28.1.2019 | 18:03
Gæfa Fjarðabyggðar er gott fólk.
Meðal annars það ágæta fólk sem hefur valist til forystu í sveitarstjórnarmálum okkar.
Við eigum góða arfleið, svo pistillinn dygði ekki til að telja upp, en úr fortíðinni koma upp í hugann nöfn eins og Smári Geirsson, Guðmundur Bjarnason, og enn lengra náttúrubarnið Hrafnkell A. Jónsson.
En tilefni þessa pistils sem er svona friðarpistill í lok bloggtarnar, er þessi frétt um Eskfirðinginn, Jens Garðar.
Drenginn sem tengdist inní Alla ríka-veldið, en stækkaði svo mjög að hann varð til gagns fyrir byggð og samfélag. Forystumaður sjálfstæðismanna í sveitarfélaginu til margra ára, og verður það lengi enn, nema ef til þess kæmi að Akureyringar tækju hæfni fram yfir hreppapólitík. Sameiginlegt vandamál NorðAusturkjördæmis, að fjöldi ræður niðurstöðu prófkjara, ekki mannaval.
Fyrir okkur Norðfirðinga var Jens Garðar betri en enginn í baráttu okkar fyrir hinni lífsnauðsynlegu samgönguæð sem Norðfjarðagöng eru, en fyrir samfélagið í heild, og sjávarbyggðir landsins verður að minnast á hlut hans í baráttunni gegn kommúnismanum sem kenndur er við ofurskattlagningu landsbyggðarinnar sem gárungar kenna við veiðigjöld.
Í mörg ár var eins og við værum ekki til, en alltí einu heyrðist rödd gegn þeim byggðareyðingarskatti, það voru auglýsingar í útvarpinu þar sem staðreyndum sjávarbyggða var haldið til haga.
Að baki stóð ungur drengur sem hefur bara stækkað síðan.
Hans eldmessa var útvarpsviðtal sem nýkjörinn formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi þar sem kostað nörd samþjöppunar eignarhalds í þágu alstærstu fyrirtækjanna fann út 21 staðreyndarvillu og það var blásið út.
En enginn spurði um kjarna þess sem sagt var, sem var alréttur, sannur og heill.
Þá bogna menn eða stækka, en draumur kommúnistanna um 2-3 eða fjögur stórfyrirtæki í sjávarútveginum gekk ekki eftir, lærdómur var dreginn, og loksins eignaðist sjávarútvegurinn á landsbyggðinni sína rödd.
Þessu bera að halda til haga þegar sá gírinn er að segja rétt og satt frá um sitt nánasta umhverfi, sem reyndar þaullesnir lesendur þessa bloggs vita, að ég held mig alfarið frá nærumhverfi mínu, nema þegar að Norðfjarðargöng sem þoldu enga bið, voru undir.
Þar höfðum við Norðfirðingar, við Fjarðabyggðarbúar, við Austfirðingar sigur, gegn gjörspillingunni sem rætur á að rekja norður í land.
En myndin af Jens, sem myndi vissulega sóma sér vel í hirðsölum Lúðvíks 14. sólkonungs, er kveikjan af þessum pistli, og því fær hann flest orðin.
Oddviti Framsóknarmanna í sveitarstjórninni, Jón Björn Hákonarson, er ekki síður mannaval.
Pabbi minn sagði alltaf þegar hann kom heim úr skólanum (hann var húsvörður í 35 ár í gagnfræðiskólanum sem síðar varð Verkmenntaskóli Austurlands) að hann hefði átt skemmtilegt spjall við Jón Björn, sem þá var að bíða eftir skólabílnum.
Hvorki fyrr eða síðar hafði hann þessi orð um nokkurn nemanda við skólann, þó talaði hann vel um þá flesta ef ekki alla.
Seinna sagði ég alltaf að við yrðum að kjósa Jón Björn, því einhver yrði að taka við af þeim Gumma (Bjarna) og Smára, því það væri svo mikilvægt að einhver gæti haldið tækisfærisræðu, án þess að maður skammaðist sín fyrir ræðuna og byggðarlagið. Líklegast brenndur af reynslu hinna mörgu leiðinlegra ræðna.
Jón Björn er í dag ritari Framsóknarflokksins og hefur alltaf verið heill í flokknum, og í öllum þeim deilum sem hafa tröllriðið þar rjáfur innanhús.
Þingmannsefni, en eins og Jens Garðar, býr við það ólán að Akureyringar ráða kjördæminu og þar er spurt um búsetu, ekki mannaval.
En þá er komið af manninum í Fjarðalistanum, reyndar ekki oddviti flokksins, en er sá sem er með vitið og þekkinguna, húmorinn og þann persónuleika, að það brosa allir í margra kílómetra radíus kringum hann.
Þingmaðurinn okkar, reyndar fyrrverandi en sá sem kom á eftir Lúðvík Jósepssyni(skrifað út frá reynsluheimi Norðfirðinga).
Einar Már Sigurðsson, fyrrverandi formaður fjárlaganefndar, tapari í prófkjöri við hina gjörspilltu, þar á undan skólastjóri Verkmenntaskóla Austurlands, fékk næst bestu einkunn hjá pabba, aðeins Helga kona hans sló honum við og Einari hefði þótt annað skrítið, en eftir Hrun, skólastjóri grunnskólans á Svalbarðseyri, þar sem hann sá hvernig alvöru fólk tókst á við kreppu.
Það sá til þess að fátæk börn fengju líka að borða, mat en ekki nesti.
Þessa visku flutti hann inní sveitarstjórn Fjarðabyggðar, skólamáltíðar eru gjaldfrjálsar í dag. Sem er alvöru mannúð, alvöru félagshyggja. Í millitíðinni var hann góður skólastjóri Nesskóla sem gott var að tala við um alvöru vandamál.
Kátur kallaði Öldungur bæjarins hann, þá nýfluttan í bæinn.
Segir allt sem segja þarf um þennan eðalmann.
Gott samfélag er ekki sjálfgefið.
En það er gæfa að tilheyra slíku.
Óendanlega gott fólk í leikskólanum, í skólanum, eða annars staðar þar sem foreldri tvíbura hefur reynt á sínu eigin skinni.
Jafnt á gleðistundum sem á stundum erfiðleikana.
Og sveitarstjórn okkar er vel mönnuð.
Hún var það.
Og er það.
Og stundum á maður að segja frá því.
Segja frá því að ég bý í góðu samfélagi.
Og er stoltur af.
Kveðja að austan.
Jens Garðar nýr framkvæmdastjóri Laxa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:17 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 412
- Sl. sólarhring: 718
- Sl. viku: 5996
- Frá upphafi: 1399935
Annað
- Innlit í dag: 371
- Innlit sl. viku: 5135
- Gestir í dag: 359
- IP-tölur í dag: 356
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Einstaklega fallegur óður til sinnar heimabyggðar. Hver heimabyggð er rík að eiga slíkan öðling sem þú ert, kæri Austfirðingur, Ómar Geirsson.
Með kærri kveðju
frá einum úr norðlenskri heimabyggð,
þó búandi sé nú sunnan heiða.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 28.1.2019 kl. 21:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.