Af þumalskrúfum og keyptum skoðunum.

 

"Hún snýst nú samt" er ein frægasta setning sögunnar. 

Höfð eftir einum frægasta vísindamanni allra tíma, Galíleó Galíleí þegar rannsóknarrétturinn neyddi hann til að afneita sólmiðjukenningunni sem var andstæð kenningum kirkjunnar um að jörðin væri miðja alheimsins og sólin og aðrar plánetur snérust í kringum hana.

Galíleó þurfti ekki að segja þetta til að ítreka að játning hans væri fölsk, knúin fram með þumalskrúfum þess tíma, hann gat alveg þagað, eða fullyrt hundrað þúsund sinnum að jörðin væri flöt, og miðja alheimsins.

Því það voru útreikningar hans sem sönnuðu að sólin væri miðja sólkerfisins, ekki orð hans.  Og orð hans um annað breyttu þar engu um.

 

Þessu einföldu sannindi vilja oft gleymast í orðræðu dagsins. 

Að það séu rök og rannsóknir sem leggja grunn að staðreyndum, ekki orð og fullyrðingar, hvað þá að hægt sé að vitna í sannleika þumalskrúfanna eða orð sem borgað er fyrir.  Því þumalskrúfurnar eða þrýstingur fær menn til að segja það sem ætlast er til að þeir segi, og fyrir borgun segja menn það sem þeim er borgað fyrir.

 

Það er oft erfitt að eiga við keypta menn, þeir ljúga sjaldnast, en teygja og toga rök og staðreyndir þar til þær ríma á einhvern hátt við hina fyrirfram ákveðna niðurstöðu sem þeim er borgað fyrir. 

Nýlegt dæmi er lögfræðiálit innvígðra sem Guðlaugur Þór vitnar í til að staðfesta að stjórnarskráarbrot hans séu ekki stjórnarskráarbrot, það þarf vissa þekkingu til að sjá rökvilluna, eða finna út hvað staðreyndum er sleppt í rökleiðslunni. 

Þess vegna er ágætis þumalputtaregla að hundsa slíkt með öllu, það er vitað að það er logið þegar þess þarf, og það er vitað fyrirfram um niðurstöðuna. 

En með því að hundsa, er sá sem þarf að blekkja, neyddur til að leita til hlutlausra sem njóta þess vafa að fyrirfram efast enginn um niðurstöðu þeirra.

 

Þess vegna leitaði utanríkisráðuneytið líka til okkar helsta sérfræðings á sviði alþjóðréttar, Stefáns Más Stefánssonar prófessors og ásamt Friðriki Árna Friðrikssyni vann hann álitsgerð um hvort samþykkt orkupakka 3 stæðist fullveldisákvæði stjórnarskráarinnar.

Niðurstaða þeirra félaga var eins afdráttarlaus eins og hægt er að ætlast til af lögfræðingum, því þeir passa sig á að hafa alltaf opna undankomuleið ef dómur fellur gegn áliti þeirra;

"Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða höfunda álitsgerðarinnar að verulegur vafi leiki á því hvort framsal ákvörðunarvalds til ESA samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 713/2009, eins og ráðgert er að taka hana upp í EES-samninginn samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017, rúmist innan ákvæða stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. ".

Fyrir þessari niðurstöðu færðu þeir rök sem óþarfi er að rekja hér.

Og hvernig sem Guðlaugur reyndi, hvernig sem ríkisstjórnin reyndi, þá tókst henni ekki að ljúga sig framhjá þessari niðurstöðu Stefáns og Friðriks.

 

Hvað gera bændur þá??

Það er ekki vitað, og verður ekki vitað, hvaða meðölum var beitt, það er hvers eðlis þumalskrúfan var, en niðurstaðan er alveg í anda þess sem Galíleó sagði þegar hann var neyddur til að draga til baka kenningar sínar um að sólin væri miðjan sem allt snérist um. 

Orðum breytt en ekki rökstuðningi, og því náttúrulega stendur fyrri niðurstaða óhögguð.

 

Utanríkisráðuneytið birti bréf frá þeim félögum þar sem niðurstöðum álitsgerðar þeirra var hafnað, og fullyrt að málsmeðferð ráðherra stæðist stjórnarskrá.  Svo ég vitni í hina meintu yfirbót þeirra;

"1. Enginn lögfræðilegur vafi er á því að sú leið sem við lögðum til og lögð er til grundvallar í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra er í samræmi við stjórnarskrá. Að okkar mati skiptir sú staðreynd mestu. ".

þá er ljóst að þarna eru orð, ekki röksemdir sem hnekkja fyrri ályktunum.

 

Þess vegna geta þeir sem ekki eru beittir nútíma þumalskrúfum haldið sig við rök og niðurstöður þeirra félaga sem fram koma í þegar birtri álitsgerð þeirra, og hún verður ekki fölsuð héðan af.

"Engin heimild er til þess að taka í lög ákvæði sem ekki fá staðist íslenska stjórnarskrá þó að svo standi á að ekki reyni á umrædd lagaákvæði í svipinn. Verður því að telja rökrétt og raunar óhjákvæmilegt að tekin sé afstaða til stjórnskipulegra álitaefna sem tengjast þriðja orkupakkanum nú þegar og það áður en Alþingi samþykkir þriðja orkupakkann.",

Afdráttarlaus niðurstaða, studd gildum rökum.

 

Þó þumalskrúfan er á, þá nýta þeir sér vit Guðlaugs og hæða hið meinta vægi hinnar sameiginlegu yfirlýsingu hans og embættismanns ESB og óþarfi að hjálpa Guðlaugi að sjá í gegnum þá hæðni. 

Eins er ekki við öðru að búast en að iðrandi syndari geri lítið úr fyrri yfirlýsingu, slíkt var þrautreynt hjá rannsóknarréttinum og Stalín var líka mikill aðdáandi slíkrar iðrunar.  Pyntingarmeistarar hans lögðu oft nótt sem nýtan dag við Moskvuréttarhöldin til að fá hinn sanna iðrunartón, iðulega var réttarhöldum frestað og þeir beðnir um að slípa til tóninn, áður en áfram var haldið.  Og ekki þarf að taka fram að íslenskir kommúnistar féllu á kné og lofuðu hinn mikla leiðtoga fyrir að hafa komið upp um slíka syndara og svikara.

 

Hvort Guðlaugur hafi náð slíkum árangri má efast, svona hljómar iðrun Friðriks og Stefáns þar sem þeir fjalla um hvað gerist ef farið er eftir tillögum þeirra;

"5. Þessi leið er hins vegar ekki gallalaus fremur en hin. Þeir ágallar lúta að hinu sérstaka eðli EES-samningsins og samstarfsins. Eins og bent hefur verið á hefur ekki reynt á þessa leið til hlítar í 25 ára sögu samningsins og því margir pólitískir óvissuþættir til staðar varðandi afleiðingarnar. Það kann að reynast torsótt að fá slíkar undanþágur samþykktar.".

Hugur þeirra er hins vegar óbugaður og þeir fífla Guðlaug þegar þeir umsnúast gagnvart afskiptum ESA, treysta því að læst fólk hafi lesið álit þeirra og viti hvílík fjarstæða þetta er, eða er einhver sem trúir að ESA framfylgi ekki tilskipunum ESB, eða það taki íslensk stjórnvöld einhverjum silkihönskum??

"3. Þrátt fyrir að við teljum að þessi leið sé ekki hafin yfir allan lögfræðilegan vafa að þessu leyti þá teljum við mjög ósennilegt að ESA muni gera athugasemdir við þessa leið. Ástæðurnar eru eftirfarandi: a. Viðkomandi reglugerð er tekin upp og innleidd. b. Ákvæði hennar sem varða raforkutengingar milli landa koma ekki til framkvæmda nema slíkri tengingu verði komið á. c. Slíkri tengingu verður ekki komið á nema með samþykki Alþingis, samkvæmt þeim lagalega fyrirvara sem gerður er við innleiðinguna. ".

Þeir efast ekki í greinargerðinni, þar segja þeir meðal annars þetta; 

". Þessar meginreglur ganga þó ekki svo langt að þær gefi markaðsaðilum rétt á að krefjast þess að raforkutengingum sé komið á eða þær stækkaðar. Ekki má þó gleyma að hafni Orkustofnun umsókn fyrirtækis þar að lútandi gæti fyrirtækið snúið sér til ESA með kæru sem gæti endað með samningsbrotamáli gegn Íslandi. Slík staða gæti reynst Íslandi erfið.".

Svona í ljósi þess að skýr umsaminn fyrirvari í stofnsamningi okkar um verndun búfjárstofna hélt ekki í nýlegum dómi ESA þar sem stjórnvöld er þvinguð að leyfa innflutningi á sýklum, eða að fyrri niðurstaða stofnunarinnar um að íslensk stjórnvöld hefðu innleitt innlánstryggingakerfi sitt samkvæmt ákvæðum tilskipunar ESB þar um, var gerð ómerk þegar bretar kröfðu þjóðina um bakábyrgð, þvert á innihald tilskipunarinnar, þá er ljóst hvað þeir félagar eiga við þegar þeir segja að slík staða gæti reynst Íslandi erfið.

 

Með öðrum orðum, sagan endurtekur sig.

Vald kúgar þekkinguna, en þekkingin smýgur samt úr höndum þess.

Því það er ekki hægt að kæfa þekkinguna, rökin lifa, staðreyndir lifa.

Orðunum er hægt að breyta, en ekki rökunum sem að baki búa.

 

Hins vegar ætti fólk að spyrja sig hvaða þumalskrúfum var beitt.

Og það þarf ekki endilega vera utanríkisráðherra sem átti þær.

Orkuauðlindir okkar eru undir, og erlent skítafjármagn ásælist þær.

 

Útí í Evrópu hafa innviðir verið einkavæddir í stórum stíl, allt í nafni hins frjálsa flæðis, og kaupendurnir að áskriftinni að almenningi hafa meðal annars verið kommúnistapeningar frá Kína, olíupeningar miðaldamanna við Persaflóa, að ekki sé minnst á peningaþvottavél mafíunnar, bæði þeirrar Austur Evrópsku sem og hinnar hefðbundnu við Miðjarðarhafið.

Og þetta skítuga fjármagn ber fé á stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka, og ef það dugar ekki til, þá er gripið til óvandaðra meðala.

Lygarnar og blekkingarnar í þessu máli öllu eru án fordæmis í íslenskri stjórnmálasögu. Og hreint út sagt, fyrir utan hugmyndasviðs innlendra mannvitsbrekkna.

Og við erum ekki lengur einangrað eyland, sama þó við viljum í lengstu lög trúa því.

 

Vinnubrögðin eru þekkt.

Þumalskrúfurnar eru þekktar.

Niðurstöður þeirra eru þekktar, skyndileg kúvending án skýringa.

 

Á það við í þessu tilviki??

Veit það ekki.

En það er ekkert eðlilegt við þetta.

 

Höfum það hugfast.

Kveðja að austan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Guðlaugur Þór er ekki skarpasti hnífurinn í skúffunni.  Það er slæmt.

Verra er þó að sú fullyrðing mín er hafin yfir allan vafa.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 11.4.2019 kl. 22:47

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Símon.

Ég lagði nú meira í þennan pistil en svo að þessi athugarsemd hæfi honum. 

Ef þessu bréfi er ekki svarað á fullnægjandi hátt, þá er illt í efni hjá andstæðingum orkupakkans. 

Þetta var allavega tilraun.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.4.2019 kl. 22:55

3 Smámynd: Ómar Geirsson

En margt er í heiminum sem á sér skýringar sem kannski eru ekki þessa heims, eða eins og sagt var hér áður, margt er skrýtið í kýrhausnum, sem ég reyndar skil ekki alveg, enda aldrei séð kýrhaus.

Og snarpur penni í efra, Magnús Sigurðsson nálgaðist hið óskiljanlega, það er það er óskiljanlegt af hverju trúnaðarfólk okkur selur orkuauðlind okkar kinnroðalaust, á frumlegan hátt, með samlíkingu sem tengist mjög mínum heimaslóðum.

Hér er linkur á pistil Magnúsar, það verður enginn verri á að lesa, hann er bráðskemmtilegur í þokkabót.

Er Orkupakkinn Geysis-Glæsir genginn aftur?

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.4.2019 kl. 23:01

4 identicon

Sæll Ómar

Þessi pistill þinn stenst öll þau rök sem þarf til að komast að þeirri niðurstöðu sem ég komst að.

En það er rétt, að aðrir en ég þurfa að sjá og skilja og viðurkenna það.  Og ég hef þá vissu að svo munu menn sjá sem það vilja, en aðrir ekki.  En svo er það annað, að vitaskuld snýst málið ekki um vit eða vitleysu Guðlaugs Þórs, heldur þingsins í heild.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 11.4.2019 kl. 23:11

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Þú segir það.

Þetta útspil Guðlaugs að láta þá Stefán og Friðrik bakka eða vitna eins og ég kaus að orða það, er það eitraðasta sem sést hefur í þessari baráttu fram að þessu.

Og ef menn kveikja ekki á skaðsemi þess, þá er botninn farinn úr baráttunni gegn orkupakkanum, því hann var geirnegldur út frá lögfræðiáliti þeirra félaga um meint stjórnarskráarbrot.

Og ef Guðlaugur er engin mannvitsbrekka, hvað erum við þá hin??

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.4.2019 kl. 06:53

6 Smámynd: Bjarni Gunnlaugur Bjarnason

Hvað Guðlaug varðar held ég að óhætt sé að segja að hann hafi í það minnsta hrekkjavit ;-) 

Varðandi meinta ásælni ESB og erlendra peningamanna þá skal svo sem engu afneitað í því en grunur minn er sá að miklu fremur sé hér við að eiga innlenda skítahauga hvar illgresið sprettur oft best þegar eitthvað hlýnar. 

En eins og skítahaugar geta nú verið góðir fyrir gróðurinn þegar þeim er dreift nokkuð jafnt yfir þá verða þeir heldur hvimleiðir og illa lyktandi í of samþjöppuðu magni. 

Bjarni Gunnlaugur Bjarnason, 12.4.2019 kl. 08:23

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Bjarni.

Mér er til efs, þó ég geri það sjálfur til hægðarauka, að þegar ákveðinni stærð er náð í auðsöfnun að hægt sé að tala um eitthvað innlent fjármagn, þetta fléttast saman um allan heim í eitthvað sálarlaust skrímsli sem engum lýtur, og telur sig alls staðar hafið yfir lög og rétt, sýgur burt, skilur sem minnst eftir.

En ég held að við höfum aldrei séð svona kúvendingu áður, það sem þeir eru í raun að segja Stefán og Friðrik með þessu bréfi, að þeir hafi ekki verið allsgáður þegar þeir sömdu álitsgerð sína, og það sé ekkert að marka hana.

Ef rétt er þá eru þetta endalok fræðimennsku Stefáns Más Stefánssonar, það mun enginn taka mark á honum í framtíðinni.  Og ég get ekki ímyndað mér þann ávinning sem vegur upp slíkan ærumissi.

Þess vegna fór ég að íhuga þumalskrúfurnar hinar nýju, og þá beinast spjótin útá við.  Því þær eru eldgömul aðferðafræði, og margt ritað um beitingu þeirra.

Þetta er allavega eitthvað sem hefur ekki tíðkast í sveitinni, þar hafa ættar og hagsmunatengsl alveg séð um að fólk geri það sem á það á að gera, og hegðun þess yfirleitt alltaf fyrirsjáanleg.

Veit það ekki, en segi það sem ég áður sagt; þetta er ekki einleikið.

Og það er langt síðan að svo var.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.4.2019 kl. 09:16

8 identicon

Um hvað snýst þetta allt?  Gjör rétt, þol ei órétt.

Lagaflækjur snúast alls ekki alltaf um gjöra rétt, heldur er farið undan í sniðgöngu.

Því snýst þetta ekki allt um það sem Ögmundur orðaði svo vel, með framsýno sinni í meðfylgjandi grein sem olli sprengju í helferðarstjórninni?:

"laugardagur, 7. ágúst 2010

VIRKISTURN Í NORÐRI?

MBL - Logo

Ef Ísland sameinast Evrópusambandinu fjölgar íbúum um 0,07 prósent. Yfirráðasvæði sambandsins stækkar um tæp 10 prósent og áhrifasvæði (eftirlits- og björgunarsvæði) um 20 prósent. Það er ekki að undra að herskáir Evrópusinnar líti hýru auga til Festung Island, Virkisins í norðri. Áhrifasvæðið færi úr ca 10 milljónum ferkílómetra í 12 milljónir ferkílómeta. Koma aðrir jafn færandi hendi? Halda menn að þessum 0,07 prósentum muni verða treyst fyrir stjórn og eftirliti á 20% Evrópu? Að sjálfsögðu ekki. En ekki mun standa á styrkveitingum - svona rétt á meðan verið er að tala okkur til. Hið sama gæti hent okkur og indíána Norður-Ameríku. Þeir töpuðu landinu en sátu uppi með glerperlur og eldvatn.

Er "Sitjandi naut" að semja fyrir Ísland?

Við sem erum andvíg inngöngu Íslands í Evrópusambandið erum iðulega sökuð um einangrunarstefnu og jafnvel þjóðrembu. Í mínum huga er ekkert fjær sanni.
Hvað einangrunarstefnuna áhrærir tel ég einmitt vafasamt að einangra Ísland innan múra Evrópusambandsins. Við eigum að staðsetja okkur sem sjálfstætt smáríki, sem nýtur verndar og virðingar heimsins alls.
Af þessari sýn okkar hafa ráðandi fjármálaöfl innan Evrópusambandsins áhyggjur og er titill greinar forseta framkvæmdastjórnar ESB, Hermans Van Rompuy, í Morgunblaðinu 7. maí síðastliðinn, lýsandi fyrir þá afstöðu ESB að stórveldishagsmunum sambandsins verði best borgið með innlimun Íslands. Með greininni er reynt að höfða til litla mannsins í litla landinu. Nú eigi hann möguleika að verða stór, fái að setjast við háborðið - alla vega stundum. Njóti skjóls og verndar. Friðarpípan er látin ganga!

Hver þarfnast hvers?

Titill umræddrar greinar er: "Hvers vegna Evrópa þarfnast þín nú?". Greinin minnir óþægilega á nýlenduhugsun fyrri tíðar. Stórveldisórarnir eru að þessu sinni ekki breskir, franskir, hollenskir, þýskir, spænskir eða portúgalskir. Nú er byggt á hinu evrópska stórríki. Við erum þegar "fimm hundruð milljónir", segir Van Rompuy stoltur, "og náum yfir Evrópu frá Finnlandi til Portúgals og Írlandi til Rúmeníu. Við deilum stærsta markaði heims og mikilvægri löggjöf, flest okkar hafa sameiginlega mynt, við deilum landamærum og pólitískum stofnunum; við deilum fortíð og framtíð. Þið leggið nú hart að ykkur að ganga í lið með okkur."
Það er nefnilega það. Ganga í lið með "okkur" og þá væntanlega gegn "hinum"? Svo er að skilja á forseta framkvæmdastjórnar ESB: "Leyfið mér að minna ykkur á hvað við erum að verja. Evrópubúar njóta forréttinda í heiminum. ...Við erum mesta viðskiptaveldi heims. Þetta er árangur sem vert er að vera stoltur af. Hann sýnir einstaka getu okkar til að þróast og tryggja um leið arfleifð okkar. Við höfum enn getuna til þess. Í breytilegum heimi eru hins vegar önnur svæði tilbúin að gera betur en við efnahagslega. Störf okkar og áhrif eru í húfi."
Sem sagt, standið með okkur gegn hinum: "Í dag bið ég ykkur aðeins um eitt," segir talsmaður ESB, "að staldra við og átta ykkur á því að við Evrópubúar erum í þessu saman." Það vantar bara kröfuna um lífsrými. Allt þekkt og þvælt, málflutningur þeirra sem ekki hafa lesið mannkynssöguna sér til gagns. Við sem gagnrýnum þennan þankagang, erum ásökuð um hroka og þjóðmont, eins og tuttugasta öldin hafi verið þurrkuð út, með öllum sínum mílitarisma og stórveldisdraumum. Við sem viljum gæta auðlinda Íslands, sem við höfum gert af misjafnlega mikilli trúmennsku, og oft í fátækt, erum sögð vaða í villu. Getur það verið? Var þetta allt misskilningur, þjóðremba? Eftir allt saman? Varla. Ekki talar reynslan því máli. Eða hvar værum við nú stödd ef rétturinn til fallvatnanna hefði verið seldur úr landi eins og einhverjir vildu á öndverðri öldinni sem leið?
Nú geta menn haft hvaða skoðun sem þeir vilja á Evrópusambandinu og hvort við eigum heima þar innandyra eða utan. En ég aftek hins vegar framvegis að við sem leyfum okkur að vísa til sameiginlegra hagsmuna Íslendinga þegar auðlindir og nýting þeirra er annars vegar eða veltum því fyrir okkur hvaða fyrirkomulag sé líklegast til að tryggja bein lýðræðisleg áhrif þjóðarinnar, séum sökuð um að vera haldin einhverri annarlegri rembu á sama tíma og svona boðskapur er básúnaður. Kannski það fari að renna upp fyrir einhverjum að raunveruleg ástæða er til að íhuga í alvöru hvernig við best verjum auðlindir okkar og lýðræðið gegn ásælni miðstýrðra stórveldahagsmuna.

Vonast til að við höldum auðlindunum

Einhvers staðar sást í blaði nýlega að ráðamenn væru vongóðir um að verja mætti auðlindir Íslands í samningum við ESB. En hvers vegna skyldum við yfirleitt vilja fórna auðlindum okkar og forræði yfir samfélagi okkar ef ávinningur er enginn sýnilegur annar en að fá að vera þátttakandi í nýju stórríki? Gamalkunnugt ráð, vel þekkt úr nýlendusögunni, er að draga upp mynd af glæstu stórveldi þar sem "við sem erum saman" stöndum keik gegn "öllum hinum". Þetta er að mínu mati röng uppsetning. Spyrja þarf hvort sé vænlegra fyrir okkur - sem erum þrjú hundruð þúsund talsins - að taka þátt í alþjóðasamstarfi sem neytendur á evrópskum stórmarkaði með takmörkuð lýðræðisleg áhrif, eða efla okkur sem fullvalda ríki sem á í samskiptum við önnur ríki með beinni aðkomu að samningum um öll okkar mikilvægustu mál - þar á meðal ráðstöfun sjávarauðlindarinnar, okkar dýrmætasta fjársjóðs? Hvers vegna ættum við að fórna þessari úrvalsstöðu? Ég hef skilning á því sjónarmiði að ósanngjarnt sé að eins lítið samfélag og okkar skuli njóta þeirra forréttinda sem við gerum. En mér er það hins vegar fullkomlega óskiljanlegt að það skulum vera við sjálf sem bjóðumst til að láta réttindin af hendi - ekki í anda réttlætis eða jafnaðarmennsku, heldur bara til að fá að vera með!
Hverju barni er það nú augljóst að Evrópusambandið sækir það fast að fá okkur inn enda augljósir hagsmunir í breyttri heimsmynd. Þá breyttu heimsmynd sjá Kínverjar líka greinilega fyrir sér og er það engin tilviljun hve fyrirferðarmiklir þeir eru að verða hér á landi. Það sem við þurfum á að halda er að horfa ískalt á það hvernig hagsmunum okkar verður best borgið í gerbreyttum heimi. Ég er þeirrar skoðunar að það gerum við best með því að halda þétt utan um auðlindirnar og hafa síðan heiminn allan undir sem markað og samstarfsvettvang í stað þess að múra okkur inni í enn einum evrópskum stórveldisdraumnum.

Hugsum stórt

Við erum hluti af evrópskri menningu og eigum að leggja rækt við það besta sem hún hefur upp á að bjóða, og bjóða Evrópu upp á það besta sem við eigum. Það gerum við ekki sem auðtrúa lítilmagni heldur fólk sem stendur upprétt og lætur ekki rugla sig í ríminu með fagurgala og rembutali. Þegar allt kemur til alls þá erum við ekki eins lítil og stóri maðurinn í Brussel reynir að telja okkur trú um. Aðferðafræði hans er þekkt: Tala alltaf ofan frá og niður. En svo er það hitt sem getur gerst. Þegar knékrjúpandi maður rís á fætur, hættir hann að vera lítill. Og þá verður líka allt skýrara: Hagsmunirnir skiljanlegir og glerperlurnar sýnilegar. Þá sætta menn sig ekki heldur við að verða aumur virkisturn í norðri. Þeir sjá að betri kostir bjóðast."

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 13.4.2019 kl. 02:50

9 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ómar þetta er snúið viðfangsefni að rýna í, enda flest lög sett til að sniðganga réttlætið, og eins og þú bendir á til að fela sannleikann.

Hún snýst nú samt sagði Galíleó, þrátt fyrir að það hafi verið ólöglegt í þann tíma, á meðan þumalskrúfurnar hafa verið löglegar á öllum tímum. Bara spurning með hverju eru hertar, um það snúast jú lögin.

Þú átt inni mörg prik fyrir að hafa haft geð til að kafa það djúpt að sjá til botns í lagaþvælu friðþægingarinnar, í gegnum útúrsnúninga og orðhengilshátt, og upplýsa hvað þar á botni leynist.

Hún er lýsandi greinin hans Ögmundar sem Símon Pétur setur hér inn. Þessi grein fór framhjá mér á sínum tíma.

"Hið sama gæti hent okkur og indíána Norður-Ameríku. Þeir töpuðu landinu en sátu uppi með glerperlur og eldvatn." Þetta telur Ögmundur geta gerst ef við verðum seld á vald stórríkisins.

Það þarf ekki að efast um neitt í því sambandi. Þessi þjóð fékk að smakka á gúmmelaði stórríkisins í nokkur hundruð ár, úldnu mjöli, striga og strútsfjöðrum í skiptum fyrir fæði og klæði (ull og fisk)til stórríkisins.

Til eru í annálum bænaskjöl biskupa þar sem þeir fóru þess náðarsamlegast á leit við stórríkið að þjóðinni væri heimilt að halda eftir fæði og klæði landsins því hún hefði ekki afganga til að skipta á fyrir rándýrar strútsfjaðrir vegna harðæris.

Þar að auki væri alþýðunni fyrirmunað að átta sig á verðmæti strútsfjaðranna, jafnvel í góðærum til lands og sjávar, en þumalskrúfur á við lagaflækju stóradóms voru látnar bjarga málum þegar í nauðirnar rak.

Í örmum stórríkisins tapaði þjóðin því sem næst öllu, sat á endanum uppi í hálfhrundum moldarkofum á meðan Íslands silfrið hafði verið brætt í skraut kúlur með ljónslöpp í höfuðborg skrifræðisins.  Meir að segja var reynt að hafa af henni þau plögg sem hún hafið sett á sögu sína.

Magnús Sigurðsson, 13.4.2019 kl. 06:58

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Símon.

Þetta snýst um að Stefán og Friðrik drógu til baka niðurstöðu sína sem þeir orðu svo vel í lagaáliti sínu; ""Engin heimild er til þess að taka í lög ákvæði sem ekki fá staðist íslenska stjórnarskrá þó að svo standi á að ekki reyni á umrædd lagaákvæði í svipinn. Verður því að telja rökrétt og raunar óhjákvæmilegt að tekin sé afstaða til stjórnskipulegra álitaefna sem tengjast þriðja orkupakkanum nú þegar og það áður en Alþingi samþykkir þriðja orkupakkann.",".

Hvernig sem Guðlaugur fór að því að framkalla þann viðsnúning, þá er ljóst að þetta er mikið högg.

Það er þannig Símon, að það er ekki nóg að gífuryrða, það dugar kannski í sínum hópi, en útá við, þar sem allflestir hafa ekki kynnt sér þetta mál, eða hafa ekki tekið afstöðu, þá slóg þetta bréf megin vopnið úr höndum okkar andstæðinga orkupakkans, sem var sá punktur að hvort sem þetta væri hagstætt eða ekki, hvort sem það gilti um Ísland eða ekki, að þá er þessi lagapakki andstæður stjórnarskránni.

Og ég er vægast sagt stórhissa að þeir sem leiða baráttuna, skuli ekki hafa strax kveikt, og gefið fótgönguliðum baráttunnar varnarvopn uppí hendurnar, strax.

Varnarvopnið er ekki að birta greinar um málstaðinn, eða uppnefna Guðlaug, varnarvopnið er að sýna fram á að rök félaganna standi, þrátt fyrir viðsnúning þeirra.

Það er það sem ég geri hér að ofan, og það er það sem menn eins og Magnús kveikja á, og hjálpa mér að fylla uppí umræðuna.

Því ekki veitir af.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 13.4.2019 kl. 12:55

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Magnús.

Það er mikil hætta á að sagan sé að ganga aftur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 13.4.2019 kl. 12:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 513
  • Sl. sólarhring: 711
  • Sl. viku: 6097
  • Frá upphafi: 1400036

Annað

  • Innlit í dag: 465
  • Innlit sl. viku: 5229
  • Gestir í dag: 446
  • IP-tölur í dag: 441

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband