1.9.2018 | 18:19
Gamall temur en ungur ekki nemur.
Sem er vandi Sjálfstæðisflokksins í hnotskurn.
Stjórnmál í dag snúast ekki um hugsjónir eða grundvallarprinsipp eins og sjálfstæði og fullveldi. Ef einhver á skrifstofunni í Valhöll myndi í hálfkæringi breyta nafni flokksins á bréfsefni hans úr Sjálfstæðisflokk yfir í EES flokk, þá myndi ekki nokkur hræða í forystusveit hans gera athugasemd.
Tæki ekki eftir því.
Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur fjármagnseiganda og einn úr þeirra hópi leiðir flokkinn.
Það eru hagsmunir þeirra sem skipta máli.
Og það er bara þannig að hið frjálsa flæði Evrópusambandsins er himnaríki á jörðu fyrir fjármagn og fjármagnseigendur. Í 5.000 ára sögu siðmenningarinnar finnast engin dæmi þar sem lög og reglur ríkja og ríkjabandalaga hafa verið eins aðlöguð að hagsmunum þeirra sem sýsla með fjármuni, óháð landamærum, óháð hollustu við þjóð eða ríki.
Þess vegna vilja fjármagnseigendur að Ísland sé í Evrópusambandinu, og það er aðeins vegna þess að þeim mistókst að koma landinu í fulla aðild eftir Hrunið 2008 (fellt á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í janúar 2009) að þeir sætta sig við fulla aðild án áhrifa, sem er mannamál yfir það sem EES samningurinn er í raun.
Nafnið, Sjálfstæðisflokkur, á sér síðan sögulegar skýringar frá sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar, en það eina sem tengir flokkinn í dag við þá fortíð, er að í dag, eins og þá, er hann flokkur ráðandi stétta, þá borgarastéttarinnar, í dag fjármagnseiganda.
Málið er kannski að fjármagnseigendur, sem eru fyrir löngu hættir að skilgreina sig sem hluta af þjóðinni, að þeir veðja ekki lengur á einn flokk til að gæta hagsmuna sinna. Þeir hafa Samfylkinguna, þess flokks sem hefur gert hið frjálsa flæði að trúarsetningu sinni, þeir keyptu VinstriGræna fyrir 12 silfurpeninga, og síðan nýta þeir netheima til að passa uppá unga fólkið, og fjármagna þar allskonar vitleysis flokka.
Það er meira svona hefðin sem fær þá til að púkka uppá Sjálfstæðisflokkinn, það þarf jú að vera einn hægri flokkur í vasa fjármagnsins, og síðan þarf að passa uppá gamla fólkið. Og það verður að segjast eins og er að það er leitun að betri markaðsbrellu en að láta formann flokksins bera nafn gengins forystumanns, sem var óumdeildur höfðingi og forystumaður á meðan hann var og hét, á þeim tíma sem gamla fólkið var ekki gamalt, heldur ungt í blóma lífsins, og það er þannig með ellina að nútíðin gleymist fyrst, en þeir gömlu og góðu síðar.
Og hver kýs þá ekki flokkinn hans Bjarna Ben??
Það eru eðlilegar skýringar á hinu varanlegu tapi á þriðjungsfylgi flokksins, nútíma markaðsfræði hólfar markaðinn niður og gerir út á hina svo kölluðu markhópa, og stefna sem höfðar til eldri verður seint stefna sem höfðar til hinna yngri.
Hins vegar er verra ef menn átta sig ekki á því hvernig eldra fólk, markhópur Sjálfstæðisflokksins hugsar.
Og þó markaðsbrellan með nafnið Bjarna Ben hafi virkað ágætlega til skamms tíma, þá virkar hún verr ef minningar hinna eldri eru vanvirtar.
Á þetta er Styrmir að benda, enda gamall sjálfur.
Þó unga fólkið haldi að orðið "SJÁLFSTÆÐI" sé heiti úr Íslendingasögunum, eða hugsanlega nafn á plánetu í Star Wars seríunni, að þá veit eldra fólkið hvað býr að baki. Það átti nefnilega afa og ömmur sem töldu "SJÁLFSTÆÐI" lykilatriði í sjálfsmynd sinni og þjóðarinnar. Og sú sjálfsmynd knúði fólk áfram að byggja allt úr engu.
Skóla, brýr, sjúkrahús, hafnir, vegi og velferð.
Og foreldrar þeirra drukku orðið með móðurmjólkinni, menn deildu kannski um útfærslu landsstjórnarinnar og vissulega sóttu ýmsir sér fyrirmynd í Útópíunni um fyrirmyndarlandið Sovét, en það var aðallega í nösunum, í kjarnanum snérist allt um að byggja upp innviði, að tryggja atvinnu, og gera eitthvað sem kæmi þjóðinni framá við.
Enda áður en fjármagnið náði völdum og hóf kerfisbundið rán á eigum þjóðarinnar, þá mátti segja um hvern áratug frá aldamótunum 1900, að hann var betri en sá sem leið, og alltaf var leiðarljósið, að það væri hægt að gera betur.
Þessar minningar fær enginn dauðlegur maður brotið niður, aðeins dauðinn er fær um það.
Og flokkur sem gerir út á þessar minningar, sem gerir út á gamla fólkið, hann hundsar þær ekki.
Hann leggur sig niður og gengur í Viðreisn.
Það þarf nefnilega stundum að nema af gamla fólkinu.
Spurning hvort einhver vilji sé til þess í Valhöll.
En það hefur afleiðingar ef það er ekki gert.
Það er augljóst hér á Moggablogginu að fallbyssur eru hlaðnar.
Og þeim er ekki beint út á við.
Icesave tapararnir ættu ekki að vanmeta þær.
Ekki aftur.
Kveðja að austan.
Sjálfstæðið til Brussel í smápörtum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 30
- Sl. sólarhring: 630
- Sl. viku: 5614
- Frá upphafi: 1399553
Annað
- Innlit í dag: 23
- Innlit sl. viku: 4787
- Gestir í dag: 22
- IP-tölur í dag: 22
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll Ómar,
þetta er afar góður og sannur pistill hjá þér.
Kær kveðja, Pétur
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 1.9.2018 kl. 19:10
Þú slærð sjálfum þér við í hverjum pistli.
Ert þú farinn að ausa úr kjarnanum hans Tesla?
Egilsstaðir, 01.09.2018 Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson, 1.9.2018 kl. 20:57
Takk félagar.
Gott að einhver njóti.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 1.9.2018 kl. 21:28
Hólí mólí sjitt, þetta er nákvæmlega það sem ég er alltaf að reyna segja Halldóri badmintonleikara, verkfræðingi m.m.
Þjóðlegir íhaldsmenn eiga enga samleið með nýfrjálshyggjudúddunum sem stela öllu steini léttara úr ríkisjóði
og hafa rústað innviðunum sem eldri kynslóðir byggðu upp af meikilli elju og metnaði
og innblásnir af stolti sjálfstæðis og fullveldis lands og þjóðar.
Spítala byggðu þeir í hverju byggðarlagi,
skóla, brýr og hafnir,
vegi og velferð.
Nýfrjálshyggjudelarnir leggja áherslu á að rústa öllu því gamla, sem gerði okkur stolta af landi og þjóð.
Upp með fallbyssurnar og framhlaðningna.
Nú skal blásið til orustu fyrir það sem var okkur kært og gaf okkur stolt og reisn sem fullvalda og sjálfstæð þjóð!
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 1.9.2018 kl. 22:30
Já, góður í dag, sem svo oft áður, Ómar Geirsson, verjandi fullveldis.
Jón Valur Jensson, 1.9.2018 kl. 23:06
Takk fyrir innlitið félagar.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 2.9.2018 kl. 11:37
Réttast væri að þjóðlegir íhaldsmenn tækju nú yfir völdin í Sjálfstæðisflokknum
og núverandi forystu væri bent á hún gæti hundskast í Viðreisn.
Þau Þorgerður Katrín, Þorsteinarnir Pálsson og Víglundsson
og Junior Bjarni, Þórdís Reykás og Gulli Össurarson geta búið sér þar sinn samfylkta næturstað
og keppt við Samfylkinguna, Vg og Pírata um þessi 30% sem vilja ganga í ESB.
Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 2.9.2018 kl. 14:15
Peningarnir sem þið hægriöfgakarlarnir lifið á koma að langmestu leyti frá Evrópusambandsríkjunum en þið haldið náttúrlega að þið lifið á að selja hver öðrum fisk.
Þorsteinn Briem, 3.9.2018 kl. 06:18
Um 84% af öllum útflutningi okkar Íslendinga voru seld til Evrópska efnahagssvæðisins árið 2009, þar af um 80% af öllum sjávarafurðum okkar og 90% af öllum iðnaðarvörum.
Meirihlutinn af erlendum ferðamönnum sem dvelja hér á Íslandi eru búsettir á Evrópska efnahagssvæðinu en á því svæði eru Evrópusambandsríkin, Ísland, Noregur og Liechtenstein.
Lífskjör hér á Íslandi myndu einfaldlega hrynja strax ef við Íslendingar gætum ekki lengur selt sjávarafurðir til Evrópusambandsríkjanna og þar að auki greiða þau hæsta verðið fyrir íslenskar sávarafurðir.
Í Evrópusambandsríkjunum býr um hálfur milljarður manna sem neytir árlega um tólf milljóna tonna af sjávarafurðum og árið 2006 var afli íslenskra skipa tæpar 1,7 milljónir tonna.
Þar að auki eru lágir tollar á íslenskum sjávarafurðum í Evrópusambandsríkjunum, eða 650 milljónir íslenskra króna árið 2008.
Um 65% af öllum innflutningi okkar Íslendinga var keyptur frá Evrópska efnahagssvæðinu árið 2009 og þá voru um 84% af öllum útflutningi okkar seld þangað.
Þorsteinn Briem, 3.9.2018 kl. 06:21
Gengi íslensku krónunnar hrundi þegar íslensku bankarnir og Seðlabanki Íslands urðu gjaldþrota haustið 2008 og Íslendingar í námi erlendis lentu þá í gríðarlegum erfiðleikum.
Evrópusambandsríki, til að mynda Danmörk, Svíþjóð, Finnland og Pólland, lánuðu þá íslenska ríkinu stórfé og björguðu því frá gjaldþroti.
"19. nóvember 2008:
Stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins samþykkti fyrir stundu á fundi sínum beiðni Íslendinga um 2,1 milljarða Bandaríkjadollara lán.
Íslenskt efnahagslíf þarf á fimm milljörðum dollara að halda að mati ríkisstjórnarinnar.
Sú upphæð jafngildir um 700 milljörðum króna miðað við Seðlabankagengi."
"Fra norsk side har en lagt stor vekt på et tett nordisk samarbeid om støtte til Island. I forbindelse med IMF-styrets behandling av Islands stabiliseringsprogram 19. november 2008, gikk Norge derfor sammen med Danmark, Finland og Sverige om å love at de fire landene samlet ville gi et mellomlangsiktig lån på 2,5 mrd. USD."
Norska fjármálaráðuneytið 13. mars 2009
Þorsteinn Briem, 3.9.2018 kl. 06:29
"BJARGVÆTTURIN":
Ólafur Ragnar Grímsson í London 3. maí 2005 - "How to succeed in modern business":
"No one is afraid to work with us; people even see us as fascinating eccentrics who can do no harm and therefore all doors are thrown wide open when we arrive."
"I have mentioned this morning only some of the lessons which the Icelandic voyage offers, but I hope that my analysis has helped to clarify what has been a big mystery to many."
Stórglæpamaðurinn Sigurður Einarsson einn af helstu samstarfsmönnum Ólafs Ragnars Grímssonar
20.4.2010:
Steingrímur Ari: Davíð og Halldór réðu öllu og pólitísk ákvörðun hverjir eignuðust bankana
Þorsteinn Briem, 3.9.2018 kl. 06:36
Icesave er arfleifð Sjálfstæðisflokksins.
"Icesave var vörumerki innlánsreikninga á Netinu í eigu Landsbankans sem starfaði í Bretlandi og Hollandi."
"Lykilstjórnendur í Landsbankanum á því tímabili sem Icesave varð að veruleika voru Sigurjón Þ. Árnason og Halldór J. Kristjánsson.
Í bankaráði sátu Björgólfur Guðmundsson, Kjartan Gunnarsson, Þór Kristjánsson, Þorgeir Baldursson, forstjóri Odda og einn af eigendum Þórsmerkur ehf. (sem er eigandi Árvakurs sem gefur út Morgunblaðið) og Guðbjörg Matthíasdóttir, afhafnakona í Vestmannaeyjum."
Þorsteinn Briem, 3.9.2018 kl. 06:38
Enginn stjórnmálaflokkur, sem á sæti á Alþingi, vill segja upp aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.
Og Mörlenska þjóð"fylkingin" hefur nær ekkert fylgi.
Þorsteinn Briem, 3.9.2018 kl. 07:16
Takk fyrir innlitið Steini.
Kveðja að austan,.
Ómar Geirsson, 3.9.2018 kl. 08:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.