Grundvallarhagsmunir þjóðarinnar.

 

Er að orkuauðlindir hennar séu sameign þjóðarinnar.

Að þær lúti forræði hennar að fullu.

Og þær séu nýttar til að skapa velmegun og hagsæld innanlands en ekki til að bæta neytendavernd í Þýskalandi eins og eina röksemd Viðreisnar í þessu máli er.

 

Orkutilskipanir Evrópusambandsins ganga gegn öllum þessum lykilatriðum svo þeir sem berjast fyrir innleiðingu þeirra ganga annarra erinda en þjóðarinnar.

Þeir ganga erinda auðmanna sem ásælast orkufyrirtæki okkar sem og hina óbeisluðu orku.

Þeir ganga erinda Evrópusambandsins sem sárlega vantar græna orku til að bæta kolefnisbókhaldið sitt.

Þeir ganga erinda hræðslunnar og óttans, þeirrar minnimáttarkenndar sem sífellt nagar og segir að við getum ekki ráðið málum okkar sjálf, við getum ekki verið sjálfstæð þjóð.

Og þessir þeir eru stjórnmálastétt þjóðarinnar eins og leggur sig, með heiðvirðum undantekningum eins og Ingu Snæland, formann Flokks fólksins, og Sigmundar Davíðs, formanns Miðflokksins.

 

Hvað veldur?

Hví getur það verið metnaðarmál stjórnmálanna að rjúfa griðinn við þjóðina, og koma auðlindum hennar undir erlend yfirráð??

Af hverju að rjúfa þá hundrað ára gamla sátt, milli vinstri og hægri, milli ríkra og fátækra, milli höfuðborgar og landsbyggðar, að orkan okkar sé sameign, hún sé auðlind, og til hennar sækjum við hita og rafmagn á sem hagkvæmasta hátt, svo allir, og þá meina ég allir, óháð efnahag, geti kynnt og lýst upp hýbýli sín.

Sama sátt og var um heilsugæslu fyrir alla, óháð efnahag, um menntun fyrir alla, óháð efnahag.

 

Hvernig ætla þessir sömu stjórnmálamenn að hitta gamla fólkið og tjá því að innan ekki svo margra ára þurfi þeir að bæta neytendavernd í Þýskalandi með því að margfalda orkuverðið og því sé það gott fyrir það að kaupa sér lopa í tíma og prjóna á sig föðurland og lopapeysur.

Því ekki getum við gert eins og Norðmenn í sömu aðstæðum, farið út í skó og höggvið í eldinn.

Hvílík framtíðarsýn í landi ís og kulda að spóla tímann hundrað ár aftur á bak og eyðileggja það sem best er heppnað í landi okkar.

Eða hvað ætla þeir að segja við fólkið sem missir vinnuna þegar orkan verður markaðsvædd, að það sé göfugt að fórna sér fyrir málstaðinn??  Söngla svo bless, bless stóriðja, bless bless gróðurhús, halló innflutningur, halló atvinnuleysi.

Eða eru þeir svo lygnir og ómerkilegir að þeir kannast ekki við afleiðingar gjörða sinna.

 

Fyrst þeir geta logið því að EES samningurinn sé í hættu ef þjóðin virkjar ákvæði hans um að hafna tilskipunum sem ganga gegn grundvallarhagsmunum hennar, og var sett í þann sama samning einmitt ef svona tilvik kæmu upp í framtíðinni, þá geta þeir örugglega logið að þeir hafi ekki vitað betur.

Tönglast svo á hinum svokölluðum fyrirvörum sem þeir setja, án þess að geta nefnt eitt dæmi að einhliða fyrirvarar hafi haldið þegar regluverk Evrópusambandsins er annars vegar.  Enda eitthvað svo augljóst að einn markaður krefst einnar reglu, ef hann á að virka. 

En þeir átta sig ekki á því að með því að leggja svona gífurlega áherslu á hina meintu fyrirvara, þá eru þeir í raun að játa markaðsvæðingu orkunnar, einkavæðingu hennar og sölu hennar um sæstreng með tilheyrandi hækkun á rafmagnsverðinu.

Því þú þarft ekki að setja fyrirvara ef ekkert er að óttast.

 

Það er tímabært að verja hagsmuni Íslands, segir Sigmundur Davíð, og það er kjarni málsins.

En af hverju þurfum við alltaf að verja hagsmuni landsins gagnvart svikuli stjórnmálastétt, sem stöðugt gengur erinda annarra en þjóðarinnar??

Af hverju þessi stöðuga varðstaða gegn henni??

Fyrst skuldaklafar ICEsave samninganna, núna orkan.

Að ekki sé minnst á alla innviðina sem eru látnir grotna án nokkurs sýnilegs tilgangs, öðrum en þeim að valda tjóni og skaða, líklegast til að réttlæta einkavæðingu þeirra seinna meir.

 

Þegar allt þetta er lagt saman, blasir við einarður illvilji til að ganga af sjálfstæði okkar dauðu, og koma þjóðarauðnum í vasa Örfárra eignamanna og fyrirtækja þeirra.

Um þetta virðist ríkja þverpólitísk sátt því það virðist engu máli skipta hvaða flokka við kjósum í ríkisstjórn, og ef einhverjir flokkar gera sig út fyrir að vera andkerfisflokkar eins og Píratar, þá haga þeir sér eins þegar á reynir.

Sátt genginna kynslóða er rofin, hundrað ára samhent uppbygging á innviðum, menntun og heilsugæslu er í húfi, ekkert virðist skipta máli en hörð markaðslögmál sem þjóna þeim eina tilgangi að færa auð frá þjóð í vasa útvaldra.

 

Þess vegna hljótum við að spyrja okkur, eru þessir stjórnmálamen okkar þess virði að hljóta atkvæði okkar??

Þeir hafa sýnt vilja til að selja þjóðina, en þó ég viti að enginn vill kaupa, þá má samt spyrja hvort við eigum ekki að gera það sama.

Skipta þeim út sem misbjóða okkur svona.

Skipta þeim út sem ganga erinda annarra en þjóðarinnar.

 

Munum að í öllum flokkum er gott fólk sem ofbýður þessi framkoma og hegðun forystufólks síns.

Fólk sem er fullfært að taka við keflinu og vinna í þágu lands og þjóðar.

Í þágu velferðar hennar og velmegunar.

Þannig að við skilum af okkur til barna okkar og barnabarna allavega jafngóðu samfélagi og við tókum við frá áum okkar.

 

Eða viljum halda áfram að standa varðstöðuna??

Hvað gerum við ef hún brestur??

 

Íhugum það.

Kveðja að austan.


mbl.is Tímabært að verja hagsmuni Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vonandi fer atvinna að glæðast þarna fyrir austan, fært verði út úr húsi og sjónvarpið komist í lag. Þú ert þó greinilega vel byrgur af vímuefnum og netið hangir inni. Leiðinlegt að ekkert var hægt að gera annað en vona að þú lærðir á endanum að þrífa þig og héldir þig í umsjá heimabyggðar þegar þú fékkst höfuðhöggið.

Vagn (IP-tala skráð) 16.4.2019 kl. 22:16

2 identicon

Já, Sigmundur Davíð kann svo sannarlega að láta umræðuna kristallast um aðalatriði hennar.

Hann er alvöru leiðtogi og skilur og nemur púls þjóðarhjartans í þessu máli öllu og fylgir þeim púlsi af öllu hjarta. 

Þannig er alvöru leiðtogi, hann er þjónn þjóðarinnar og fylgir henni, á sama tíma og hann leiðsegir henni og markar leiðina.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 16.4.2019 kl. 22:34

3 identicon

Og frábær er pistill þinn Ómar.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 16.4.2019 kl. 22:36

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Vagn minn sem veldur mér sífelldum heilabrotum.

Er tæknin komið á það stig að algóritmar geti tekið á sig kvenlega ímynd??

Ertu meðvitaður um að þú ert forritaður til að láta svona??

Ef svo er, er þetta ekki nútíma þrælahald, að láta reiknirit vinna kauplaust??

Eða hvað finnst þér??

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 16.4.2019 kl. 22:56

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir það Símon.

Gott að gleðja í góðmenninu.

Ég held að æ fleiri séu að kveikja á að fá önnur rök, nema þá að markaðsvæða og selja síðan orkuna hæstbjóðanda, styðji þessa ákvörðun stjórnmálastéttar okkar.

En afleiðingarnar vísar og skelfilegar, enda kepptust ekki menn um annan að lofa allskonar fyrirvörum, eða sverja af sér viljann til að einkvæða og sæstrengja í kjölfarið, nema að þeir gera sér mæta vel grein fyrir að öll aðvörunarorðin séu réttmæt.

Þú setur ekki fyrirvara á neytendavernd, er það ??

Núna treystum við á Sigmund, að hann fái öll spjót á sig og haldi þannig bæði umræðunni lifandi, og skerpi hana um leið.

Þá sökkva menn aðeins fyrr í díki rökleysunnar.

Björn Leví er búinn að afhjúpa sig og Pírata sem algjör fífl í þessari umræðu, Þorsteinn er fastur i neytendavernd og að bera uppá aðra lýðskrum, og Þórdís Kolbrún má ekki opna munninn án þess að koma upp um hugrenningar sínar, það er um markaðsvæðingu og sölu til hæstbjóðenda um sæstreng.  Af það sem áður var þegar Sjálfstæðisflokkurinn vildi nota orkuna til að skapa störf með stóriðju.  Skyldi Jón Gunnarson vera búinn að frétta af þessu??

En eftir stendur þögnin hjá Bjarna og Katrínu.

Þau eru of klók til að bulla, og þegar ekkert er að segja nema að ljúga um eðli tilskipunarinnar eða fabúlera um að meintir fyrirvarar haldi, eða játa á sig samsekt, hvað er þá hægt að segja??

Annað en að þegja.

Ef Sigmundi tekst að rjúfa þögn þeirra, þá er kviksyndið eitt eftir. 

Hvert orð festir þau aðeins meir í eðju rökleysunnar og skammarinnar, þeirrar skammar að hafa ekki manndóm í að standa vörð um þjóðarhag.

Þannig að ég reikna bara með að þau haldi áfram að þegja.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 16.4.2019 kl. 23:14

6 identicon

Á Harmageddon sagðist Þórdís Kolbrún Reykdal Gylfadóttir, iðnaðarráðherra vera hlynnt sæstreng og þriðja orkupakkanum

og hún var ekki að leyna draumum sínum varðandi pakkann og sæstremginn, þar sem hún dásami eftirfarandi

 

1) Viðskipti með orku yfir landamæri. 
2) Ryðja veg fyrir orkusamtengingum á milli landa.
3) Þjóðríkin verði að setja orkuna, (ekki langtimasam.), á uppboðsmarkað í orkukauphöll.

 

Þórdísi Kolbrúnu Reykdal Gylfadóttur er því greinilega alveg ljóst að við missum yfirráð okkar yfir

orkuauðlindum okkar með samþykki þriðja orkupakkans.

 

Hins vegar er ljóst að allur þorri almennra flokksmanna er algjörlega andvígur forystu flokksins varðandi þriðja orkupakkann

og það skiljanlega, því heiðarlegir sjálfstæðismenn munu aldrei samþykkja yfirráð erlnds valds yfir orkuauðlindir þjóðarinnar.

Annað hvort verður forystan að víkja, þ.m.t. Þórdís Kolbrún, eða flokkurinn hverfur burt og forsystan ein stendur alein og berrössuð,

fylgislaus, en einhverjum silfurpeningum ríkari. 

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 16.4.2019 kl. 23:43

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Símon.

Strákarnir í fríi og því engin morgunverk við að koma þeim vel nærðum í skólann, því var ákveðið að setjast niður og hlusta á hana Þórdísi Kolbrúnu sem Bjarni gleymdi að segja að hún ætti að þegja.

En skaðinn er skeður, og núna er það okkar  að koma honum í umræðuna.

Það má þó heiðra hana fyrir að segja sannleikann.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 17.4.2019 kl. 07:12

8 identicon

Mér finnst aðallega fróðlegt að verða vitni að því að Bjarni, sem formaður flokksins, er svo mikil gunga að hann skýlir sér þegjandi á bakvið Þórdísi Kolbrúnu Reykdal Gylfadóttur, varaformann flokksins.  Sjálfur þorir hann ekkert að segja.  Skyldi það vera af því að hann veit um hina miklu andstöðu algjörs meirihluta sjálfstæðismanna gegn þriðja orkupakkanum og fyrrgreindum afleiðingum hans (þ.e.a.s. pakkans) sem ÞKReykdal mærði.

Já, það er tími til kominn að svæla Bjarna út úr greninu sem hann felur sig í, á bakvið ÞKReykdal.  Af hverju spyr enginn á fréttastofu RÚV hann um afstöðu hans?  Felur sú fréttastofa sig í greninu með honum?  Eins og minkar í greni?  

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 17.4.2019 kl. 08:39

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Símon.

Ég held að gunguskapur komi málinu lítt við, heldur pólitísk skynsemi, sem og algjör kaldranaháttur að fórna barninu þegar öldur verða lægðar.

Bjarni veit alveg að málatilbúnaðurinn er enginn ef menn afneita hvað felst í tilskipun ESB, eða segja að það sé vissulega rétt, en þess vegna innleiðum við hana með þeim fyrirvörum að hún gildi ekki um okkur.

Og hann veit að það er ekki tímabært að tjá sig um að hann og flokksforystan er sammála markmiðum tilskipunarinnar um að markaðsvæða orkuna og koma henni á samkeppnismarkað.  Það er að hann sjái ekki tilganginn í fyrirvörunum, það flæki aðeins málið fyrir honum þegar hann þarf að aflétta þeim til að ná fram markmiðum sínum og flokksins.

Þess vegna lætur hann Viðreisn um allt það tal, og Guðlaug um kviksyndi fyrirvaranna, og grætur það örugglega lítt.

Hins vegar er önnur saga af hverju hann kemst upp með að þegja.

Og þar standa spjótin á Moggann, af hverju er formaðurinn ekki tekinn í forsíðuviðtal?'

Sjaldan hefur tilefnið verið ærnara, grasrótin logar og menn eins og Brynjar skvetta olíu á þann eld með því að segja að hún sé vitlaus, og viti ekki hvað er flokk og þjóð fyrir bestu.

Styrmir kallar á svona samtal, og þá gagnkvæmt, áður en eldarnir verða ekki slökktir.

Bjarni veit þetta, en þetta er spurning um tímasetningu.

En það hefst ekkert uppúr því að kalla Bjarna gungu, það aðeins gjaldfellur umræðuna.

Bjarni er sá sterki í dag, og það þarf önnur meðöl til að svæla hann út.

Til dæmis að vitna í barnið.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 17.4.2019 kl. 08:55

10 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Sæll Ómar- ég rakst á frétt hjá einum bloggara hjá MBL um kröfu ESB um sölu á ríkiseignum til einkaaðila. þetta er er gott innlegg inn í þessa umræðu til að staðfesta ótta okkar hvað sé á leiðinni ef við samþykkjum Orkupakka 3

hér er linkurinn: https://energy.economictimes.indiatimes.com/news/power/frances-edf-warned-of-strike-at-its-hydropower-plants-rte/68788047

Eggert Guðmundsson, 17.4.2019 kl. 09:56

11 identicon

Já, af hverju biður Morgunblaðið ekki um viðtal við Bjarna?  Og tilkynnir að það núna strax að lesendur þess megi eiga von á veglegu páskaviðtali við formann Sjálfstæðisflokksins?

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 17.4.2019 kl. 10:14

12 identicon

Eiginlega þætti mér það við hæfi að fyrrverandi formaður flokksins, nú ritstjóri Moggans, tæki viðtal við núverandi formann flokksins um mál málanna, þriðja orkupakkann. 

Og ef núverandi formaður flæmdist undan því að mæta í það viðtal væri það svo sannarlega mikil frétt.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 17.4.2019 kl. 10:21

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Eggert.

Hjó eftir þessu hjá Júlíusi i morgun og fann greinina og seifaði.  Mjög athyglisverðar upplýsingar og bíð spenntur eftir næstu lygum stjórnmálamanna um að Landsreglarinn knýji ekki á einkavæðingu.

Það allra fyndnasta er að hingað koma reglulega vandlætingar og bergmála Björn Bjarna og Víglund Þorsteins um órökstuddar fullyrðingar og lýðskrum.

Hvað rekur menn í slíkan gæsagang forheimskunnar??

Mér er bara spurn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 17.4.2019 kl. 13:41

14 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Ég fékk í samtali við  Ketil Sigurjónsson upplýsingar um að norska ríkisorkufyrirtækið Statkraft er meðal fyrirtækja sem hefur lýst áhuga á að kaupa umrædd vatnsréttindi sem franska EDF hefur nýtt. Með því að samþykkja Orkupakkann þá opnast leið fyrir erlend fyrirtæki að kaupa upp hluta af einokunarfyrirtæki eins og td. Landsvirkjun og þá eru þau vatnsréttindi sem þeim hluta fylgja í uppnámi og Ríkið líklega neyðist til að gerður nýtingarréttarsamningur til x ára við nýja virkjunaraðliða.

Ríkið reynir að mótmæla og ágreiningi skotið til EFTA dómstólsins og það vita allir að dæmt verður skv. evrópulögum. Íslenskir fyrirvarar dæmdir ónýtir.

Ríkið tapar málinu og þessir nýju aðilar knýja á að fá að hámarka verð sitt (eða til samræmis við verði í Evrópu) og gera kröfu um lagningu sæstrengs, sem verður aftur skotið til EFTA dómstólsins og þar tapar Ríkið aftur og sæstrengur verður lagður. 

ERGO - Raforkuverð hækkar til íslenskra neytanda-

Neytandavernd til íslenskra neytenda verður af hæstu gæðum ef við höfnum þessum Orkupakka 3.

Eggert Guðmundsson, 18.4.2019 kl. 09:56

15 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir þetta Eggert.

Vel orðað; "Neytandavernd til íslenskra neytenda verður af hæstu gæðum ef við höfnum þessum Orkupakka 3.".

Eigum við ekki bara að taka Þorstein Víglunds á orðinu??

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 18.4.2019 kl. 18:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.1.): 15
  • Sl. sólarhring: 27
  • Sl. viku: 2034
  • Frá upphafi: 1412733

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 1787
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband