Að verja hið óverjanlega.

 

Er iðja margra sjálfstæðismanna þessa dagana.

Hvort skýringin sé sú að þeir hafa beinan hag af svikamyllu aflandsvæðingarinnar, eða af misskilinni tryggð við flokkinn, skal ósagt látið.

 

Höfum eitt á hreinu, málsmetandi fólk hefur afhjúpað svikamyllu.  Sýnt fram á hvernig fjármunir voru búnir til með fölskum lánveitingum, eignir keyptar á brjálæðislegu yfirverði (sem skýrir auð eiginkonu fyrrverandi forsætisráðherra auk margra annarra), hlutabréfabólu, og síðan skuldir skildar eftir á eignalausum kennitölum, en ávinningurinn fluttur úr landi.

Annars vegar skipt í gjaldeyri, á meðan einhverjir ginkeyptir vildu lána gömlu bönkunum og hins vegar þegar gjaldeyrinn þraut, þá var froðukrónum breytt í aflandskrónur í gegnum félög í erlendum skattaskjólum.

Gjaldeyrinn sjáum við ekki aftur, nema kannski hjá þeim auðmönnum sem hafa keypt hrakkröfur vogunarsjóða á yfirverði, en aflandskrónurnar hafa leitað heim í gegnum peningaþvott seðlabankans, þar sem í boði er beinharður gjaldeyrir eða svokölluð fjárfestingarleið þar sem hver aflandskróna er ígildi 1,2 sem veitir henni samkeppnisyfirburði fram yfir okkur hin sem engu stálu, og eigum bara krónu með verðgildinu 1.

Þessi svikamylla gengur upp vegna ítaka aflandseiganda í fjölmiðlum, stjórnmálum og hjá seðlabanka þjóðarinnar.

Og fórnarlömbin er almenningur og þeir aðilar sem reynt hafa stunda viðskipti sín á ábyrgan máta, staðið skil á skuldum sínum, sköttum og gjöldum.

 

Samfélag sem lætur svona svikamyllu liðast, sem leyfir þetta rán og rupl, er helsjúkt.

Á það bendir Gylfi Magnússon réttilega í viðtali á Ruv.

 

Og viðbrögð hinna síverjandi láta ekki á sér standa. 

Svikamyllan skal varin með öllum ráðum, aflandsvæðingin skal réttlæt, allt vegna þess að þeirra menn eru í ríkisstjórn.  Svo gera menn grín af vinstri mönnum sem héldu uppi sambærilegum vörnum fyrir ICEsave samning Svavars Gestssonar.

Vandinn er bara sá, að það er ekki hægt að verja hið óverjanlega, jafnvel Svavar gat ekki varið samning sinn nema með afneitun og bulli.

 

Lítum því á helstu varnir dagsins.

Sú fyrsta sem ég rakst á var bloggfærsla hjá yfirverjanda ósómans hér á Moggablogginu.  Vitnað í færslu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem benti á að Gylfi hefði sjálfur tekið þátt í að stofna aflandsfélag sem meirihlutamaður í stjórn OR.  Sem skýrir svo þennan gapastokk Mbl.is.

Og hvað með það?, breyta gjörðir staðreyndum??  Ef morðingi heldur því til dæmis fram að það sé rangt að drepa, er það þá röng fullyrðing, því hann hefur sjálfur drepið?

Að sjálfsögðu ekki, rök eru metin á forsendum þeirra, og aum er sú málsvörn sem treystir sér ekki í rökræðuna, en hjólar í manninn.  En þegar eru engin rök á móti, og samt þarf að verja, þá eru þetta kannski eðlileg viðbrögð.

 

Annað sem ég las í dag, hjá öðrum Moggabloggara, var litlu betra, en þau fóru ekki í manninn, heldur rökfærslu hans.

Efnislega mótmælti hann sjónarmiðum Gylfa, og fordæmdi í leiðin Ruv fyrir upphlaupsherferð á hendur ríkisstjórn og aflandseigandafélaginu, með þeim rökum að samfélagið væri ekki helsjúkt.  Það væri bara allt í fínasta lagi hérna, og ef eitthvað færi úrskeiðis, þá gripi réttarkerfið inní, men væru dæmdir fyrir þær gjörðir sem væru handan laga og réttar.

Munum að orðanotkunin "helsjúkt samfélag" er myndlíking, til að tjá alvarleika svikamyllunnar, og að kerfið skuli bæði hafa leyft þetta, og að aflandseigandafélagið geti í raun keypt landið fyrir sitt illa fengna fé.  Það er ekki verið að tala um að fólk sé almennt sjúkt, vegakerfið í rúst, heilu hóparnir svelti (sem jarðar reyndar við að vera rétt hjá sumum hópum), réttarkerfið dæmi ekki smáþjófa, eða að atvinnuvegirnir séu meira eða minna gjaldþrota.

Fólk í holdum getur orðið helsjúkt af krabbameini, forsenda þess að verða helsjúkur er ekki sú að líða skort og hörgul þannig að um lifandi beinagrindur er að ræða.

Það kallast að rökræða myndlíkinguna, en ekki  þær forsendur sem liggja að baki henni.

 

Svona má lengi telja, athugasemdarkerfin eru funheit af góðu og gegnu sjálfstæðisfólki sem upplifir ofsóknir og samsæri, þá sérstaklega vonda fólksins á Ruv, bent er á góðu stöðu efnahagslífsins, og svo framvegis. 

Í raun allt týnt til annað en það sem snertir efnisatriði málsins.  Sem fyrst og síðast afhjúpar rokþrot þeirra sem vilja verja, en geta ekki varið hið óverjanlega.

 

En fjármálaráðherra, sem tengist þessum aflandseigendum beint í gegnum flokksbönd og fjölskyldubönd, og hefur sannarlega komist upp með hluti sem sannarlega eiga sér enga hliðstæðu í vestrænum löndum en eru til siðs í gömlu kommúnistaríkjum Austur Evrópi, hann á samt vörn dagsins.

"Ísland er í fararbroddi ríkja í baráttuna við skattaskjólin", eins og hann hafi frétt að aflandseigendur hafi lagt niður lýðræðið í öðrum vestrænum ríkjum. Gleymum því að nauðbeygður þurfti  fjármálaráðherra að gera ýmislegt eins og að leyfa skattrannsóknarstjóra að kaupa skattaskjólsgögn eftir að hafa dregið lappirnar í marga mánuði, og að þær lagabreytingar sem hafa orðið til úrbóta, komu ekki fram að frumkvæði íslenskra stjórnmálamann heldur krafðist AGS ákveðinna úrbóta til að stoppa í mesta lekann í skattheimtunni. 

Gleymum þessu öllu saman.

En íhugum rökfærsluna sjálfa.

 

Það er búið að koma þessu froðufé í leyndarhjúp aflandsfélaga, seðlabankinn og ríkisstjórn hafa síðan unnið hörðum höndum að peningaþvætti fyrir þessar aflandskrónur, það síðasta og stærsta mun eiga sér stað eftir nokkrar vikur.

Þar með er allt orðið löglegt.

Og þetta sem átti sér stað í fortíðinni, og að hluta til í nútíðinni, ætlar fjármálaráðherra að stöðva með hertu eftirliti í framtíðinni.

Heldur hann að fólk sé fávitar að kaupa svona rök?

 

Hvort er svarið við bankaráni að herða öryggisgæslu eftir ránið, eða leita upp bankaræningjana og draga þá fyrir dóm??

Augljóst nema í þeim tilvikum þar sem bankaræningjarnir hafa hönd í bagga með þeim sem ákvörðunina taka.

Eitthvað sem allir skilja nema hinir síverjandi sjálfstæðismenn, sem hamast við að verja hið óverjanlega.

 

Og komast upp með það.

Þess vegna er samfélagið helsjúkt.

Það fékk auðlæknanlega lungnabólgu, en var neitað um læknismeðferð. 

Skjaldborg hagsmuna var slegin um lækna samfélagsins, svo þeir gætu ekki beitt sér gegn sjúkdómnum.

 

Það skiptir ekki máli hver Gylfinn er.

Og Gylfinn þarf ekki að heita Gylfi.

Hann þarf ekki að heita neitt, það eru rök hans sem telja, ekki nafn hans.

 

Vonandi fær þjóðin lækningu.

Vonandi sjá sjálfstæðismenn að sér.

 

Þá verður lækningin friðsamleg.

Annars þarf þjóðin að grípa til þess neyðarréttar sem allar þjóðir hafa.

Að brjóta niður hina óverjanlegu skjaldborg.

 

Með góðu eða illu.

Annað er ekki í boði.

 

Ekki látum við sjúklinginn deyja?

Eða viljum við það?

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 


mbl.is Ekki öll aflandsfélög slæm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gylfa fannst ekkert að því að samþykkja nákvæmlega það sama með hægri hendinni sem hann skammaðist út í með þeirri hægri.

Sem þýðir að annaðhvort er þetta hræsni hjá Gylfa eða pólitík.

Kalli (IP-tala skráð) 28.4.2016 kl. 21:02

2 identicon

"Með þeirri vinstri" á þetta auðvitað að vera.  laughing

Kalli (IP-tala skráð) 28.4.2016 kl. 21:09

3 identicon

Það er rétt Ómar, það er sorglegt þegar menn nota rökin

Svo skal böl bæta að benda á annað verra.

Það sæmir ekki heiðarlegum mönnum,

einungis leigupennar skotgrafanna gera slíkt.

Í orrahríð Icesave baráttunnar hæddi ég Gylfa Kúbu, en það stríð er búið.

Eftir stendur hvað gera heiðarlegir sjálfstæðismenn í dag,gera þeir sem Jón Steinar o.fl., eða dreifa þeir bara eigin skít?

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 28.4.2016 kl. 21:19

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Kalli.

Forsenda fáfræðinnar er að kynna sér ekki staðreyndir.

Það er kannski þriðja atriðið sem vantaði í þennan pistil þegar gat mér til hvað drifi sjálfstæðismenn áfram í að verja hið óverjanlega.  Þeir einfaldlega vita ekki betur, hafa ekki hugmynd um hvað málið snýst, eru eins og þeir hafi dvalist með Fjalla Eyvindi síðustu misserin.

Mér datt þetta svona í hug þegar ég las þessa athugasemd þína miðað við efni pistilsins.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 28.4.2016 kl. 22:01

5 identicon

"Í öðru lagi kann eignarhald á svona félögum að benda til þess að íslenskir athafnamenn hafi verið að koma eignum sínum undan aðför skuldheimtumanna sinna vegna fyrri atvinnureksturs hér heima. Fyrirtæki sem þeir hafi áður rekið, oft með mikilli fyrirferð og bægslagangi hér á landi, hafi orðið gjaldþrota og skiptum síðan lokið án þess að kröfuhafar hafi fengið nema kannski örlítið brot af kröfum sínum og stundum ekkert. Eigi auðlegð slíkra manna í útlöndum uppruna í atvinnurekstri hér á landi, sem síðan hefur farið á hausinn vegna ólöglegs undanskots eigna til erlendra félaga með þeim afleiðingum að hérlendir kröfuhafar glata kröfum sínum, þá er málið grafalvarlegt. Það er svo sannarlega brot gegn íslenskum lögum að hafa slíkt framferði uppi. Slíkt jafngildir einfaldlega þjófnaði af fyrrverandi viðsemjendum, því þeir sitja uppi með skellinn þegar burgeisinn kemur eignunum, sem að baki áttu að standa, úr landi og í skjól erlendis. Þess eru þá stundum dæmi að þeir sem hafa verið fengnir til að stýra skiptum skúrkanna »sjái ekki ástæðu til« að elta uppi þrjótana sem komið hafa eignum undan. Þetta kunna að vera menn sem staðið hafa í viðskiptasambandi við skúrkinn áður en fyrirtækið fór á hausinn og óhætt er að gruna um að gæta ekki hlutleysis gagnvart honum." (Úr grein eftir Jón Steinar Gunnlaugsson í Morgunblaðinu 28.4.2016)

Finnst kannski leigupennum skotgrafanna, "sjálfstæðismönnunum", það þess virði að gera lítið úr þessum góðu orðum Jóns Steinars?

Sé svo þá er hætt við að það reitist enn hraðar af fylgi Sjálfstæðisflokksins en nú þegar er orðið.  Svo mikil er kapp (og heimska) leigupennanna að þeim sést ekki fyrir í hamaganginum að þjóna herrum sínum.  Nógu hratt vinnur fjármálaráðherrann að því, með dyggri aðstoð gamla trotskyistans í seðlabankanum, að eyðileggja allt það góða orðspor sem áður fór af sönnum ... og heiðarlegum ... sjálfstæðismönnum.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 28.4.2016 kl. 22:05

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Það er efinn Pétur, það er efinn.

Önnur stór spurning er mér ofarlega í huga, sem ég á eftir að koma frá mér, áður en þetta er orðið gott í bili.  Og það er hið ósagða í umræðunni á Alþingi.

Hvað óttast síðustu ríkisstjórnarflokkar svo mikið að þeir þora ekki í peningaþvættið eða Gjöfina einu.  Af hverju sneiða þeir framhjá kjarna málsins í öllum hávaða sínum?  Af hverju þessi hryggðarmynd sem umræða dagsins var?

Þetta er ekki einleikið lengur.

Og ég er hræddur um að við upplifum aftur þá bitru staðreynd sem maður rak sig á í ICEsave deilunni, að það breytist ekki neitt nema hægri menn snúist frá flokksforystunni, og beiti sér í andófinu.  Það er eins og það komi aldrei neitt út úr andófsfólki nema mótmæli, og vinstra fólk er foringjaholt með afbrigðum.  Það víkur allt fyrir henni.

Upprétt höfuð til hægri, þar er vonin.

Ég vildi ekki vera í sporum þessa sjúklings sem ég lýsti hér að ofan.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 28.4.2016 kl. 22:21

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Já segðu Pétur, segðu.

Nú held ég að Trotsky gamli hefði glott ef hann væri ekki í gröfinni.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 28.4.2016 kl. 22:22

8 identicon

Sæll Ómar Geirsson,

ég vil byrja á að þakka þér fyrir þarfa hugvekju og ég sver það algjörlega af mér að Páll Vilhjálmsson sé Sjálfstæðismaður, alla vega ekki frekar en Jón Ásgeir er Sjálfstæðismaður, enda þótt Páll sé vissulega skríbent á hans vegum.

Virðingarfyllst

Dr. Símon Jónsson

Dr. Símon Jónsson (IP-tala skráð) 28.4.2016 kl. 22:25

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Dr. Símon.

Ég passaði mig nú á því að kalla hann aðeins "yfirverjanda ósómans hér á Moggablogginu.", sem má svo sem alveg í því samhengi sem ég set fram rök mín að ég ætli hann sjálfstæðismann.  En það geri ég reyndar ekki, en hann slær tón sem margir sjálfstæðismenn spila eftir.

Hins vegar held ég að það sé löngu liðin tíð að Páll starfi fyrir Jón, það urðu einhver sinnaskipti í kjölfar einhvers hvells sem ég nenni ekki að rifja upp hver var.  Páll varð allavega eitthvað beiskur út í Jón, og varð svona "free lans" á tímabili.  Það var þá sem hann kom í ICEsave vörnina og var betri en enginn í þeirri baráttu.  Eitthvað var hann síðan hjá Heimssýn, og síðan veit ég ekki betur en einhver útgerðarpeningur fjármagni skrif hans.

En ég veit svo sem ekkert en vinnumaður hjá Jóni Ásgeiri er hann ekki lengur, þeirra hagsmunir hafa ekki farið saman í fjölda mörg ár.

En mikið væri Moggabloggið dauft ef við hefðum ekki Pál.

Eins get ég sagt að mér þótti vænt um að það fyndist maður sem tæki þessum pistli sem þarfri hugvekju, á þessum tímum hættir fólki til að hundsa það viskukorn að vinur er sá sem til vamms segir.  Þú þarft ekki að vera sammála vamminu, en það er holt að spá í rökin sem að baki búa.

Þá sleppa menn kannski við að gera sig að álfum, eins og henti marga í dag.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 28.4.2016 kl. 23:09

10 identicon

Blessaður Ómar Geirsson,

ég þakka þér greinargott svar þitt og það má vera að ég hafi misskilið þennan Pál og að hann sé skríbent útgerðarinnar.  Af nægu er þar víst að taka til að greiða málaliðum launin.  Þar get ég nefnt að hagnaður útgerðarfyrirtækja árið 2014 var um 27 milljarðar króna sem er reyndar einungis um fjórðungur af um 107 milljarða hagnaði bankanna þriggja árið 2015.  Þetta er eitthvað bogið allt saman.  Svo bogið reyndar að brotnað getur.

Virðingarfyllst

Dr. Símon Jónsson 

Dr. Símon Jónsson (IP-tala skráð) 29.4.2016 kl. 00:17

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Já við lifum í helsjúku samfélagi.

Og það er hinn borgaralegi kapítalismi sem liggur banaleguna.

Eitthvað sem sjálfstæðisfólk ætti í alvöru að íhuga.

Í stað þess að verja aflandseignarhaldið og auðmannayfirráðin með kjafti og klóm.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 29.4.2016 kl. 06:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 20
  • Sl. viku: 2019
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1772
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband