Berrassaður Bjarni.

 

Með allt niðrum sig gjammar ennþá eins og lítill krakki með silfurskeið í munni sem allt sitt líf hefur treyst á pilsfald móður sinnar til að greiða úr hlutum.

Axlar ekki ábyrgð, áttar sig aldrei á alvarleik gjörða sinna.

 

Skítkast hans út í Mannréttindadómstólinn er að sama meiði og manna sem eru annað hvort á gjörgæsluvakt Evrópuráðsins eða er meinað innganga vegna þess að þeir skilja ekki leikreglur lýðræðisins, halda að lýðræði sé að segja; "ég ræð, ég er lýðræðið".

Vissulega geta margir dómar orkað tvímælis, en það er óumdeilt að kröfur Evrópuráðsins um að aðildarríki þess virði grunnmannréttindi þegna sinna, og virði lög og reglur lýðræðisþjóðfélaga, er einn af hornsteinum vestræns lýðræðis.

Enda var það eitt af því fyrsta sem nýfrjáls ríki Austur Evrópu gerðu eftir að þau losnuðu undan ægivaldi Sovétríkjanna var að sækja um aðild að Evrópuráðinu.  Þannig töldu þau sig best geta tryggt lýðræðislega þróun heima fyrir.

Þar sem lykilatriðið eru frjálsar kosningar og sjálfstæði dómsstóla.

 

Um þetta er ekki rifist nema núna á Íslandi.

Kosningasvindl er líklegast skýring þess að Dagur B Eggertsson er núverandi borgarstjóri, og framkvæmdavaldinu finnst það eðlilegt að það virði ekki lög um skipan dómara í næst æðsta dómsstig þjóðarinnar.

Kosningasvindlið hefur ekki ennþá verið kært þó augljóst sé að það á að kjósa uppá nýtt í Reykjavík, en ordur komu að utan að lýðræðisríki sem er aðili að Evrópuráðinu þurfi að virða sjálfstæði dómsstóla á þann hátt að dómarar séu skipaðir á löglegan hátt.

Og lögbrjótarnir sem ábyrgðina bera, rífast yfir því.

 

Svona hagar fullorðið fólk sér ekki.

Nema jú kannski Erdogan Tyrklandsforseti og Lúkasjenkó einræðisherra Hvíta Rússlands.

Aðrir sem fá svona ákúrur, sýna iðrun og lofa bót og betrun.

En forherðast ekki í glæpsamlegu atferli sínu.

 

Bjarni hefur vissulega komist upp með ýmislegt misgruggugt innanlands svo efni er í framhaldssögu af hinum vinsælu kvikmyndum um Guðföðurinn, en hann breytir ekki grunngildum Evrópuráðsins, sama hve stórt frekjukast hann fær.

Og að hóta úrsögn frá Mannréttindadóminum út af slíku grundvallarmáli að vera krafinn um að virða landslög um skipan dómara er slík firra að leitun er að annarri eins heimsku.

Þá endanlega yrði hann og íslenska þjóðin að algjöru athlægi um alla heimsbyggð.

 

Bjarni er síðan svo vitlaus að hann játar algjöra samsekt með lögbrjótnum Sigríði Andersen, að hann hafi staðið með hverju hennar skrefi sem hún hefur tekið í glímu sinni við að komast upp með lögbrot sín.

Síðasta skref Sigríðar var að segja af sér því henni er ekki lengur stætt að fara með yfirstjórn dómsmála í landinu, og miðað við játningu Bjarna er augljóst að hann á og mun stíga slíkt skref líka.

Því það er með lögbrjóta eins og Skytturnar, einn fyrir alla og allir fyrir einn.

 

Þetta er ótrúlegur málflutningur í alla staði hjá manni sem ekki bara er formaður stærsta stjórnmálaflokks þjóðarinnar heldur er líka fjármálaráðherra í núverandi ríkisstjórn.

Að hann skuli ekki skynja alvarleik málsins og að hann skuli ekki sýna iðrun og lofa yfirbót og í þokkabót játa sig algjörlega samsekan brotamanneskju sem þurfti að axla ábyrgð, bendir til þess að djúp kreppa ríkir í Sjálfstæðisflokknum og í ríkisstjórn landsins.

Að það vanti ekki bara vit og skilning á leikreglum lýðræðisins heldur líka yfir höfuð vit á hvernig forystufólk hagar sér.

Eitthvað sem Styrmir Gunnarsson hefur verið að benda mjög kurteislega á í mörgum pistlum sínum undanfarið.

 

Það er ekkert eðlilegt við þessi viðbrögð.

Það er ekkert eðlilegt að ganga út frá að hinn almenni sjálfstæðismaður sé hreinræktað fífl sem hægt er að segja hvað sem er, að því gefnu að það sé nógu heimskulegt.

Það er ekkert eðlilegt að rífa stólpa kjaft vegna dóms sem tekur á grundvallarmáli eins og sjálfstæði dómsstóla og að landslög þar um séu virt.

Það er eins og hver pytturinn á fætur öðrum sé leitaður uppi til að detta ofaní.

 

Það skýrir margt um hvernig ástandið er í dag.

Kveðja að austan.


mbl.is Bjarni telur tvo kosti í stöðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ómar, þetta kunna að virðast sérstakir tímar, sjálft réttaríkið í uppnámi.

Í mínum huga hefur þetta lengi verið réttarríki þeirra "réttu" og lögin sett og túlkuð samkvæmt því. Eignaupptaka og eftir mál "hins svokallaða hruns" kristalla "réttaríkið" hvað best.

Á bloggi Þorsteins H Gunarssonar má finna eftirfarandi texta;

"Dómarar við nýjan Landsrétt hafa margir tengsl við íslenskt viðskiptalíf og stjórnmál. Lögregla gerði húsleit heima hjá einum þeirra eftir hrun. Sá sami er kvæntur stjórnarmanni í þremur stórfyrirtækjum. Einn dómari situr í stjórn fjármálafyrirtækis og stórrar heildsölu, á hlut í Klíníkinni í Ármúla og er kvæntur stjórnarformanni Klíníkurinnar, annar er giftur eiganda fjármálafyrirtækis og einn er giftur eiganda stórs verktakafyrir

Ein þeirra sem skipuð var landsréttardómari er frænka Bjarna Benediktssonar, önnur náskyld Davíð Oddssyni, þriðji er frændi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur ritara Sjálfstæðisflokksins, fjórða er gift Brynjari Níelssyni þingmanni flokksins, fimmti kvæntur Ásdísi Höllu Bragadóttur fyrrverandi framkvæmdastjóra þingflokks Sjálfstæðisflokksins, og sjötti er fyrrverandi varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og svili Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Sá síðastnefndi er sá eini sem hefur verið kjörinn pólitískur fulltrúi.

Heimild: Morgunblaðið undir nafninu Ragnheiður Bragadóttir."

Það hefur engin fyrir því að hafa vit fyrir Þorsteini með athugasemdum.

Ég hallast helst á að það sé heilladrýgst að taka Megas á þetta mál og reyndar á allt "réttarríkið".

https://www.youtube.com/watch?v=JdPLJTyLHFo

Magnús Sigurðsson, 13.3.2019 kl. 21:39

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Megas góður Magnús, hafði ekki heyrt þetta lag hans áður.

Vissulega er allt þetta mál angi af miklu stærra samhengi, og stærri baráttu og um eðli hennar má lesa svo snilldarvel í kvæði Steins Steinars, sem byrjar á línunni Ég heilsa þér öreigaæska.

Vil samt segja til varnar því sem við þó höfum, að ég átti aldrei von á dómi Hæstaréttar um gengislánin, eða þegar Árnaólög voru felld í kjölfarið.  Og síðan vil ég bæta við að þrátt fyrir allt fer ástandið batnandi, eða réttara sagt gerði það til skamms tíma áður en hugmyndafræði andskotans yfirtók hinn vestræna menningarheim.

En þetta sem þú vísar í á bloggi Þorsteins gekk manna á milli á sínum tíma, og er eftir því sem ég best veit, alveg rétt.

Svona vinnur valdið, það plantar sínum mönnum inní kerfið, og smátt og smátt vinnur það sig upp virðingarstigann.

Það var alveg vitað að Sjálfstæðisflokkurinn og hagsmunaöfl fjármagnsins áttu flesta þá sem komust á topp 15 lista hæfnisnefndar, en ekki alla.

Og við það gat ekki Sjálfstæðisflokkurinn unað, og því var þessi leikflétta sett í gang.

Græðgin var svo mikil að hún vildi eiga allflesta, ekki bara flesta.

Sigríður var bara fronturinn í þessari fléttu, og í dag viðurkenndi Bjarni það.

Enda gat ég svo sem alveg skýrt pistil minn; Bjarni bjáni, svo mikið idjót hefur hann verið eftir að hann opnaði loksins munninn.

Ekki nema von að Styrmi blöskri, og rýfur þögnina um vanhæfni forystunnar.

En ég er kurteis og nota ekki svona orð, vísa frekar í þekkt minni frá honum H.C., nema núna er nektin því sem næst algjör.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 13.3.2019 kl. 22:51

3 Smámynd: Daníel Sigurðsson

Aðeins að láta þig vita af smá frétt Ómar minn, ef þú skyldir ekki hafa dottið um hana, að móðir Sigrírður Á. Andersen dómsmálaráðherra andaðist í fyrradag.  Þú ættir kannski að hafa það í huga áður en þú stingur næst niður óvægnum penna þínum út af máli þessu og það jafnvel alveg fram yfir útförina þó ég geri nú ekki ráð fyrir að þú munir mæta við athöfnina.

Ég vona svo bara að eftir að æðra dómsstig MDE hefur fellt sinn úrskurð, í samræmi við minnihluta úrskurð hins nýfallna dóms, að  hin ágæta dóttir hinnar látnu snúi aftur til fyrri starfa, sem dómsmálaráðherra, sem hún hefur lagt sig í líma við að rækja af mikilli samviskusemi og elju. En eins og við vitum þá er oft erfitt að gera hluti svo vel að öllum líki.

Daníel Sigurðsson, 13.3.2019 kl. 23:39

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Snilldarinnlegg frá Daníel, miklum samherja okkar Ómars Geirssonar í Icesave-málinu, og hafði Ómar verið hér á miklu flugi og virzt hafa rökin með sér, að ýmsum gæti sýnzt, en ekki mér í þetta sinn, og þykir mér jafnan fyrir því að þurfa að vera honum ósammála um nokkuð. En ekki er ég viðkvæmur fyrir Bjarna karlinum, og vel má hann vita, að hann verður lýstur útlægur af okkur öllum þremur, ef hann samþykkir bannsettan Þriðja orkupakkann, þá baneitruðu risapillu ESB.

En var það ekki sjálft Alþingi sem samþykkti þetta Landsdómsmál allt saman og fekk uppáskrift forsetans til þess?! Hæstiréttur staðfesti líka löglega skipan dómara!

Það er eitthvað í meira lagi bogið við öfug- eða öfgaþróun þessa Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg, skv. uppl. Jóns Steinars Gunnlaugssonar í Kastljósi á þriðjudagskvöld, sbr. og sératkvæðin við dómsuppkvaðninguna. Dómstólar eiga ekki að vera svo skapandi að þeir eigi heima í Samtökum hönnuða eða Rithöfundasambandinu.

Jón Valur Jensson, 14.3.2019 kl. 02:15

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Daníel.

Ég held að ég hafi aldrei fengið inn eins lágkúrulega færslu rökþrota manns og þessa hér hjá þér að ofan.

Og skammastu þín Jón Valur að taka undir svona lágkúru.

En efnislega Jón Valur þá er nálgun þín röng.

Evrópuráðið er öryggisventil lýðræðis í Evrópu, og hefur verið stolt vestrænna lýðræðissamfélaga í tæp 70 ár.

Þegar til dæmis valdaklíka hefur náð því ægivaldi að ekkert innlent afl þorir gegn henni, líkt og Hæstiréttur gerir í Landsdómsmálinu, þá hefur þjóð málskotsrétt til ráðsins og stofnana þess.

Ráðið hefur alltaf sagt, virðið lög og reglur lýðræðisins.

Á því prófi féll valdaklíka Sjálfstæðisflokksins, og þess vegna fékk hún á sig dóm.

Og þú sem andkommúnisti Jón Valur átt að vita að þessar grunnkröfur um lýðræði og lýðræðislega stjórnarhætti, var grundvallarmunur á samtökum frjálsra þjóða Evrópu og þeirra sem voru í helsi Sovétsins. 

Og meira að segja kommúnistum datt ekki í huga að rífa svona kjaft gegn lýðræðinu eins og Snatar Sjálfstæðisflokksins gera þessa stundina, og þú því miður féllst í þann fúla pytt að taka undir.

Mundu að hugsjónir ráku menn áfram á sínum tíma, orð Churchils um járntjaldið byggðust á grundvallarreglum vestræns lýðræðis. 

Þó aurinn sé að reyna að telja þér í trú um annað, þá eru þessar hugsjónir ennþá í fullu gildi.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 14.3.2019 kl. 07:47

6 Smámynd: Ragna Birgisdóttir

Sæll Ómar. Þetta er flottur pistill.Ég staldra þó við eitt .Hin venjulegi Sjálfstæðismaður er nefnilega hreinræktað fífl. Kveðja.

Ragna Birgisdóttir, 14.3.2019 kl. 11:05

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Ragna.

Fyrst þú komst svona langt, þá máttu ekki taka orð mín svona úr samhengi.

"Það er ekkert eðlilegt að ganga út frá að hinn almenni sjálfstæðismaður sé hreinræktað fífl sem hægt er að segja hvað sem er, að því gefnu að það sé nógu heimskulegt.".

Og á undan segi ég að það sé ekkert eðlilegt við svona viðbrögð.

Það er augljóst að ég er að benda á að málflutningur Bjarna gengur út frá þeirri forsendu að flokksmenn hans séu fífl, og þess vegna eigi að bulla nógu mikið, svo mikið að brjóstvörn Evrópu gegn alræði og kúgun kommúnismans er gerð tortryggileg að hætti einræðisherra álfunnar.

Og mér finnst það ekki eðlilegt.

Hins vegar, svo ég láti Bjarna njóta sannmælis, að þá hef ég beint orðið var við að forsenda hans er rétt.  Og þá er ég að vitna í athugasemdarkerfi mitt, en ekki pistla mætra sambloggara minna hér á Moggablogginu, manna sem ég met mikils og ber mikla virðingu fyrir, þó við kannski ekki deilum sömu pólitískri sýn.

En þetta er jafn heimskulegt hjá Bjarna fyrir það, því idjótinn í þessu máli er alltaf mjög lítill minnihluti.

Með öðrum orðum, þessi málflutningur stórskaðar flokkinn.

Og eins og ég hef margoft sagt í athugasemdarkerfi mínu, þá er það miður, því það er margt spunnið í Bjarna en ég sé fáa spunaþræði í tómhyggjuliði stjórnarandstöðunnar.

Eigum við bara ekki að segja að sá er vinur sem hefur kjark til að benda á vammið.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 14.3.2019 kl. 11:49

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hver er "aurinn" sem er "að reyna að telja [m]ér trú um annað," Ómar minn? Hvað áttu við?

Jón Valur Jensson, 14.3.2019 kl. 12:45

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Sem íslensku maður áttu að þekkja myndlíkingar Jón Valur, aurinn er tákn fyrir auð eða fjármagn.

Og í þessu tilviki fjármagna Örfárra sem eru um margt meiri ógn við lýðræði og vestræn gildi en kommúnisminn var á sínum tíma.

Taktu þig nú taki Jón Valur, og gúglaðu andkommúnískar greinar þínar frá því um og uppúr 1980, þá munt lesa um vestræn gildi, og eftir þann lestur þá veistu fyrir hvað Evrópuráðið stendur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 14.3.2019 kl. 13:51

10 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ertu í alvöru að bera mér á brýn að þiggja fégjafir til að skrifa með þeim hætti sem ég geri, Ómar? Það geri ég í engum þessum málum þjóðarinnar og allt mitt starf gegn Icesave-áþjáninni og ESB-ágengninni hefur allt tíð verið einskært sjálfboðaliðastarf og ólaunað með öllu.

Ég veit ekki, í hvaða gír þú ert kominn, maður, en vonandi er ég að misskilja þig. Segðu meiningu þína!

Jón Valur Jensson, 14.3.2019 kl. 14:17

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Æ, láttu ekki svona vitleysu út úr þér Jón Valur.

Þó þú hafir tekið 30 tíma vakt í prófarkalestri þá skerðir það ekki dómgreind þína svona mjög.

Ég er í öllu andsvari mínu, fyrir utan að fyrirgefa þér ósmekklegheitin í upphafi, að benda þér á rætur þínar og rætur Evrópuráðsins hafa átt samleið frá því að elstu menn muna.

Á vakt með lýðræðinu gegn alræðisöflum.

Þegar ég bið þig ekki um að láta aurinn ekki villa þér sýn, þá er ég að benda á þá hjárænu umræðunnar, að núna er þessi brjóstvörn lýðræðis ásökuð um óeðlilegar hvatir.

Slíkt gagnast aðeins fjármagninu, það ýtir undir svona öfugmæli.

Og hvað skyldi vera í húfi Jón Valur??

Hverjir græða á ósjálfstæðum dómurum sem dæmda eftir hagsmunum en ekki rétti??

Þú ættir manna mest að vita það, enda staðið varðstöðu um sjálfstæði þjóðar núna hátt í 50 ár.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 14.3.2019 kl. 14:24

12 identicon

Sæll æfinlega - Ómar Austfirðingur, sem og aðrir gestir, þínir !

Ómar !

Þér: og YKKUR ÖLLUM að segja, lít ég á Bjarna Benediktsson, sem PERSÓNULEGAN óvin minn, sem allra annarra, sem kjósum að GJÖRBYLTA þjóðfélagsskipaninni, til raunverulegs siðgæðis, sem siðvæðingar.

Bjarni Benediktsson - er einn þeirra lítilmenna, sem halda hlífiskildi yfir Banka- og Lífeyrissjóða klúbbum SJÁLFTÖKULIÐSINS í landinu:: liðs, sem ég ætla að leggja til harðrar atlögu við, á komandi vikum - lélegast þykir, mér, að sumir systkinasona minna, skuli liggja HUNDFLATIR fyrir fótum Bjarna og Mafíu hans, suður í Valhöll (við Háaleitisbraut: syðra), þrátt fyrir fortölur mínar og brýningar all- nokkurra annarra í mínum frændgarði, til betrunar frá sínum vondu villum:: hugmyndafræðilega.

Jón Valur !

Kúnstugt er: (þó ALLS EKKI sé, í raunveruleikanum), að lesa eftirfarndi skrif þín, á síðu Íslenzku þjóðfylkingarinnar í gær (13. Marz), til stuðnings ÓBREYTTU samfélags kerfi siðspillingar og ört vaxandi hrörnunar, þó sjálfsagt sé, að styðja brottflutning svo kallaðra hælisleitenda og flóttamanna, frá Mið- Austurlöndum og nágrenni, liðs:: sem situr hér í boði Bjarna / Katrínar og Sigurðar Inga, með velþóknun Samfylkingar og Viðreisnar, auk Klám- og siðleysis flokks Sigmundar Davíðs og fyllirafta safnaðar hans (Miðflokksins: svo kallaða), m. a.

 Miðvikudagur, 13.3.2019

Þjóðfylkingin boðar til útifundar á Austurvelli nk. laugardag vegna ofbeldis mótmælahóps þar í gær

Í skoðana­könnun Út­varps Sögu var spurt til há­deg­is í dag: "Styð­ur þú kröf­ur þeirra hæl­is­leit­enda sem mót­mælt hafa að undan­förnu?" -- NEI sögðu 94%, JÁ sögðu tæplega 5% og hlutlausir 1,7%. ALLUR STRAUM­UR­INN ER MEÐ GAGN­RÝN­END­UM MÓT­MÆLA­HÓPSINS Á AUSTURVELLI Í GÆR!

 

Íslenska þjóðfylkingin hefur nú boðað til þögullar mótmælastöðu á Austurvelli nk. laugardag kl. 13-14 með þessari auglýsingu á Facebók flokksins:

 

Mótmælum ofbeldi hælisleitenda gegn íslensku samfélagi og lögreglunni okkar á Austurvelli laugardaginn 16. mars kl. 13 til 14. Við ætlum að mæta með íslenska fánann í friðsömum og þögulum mótmælum.

 

Í viðtengdri frétt (sjá tengil hér neðar) má lesa, frá aðstand­end­um mótmælanna í gær, að þeir tala um þær aðgerðir þannig: "The occupation of the square has officially started! It is just the beginning!"

 

Ætlar almenningur þessa lands að sætta sig við það, að fá­mennur hópur löglausra hælis­leitenda, með ofur­róttækum stuðn­ings­mönnum þeirra ("No Borders"-liði, stjórn­leys­ingjum o.fl.), yfirtaki eða "hertaki" sjálfan Austur­völl?! Því verður seint trúað.

 

Allir þjóðræknir menn, sem heimangengt eigið á þennan útifund á laugardaginn, takið þátt í þeirri þöglu, en virðingar­fullu aðgerð, sem boðuð er til stuðn­ings lögum og reglu, okkar lögmæta ríkis­valdi og lögreglu landsins, sem aðeins gerði skyldu sína og meiddi ekki einn ein­asta mann, þegar hún veitti ólög­mæt­um aðgerðum mótspyrnu á Austur­velli í gær.

 

Jón Valur Jensson.

Finnst þér svo ekki: Jón Valur, Ómar síðuhafi tala nógu skýrt til þín, í athugasemd (nr.11, t.d.) ?

Vilji Íslenzka þjóðfylkingin - á II. borð láta taka sig alvarlega í framtíðinni, dugir ekkert mjálm, til nærri ÓBREYTRAR þjóðfélags skipanar, undir handarjaðri Engeyinganna, sem og SA / Viðskiptaráðs og annarra þénara Bjarna Benediktssonar, og hans illræmdu fjölskyldu !!!

Með kveðjum: misjöfnum til sumra / hinum beztu, til Ómars síðuhafa og allra þeirra, sem stinga vilja við stafni uppivöðzlulýðs svikasemi og siðleysis, í landinu //

            

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 14.3.2019 kl. 23:22

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Óskar Helgi.

Það verður seint af þér skafið að þú ert af ætt mikilla stríðsmanna og tungumál þeirra er þér tamt.

Ég í sjálfu sér get ekki kommenterað á hvað menn í íslensku Þjóðfylkingunni hugsa eða gera en ég held að staðfesta Sigríðar afli henni stuðnings þó fólk íhugi ekki alltaf fyrir hvað hún stendur.

Allavega held ég að þeir sem segjast berjast við sjálftökuliðið séu ekki sjálfu sér samkvæmir ef þeir síðan styðja sjálftöku sama fólks á dómskerfinu.

En rétt bera að virða og ef menn eru ósáttir við hann, þá breyta þeir honum en ekki brjóta.

Það er sorglegt að við skulum þurfa ordur að utan til að átta okkur á þessum grunnsannindum, en það er ennþá sorglegra að þá taki þjóðremban yfir, og þeir sem í hjarta sínu er ósáttir við sjálftökuna, verji þetta form hennar með kjafti og klóm.

En svona er þetta, það lítur hver á þetta með sínu nefi.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 15.3.2019 kl. 08:30

14 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, Ómar, það hlustar líka hver á þetta með sínu auga, og mörgum smakkast það mætavel með sínu eyra! Var það nokkuð fleira?

PS. Tókuð þið Óskar eftir myndinni af tvífara Bjarna Ben. á forsíðu Fréttablaðsins þennan föstudag? Eða svo var mér sagt.

Jón Valur Jensson, 16.3.2019 kl. 01:37

15 Smámynd: Ómar Geirsson

Les ekki Fréttablaðið Jón Valur, nota ekki auðmiðla.

Og já, þetta er rétt með hlustunina, nema hjá þeim sem geyma raddir í höfði, þar hlusta víst fleiri.  Og nei, það er ekkert fleira, ég treysti nú sem fyrr á varðstöðu þína.

Það mun reyna fljótt á hana.

En núna fer ég í fríið, og það í alvörunni.

Kveðja að austan.

 

 

 

Ómar Geirsson, 16.3.2019 kl. 06:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 373
  • Sl. viku: 3503
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2972
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband