Mogginn og viðtalið við nakta keisarinn.

 

Það er af sem áður var að dyggir lesendur Morgunblaðsins gátu treyst fréttaskýringum blaðsins um brennimál samtímans.  Þar sem staðreyndir voru reifaðar, farið yfir álitamál, sjónarmið kynnt og eftir lestur var lesandinn miklu nær um hvað málin snérust.  

Þessi frétt Mbl.is er líkt og blaðamaður hefði sest við leitarvél, og sett síðan niðurstöðu í blandara, þannig að það er varla ljóst hvað hann er að gefa í skyn, að hverju hann er að dylgja.

Mogganum virðist vera fyrirmunað að segja frá þeim lögum sem gilda um skipan dómara, og af hverju Sigríður var dæmd fyrir brot á þeim lögum.

Fréttamennska blaðsins er á því stigi að hún þjónar ekki lesendum blaðsins, heldur einhverjum hagsmunum sem pólitískir ritstjórar blaðsins setja á oddinn. 

Af sem áður var.

 

Flestir sem eru komnir til vits og ára, hafa annað hvort lesið, eða hlustað á ævintýri H.C.Andersen um Nýju föt keisarans.  En ævintýrið fjallar um tvo svikahrappa sem ná til að blekkja keisara einn um að ganga um alsnakinn og enginn þorir að segja keisaranum að hann sé ekki í fötum, fyrr en lítil stúlka segir í mannmergðinni, "Nei, hann er ekki í neinum fötum".

En það sem fáir kannski hugsa út í er að þetta ævintýri er ekki ádeila á þá sem láta blekkjast, heldur á þá tíma, samtíma H.C.Andersen, þar sem einvaldurinn hafði það vald að enginn þorði gegn honum.  Það þurfti litla stúlku til að segja sannleikann.  Sannleikann sem öllum var ljós, en fólk óttaðist kárínurnar ef það léti hann uppi.

Nema blaðamenn Morgunblaðsins, hefðu þeir verið á svæðinu.  Þeir hefðu trúað, því þeir gera ekki greinarmun á orðum, því sem er sagt, og raunveruleikanum, því sem er.

Þeir hefðu tekið viðtal við keisarann, og spurt, "eru fötin þín litrík og samkvæmt nýjustu tísku, við sjáum þau ekki alveg, þú þarft að segja okkur frá þeim".  Og þeir hefðu ekkert skilið í orðum stúlkunnar, og ef keisarinn hefði ítrekað fyrri skoðun sína um að hann væri í fötum, þá myndi fréttaskýring þeirra ekki fjalla um afhjúpun stúlkunnar, heldur ítrekað að keisarinn væri í fötum, og þau væru svona og svona samkvæmt lýsingum hans.

 

Það hefði líka verið auðvelt að vera dómsmálaráðherra sem hefði skipað í víkingasveitina eftir tillögu ríkislögreglustjóra, en ríkislögreglustjóri hefði farið eftir niðurstöðu inntökuprófs þar sem bæði líkamlegt og andlegt atgervi umsækjenda hefði verið kannað, ásamt þekking á þeirri sérkunnáttu sem gerð væri til sveitarmanna.

Og dómsmálaráðherra hefði farið eftir tillögu lögreglustjóra um skipan í hinar 15 stöður, nema hann hefði tekið út 4 og sett aðra 4 í staðinn, sem vissulega náðu inntökuprófinu, en fengu lægri einkunnir en þeir sem ríkislögreglustjóri mælti með.

Rök ráðherra þau að hann hefði viljað að gamalt skilyrði um lágmarkshæð lögreglumanna hefði verið haft til hliðsjónar, því hefði hannún miðað við lágmarks hæð 185cm.

Reyndar smá tæknilegur vandi við það vel rökstudda sjónarmið ráðherra, að aðeins 1 af 4 sem hún lét víkja var undir 185 cm, og aðeins 2 af 4 sem hún skipaði yfir þeirri hæð, en engu að síður vel rökstutt.

 

Þá hefði Morgunblaðið verið haukur í horni, allavega ef viðkomandi ráðherra hefði verið í Sjálfstæðisflokknum, og bent á að þó ráðherra hefði fengið dóm fyrir brot á stjórnsýslulögum að tilnefna ekki hæfustu einstaklingana, þá hefði hún rökstutt ákvörðun sína með því að vísa í lágmarkshæð 185 cm.  Og samkvæmt lögum mætti hún tilnefna aðra en þá sem ríkislögreglustjóri legði til. 

Og síðan hefði blaðið eytt orku sinni í að finna eitthvað misjafnt á ríkislögreglustjóra, hann gæti verið grunsamlegur, til dæmis hefði hann spilað badminton við föður eins af þeim sem hann mælti með.  Svo þetta líka með þá sem sömdu inntökuprófið, voru þeir ekki hlutdrægir?  Það er til dæmis skjalfest að þeir lögðu til við ríkislögreglustjóra að enginn ætti að komast í víkingasveitina nema hafa til þess fjölþætta hæfni.  Vildu þeir bara ekki ráða þessu með því að leggja til inntökupróf, sem þeir sjálfir síðan sömdu???

Ha!!, er þetta allt ekki tortryggilegt?  Eru lögin um inntökuprófið ekki bara meingölluð?? Ha!!  Ráðherra rökstuddi val sitt ítarlega, hún sagist vilja taka til hæð umsækjenda, og lagði til 185 cm í því tilviki??

Hvert er málið??

 

Já, það er af sem áður var þegar Morgunblaðið dró skil á milli pólitískrar stefnu blaðsins og almenns fréttaflutnings.

Og hægt var að treysta fréttaskýringum blaðsins.

Það er eins og blaðið telji sig ekki lengur þurfa á fjölbreytum hópi lesenda að halda, heldur skuli það vera þröngt flokksblað líkt og Þjóðviljinn forðum.

Og líkt og Þjóðviljinn forðum sem var sannarlega fjármagnaður af Kremlarvaldinu, átti það til að veitast að stofnunum lýðveldisins, þegar slíkt var talið í þágu Bóndans í Kreml, þá ræðst Morgunblaðið að hætti enskra götublaða á dómstóla og dómarastéttina.

Gerir þeim upp annarleg sjónarmið fyrir það eitt að dæma eftir lögum sem Alþingi setur og að gera kröfu til um að fagleg sjónarmið ráði skipan  dómara, ekki pólitískur geðþótti.

 

Mogganum er í lófa lagið að útskýra dóm Hæstaréttar, hvað lög hann vitnar í, og hvert eðlis brot ráðherra er.

Eins ætti það að vera ákaflega auðvelt, að þótt Sigríður hafi verið dæmd fyrir að vinna ekki heimavinnuna sína, að nýta rök hennar til að sýna framá af hverju þeir 4 sem voru látnir víkja, viku, og þeir 4 sem komu inn, voru teknir fram yfir, í fyrsta lagi þá 4 á lista dómnefndar sem var hafnað, sem og hina 18 umsækjendur sem eftir voru á lista hæfnisnefndar.

Það liggur í orðinu "rökstuðningur ráðherra" að það sé hægt að reikna út.

 

Og af hverju er það ekki gert??

Er það kannski ekki vegna þess að það er ekki hægt??

Og því betra að dylgja um þá sem ráðherra skipaði í dómnefndina, sem og aðra sem á einhvern hátt tengjast hinu opinbera nefndarkerfi, eða hafa orðið það á að tengjast Hæstarétti.

 

Ég hef lesið Morgunblaðið frá 10 ára aldri.

Ég man ekki öðrum eins ósóma í fréttaflutningi blaðsins.

 

Það er eins og DV sé ennþá meðal vor.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Mælti gegn valdi ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn eru sátt við eftirfarandi, þá verður svo að vera.

En þetta mál mun sprengja þessa ríkisstjórn fyrr en síðar, það er fleirum ljóst, en Guðlaugi Þór:

"Ein þeirra sem skipuð var landsréttardómari er frænka Bjarna Benediktssonar,

önnur náskyld Davíð Oddssyni,

þriðji er frændi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur ritara Sjálfstæðisflokksins,

fjórða er gift Brynjari Níelssyni þingmanni flokksins,

fimmti kvæntur Ásdísi Höllu Bragadóttur fyrrverandi framkvæmdastjóra þingflokks Sjálfstæðisflokksins,

og sjötti er fyrrverandi varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og svili Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur."

 

 

Símon Jónsson frá Koti (IP-tala skráð) 12.2.2018 kl. 11:08

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Og ekki má gleyma Símon tengslunum við viðskiptalífið, til dæmis að einn sætti húsrannsókn vegna Milestone eða hvað sem þessi svikamylla hét.

Flestir fóru löglega í gegn en flokkshyglin var kona Brynjars, sem er örugglega mjög hæfur dómari, þess vegna leiðinlegur blettur á æru hennar að þurfa flokksskipan, og eiginmaður samstarfskonu ráðherra til margra ára. Sú skipan er alltaf stórfurðuleg.

Og þetta er búið að vera svona frá því ég man eftir mér, og ég man langt aftur á síðustu öld, að þetta lið sem hefur hlotið atkvæði út á gagnrýni á ríkið, ríkisafskipti, og hugmyndafræði um að ríkið eigi helst að leggja niður, að það er verst þegar kemur að spillingu og vinarhygli.

Enda eina hugmyndafræði þess ÉG, og að þjóna þeim sem borga best.

Friedman var þó hagfræðingur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.2.2018 kl. 13:17

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Dæmi um þessar frétta"skýringar" Morgunblaðsins og mbl.is undir stjórn Hádegismóra er þessi "skýring" í dag:

Fullt tollfrelsi með sjávarafurðir

Hvergi í þessari "skýringu" er minnst á aðalatriðið í málinu.

Evrópusambandið hefur að sjálfsögðu engan áhuga á að fella niður alla tolla á íslenskum sjávarafurðum í Evrópusambandsríkjunum ef tollar verða ekki felldir niður á landbúnaðarafurðum frá þessum ríkjum hér á Íslandi.

Að sjálfsögðu er lítið selt af sjávarafurðum frá Evrópusambandsríkjunum hérlendis en þau eru langstærsti markaðurinn fyrir íslenskar sjávarafurðir.

Síðastliðinn mánudag:

"Innflutningur á svínakjöti jókst um 40% á síðasta ári og er nú hlutdeild þess á markaði hér á landi kominn yfir 25% en innlenda framleiðslan hefur lítið aukist á síðustu árum á sama tíma og erlendum ferðalöngum hefur fjölgað ört.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag en þar segir að þörf veitinga- og gististaða fyrir beikon í morgunmat fyrir stöðugt fleiri ferðamenn eigi þátt í því að innflutningur á svínakjöti hafi stóraukist á síðustu misserum.

Innflutningur á öðru kjöti hefur einnig aukist verulega, svo sem á nautakjötinu, en 35% aukning varð á innflutningi þess á síðasta ári."

Þorsteinn Briem, 12.2.2018 kl. 14:00

4 identicon

Það sem Mogginn er að fara í þessari frétt, er einfaldlega að Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor við Háskóla Íslands, og varadómari við Hæstarétt þegar dómurinn tók fyrir kæumál tveggja umsækjenda um dómarastöður við Landsrétt.  Afstaða hans til afskipta ráðherra af skipun dómara yfirleitt lá fyrir strax árið 2015.  Hann var því vanhæfur þegar hann dæmdi í máli umsækjendanna fyrir Hæstarétti.

Það fer einnig velá að upplýsa hér að þrír af fimm dómurum Hæstaréttar, sem dæmdu í máli umsækjendanna tveggja um dómarastöður í Landsrétti, voru vanæhæfir (í ásýnd) í málinu þar sem þeir höfðu skrifað meðmæli með einhverjum umsækjendanna um þessar sömu dómarastöður í Landsrétti.

Dæmi svo hver fyrir sig um hlutleysi og jafnvel siðferði. 

Hugtakið hlutleysi er af tvennum toga, annars vegar hlutleysi í raun, og hins vegar hlutleysi í ásýnd.  Hér að ofan er einkum verið að tala um hlutleysi í ásýnd. En hæstiréttur má ekki vera þekktur fyrir að gæta ekki beggja þessara hugtaka.  Hæstiréttur verður að gæta þess að standa jafnan upp úr öllu dægurþrasi.  Því er ákaflega óheppilegt að dómarar við réttinn séu að skrifa meðmæli fyrir vini sína, sem eru að sækja um lausar dómarastöður við önnur dómsstig í dómskerfinu

Guðlaugur Guðmundsson (IP-tala skráð) 12.2.2018 kl. 14:06

5 identicon

Vestræn siðmenning byggir að nokkru leyti á grískri.

Litla stúlkan í sögu H.C.Andersen á sér fyrirmynd í litlu stúlkunni Dike, sjálfri gyðju réttlætisins.

Sú litla stúlka klagaði í Seif þegar henni blöskraði óréttlætið og veistu Ómar, kallinn tók ætíð mark á Dike.  Hann treysti óbrigðulli réttlætiskennd hennar, því hún mælti einungis hið augljósa, sannleikann sjálfan.

Ekki veit ég á hvaða raddir ritstjórinn út í móa hlustar á, en það er ljóst að það er ekki á rödd Dike.  Það er sorglegt, þegar menn þjóna hagsmunum, fremur en réttlætinu og sannleikanum.

Símon Jónsson frá Koti (IP-tala skráð) 12.2.2018 kl. 14:07

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Símon.

Ég efa ekki að allt eigi sér eldri rætur en í þessu tilviki tel ég að H.C.Andersen hafi verið að beina spjótum sínum að einveldinu, ég fletti uppá því að sagan er skrifuð 1837 og danska einveldið var afnumið 1849, í kjölfar borgarabyltingarinnar í Frakklandi 1848.  Á þessum tíma tóku rithöfundar ríkan þátt í réttindabaráttu almennings og þá voru sögur, ritgerðir og ljóð áhrifavaldar eins og samfélagsmiðlar nútímans.

Hvað gerir þú þegar orð einvaldsins eru lög, og bjáni er einvaldur??

Þetta var sko fyrir daga Trump.

Allavega vissu skáld þá til hvers penni var.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.2.2018 kl. 14:26

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Guðlaugur.

Mér þykir þú mikill afreksmaður að fá eitthvað vitrænt út úr þessari frétt Moggans, og svo sem alveg sök sér að skrifa margar og ítarlegar greinargerðir um hlutleysi í raun og hlutleysi í ásýnd  Eins ætti banna mönnum að skrifa uppá meðmæli, jafnt fyrir vini sína sem aðra. Við hefðum þá til dæmis ekki þurft að kjósa aftur þarna síðastliðið haust.

En til að ná þessu út úr hringlanda blandarans þá þurftir þú að skauta framhjá þeim hluta ruglandans sem tengdi þetta við dæmd embættisafglöp Sigríðar Andersen.

Þú getur gert athugasemdir við hæfi dómara áður en mál er lagt í dóm, en eftir dóm gerir þú athugasemd við dómsorðið, lagatexta sem vísað er í, og hvernig þeim er beitt og svo framvegis, og svo framvegis.

En hins vegar ef þú ert að dylgja, þá getur þú tengt saman hina óskyldustu hluti.

Og þegar ég segi þú, þá er þetta bara svona almennt orðalag, og á við Moggann í þessu tilviki, en ekki þig.

Segi þetta svona að gefnu tilefni því ég rekið mig á að útúrsnúningurinn hafi verið virkjaður í Vörnum Valhallar í Sigríðarmálinu.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.2.2018 kl. 14:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 350
  • Sl. sólarhring: 703
  • Sl. viku: 5934
  • Frá upphafi: 1399873

Annað

  • Innlit í dag: 313
  • Innlit sl. viku: 5077
  • Gestir í dag: 305
  • IP-tölur í dag: 303

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband