28.4.2016 | 11:40
Það fjarar undan þjófræðinu.
Því borgaralegir íhaldsmenn, traustir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins, hafa fengið nóg.
Jón Steinar Gunnlaugsson skrifar tímamótagrein í Morgunblaðið í morgun, aldrei áður hefur virtur lögmaður haft kjark til að benda á að fjármálaspillingin nær djúpt inní rætur réttarkerfis okkar.
"Þess er þá stundum dæmi, að þeir sem hafa verið fengnir til að stýra skiptum skúrkanna, "sjái ekki ástæðu til", að elta uppi þrjótana sem komið hafa eignum undan. Þetta kunna að vera menn sem staðið hafa í viðskiptasambandi við skúrkinn áður en fyrirtækið fór á hausinn og óhætt er að gruna um að gæta ekki hlutleysis gagnvart honum. ....Getur verið að dómarar sem skipi slíka þjóna til þessara verka hafi líka hangið á upp á snaga, þess athafnasama manns sem í hlut á."
Við skulum gera okkur grein fyrir því að það eru miklir fjármunir í glæpum, hvort sem það er fjármálaglæpir eða hefðbundnir eins og mansal eða eiturlyfjasala. Og þessir fjármunir leita til lögfræðistéttarinnar, hún gegnir því hlutverki sem vopnaðir hermenn gegndu fyrir nokkrum öldum síðan í köstulum ræningjabaróna.
Að tryggja vernd fyrir þóknun.
En að auðspillingin nái inní réttarkerfið, það er alvarleg ásökun, og örugglega ekki sett fram nema að gefnu tilefni.
Og aðeins Rannsókn getur skorið úr um.
Annar íhaldsmaður, maðurinn sem varaði í tíma við Hruninu, og enginn hlustaði á, tók sterkt til orða á feisbókarsíðu sinni í gær.
Ragnar Önundarson útskýrði svikamyllu aflandsauðsins í skilmerkilegri færslu(birti hana í heild í athugasemdarkerfinu), sem fékk sem betur fer mikla dreifingu í netheimum, og hann bætti við í athugasemdarkerfinu þessum orðum;
Þjófnaður og fjárdráttur gengur á eignarrétt annarra. Maður eignast ekkert með þjófnaði. Málamyndagerningum má rifta. Þetta eru refsiverð brot þar sem ákæruvaldið er málsaðili. Engu skiptir þó sá sem stolið var frá aðhafist ekki. Nú viljum við enga "rannsóknarnefnd", nú er það glæparannsókn með aðkomu Interpol.
Hann hefur með öðrum orðum enga trú á stjórnmálastéttinni, hann vill sakamálarannsókn.
Á sama tíma er Alþingi að vinna að því hörðum höndum með seðlabankanum að afhenda þessum aflandseigendum gjaldeyrissjóð landsmanna. Eða þeir fá forskot til að kaupa upp eignir og fyrirtæki. Lítum nánar á lýsingu Ragnars á þessum þætti svikamyllunnar;
5. Þú bíður í nokkur ár en svo sérðu tilboð Seðlabankans um að taka þátt í gjaldeyrisútboði. Þú tekur því og færð þriðjungs ábót á "vinninginn" og átt allt í einu 1.200 milljónir. Seðlabankinn tryggir þèr nafnleynd svo ekki sé unnt að lesa saman nöfn þáttakenda við afskriftalistana.
6. Þú kaupir þér teinótt jakkaföt og gerist "fjárfestir". Ásamt félögum þínum kaupir þú banka af ríkinu, sem gleðst yfir vel heppnaðri einkavæðingu og lýsir yfir sigri og fagnar að samkeppni virðist komin í bankaþjónustu.
Er ekki kominn tími til að staldra við, stöðva frekari eignatilfærslur, og rannsaka ofaní kjölinn hverjir það eru í raun sem fengu að hirða þrotabú bankanna, hvort það séu ekki sömu aðilarnir sem við sjáum grilla í þoku aflandsskjólanna.
Fá uppá yfirborðið tengsl þeirra við stjórnmálastéttina, og fá það á hreint af hverju þeir komust upp með þessa fjárglæfra sína. Í góðu samstarfi við seðlabankann og stjórnvöld.
Því fleiri jónar sem ítreka þessa kröfu, því fleiri Séra Jónar þora að stíga fram og krefjast rannsóknar, og í kjölfarið aðgerða gegn þeim sem leyfðu þessa svikamyllu, hvort sem það var með löggjöf, aðgerðaleysi, eða hreinlega með beinum aðgerðum í þágu þessara aflandskrónueiganda.
Því þetta snýst ekki bara um hagsæld okkar og velmegun, þetta snýst ekki bara um sjálfstæði okkar og reisn, þetta snýst um sjálfan grundvöll þjóðskipulags okkar.
Hvort hér sé lýðræði en ekki þjófræði, hvort hér sé borgarlegt þjóðskipulag, eða auðskipulag örfárra stóreignamanna sem efnuðust á braski og fjármálamisferli.
Það held ég að skýri reisn þessara manna sem þora að stíga fram og mótmæla þjófræðinu.
Þeir vita eins og er að hið borgaraleg lýðræðissamfélag er í húfi.
Megi fleiri sjálfstæðir menn öðlast þá visku.
Að breyta rétt.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.1.): 4
- Sl. sólarhring: 17
- Sl. viku: 2023
- Frá upphafi: 1412722
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 1776
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ragnar Önundarson
Viltu "vinna" milljarð ? Viltu svo "vinninginn heim" ? Þá er þetta aðferðin:
1. Þú stofnar "eignarhaldsfélagið" Rán ehf. og tekur milljarð að láni hjá kunningja þínum í bankanum eftir að hafa borgað "bónus" til hans með "þóknun skv. gjaldskrá".
2. Þú stofnar "aflandsfélag" Highway Robbery Inc. í Panama eða Tortóla með aðstoð kunningja þíns í bankanum og millifærir það sem eftir er af milljarðinum þangað.
3. Þú sérð enga leið til að eignarhaldsfélagið geti borgað afborganir og vexti og það fer í þrot. Bankinn afskrifar lánið þegjandi og hljóðalaust þrátt fyrir að hafa allar upplýsingar um hvað varð um peningana og hvert þeir fóru. Þú borgaðir svo góðan "bónus" að þeir fara ekki að vera með nein leiðindi.
4. Til öryggis stofnarðu fleiri aflandsfélög með aðstoð erlends banka og millifærir áfram nokkrum sinnum í þeirri von að það "snjói í sporin". Allt kostar þetta og þú þarft nú sjálfur að lifa eins og aðrir, svo nú "áttu" bara 900 millur.
5. Þú bíður í nokkur ár en svo sérðu tilboð Seðlabankans um að taka þátt í gjaldeyrisútboði. Þú tekur því og færð þriðjungs ábót á "vinninginn" og átt allt í einu 1.200 milljónir. Seðlabankinn tryggir þèr nafnleynd svo ekki sé unnt að lesa saman nöfn þáttakenda við afskriftalistana.
6. Þú kaupir þér teinótt jakkaföt og gerist "fjárfestir". Ásamt félögum þínum kaupir þú banka af ríkinu, sem gleðst yfir vel heppnaðri einkavæðingu og lýsir yfir sigri og fagnar að samkeppni virðist komin í bankaþjónustu.
7. Þú ert kosinn formaður bankaráðs og lætur bankann sinna ýmsum menningar- og velferðarmálum og flytur ávörp af því tilefni.
8. Þú ert sæmdur Riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu í boði hjá Forseta Íslands.
9. Þú gerir samkomulag við kollega þína í hinum bönkunum um að bankarnir láni ykkur í kross, svo þið þurfið ekki að skulda í eigin banka. Það er ekkert óeðlilegt við það, þú ert jú "fjàrfestir".
10. Þú tekur 10 milljarða að láni og ... sjá liði 1-8, nema nú er það Stórriddarakross auðvitað.
Til vara: Þú átt tilbúna fréttatilkynningu ef eitthvað fer úrskeiðis sem segir 1) Þessi aflandsfélög voru aldrei notuð til neins, 2) auk þess sem mikið tap varð af þeim, og 3) greiddir voru skattar af þessu öllu saman, auk þess sem þú manst ekki í hvaða landi félagið átti heima.
Ómar Geirsson, 28.4.2016 kl. 11:42
Enn er von, enn er von Ómar.
Takk fyrir góðan pistil, sem jafnan.
Með kærri kveðju að sunnan.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 28.4.2016 kl. 13:42
Og það er fullt til af heiðarlegu fólki sem hefur fengið algjörlega upp í kok
og sjá að þetta gengur ekki lengur.
Og að ein lög og einn sið, sem gildir jafnt fyrir alla, skuli gilda hér á landi,
en ekki laga sniðgöngur og laga undanskot í boði fyrir suma og það fyrir tilstuðlan ríkisvaldsins.
Auðvitað sjá það fleiri og fleiri að slíkt gengur ekki til lengdar,
því slíkt er beinlínis aðför að réttarríkinu, aðför að ríkisvaldinu sjálfu
og þversögnin sem gengur ekki upp er að aðförin er fyrir tilstuðlan ríkisvaldsins ... gegn því sjálfu.
Slíkt er vitfirring.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 28.4.2016 kl. 14:06
Já Pétur, það er varla orðin flóafriður fyrir henni.
En ég skal játa að núna er nennan ekki langt undan., hún tilkynnti mér að hún myndi mæta milli 8 og 9 í fyrramálið.
Þá fæ ég frétt sem hægt er að tengja við Samsekt hinna samtryggðu.
En taktu eftir því að dagfarsprúðir hæglætismenn eru farnir að taka sterkar til orða én ég í mínum mesta ófriði.
Mér finnst þessi setning dásamleg; "Nú viljum við enga "rannsóknarnefnd", nú er það glæparannsókn með aðkomu Interpol."
Nýjir tímar eru í nánd, jafnvel þó ekki sé nema í draumum okkar.
Og draumar eiga það til að rætast.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 28.4.2016 kl. 14:11
Mæltu heilastur Pétur.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 28.4.2016 kl. 14:12
Það er rétt Ómar að hæglætismennirnir nota nú orðið stóru orðin.
Það var löngu, löngu kominn tími að blóðið rynni í þeim,
því ekki gerir það hjá öllum samtryggingarflokknum á þingi.
Enn bíð ég þess þó, að sjá hina vel launuðu klerkastétt púlsa blóðinu, hún er sem steindauð, á spenanum.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 28.4.2016 kl. 14:25
En við svörum nú hvor öðrum í kross ... og það er vel :-)
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 28.4.2016 kl. 14:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.