Hvað segir Guðlaugur Þór um sjálfan sig?

 

Með þessum ummælum sínum; "„Málið snýr að því hvernig við skip­um dóm­ara og það er stór­mál.“".

 

Núgildandi lög um dómstóla nr. 50/2016 voru sett í ríkisstjórnartíð Sigmundar Davíðssonar, og þáverandi innanríkisráðherra, Ólöf Nordal mælti fyrir stjórnarfrumvarpinu.

Síðast þegar breytingar á núgildandi lögum voru rædd, í febrúar 2017, þá í ríkisstjórnartíð Bjarna Benediktssonar, þá var Sigríður Andersen dómsmálaráðherra, og ekki verður séð á hennar málflutningi að hún telji að lögin séu stórgölluð á þann hátt sem Guðlaugur Þór lýsir.

Sigríður leggur sérstaklega á að hæfni sé látin ráða niðurstöðu um hverjir eru skipaðir í stöðu dómara.   Tilefni umræðunnar var fyrirhuguð skipan dómara í Landsrétt, og þá hvort það ætti að setja einhver kynjaviðmið.  Gegn því lagðist Sigríður enda vandséð hvernig Alþingi gæti sett lög þar um því þau brjóta gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga sem leggja blátt bann við mismunun á grundvelli kynferðis.

 

Hvergi á öllum stigum sjálfrar lagasetningarinnar, eða þegar viðaukar og breytingar hafa verið samþykkt, hefur komið fram að einstakir þingmenn Sjálfstæðisflokksins telji lögin, sem ráðherrar flokksins settur, séu það sem Guðlaugur segir í dag; "sagði Guðlaug­ur Þór ferlið við skip­an dóm­ara vera meingallað".

Enda hvaða áfellisdómur er það yfir flokknum og ráðherrum hans, sem bera fulla og algjöra ábyrgð á núgildandi lögum?  Ráðherrar annarra flokka hafa hvergi komið nálægt því ferli.

Er vitsmunastig Guðlaugs ekki meir en þetta, eða er hann á ófyrirleitin hátt að hjóla í Sigríði, eða þá sérstaklega þá persónu sem var skipuð innanríkisráðherra í ráðuneyti Sigmunds Davíðs, Ólöfu Nordal, þegar allir héldu að Guðlaugur sjálfur fengi það embætti.

Með öðrum orðum er hann að vega að formanni flokksins, Bjarna Benediktssyni.

 

Vissulega er það rétt að stöðugur ófriður um skipan dómara skaðar trúverðugleika dómstóla, en sá ófriður er til kominn vegna flokkspólitískra skipana ráðherra Sjálfstæðisflokksins.

Og núverandi lög voru sett til að skipan dómara kæmist út úr þeim pólitíska vellingi.

Og það hefði verið friður i dag ef Sigríður hefði virt lögin, í stað þess að hygla, og vera dæmd fyrir þau vinnubrögð.

Eitthvað sem Guðlaugur veit, enda hrósar hann Sigríði í hárstert, enda situr Sigríður í skjóli Bjarna.  Tekin út úr goggunarröðinni, og hún af öllum manneskjum skipuð ráðherra vegna þess að hún er kona.

 

Já, þetta er spurningin, hvað er Guðlaugur að segja um sjálfan sig?

Að hann sé refur, og þá pólitískur, að hann veðji á fall Sigríðar, og muni þá sækja að löskuðum formanni flokksins.

Eða hann sé svona vitlaus.  Að hann viti ekki að það gildi skýr lög í landinu, og þau lög voru sett af ráðherrum hans eigin flokks.

Og hann viti ekki að í lýðræðisríkjum er ætíð ófriður um pólitíska skipan þvert gegn anda laga og reglna.  Hvað þá þegar lögbrot þarf til.

 

Mér finnst ekki erfitt að svara þessari spurningu, enda ekki sjálfstæðismaður og þarf því ekki að taka þátt vörnum Valhallar.

En þeir sem það gera, og hafa jafnvel Trumpvæðst, þeir gætu átt í erfiðleikum.

 

Því það er þannig að þegar þú byrjar að afneita staðreyndum, að þá hættir þér til að yfirsjást hið augljósa.

Ég held að að Guðlaugur meini þessi orð sín; "hafi hann ekki hug á að sækj­ast eft­ir vara­for­mann­sembætt­inu á kom­andi lands­fundi".

 

Það getur alveg hent á bestum bæjum að segja rétt frá.

Kveðja að austan.

 


mbl.is Málið stærra en núverandi ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kerfið er meingallað, en þar sem við bjuggum kerfið til, þá viljum við leyfa því að vera eins meingölluðu og það er, svo það þjóni því hlutverki að við getum raðað eins og okkur sýnist á ríkisjötuna.  Þar er okkar 15% kjörfylgi og við eigum í harðri baráttu um að halda þv. 

Röðum því enn meira á garðann, og sýnum okkar helsta stuðningsfólki, embættismanna- og kerfisliðinu, bankaræningjum, fjárþjófum og slíkum, að við hugsum vel um þau og hækkum laun þeirra margfalt á við almenning og helvítis smáfyrirtækjaaumingjana.  Skattleggjum pakkið í drep. 

Því við erum Sjálfstæðisflokkurinn, flokkur ríkisstéttarinnar.  Látum ekki aðra ríkisjötuflokka stela fylginu af okkur.  Röðum sem flestum á ríkisjötuna og skattdrepum hina.

Símon Jónsson frá Koti (IP-tala skráð) 11.2.2018 kl. 15:11

2 identicon

Þurfum við eitthvað að ræða lengur hvers flokkur Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn?:

"Ein þeirra sem skipuð var landsréttardómari er frænka Bjarna Benediktssonar,

önnur náskyld Davíð Oddssyni,

þriðji er frændi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur ritara Sjálfstæðisflokksins,

fjórða er gift Brynjari Níelssyni þingmanni flokksins,

fimmti kvæntur Ásdísi Höllu Bragadóttur fyrrverandi framkvæmdastjóra þingflokks Sjálfstæðisflokksins,

og sjötti er fyrrverandi varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og svili Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur."

Sorglegt, en skil vel að ESB Guðlaugur vilji láta sig hverfa um stund.

Og enn á ný minnir Styrmir Gunnarsson á sannindin

um að enn hefur aðildarumsóknin að ESB ekki verið dregin formlega til baka.

Hvað veldur því?

Hverra flokkur er Sjálfstæðisflokkurinn?

Flokkur embættismannahirðar, kerfisliðs, bankaræningja og fjárþjófa?

Þaðan kemur kjörfylgi þeirra nú orðið.  Það er sorglegt.

Símon Jónsson frá Koti (IP-tala skráð) 11.2.2018 kl. 15:30

3 identicon

"Hverra flokkur er Sjálfstæðisflokkurinn?"

Auðvelt að svara því. Á þessu kjörtimabili hefur VG sölsað Sjálfstæðisflokkinn undir sig. Á næsta kjörtímabili stjórnar einhver annar flokknum. Fyrir utan það vandamál að flokkurinn hefur verið spilltasti flokkur landsins sl. 60 ár (sem er ein af ástæðunum fyrir að ég hef aldrei kosið hann) er hitt vandamálið formaðurinn Bjarni Ben, sem veit aldrei í hvorn fótinn hann eigi að stíga og sem vonar bara að allt reddist í lokin. Sem gerist auðvitað ekki. Það er eins og ég hef alltaf sagt: "Ekkert gott í þjóðfélaginu gerist sjálfkrafa".

Pétur D. (IP-tala skráð) 11.2.2018 kl. 15:44

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Öll mannréttinda- og neytendavernd hefur komið frá Evrópu, óumbeðin og í óþökk íslenskra yfirvalda, allt frá mannvirðingarákvæðum í stjórnarskránni frá 1874 og að þessum nýjustu mannréttindadómum."

Þorsteinn Briem, 11.2.2018 kl. 16:07

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar frá 1874 og aðdragandi að setningu hennar:"

"Sérstök mótstaða var hér á landi við atvinnufrelsið enda var það talið höggva að undirstöðum hins fábreytta íslenska bændasamfélags þar sem gildandi voru strangar reglur um vistarbönd og vistarskyldu vinnufólks og lausamennska var litin hornauga.

Fyrir setningu stjórnarskrárinnar 1874 hafnaði Alþingi þannig öllum tillögum dönsku stjórnarinnar um afnám hafta á atvinnufrelsinu."

"Að ýmsu leyti gengu tillögur dönsku stjórnarinnar lengra en þær kröfur sem Íslendingar sjálfir gerðu."

"Hér á landi var við lýði fábreytt og íhaldssamt bændasamfélag sem tók hugmyndum um ýmis frelsisréttindi borgaranna fremur fálega.

"Þannig voru Danastjórn og fulltrúar hennar í raun þau öfl á Alþingi sem voru helstu boðberar aukins frjálslyndis og ýmissa frelsisréttinda á Íslandi á síðari hluta 19. aldar."

(Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands, Stjórnskipunarréttur og mannréttindi, útg. 2008, bls. 27-30.)

Þorsteinn Briem, 11.2.2018 kl. 16:17

6 identicon

Rétt Pétur D.  Sjálfstæðisflokkurinn skaffar hverjum þeim flokki sem vill skapa honum hélaða helgimynd,

allt embættimannakerfi sitt, tæknikrata sína, hlutdeildarskírteini í bankaránunum innan frá,

árskort á stjórnarfundi stórfyrirtækjanna, you name it, og allt þetta gefa þeir flokkum hlutdeild í

sem vilja með þeim í stjórn.

Þekktust eru helmingaskiptin með Framsókn, síðar Samfylkingu og nú Valdagærunum, Steingrími J.

Einu nafni nefnt:  Sjálfstæðisflokkurinn er Samstæðisflokkur spillingarinnar sem kennd er við 4-flokkinn.

Allt þetta minnir á þekktan bandarískan slagara um fiðlarann sem veðjaði við djöfulinn

en það sem fæstir vita um þá upprunalegu sögu er að fiðlarinn varð við það djöfullinn sjálfur með veðmangi sínu.

Einn heiðarlegan mann á flokkurinn þó enn

og það er sá sem sagði þetta allt vera ógeðslegt, engar hugsjónir, ekkert.  Bara viðurstyggileg valdagræðgi.

Símon Jónsson frá Koti (IP-tala skráð) 11.2.2018 kl. 16:25

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ísland er á Evrópska efnahagssvæðinu, er því de facto í Evrópusambandinu og enginn stjórnmálaflokkur, sem á sæti á Alþingi, vill segja upp aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.

Þorsteinn Briem, 11.2.2018 kl. 16:30

8 identicon

En til að svara spurningu þinni Ómar, þá tel ég augljóst að Gulli stefni á formanninn.

Hann veit sem er að Engeyingum, landshöfðingjunum, er ekkert allt of vel til hans

og það v.þ.a. hann felldi Björn Bjarnason í prófkjörsbaráttu hér um árið.

Gulli bíður færis og heldur sig nærri þeim Brexit mönnum. 

Verði Brexit að veruleika, þá mun Gulli leiða flokkinn frá Brussel til London.

Þetta eru helstu valkostirnir sem hinn svokallaði Sjálfstæðisflokkur eygir.

Símon Jónsson frá Koti (IP-tala skráð) 11.2.2018 kl. 17:56

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Þú segir það Símón.

Það gæti verið klókt af honum.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.2.2018 kl. 18:12

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið Steini.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.2.2018 kl. 18:12

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Pétur D.

Þú hefur varla skilað auðu er það ???

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.2.2018 kl. 18:13

12 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Er hann ekki bara að segja það sem allt skynsamt fólk hugsar skoði það þessa löggjöf: Hún er gölluð og það þarf að laga hana. Er málið eitthvað flóknara?

Þorsteinn Siglaugsson, 11.2.2018 kl. 18:40

13 identicon

Gulli er ekki bara að segja að löggjöfin sé gölluð, hann er að segja að löggjöf flokksins sé gölluð.

Það er einnig athyglisvert að engin óeðlileg tengsl er hægt að sjá á milli Gulla og hinna skipuðu dómara.

Hann hefur því næstum því hreinan skjöld í þessu máli,

hann potar því í löggjöf flokksins, rétt eins og hann sé að þvo hendur sínar, en sýnir um leið flokkshollustu.

Það er athyglisvert og reyndar snjallt útspil hjá honum, segist svo ekki ætla að sækjast eftir formannsstólnum.

Veit sem er að þetta mál er ekkert að fara, en endar líklegast með því að Sigríður víki.

Þá er gott að vera fjarri og hafa bent á að löggjöf flokksins hafi verið gölluð.  Flokks formannsins.

Þá verður lag að stíga fram.  Líklegast vonast Gulli til að Sigga tóri fram á haustið, helst til vorsins 2019.

Þá ætttu línur að hafa skýrst nægilega vel hvað Brexit varðar.

Þetta heitir að þykjast ekki ógna neinum, hrósa hóflega, skapa sér stöðu, bíða færis, rétt utan við en þó innan seilingar.

Símon Jónsson frá Koti (IP-tala skráð) 11.2.2018 kl. 19:18

14 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Löggjöf flokksins? Hann er ekki að tala um neina "löggjöf flokksins" enda er engin slík löggjöf til. Hvaða ímyndunarveiki er þetta?

Þorsteinn Siglaugsson, 11.2.2018 kl. 20:55

15 identicon

Sæll Ómar minn, takk fyrir eftirtektarverðan pistil.

Séð hef ég að Katrín vísar málinu frá sér, því VG fari ekki að hlutast til um ráðherraval annarra flokka, segir hún.

En hef ég misst af einhverju?  Af hverju spyr enginn Bjarna Benediktsson um málið?  Er hann ekki formaður flokksins? 

Er það þá ekki hans að svara til um það hversu sterk eða veik staða Sigríðar er í ríkisstjórninni?  Hann er formaður, er það ekki?

Hver er afstaða hans?

Mbkv., Pétur

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 11.2.2018 kl. 21:02

16 identicon

Löggjöf flokksins?  Þorsteinn, viðurkenni að það sé kannski aðeins ofmælt, eða segjum fært í stílinn. 

Þó ber á það að líta að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ráðið dómsmálaráðuneytinu lengi og eins og Ómar bendir réttilega á

þá mælti Ólöf Nordal fyrir núgildandi lögum um dómstóla nr. 50/2016 og síðast þegar breyting á þeim lögum var rædd, í febrúar 2017,

í forsætisráðherratíð Bjarna með Viðreisn og Bjartri framtíð, stjórninni sem féll, var Sigríður Andersen dómsmálaráðherra.

Og mig grunar að þú vitir, að kerfisliðið í ráðuneytunum semur iðulega lögin.  Og ráðherra mælir fyrir þeim.  Eða finnst þér það ofmælt?

Símon Jónsson frá Koti (IP-tala skráð) 11.2.2018 kl. 21:44

17 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei haft hreinan meirihluta á þingi svo ég viti. Sú löggjöf um skipan dómara sem nú er í gildi var samþykkt samhljóða með atkvæðum 46 þingmanna á Alþingi.

Löggjöf flokksins?

Akkúrat!

Þorsteinn Siglaugsson, 11.2.2018 kl. 21:53

18 identicon

Mín sýn er reyndar að á þingi sé aðeins einn flokkur, Samstæðisflokk kerfisliða og EES/ESB sinna.

Sjá nánar um það í athugasemd minni nr. 6.  

Því hefði nákvæmara orðalag verið að segja lögin lög Samstæðisflokksins, jú, akkúrat, þeir smöluðu í 46 atkvæði og bauluðu svo í kór.

En hvað um það, Gísli Marteinn, leiðinlegasti maður á jörðinni, hlýtur að fara að bjóða Bjarna aftur í kökugerð, með Guðmundi Andra.

Þá muntu sjá heilagleikann og andaktina ríkja samtryggða og sæla í ríkisútvarpi hirðarinnar.  Þá muntu gleðjast Þorsteinn minn.

Símon Jónsson frá Koti (IP-tala skráð) 11.2.2018 kl. 22:04

19 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er nú spurning hvað er leiðinlegra, Gíslimarteinn eða Guðmundurandri. Það er íhugunarefnið til að sofna út frá í kvöld kæri Símon.

Þorsteinn Siglaugsson, 11.2.2018 kl. 22:46

20 identicon

:-)

Símon Jónsson frá Koti (IP-tala skráð) 11.2.2018 kl. 22:59

21 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Þorsteinn.

Þú spyrð hvort Guðlaugur sé ekki "að segja það sem allt skynsamt fólk hugsar skoði það þessa löggjöf: Hún er gölluð og það þarf að laga hana.".

Þar sem ég er ekki alveg fæddur í gær, og kíki alltaf á pistla þína sé ég þá tengda við fréttir sem ég er að lesa, þá finnst mér það skjóta skökku við að þú skulir taka undir þessar árásir Guðlaugs á þáverandi innanríkisráðherra, Ólöfu Nordal.

Og þó ég þekki hana ekki neitt nema sem opinbera persónu, las reyndar allar minningargreinarnar sem birtust um hana í Morgunblaðinu og þær tóku í sama streng, þá held ég að glórulausa ofstækið þurfi að vera á háu stigi til að væna hana um að vera ekki skynsama, jafnvel þó maður vilji styðja Guðlaug í að hjóla í Bjarna.

Að vísu er glórulaust ofstæki eitt einkenna Trumpvæðingarinnar, þó ég hafi reyndar haldið mig við að benda á afneitun staðreynda og upphafningu staðleysa í pistli mínum um Trumpvæðingu sjálfstæðismanna, en samt á öllu hlýtur að vera takmörk.

Og það má vel vera að hinir Trumpvæddu telji allt þinglið Sjálfstæðisflokksins á þar síðasta kjörtímabili alveg laust við skynsemi, en samt verða menn að gæta að pytti rökleysunnar, Guðlaugur Þór var þá þingmaður, og ekki verður séð við umræðu málsins að hann hafi sagt stakt orð um hina meinta galla, ekki þá, og ekki í þessu viðtali heldur, frekar en öðrum viðtölum um málið.  Þú ert vitsmunavera Þorsteinn og veist því að fullyrðingar eru ekki rök.

Ólöf Nordal var þekkt að vinna sín mál í þokkalegri sátt við þingheim, og eftir að hún flutti þetta stjórnarfrumvarp, þá var það sent til allsherjar og menntamálanefndar, og þar náðist samhljóða niðurstaða, þó sumir þingmenn stjórnarandstöðunnar höfðu fyrirvara á samþykki sínu.  Unnur Brá Konráðsdóttir mælti fyrir nefndarálitinu, og varðandi hæfni dómara við Landsrétt var þetta það eina sem hún lagði til; " Á fundi nefndarinnar voru þau sjónarmið reifuð að það hæfisskilyrði að dómari sem tæki sæti í Landsrétti yrði að hafa starfað í minnst þrjú ár sem prófessor í lögum væri of íþyngjandi. Nægilegt væri að miða hæfisskilyrði við stöðu dósents. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og leggur til breytingar þar að lútandi.".

Það má færa rök fyrir að þingmenn geti verið óánægðir þó þeir beygi sig undir ráðherraræðið, en þá skyldi maður ætla að þeir tjáðu óánægju sína á einhverjum tímapunkti, annað hvort í umræðunni eða með breytingartillögum.  Ekkert slíkt kom fram í umræðu um frumvarpið og eina breytingartillagan sem kom frá óbreyttum þingmanni Sjálfstæðisflokksins var frá Vilhjálmi Árnasyni, og hún var þessi; "Orðin „Sveitarfélagið Hornafjörður“ í 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. færist aftast í 7. tölul. 1. mgr. 3. gr.".

Ekki eru ágallarnir stórir ef þetta er það eina sem þarf að breyta.

Þetta eru rök málsins Þorsteinn, en ég veit að Trumpvæddir sjálfstæðismenn virða ekki rök, þeir telja sig ekki tilheyra lengur tegundinni Homo Sapiens, hinum vitborna mannapa.  Þeir telja sig hafa fullan rétt á að bulla, og samkvæmt stjórnarskránni hafa þeir hann.  En eins og önnur hjarðdýr þurfa þeir leiðtoga, og þeir hafa fylkt sér mjög að baki Sigríði Andersen.

Það vill svo til að Sigríður Andersen hefur farið með dómsmálaráðuneytið frá 11. janúar 2017, og ef henni hefði fundist löggjöfin svona meingölluð þá hefði hún í það fyrsta sagt eitthvað í umræðunni þegar frumvarp Ólöfu Nordal var samþykkt, sem og staðið fyrir endurskoðun laganna eftir að hún varð ráðherra.

Sem og hún gerði.

Þetta sagði hún meðal annars í umræðunni um frumvarp Ólafar; "Þetta er að mínu mati sannarlega eitt stærsta mál sem liggur fyrir þessu þingi. Það er ánægjulegt að sjá hversu vel nefndin virðist, miðað við framsögu hv. þingmanns, hafa fjallað um málið og lagt sig í líma við að bæta úr því sem kann að þurfa að bæta úr."  Ég held að jafnvel órökréttasti Trumpsinninn geti lesið út úr þessum orðum að hún sé að tjá óánægju og ætli síðan að fjalla um meinta ágalla á frumvarpi Ólafar.

Og þann 27. febrúar 2017 samþykkti Alþingi "Lög um breytingu á lögum um dómstóla, nr. 50/2016, með síðari breytingum (nefnd um hæfni dómaraefna, aðsetur Landsréttar)." þar sem segir meðal annars;

"Nefnd skv. 4. gr. a laga um dómstóla, nr. 15/1998, skal meta hæfni umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn og láta ráðherra í té umsögn um umsækjendur í samræmi við 2. mgr. þeirrar greinar og reglur sem um nefndina gilda. Óheimilt er ráðherra að skipa í dómaraembætti mann sem dómnefnd hefur ekki talið hæfastan meðal umsækjenda, hvort heldur einn eða samhliða öðrum. Frá þessu má þó víkja ef Alþingi samþykkir tillögu ráðherra um heimild til að skipa í embættið annan nafngreindan umsækjanda sem fullnægir að mati dómnefndar öllum skilyrðum 2. og 3. mgr. 21. gr. laga þessara.".

Þetta var allt og sumt.  Aðeins hnykkt á orðalagi, en annars algjörlega í samræmi við frumvarp Ólafar.

Með öðrum orðum, Sigríður ber fulla ábyrgð á lögum sem utanríkisráðherra segir stórgallað, og þú segir að allt skynsamt fólk hugsi. Enda hefur Sigríður hvergi veist að þessum lögum eins og Guðlaugur gerir.

Og slíkt gera ráðherrar ekki nema þeir hugsi sér til hreyfings, ætli að hjóla í einhvern.

Þó þú sért það ungur Þorsteinn að muna ekki eftir kalda stríðinu sem ríkti milli kommúnistaveldanna tveggja, Sovétríkjanna og Kína, og vitir þar að leiðandi ekki hvað fólst í því þegar Rússar skömmuðust út í Albaníu, sem hallaði sér að Kína, en ætluðust til þess að ráðamenn í Peking tækju til sín skammirnar, þá ættir þú samt að geta lagt saman þá 2+2 að þegar ráðherra vegur að samráðherra sínum með þeim hætti sem Guðlaugur Þór gerir að þá býr eitthvað að baki.  Sérstaklega þegar viðkomandi ráðherra er skjólstæðingur formanns flokksins.

Og þegar við bætist að fyrrverandi innanríkisráðherra, Ólöf Nordal, sem meginábyrgðina ber á núgildandi lögum, var líka skjólstæðingur Bjarna, þá ættir þú að geta fengið rétt úr þessu einfalda reiknisdæmi. 

Tveir plúss tveir eru jú fjórir.

Og það er sérstakt að sjá þig taka þátt í skurðgreftrinum gegn Bjarna Ben.

En svona gröftur er jú ekki nýr þegar saga Sjálfstæðisflokksins er skoðuð.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.2.2018 kl. 09:06

22 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Stundum er það svo, eins og þú veist, að ágallar á ferlum eða reglum koma ekki í ljós fyrr en farið er að vinna eftir þeim. Þegar slíkt kemur í ljós er það auðvitað ekki árás á einn eða neinn að benda á að bæta þurfi úr.

Eins og þú veist líka mætavel þá er það rangt hjá þér að Sigríður hafi ekki gert athugasemdir við ferlið, það hefur hún gert oftar en einu sinni. Hún hefur meðal annars bent á að það sé galli á ferlinu að ráðherra sé ætlað að leggja mat á tillögu hæfisnefndar, það mat skuli vera afar ítarlega rökstutt og heildstætt, en samt fái ráðherrann ekki til þess nema tvær vikur að vinna matið.

Að lokum, og eins og þú sjálfur veist líka vel, þá voru lög þessi samþykkt samhljóða og ábyrgð á löggjöf er Alþingis, ekki ráðherra, jafnvel þótt ráðherrar leggi frumvörpin fram.

Svo mætti bæta því við, jafnvel þótt allt það fimbulfamb sé frekar kjánalegt, að það er ákaflega langsótt að lesa út úr þessum orðum Guðlaugs einhverja árás á Bjarna Benediktsson. Hann er, eins og ég hef bent á, einfaldlega að benda á það sem allt skynsamt fólk hugsar, hafi það á annað borð fylgst með þessum málum, og sé það ekki blindað af einhverjum flokkspólitískum ofsa eins og mér sýnist því miður að þú sért. Og ekki einn um það.

Þorsteinn Siglaugsson, 12.2.2018 kl. 10:26

23 Smámynd: Ómar Geirsson

Þorsteinn.

Þegar ráðherra sem hefur beitt sér fyrir að leyfilegt magn áfengis í blóði við akstur ökutækja sé lækkað, er tekinn sjálfur fyrir ölvunarakstur, þá eru það ekki rök í málinu að hann segi eftir á að það sé kjánalegt að hafa mörkin svo lág að það megi ekki keyra eftir að hafa drukkið eitt rauðvínsglas.

Og nota það sem rök fyrir því að hann hafi alltaf verið ósammála sínum eigin lögum.

Sigríður hefur hvergi, og ég skal stafa það H V E R G I lýst sig ósammála lögunum þegar þau voru tekin til efnislegrar umfjöllunar, hvorki sem þingmaður þegar hún sagði; "Þetta er að mínu mati sannarlega eitt stærsta mál sem liggur fyrir þessu þingi. Það er ánægjulegt að sjá hversu vel nefndin virðist, miðað við framsögu hv. þingmanns, hafa fjallað um málið og lagt sig í líma við að bæta úr því sem kann að þurfa að bæta úr." eða þegar hún sem ráðherra lagði til breytingu á viðkomandi lögum. 

Það er ekki fyrr en hún stóð frammi fyrir skýrum ákvæðum laganna um dómnefnd sem átti að velja hæfustu einstaklingana, sjónarmið sem hún ítrekaði sjálf að bæri gera þegar fjallað var um breytingar hennar í feb. 2017, því þau gerðu henni illmögulegt að velja ákveðna einstaklinga sem ekki voru á lista dómnefndar, án þess að brjóta lögin.

Það eru ágallarnir sem komu í ljós, og þú mátt alveg telja að það sé skynsemi að sjá að slíkt ferli sé meingallað, en þar með ertu bara að ráðast á þá sem settu lögin.  Sem og að þú deilir þeirri skynsemi með fáum.

Og það er aumur útúrsnúningur hjá þér að hafna ábyrgð ráðherra á sínum eigin stjórnarfrumvörpum með þeim rökum að það þurfi fleiri atkvæði en hans til að frumvörp verði að lögum frá Alþingi.

Það er mikil staðleysa.

Og hvorki Bjarni eða Guðlaugur eru bjánar.

Guðlaugur veit undan hverjum hann er að grafa.

Og Bjarni veit það líka.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.2.2018 kl. 11:02

24 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég held að það sé alveg tilgangslaust að rökræða við þig. Það sýnir þetta nýjasta innlegg þitt svo ekki verður um villst.

Þorsteinn Siglaugsson, 12.2.2018 kl. 11:18

25 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Pétur Örn.

Það er margt með ólíkindum í þessu máli.

Til dæmis hefur Sigríður aldrei verið spurð af hverju hún komst að sinni niðurstöðu út frá rökstuðningi hennar um að láta dómarareynslu hafa aukið vægi.

Hve mikið vægi??  Og hvernig samræmist það skipunarbréfi dómnefndar sem kveður á um að meta fjölbreytta reynslu, til dæmis er hæpið að maður sem hefur eytt stærstum hluta starfsferils síns að dæma vegna brota á umferðarlögum, eða öðru slíku, sé sjálfkrafa hæfur til að kveða upp dóma á æðra dómstigi. Þarf ekki eitthvað meira til??

Og síðan, að því gefnu að hún ákvað að gefa dómarareynslu aukið vægi, hvernig komst hún að þessari niðurstöðu??  Það er eins og fólk skilji ekki hvað felst í orðalaginu; "aukið vægi".  Setji samansem merki milli þess og að eitthvað skuli ráða.

Enginn spyr Sigríði, "og hver var svo reikniregla þín", en hún varð að nota slíka reiknireglu fyrst hún gekk í meginatriðum út frá vinnu dómnefndar.

Það er eins og enginn blaðamaður hafi lokið grunnskólaprófi í stærðfræði.

Síðan eiga menn að spyrja, eins og þú bendir réttilega á, af hverju þegir Bjarni?'

Af hverju styður hann ekki sinn ráðherra. 

Það er enginn stuðningur að éta upp röksemd ráðherra um "aukið vægi dómarareynslu" þegar sá rökstuðningur var dæmdur ófullkominn.

Síðan spyr enginn hvernig dómari getur setið í Landsrétti, með þann stimpil á bakinu að vera aðeins hæfur, en ekki hæfastur, þegar skýr lagatexti kveður á um að ráðherra skuli skipa hæfasta, ekki hæfan í embættið.

Hver er trúverðugleiki dómsins??

Og hvað gerist ef Hæstiréttur kemst af þeirri niðurstöðu að dómari verður að víkja því annars skaði það trúverðugleika þess dóms sem rétturinn kemst að.  Sbr. krafan um að Arnfríður víki.  Hún er kannski sú sem nýtur mesta vafans, en hinir þrír eru alltaf fyrir neðan aðra hæfari.

Menn gleyma því alltaf, að ef skipan dóms stenst ekki skýran lagatexta, þá eru ólög forsenda sjálfs dómskerfisins. 

Hvernig er hægt að dæma aðra fyrir að fara ekki eftir lögum, þegar þú gerir það ekki sjálfur??

Þetta er kviksyndi spillingarinnar Pétur, og aðeins er spurning hve margir vilja sökkva með Sigríði.

Hún er allavega ekki einsömul.

Ósóminn á sér marga stuðningsmenn.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.2.2018 kl. 11:34

26 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Þorsteinn.

Yfirleitt hafa menn vit á að þegja þegar þeir eru rökþrota.

En á öllu eru undantekningar.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.2.2018 kl. 11:35

27 identicon

Sæll, Ómar.

Ef ég segist aldrei hafa kosið Sjálfstæðisflokkinn, þá gerir þú umsvifalaust ráð fyrir því að ég hafi skilað auðu. Nei, ég reyni alltaf að kjósa einhvern flokk í öllum kosningum ef ég er staddur (búsettur) á landinu þegar kosningar eru. Ég get líka hreykt mér af því að hafa aldrei nokkurn tíma kosið landráðaflokkana, þá sem vilja sölsa landið undir 4. ríkið (ESB) né þá flokka sem vilja galopna landið fyrir herskáum villimönnum (í flestum tilfellum eru þetta sömu flokkarnir, sem um ræðir). Í stuttu máli, ég hef aldrei kosið VG, Samfylkinguna, Viðreisn, Pírata, BF né Bezta (les: versta) flokkinn. Ég hef heldur aldrei kosið Framsókn, en þó kaus ég Framsókn og flugvallarvini í síðustu borgarstjórnarkosningum, því að ég var alveg sammála Sveinbjörgu. En það sýndi sig svo að "Framsókn" í nafni flokksins var til trafala og eyðilagði flokkinn.

Ég kýs yfirleitt litla flokka. Árið 2009 kaus ég Borgaraflokkinn, því að hitt draslið var einskis virði. En hvað gerðist? Ég var svikinn af þessum þremur vitleysingum sem voru kosnir inn. Árið 2017 kaus ég Flokk fólksins, en hvað gerist? Í fyrstu atkvæðagreiðslunni greiða þeir atkvæði með Píratavitleysingunum sem voru að mótmæla því að Bandaríkjamenn viðurkenndu hina réttmætu höfuðborg Ísraels. Svo að sá flokkur fær ekki mitt atkvæði aftur né þeirra sem ég mælti með flokknum við.

Pétur D. (IP-tala skráð) 15.2.2018 kl. 14:49

28 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir þetta Pétur.

Þar sem þú ert gegnheill íhaldsmaður af gamla skólanum, þá datt mér ekki í hug að þú hefðir fundið þér valkost, var reyndar búinn að gleyma Borgaraflokknum sem valkosti fyrir hægri menn.  En mig minnir að hann hafi verið valkostur á tíunda áratugnum, síðan tók náttúrulega Frjálslyndi flokkurinn við.

Það er vel gert að kjósa Flokk fólksins.

En best að öllu er að kjósa eftir sannfæringu sinni, hvert svo sem atkvæði okkar fer.

Fyrst er heimurinn orðinn hættulegur ef allir hugsa eins.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 16.2.2018 kl. 07:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 33
  • Frá upphafi: 1318297

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband