9.2.2019 | 09:11
Seðlabankastjóri er fyrst trúverðugur.
Þegar hann beitir toppinn sömu kúgunum og hótunum og botninn.
Það vill svo til að toppar þjóðfélagsins, hvort sem það er í einkageiranum eða hjá hinu opinbera hafa leitt kauphækkanir síðustu ára, og ekki finnst stafkrókur eða hljóðmynd um að Már hafi hótað þeim einu eða neinu, hvorki vaxtahækkunum, eftirsetu á hörðum bekk eða 5 mínútna dvöl í skammarkróknum.
Hins vegar fréttist að maður, óhugnanlega líkur Má, nema hann var með teiknað yfirvaraskegg, aukanef eins og fæst í Partý búðinni, og dýrindis sólgleraugu úr Tiger, hafi sést á fornsölu og falast eftir betlistaf.
En eins og kunnugir vita þá er betlistafur notaður af mjög fátæku fólki þegar það fer á fund bankaráða og biður um kauphækkun, eða lán þegar um það er að ræða. Svona stafir voru mjög mikið notaðir af útgerðamönnum, sem samkvæmt öllum skattskrám löptu dauðann úr skel, þegar þeir slógu víxla hér á árum áður.
Allavega þáði Már og fékk sömu kjarabótina og aðrir toppar samfélagsins. Og hann tók ekki einu sinni selfí þar sem hann hótaði sjálfum sér að nú yrðu vextir hækkaðir.
Síðan ætlast þessi sami Már til þess að fólk taki hann trúverðugan, það er sem ábyrgan yfirmann efnahagsstöðugleikans, þegar hann hótar skúringakellingum og bæjarvinnuköllum, sem og öðrum lágtekjuhópum, vítisvist í helvíti vaxtaokursins, vegna þess að þessum köllum og kellingum dirfðist af lítillæti sínum að fara fram á brotabrot af kauphækkunum elítunnar.
Það sér það náttúrulega hver einasti heilvita maður, og þó margur íhaldsmaðurinn standi í þeirri trú að hann sé ekki heilvita þá er það ekki einu sinni skilyrði til að sjá hið augljósa, að þegar öðrum er hampað en hinum veittar ákúrur, að þá er gengið erinda þess sem er hampað.
Hin augljósa skýring að brotabrota kaupkröfur auðmýktarinnar gætu ógnað sjálftöku elítunnar sem skeytir í engu um náungann eða þjóðarhag.
Þess vegna þurfi að tukta hið ósvífna fólk.
En svona gera menn ekki sem vilja láta taka mark á sér.
Már er bara svona skrípó, sprellikarl sem hefur ekki einu sinni fyrir því að hylja spottana sem togað er í þegar hann á að sprella.
Og það er miður.
Þjóðin þarf núna á því að halda að fólkið í brúnni sé ekki annað hvort í sandkassaleik eins og ásýnd Alþingis er þessa dagana eða leiki sprelligosa eins og Már seðlabankastjóri.
Því brestir út allt samfélagið eru að gliðna í hyldýpisgjár sundrungar og aurinn sem setti okkur á hausinn gerir út á þá sundrungu.
Fjármagnar óöldina, skrílræðið, upplausnina.
Már gæti til dæmis stigið fyrsta skrefið með því að afsala sér kauphækkunum umfram það sem hann telur þjóðarbúið þola, og krafist þess sama af öðrum toppum.
Aðeins þannig öðlast hann trúverðugleika.
Hvort það dugi er svo annað mál.
En hann er þá ekki lengur sprellikarl.
Kveðja að austan.
44 milljóna árslaun bankastjóra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 2
- Sl. sólarhring: 30
- Sl. viku: 448
- Frá upphafi: 1412810
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 387
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.