Vil ekki skíthæla á þingi.

 

Og þá spyr mig sig hverjir eru skíthælarnir??

Og það þarf ekki að íhuga þá spurningu lengi til að benda á að sá sem gerir grín að hetju, að hann þarf virkilega að athuga sinn gang.  Má jafnvel mæla með meðferð honum til handa.  Eins eiga menn að geta skitið út fólk án þess að kynfæri komi þar við sögu, hvað þá nota typpið á sér sem viðmið.  Síðan er það rosalega sjálfhverft að geta ekki rætt um keppinauta án þess að leggja þeim til allskonar orðaleppa.

Með eða án áfengis, skiptir ekki máli.

 

Síðan er það stærri spurning hvort menn sem hlýða á verða sjálfkrafa skíthælar.  Ef svo er þá erum við margir skíthælar þessa dagana, og án þess að ég vilji vera leiðinlegur, þá voru þeir margir á Austurvelli að mótmæla hinum.

Minnir á hið fornkveðna, brennuvargar vilja mæta skjótt til að hjálpa við að slökkva, hommar í felum hrópa hátt níð um þá sem höfðu kjark að vera ekki inní skáp, og meintir barnaperrar þekkjast oft á háværum hrópum um algjört miskunnarleysi og hámarksrefsigleði gagnvart þeim kollegum sínum sem voru afhjúpaðir.

En Bubbi mun örugglega segja að hann er ekki á þingi.

 

Sem er rétt, en á hann þá ekkert erindi á þing???

Eða byrjar bara skíthælateljarinn að telja þegar þú ert kominn á þing??

Er það þá sem þú verður sekur fyrir það eitt að hafa fengið þér bjór á öldurhúsi með mönnum sem áttu bágt, og þurfa sárlega á meðferð að halda?  Því svona vill enginn vera, hvað segir maður við ömmu sína hinum megin ef þetta er fylgja manns??

 

Eða verður maður sjálfkrafa skíthæll við það eitt að hafa ekki staðið á fætur þegar sorakjafturinn hóf sig á flug??  Veit ekki en ég veit hitt að sorakjöftum myndi fækka mikið ef svo væri.  Hvenær er nóg komið??, en hvenær nær maður að leiða umræðuna frá kuntu og klofi í eitthvað annað??, eða tekur maður fólki eins og það er, og lætur andóf sitt í ljós með því að samsinna sig ekki orðbragðinu??

Veit ekki, hef lent í öllum þessum aðstæðum og þarf því að sætta mig við að vera skíthæll.  Það er bara svo, og þarf því að sætta mig við úthrópanir hinna göfuglyndu, hinna hreinlyndu, þeirra sem hafa alltaf þekkt sitt vamm, og leyfa okkur hinum að vita af því, með góðlátlegum ábendingum, eða þaðan af harðari bendingum, en aldrei fordæmingunni, enda vammlausir inn að beini.

 

Um að gera að benda og benda, slíkt eykur aðeins hreinleikann, vammleysið.

Ekki verra ef vammirnar snerta tveggja manna tal þar sem legið er á hleri.  Enda slíkt alsiða í vammlausum samfélögum þar sem þörf er á að tukta til syndara, skíthæla og aðra þá sem halda að prívatið firri þá einhverja ábyrgð.  Ábyrgð á orðum sínum og gjörðum, enda virðir vammlaus maður ekki landamæri þess sem er einka og þess sem er opinbert.

Hvort sem hann vinnur fyrir Stasi eða rannsóknarréttinn, er Púrítani eða vammlaus Íslendingur, þá veit hann að sumt gerir maður ekki, og  ef eitthvað hrjáir hann, þá er það sú skelfing að í öll þessi ár sem hann hefur fylgst með náunganum, að þá er það fyrst núna sem tækni er komin sem getur mælt hugsanir, og jafnvel drauma. 

Hvað sluppu margir??, sem annars hefðu fengið dóm, bál eða Gulag.  Eða hinn íslenska gapastokk fordæmingar hinna vammlausu??

 

En þetta kallast að missa pistil út um víðan völl, það var bara svo erfitt að segja í fáum orðum að ég væri skíthæll.

Tilefnið var að ef þeir sem hlusta á fyllirísraus eru skíthælar og eiga ekki að vera á þingi, hvað með hina sem lugu beint til að þeir yrðu kosnir á þing??

Hvað með samgönguráðherra okkar sem boðar aukaskattlagningu í formi veggjalda, hvað sagði hann um slíka skattlagningu í aðdraganda kosninganna??

Eða hvað sagði Katrín um einhverja leiðréttingu á þeirri ómennsku sem kölluð er króna á móti krónu??  Eða eru allir búnir að gleyma bréfi Bjarna til gamalmenna, það var ekki langt, en mörgu var logið.

En reyndar logið opinberlega, það þurfti enga hlerun til að afhjúpa falsið.  Kannski liggur diffinn í því.

 

Og er kannski bara ljótt að hæðast að fötluðu fólki, en allt í besta að ljúga að því??  Að ekki sé minnst á að halda kjörum þess við hungurmörkin.

Ekkert skítlegt við það, engir skíthælar sem það gera.

 

Víkjum þá að neyðarópinu sem bergmálar um samfélagið.

Neyðaróp aðstandenda geðsjúkra, neyðaróp aðstandenda fíknista.

Og allt mannfallið. 

Sem mátti hindra, sem má hindra. 

En við notum peningana í annað.

 

Enda hvað er líf á milli vina, hvað eru svik á milli vina?

Skíthælar??, nei, nei, þetta eru stjórnmál. 

 

Og að lokum, hvað með fólkið sem er á þingi og ber beina ábyrgð á tugþúsundir voru hraktir af heimilum sínum eftir Hrunið 2008. 

Að ekki sé minnst á þá sem báru beina ábyrgð á að hrekja þessi tugþúsundir af heimilum sínum.  Með því að loka á allar tillögur sem komu fram um að hjálpa þessu fólki, með því að gefa siðblindum fjármálamönnum veiðileyfi á þetta fólk. 

Verst urðu fátækar fjölskyldur úti, og allra verst einstæðar mæður. 

Mannvonska liðinna alda í hnotskurn.  Í nútímanum, gegn náunga okkar.

 

Nei við mótmælum þeim ekki, við styðjum þessi góðmenni. 

Og tökum undir krókódílatár þeirra yfir hleruðu fyllirísrausi samþingmanna þeirra, ásamt því að við þökkum öllum góðum vættum að okkar fólk var ekki hlerað. 

Reynum samt að toppa vandlætingu þeirra.

 

Enda vammlaus.

Alveg laus við að vera skíthælar.

 

Miklir menn erum við.

Mikil er reisn okkar.

 

Á okkur er alltaf að treysta.

Kveðja að austan.


mbl.is „Vil ekki skíthæla á Alþingi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Núna virðast margir telja að menn eigi að teljast "samsekir" fyrir ósmekkleg ummæli sessunauta sinna ef þeir andmæla þeim ekki eða yfirgefa borðið.

Mögulega verður fróðlegt að fylgjast með því hvort það sama fólk mun fylgja sömu viðmiðum í þeim partíum sem það á sjálft eftir að sækja framvegis?

Guðmundur Ásgeirsson, 1.12.2018 kl. 20:03

2 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Þakka þér Ómar fyrir þessa skilmerkilegu grein þína. Ég tek undir með þér.

Fólk er skelfingu næst yfir þeim kjaftagangi sem átti sér stað á krá úti í bæ. En hvar eru skelfingarópin og mótmælin gegn þeim mannafórnum sem framkvæmdar eru í landi okkar og nú á að auka heimildir til þeirra illvirkja.

Börnum okkar er fórnað á altari félagshyggjunnar og mönnum finnst það bara í stakasta lagi. Ef heyrist af illvirkjum úti í heimi og ég tala ekki um þar sem börn verða fyrir voðaverki illræðismanna þá verða landsmenn vandlætingasamir vegna þessa. En hvar er vandlæti okkar þegar kemur að fósturvígum og þeirri hræðilegu meðferð sem börn í móðurkviði þurfa að líða hér í okkar eigin landi, án þess að nokkur hreifi legg eða lið þeim til bjargar.

Þjóð sem líflætur börn sín getur ekki verið þjóð til langframa. Hún hefur fellt sinn eigin dóm, hún er úr leik.

Tómas Ibsen Halldórsson, 1.12.2018 kl. 20:15

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Guðmundur.

Vissulega er það fróðlegt, en ennþá fróðlegra verður að fylgjast með þeim sem gera sömu kröfur til fortíðar sinnar, því ekki má gleyma að þessi viðmið lágu ekki fyrir þegar Klaustrið var sótt heim fyrir viku síðan.  Ef fólk er sjálfu sér samkvæmt, þá á það að viðurkenna ef það hefur lent í þessum aðstæðum, og játa að það sé skíthælar, líkt og ég geri hér að ofan, samt mæli ég með að það geri það í aðeins færri orðum.  Og ef það er á þingi, þá krefst það þess að það verði rekið úr flokkum sínum.

Eða snúast kannski viðmiðin eingöngu um hleruð samtöl??

Samt má ekki misskilja mig, það var full ástæða til að hneykslast, og sem betur fer þá reyndu menn að koma til móts við þá hneykslisöldu.  Enda sé ég ekki alveg hvernig viðkomandi hefðu getað feisað samþingsmenn sína næstu vikur og mánuði.  Menn grófu sína gröf og höfðu þó vit að leggjast í hana og biðja um að mokað yrði yfir.

En að spyrða alla í sömu kippu, það er pólitískur loddaraskapur og engum sómi sem tekur þátt í slíkum skollaleik.

Og samfélag hinna skinheilögu er ekki gott samfélag.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 1.12.2018 kl. 20:43

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Tómas.

Misjöfnum augum líta menn silfrið, og gott að ólík sjónarmið finni samhljóman við orð mín hér að ofan. En ég vil nota tækifærið og hrósa þér fyrir að hafa ekki smitast af Orwelísku, ekki að hann hafi gert það sjálfur heldur skrifaði hann snjalla bók þar sem alræðið stundaði þá list, að tala um þungunarrof.

Að öðru leiti ætla ég ekki að hætta mér inná þetta svið.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 1.12.2018 kl. 20:54

5 identicon

Öll Samfylkingin mætti á Austurvöll í dag. Engir aðrir.  Það er hið eftirtektarverða.  Og Stöð 2 kynnti Eirík Bergmann til leiks.  Öll helferðarsveitin sló sér á brjóst sem farísearnir forðum.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 1.12.2018 kl. 23:35

6 identicon

Lofuð sé Stöð 2 fyrir að færa okkur Eirík Bergmann, sem af sérfræðiþekkingu sagði okkur ómenntuðum í kvöld að "það væri einhver kapall sem færi af stað núna." Hvar værum við alþýðufólkið satt án hans leiðsagnar?

Símon Pétur, hvað heldur þú, getur verið að Eríkur sé að stokka spilin fyrir "kapalinn"?

Esja frá Kjalarnesi. (IP-tala skráð) 1.12.2018 kl. 23:58

7 identicon

Útvarpshluti Stöðvar 2, Bylgjan, sagði reyndar að alls hefðu 999 manns mætt til að berja í sig lóminn og Búbbe Mortens meðtalinn.  Það er því öll hin heilagasta fariseasveit Samfylkingatinnar upptalin.

Svar mitt til þín ágæta Esja frá Kjalarnesi er, að Jón Ólafsson Jónssonar af þingeyskum drykkjumannaættum mun vafalaust leggja hinn siðræpulega grunn að kapallestri Eiríks grjótmanns.  Síðan mun öll hersing hinna síðari tíma og samfylktra heilagra detta í'ða. Aldrei hef ég heyrt eins illt umtal og það fólk stundar.  Slapp frá því kalinn á hjarta, og ber harm minn í hljóði.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 2.12.2018 kl. 00:19

8 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Ómar,

Það er margt í kringum þetta, sem fólk er að nota til afsökunar og réttlætingar á óafsakanlegu og óréttlætanlegu framferði.  Málið snýst einfaldlega um fúlan kjaf nokkurra einstaklinga, sem geta ekki verið góðir og gildir meðlimir samfélagsins nema troða aðra í skítinn, svo þeir sjálfir standi uppúr.  Það er heila málið og fólk, sem hagar sér svona á ekki að vera fulltrúar á Alþingi.  Þetta er ekki flóknara en það.  Það þarf ekkert að flækja þetta frekar.  Kjarni málsins er einfaldur og skýr.  

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 2.12.2018 kl. 01:58

9 identicon

Símon Pétur, er það ekki Steingrímur J. sem fer fremstur í flokki faríseanna. Hann sem lagði Lilju Mósesdóttur og Guðfríði Lilju Grétarsdóttur í einelti á sínum tíma.  Lilja sagði frá því síðar að í samtali við fréttamiðil, að ástandið innan Vg hafi þá einkennst af ruddalegu ofbeldi Steingrím J. hafi verið slíkt að Steingrímur hélt sig vera frelsarann sjálfan.  Er ekki það sama að henda Ingu sem Steingrím þá?  Líkingin við Stalínismann, sem þú vísaðir til í síðasta pistli þínum,  er því réttmæt.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 2.12.2018 kl. 02:01

10 identicon

Pétur Örn, það má vel vera að Inga sé sem Steingrímur J. á þeim tíma.  Endaði það ekki með hruni VG og Samfylkingar?

En mig langar að benda á aðra nærtækari líkingu:  Þú ert rekinn, Þú ert rekinn, Þið eruð öll rekin

er ekki Inga hin íslesnka útgáfa af Dónaldi Trömp?

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 2.12.2018 kl. 02:07

11 identicon

Skrapp aðeins á fasbókina, þar eru nú allir hinir samfylktu að ræða um hvað sé nú gott að fá sér smá í tána og skíta svo yfir alla, eins og þau geta en móðurinn er þó alveg að renna af þeim, kvarta helst undan því að DO hafi ekki drukkið nóg af Bermúdaskálinni.  Þau eru öll á leiðinni að kafna í eigin leiðindum.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 2.12.2018 kl. 02:19

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Arnór.

Það hefur ekki nokkur haldið öðru fram en að málið liggur ljóst fyrir hjá hinum skinheilögu, en þessi pistill er svona meiri pæling fyrir okkur skíthælana.

Það er nokkuð ljóst að við munum ekki landið erfa, og þá þarf maður að tileinka sér viðmið hinna nýju tíma.  Vissulega á sagan nokkur lærdómsbrot, en vandinn við til dæmis samfélag Nýja Englands á 17 öld er að ekki liggja miklar heimildir um hið daglega líf sem heimfæra má á nútímasamfélag. Eins náðu púrítanar aldrei að móta almennilega samfélagið í London um miðja þá öld, enda sorinn eftir því.

Það er því vandlifað í þessum heimi, en enn og aftur, það er ekki þitt vandamál.

En takk samt fyrir innlitið og ábendinguna.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 2.12.2018 kl. 08:41

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Pétur, og sælir aðrir hér ónefndir.

Það vita allir að margt hefur verið sagt í gegnum tíðina, jafnt hjá fullum sem ófullum.  Þó held égð þetta hleraða samtal hafi náð að klukka flest það sem menn gera ekki eða segja, eiginlega afrek út fyrir sig.  Og auðvitað þurfa menn að sæta ábyrgð gjörða sinna og ég persónulega myndi ráðleggja 2-3 af þeim að fara í meðferð, þetta er eiginlega of sorglegt til að ég hafi geð í mér til að skammast í þeim.

Síðan held ég að það sé morgunljóst, að þegar maður verður sér ærlega til skammar, að þá á maður sér ekki málsbætur, hvort sem það er að vísa í aðstæður eða að einhver annar hafi líka get álíka við svipuð tilvik, eða eitthvað.  Og maður á bara að viðurkenna það, og segja afsakið, fyrirgefið, og sína á einhvern hátt að maður meini þau orð.  Það hefði einhver átt að benda Sigmundi á þetta áður en hann sendi út sína björgunartilkynningu. 

En mikið má fólk vera grimmt ef það meðtekur ekki afsökunarbeiðnina.  Í því felst ekki á nokkurn hátt að með því sértu að sætta þig við eitthvað sem er óafsakanlegt, heldur að þú gefur iðruninni tækifæri, gefur því tækifæri að það sé hægt að bæta úr, að það sé hægt að bæta sig.  Gleymum því svo ekki að fordæmingin, hin eilífa útskúfun er ein af vélabrögðum andskotans en í bæninni einu segir hins vegar að við eigum að viðurkenna ófullkomleik okkar með því að biðja almættið fyrirgefningar, og síðan eigum við að fyrirgefa öðrum.  Fyrir utan siðinn sem í því felst, og önnur vélarbrögð andskotans er að í dag fussa flestir þegar siður og breytni kemur til tals, að þá er í þessu fólgin viss praktík sem tók á erfiðu vandamáli sem hrjáði samtíma skrásetjara, og hafði hrjáð siðmenninguna lengi.  Sem er hjaðningavíg hefndanna, hinna  sífeldu bendingar á hina, sem gerðu vissulega eitthvað sem þú gerðir líka, en það voru sko þeir, og nú skulum við hefna, nú skulum drepa, hatur og heift.  --Ekkert gott við slíkt samfélag, og full þörf að nálgast hlutina á nýjan hátt.

En burt séð frá því, ég er lítt að skipta mér af því sem aðrir hugsa, og umræða samtímans má vera eins og hún er mín vegna.  Vargöld, vígöld, hatur og heift, fyrir því var sáð þegar nýfrjálshyggjan hóf atlögu sína að siðmenningunni uppúr 1970, og illgresi hennar er langt komin með að kæfa allan gróður og alla fegurð.  En þegar stríð geysa þá þarf stundum að spyrna við fótum, og eins og sorgleg þessi uppákoma var, þá gengur ekki að láta þjóna auðsins nýta hana í þágu illvirkja sinna.  Tök auðsins á samfélaginu eru mikil, en verða algjör ef þeir ná að rústa innlendri matvælaframleiðslu, leggja sjávarbyggðir landsins í auðn og koma orkunni í einkaeigu á samkeppnismarkað einokunarinnar.

Meðal annars þess vegna þarf að benda fólki kurteislega á að þó það hafi upplifað hegðun meintra svína, að það gefur því ekki á nokkurn hátt rétt til að haga sér eins og svín.

Svín eiga ekki að ala af sér svín, nema í löggiltum svínabúum.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 2.12.2018 kl. 09:28

14 identicon

Verðum við skíthælarnir ekki að stofna okkar eigin þrýstihóp og krefjast þeirra réttinda að mega drulla yfir menn, málefni og smælingja við þau tækifæri sem okkur henta?

Stöndum á móti þeim sem kalla sig hinir réttsýnu og stunda nornaveiðar af innlifun.

Jóhannes (IP-tala skráð) 2.12.2018 kl. 09:28

15 Smámynd: Ómar Geirsson

Sjálfsagt ef okkur langar til þess Jóhannes, ætlar þú að kalla til stofnfund?

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 2.12.2018 kl. 09:31

16 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Sæll Ómar. Góður pistill að venju. Ég er búinn að telja " skíthælana" sem þú ert að vísa til og tel ég þá vera 63. Ég get þó verið sammála þér að nokkrir Klaustursmenn hafi toppað sig í orðbrúki.

Það finnst mér vera merkilegt að ekki sé meiri umræða um meginþátt þíns pistils.

Gefin hefur verið út bók um skíthæla ríkjandi kerfis, Kaupthingking. Þá hefur td. Styrmir og Sunna með greinarkornum sínum í morgunblaðinu, réttilega bent á að gæta þurfi að fullveldi Íslands sé miðað við að háttsemi flestra "Háttvirtra" þátttakenda fyrir og eftir hrunatburðinn, skuli enn við gangast.

Eggert Guðmundsson, 2.12.2018 kl. 11:16

17 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Eggert.

Þetta síast allt inn.

Hinsvegar skal ég alveg játa að ástæða þess að ég greip inní umræðuna að mér ofbauð orðalepparnir um Ólaf Ísleifsson, og mér finnst það hreinlega ómerkilegt að tengja hann við hina óverjanlegu orðaleppa drukkinna manna. Síðan virðist mér vera ómögulegt að skrifa um eitthvað án þess ég sé farinn að hamra á því sem ég hef lengi hamrað á.  Það er bara svo.

Já líklegast eru hinir meintu skíthælar á þingi 63, það er ef maður verður sjálfkrafa skíthæll við það eitt að hlusta á miður fallega orðaleppa um náungann.  Eiginlega hélt ég að menn væru hættir að tala svona, en lengi má manninn reyna.

Hvað mig varðar vil ég samt taka fram að ég tel að allflestir á þingi vilji vel, og þrátt fyrir allt eru samdir lagabálkar sem auðvelda líf fólks, sérstaklega þeirra sem eiga erfiðar en aðrir vegna sjúkdóma, fötlunar eða annað.  Og það er vel hugsað um drengina mína í skólanum, og það hefur verið frá fyrsta degi frá því þeir fóru rúmlega 1 árs á leikskólann.

Síðan hvernig tekst til er svo önnur saga, og þó mörgu miði áfram, hrakar mörgu á móti.  En ég held að það sé flóknara en svo að hægt sé að setja alla skömmina á þingmenn.  Ég sjálfur tala um hugmyndabaráttu, og bendi á siðblind ógnaröfl, en það er hvorki betri eða verri skýring en hver önnur.

Allavega vaknaði ég einn daginn að Örfáir voru komnir með veiðileyfi á okkur hin.  Og það sér ekki fyrir endanum á þeim veiðiskap.  En svarið er ekki alltumliggjandi ríkisvald forræðishyggju og regluveldis, langt í frá.

En svarið er heldur ekki að hamla ekki á móti.

Og varðandi fullveldið, þá munu margir vita hvað þeir áttu, þegar þeir misstu vegna andvaraleysis og sauðheimsku.

Taktu eftir því hverjir magna upp fárið.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 2.12.2018 kl. 12:16

18 identicon

Þannig mælti forsætisráðherra í gær: „Við vitum að við eigum einstaka náttúru, stærstu ósnortnu víðerni Evrópu, endurnýjanlega orkugjafa sem munu verða Íslandi dýrmætir til framtíðar, gjöful fiskimið og einstaka fegurð.“

 

Er það rétt hjá ráðherranum að þjóðin eigi „stærstu ósnortnu víðerni Evrópu“? Er ekki hluti af víðernunum í breskri eigu til heimilis á aflandseyju? Á þjóðin árnar? Eru ekki sumar þeirra svissneskir og ítalskir ríkisborgarar? Einu sinni vissi þjóðin að hún gæti treyst á „fiskimiðin gjöfulu“ en ekki lengur. Nú eru „fiskimiðin gjöfulu“ skiptimynt þeirra sem passa að samtöl þeirra leki ekki.

 

„Og varðandi fullveldið, þá munu margir vita hvað þeir áttu, þegar þeir misstu vegna andvaraleysis og sauðheimsku,” segir Ómar og við það er að bæta að margir munu vita hvað þeir áttu þegar þeir misstu land sitt vegna andvaraleysis, flokkshollustu og skilyrðislausrar hlýðni við foringjann. (https://www.jenga.is/).

Esja frá Kjalarnesi. (IP-tala skráð) 2.12.2018 kl. 13:17

19 Smámynd: Theódór Norðkvist

Sá í einni frétt að Sigmundur Ernir Rúnarsson var í hópi mótmælenda, þ.e. góða, réttláta og orðvara fólksins. Reyndar kom hann með lausnina á áfengisvanda þingmanna fyrir tíu árum síðan. Frekar en að blaðra fullur tóma steypu á öldurhúsi, mæta bara fullur í pontu á Alþingi.

https://www.youtube.com/watch?v=DvW15tqCfpo

Samþykkja síðan hrikalegan Icesavesamning sem hefði dæmt þjóðina í þrældóm kynslóðum saman. Veit ekki hvort hann var fullur þegar hann greiddi Icesave 1 atkvæði sitt, en að mínu mati er það verri glæpur að samþykkja svona samning, sem sjálfur forseti Íslands líkti við Versalasamninginn sem kom af stað seinni heimsstyrjöldinni, þó hann (forsetinn, Guðni Th. Jóhannesson) hafi stutt hann sjálfur, edrú.

Sekt þessara 34ra þingmanna væri aðeins minni, ef þeir hefðu sér til afsökunar, að þau hafi verið ölvuð við atkvæðagreiðsluna um Icesave 1. Án þess að ég sé að afsaka heimskulegt blaður í ölæði, þá er Klaustursmálið hlægilegt við hliðina á glæp þessara þingmanna, sem margir hverjir sitja enn á Alþingi, í krafti atkvæða þeirra sem hæst grenja út af Klaustursmálinu.

Theódór Norðkvist, 2.12.2018 kl. 13:18

20 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Allt stórgott hjá þér, eins og þín var von og vísa.

En tökum eftir því að þeir sem eru hleraðir, eru þeir sem hafa reynt að tala um svívirðuna, að hirða eigur og íbúðir fólksins, mæðranna, barnanna.

Hver skildi standa fyrir þessum hlerunum?

Er sá ekki hleraður, sem vinnur fyrir fjármálakerfið, fjármálakerfið sem skrifar aðeins tölu og lánar aldrei neit verðmæti.

Svo hirðir fjármálakerfið flest af fólkinu á fimm til 10 ára fresti, með kreppu fléttunni hans tómasar Jefferssonar.

Kreppufléttan, endurtekið

Nú er að byrja að fara í hugleiðslu, það hefur verið kallað bæn á íslensku.

Hún er til þess  við stillum hugann á það sem við teljum öllum fyrir bestu.

Þá komum við auga á takmarkið, eða það besta sem við getum hugsað upp.

Til að komast í góðu veröldina, lesa multiverse, fjölheima, verðum við að reyna að hugsa þá veröld upp.

Þótt góða veröldin sé við nefið á okkur, skinjum við hana ekki, nema að við leitum að henni.

Ég hef ekki tíma, gangi ykkur allt í haginn.

000

slóð

Fjárfestirinn skrifar bókhald í tölvuna og segist eiga færsluna. Fjárfestirinn lánar þér aldrei neitt. Þú framkvæmir vinnuna og hugsar. Þú ert vinnan og andinn, það er skaparinn. Hér ætti að vera broskall. Allt kemur frá þér.

11.4.2016 | 11:32

Og það besta, ég lánaði þér ekki neitt.

19.2.2016 | 18:40

Spuni - Það hringsnýst allt fyrir augunum á þér, og þú skilur ekki neitt.

3.2.2014 | 08:20

Egilsstaðir, 02.12.2018  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 2.12.2018 kl. 13:48

21 identicon

Mér finnst það hreint út sagt dapurlegt hvernig Inga Sæland skuli sjálf vera á fullu gasi að tvístra og rústa Flokki fólksins.   Hvernig ætlar hún nú að berjast fyrir öryrkja og fátæka aldraða, nú þegar hún hefur rekið hálfan flokkinn og helmingað sjálfa sig niður?  Ætlar hún að gera sem drottningin forðum og benda lýðnum að fá sér bara ra biskví, eða hundakex?  Og skella sér svo á sviðið, stilla kastljósunum á sjálfa sig og syngja I'm a Virgin, eða Do'nt cry for me Argentina?   Þetta er barasta sorglegt upp á að horfa.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 2.12.2018 kl. 14:45

22 Smámynd: Ómar Geirsson

Enn og aftur takk fyrir innlitið félagar.

Símon, ég reikna með að hún hafi látið undan þrýsting múgsefjunarinnar, og timburmenn hennar muni var lengur en þeirra sem fengu sér í tána og enduðuð í munnræpu. Sem líklegast kallar á pistil um múgsefjun, sjáum samt til.

Theódór, ætli megi ekki segja að vandlæting margra sé hol, þeir sjái þetta meir sem tækifæri til að fjötra þjóðina fastar við hlekki auðmagnsins.

Esja, það er nú það, en sumum finnst náttúran fallegri ef fínt fólk á hana, sérstaklega ef það mælir útlenskar tungur.

Blessaður Jónas, "Til að komast í góðu veröldina, lesa multiverse, fjölheima, verðum við að reyna að hugsa þá veröld upp.

Þótt góða veröldin sé við nefið á okkur, skinjum við hana ekki, nema að við leitum að henni.", mæltu heilastur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 2.12.2018 kl. 21:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 454
  • Sl. sólarhring: 725
  • Sl. viku: 6185
  • Frá upphafi: 1399353

Annað

  • Innlit í dag: 383
  • Innlit sl. viku: 5238
  • Gestir í dag: 352
  • IP-tölur í dag: 347

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband