Guðni mætir.

 

Hver þarf þá Evu Joly??

Hún vann þarft verk og gaf andófinu rödd, ég gleymi aldrei þegar hún mætti í Silfrið hjá Agli og sagði honum frá félaga sínum á Evrópuþinginu, sem hafði setið í þeirri nefnd sem setti lögin um tryggingarsjóðina sem ábyrgðust innlán fjármálastofnana á evrópska efnahagssvæðinu.  Egill tók viðtal við hann, og þar sagði hann það fullum fetum, með sjálfsöryggi þess sem þekkti regluverkið frá fyrstu hendi, enda tók hann þátt í að móta það og setja, að ef ríkisvald einstakra ríkja hefði stofnað innlánstryggingasjóðina á réttan hátt, þá væru viðkomandi ríki ekki í bakábyrgð fyrir skuldbindingum þeirra.

Þar með datt botninn endanlega úr málflutningi þeirra íslendinga sem unnu fyrir breta við að fá þjóðina til að samþykkja fjárkúgun þeirra, kennda við ICEsave.

Og þar með hætti Eva Joly að vera besti vinur vinstrimanna, og hefur ekki verið það síðan. 

Fjarvera hennar staðfestir það.

 

Rök Joly síuðust samt inní umræðuna, því þeir sem voru ekki illa gefnir í röðum vinnumanna breta, þeir hættu að fullyrða að þjóðinni bæri lagaleg skylda til að greiða ICEsave skuldir Landsbankans, heldur hömruðu á hinni siðferðislegu skyldu að almenningur ætti alltaf að borga skuldir auðs og yfirstéttar.  Þannig hefði það verið frá því í grárri forneskju, og hrein ósvinna hjá vinnandi fólki að gangast ekki undir þessar kvaðir áa sinna. 

Hinna kúguðu forfeðra sinna.  Með breiða bakið, með hina djúpu vasa þeirra sem sköpuðu auðinn en nutu hans ekki.

Og innblásturinn sóttu þeir í greinaskrif ungs sagnfræðings, Evrópusinna, sem var mjög áberandi á þessari Ögurstund þjóðarinnar þegar erlend stórveldi reyndu að fjárkúga þjóðina með dyggri aðstoð innlendra stuðningmanna sinna.

 

Sagnfræðings, sem var jafnvígur á penna sem hið munnlega orð, og nýtti rökfylgju sína til að styðja hina erlendu fjárkúgara með rökum um hina siðferðislegu ábyrgð þjóðarinnar.

Að aðeins aumur maður greiddi ekki skuldir höfðingjanna.

Að foreldrar mínir, tengdaforeldrar mínir, fólk sem mátti aldrei vamm sitt vita, og fór inná efri ár ellinnar skuldlaust við guð og menn, að það væri vanskilafólk.  Siðferðisleg lítilmenni sem fórnuðu ekki ellinni eða hagsæld barna sinna til að borga sannarleg útgjöld bresku og hollensku innlánstryggingarsjóðanna en ICEsave útibú Landsbankans í Hollandi og á Bretlandi voru að sjálfsögðu tryggð hjá þeim sjóðum.

Fólk lítilla sæva sem nýtti sér lagatæknileg atriði til að losna við að greiða hina siðferðislegu skuld sem útrásarvíkingarnir höfðu stofnað til eftir lögum og reglum hins samevrópska regluverks.

Algjört aukaatriði að þetta fólk hafði aldrei verið spurt, aldrei notið ágóðans, aldrei skrifað undir ábyrgðarvíxil höfðingjanna, eða hvað þá nokkuð sem tengdi það við skuldir breska eða hollenska innlánstryggingarsjóðanna.

Og í þeirra tilviki, aldrei kosið Sjálfstæðisflokkinn, en það var hin meginröksemd hins unga sagnfræðings.  Það að hafa kosið hinn borgaralega íhaldsflokk átti að vera fullgild ástæða fyrir ábyrgðinni, þó hvergi fyndust tengsl milli þess ágæta flokks, og hið evrópska regluverks sem gerði útrás bankanna mögulega.

 

Það þarf ekki að reifa það frekar, þessi ungi sagnfræðingur var einn af fáum sem vildi borga, í hópi um 2,5% íslendinga, sem taldi sig annað hvort siðferðislega knúinn til þess, eða þá lagalega, hlutfall hinna illa gefnu hefur aldrei verið rannsakað, og hann tók þeim ósigri illa.

Höfuðgrein hans var skrifuð eftir þann algjöra ósigur, og tónninn var að hann eins og Kristur forðum, hefði verið í minnihluta, krossfestur, en gjört rétt.  Annað en restin af þjóðinni sem hlypi frá skuldum sínum og skyldum, hefði ekki manndóm áa sinna að þræla fyrir skuldum höfðingjanna.

Svo kom dómur EFTA dómsins sem staðfesti fullyrðingar þessa vinar Evu Joly, breska fjárkúgun fjaraði út, og þjóðin naut hægt og hljótt góðæris hins sístækkandi ferðamannastraums.

Og ungi sagnfræðingurinn fór að segja brandara, brosti og sagði ekki styggðaryrði um nokkurn mann.  Endaði svo sem forseti þjóðarinnar.

 

Og Guðni hefur reynst góður forseti, alþýðlegur, og eitthvað svo mannlegur, og eins og fyrirrennari hans, líka vel kvæntur.

Hann hefur verið duglegur að ferðast um landið, og lagt sig sérstaklega fram að heimsækja hjúkrunarheimili, elliheimili og barnaheimili.

Það er fólkið sem hann ætlaði að svipta öryggi ellinnar, og börnin sem hann ætlaði að ræna framtíðinni.

Og það hefur farið vel á með fólki, ekkert skítkast um hin siðferðislegu lítilmenni sem neituðu að greiða skuldir höfðingjanna, eins og ekkert hefði verið sagt, eins og ekkert hefði verið skrifað.

 

En þöggun breytir ekki sögunni, sagan á sína tilvist óháð nútímanum.

Hann getur skráð hana, hann getur reynt að skilja hana.

Eða hann getur breytt henni, eða afneitað, skráð hana uppá nýtt.

En breytir samt engu um það sem gerðist.

 

Guðni mætir, Guðni mun tala.

Sem sérstakur sérfræðingur um Hrunið, og eftirleik þess.

Það verður fróðlegt að hlusta á hann, hvort sagnfræðingurinn kannist við fortíð sína.  Og ef svo er, hvort hann hafi kjark til að útskýra hvað þeim gekk til sem launalaust unnu fyrir breta við koma skuldaklafa auðmanna á almúgann.

Hvað þeim gekk til að gera þjóðina að skuldaþrælum?

Hann er vel máli farinn, greindur, og þekkir svikin frá fyrstu hendi.

 

Áður en við dæmum of hart, þá megum við ekki gleyma að uppreisn almennings gegn áþján og kúgun höfðingjanna er oftast dæmd til að mistakast.

Það er engin skynsemi í að styðja hana, hagurinn liggur í að gjamma fyrir höfðingjana, og fagna erlendum ofríkismönnum. Hvort sem þeir eru ótýndir fjárkúgarar eða vopnaðir innrásarmenn.

Og valdleysi fjöldans reglan.  Sem og upphefð þeirra sem í farbroddi riðu gegn réttmætum kröfum samborgara sinna.

Eðlilegt að framagjarnir ungir menn veðji á ósigur hans.  Menn verða sjaldan ríkir á að veðja á undantekninguna sem er svo sjalfgæf að hún nær varla að vera undantekning.

 

Þjóðin sigraði samt, og það ríkir velmegun svona í heildina séð á Íslandi í dag.

Ef hún hefði tapað, þá væri enginn samanburðurinn, þá væri þessi lýsing á hörmungum grísks almennings, lýsing á skuldaþrælkuðu íslensku samfélagi í náðarfaðmi ESB.

Grikkirnir risu upp gegn elítunni, gegn öllum Guðnum og Hallgrímum grísku kjaftastéttarinnar, og kusu yfir sig vinstrimenn alveg eins og við.

Sem sviku, alveg eins og hjá okkur.

En þá gáfust þeir upp, á meðan við bitum í skjaldrendurnar, en kannski auðveldara því lán þjóðarinnar var að hún var ekki fastur hluti Evrópusambandsins, heldur í svona hjáleigusambandi kennt við EES, sem þegar á reyndi dugði til að losna undan heljargreipum auðs og elítu.

 

Það sviku samt ekki allir vinstrimenn, hvorki á Íslandi eins og villikettir VinstriGrænna, eða þáverandi fjármálaráðherra gríska andófsflokksins sem þarlendur almenningur treysti til að berjast gegn auðnum og ESB.  Þetta eru hans orð í viðtali við breska blaðið Observer, hans lýsing á því sem gerðist hjá þessari vöggu vestrænnar siðmenningar, þjóðarinnar sem var krossfest á altari meints fjármálastöðugleika Evrópusambandsins.

Lýsing sem væri okkar, ef þjóðin hefði bognað.

 

" Til að viðhalda lyginni var hinni gjaldþrota Aþenu veitt stærsta lán í sögu mannkyns undir því yfirskini að verið væri að sýna Grikkjum samstöðu. Stærsti hluti þessara lána rann samstundis til þýskra og franskra banka. Til að milda reiði þýska þingsins var þetta gríðarlega lán veitt með þeim skilyrðum að því fylgdi hrottalegt aðhald fyrir grískan almenning sem setti hann í varanlega risavaxna kreppu.“

Bretland væri auðn Evrópu ef sömu aðferðarfræði hefði verið beitt þar.

„Til að átta sig á umfangi þeirrar eyðileggingar sem þessu fylgir, ímyndið ykkur hvað myndi gerast ef RBS Lloyds og aðrir bankar í fjármálahverfinu City hefði verið bjargað án aðkomu Englandsbanka. Það hefði verið gert einungis í gegnum erlend lán til ríkisins. Þau hefðu öll verið veitt með því skilyrði að laun í Bretlandi yrðu lækkuð um 40%, eftirlaun um 45%, lágmarkslaun um 30% og opinber útgjöld [NHS spending - vegna menntamála, heilbrigðismála og fleira] um 32%. Þá væri Bretland auðn Evrópu, rétt eins og Grikkland í dag.“ ".

 

Já, hvernig væri ástandið hérna??

Allavega væri Guðni ekki forseti því auðurinn launar sjaldan málaliðum sínum.

 

En Guðni er fróður.

Hann gæti útskýrt.

 

Hans er orðið.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Eva Joly mætir ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er magnaður pistill Ómar.  Takk.

Og gott að rifja upp þennan þátt Guðna Th.

Það var þagað um hann, eins og svo margt annað,

í viðhafnarkastljóssfínimannaþætti RÚV um hrunið.

En Guðni gaf í skyn í þeim þætti að bara fínimannafólkið mætti tjá sig, en ekki nöldrar, sem fór illa í m.a.s. Illuga Jökulsson

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 4.10.2018 kl. 19:03

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Hann versnaði allavega ekki þegar ég las hann yfir og leiðrétti aðeins ambögur orðalagsins.  Maður þjónar aldrei vel tveimur húsbændum á sama tíma, að hamra á lyklaborðið í kapphlaupi við eldamennsku frúarinnar,.  Þar sem frúin á síðasta orðið.

Sem og ég held að slíkt hafi ekki tekist vel hjá Guðna, og því kjósi hann  minnisleysi eða afbökun raunveruleikans þegar hann tjáir sig um þátt vinnumanna breta í ICEsave fjárkúgun þeirra.  Muni jafnvel heimfæra sigur þjóðarinnar á þeirra varðstöðu. 

Því það er nefnilega svo að þó þjóðin ynni ICEsavestríðið, þá vann fjármálamafían friðinn, endurreisti Ísland á svipuðum forendum og var fyrir Hrun, og tryggir endurritun sögunnar.  Er þar í góðum félagsskap ríkisrekinna sögufalsara um víða veröld, reyndar einræðislanda eða landa með ljóta sögu en þjóðernissinnaða valdhafa eins og í Japan.   Sem mér skilst að hafi verið ákaflega misskildir í Kína, meint innrás þerra var í raun friðarferð, og hið meinta mannfall var aðallega vegna bráðasótta og uppskerubrests, svo þegar þeir settu líkin í grafir, eða kveiktu í þeim til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu sjúkdóma, þá var því logið að þeir hefðu myrt fólkið.  Að ekki sé minnst á góðgjörðir þeirra að hlúa að fátækum einstæðum konum í Kóreu, útvega þeim fæði, klæði og húsaskjól, slíkt var kallað þvingað vændi og kynlífsþrælkun.

Já, það hefur margt verið misskilið í gegnum tíðina, og þáttur ICEsaveþjófanna ekki einsdæmi þar um.

Hvort Guðni muni ástunda slíkar söguleiðréttingar mun koma í ljós á morgun.

Eigi skal maður vanmeta samviskuna sem marga þjáir, nema þá helst siðblindingja, hann gæti lagst í Steinar í nótt, og lesið ljóðið Afturhvarf sér til gagns?

Hver veit, en leiðin heim er mörkuð skilningi á þessum orðum Steinars,

Ó, græna jörð, ó, mjúka, raka mold,

sem myrkur langrar nætur huldi sýn.

Ég er þitt barn, sem villtist langt úr leið,

og loksins kem ég aftur heim til þín.

Ég viðurkenni mína synd og sekt:

ég sveikst frá öllum skyldum heiðvirðs manns

og elti vafurloga heimsku og hjóms

um hrjóstur naktra kletta og auðnir sands.

Mitt fólk, mitt land, minn himinn og mitt haf!

Heim kemst að lokum allt, sem burtu fer.

Ég drúpi höfði þreyttu í þögn og bæn:

Þú ert ég sjálfur. Fyrirgefðu mér!

Maður veit aldrei Símon Pétur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 4.10.2018 kl. 19:45

3 identicon

Snilldarljóð og algjörlega hér við hæfi.  Já, þetta snýst allt um samvisku að lokum, og það á ekki síður við Guðna Th. Jóhannesson en aðra.  Eitt er að hjala fagurlega eftirá, og annað að glenna upp augun og þora að horfast í augu við eigin gjörðir og samvisku.  Ég veðja á að hjalið verði látið duga, sem fyrr, í HÍ sem í Kastljósi RÚV.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 4.10.2018 kl. 20:28

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Getur verið Símon, en ég vildi samt vera fugl í holti sem fær að hlusta á hjalið milli Guðna og samvisku hans.

Og það sem meira er, að ef samviskan hefði þar sigur, þá tel ég Guðna þann hæfileika mann að kunna segja frá því hjali og því uppgjöri sem því fylgdi.

Sjálfum sér til sáluhjálpar, öðrum til gagns, og þjóðinni til sátta.

En það þarf vissa stærð til þess, og það er ekki bara maginn sem stækkar með árunum, heldur líka það sem við getum kallað andlegan styrk og þroska.

Og um allflesta, jafnvel alla, má segja að á einhverjum tímapunkti voru þeir of ungir, ekki nógu stórir.

Ég ætla ekki að setja mig á háan hest hvað það varðar en ég tel mikilvægt að virða söguna, líka þá óþægilegu.

Hvernig eigum við annars að standast næstu atlögu auðþjófanna??

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 4.10.2018 kl. 21:00

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Ómar, þetta kallast að hitta hann á höfuðið.

Kveðja að ofan.

Magnús Sigurðsson, 4.10.2018 kl. 21:38

6 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Þakka þér fyrir, Ómar Geirsson. Ef ég renni huganum, aftur í tímann, í landhelgisbaráttuna, þá man ég að ég hugsaði í leið sátta, og samvinnu.

Ef til vill var hugurinn, ungur og náði ekki víddinni, aftur í tímann, og upp til fjölheima, yfir í samhengið.

Nú, ég vildi segja, að Guðni er ekki einn, í tímanum. 

Nú er að læra, læra og læra.

Útskýra fjármálakerfið, einfaldar skýringar í fáum setningum. Námsefnið verði, svona Gagn og gaman, eins og þegar við vorum að læra að lesa fyrir 80 árum.

Hver einasti læri að peningur er bókhald, og bankinn lánar aldrei neitt.

En, bókhaldið þarf að vera í lagi, og hver fjölskylda haldi sínu heimili, og húsnæði í friði fyrir svindlurum.

Allt fjárfestingarkerfið er svindl. Hugsanlega getur einhver verið þar, án þessa að smitast af því.

Einhversstaðar las ég að, ef að græddist á verðbréfunum, þá tók bankaeigandinn það, en ef það varð tap, þá mátti bankinn eiga tapið.

Þegar eitthvert fyrirtæki, er komið í klandur, þá heldur bankinn gengi þess uppi, þar til að allir aðal viðskiptamenn bankans, hafa selt bréfin, eða viðskiptamennirnir eru farnir í viðskipti hjá öðrum banka.

Bankinn, fjármálastofnunin vill alls ekki að tapið lendi hjá bankanum.

Slóð

Kreppufléttan, endurtekið

24.12.2014 | 02:29

Þegar ég segi þetta.

Peningar, seðlar.

Learn, learn, learn. Læra, læra, læra.

Egilsstaðir, 04.10.2018  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 4.10.2018 kl. 21:59

7 identicon

Sæll Ómar, mig langar til að taka undir með öðrum hér um að þetta er snilldar pistill.  Las hann upphátt fyrir konuna og henni fannst sem okkur körlunum sem höfum tjáð okkur hér:  Beittur og mjög góður pistill sagði hún og þá sagði ég að Ómar skrifaði alltaf góða pistla en stundum  snilldar pistla og þetta væri einn af þeim bestu.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 4.10.2018 kl. 23:44

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Jónas.

Ég held að heilbrigt bankakerfi byggist á gagnkvæmum hag, og í raun er það eins og hjólið var fyrir samgöngur, algjört lykilatriði í þróun nútíma efnahagslífs. Og það er með það eins og hjólið, ef það springur þarf að gera við það, og ef heldur áfram að springa, þá er eitthvað að.

Og það sem er að í dag er sýndin, hinn tilbúni heimur gerviviðskipta sem þenja út kerfið, gera það ósjálfbært, og jafnframt að einskonar krabbameinsæxli fyrir efnahagslífið.  Því meðal annars er sýndarpeningum miskunnarlaust breytt í raunpeninga og þeir notaði til að kaupa upp eignir og fyrirtæki.  En hæfnin til að búa tilbúna peninga hefur ekkert að gera með hæfnina til að reka fyrirtæki, allskonar skammtímasjónarmið ofurávöxtunarkröfurnar sýkja atvinnulífið, og síðan virðist rekstur oft snúast um allskonar fjármálabrall.

Hvort okkur beri gæfa til að skera burt krabbameinsæxlið er önnur ella.

Vonandi.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.10.2018 kl. 08:06

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið Magnús.

Vonandi var það ekki höfuðið á Guðna sem ég hitti.

Ég tel einfaldlega að fleiri þurfi að horfast í augun á gjörðum sínum en þeir sem voru samtvinna þeirri hugmyndafræði sem dansinn í kringum gullkálfinn byggðist á.

Hafi kjark til að ræða og útskýra af hverju þeir brugðust svona við og sýni svo þann manndóm að biðjast afsökunar.

Allt þetta bendingartal missekra manna á svokallað "hina" virkar hjákátlegt, er ósannfærandi.

Skilar fáu nema gagnkvæmum ásökunum, og á meðan eflist hið Svartra fjármagn og hugmyndafræði þess helsýkir samfélög okkar þar til ekki er aftur snúið.

Það voru nefnilega allir flokkar verkfæri á mismunandi stigum málsins, ekki gerendur.

Enda sjáum við að eftir lengsta hagsældarskeið þjóðarinnar þar sem allar ytri aðstæður voru henni mjög hagstæðar, og gullið hreinlega flæðir inní landið, þá eigum við ekki neitt.

Það er allt að grotna niður alls staðar.

Ryksuga auðsins eyrir nefnilega engu, og hún er á sjálfstýringu.

Ekki bara hér heldur um allan hinn vestræna heim.

Þess vegna er svo hjárænulegt að kenna hinum og þessum um Hrunið, eða hvernig brugðist var við.  Allt það sama hefði gerst þó flokkarnir hefðu víxlað um hlutverk á öllum stigum málsins.  Eina óvænta breytan var uppreisn almennings í ICEsave, og hluta til í búsáhaldabyltingunni, þó fjármagnið hafi fljótt komið þeirri byltingu í þekktan farveg sundurlyndis og hjaðninga.

Vandinn er global, hann felst í þeirri hugmyndafræði svertunnar kennda við frjálshyggju að frelsi auðsins til að mergsjúga samfélög fólks sé algilt og hafið yfir allan vafa.  Hann megi og eigi, hann er æðstur.

Þessi hugmyndafræði varð að trúarbrögðum sem ráða öllu.

Og það er í eðli svertunnar að gera allt svart.

Vilji menn betri heim, lífvænlegan heim, þá þarf að slátra þessari hugmyndafræði, þessari ómennsku.

Því þetta snýst ekki um fólk eða flokka.

Þetta snýst um lífið sjálft, og lífið þrífst ekki þegar helið setur leikreglunnar.

En á meðan er það darraðardansinn, og hann þarf að dansa.

Kveðja að ausan. 

Ómar Geirsson, 5.10.2018 kl. 08:39

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Pétur.

Skil ekki hvað þú ert að hrella saklausar konur með svona ólestri, þú veist að hér er aðeins skrifað fyrir innvígða sem nenna að fylgjast með þeirri sérstöku umræðu sem er hér á Moggablogginu.  Ég held að ég kunni ekki lengur, hafi ég þá nokkurn tímann kunnað það, að skrifa pistil um eitthvað sem skiptir máli, eða allavega mig máli, og hann hreyfi við fjöldanum.  En auðvitað er ég upp með mér með hólið, þó ég viti ekki alveg hvernig ég eigi að taka því varðandi fjöldaframleiddu títuprjónsstunguörpistla mína sem eru skrifaðir á hlaupunum til að halda lífi í blogginu á milli þeirra pistla sem segja það sem ég vildi sagt hafa. Enda er það oft þannig að ég legg miklu meiri vinnu í athugasemdakerfið, enda oft nýttur tími í það þegar friðurinn er fyrir áreiti.

En ég skil pointið Pétur, og ég skal reyna að vanda mig með þessa 1-2 pistla sem ég á eftir að skrifa um þessi tímamót.  Hinir eru eins og þeir eru, fer eftir tilefni og tíma hversu mikill sprengjukraftur verður í þeim.

En allt fer þetta eftir neistanum, hann er ekki keyptur úti búð.

Og auðkerfið er ekki að fara springa í bráð.

En það má tína að því eldsmat.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.10.2018 kl. 08:57

11 identicon

Góður pistill ein og vanalega. Mig langar að benda á nýlega frétt um að Bretar og Hollendingar fengu ca 50 milljörðum meira frá Íslendingum en þeir hefðu fengið með samningnum um Icesave. Landsbankinn átti meiri eignir erlendis en Íslendingar héldu. Þannig að Bretar og Hollendingar mega vel við una. Bretar og Hollendingar voru ekki verstir við almenning á Íslandi, heldur voru það siðlausu glæpamennirnir, hinir svokölluðu útrásarvikingar, sem ryksuguðu upp allt fjármagn og sitja nú á hundruðum milljarða í skattaskjólum á okkar kostnað. Þeir fengu að kaupa upp eignir með 20% afslætti á krónunni. Þeir sem nú eiga lóðir og íbúðir í Reykjavík, og víðar, og eru að byggja undir þrælana, t.d. í Vogabyggð (Ólafur Ólafsson). Þeir tóku 10.000 hemili frá fólki og þurrkuðu út ævisparnað margra gamalmenná með dyggri aðstoð íslenskra stjórnvalda. Þeirra sem lofuðu skjaldborg. Sem endurreisti fjármálakerfið fyrir auðvaldið en ekki fyrir fólkið, þrælana.

Margret S (IP-tala skráð) 5.10.2018 kl. 09:05

12 Smámynd: Halldór Jónsson

Já mér veitti ekki af þessari upprifjun.

Það var líka Bjarni formaður minn sem hamraði á því íslkalda mati sínu að borga síðasta afbrigðið af Icesave og taldi að það væri minni risikó að gera það en að fara dómstólaleiðina og verða kannski dæmdir til að borga enn meira.

Það voru margir sem deildu þeirri skoðun með honum. Ég man að ég var beggja blands en svo einhvernveginn hvarf þetta í þjóðaratkvæðinu með afgerandi hætti.

Og svo dæmi dómdstóllinn eins og hann dæmdi en mörgum á óvart

Halldór Jónsson, 5.10.2018 kl. 13:04

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Margrét.

Þegar ég las þessa ádrápu þína þá sá ég alltí einu myndrænt leiftur þar sem skjalmey brá fyrir og hvatt þjóð sína til dáða.

Allt mikið rétt varðandi það sem gerðist eftir Hrun, en eins og ég sagði hér fyrir ofan, þá tel ég að það hafi ekki skipt máli hvað flokkar gerðu hvað, þeir hefðu allir gert eitthvað keimlíkt, hvort sem spilagaldur stjórnmálanna kæmi þeim í stjórn, eða stjórnarandstöðu.

Það er líka rétt að bretar og Hollendingar hafi ekki verið verstir við almenning eftir Hrun, þeir reyndu það vissulega, en þar sem atlögu þeirra var hrundið, þá gerðu þeir fólki þannig séð ekki neitt.

Síðan veit ég ekki hvaða frétt þú ert að vísa í, en veit að hún er skrýtin.  Fyrsti ICEsave samningurinn, sem var hrein landráð, hvernig sem á hann var litið, hann fjallaði um ábyrgð íslenska ríkisins á öllum ICEsaveskuldbindingum Landsbankans, og af mörgu slæmum ákvæðum, var eitt sem kvað á um að ef ein afborgun hjá íslenska ríkinu, eða ríkisfyrirtækjum eins og Landsvirkjun, færi í vanskil, eða til að hindra vanskil, yrði samið um lánin uppá nýtt, þá mátti samstundis gjaldfæra allan höfuðstólinn, óháð hvað kæmi uppí hann seinna meir.

Síðan samkvæmt samningnum, var reiknað með um 85-90% endurgreiðsluhlutfalli, og útfrá þeirri forsendu voru meintar afborganir reiknaðar.  Og þar að auki var gert ráð fyrir vöxtum, sem voru reiknaðir af höfuðstól, og bara þeir einir og sér voru sirka 140 milljarðar, man ekki töluna nákvæmlega, nenni ekki að fletta uppá henni.

Þar að leiðir þá er ekkert til í dæminu að þjóðin hefði komið betur út með ICEsave.

Síðan stangast það við lög, líka í Bretlandi og Hollandi, að tryggingasjóðir innheimti hærri upphæðir en krafan að baki er. Og þú innheimtir ekki vexti af þrotabúum, ekki fyrr en allir kröfuhafar eru búnir að fá sitt.

Þar að leiðir að mér finnst það líklegt að þessi frétt sé eftiráskýring manna sem af einhverjum ástæðum hafa hag af því að falsa raunveruleikann.

Og svo öllu sé haldið til hafa, þá voru ICEsave útibú Landsbankans tryggð hjá tryggingasjóðum viðkomandi landa, og þeirra tryggingasjóðir áttu forgangskröfur í eignir LÍ, alveg eins og sá íslenski.  Þegar þær forgangskröfur voru greiddar, þá fengu aðrir kröfuhafar uppí sínar kröfur.

Að taka til sín hærri upphæðir en lög heimila, er þjófnaður, og þó bretar og Hollendingar séu ótýndir fjárkúgarar, þá held ég ekki að þeir séu ótýndir þjófar.

Ekki þannig,.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.10.2018 kl. 13:06

14 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlit þitt Halldór.

Mig minnir að þú hafir tekið af skarið og talað að lokum gegn ICEsave samningnum hinum síðari.

Hann var vissulega skárri og það mátti alveg færa rök fyrir honum, en í prinsippinu var hann rangur.

Síðan kom dómurinn, og kom ólæsu fólki á óvart.

En þeir sem lásu skýr ákvæði í lögum ESB um innlánstryggingar vissu að NOT, þýddi, ekki í ábyrgð.

EFTA dómurinn reyndi vissulega að þvæla þetta, en hann gat aldrei lögfræðilega prjónað sig framhjá skýrum ákvæðum laga. 

En mikið var Sigrún Davíðsdóttir sár þegar allir viðmælendur hennar, sem hún fékk til að hlakka yfir óförum þjóðarinnar, að þeir allir sem einn, voru teknir á brókinni, og þeir gátu ekki leynt undrun sinni.

ÉG held að konugreyið hafið meir að segja verið með grátstafinn í kverkunum þegar hún las upp dómsorðið.

En þetta er liðið, en þurfum samt að gera upp þessi mál, og fá að vita hvað gekk innlendum samstarfsmönnum breta til.

Ræða það skynsamlega, og læra af því.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 5.10.2018 kl. 13:13

15 identicon

Ekki skil ég hvers vegna Sigrún Davíðsdóttir þurfti að skæla, nóg fékk kærasti hennar, Lee Bucheit, borgað fyrir síðasta afbrigðið.  Þar gekk hver silkihúfan fram og sagði að við ættum að borga, m.a. var Vigdís Finnbogadóttir dregin fram.  En mótspilið var að önnur mætari kona, Eva Jolie sagði þá enn einu sinni að það bæri íslenskum almenningi ekki að gera.  En vafalaust mun Guðni Th. ekki minnast á það í helgimyndaklastrinu sem HÍ býður upp á um helgina.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 5.10.2018 kl. 13:38

16 identicon

Og þér að  segja Ómar, þá ríður nú sjálfur Björgólfur Thor fram og básúnar það á eyjunni.is að allt Icesave málið hafi bara verið smjörklípa og sneiðir þar, án vafa með því orðavali, að Davíð.  Það er alveg ljóst að nú skal endurskrifa alla söguna, auðræði útrásarvíkinganna í hag.  Og hvað er því betra en að hafa núna þægan forseta á Bessastöðum?

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 5.10.2018 kl. 14:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 9
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 455
  • Frá upphafi: 1412817

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 394
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband