29.1.2017 | 20:13
Borgaralegir íhaldsmenn rísa upp.
Líkt og gamli maðurinn með vindilinn og whiský glasið sé ennþá meðal vor.
Þó byrjaði valdatíð Trump ekki vel, meðvirkir fjölmiðlamenn reyndu að finna heillega brú í vitglórunni eða féllu í þá gryfju að rífast um staðreyndir við handhafa blekkingarinnar.
Lágpunkturinn var svo skrið Theresu May til Washington þar sem hún lét sér gott heita að jánka litla kallinum í einu og öllu. Gleymt var greinilega svipað skrið forvera hennar. Eða sú viska að lýðræðissinnar umgangast ekki andlýðræðissinna eins og um jafningja sé að ræða.
Það var líkt og öll vitglóra hefði yfirgefið vitborið fólk.
Maður lýðskrums sem markaðssetur ótta og fordóma, sem lýsti því yfir varðandi lofslagsógnina að jörðin væri flöt og skipaði síðan rannsóknarrétt í anda kaþólsku kirkju miðaldanna til að þagga niður í vísundunum, fékk alla athygli heimsins eins og fordómar hans og fáfræði væru eitthvert nýjabrum sem þyrfti að ræða, og eða taka afstöðu til.
Það var eins og enginn vestrænn leiðtogi hefði kjark til að setja sig uppá móti forheimskunni og mannhatrinu.
Svo gerðist eitthvað.
Það er eins og raunveruleiki þess sem Trump stendur fyrir hafi vakið vestræna lýðræðissinna af dásvefni sínum.
Hver af fætur öðrum hafa þeir risið upp og mótmælt.
Fremsta má telja þá Trudeau, forsætisráðherra Kanada og Hollande, forseta Frakklands. Meira að segja Theresa May reis uppá hnén og sagist ekki alveg vera sammála.
En sem Íslendingur get ég ekki annað en verið stoltur af Guðlaugi utanríkisráðherra og Benna frænda, fjármálaráðherra.
Guðlaugur er kjarnyrtur í orðum sínum; "Það á að berjast gegn hryðjuverkum. Baráttan verður erfiðari og það gerir illt verra ef fólki er mismunað eftir trúarbrögðum eða kynþætti.".
Eitthvað sem þarf ekki mikinn sið til að átta sig á, hvað þá skynsemi, en þarf kjark til að segja á opinberum vettvangi, núna á tíma ótta og undirlægjuháttar.
En Benedikt Jóhannesson er með þetta;
Það er hræðilegt til þess að hugsa hvernig komið er fyrir Bandaríkjunum, þessari vöggu lýðræðis og frelsis í heiminum þegar fordómar ráða nú ríkjum; fáfræði og fljótræði stýra för og réttindi eru fótum troðin.
Nú reynir á innviði réttarríkisins, en við getum ekki horft þegjandi á þegar forystuþjóð vestrænna gilda er breytt í andhverfu sína. Íslendingar hljóta allir að styðja frelsið og lýsa vanþóknun á stefnu og aðgerðum Trumps.
Það þarf ekki að segja meir.
Við erum að ræða um forysturíki vestrænna lýðræðisríkja sem hefur svikið lýðræðið og er nú bein ógn við það.
Þá getur enginn þagað, þá á enginn að þegja.
Nú er spurning hvað penninn uppí Móum gerir.
Á stundum virkar hann eins og persóna í Batman sem Tommy Lee lék, það er dálítið ríkt að réttlæta ósómann sem rennur úr ranni bandarískra hægriöfgamanna.
En þegar á reynir, þá er tæpitungan beitt.
Allavega þá upplifum við núna þá stund, að maðurinn er reyndur.
Prófaður og dæmdur.
Í ljósi samsvarana sögunnar þá getur enginn notað þá útslitnu afsökun að hann viti ekki betur, eða ætli að láta reyna á.
Reyna á illfylgin sem hafa lagt undir sig Washington.
Við upplifum stund sannleikans.
Við upplifum þá stund að það er ennþá tími til að forða börnum okkar frá miklum hörmungum.
Við upplifum stundina þar sem við getum breytt rétt.
Látum á reyna.
Kveðja að austan.
Fáfræði og fljótræði stýra för | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:18 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 0
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 202
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 168
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll.
Benedikt getur sagt það sem honum sýnist en hann er auðvitað einn af þeim sem sleppir því alveg að kynna sér hlutina. Ást hans á EB og evrunni sýna það mjög vel. Það er ekki nóg að kunna að reikna.
Ætli hann hafi séð þetta myndband:
https://www.youtube.com/watch?v=7gcUjqmmMjI&t=46s
Helgi (IP-tala skráð) 30.1.2017 kl. 06:44
Helgi, þeir sem þekkja lýðræðið, forsendur þess og leikreglur, og vita hvað það hefur gert fyrir mannkynið síðustu 200 ár eða svo, fyrir venjulegt fólk og samfélag þess, þeir vita að Benni frændi er ekki að segja það sem honum sýnist.
Hann er að segja það sem er.
Segja það sem er rétt og satt um atburðina í Bandaríkjunum, og um fyrri stöðu landsins meðal vestrænna lýðræðisríkja.
Nú þið hinir sem skiljið ekki þessi einföldu sannindi, þið ættuð samt ekki að kveina yfir sannleikanum.
Þið hafið jú fengið ykkar foringja til að ganga í gæsagang með.
Er þá yfir nokkuð að kvarta.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 30.1.2017 kl. 09:37
Sæll.
Þú ert afar málefnalegur, að vanda. Hvar lærðir þú þetta?
Ég er hins vegar sammála þér um gagnsemi lýðræðis. En er það lýðræði að reyna að koma í veg fyrir hryðjuverkaárásir á þegna síns lands? Er það andstætt lýðræði að reyna að vernda þann lífshátt sem við á Vesturlöndum höfum tamið okkur? Hver er t.d. staða kvenna í löndum þar sem vinir okkar múslimar eru í meirihluta?
Varðandi gæsaganginn er það að segja að sá maður og Trump eiga afskaplega lítið sameiginlegt - ennþá allavegana. Ef Trump tekur upp á því að drepa mikinn fjölda sinna þegna vegna t.d. litarhafts þeirra eða trúar má kannski líkja þeim saman. Þar til slíkt hefur gerst er slíkur samanburður ótímabær.
Þú átt kannski kristalkúlu sem gerir þér unnt að sjá fram í tímann? Ef svo er væri ég til að vita lottótölur næsta miðvikudags :-)
Helgi (IP-tala skráð) 30.1.2017 kl. 13:31
Lærði það á leiksskólanum sem ég fór aldrei í.
Þarf ekki kristalkúlu, mig nægir að fletta uppí mankynsögu AB.
Er ekki að ræða múslima.
Þetta með gæsaganginn er síðan svona almenn skilgreining á atferli hinnar blindu foringjahollustu.
Nota hana stundum þegar ég vill hvíla tilvísun í hegðun læmingja.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 30.1.2017 kl. 14:16
Bensi (hann hefur ætíð verið kallaður það frá barnsaldri, ekki Benni) ætti sízt að tala um fáfræði. Þekkingu hans á eðli Evrópusambandsins er hægt að koma fyrir á mjög þröngum stað.
En eins og Helgi kemur inn á, þá er það verst, að Trump skuli ekki hafa bætt Pakistan og Saudí-Arabíu, hryðjuverka- og kvennakúgunarheimsmeistarana á bannlistann. Kannski kemur það seinna.
Pétur D. (IP-tala skráð) 30.1.2017 kl. 21:06
Blessaður Pétur D.
Hér fyrir austan er hann kallaður Benni frændi.
Hann er ekki bara frændi Bjarna Ben.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 30.1.2017 kl. 21:56
Ha, hvar kom Helgi inná að hann hefði líka átt að banna þau lönd sem ala upp og fjármagna hryðjuverk??
Sá það ekki, ef svo hefði verið, þá hefði ég sleppt því að skreppa í leikskólann.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 30.1.2017 kl. 21:58
Hm... kannski ég hafi mislesið það sem hann skrifaði. En engu að síður er ég algjörlega sammála honum.
Pétur D. (IP-tala skráð) 31.1.2017 kl. 11:59
Á skólaárum sínum hét hann Benedikt Zoëga og var ætíð kallaður Bensi. Ágætis náungi og gáfaðri en flestir, en ég skil ekki hvað hefur fengið hann til að aðhyllast aðild að ESB.
Pétur D. (IP-tala skráð) 31.1.2017 kl. 12:05
Það hafa allir sinn djöful að draga Pétur D, og já ég er sammála um lunderni hans.
Hann átti frænda hérna, föðurbróðir sinn, einn mesti öðlingur sem Ísland hefur alið. Benedikt skrifaði fyrir nokkru afmælisgrein um kallinn, þegar hann var orðinn eldri en háaldraður, og þar sá maður að það var margt líkt með skyldum. Minningargreinin sem því miður var skrifuð fyrir stuttu, var einnig mjög eftirminnileg.
Það er ekki öllum gefið að gera þetta svona vel.
En þaðan er þetta komið hjá mér að tala um Benna frænda, hann er jú eða var frændi Reynis Zoega.
Það hljómar ekki vel að tala um Bensa frænda eða er það?
En það er gott að þú sért sammála Helga, það hlýtur að hýra drenginn. Samt ennþá flottara hjá þér að vera sammála því sem hann sagði ekki en þú vildir að hann sagt hafa.
Þá væri hann ekki einn af þessum snötum að elta sprekin út á túni.
Aðgerðin væri reyndar jafn röng í eðli sínu, en þó væri allavega ljóst að Trump væri gera tilraun til að takast á við öfga Islamista.
En svona er þetta Pétur, svona er þetta.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 31.1.2017 kl. 14:00
Ég gekk í sama barna- og gagnfræðaskóla og Bensi. Það var skóli Íhaldsins (Langholtsskólinn), bæði skólastjórinn og yfirkennarinn voru á framboðslista flokksins. Líka í Landsprófi (Vogaskólinn). Bensi var snillingur í stærðfræði og skák. Á þeim tíma notaði hann nær eingöngu ættarnafnið.
Pétur D. (IP-tala skráð) 31.1.2017 kl. 23:05
Jæja, þá veit ég á hvaða aldri þú ert Pétur, náðir ungur maður að sjá Hannes rísa upp og taka vinstra liðið í bóndabeygju.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 1.2.2017 kl. 09:21
Ég þekkti nú ekki Hannes Hólmstein (og heldur ekki Hannes Hafstein, enda ekki alveg svo gamall). Hins vegar var ég í MT á sama tíma og Stefán Jón Hafstein og Solla (ISG) áttu þar viðkomustað. MT var safnskóli fyrir vinstrisinnaða nemendur, þar gengu bæði Halldór Guðmundsson og Einar Már (Einar rauði) og fleiri kommónistar og hugsanlega Einar Kárason líka. Bensi slapp hins vegar alveg við allt þannig hugmyndafræðilegt smit, enda komst hann inn í MR sama ár og Hannes útskrifaðist þaðan. Sennilega byrjaði Bensi á því að kenna kennurunum þar stærðfræði.
Pétur D. (IP-tala skráð) 3.2.2017 kl. 23:24
Efast ekki um stærðfræðikennslu Benna frænda.
En hinsvegar dreg ég stórlega í efa minni þitt um Hannes Hólmstein. Og ég get ekki alveg ímyndað mér að þú hafir sloppið í gegnum barnaskólann án þess að Sprettur hafi komi þar við sögu.
Það var þannig með Hannes á þessum árum, að það vissu allir um hann.
Líka í Menntaskólanum við Sund, þó þið hafið þarna út við sjóinn á einhverjum tímapunkti sýnt þá minnimáttarkennd að kenna ykkur við Tjörnina. Sjálfsagt með þeim rökum að sjórinn sækti í tjörnina á háflæði.
Í Hamrahlíð voru 2 til 5 strákar sem gengu í jakkafötum með bindi, þeirra Mentor var Hannes. Eitthvað held ég að þið þarna í útnáranum hafi frétt af honum líka, það er frekar klén eftirá skýring að afsaka íhaldssemi ykkar með uppeldinu úr foreldra húsum, ég meina, hver kannaðist við slíkt á þessum aldri????
Allavega voru þetta skemmtilegir tímar þó ég hafi ekki alveg upplifað þá sökum skort á aldri, en ég fór með stóra bróður mínum á Garðsball þar sem allar stelpurnar voru í lopapeysum, þrátt fyrir 30 og eitthvað stiga hita. Og að sjálfsögðu voru strákarnir eins klæddir.
Þú varst heppinn að vera ekki þar Pétur.
Allt þetta fólk endaði sem stuðningsmen ICEsave fjárkúgunarinnar.
Líklegast má rekja það til hitaskemmda sökum klæðaburðar.
Nördarnir sem voru heima að læra, þeir sluppu við þau ósköp.
Sem og þeir sem byrjuðu snemma að gera do do.
Veit ekki í hvorum hópnum Benni frændi var, en hann slapp samt ekki við að styðja ICEsave fjárkúgunina.
Svo örsakasamhengið er greinilega flóknara en hitasótt af völdum heimskulegs klæðnaðar.
Svik við þjóð sína eiga sér víst dýpri rætur.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 4.2.2017 kl. 00:19
Og meirað segja orsakasamhengi er ekki með ö-i, en ég er í prjónaðri peysu úr einhverju bandi, svo hugsanlega má finna þar skýringu á meintu stafarugli.
Svo var amma mín flámælt.
Aftur kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 4.2.2017 kl. 00:24
Þú veizt væntanlega að skólinn sem síðar varð Menntaskólinn við Sund byrjaði sem MT í gamla Miðbæjarskólanum, sem jú stendur enn við Tjörnina, en nú algjörlega nemendalaus vegna mótþróa barnafjölskyldna við að búa í 101.
Sem betur fer eru byggingarnar við Lækjargötuna og Fríkirkjuveginn friðaðar, annars væru fasteignaspekúlantarnir búnir að láta rífa allar gömlu byggingarnar og Stjórnarráðaið með.
Og hvað varðar flámæli, þá verður O alls ekki að Ö, heldur er það U.
Farðö með freðe.
Pétur D. (IP-tala skráð) 4.2.2017 kl. 23:06
He, he, he, hvað vita málvísindamenn um það hvernig hljóðbrenglunin leitaði um víðan völl, þeir reyndu að skilgreina kerfi í óreiðunni og svo eftir nokkur ár, þá héldu þeir að kerfið væri óreiðan. Hefðu þeir til dæmis komið austur og hlustað á ekta Sandvíking í 5 mínútur, þá hefðu þeir klórað sér í hausinn og beðið um túlk.
En annars var ég nú bara að gantast með puttavitleysurnar mínar.
Og já, ég veit að skólinn var kenndur við Tjörnina vegna þess að hann var við Tjörnina, ég fletti meir að segja uppá þessu til að vera viss. Síðan man ég að íhaldssemi mín var það mikil á sínum tíma að ég kallaði skólann við Sundin, við Tjörnina mörg mörg ár á eftir. En þegar ég kom suður ´79 þá var hann örugglega kominn við Sundin, þó þú vitir það örugglega uppá dag. Annars held ég að ég hafi ekki komið þangað nema einu sinni tvisvar á þessum árum til að spila blak, þetta var svo afskekkt eða mikill útnári að maður fór ekki þangað fyrr en maður komst yfir bíl. Mig minnir að MT/MS hafi alltaf átt við ákveðinn ímyndunarvanda að etja, hassið og lopapeysan átti sitt vígi í MH, íhaldssemin í MR (jafnvel hinu meintu vinstrimenn voru ákaflega íhaldssamir farandi með sínar latínuslettur), pabbastrákarnir í Versló og sveitakrakkarnir á Akureyri. Það var ekki fyrr en Fjölbraut í Breiðholti kom sem plebbaskólunum fjölgaði. Síðan er það þannig í minningunni að MS/MT hafi ekki fengið uppreisn æru fyrr en nemendur þaðan sköpuðu sér nafn, og rithöfundar úr hópi þeirra fóru að festa minningar sínar á blað undir merkjum skáldsögunnar, að þessi skóli varð eitthvað kult.
En hvað um það, mikið sammála um húsafriðunarnefnd og vernd hennar á sögunni gegn græðgi hinna siðblinda, skil bara ekki af hverju Pétur þú ert síðan svag fyrir stjórnmálamönnum sem koma úr ranni hennar. En svona er lífið, engin regla og rökhyggja þar á bæ.
Kannski þess vegna sem það er svona skemmtilegt.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 5.2.2017 kl. 09:05
Ef þú ert að meina að ég sé svag fyrir stjórnmálum Bensa, þá skjátlast þér. Ég veit bara að á yngri árum sínum var hann öðlingur. Ég held að þetta með ESB hafi verið kænskubragð hjá honum til að raka til sín fylgi frá ESB-væng Sjálfstæðisflokksins og frá Samfylkingunni í andarslitrunum. Og viti menn: Áður sat hann ekki einu sinni á þingi, nú er hann ráðherra annars valdamesta ráðuneytisins.
En ef þú varst hins vegar að meina, að ég aðhyllist ekki stefnu vinstrivilluflokkanna á Íslandi, þá er það rétt hjá þér. Fyrir vissi ég vel, að sósíalismi virkar ekki í raun, því að sú stefna (kollektívismi undir spilltri stjórn einræðisflokks) gengur þvert á eðli mannverunnar. Svo þegar óstjórn Jóhönnu og Steingríms hafði setið í fjögur ár og dýpkað kreppuna enn frekar með kolrangri efnahagsstefnu, þá hafði ég engan áhuga á því að kjósa þessa quislingaflokka. Nú hefur verið fundur hjá Samfylkingunni og af fréttum að ráða er forystan þar ekki enn að skilja neitt í neinu. Þeir munu endanlega detta af þingi eftir næstu kosningar og er það vel.
Ég er mikill sjálfstæðissinni og styð sjálfstæði þjóðríkja, þess vegna hef ég mikla andúð á ESB. Og ég hef mikla andúð á þeim huglausu pólítíkusum víðsvegar í heiminum sem hafa selt heimalönd sín til að þjónka stórveldum.
Pétur D. (IP-tala skráð) 5.2.2017 kl. 14:21
Nei, nei Pétur, alls ekki.
Hvarflar ekki neitt svoleiðis að mér.
Enda kom orðið svag ekki á undan neinu af þessu sem þú rekur.
Og ég er eiginlega alveg sammála þér um flest allt sem þú telur upp.
Enda hef ég tekið eftir því að við erum ekki alltaf að rífast Pétur.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 5.2.2017 kl. 15:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.