Hvaða hagsmuni er verið að vernda??

 

Hví leika sjálfstæðismenn þennan skollaleik dag eftir dag að gera fórnarlömb tortryggileg, að koma sök á þann sem brotið var á?

Að gera aukaatriði að aðalatriði, að gera aðalatriði að þagnaratriði.

Sem ekki má ræða.

 

Og hver eru aðalatriði málsins, hverjar eru þær grundvallarspurningar sem almenningur krefst svara um?

Í það fyrsta; af hverju sá réttarkerfið ekkert athugavert við að lögmaður, sem sætti rannsókn vegna kynferðisbrota gagnvart ólögráða unglingum, gæti gengið inní réttarsal, og haldið uppi vörnum fyrir aðra meinta barnaníðinga??

Hversu samdauna þurfa menn að vera óhæfunni til að láta slíkt viðgangast?

Og vörnin felst ekki í að enginn sé sekur fyrr en sekt er sönnuð.

 

Í öðru lagi, af hverju fær maður sem ekki hefur sýnt vott af iðrun eða betrun af neinu tagi, sjálfkrafa uppreisn æru svo hann geti til dæmis haldið áfram að verja kollega sína ef honum býður svo.

Á fjöldamorðingi að geta nýtt faglega þekkingu sína til að hjálpa öðrum fjöldamorðingjum að sleppa við ákæru eða dóm??

Líklegast þætti flestum það óeðlilegt, en hvar liggja mörkin??

 

Og kerfið á að þola þessa umræðu, allir stjórnmálaflokkar eiga þola þessa umræðu.

Alla leið.

Undanbragðalaust.

Án þess að hún sé afvegleidd, eða dylgju og útúrsnúningum sé beitt til að þagga niður sársaukann sem knýr hana áfram.

Það er liðin tíð að ættlausum sé sagt að þegja, jafnvel þó auðurinn sé langt kominn með að endurreisa þá tíð.

 

Brynjar Níelsson var hýddur opinberlega í morgun, átti þá hirtingu skilið, og fátt meir um hans aumu aðkomu að segja.

Öllu alvarlegri er skollaleikur Bjarna Benediktssonar að draga látna manneskju inní umræðuna, til að styrkja þöggunina, með því að gera algjört aukaatriði málsins, hver skrifaði undir beiðnina til forseta um hina sjálfkröfu æruuppreisn, að dramatísku útspili svo fólk þegi í stað þess að spyrja.

 

Ég hef leitt þessa umræðu hjá mér, er ekki á mínu sviði, og bloggsíðan þar að auki í sumarfríi, en ég gat ekki þagað þegar Bjarni taldi sig getað þaggað umræðuna með útspili sínu, og spurði kurteislega hve aumt gæti íhaldsfólk orðið að skýla sig bak við látið fólk.

Og þau mörk virðast ekki ennþá vera þekkt, því þegar atburðasmiðirnir kynntu undir skollaleik Bjarna, þá tók margurinn tilbúningi  þeirra fegins hendi.

 

Þess vegna rataði inná feisbóksíðu mína tengill á grein í Viðskiptablaðinu eftir einn af leigupennum auðsins, sem yfirleitt er nýttur til að réttlæta sjálftökukerfi hinna Örfáu, en var kallaður til að verja sitt fólk.

Eins og eitthvað væri þarna falið sem þyrfti að hylja, einhver gjörð sem þyrfti að verja.

"ÆRAN" hét greinin og þar var Sesar tekið á málið, sóknin fólst í að krefja ríkisútvarpið afsökunar fyrir að hafa tengt Bjarna Benediktsson við málið.  Krafa sem væri vissulega réttmæt, ef fréttamenn Ruv hefðu haft undir höndum undirskrifað skjal með öðru nafni en Bjarna, en annars út úr kú.

Því þegar öllum efnisatriðum málsins er haldið leyndum, og hvern staðreyndarmola þarf að kreista út úr kerfinu með stöðugum þrýstingi umræðunnar, þá bera þeir ábyrgðina sem leyna, ef eitthvað er ekki rétt með farið.

 

En hina úthugsuðu lágkúru sem fram kemur í þessum orðum, fær ekkert réttlætt, og þeir sem undir hana taka, hafa ekki ennþá komist að því hve lágt þeir geta lagst, hve aumir þeir geta orðið;

 

"Þetta er einstaklega aumt allt, því þarna hefur Bjarni verið borinn óbeinum sökum, sem hann hefur hvergi fengið tækifæri til þess að bera af sér með beinum hætti; röngum sökum um staðreyndir, sem einstaklega auðvelt er að komast að og staðreyna. Einmitt það er hið sérstaka hlutverk fjölmiðla.

Má þó öllum ljóst vera að Bjarna er óljúft að „bera af sér sakir“ um þetta, því aðkoma ráðherra að þessum málum er aðeins formleg, en með því að varpa því af sér væri hann óbeint að skella skuldinni á hina látnu vinkonu sína. Um mál, sem honum kom ekki við, hann kom ekki að og er síðan borið á brýn að hann vilji forðast umræðu um aðkomu sína!".

 

Byrjum á staðreyndavillunni, það er ekki fjölmiðla að upplýsa almenning um hvað stjórnkerfið aðhefst, við búum í lýðræðisríki þar sem í gildi eru lög um upplýsingaskyldu, því það eru jú við almenningur sem eigum og fjármögnum almannavaldið og stofnanir þess.

Það var ekkert óeðlilegt við að þessi misskilningur hafi orðið því Ólöf var mikið fjarverandi vegna veikinda sinna, en það var óeðlilegt að innanríkisráðuneytið skyldi ekki strax upplýsa um staðreyndir og þann vinngang sem hefð var á í afgreiðslu sambærilegra mála, fréttatilkynningar hafa verið gefnar út af minna tilefni. 

Hins vegar er það absúrd að halda því fram að forsætisráðherra þjóðarinnar hafi ekki þau ítök að hann hafi ekki getað beðið innanríkisráðuneytið að upplýsa um staðreyndir, eða hann hafi ekki þá andlegu vitsmuni að geta sagt það sjálfur að hann hafi ekki verið starfandi innanríkisráðherra þegar kerfið afgreiddi sjálfkrafa æruumsóknina.

Það er enginn Donald Trump í þessu máli.

 

Hin algjöra lágkúra er síðan þessi setning; "en með því að varpa því af sér væri hann óbeint að skella skuldinni á hina látnu vinkonu sína.".

Hvar liggur sökin??, um hvað skuld er verið að ræða??

Í hverju er hinn meinti glæpur Ólafar fólginn??

Hvað var að því að upplýsa um staðreyndir málsins?, og um þann vinnugang sem lengi hefur viðgengist í svona málum, og taka umræðuna um að hvort það sem einu sinni þótti eðlilegt, sé endalaust eðlilegt því tímarnir breytast og samfélögin með?

Í stað þess að byrja blaðra um einhverja fyrirgefningu sannarlegra fórnarlamba manns sem sannarlega hefur enga iðrun sýnt.

Hafi einhvern skugga borið á minningu Ólafar vegna þessa máls, þá óf Bjarni þau leiktjöld sem skuggann gáfu.

 

Og gleymum því aldrei að Ólöf ber enga ábyrgð á hvernig umræðan þróaðist, hún var ekki meðal vor þegar sársauki aðstandanda fórnarlamba Róberts braust fram þegar þeim ofbauð hvernig kerfið brást við umsókn hans um uppreisn æru.

Gleymum því aldrei að þau hafa spurt, beðið um skýringar, beðið um upplýsingar, en þau hafa ekki dreift dylgjum, ástundað útúrsnúninga, kastað skít eða leikið skollaleik í þessu máli.

Ekki heldur Ólöf.

Hún kemur ekki þessum málum við, hefur aldrei komið þessu máli við.

Hún var, hún er ekki.

 

Og sársaukinn dró hana ekki inní umræðuna.

Það voru verjendurnir.

Það voru verndararnir.

 

Svo aftur er spurt.

Hvað er verið að vernda??

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 


mbl.is „Okkur langar að sefa ótta þinn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Snilldarpistill Ómar.

M.b.kv.

Sigurður Kristján Hjaltested, 10.8.2017 kl. 14:20

2 identicon

Brynjar ropar því upp úr sér að fjöldi níðinga hafi fengið uppreisn æru en að enginn hafi sagt neitt þá. Og niðurlægir síðan sjálfan sig með því að gefa sterklega í skyn að úr því svoleiðis hafi það verið áður fyrr - sé einboðið að hafa það þannig áfram - að enginn segi neitt. Semsagt þöggun. Já þetta er þöggun mister þingmaður. Góðu fréttirnar eru auðvitað að hann er síðasta kynslóð þingmanna af þessum gamla (þöggunar)skóla. Þessi tugga; Hvern varðar um það hvað blabla... verður tuggin á dvalarheimilinu milli máltíða og vonandi njóta hlutaðeigendur vel og lengi. Tyggið þöggunartugguna.  

jon (IP-tala skráð) 10.8.2017 kl. 14:45

3 identicon

Já, það er absúrd 

"að halda því fram að forsætisráðherra þjóðarinnar hafi ekki þau ítök að hann hafi ekki getað beðið innanríkisráðuneytið að upplýsa um staðreyndir, eða hann hafi ekki þá andlegu vitsmuni að geta sagt það sjálfur að hann hafi ekki verið starfandi innanríkisráðherra þegar kerfið afgreiddi sjálfkrafa æruumsóknina."

Já, það er absúrd og spurning þín Ómar á því fullan rétt á sér:

"Hví leika sjálfstæðismenn þennan skollaleik dag eftir dag að gera fórnarlömb tortryggileg, að koma sök á þann sem brotið var á?

Að gera aukaatriði að aðalatriði, að gera aðalatriði að þagnaratriði.

Sem ekki má ræða."

Já, hvað viðgengst eiginlega í stjórnarráði Bjarna Benediktssonar sem ekki má tala um og upplýsa á hreinskilinn hátt?

Og fyrir hverja er eiginlega það stjórnarráð sem kýs sér að þagga mál niður og klína "sökinni" á dána manneskju

sem glímdi við erfiða baráttu við krabbamein á sama tíma?  Og segja að svo skuli böl bæta með því að benda á

(hugsanlega) annað verra.  Hvílíkir vesalingar!  Hversu lágt geta eiginlega "sjálfstæðis"menn dagsins í dag lagst?

Hversu lágt geta Bjarni Benediktsson og Brynjar Níelsson eiginlega lagst?  Lágkúra þeirra er nú þegar orðin algjör.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 10.8.2017 kl. 16:27

4 identicon

Afsakið herrar mínir, en við búum í réttarríki og í þessu máli hefur verið unnið eftir núgildandi lögum eins og áður.  Hvorki klíningur né þöggun. Skv. beiðni Dómsmálaráðherra er að hefjast vinna við að breyta þessu ferli og lögum.  Hvað græðið þið á því að spýta svona í öll horn og hneykslast? Pólitísk heift?  Það gerir ykkur að minni mönnum. 

Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 10.8.2017 kl. 20:24

5 identicon

Sæl Sigrún, svo ég svari fyrir mína hönd þá er ég ekki flokksbundinn og engin pólitík, hvað þá heift, sem ræður minni athugasemd.

Það eina er að mér blöskrar lágkúra Bjarna og Brynjars í þessu máli.  

Tel að enn sé hér málfrelsi og þeir séu öllu minni menn sem þegja og já, hafa klínt "sökinni á Ólöfu Nordal, þá mætu konu.

Og fara nú undan í flæmingi og/eða bendi á eitthvað verra og telji sig þannig böl bæta.  Slíkt er nauðvörn lítilla manna. 

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 10.8.2017 kl. 20:46

6 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Ómar. Tökum Ólöfu Nordal strax út úr umræðunni, því mikið sjúk manneskja í embætti, sem farin er yfir móðuna miklu frá glæpasamfélagi, er ekki til frásagnar. Og kannski var það þess vegna sem Bjarni vildi ekki fara í smáatriðin? Ég veit ekki. En skil að það gæti hafa verið erfiður þröskuldur fyrir Bjarna í fjölmiðlaumræðunni. Mér hefði fundist það erfitt, þegar ég reyni í fáfræði minni að setja mig í hans spor í fjölmiðlastýrðri umræðunni.

Það er alvarlegt ef einhver þarf lögmann til að verja sig gegn siðlausum og glæpsamlegum lögbrotum á Íslandi, að þá er hér nánast sagt berum orðum af Brynjari Níelssyni fyrrum formanns lögmannafélags Ísland, að verri glæpir hafi nú verið framdir, og þess vegna ekki þörf að taka á þessu máli, frekar en þá? Og þeir sem eigi að gæta siðmenntaðs réttlætis þurfi eiginlega ekki að vera vandaðri né heilbrigðari siðferðislega né andlega, heldur en aðrir í manns sorps samfélaginu?

Ja, þá virðist það vera þannig að ef einstaklingur sem þarf siðaðra ríkja lögmanns/dómsréttarhalds-vernd, en er ekki sjálfur lögmaður í siðlausra manna/kvenna lögmannafélaginu dómstólastýrða á Íslandi, þá eigi einstaklingurinn ekki von til að fá lögmanns/dómsstólanna réttarríkis siðmenntaðra lagameðferðar vernd?

Þetta er ekki verjandi viðhorf, af hálfu manns sem er lögmaður og starfandi á löggjafaþingi í siðmenntuðu réttarríki. Hefur honum verið hótað? Eða er hann bara svona siðblindur sjálfur?

Eða hvað á maður að halda?

Brynjar Níelsson og miklu fleiri embættanna kúgandi valdapostular mafíunnar verða bara að skilja muninn á heilbrigðu réttlætisins réttarríki, og óheilbrigðu óréttlætisins dómstólastýringar-mafíuríki.

Hver er annars tilgangur svokallaðra réttar-ríkjanna, samkvæmt dómsstóla/lögmanna-niðurstöðum yfirleitt hér á þessari plánetu?

Það hlýtur að vera ólöglegt að veita sjúkum og iðrunarlausum afbrotamanni aftur rétt til að starfa við lögmannsverkefnanna störf og vernd, gegn ólöglegum afbrotamönnum?

Það er ekki í boði í svona háttsettri valdastétt sem lögmannastéttin raunverulega er, að gera svona lögmannsréttinda endurheimtar-tilraunir með iðrunarlausan mann, sem framdi glæp sem enginn lögmaður á að komast upp með að fremja án þess að missa endanlega réttindi til þeirrar starfsgreinar! Það finnast fleiri störf á Íslandi, og þar verður þessi maður að finna sína hillu og ekkert sem bannar honum það.

Eða á kannski að gera "spennandi" tilraunir á kostnað varnarlausra barna, með að prófa hvort hann misnoti fleiri börn? Hvers konar siðblind og lögmannastýrð glæpamennska er þetta eiginlega á réttindum barna hér á Íslandi?

Er það ekki skylda lögmanna að vera umfram allt annað fólk: siðvandaðir, heiðarlegir og heilbrigðir í öllum sínum verkum? Og ekki síst gagnvart þeim sem eru varnarlausastir og viðkvæmastir? Börnin!

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 10.8.2017 kl. 20:59

7 identicon

Það er lítilla manna siður að trúa því versta upp á náunga sína Pétur Örn.  Reyndu aðeins að skilja gildandi lög og tímaröð þessa máls og sjá að það er engin klíningur eða þöggun í gangi. 

Ef þú nennir því ekki þá er einhver konar heift að stýra þínum málflutningi. En tíminn á eftir að leiða í ljós að þín sýn á málfrelsið leyfir þér alveg að verða þér til skammar. 

Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 10.8.2017 kl. 21:06

8 identicon

Þakka þér kærlega fyrir örlyndi þitt Sigrún.  Enn veit ég ekki hvað skýrir það örlyndi, en það verður svo að vera.

En hitt veit ég að þeir Bjarni og Brynjar hafa ekki komið hreint fram í þessu máli.  Það er öllu siðuðu fólki augljóst.

Tíminn hefur nú þegar liðið og þeirra tveggja að gera hreint fyrir sínum dyrum nú þegar,

sjálfs forsætisráðherra landsins og formanns eftirlits- og stjórnskipunarnefndar Alþingis.  

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 10.8.2017 kl. 21:27

9 identicon

Pétur Örn. Forsætisráðherra hefur komið fram af nærgætni við minningu og störf fyrrv. Dómsmálaráðherra - sem hefði staðið keik við sín störf og undirskriftir skv. þá- og núgildandi lögum. Og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis starfar líka að sjálfsögðu skv. lögum og nefndin er að hefja störf á sérstökum sumarfundum við tímabærar breytingar á téðum lögum. 

Kannski hefði hann átt að sitja þegjandi undir öllum þessum ódýru pólitísku dylgjum um klíning og þöggun. Það hefði sennilega verið skynsamlegra meðan sumir stjórnast af pólitískri heift, heilagleika eða vondu skapi dagsins.

Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 10.8.2017 kl. 21:56

10 identicon

Sigrún, af hverju ætlar nefndin 

"að hefja störf á sérstökum sumarfundum við tímabærar breytingar á téðum lögum." ?

Getur það verið að það sé einmitt vegna þess að hún viti upp á sig skömmina?

Sé svo, þá er batnandi mönnum best að lifa ... tími til kominn!

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 10.8.2017 kl. 22:02

11 identicon

Já, tímabærar skrifaðirðu.  

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 10.8.2017 kl. 22:04

12 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Sigrún.

Þrátt fyrir allt hefur margt batnað í þessum heimi gegnum tíðina, meðal annars vegna þess að til er fólk sem rís upp gegn óhæfu.  Og nær að breyta samfélögum sínum, lögum þeirra og reglu.

Þú afgreiðir ekki andóf gegn óhæfu, með því að benda á að hún sé samkvæmt gildandi lögum, allavega telst mér til að fáir í Þýskalandi afgreiði Helförina með þeim rökum að hún hafi verið samkvæmt gildandi lögum, sett samkvæmt öllum leikreglum sem þá voru í þýskum lögum.

Ég er að benda þér á þetta svo þú verðir þér ekki til skammar í ákafri vörn þinni fyrir þennan umdeilda gjörning sem þessi sjálfvirka afgreiðsla kerfisins var án þess að nokkur spyrði sig þeirrar spurningar; "Er þetta rétt??".

Þér yrði það líka kannski ekki á að mæta hingað og rífast um eitthvað sem hér er ekki til umræðu, örugglega eru til einhverjir sem gagnrýna þá sem tóku þessa ákvörðun, en öllu læsu fólki ætti að vera ljóst að þeir eru ekki til umræðu hér í þessum pistli.

"Hvar liggur sökin??, um hvað skuld er verið að ræða??

Í hverju er hinn meinti glæpur Ólafar fólginn??

Hvað var að því að upplýsa um staðreyndir málsins?, og um þann vinnugang sem lengi hefur viðgengist í svona málum, og taka umræðuna um að hvort það sem einu sinni þótti eðlilegt, sé endalaust eðlilegt því tímarnir breytast og samfélögin með?".

Það er gott að lesa orð fólks áður en maður eys úr skálum reiði sinnar, jafnvel þó einhver þarna úti hafi efast um tímaröð eða hann búi ekki í réttarríki eða ekki sé farið eftir gildandi reglum.

Allavega skaltu byrja skamma þá áður en þú ætlast til að aðrir haldi uppi vörnum fyrir sjónarmið þeirra.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.8.2017 kl. 22:05

13 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Anna.

Veikindi Ólafar Nordal, eða sá gjörningur hennar að skrifa upp á tilmælin til forseta um uppreisn æru, er ekki til umræðu í þessum pistli.

Ég minnist aðeins á þau vegna þess að á þessum tíma var hún mikið fjarverandi frá störfum sínum vegna þeirra, og því ekkert óeðlilegt við að menn hafi talið að staðgengill hennar hafi skrifað undir.  Eðli málsins vegna gat hún ekki leiðrétt það, og því stóð það annaðhvort ráðuneyti hennar að leiðrétta misskilningin, eða þá staðgenglinum.

Ég dreg það ekki í efa í eina mínútu að ef Ólöf væri meðal vor, hvort sem hún væri fyrrverandi eða núverandi dómsmálaráðherra, þá hefði hún komið umræðunni í þann farveg sem hún átti strax að fara í. Án þess að veitast að því fólki sem um sárt á að binda og spyr réttmætra spurninga sem kerfinu ber að svara.

Varðandi aðkomu Brynjars Níelssonar að þessu máli, þá var hann hýddur opinberlega í morgun, og ég hef engu við þá umræðu að bæta. 

En þú ert skelegg Anna, sem oft áður.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.8.2017 kl. 22:21

14 identicon

já, þetta er tímabær endurskoðun þessara laga á sumarfundum nefndarinnar Pétur Örn og andófið hefur vissulega átt sinn þátt í því - sem er vel. Þess vegna eru ásakanir um þöggun og klíning algjörlega út í vindinn og bera keim af pólitískri heift.

En mín "áköfu" andmæli kæri Ómar síðuhafi snúa ekki að öðru en minni réttlætiskennd. Meðan þú birtir þínar djúpu hugsaninir sem almúginn les og  býður upp á athugasemdir þá finnst mér frekar fyndið að þér sýnist athugasemdir sem þér hugnast ekki vera eitthvað rifrildi :D

Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 10.8.2017 kl. 22:30

15 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Sigrún.

Ég efa það ekki að þú hafir réttlætiskennd, og ég efa það ekki að þú sért læs, hvað þá að ég dragi það í efa að þú teljir hugsanir mínar djúpar, þó það nú væri.

Hins vegar dreg ég það stórlega það í efa að þú hafir lesið orð af því sem ég skrifaði í þessum pistli mínum, ég merki það allavega ekki í hinum svokölluðum andmælum þínum.

Hvað mér síðan hugnast eða hugnast ekki, er eigi gott að vita, allavega fyrir mig.

Hins vegar tel ég að allir sem haldi úti svona bloggsíðum hafi þann rétt, að benda fólki kurteislega á að rífast ekki við þriðja aðila um eitthvað sem einhver annar sagði.

Það kallast rifrildi, reyndar einhliða.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.8.2017 kl. 23:00

16 identicon

Blessaður Ómar.

Jú takk, ég er vel læs og setti hér inn athugasemd þar sem ég ávarpaði ykkur alla; síðuhafa og þá sem höfðu skrifað álíka heiftúðugan texta í athugasaemdir. Einn þeirra fann sig knúinn til að svara fyrir sig. Þannig að ég spyr kurteislega, hver var að rífast við þriðja aðila um eitthvað sem einhver annar sagði?  

Sólarkveðja að sunnan.

Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 11.8.2017 kl. 08:03

17 Smámynd: Ómar Geirsson

Það er nú gott og blessað Sigrún að þú staðfestir að þú sért læs, en ég hélt að ég hefði sagt skýrt að ég teldi þig læsa.

Út frá orðum þínum dró ég það hins vegar stórlega í efa að þú hefðir lesið pistilinn sem er tilefni þessa þráðar.  Hvergi í honum kemur fram að eitthvað sem styður þetta röksamhengi þitt " við búum í réttarríki og í þessu máli hefur verið unnið eftir núgildandi lögum eins og áður.  Hvorki klíningur né þöggun.", og þar sem ég er nú ágætlega læs líka, þá tók það mig ekki nema sekúndubrot að reka augun í hnykkjun orða þinna þegar þú svaraðir heiðursmanninum honum Pétri Erni með þessum orðum; " Reyndu aðeins að skilja gildandi lög og tímaröð þessa máls og sjá að það er engin klíningur eða þöggun í gangi." og þar sem hvergi í orðum Péturs má lesa eitthvað sem styður þessi orð þín þá ályktaði ég sem svo að þú værir að rífast við einhvern annan en óvart villst hér inn og haldið áfram með skammarræðu þína.

Og já, ég kalla þetta að rífast því þegar fólk eys skömmum yfir náungann í málflutningi sínum, þá er oft sagt, til að milda lýsingu á hegðun þess, að það sé að rífast.

Eins finnst mér það kurteist, að tala um þriðja aðila í því samhengi þegar fólk býr til forsendu á skjön við efnisatriði, og skammast síðan út frá forsendu sinni, að það sé að rífast við þriðja aðila.  Hitt er eitthvað svo hjákátlegt, skömminni skárra að skammast út í tómið, þó slíkt sé reyndar líka talið skrýtið.

Njóttu svo sólar á meðan hún varir Sigrún, hún kemur austur um helgina.

Á meðan eru það rigningarkveðjur að austan.

Ómar Geirsson, 11.8.2017 kl. 09:37

18 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Varðandi réttarríkið er kannski rétt að hafa í huga orð sem má finna í Sjálfstæðu fólki; "Ég álít að menn séu ekki nógu miklir glæpamenn til að lifa í þessu þjóðskipulagi". 

Magnús Sigurðsson, 12.8.2017 kl. 08:10

19 Smámynd: Ómar Geirsson

Og er ríki sjálfkrafa réttarríki ef það setur lög á réttan hátt??

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.8.2017 kl. 10:40

20 Smámynd: Magnús Sigurðsson

"Maður er ekki nógu mikið helvítis illmenni fyrir þetta þjóðskipulag, það er að segja almenningur. Það er það sem er að."

Magnús Sigurðsson, 12.8.2017 kl. 18:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 499
  • Sl. sólarhring: 713
  • Sl. viku: 6083
  • Frá upphafi: 1400022

Annað

  • Innlit í dag: 455
  • Innlit sl. viku: 5219
  • Gestir í dag: 437
  • IP-tölur í dag: 432

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband