7.10.2018 | 10:43
Hrunið, sökudólgar og sekt.
Hrunið er eins og opin und á þjóðarsálinni þar sem gröftur vellur út.
Umræðan um það er ennþá heiftug, bæði á milli fólks, sem og í netheimum, það er einna helst að stjórnmálamenn okkar hafi sannmælst í samsekt sinni að slíðra sverð hinna gagnkvæmu ásakana í trausti þess að þögn þeirra hlífi þeim við óþægilegri umræðu.
Eins má segja um hinn venjulega borgara, að þó margir séu sárir og margir reiðir, þá vill fólk halda áfram með líf sitt, það er þreytt á argþrasinu sem gengur út á það eitt, að verja sitt fólk og kenna öðrum um.
Því það er enginn lærdómur í umræðunni, það er engin sátt í henni, ekki einu sinni sú víðfræga að kenna helv. útlendingunum um. Og það er engin afsökun í henni, engin fyrirgefning, það er eiginlega enginn sem stendur upp og segir, "mér varð á, fyrirgefið það", og þegar enginn biðst fyrirgefningar, þá er náttúrulega engum hægt að fyrirgefa.
Loks biðu margir stórfellt tjón, það stórfelldasta að öllu, að missa húsnæði sitt, að hrekjast á götuna með börn sín, aðrir töpuðu hluta eða öllum ævisparnaði sínum, enn aðrir misstu fyrirtækin sín, allt vegna atburða og áfalla sem fólk sem slíkt bar enga ábyrgð á.
Og enginn hefur þá reisn að taka umræðuna og gera upp þess atburði á vitrænan og siðlegan hátt. Jú vissulega einhverjir fótgönguliðar hér og þar, en enginn með vigt og áhrif í þessu samfélagi okkar.
Hvað þá einhver sem samábyrgðina ber.
Á meðan verðum við aldrei heil sem þjóð.
Og við náum ekki samstöðu um neitt, við látum innviði okkar grotna, þrátt fyrir mjög hagfeld ytri skilyrði þá göngum við á höfuðstól eigna okkar, og við erum jafn blind gagnvart leikreglum þess kerfis sem setti okkur á hliðina haustið 2008, og það er jafnöruggt að slíkt mun gerast aftur um leið og hökt kemur á ferðamannastrauminn.
Við sjáum ekki hinn kerfislæga vanda á meðan umræðan snýst öll um persónur og leikendur. Í sjálfsdrýldni okkar höldum við að Hrunið hafi verið séríslenskt fyrirbrigði, það hafi verið ákveðið mönnum að kenna því þeir gerðu eitthvað, eða gerðu ekki eitthvað, og meðan svo er þá lærum við ekkert. Það er eins og við skiljum ekki að allt hið vestræna fjármálakerfi féll haustið 2008 og framá sumar 2009, og þegar fræðigreinar og fræðibækur um það kerfishrun eru lesnar, þá er hvergi minnst á Sjálfstæðisflokkinn eða Davíð Oddsson sem einhverja gerendur í að setja þær leikreglur sem giltu á fjármálamarkaðnum, eða aðgerðir eða aðgerðaleysi Davíðs hafi ollið hinu vestræna fjármálahruni.
Eins er það með það sem gerðist eftir Hrun, eins sorglegt og margt af því var. Þá varð bara þannig að bæði hér og annars staðar voru hagsmunir fjármálakerfisins látnir ganga fyrir við endurreisn þess. Almenningi var allsstaðar sendur reikninginn, hann var bara mishár eftir hve umfangsmikill vandinn var í viðkomandi landi. Verstur var skellurinn hjá þeim þjóðum sem lutu forræði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og stjórnvöld viðkomandi ríkja áttu fáa aðra valkosti en að dansa með.
Við mættum líka hafa það í huga, að þrátt fyrir allt þá reyndu stjórnvöld, bæði fyrir og eftir Hrun að hamla á móti skaðanum. Neyðarlögin voru ekkert sjálfgefin, en eftir á er ljóst að þau björguðu því sem bjargað varð. Og í samningunum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn var reynt að lágmarka skellinn varðandi fjöldaatvinnuleysi, og það var reynt að skerða hlutfallslega minna bætur í bótakerfinu, hvort sem það var til aldraða eða öryrkja. Hvað það varðar var samningurinn við AGS tímamót hjá sjóðnum.
Er þá allt í lagi?
Nei, vissulega ekki.
En við náum aldrei tökum á umræðunni ef við afneitum staðreyndum.
Og ekkert hefst þegar það sem miður fór er rætt, að fólk fái ekki að njóta sannmælis.
Eins ættu þeir sem benda sífellt á hina í vörn sinna manna, að íhuga eitt augnablik, að fyrir Hrun var sannarlega aðeins einn stjórnmálamaður sem hafði varann á, og féll ekki fyrir lúðrasveitinni sem bauð uppí dansinn kringum gullkálfinn.
Og það er Ögmundur Jónasson. Aðrir voru í fullu að bjóða sig sem stjórntæka með Sjálfstæðisflokknum fyrir kosningarnar 2007.
Eins er mjög ólíklegt að þó aðrir flokkar hefðu verið í stjórn eftir Hrunið, það er Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn, að þeir hefðu á einhvern hátt gert neitt annað en ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir gerði.
Það er að standa við samninginn við AGS eftir bestu getu.
Allavega, viðurkennum staðreyndir.
Tökum umræðuna.
Og reynum að lenda henni í sátt þannig að allavega sárin grói.
Það er þarft verk.
Kveðja að austan.
Hrunið ól af sér marga flokka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 8
- Sl. sólarhring: 17
- Sl. viku: 454
- Frá upphafi: 1412816
Annað
- Innlit í dag: 8
- Innlit sl. viku: 393
- Gestir í dag: 8
- IP-tölur í dag: 8
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Takk fyrir þennan pistil Ómar.
Því miður virðist mér við sem þjóð eiga langt í land með að gera upp hrunið á heiðarlegan hátt.
Og þar spilar inn hvað sterkast skotgrafarhernaðurinn sem tengist flokkadráttum.
Verð að viðurkenna að ég er depurð sleginn yfir þeirri illsku sem okkur birtist uppúr skotgröfunum.
Hafði vonast til þess að eitthvað hefðum við öll lært til hins betra 10 árum eftir hrunið.
Með kveðju, Pétur
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 7.10.2018 kl. 13:51
Ómar minn,
eins og margt er nú gott við þig þá er það sorglegt hvernig gamla mannhaturskommabakterían byrgir þér sýn. Þú trúir þ´vi að hrunið hafi verið Davíð að kenna og Sjálfstæðisflokknum.
Geturðu ekki séð að það var einmitt Davíð sem reyndi að spyrna við fótum þegar glæpamennirnir í bönkunum óðu uppi. Þó að þeir færu sumir í tugthús fyrir en ekki Davíð, þá breytir það ekki þinum þrönga hugsunarhætti sem er sorglegt um annars vel gefinn mann. Geir gerði það sem hann gat tlil að biðja Guð að blessa Ísland og var bænheyrður.Þjóðin er komin á allt annan og betri stað með vinnu sinni og krónunni.Kaupmáttur er sá hæsti sem hann nokkru sinni hefur verið og verðólgan hefur haldist sæmilega lág sem er ótrúlegt eftir kaupsprengingarnra. Nú verðu líklega endir á því þegar kommúnistaranir í Eflingu og VR berja allt í rúst meðan þú klappar.
Það hefur ekkert með pólitík að gera ef verðlag er hækkað umfram allt sem inn kemur, þá fer allt til andskotans hvað sem þínu ræfladekri líður sem felst í kjaftæðinu um mannsæmandi kjör fyrir þá verst settu sem koma hinsvegar alltaf á eftir hinum best settu þar sem þið kommarnir fyllið raðirnar í eilífri sérgæsku ykkar. Ég er viss um að Davíð er meiri jafnaðarmaður en þið. þegar allt kemur til alls.
Halldór Jónsson, 7.10.2018 kl. 15:14
Sæll Halldór, ekki skil ég pistil Ómars á þann hátt sem þú gerir. Mér virðist hann alls ekki vera að ráðast að Davíð, heldur hefur Ómar margoft bent á að glóbalískur fjármagnskapítalismi, spilavítiskapítalismi, á ekkert skylt við þjóðlegan framleiðslukapítalisma, þann sem var hér ríkjandi þegar smáfyrirtæki blómstruðu í hverju byggðarlögum landsins og sjúkrahús, skólar og vegir voru byggðir, byggðarlögunum og þjóðinni allri til heilla.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 7.10.2018 kl. 15:42
Ég bið þig Halldór að lesa aftur þessa málsgrein í pistli Ómars, og í þetta skiptið vel og vandlega og gaumgæfa því næst hvort það geti verið að þú hafir verið of fljótur á þér, að hrapa að þeirri ályktun sem þú settir fram sem athugasemd, nr. 2:
Við sjáum ekki hinn kerfislæga vanda á meðan umræðan snýst öll um persónur og leikendur. Í sjálfsdrýldni okkar höldum við að Hrunið hafi verið séríslenskt fyrirbrigði, það hafi verið ákveðið mönnum að kenna því þeir gerðu eitthvað, eða gerðu ekki eitthvað, og meðan svo er þá lærum við ekkert. Það er eins og við skiljum ekki að allt hið vestræna fjármálakerfi féll haustið 2008 og framá sumar 2009, og þegar fræðigreinar og fræðibækur um það kerfishrun eru lesnar, þá er hvergi minnst á Sjálfstæðisflokkinn eða Davíð Oddsson sem einhverja gerendur í að setja þær leikreglur sem giltu á fjármálamarkaðnum, eða aðgerðir eða aðgerðaleysi Davíðs hafi ollið hinu vestræna fjármálahruni.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 7.10.2018 kl. 16:08
"Dómsmálaráðherra birti á dögunum svar við fyrirspurn Ólafs Ísleifssonar, þingmanns Flokks fólksins.
Þar kemur fram að á tíu árum var árangurslaust fjárnám gert 117 þúsund sinnum hjá einstaklingum.
Um þrjú þúsund voru lýstir gjaldþrota og 8.800 eignir einstaklinga voru seldar á nauðungaruppboði.
Þar bætast reyndar við um 400 fasteignir sem seldar voru á nauðungarsölu eða sölu vegna greiðsluaðlögunar skuldara, eins og kom fram í fyrra svari félagsmálaráðherra við fyrirspurn Ólafs.
"Ég er nýkominn frá Færeyjum. Þar fjármagna menn íbúðarhúsnæði með föstum vöxtum, 1,7 prósent til 20 ára," segir Ólafur Ísleifsson."
Færeyska krónan er jafngild dönsku krónunni.
Gengisbinding dönsku krónunnar við evruna nær því einnig til Færeyja - og Grænlands.
Þorsteinn Briem, 7.10.2018 kl. 16:54
Elsku besti Steini minn, ég var búinn að biðja þig mjög fallega að hætta þessu spami. Ef þér liggur svona mikið á hjarta, og ég sé að þú leggur á þig mikla vinnu í efnisöflun, hví pistlar þú ekki sjálfur??
Þú hlýtur að skilja að það þarf alltaf að virða ungengisreglur í annarra manna húsum.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 7.10.2018 kl. 18:46
Blessaður Halldór.
Ég sé að Pétur Örn hefur hjálpað þér með lesskilning en annars þakka ég þér fyrir tiltalið.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 7.10.2018 kl. 19:11
Blessaður Pétur Örn.
Því miður held ég að við höfum fátt lært sem þjóð, þó auðurinn hafi slípað vel til tækni sína að magna upp sundrungu og úlfúð, svo ekkert alvöru afl fái vægi til að ógna honum á nokkurn hátt.
Og á einhverjum tímapunkti verður fólk að líta í eigin barm og hætta að kenna öðrum um og slá skjalborg um þessi örfáu grundvallarmál sem skipta okkur öll máli. Þá mun engin keypt sundrung sundra Samstöðunni.
Og ég veit að þú hefur tekið eftir fordæmi mínu, mér tókst að skrifa heilan pistil um Hrunið og afleiðingar þess, án þess að hjóla í meinta mannvonsku og mannhatur þeirra sem níddust á sínum veikara bróður, og lögðu sig fram af alefli að leggja þjóðina í skuldahlekki um nánustu framtíð.
Og fyrst ég get viðurkennt að líklegast hafi svo sem fátt verið gert, sem líklegast allir svokallaðir hefðbundnir stjórnmálaflokkar hefðu gert í sömu sporum, og gerðu um alla álfu, án undantekninga, þá ættu líklegast allir að geta viðurkennt einhvern bætiflák hjá andskotum sínum.
Ekki að ég sé að réttlæta eitt eða neitt hjá einum eða neinum, en ég náði allavega að kreista þessa sanngirni út úr mér;
"Er þá allt í lagi?
Nei, vissulega ekki.
En við náum aldrei tökum á umræðunni ef við afneitum staðreyndum.
Og ekkert hefst þegar það sem miður fór er rætt, að fólk fái ekki að njóta sannmælis.".
Og ég gæti jafnvel hætt að tala um ICEsave þjófa ef svona umræða færi fyrir alvöru að stað.
Það er að fólk taki sjálft sig í gegn, ekki aðra, og segi síðan afsakið eða fyrirgefið, eftir því sem það telur ástæða til.
En sem betur fer tel ég litlar líkur á því, svona auðmýkt fer ekki vel gömlum stríðsjálkum.
Það kemur örugglega eitthvað sem fær mann til að stinga niður (stríðs)penna.
En á meðan er það friðurinn Pétur.
Vonandi eitthvað í Víkinni minni fögru ef veðurguðirnir gætu látið af sínum ófriði.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 7.10.2018 kl. 19:43
Ómar minn
hvernig get ég skilið þetta sem að Davíð sé saklaus í þínum augum.
"þá er hvergi minnst á Sjálfstæðisflokkinn eða Davíð Oddsson sem einhverja gerendur í að setja þær leikreglur sem giltu á fjármálamarkaðnum, eða aðgerðir eða aðgerðaleysi Davíðs hafi ollið hinu vestræna fjármálahruni."
Halldór Jónsson, 8.10.2018 kl. 12:41
Blessaður Halldór.
Skarplega athugað, en þér að segja þá er þessi pistill ekki skrifaður sem óður til Davíðs, eða sem vörn honum til handa. Hann er eiginlega fullfær um það sjálfur.
Þessi pistill er skrifaður til að benda á að margt sem gerðist fyrir Hrun, sem og eftir, hefði gerst óháð þeim persónum eða flokkum sem áttu í hlut. Og þér aftur að segja, þá kostað það mig mikið átak að viðurkenna þá staðreynd þegar þau skötuhjú Stingrímur og Jóhanna áttu í hlut. Þinn flokkur hefði gert nákvæmlega sama hlutinn, eða því sem næst. En gjörðir þetta skötuhjúa stóðu mér bara nærri, og þess vegna voru svik þeirra stærri biti fyrir mig að kyngja.
Síðan eru það flokksjálkar eins og þú Halldór, sem reyndu að gera rétt, sem stóðu með þjóðinni. Og enn og aftur voru það gífurleg vonbrigði fyrir mig og mínar lífsskoðanir, að þeir voru ákaflega fáir á vinstra megin við miðju.
Í mínum augum máttu Davíð og allir þínir flokksmenn vera sekari en sjálfur andskotinn, breytir samt því ekki að neyðarlögin björguðu þjóðinni, og það var ekki þáverandi ríkisstjórn að þakka, nema að Geir og Ingibjörg virtust hafa þroskann til að skilja alvöru málsins, hinir eiginlegu glæpir gegn þjóðinni og mennskunni voru framdir eftir Hrun, og það var sárt.
Og þá skal ég svara spurningu þinni, þegar fjármálakerfið féll um allan hinn vestræna heim, ekki bara á Íslandi, þá voru fyrir því orsakir, og þegar fræðimenn greindu þær orsakir, þá minntust þeir hvergi á mr. Oddsson eða Icelandic Independence party, hvorki sem áhrifavalda í að móta leikreglurnar, eða að aðgerðir þeirra, eða aðgerðaleysi hafi haft nokkuð með þetta kerfishrun að ræða. Þess vegna byrjaði málsgreinin sem þú vitnar í svona; "Í sjálfsdrýldni okkar höldum við að Hrunið hafi verið séríslenskt fyrirbrigði, það hafi verið ákveðið mönnum að kenna því þeir gerðu eitthvað, eða gerðu ekki eitthvað, og meðan svo er þá lærum við ekkert.".
Ég er alls ekki að hvítþvo neinn Halldór, get verið mjög hvass út í aðstæður fyrir Hrun. En það er aumkunarvert hlutskipti fyrir varðhunda vinstrimanna að þegja algjörlega um það sem gerðist eftir Hrun, sem var í rangt í öllum aðalatriðum, þó ég viðurkenni að staðan hafi verið þröng, og þrátt fyrir allt hafi fólk á sinn hátt viljað vel, með tilvísun í eitthvað sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi átt einn að hafa borið ábyrgð á fyrir Hrun, hvað þá þessi voðalegi maður Davíð Oddsson, sem var bara gamall pólitíkus, sem fékk að halda skálræður, en þegar á reyndi hafði tötsið til að takast á við fyrirsjáanlegt kerfishrun með því að láta undirbúa, og hafa tilbúin neyðarlögin, ég sé ekki annan geranda í því máli.
Og þegar ég segi þetta, þá tel ég mig lýsa staðreyndum, það má guð vita að ég er ekki hægri maður.
Eiginlega er ég bara að hrósa Davíð, og það hef ég gert áður.
Líka þegar hundruð lásu þetta blogg, og flestir til vinstri.
Sem eru flestir farnir, því ég tók ekki þátt í hjarðhegðun fordæmingarinnar em ekkert lærir og ekkert skilur.
Og ekkert um það að segja, maður er nú eins og maður er.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 8.10.2018 kl. 16:42
Takk fyrir þetta Ómar
Var þetta helvítis hrun ekki frekar tæknilegs eðlis en pólitískt? Þetta voru bara viðskiptalegar staðreyndir. Engin lán fengust til að framlengja og því fór allt til andskotans? Alveg sama hverskonar pólitískir blindingjar við erum báðir, þá hrundi allt spilverkið og banksterarnir okkar með AlThani og gjaldeyrisforðann stálu því sem stelandi var?
Hvert fór neyðarlánið? Hvar er aurinn? Er hann í vösunum á bandíttunum sem stýrðu Kaupþingi? Ég hef ekki fengið það útskýrt. kannt þú skýringuna?
Halldór Jónsson, 10.10.2018 kl. 06:29
Var mönnum ekki kurteislega bent á það Halldór að ef vissar skuldbindingar yrðu ekki gerðar upp, þá yrði Hitman sendur á svæðið?? Þá er ég að vísa orðróminn um tengsl við mjög svo vafasama aðila. En allavega er það dálítið spúkí að þetta skuli ekki löngu vera upplýst, það eru aðeins peningar í ferðatösku sem skilja ekki eftir sig slóð, og ég sé ekki í anda alveg þessa upphæð rúmast í slíkri tösku.
Án þess að ég sé nokkuð að frýja einn eða neinn ábyrgð á gleðigöngunni að þá augljóst að fjármálahrunið 2008 var kerfislægt, og óhjákvæmilegt. Þetta er svona og þegar þú yfirhleður bát, og heldur áfram að hlaða, þá hvolfir hann að lokum, þarf oft ekki merkilega báru til.
Við vorum alltof litlir með alltof stórt fjármálakerfi, og enga reynslu í að takast á við slíkan vöxt. Og það sem var skynsamlegt í stöðunni til að hamla vöxt þess, var algjörlega bannað samkvæmt hinu evrópska regluverki. Menn ættu hins vegar að spyrja sig af hverju féllu rótgróin fyrirtækja með yfir aldalanga sögu, eins og AIG eða bræðurnir þarna vestra. Eða svissneska eða skoska bankakerfið.
Það er staðreynd að evrópska kerfið eins og leggur sig hefði fallið ef bandaríski seðlabankinn hefði ekki opnað fyrir óheft dollaraflæði, það er hvorki Bretar eða ESB höfðu ekki bjargræði einir og sér.
Síðan veit ég ekki hvað menn stálu, vissulega reyndu menn að bjarga sér, en fyrst og síðast sogaði allt niður, og enginn gat rönd við reist. Það töpuðu sem sagt allir á þessum Hrunadansi.
Takk fyrir spjallið Halldór,.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 11.10.2018 kl. 07:46
Takk fyrir þetta Ómar við erum ekki svo langt frá hvor öðrum í skúffelsi með okkar lið þó í sitt hvorri áttinni séu.
Ég sá alltof seint hvert stefndi og tapaði skyrtunni á eigin asnaskap sem ég get bara sjálfum mér um kennt.
En það er enginn "replay takki" á lífinu og því á maður að hætta að velta sér upp úr fortíðinni og þessu helvítis hruni: Hver gerði hvað er að baki. Burt með það allt úr okkar lífi beggja. Aðeins framtíðin skiptir máli.
Nú blasir opið helvíti við þegar kommarnir í Eflingu og þessum bófafélögum ætla að rústa hagkerfinu með dellukröfum sem ekki er nein leið að uppfylla.Þessi kommakelling Sólveig Anna ætlar að fá að kála hagkerfinu á grundvelli 10 % félagsmanna. Hún getur sett þjóðfélagið í mánaða verkfall sem kostar heimilin í landinu endlausar f´ronir og þrengingar. Kerfið er sjúkt og það er kolvitlaust gefið.
Halldór Jónsson, 14.10.2018 kl. 20:32
Og ekki er hann geðslegur ráðgjafinn hann Gunnar Smári með konuna sína og myndavélina. Hann á harma að hefna úr því að kapítalisminn fór með hann í gjaldþrot eftir hina gullnu tíma með Jóni Ásgeiri. skiljanlegt að hann sé núna orðinn kommúnisti eftir það persónulega skúffelsi.
Halldór Jónsson, 14.10.2018 kl. 20:35
Ómar Geirsson, 15.10.2018 kl. 09:45
Sælir. Gaman að fylgjast með ykkur reyna að kenna hver öðrum.
Þetta er allt einfalt.
Orðið fjármálakerfi er oft misskilið.
Þetta er allt bókhald.
Við erum eins og gripir í fjósi, látum mjólka okkur.
Stjórnandinn, bústjórinn segir, farið út að vinna, og byggið upp heiminn.
Hér eru bókhaldsfærslur, peningar sem ég skapa, úr engu, handa ykkur, til að þið getið lifað, og starfað og þá þjónað mér og og byggt eignir sem þið eigið um stund.
Þegar mér sýnist að ég ætti að fara að uppskera, þá hætti ég að skrifa bókhald, og lána þá ekkert út.
Þá verður þurð á bókhaldi, peningum.
Þá dregst allt saman og menn missa vinnuna, og fyrirtækin viðskiptavini.
Þá geta hvorki fyrirtæki eða fólkið greitt af lánum sínum, og allir reyna að selja, en ég neita að búa til bókhald, lána einhverjum til að kaupa.
Þá getur þú ekki selt.
Ég læt fjölmiðla segja að nú verði að halda uppboð á eignunum, ekki gangi að aðilar komist upp með að borga skuldir sínar.
Þú, þið reynið að selja á 80%, og síðan á 50%, en ég lána engum til að kaupa.
Ég er svo góður að ég býð ykkur að taka eignirnar á 50% og að þið tapið ykkar 50% eign. Og flestir samþykkja það.
Einhverjir eru með mótþróa, og þá læt ég bjóða upp, og kaupi eignir þeirra á 2%, og fer það í kostnað við uppboðið.
Þá hafa þeir misst eignina sína og skuld mér lánin áfram.
Þegar ég hef náð flestu til mí á broti af verðmæti, læt ég endurmeta eignirnar.
Ég fjármálastofnunin, sendi út fréttatilkynningu, um að eignir mínar, hafi aukist um 500 milljarða á síðustu 5 árum.
Þú skælir, væli í nokkur ár, en gleymir fljótlega öllu.
Þá fer ég að skipuleggja nýja næstu uppbyggingu, og þá ert sáttur sem húsdýr í fjósinu.
Mikið gaman.
Gangi ykkur allt í haginn.
Egilsstaðir, 01.12.2018 Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson, 1.12.2018 kl. 09:08
Ég held að þetta hjá mér sé sönn skáldsaga, og slatti af villum, oft vantar stafi í enda, þarf að láta hreinsa óhreinindi undan tökkkunum á lyklaborðinu.
Egilsstaðir, 01.12.2018 Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson, 1.12.2018 kl. 09:19
Blessaður Jónas.
Við Halldór vorum nú aðallega að spjalla, sem oft áður, og hæfilega ósammála.
En ég kenni ekki mér eldri manni eitt eða neitt, nýt þess aðeins að skiptast á skoðunum við hann.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 1.12.2018 kl. 16:50
Þið kennið mér báðir.
Slakið til hægri og vinstri, þegar þörf er á.
Megið þið vel lifa.
Egilsstaðir, 01.11.2018 Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson, 1.12.2018 kl. 23:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.