit sl. viku: 1790
- Gestir í dag: 18
- IP-tölur í dag: 16
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.