13.12.2013 | 15:56
Orðræða andskotans er að snúa öllu á haus.
Og dæmi um slíka orðræðu er að kalla fordæmalausan niðurskurð síðustu ára "hömlulaus útgjöld".
Og önnur öfugmæli eru að kalla slíkt sókn til framfara.
Þetta er kölluð orðræða andskotans því ekki einu sinni alvarleg veruleikabrenglun útskýrir svona málflutning.
"Arbeit macht frei" er þekktasta dæmi slíkra öfugmæla en þau eru mýmörg þar sem kaldrifjaðir einstaklingar blindaðir af valdþorsta hafa afskræmt umræðuna með því að pakka ljótleika sínum inní fallegar umbúðir.
Réttlæting hinnar algjöru heimsku að stefna að hallalausum fjárlögum með því að skera niður fólk en ekki fjármagn er af svipuðu meiði öfugmælanna, vondur hlutur er réttlættur með innantómu falsi og lygum.
Allt gert til að breiða yfir þann glæp að fjármagna endurreisn fjármálakerfisins í gegnum ríkissjóð en ekki Seðlabankann.
Og að þessi orðræða sé reynd á 21. öldinni, og gangi upp því hið meinta andóf rífst um niðurskurðinn í stað þess að beina spjótum sínum að hinum raunverulega meini, sem er Friedmanismi glæpaklíkunnar sem öllu ræður, er líka eitthvað sem kenna má við þann í neðra.
Engin rök, engin lögmál raunheims fá útskýrt slík fáráð.
Það er eins og að þjóðinni sé haldið sofandi í heimi martraðar og ofskynjana, vitund hennar sé víðsfjarri, í veruleika sem er ekki þessa heims.
Annað getur ekki skýrt hið óendanlega bull.
Og þegar fólk loksins vaknar er auðnin ein eftir.
Innviðirnir ónýtir, samfélagið allt á banaspjótum.
Ekki sú arfleið sem við vildum börnum okkar.
Eða hvað??
Kveðja að austan.
Snúa af braut hömlulausra útgjalda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 84
- Sl. sólarhring: 586
- Sl. viku: 5668
- Frá upphafi: 1399607
Annað
- Innlit í dag: 72
- Innlit sl. viku: 4836
- Gestir í dag: 71
- IP-tölur í dag: 71
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Allt saman satt og rétt hjá þér Ómar og þetta ekki síst; „Allt gert til að breiða yfir þann glæp að fjármagna endurreisn fjármálakerfisins í gegnum ríkissjóð en ekki Seðlabankann.“
Af hverju var þessi leið valin og af hverju er ekki bakað úr henni og seðlabankinn látinn sjá um fjármögnunina? Það hlýtur að vera hægt.
Bestu kveðjur að sunnan.
Toni (IP-tala skráð) 13.12.2013 kl. 18:17
Ég held að þessa einföldu spurningu verði að bera upp við hvert tækifæri; hvers vegna var ríkissjóður látinn fjármagna endurreisn fjármálakerfisins en ekki seðlabankinn? Og þeir sem verja niðurskurðinn og leggjast á sveif með þeim sem leggjast gegn öllum aðgerðum í þágu skuldsettra heimila þurfa að svara þessari spurningu. Þeir sem segja að ekki séu til peningar verða að svara þessu með sannfærandi hætti eða að öðrum kosti skríða aftur í gröf sína og liggja þar þegjandi.
Toni (IP-tala skráð) 13.12.2013 kl. 18:30
Þetta er reyndar góð spurning sem ég hef stundum velt fyrir mér en ég ætla ekki halda því fram að ég sé með svarið.
Ég ímynda mér samt að þetta gæti hafa snúist um peningamagn í umferð en það má vera að það sé rangt. Þá meina ég að menn hafi kannski litið svo á að ef SÍ prentaði fyrir fjármögnun kerfisins að þá væri það síðri kostur en að láta ríkið gefa út skuldabréf sem væntanlega væri hlutlaust hvað varðar peningamagn. Eins og er þá virðist vera of mikið af peningum í kerfinu sem kannski endurspeglar að menn björguðu of miklu af innistæðunum þegar allt fór til helvítis.
Hafið þið skoðun meistarar?
Kv. Seiken.
Benedikt Helgason, 13.12.2013 kl. 20:19
En "... Við reisum við heilbrigðiskerfið sem holað var að innan í tíð síðustu ríkisstjórnar - jafnt á Reykjavíkursvæðinu sem á landsbyggðinni,“ og "... við forgangsröðun í grunnþjónustunni í þágu fólksins í landinu væri óþarfanum sleppt sem sumir kalla gæluverkefni fyrri ríkisstjórnar, ..." eru orð að sönnu, þú getur nú ekki neitað því, Ómar. Hvað varðar "hömlulaus útgjöld", þá er auðvitað átt við gæluverkefnin, eins og Jóhann Elíasson gerir grein fyrir í sinni færslu.
Pétur D. (IP-tala skráð) 13.12.2013 kl. 20:32
Blessaður Toni.
Það er ekkert svar við þeirri spurningu sem þú spyrð, ekki rökrænt, en ef þú skoðar hagsmuni, jafnt pólitíska sem efnislega, og þá hagsmuni örfárra, þá veistu skýringuna á hinni óendanlegru heimsku.
Það er hægt að græða, og það mikið, á kreppu.
Og það eru pólitísk markmið margra að eyðileggja innviði samfélaga, að færa klukkuna aftur um 150 ár eða svo.
Þegar hinir örfáu áttu allt, og réðu öllu.
Hið kalda hagsmunamat stjórnast því af ákveðinni skynsemi, en það er ekkert vitrænt á bak við það mat, það er vitrænt í þeirri merkingu að rán almannasjóða þjóni einhverjum almanna hagsmunum, eða sé einhver efnahagsleg nauðsyn.
Örfáir hafa mikinn hag af hinni algjöru heimsku, en þeir komast upp með það því aðeins örfáir spyrja grunnspurningarinnar, af hverju eru almannasjóðir skuldsettir vegna peningalegra ráðstafana???.
Og á meðan svo er, þá gista verkfæri hinna Örfáu ekki djúpar holur eða dimm skúmaskot.
Varðandi það hvort ekki sé hægt að bakka út úr þjófnaðinum, þá er slíkt aðeins spurning um framkvæmd, það er viljann til að stöðva þjófnaðinn áður en samfélag okkar hrinur.
Það þarf aðeins að breyta lögum um Seðlabankann, í fyrra horf áður en Friedmanisminn var löghelgaður, og síðan þarf að hreinsa út meðlimi glæpaklíkunnar.
Það þarf ekki einu sinni að rífast um Friedmanismann lengur, hann varð gjaldþrota haustið 2008, og hann á engin önnur svör en að gera vont verra.
Menn geta verið það auðtrúa, eða auðblekktir, að þeir fáist til að rækta korn með illgresiseyði sem áburð.
En ef svarið við uppskerubresti er að nota ennþá sterkara eitur í næsta skiptið, þá er eitthvað mikið að, mun verra en að vera auðblekktur.
Í þeim sporum er þjóðin í dag.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 13.12.2013 kl. 22:14
Blessaður Seiken.
Ekki ber ég á móti því að ég þekki til raka Friedmanista og ekki er ég heldur það skyni skroppinn að vita að það er leitun, og það mikil leitun að galnari röksemd fyrir skuldsetningu almannasjóða. Og að galnari röksemd yfir höfuð.
Einna helst dettur mér í hug sú röksemd Azteca að sólin komi ekki upp á morgun nema hjörtu séu tekin úr ákveðnum fjölda fólks. En mig skortir þekkingu til að meta það, út frá hugmyndaheimi manna í Mið Ameríku á þessum tíma fannst mörgum þetta rökrétt.
En engin rök, hvorki skynsamleg eða óskynsamleg, réttlæta að skattfé almennings sé notað sem stýritæki peningamála.
Þetta er bæði vitlausara og siðlausara en að taka síðasta brauðmolann á heimilinu og gefa hann svöngum fugli, og þú átt 15 sveltandi börn.
Í musteri Friedmanismans, Seðlabanka Bandaríkjanna, hvarflaði ekki að nokkrum manni að fjármagna fjármálakerfið í gegnum ríkissjóð, lærisveinarnir í breska Seðlabankanum voru sama sinnis.
Hjá evrópska Seðlabankanum fóru menn þessa leið til að byrja með, svona á meðan hún bitnaði á smærri ríkjum í jaðri sambandsins, eða var ekki það hlutfallslega stór (til dæmis Hollandi) að almenningur fattaði tilræðið við samfélagið.
En þegar reyndi á stóru tölurnar, og það hjá hinum stóru, það er Þýskalandi og Frakklandi, þá var prentað, og prentað, og sér ekki fyrir endann á þeirri peningaprentun. Samt ógnar verðhjöðnun ESB.
Það er ekki heil brú í þessum málflutningi og að menn skuli vilja svipta foreldra sína mannsæmandi ummönnun, eða börn sín fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu, og til lengdar jafnvel eyðileggja allt kerfið, vegna kalkúnískrar fylgispektar við stjórnmálamenn í vasa fjármagnsins, er eitthvað sem er ekki hægt að útskýra.
Það er of heimskt til að vera þessa heims.
Sem sannar það að við Íslendingar lifum ekki í þessum heimi.
Varðandi stærð hins endurreistar fjármálakerfis þá er það einfaldlega rangt mat að ætla að stjórnvöld hafi haft styrk til að skera niður innistæður. Þær eru helg vé, og ávinningurinn, það er að minnka meinta fjármögnun, er léttvægur miðað við nornabálið sem það hefði vakið.
Það var svo margt sem þurfti að gera, og að efna til óþarfa styrjaldar er ótaktískt og bein ávísun að fátt hefði tekist.
Líka það nauðsynlega sem tókst.
Það er endurreisn fjármálakerfisins. Án þess að erlendu skuldirnar lentu á þjóðinni.
Það tókst margt vel haustið 2008, en hin Friedmaníska nálgun var krafa AGS, og stjórnvöld samþykktu því þau héldu að það væri eitt af því sem þyrfti að gera svo ESB myndi samþykkja aðildarumsókn Íslands.
Menn gleyma því oft að það átti að nýta tækifæri Hrunsins og koma þjóðinni með hraði í ESB, aðeins uppreisn Styrmis og Davíðs á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í jan 2009 kom í veg fyrir það.
Mörg vitleysan, eins og fjármögnun ICEsave, eða fjármögnun ríkissjóðs á endurreisninni, var rökrétt ef markmiðið eina var haft í huga.
En það var þá, og það voru þeir.
En í dag er ekki þá, og þeir eru ekki núna við stjórn.
Svo til hvers, til hvers að slátra almannaþjónustu vegna inngönguskilyrða ESB???
Svona í ljósi þess að ríkisstjórnin þykist vera á móti ESB.
Ég bara spyr.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 14.12.2013 kl. 08:39
Blessaður Pétur.
Því miður þá lifi ég í þessum heimi og þó margt megi segja um mig, þá er ég ekki kalkún, hvorki líffræðilega eða vitsmunalega.
Það er ekkert rétt í þessu og það er sorglegt að vitiborið fólk skuli taka undir þessa vitleysu.
Varðandi þessu meintu gæluverkefni sem þú vísar í þá er það mjög afstætt hvað eru gæluverkefni og hvað ekki. Það sem einum finnst nauðsyn, finnst öðrum óþarfi. Og slík gildishlaðin afstaða er ekki rök í málinu.
Og sem rökstuðningur gengur það ekki upp. Það er ekki verið að skera niður nein gæluverkefni, það er verið að eyðileggja almannaþjónustur, eyðileggja skilvirkni ríkiskerfisins.
Með tilheyrandi óþægindum og kostnaði fyrir almenning.
Vissulega er til það heimskt fólk að það trúir að ríkið þjóni engum tilgangi í siðmenningunni, og kaldrifjaðir stjórnmálamenn hafa gert út á þá heimsku. En ríkið er forsenda siðmenningarinnar, og þróun ríkisvaldsins hefur haldist í hendur við þróun hennar.
Þeir sem vilja ekki ríkisvald, vilja samfélag steinaldarmanna, og einu dæmi þess í dag eru falin djúpt í frumskógum Papúa Guineu.
Með öðrum orðum Pétur, þetta er steinaldar umræða sem þú vísar í.
Þess vegna tala ég um orðræðu andskotans, því við lifum ekki steinöld.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 14.12.2013 kl. 08:50
Hey, hey, Ómar. Hver er að tala um að leggja niður ríkið? Ekki snúa út úr. Við erum að tala um að leggja niður gæluverkefni og hreinan óþarfa svo að hægt sé að bæta grunnþjónustu í heilbrigðiskerfinu. Það er margt sem ríkið á að reka að mestöllu leyti eins og heilbrigðiskerfið og almannatryggingakerfið og að mestu leyti eins og menntakerfið. Hins vegar eru ríkissjónvarp, ríkiskirkja og einokunarverzlun ríkisins allt saman tímaskekkjur, sem á að einkavæða.
.
Síðan á að hreinsa til í Háskóla Íslands, leggja niður sumar óþarfar námsbrautir og guðfræðideildin ætti að sameinast heimspekideildinni, þegar ríkiskirkjan verður lögð niður. Ráðuneytin eru yfirmönnuð af alls konar óþarfa fólki, reka helminginn og nota peningana í spítalana og hjúkrunarheimilin, almanntryggingar og annað mikilvægt. Það er engin ástæða til að halda uppi heilum herdeildum af embættismönnum. Þeir sem starfa t.d. í Velferðarráðuneytinu eru tæplega 100 manns. Hvað gerir allt þetta fólk? Ýtir pappírsbunkum fram og aftur? Í Utanríkisráðuneytinu má alveg reka fjölda manns sem hefur ekkert að gera eftir að ESB-aðlöguninni var hætt. Og þar fram eftir götum.
.
En það á ekki að leggja niður ríkið. Hvernig dettur þér það í hug?
Pétur D. (IP-tala skráð) 14.12.2013 kl. 20:41
Þú, Pétur D., talar mikið fyrir því að reka þennan og hinn ríkisstarfsmanninn og lætur í verði vaka að störf þeirra séu óþörf, að þeir séu baggi á samfélaginu. En hvað gerir þú sem er svona mikilvægt að þú getir slegið svona um þig?
Toni (IP-tala skráð) 14.12.2013 kl. 22:17
Pétur, að eyðileggja stofnanir ríkisvaldsins, er fyrsta skrefið í að eyðileggja ríkisvaldið.
Þetta með steinöldina var smá prjónaskapur út frá því gegndarlausu hatri og mannfyrirlitningu sem kemur sí og æ fram hjá íhaldsmönnum þegar þeir ræða ríkið og ríkisstarfsmenn.
En ég veit að þið eruð jú ekki allir frjálshyggjumenn, en gætuð svo sem alveg verið það, miðað við orðræðu ykkar þessa dagana.
En það er ekki verið að gera það sem þú segir.
Það er verið að gera það sem ég segi, og rökin eru ótæk, skuldin er tilbúin.
Ekkert réttlætir niðurskurðinn á meðan hún er til staðar.
Sem og að þá vita allir alvöru íhaldsmenn, allir alvöru sjálfstæðismenn, að þú bætir í á krepputímum, skerð ekki niður.
Það var stefna flokksins í 60 ár.
Það var hins vegar Eysteinn sem aðhylltist hagfræði andskotans, og hann var framsóknarmaður.
Sagan man þó þið munið ekki.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 15.12.2013 kl. 22:38
Toni, ég er verkfræðingur. Og ég er ekki að tala um að allir ríkisstarfsmenn séu óþarfir, en stór hluti þeirra er óþarfur. Heldur þú virkilega, að Velferðarráðuneytið þurfi 100 starfsmenn? Á meðan það er t.d. skortur á þjónustufulltrúum hjá Tryggingastofnun? Ekki aldeilis.
.
Ómar, varðandi hugmyndafræði, þá aðhyllist ég félagslega frjálshyggju, sem hefur verið við ráðandi í mörgum evrópskum ríkjum í áratugi, m.a. Danmörku og Noregi, en er óþekkt á hinu gjörspillta Íslandi, sem bæði efnahagslega og félagslega situr mjög aftarlega á merinni, jafnvel undir stertinum. Einu ríkin sem Ísland getur borið sig saman við eru Zimbabwe og Afghanistan.
.
Þessi hugmyndafræði, félagsleg frjálshyggja gengur út á það að ríkið/hið opinbera sjái um lykilþjónustu, s.s. gott heilbrigðiskerfi, almannatryggingakerfi og menntakerfi auk dómskerfisins og greiði fyrir það með sköttum. Öll önnur þjónusta og allur framleiðsluiðnaður (sem vantar tilfinnanlega hér á landi) verði á vegum einkaaðila, þótt sumt verði að vera niðurgreitt, s.s. almenningssamgöngur. Verðtrygging verður afnumin að sjálfsögðu. Virkar eftirlitsstofnanir verða bæði með fjármálastarfsemi svo og með Alþingi (ekki veitir af). Hið opinbera verði ekki í samkeppni við einkaaðila (þetta er t.d. illa séð í DK), öll einokun verður afnumin og frjáls samkeppni ríki. Vöruverð verði eingöngu álagt virðisaukaskatti, en engum öðrum gjöldum, þannig að verð alls söluvarnings sé í beinu hlutfalli við framleiðsluverð.
.
Þetta er ekki útópía, þetta kerfi virkar, ólíkt sósíalisma sem gengur gegn mannlegu eðli.
Pétur D. (IP-tala skráð) 16.12.2013 kl. 00:41
"... þannig að verð alls söluvarnings sé í beinu hlutfalli við framleiðslukostnað." ætlaði ég að segja.
Pétur D. (IP-tala skráð) 16.12.2013 kl. 00:42
Verkfræðingur, auðvitað. Og er það þess vegna sem þú talar með þessu virðingarleysi um vinnu annarra. Kannski ef störf þjónustufulltrúa væru meira metin en raun ber vitni, laun þeirra væru hærri t.d., þá væri kannski ekki skortur á fólki til að manna lausar stöður hjá Tryggingastofnun.
Toni (IP-tala skráð) 16.12.2013 kl. 04:16
Félagsleg frjálshyggja Pétur, ja hérna, það er ekki öll vitleysa eins.
Nær jafnvel að toppa mannúðlegan kommúnisma.
En raunveruleikinn er sá, að það er ekki til neitt sem heitir félagsleg frjálshyggja, aðeins frjálshyggja, og það er ekki til neitt sem heitir mannúðlegur kommúnismi, aðeins kommúnismi.
Vegna þess að það seinna útilokar það fyrra.
En hinsvegar afhjúpaðir þú þig dálítið Pétur í þessari færslu, bæði aldur þinn og þekkingarskort á sögunni.
Eiginlega ertu bara að lýsa borgarlegum kapítalisma með kristilegu ívafi, það er kristilegum íhaldsmönnum eins og þeir voru kallaðir hér á árum áður í Evrópu.
Þú ert bara ekki eldri en það að þú áttar þig ekki á muninum á frjálshyggju, og frjálslyndi, og þú étur upp frasa andskotanna sem hafa allt annað en frelsi á stefnuskrá sinni, markmið þeirra er aðeins eitt, taumlaus auðsöfnun.
Og í þeirra heimi þrífst ekki frelsi.
Ungæðisháttur þinn kemur líka fram í orðbragði þínum ríkið og ríkisstarfsmenn, það er eitthvað sem pirrar þig og þú lætur þann pirring þinn bitna á algjörlega saklausu fólki, sem hefur það eitt til saka unnið að reyna að vinna þá vinnu sem það er borgað fyrir, eftir þeim lögum og reglum sem stjórnmálamenn setja.
Og þú virðist ekki átta þig á því að það eru stjórnmálamenn sem ákveða báknið með lögum sínum og regluverki, en ekki fólkið sem vinnur í bákninu.
Regluverkið sem ættað er frá Brussel fer afskaplega í taugarnar á mér, en ég er ekki svo skyni skroppinn að ég átta mig ekki á hvar sökin liggur og hverjir hafa hag af vexti þess og viðgangi.
Og Pétur, ég fékk líka uppeldi, var kennt hvernig maður hagar sér gagnvart öðru fólki, þar á meðal ríkisstarfsmönnum.
Ég er því ekki fóður fyrir lýðskrumara og valdaþyrstra stjórnmálamanna sem etja saman fólki, ala á fordómum þess og fáfræði.
Ég er ekki svo fáfróður að ég viti ekki að þegar 100 manns eru ráðnir til að sinna einhverju verki, þá er það vegna þess að lög og reglur hafa ákveðið umfang viðkomandi ráðuneytis, skyldur þess og hlutverk.
Vilji því menn minnka umfangið, þá breyta menn fyrst lögum og reglum og aðlaga síðan starfsmannafjölda að þeim raunveruleika.
Þú ættir líka að íhuga orð Tona hér að ofan, hann var að reyna segja þér ákveðinn hlut, mikilvægan hlut, og þegar þú hefur náð þessu, þá verðurðu aðeins sterkari á eftir.
Hvað mín sjónarmið varðar, þá ætla ég að peista hér 2 pistla sem útskýra ágætlega röklegu nálgun mína, ásamt grunnastöðu minni til báknsins.
Þú þarft ekki að vera sammála mér Pétur, en þú hefur gott af því að reyna skilja sjónarmið mín, þó það væri ekki nema til þess að þú væri sterkari á eftir í rökræðu þinni.
Það eru rök sem leiða umræðuna, ekki fordómar og frasar.
Kosturinn við aldurinn er jú lærdómurinn.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 16.12.2013 kl. 09:56
Og hér eru linkarnir.
Fólk er heiðarlegt.
Kostnaður hlýst af sameiningu.
Ómar Geirsson, 16.12.2013 kl. 09:56
Ha! Ég skal fræða þig á því, Ómar, að ég er miðaldra og hef hálfrar aldar reynslu af stjórnmálum í þremur ríkjum sem ég hef búið í áratugum saman. Munurinn á mér og þér er að ég er ekki heimaalningur sem þekkir ekkert fyrir utan túnfótinn.
.
Það sem þú hefur skrifað um félagslega frjálshyggju er rangt, þú þekkir hana ekki því að hún hefur aldrei verið reynd hér á landi vegna heimóttarháttar og dugleysi íslenzkra stjórnmálamanna. Þessi stefna gengur undir ýmsum nöfnum, en nefnist hér félagsleg til aðskilnaðar frá laissez-faire liberalisma, sem er við lýði t.d. í USA. Sú stefna sem ég tala um og sem ég kalla félagsleg frjálshyggja hefur verið opinber stefna stjórnvalda í Danmörku og Noregi í raun, þótt þau kalli það sjálf ýmist kapítalisma eða kapítalisma með velferð/almannatryggingakerfi. Og ekki blanda saman frjálslyndi og frjálshyggju. Orðið frjálslyndi er mjög villandi og er ekki tengd frjálshyggju, en sýnir hvað íslenzkan er takmörkuð. Þá hefur þessi stefna, kapítalisma með velferð/almannatryggingakerfi, gefið þessum tveimur þjóðum og fjölmörgum öðrum ekki aðeins góðan efnahagsgrundvöll vegna góðs atvinnuumhverfis, heldur einnig öryggisnet fyrir láglaunafólk. En ekki er allt paradís, því að það er of mikil skriffinnska þar ennþá og of mikið ríkisbákn sem stendur efnahagslegum vexti fyrir þrifum. Hins vegar er spilling í þessum tveimur ríkjum, sem ég hef tekið sem dæmi, frekar lítil og yfirleitt axla ráðherrar ábyrgð á mistökum með afsögn sinni.
.
En hvað höfum við hér á Íslandi? Næstum ekkert alvöru atvinnulíf, því að allir eru að þjónusta hvorn annan (lítill útflutningur á iðnaðarvörum sem stafar af því að íslenzkar ríkisstjórnir hafa alltaf verið andvígar uppbyggingu framleiðsluiðnaðar vegna ofsahræðslu við erlent fjármagn), skriffinnska út yfir allan þjófabálk, forræðishyggja, gríðarleg spilling, gríðarlega stórt, en óskilvirkt ríkiskerfi, einokun, samkeppnishömlur, bjánar á Alþingi sem aldrei hafa samið lög sem gagnast þjóðinni, lamað heilbrigðiskerfi vegna niðurskurða, lélegar almenningssamgöngur og skortur á lýðræði, því að löggjafinn hlustar ekki á þjóðina.
.
Einhvers staðar skrifaði ég að Íslendingar væru svo aftarlega á merinni, bæði efnahagslega og félagslega, að þeir væru komnir undir stertinn og finnst mér það góð lýsing. Þeir stjórnmála- og embættismenn sem eru ábyrgir fyrir þessu má rekja allt aftur til sjötta áratugsins, þegar öllum tækifærum var hafnað og haftastefnan var tekin upp, sem hélt áfram allt til aldamóta. Og í því eru eru allir flokkar á Alþingi sekir. Ef hér hefði verið staðið rétt að málum, ekki bara upp úr aldamótum, heldur allan lýðveldistímann, þá hefði hér verið sterkur efnahagur með blómstrandi atvinnulífi og ekkert hrun hefði orðið. Um þetta hef ég skrifað áður, en það er eins og sumir hafi bara ekki skilið staðreyndir vegna heimóttarhugsunarháttar og fastheldni í kreddur.
Pétur D. (IP-tala skráð) 16.12.2013 kl. 13:49
Félagsleg frjálshyggja heitir á ensku "social liberalism". Hér er hægt að lesa um þessa stjórnmálastefnu:
http://en.wikipedia.org/wiki/Social_liberalism
Pétur D. (IP-tala skráð) 16.12.2013 kl. 17:48
Blessaður Pétur.
Ef þú ert orðinn miðaldra þá veistu að kennitala segir lítt um raunaldur, Keith Richards náði ekki að fullorðnast fyrr en rúmlega sextugur.
Og ályktun mína byggði ég á menntun þinni, það er ákaflega sjaldgæft að fólk láti blekkjast af forheimsku frjálshyggjunnar mikið yfir þrítugt, nema það sé í störfum sem það hefur hag af hinni áunnu heimsku, og svo menntun sem tengist lögfræði og viðskiptamenntun.
En á þessu eru undantekningar sem aðeins styrkja kenninguna.
Þegar ég les svo skrif þín hér að ofan, dreg frá heimsóttarskap þinn sem líklegast stafar af því að þú hefur ekki lesið Brekkukotsannál, þá sé ég að þú ert líklegast bara gamaldags íhaldsmaður sem varst einhvern tímann pirraður á lífsleiðinni.
Hugsanlega gætir þú líka verið það gamall að þú hafir slysast inná fund hjá Eimreiðinni þar sem Magnús Gunnarsson hefur reynt að telja fundamönnum í trú um að hann Hannes væri að tala um kapítalisma þegar hann ræddi kenningar Friedmans og Hayeks.
En svo er ekki, orðið frjálshyggja er íslenskt hugtak yfir það sem kallað hefur verið á enskri tungu, laizzes faire, og er þannig séð frjáls markaður án ríkisafskipta.
Sósíal tengist ekki leisý fer á nokkurn hátt, og maður þarf ekki að fara erlendis til að vera læs.
Síðan ættirðu að íhuga Pétur að Noregur er eins langt frá hagkerfi án ríkisafskipta eins og hægt er að ímynda sér.
Síðan er það rangt hjá þér að orðið frjálslyndi lýsi ekki enska hugtakinu liberal skammlaust, mér er til efs að mörg mál hafi betri þýðingu en íslensk tunga á þessu engilsaxnesku orði, og hefur það eitthvað með skyldleika málanna að gera.
Og þar sem þú hefur greinilega ekki lesið Brekkukotsannál, þá vil ég benda þér á að lýsingar þínar á íslensku samfélagi og efnahagslífi, eiga rætur í djúpstæðri minniháttarkennd sveitamannsins sem féll í stafi yfir stærð útlanda, og féll í þá gryfju að stækka sjálfan sig með því að minnka sveitina heima.
Fyrir daga ræningjanna skoruðu helstu lýðtölur þjóðarinnar á topp tíu lista þjóða heimsins og í dag hafa margar vissulega fallið, en samt ekki um mörg sæti á samanburðarlistanum.
Sama gildir um helstu efnahagsstærðir, sem mæla tekjur og efnahagslega velmegun, eitthvað hefur dottið af topp tíu listanum, en ekki samt mikið neðar en það.
Einhæfni atvinnulífsins er ákaflega eðlileg út frá forsögu fámennrar þjóðar sem hafði enga innviði þegar hún varð fullvalda fyrir tæpum hundrað árum síðan. Fjölbreytnin hefur aukist með aukinni menntun, og uppúr 1980 sprakk atvinnulífið út, frá veiðimannasamfélagi yfir í þjónustusamfélag, þar sem menntun og tækni skipta sífellt meira máli.
Og þessar grunnforsendur atvinnulífsins stóðu af sér hrunið, ládeyðan núna skýrist af ráninu, 60-70% fyrirtækja voru hálfgjaldþrota eða algjaldþrota.
Og í hreinskilni sagt Pétur, þá er mér til efs að margar þjóðir hefðu lifað slíkt rán.
Löggjöf okkar er sambærileg nágrannaþjóðum okkar, ágallar hennar eru þeir sömu, og í dag má rekja þá flesta til evrópska regluverksins.
Spillingin er eins og hún er, en þú ert barnalegur ef þú heldur að hún sé ekki til staðar í öðrum löndum, hún er eitt af því mörgu sem sameinar elítu allra landa.
Fjársveltið í heilbrigðiskerfinu er afleiðing af skuldsetningu ríkissjóðs vegna endurreisnar fjármálakerfisins, og sá sósíalismi andskotans er innfluttur, eins og flest annað sem viðkemur þessu Hruni.
Síðan verð ég að lýsa furðu minni, að þú sigldur maðurinn hafi ekki orðið var við hrun fjármálakerfa Vesturlanda, vekur upp spurningar hvort þú hafir nokkurn tímann sé land þegar þú sigldir.
Að lokum Pétur örgrannt að ég hafi tekið eftir smá þykkju hér að ofan, eins og að þér hafi ekki líkað framsetning mín. Eins og þú hafir verið hafður fyrir rangri sök eða eitthvað, eða málflutningur þinn ekki notið sanngirnis.
Sem má vel vera, en þá skaltu aðeins líta út fyrir eigin barm, og lesa aftur ábendingar Tona hér að ofan.
Og íhuga hvernig þú talar um hóp fólks sem hefur það eitt sér til saka unnið að vinna hjá hinu opinbera.
Menn geta haft skoðanir á umfangi hins opinbera en menn hafa ekki atvinnu fólks í flimtingum. Gera ekki lítið úr störfum þess og hlutverki.
Það er einfaldlega ósiður.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 16.12.2013 kl. 21:26
Og þegar ég les seinni póstinn þinn hér að ofan þar sem þú vitnar í félagslegt frjálslyndi, þá staðfestur þú grun minn Pétur að þú sért gamaldags sjálfstæðismaður, og eftir stendur þá pirringur þinn út í ríkið, sem þú átt svo sem sameiginlegan með mörgum öðrum sjálfstæðismönnum.
Þá vil ég ráðleggja þér að lesa aftur linka mína hér 2 að ofan, og ganga svo til liðs við þá sem herja á evrópska regluverkið.
Ef ríkisstjórnin meinti eitthvað með baráttu sinni gegn bákninu, þá myndi hún takast á við það.
Og til þess er aðeins ein leið, að segja upp EES samningnum, þaðan koma flest vélabrögð hinna stóru til að hrekja hina smáu út af markaðnum.
Viljirðu svo síðan breyta hlutverki ríkisins, í þá veru sem þú minntist á hér að ofan, þá er góð regla að bjóða fram þá stefnu fyrir kosningar, en ekki bjóða þjóðinni uppá bolabrögð eftir kosningar.
Það kallast að efna til ófriðar, eitthvað sem síðasta ríkisstjórn sérhæfði sig í.
Og er ekki til eftirbreytni.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 16.12.2013 kl. 21:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.