Upphafið af endurreisn Íslands.

 

Hófst í gær.

Loksins, það hlaut að koma að því.

Vegna þess að svo margir hafa beðið, svo margir hafa vonað, svo margir eiga um sárt að binda.

 

Sú gagnrýni hefur heyrst að tillögur ríkisstjórnarinnar gangi ekki nógu langt, og það er rétt.

Vítisvélin er ekki tekin úr sambandi, beygð heimili ekki rétt við, útborin börn ennþá á vergangi, kerfið sem skóp vandann ennþá við lýði.

En ríkisstjórn hefðbundinna valdaflokka gat ekki gengið lengra, hún gekk eiginlega mikla lengra en slík stjórn getur gengið, því hún fór frá því að vernda hagsmuni fjármálavaldsins yfir í að vernda hagsmuni almennings.

Þjóðarinnar, fólksins í landinu.  Okkar allra, ekki bara sumra, þeirra sem eiga okkur og arðræna.

Og slíkt hefur aðeins örsjaldan gerst í allri samanlagðri sögu mannsins.

Stundin í gær var því stór, merkileg, mikilvæg.

Og hún er upphafið af endurreisn Íslands því vonin verður ekki hamin héðan af.

 

Við getum rifjað upp hvað gerðist þegar Berlínarmúrinn féll, en hann líkt og skuldamúrinn, var reistur af mannhatri, og vilja til að kúga og pína heila þjóð.

Í september 1989 hófu nokkrir námsmenn að mótmæla fyrir utan múrinn, og kröfðust frelsis.  Fáir í fyrstu en Flæði tímans hafði gengið í lið með þeim, og fólki fjölgaði fyrir utan múrinn.   Stjórnvöld gáfu eftir, reyndu á hverjum tímapunkti að ná tökum á ástandinu.  

En hver eftirgjöf var upphaf af nýrri kröfu, og loks var gatið á múrum valdsins það stórt að frelsið flæddi í gegn og bæði Berlínarmúrinn féll, og kerfi kúgunar og áþjánar í kjölfarið.

Fyrsta gatið, fyrsta eftirgjöfin var erfiðust, síðan kom strögglið, loks hafðist skjótur fullnaðarsigur.

 

Vonin er nefnilega ekki hamin þegar hún kemst á flug, og réttlætið er frelsað úr hlekkjum valdsins.

 

Strögglið er hafið, og margt mun verða sagt.

Margir lukkuriddarar munu söðla fáka sína, og margt skoffín vogunarsjóðanna mun sjást á ferli, glefsandi í allt og alla, reynandi þannig að snúa við hjóli tímans.

En hvað sem mun gerast, þá mun réttlætið sigra.

Ekki réttlæti sumra, heldur réttlæti allra.

Réttlæti sem ég tjáði fyrir kosningarnar í vor í pistli mínum, FRAMBOÐ UM RÉTTLÆTI.

Orð sem eru í fullu gildi og friður mun ekki nást fyrr en þau eru meðtekin og skilin af valdhöfum þessa lands.

 

Von þjóðarinnar felst í framboði um réttlæti.

Réttlæti öllum til handa. Ekki bara sumum, "ekki bara handa mér og mínum, hinir voru eitthvað bara svo vitlausir eða á röngum stað á vitlausum tíma".

Sá sem skilur ekki þessa grunnstaðreynd mun engu breyta.

 

Framboð um réttlæti tilkynnir að allir sem misst hafa heimili sín eftir Hrun, fái heimili sín til baka. Jafnt syndugir sem hinir vammlausu. Síðan verði samið um skuldir fólks, þannig að fái haldið húsnæði sínu. Það var hægt að afskrifa hjá auðmönnum, hjá ríka fólkinu sem á stjórnmálastéttina, það er líka hægt að afskrifa hjá hinum venjulega manni. Og enn og aftur, alveg óháð hvort menn eru vammlausir eða syndugir.

Að átta sig á þessari staðreynd, er forsenda þess að menn verjist sterkasta vopni ógnaraflsins, sundrunginni, að etja einu hópi gegn öðrum.

 

Framboð um réttlæti tilkynnir að það muni standa vörð um það samfélag sem ól okkur upp og fóstraði, um heilbrigðiskerfið, um menntakerfið, um umönnun aldraða og sjúkra.

Framboð um réttlæti tilkynnir að það muni vinda ofanaf heljartökum óráða AGS og ýta undir grósku og velmegun, efla innlenda framleiðslu, ná niður matvælaverði og svo framvegis. Ráðin eru þekkt og augljós, má lesa um þau í stefnuskrám margra stjórnmálaflokka (svo dæmi sé tekið þá er kaflinn um gróskuna í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins mjög skynsamur), aðeins brenglun hugarfarsins, sem á rætur sínar að rekja til hagsmuna þeirra sem ætla að arðræna þjóðina og skuldaþrælka, útskýrir að þessar augljósu leiðir voru ekki farnar.

Brenglun hugarfarsins sem taldi fólki trú um að niðurskurður, ofurskuldsetning, skatthækkanir, væru leið uppbyggingar, en ekki samdráttar og kreppu eins og sagan kennir án undantekninga.

 

Framboð um réttlæti, um endurreisn landsins, um nýtt og betra Ísland, snýst gegn ógnaraflinu, hinu vanheilaga bandalagi innlendra auðmanna og vogunarsjóðanna.

Stór hluti af eignum þrotabúa bankanna er ránsfengur verðtryggingar og hávaxta AGS.

Stór hluti af eignarhaldi þrotabúanna á fyrirtækjum er tilkominn vegna ólöglegra gjörninga, eða vafasamra viðskiptahátta sem viðgengust vegna tengsla hins illa fengna auðs við stjórnmálastéttina.

Þessu eiga þrotabúin að skila, hvort sem þau gera það með samningum eða einhliða lögboði. 

 

Framboð um réttlæti, um endurreisn landsins, um nýtt og betra Ísland tilkynnir að opinber rannsókn verði gerð á starfsemi þrotabúa eftir Hrun, hvort sem það er þrotabú gömlu bankanna, eða öðrum þeim þrotabúum sem hafa útdeilt eignum til vina og vandamanna. Eða innan gömlu auðklíkunnar.

Framboðið tilkynnir um opinbera rannsókn á starfsháttum nýju bankanna, hvernig þeir innheimtu ólögleg lán, innheimtu ólöglega vexti, hvernig þeir settu heimilum og fyrirtækjum afarkosti, hvernig þeir útdeildu eignum á hrakvirði til vina og vandamanna, til meðlima gömlu auðklíkunnar.

Framboðið tilkynnir að skipuð verði rannsóknarnefnd sem rannsaki allt viðskiptalífið fyrir Hrun, þar sem allir fjármagnsflutningar, eignatilfærslur, sýndarviðskipti og annað verði rannsakað. Sérstök árhersla verði lögð á ábyrgð endurskoðanda, lögmanna og annarra þeirra starfsmanna sem gerðu öll sýndarviðskiptin möguleg.  

 

Þessar rannsóknir verða gerðar á forsendum neyðarlaga sem heimila slíkar rannsóknir og byggja á þeirri forsendu að það er glæpsamlegt að setja heila þjóð á hausinn, að eyðileggja efnahagslíf hennar og mergsjúga helstu fyrirtæki hennar þannig að aðeins skuldug skel er eftir.

Þó glæpaklíkan sem gerði þetta hafi látið breyta lögum sér til hagsbóta þá munu neyðarlögin afturkalla þann gjörning, lög sem áttu að gilda í heiðarlegu og opnu þjóðfélagi, verða þau lög sem til viðmiðunar verða höfð. Slíkt er nauðsynlegt til að hindra að glæpaklíkur kaupi upp stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka og geri eitthvað viðlíka í framtíðinni.

Neyðarréttur þjóða er æðsti réttur, gegn honum geta lög spillingar og auðs ekki gengið.

 

Þegar þetta er gengið eftir, þá er Endurreisn Íslands lokið.

Nýtt og betra Ísland hefur þá risið uppúr öskustó Hrunsins og líkt og fuglinn Fönix mun það svífa til hæstu hæða og fóstra börnin okkar í samfélagi vonar og friðar.

Veldældar og velmegunar.

 

Endurreisnin er hafin.

Kveðja að austan.


mbl.is Upphafið að endurreisn Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Ómar. Vandamálið er, að ef maður horfir á heildarmynd hugans, með öllum þeim staðreyndar-gluggum sem í þeirri mynd eru þessa dagana, þá er mér það illskiljanlegt, hvernig réttlætis og mannúðarmálin ganga fyrir sig í stóra samhenginu.

Sú heildarmynd krefst nánari opinberrar rökumræðu og útskýringa, ef hún á að vera réttlætanleg!

Það er verðið að dunda sér við það þessa dagana, að hálfdrepa silfur hafsins (síldina) í Kolgrafarfirði, með gríðarlegum kostnaði. Því það er talið/ágiskað, af sér-fáfræðingum í þjónustu glæpamanna (baktjalda-falda-valdsins), rétt að sprengja hana hálfpartinn eða alveg til dauða? Frekar heldur en að veiða hana til vinnslu og verðmætasköpunar í gjaldeyris-þrota landi, með heimilislausu fátæku og sveltandi fólki?

Á sama tíma og fyrirhugað er að bjóða upp enn fleiri heimili og eignir, t.d. á aðfangadag jóla, eftir 24 daga, vegna bankarænds, kaupmáttarsvikins, heiðarlegs og greiðslugetu-svikins láglauna-almennings, láglauna-eldriborgar og láglauna-öryrkja?

Og Bjarni Benediktsson er ósýnilegur verjandi og ábyrgðarmaður svona fjármálastjórnunar á Íslandi, 1 desember árið 2013? Hann er vafinn inn í verndar-bómull glæpamafíu-banka/lífeyrissjóða og ríkisstyrkta fjölmiðilsins?

Hver djöfullinn er í gangi?

Eru allir gengnir endanlega af göflunum, sem ráða/hóta/kúga bak við tjöldin, með t.d. líflátshótunum og öðru álíka "jólaljósa-friðarlegu og sannkristnu"?

Ég bið almættið algóða að hjálpa helsjúkum valdafíklum, og fórnarlömbum þeirra. Ekki bara á Íslandi, heldur í allri þessari mafíustýrðu veröld. Hér dugar ekkert minna en almáttuga góða alvalds-aflið. 

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 1.12.2013 kl. 13:52

2 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Vel skrifuð grein ,og gerir mörgu góð skyl,og vel það ,við erum bara að verða sammála Austur og Suður,kær kveðja Halli gamli að sunnan!!!

Haraldur Haraldsson, 1.12.2013 kl. 14:02

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Anna.

Ekki ber ég á móti því að margt mætti vera betra, og þess vegna skrifaði ég þessa grein.

Mitt innlegg í þessa umræðu sem þú nefndir.

Ég tel að stífla hafi gefið sig í gær, og margt eigi eftir að breytast, varanlega.

Samfélagið verði mannúðlegra á eftir.

Það er nefnilega eitt sem fylgir góðum verkum, kallast vellíðan, fólki líður betur, það er ánægðra með sig.  Þess vegna fylgja góðverk oft góðverki.

Eigum við ekki að vona að Bjarni finni fyrir þessari tilfinningu, að hann sé nokkuð bara ánægður með sig.  Og hann leitist jafnvel til að endurtaka leikinn, gera annað góðverk, og svo annað.

Kannski stöðvar hann Útburð núna í desember.  Það er rökrétt framhald, og alveg eins og enginn getur verið á móti réttlæti, þá er enginn á móti Góðverki í desember.

Jafnvel fjármálaglæpamennirnir sem ráða yfir fjölmiðlum landsins, myndu ekki þora í Bjarna ef hann tilkynnti að ríkisstjórnin teldi Útburðinn ekki siðaðri þjóð sæmandi, og hún vildi að fjármálastofnanirnar settust niður með ríkisstjórninni og saman yrði mótuð önnur lausn en sú að bera fólk út.

Til dæmis að greiðslubyrði yrði aðlöguð af greiðslugetu.  

Og samningafundurinn yrði haldið í Bíó Paradís þar sem myndin It´s a Wonderful Life væri sýnd fjármálamönnunum, þar fengin þeir rökin fyrir því að mannúð og mennska skilar sér í betri endurheimtum til lengri tíma.

Veit það ekki Anna, en það er svo margt hægt að gera, annað en að sýna siðleysi og mannvonsku.

Okkur er talið í trú um leikreglur samfélagsins, séu leikreglur fjármálamanna sem engu eira, sem öllum vilja illt, og alla hata.

Vegna þess að þessir fjármálamenn trúa þessu sjálfir, og þeir eiga fjölmiðlamennina, allflesta stjórnmálamenn okkar, hafa fullt af álitsgjöfum í vinnu, og þar með er þeirra trú, trú samfélagsins.

En þetta er eins rangt og eitthvað getur verið rangt.

Þeir eru ekki svona, hvað þá restin af samfélaginu.

Það þarf bara litla stelpu til að benda á hinn nakta keisara og spyrja hvort honum sé ekki kalt.

Það gerðist kannski ekki í gær, en það verður allavega núna hlustað þegar litla stelpan bendir, málið er að koma á fundi þeirra á allmannafæri, og Galdur lífsins mun svo sjá um restina.

Ég skrifa líka þessa grein til að hjálpa við að skapa þessar forsendur, að fólk skilji að réttlæti þess, sem er ekki réttlæti allra, er ekki réttlæti.  Ekki einu sinni skylt því.  Býr ekki einu sinni í sama sveitarfélagi.

Vilji fólk réttlæti, þá vill það réttlæti fyrir alla, ekki bara fyrir sig og sína.

Og það fær ekki heldur réttlæti fyrr en það krefst réttlætis fyrir náungann, ekki sjálft sig.

Þessi einfaldi galdur, er einn af Lögmálum lífsins.

Lögmálið um hvernig fólk öðlast réttlæti, fyrir sjálft sig og sína.

Fólk les svona skrif, þó það læki ekki, fattar ekki ennþá svona einfalda lógík, að náunginn, en ekki bara það sjálft eigi réttlæti skilið.

En það eru vatnaskil, og jafnvel orðin þegar það kröftug að Jólagjöf þjóðarinnar í ár verði stöðvun Útburðar mæðra og barna af heimilum sínum.

Veit það ekki Anna, en ég er allavega búinn að orða það, þó ég væri hættur að orða hluti í bili.

Þökk sé þínu góða innleggi.

Og Orð er Upphaf alls.

Takk fyrir innlitið Anna.

Kveðja að austan. 

Ómar Geirsson, 1.12.2013 kl. 20:06

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Haraldur minn.

Við skulum bara njóta þess að vera sammála 2 daga í röð.

Á þessum síðustu er það bara nokkuð gott.

Mér þótti vænt um hrós þitt.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 1.12.2013 kl. 20:07

5 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Hvað færð þú margar millur í vasann á kostnað almennings ef tillögur foryngja þíns ná fram að ganga?

Ómar Bjarki Kristjánsson, 1.12.2013 kl. 23:01

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður nafni.

Það er ólíkt skemmtilegra að fá þig hingað inn með áhyggjur um kostnað sem fellur á almenning, en þegar þú varst sífellt að reyna að velta kostnað yfir á almenning.

Vona að þú haldir áfram á þessari braut þó þú fáir kannski ekki tækifæri til að halda áfram á hinni gömlu, þá samt má hrósa þér fyrir hina nýju.

Varðandi spurningu þína þá get ég ekki svarað henni þar sem þú tilnefnir aðeins einn foringja, en þeir eru tveir í þessu dæmi, og þú hefur átt erfitt með í gegnum tíðina að halda þig aðeins við annan, þegar þú ástundar foringjavæðingu þína.

Og þar sem nálgun þeirra er mjög ólík, þá get ég eiginlega ekki gefið þér ærlegt svar, nema vita hvorn þú átt við.

Svo ef forvitnin hrjáir þig ennþá, skjóttu á mig línu og ég mun örugglega gefa mér tíma til að svara eftir bestu vitund.

Þangað til;

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 2.12.2013 kl. 06:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 24
  • Sl. sólarhring: 943
  • Sl. viku: 4472
  • Frá upphafi: 1329034

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 3950
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband