Línur skerpast í Sjálfstæðisflokknum.

 

Í fyrsta viðtali sínu sem utanríkisráðherra lagði Guðlaugur Þór Þórðarson ofuráherslu á mikilvægi EES samningsins fyrir íslenskt þjóðfélag og kvað þann nýlendusamning vera hornstein í utanríkistefnu þjóðarinnar, jafnt nú sem fyrr.

Og vart má hann mæla án þess að koma að hinu meinta mikilvægi EES samstarfsins, nema eitthvað hefur útganga Breta úr ESB truflað þá mærð, og eitthvað virðist skipta máli að ná tvíhliða samningum við Breta, svona eins og EES samningurinn leyfir.

 

Við annan tón kveður hjá formanni flokksins í umræðum á Alþingi um nýjustu lögin sem hjálendan þarf að samþykkja, lög um afleiðuviðskipti, eða hvað þetta frelsi auðsins til að ræna og rupla venjulegt fólk heitir.

Og það verður að segjast eins og er að skarpur er Bjarni í þessum orðum sínum;

"Bjarni sagði Íslend­inga standa ít­rekað frammi fyr­ir því „í hverju mál­inu á eft­ir öðru, það er nán­ast orðinn ár­leg­ur viðburður, að Evr­ópu­sam­bandið krefst þess þegar við tök­um upp Evr­ópu­gerðir, til­skip­an­ir eða reglu­gerðir, að við Íslend­ing­ar fell­um okk­ur við að sæta boðvaldi, úr­slita­valdi, sekt­ar­ákvörðunum eða með öðrum hætti skip­un­um frá alþjóðastofn­un­um sem Evr­ópu­sam­bandið hef­ur komið sér upp en við eig­um enga aðild að.“".

Að sæta boðvaldi, úrslitavaldi og sektarákvörðunum er bein lýsing á sambandi hjálendu við yfirþjóð, svona líkt og mörg sjálfstæð ríki á dögum Rómverja þurftu að lúta, meint verndarríki Frakka á dögum Napóleons eða staða Austur Evrópu ríkja gagnvart Sovétríkjum á dögum Stalíns.

 

Það þarf kjark að mæla þessi orð og vera á sama tíma formaður Sjálfstæðisflokksins.

En það er líka ljótt að ljúga, sérstaklega að sjálfum sér eins og allur sá hópur í Sjálfstæðisflokknum sem segist berjast gegn aðild að Evrópusambandinu en er á sama tíma ákaflega fylgjandi EES samningnum.  Því EES samningurinn er í raun aðild án áhrifa, þó samlögun ágreiningsmála er látin ganga yfir hægt og hljótt, þar til jafnvel nákvæmasta rafeindasmásjá sér ekki muninn á löggjöf Íslands og löggjöf ESB.

 

Að lúta boðvaldi, að lúta úrslitavaldi, að sæta sektarákvörðunum.

Slíkt gerir aldrei sjálfstæð þjóð, en hjálendur, fylgdarríki sem eru sjálfstæð að nafninu til, gera slíkt.

Enda hafa þau verra af.

 

Þessi orð Bjarna staðfesta að það eru átakalínur í Sjálfstæðisflokknum, og það mun draga til tíðinda í flokknum, svona um það bil þegar Sigríður Andersen hrökklast úr embætti, og þá verður sótt að formanni flokksins.

Tími hefndarinnar, frá því að gengið var framhjá Guðlaugi við skipan innanríkisráðherra eftir afsögn Hönnu Birnu, mun renna upp.

 

Það er engin tilviljun að Guðlaugur sagðist i viðtali við Mbl.is að hann hygðist ekki á formannsframboð, hann væri ánægður með það sem hann hefði í dag.

Á mannamáli, það er þegar svona stjórnmálaorðavaðall er settur í þýðanda, þá segist hann vera að hugleiða framboð, aðeins eigi eftir að meta styrkinn.

Enda í næstu málsgrein réðist hann óbeint að Bjarna með því að kalla vandað stjórnarfrumvarp Ólafar Nordal, þáverandi innanríkisráðherra, um dómstóla hafi verið meingallað hvað varðar skipan dómara.

Ólöf sat í skjóli Bjarna, og núna þegar hún er fallin frá þá situr hún undir þessu ámæli frá manninum sem ætlar ekki að hjóla í formanninn í bili, "Þeir sem skoða ferlið og lagaum­hverfið kom­ist að því að þar þurfi að gera breyt­ing­ar. „Þannig að við þurf­um ekki að vera að deila um það í hvert skipti,". Og síðan; "„Málið snýr að því hvernig við skip­um dóm­ara og það er stór­mál.“ Það varði lög­mæti dóm­stóls­ins sjálfs."

Með öðrum orðum þá er klúðrið það mikið að sjálft lögmæti dómstólsins er undir.

Og Bjarni kemur henni ekki til varnar.

 

En hann brýnir kutann.

Og ætlar greinilega að sækja að Guðlaugi í gegnum ágalla EES samningsins, sem hann lýsir réttilega sem nýlendusambandi.

Sigríður fellur, það er öruggt, ekki vegna meintra handabakavinnubragða Ólafar, því það eru öfugmæli, frumvarp hennar er skýrt og vel fram sett, og enginn vafi í ferlinu um hvernig dómnefnd átti að meta hæfni umsækjenda svo ákvæði stjórnsýslulaga um að hæfustu umsækjendur yrðu skipaðir dómarar við hið nýja dómstig, heldur vegna þess að núverandi ráðherra hélt að hún hefði styrk til að brjóta lögin og flokksskipa í sum dómarasætin.

Lögbrot kasta aldrei rýrð á lög, ekki nema að um óréttlát lög sé að ræða.

Og það er ekkert óréttlæti í því fólgið að hæfni sé látin ráða skipan í stöður dómara, en ekki flokks og vinartengsl við þann einstakling sem gegnir stöðu dómsmálaráðherra í það og það skiptið.

 

Sigríður fellur og aðeins hörðustu Trumpsitar sem hafa gert það að lífsskoðun sinni að ala á staðleysum og afneita staðreyndum trúa Vörnum Valhallar um að Sigríður sé fórnarlamb sjálfskipaðar lögfræði- og dómaraklíku.

Bjarni er tilbúinn þeirri orrahríð sem mun fylgja falli hennar, þegar dvergarnir skríða úr skúmaskotum sínum.

Hann skerpir línurnar og býr sig undir átök.

 

En á meðan það má ekki viðurkenna það.

Þá halda menn áfram að skamma Albaníu.

Kveðja að austan.


mbl.is Vegið að grunnstoðum EES-samningsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Búllsjitt.  Það er búið að innleiða meginhluta EES samningsins nú þegar.  Aflétta gjaldeyrishöftum. Búið að flytja feng ræningjanna úr landi. Ekki les ég neitt nema froðusnakk úr þessum orðum Bjarna, bara ætlað til heimabrúls í Valhöll.  Kannski hann birtist nú í þætti Gísa Marteins og sýni þjóðlega þætti um slátt með orfi og ljá.  

En að sama skapi er ljóst, að það stefnir í formannsátök, miklu, miklu fyrr en seinna.  Sigríði verður fórnað.  Það mun ekki gleðja þá sem treystu Bjarna til að standa vörð um ráðherra sinn.  Hann þegir fremur um það sem felldi síðustu stjórn.  Það mun blossa upp aftur. 

Símon Jónsson frá Koti (IP-tala skráð) 13.2.2018 kl. 00:21

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Eru menn ekki með það á hreinu að EES-samingurinn hefur verið hluti af íslenskum lögum frá ársbyrjun 1994?

Séu menn ekki með það á hreinu er þeim ekki viðbjargandi í þessari umræðu.

Góðar stundir.

Guðmundur Ásgeirsson, 13.2.2018 kl. 00:25

3 identicon

Hárrétt athugað Mummi

Símon Jónsson frá Koti (IP-tala skráð) 13.2.2018 kl. 00:33

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Íslendingar vilja fylgja íslenskum lögum, ekki satt? Hvernig væri þá að byrja á lögum nr. 2/1993 ?

Skortur á löghlýðni er meginorsök flests sem aflaga fer í hérlendri stjórnskipan.

Ég skal taka þá umræðu hvar sem er og hvenær sem er!

Góðar stundir.

Guðmundur Ásgeirsson, 13.2.2018 kl. 00:41

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Strákar mínir, það vantar í ykkur allt hugarflug og víðsýni, það er hæfnin að sjá vítt út frá skynjun ykkar.

Þess vegna sjáið þið oftast það sem var, stundum það sem er, en skynjið ekki hinar hárfínu sveiflur sem enda í fiðrildasláttum.

Vissulega þyrfti ég að umorða pistilinn töluvert til að hann breyttist í alvöru fréttaskýringu sem birtist á bls. 9 í Mogganum, en mér finnst bara miklu skemmtilegra að orða hann á þennan hátt.

Þetta er svona eins og glampinn sem fær vísindamenn til að sjá eitt örskot staðsetningu rafeindarinnar á ferð sinni um kjarnann, er faktur en öllum spurningum ósvarað hvort hún var ekki einhvers staðar annars staðar á sama tímapunkti, hvort þetta hafi verið hún, hvað er eiginlega rafeind og aðrar eindir, ..., það er ein hugsanleg vissa skapar svo margar aðrar spurningar.

Og hvað sem þið haldið og hvað sem þið segið, þá fylgja svona orðum ábyrgð.

Til dæmis sú að þurfa að éta þau strax ofaní í sig aftur.

En einhver geðshræring býr að baki.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 13.2.2018 kl. 06:14

6 identicon

Minntist Bjarni á formlega afturköllun umsóknar um að Ísland gengi úr ESB?

Vitaskuld gerði hann það ekki.

En hvernig stendur á því? 

Símon Jónsson frá Koti (IP-tala skráð) 13.2.2018 kl. 09:52

7 identicon

Leiðrétt:

Minntist Bjarni á formlega afturköllun umsóknar Íslands að ESB?

Nei, Bjarni minntist ekkert á það.

Hvað veldur því?

Símon Jónsson frá Koti (IP-tala skráð) 13.2.2018 kl. 09:58

8 identicon

Ég les ekkert annað út úr þessu en að Bjarni vilji, sem fyrr, að Ísland gangi í ESB.

Hann óttast Brexit.  Bjarni væri þar hinn dæmigerði Remainer, í Lorda deildinni, Engeyingurinn, vitaskuld.

Símon Jónsson frá Koti (IP-tala skráð) 13.2.2018 kl. 10:07

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

Um 84% af öllum útflutningi okkar Íslendinga voru seld til Evrópska efnahagssvæðisins árið 2009, þar af um 80% af öllum sjávarafurðum okkar og 90% af öllum iðnaðarvörum.

Um 70% af erlendum ferðamönnum sem dvelja hér á Íslandi eru búsettir á Evrópska efnahagssvæðinu og á því svæði eru Evrópusambandsríkin, Ísland, Noregur og Liechtenstein.

Í Evrópusambandsríkjunum býr um hálfur milljarður manna sem neytir árlega um tólf milljóna tonna af sjávarafurðum og árið 2006 var afli íslenskra skipa tæpar 1,7 milljónir tonna.

Þar að auki eru nú lágir tollar á íslenskum sjávarafurðum í Evrópusambandsríkjunum, eða 650 milljónir íslenskra króna árið 2008.

Um 65% af öllum innflutningi okkar Íslendinga var keyptur frá Evrópska efnahagssvæðinu árið 2009 og þá voru um 84% af öllum útflutningi okkar seld þangað.

Þorsteinn Briem, 13.2.2018 kl. 11:18

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Fjórfrelsið gildir á öllu Evrópska efnahagssvæðinu og það felur í sér frjáls vöru- og þjónustuviðskipti, frjálsa fjármagnsflutninga og sameiginlegan vinnumarkað.

Að auki kveður samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið á um samvinnu ríkjanna á svæðinu í til dæmis félagsmálum, jafnréttis-, neytenda-, umhverfis-, mennta-, vísinda- og tæknimálum."

Þorsteinn Briem, 13.2.2018 kl. 11:30

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ísland er á Evrópska efnahagssvæðinu, er því de facto í Evrópusambandinu og enginn stjórnmálaflokkur, sem á sæti á Alþingi, vill segja upp aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.

Þorsteinn Briem, 13.2.2018 kl. 11:31

12 identicon

Las enn og aftur það sem Bjarni segir.  Það er algjörlega á kristaltæru að hann er að fylkja liði með Remainers.

Á sama tíma skrifar náfrændi hans um málið, Björn Bjarnason sem Guðlaugur Þór felldi í prófkjöri á sínum tíma,

og getur ekki leynt fyrirlitningu sinni á Brexiters og heggur sérstaklega í Boris Johnson, utanríkisráðherra Breta.

Enn skal það sagt, sem eini heiðarlegi maðurinn í Sjálfstæðisflokknum segir ítrekað, í stíl Cató gamla:

Enn hefur afturköllun umsóknar um inngöngu Íslands í ESB ekki verið afturkölluð.

Hvað veldur því?

Símon Jónsson frá Koti (IP-tala skráð) 13.2.2018 kl. 11:32

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Hugarflug strákar, hugarflug.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 13.2.2018 kl. 12:41

14 identicon

Hugarflug?

Það er ólíkt þér Ómar að þora ekki að segja hug þinn, en tala í gátum.  Hugarflug?

Bíbí og blaka strákar, Bíbí og blaka.

Kveðja að norðan.

Símon Jónsson frá Koti (IP-tala skráð) 13.2.2018 kl. 12:57

15 Smámynd: Ómar Geirsson

Æ Símon minn,hvernig lætur þú við mig hérna í flensunni.

Hugarflug já, það er nú samt ekki alveg það sama og bí bí og blaka, því það seinna róar í svefn á meðan það fyrra heldur huganum á víðlendum ævintýranna, það er þegar þú ert að svæfa börn.

Hugarflug hrjáði 2 menn sem hittust, ekki förnum vegi, því ríkisvald hins fyrra hafði haldið hinum föngnum í tugi ára.  En báðir höfðu það mikið hugarflug að þeir sáu fyrir sér frið,sem varð, báðir fengu Nóbelinn.

En margir sóttu að þeim með rökum fortíðar, sem allir kunnu uppá tíu.  Og nútíðin þannig séð staðfesti þau rök.

En framtíðin ekki, en í núinu þurfti hugarflug til að nema blæbrigði breytinganna, og sjá hvert þau gætu leitt.

Í þessu tilviki frá ófriði í frið.

Síðan þarfvist hugarflug til að falla ekki í ESB gryfju við lestur þessa pistils, heldur láta orðin leiða sig að hinu raunverulegu markmiði hans.

Sem ég persónulega tel að hafi tekist vel til.

Köttur úti mýri

..........

... ævintýri.

Hugarflug andans Símon, það er vopn okkar fátælinganna.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 13.2.2018 kl. 17:03

16 identicon

Er flensan að hrjá þig?  Hefði ég vitað það hefði ég verið friðsamari.  Óska þér góðs bata Ómar minn. 

Símon Jónsson frá Koti (IP-tala skráð) 13.2.2018 kl. 18:58

17 Smámynd: Ómar Geirsson

Þegar sá dagur kemur Símon, að við gömlu skæruliðarnir setjumst í friðarstóla, þá verður þetta blogg friðsamt.

Því þá erum við nefnilega; friðsamir.

En já því miður, flensan tók hús hjá okkur, og aðeins sá yngsti er ennþá uppistandandi. 

En ég náði hvort sem er markmiðum mínum með því að fá þessa frétt uppí hendurnar í gærkveldi, og náði að stilla upp taflmönnum mínum, í friði fyrir varðmönnum Valhallar.  Línan heldur og hún er lesin, sem er ágætt afrek á íhaldsbloggi þar sem farið er með rökum gegn áróðri flokksins í Sigríðarmálinu. 

Og tæpitungunni, ekki má gleyma henni.

Sem reyndar hefur þann galla, að fyrst ég lagði þessa vinnu á mig, að lesa lög og þingumræður, og eyða svona miklum tíma í að rífa mig, þá neyðist ég til að fylgja þessu máli til enda. 

Vonandi verður einhver flóafriður þar til Arnfríður tilkynnir vanhæfni sína (ef hún þrásitur þá er það algjör vanhæfni það er siðferðislegt skipbrot).

Þangað til kæri Símon frá Koti, þá finnur þú þér þína vígvelli, og þér er guðvelkomið að rífa þig út í eitt hérna, slíkt skerpir alltaf hugann.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 13.2.2018 kl. 22:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 995
  • Frá upphafi: 1321547

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 834
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband