11.11.2013 | 20:25
Einföldum regluverkið!!
Með því að stofna nefnd.
Sem fer yfir málið, vegur og metur, og stofnar nýtt bákn, regluráð sem ætlað er að auka skilvirkni í reglusetningum hins opinbera.
Er þetta það eina sem Sjálfstæðisflokkurinn gat lagt til málanna eftir harðvítuga gagnrýni sína á báknið allt síðasta kjörtímabil??
Að berjast við bákn með bákni??
Engar hugmyndir, ekkert um eitthvað sem má betur fara, sem má missa sig?
Hvað með regluna sem eykur eldsneytiskostnað þjóðarinnar um áramótin, og hækkar þar að auki verðtryggð lán fólks?? Má hún ekki víkja, má ekki fresta henni með því að stofna nefnd og láta hana vega og meta, og meta og vega??
Hvað með allt eftirlitsbáknið??? Má ekkert missa sig, er engin vitleysa sem blasir við öllum hugsandi mönnum??? Má ekki taka tilliti til neins af því sem fórnarlömb báknsins hafa bent á í gegnum árin???
Ekkert, ekkert, ekkert.
Innihaldsleysið afhjúpar stjórnmálamenn sem eru ekkert annað en umbúðir um frasa, og reknir áfram af valdafíkn, en ekki löngun til að gera landi og þjóð gagn.
Ef þeir eru ekki þegar kostuð skrípi hins blóðmjólkandi fjármagns, vogunarsjóða, hin meintra erlendu krónubréfaeiganda, eða hvað sem allt þetta braskaralið heitir.
Fólk sem hefur ekki lengur neitt að selja, ekki einu sinni sálarbrot andskotanum því það hefur þegar selt allt, sem hægt er að selja.
Er eign hins svarta fjármagns í húð og hár.
Svo finnast ennþá einfaldar sálir sem trúa að einhver alvara sé að baki orðum um skuldaleiðréttingu heimilanna.
Eða þetta fólk ætli að hagræða í kerfinu sem það sjálft skóp handa sér og sínum.
Þó allir með sjón sjá hið allsnakta, þá er samt trúað að einhver spjör sé á kroppnum.
Ég er ekki talsmaður regluverks, en ég legg samt til að hið nýja regluráð fái það hlutverk að setja reglur um stuðningsmenn fjórflokksins, sem innihalda kröfur um hámark trúgirni eða meðvirkni sem stuðningsmenn mega sýna.
Og ef þeir fara yfir þau mörk, verði þeir sviptir kosningarétti á meðan þeir leita sér hjálpar.
Það mætti auka skilvirkni SÁÁ til mikilla muna ef samtökin fengi þessa trúgirnisfíkla til meðhöndlunar því samnýta mætti þessa meðferð annarri fíknimeðferð.
Og það væri ekki til hagkvæmari fjárfesting fyrir þjóðina en setja fjármuni í meðhöndlun trúgirnisfíkla fjórflokksins því þeir eru jú forsenda valda hinna síljúgandi stjórnmálamanna.
Eitthvað verður allavega að gera.
Þetta gengur ekki lengur.
Á allri vitleysu hlýtur að vera endir.
Kveðja að austan.
Dregið verði úr reglubyrði atvinnulífsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 2
- Sl. sólarhring: 13
- Sl. viku: 1226
- Frá upphafi: 1412780
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 1085
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Bákn (nefnd)
um bákn (nefnd)
frá bákni (nefnd)
til bákns (nefndar).
Engar verða efndirnar
en því fleiri nefndirnar.
Ljóðskáld lífsins (IP-tala skráð) 11.11.2013 kl. 22:04
Blessað Ljóðskáld lífsins.
Ef þú rækist á arkitektinn sem magnaði upp óð gegn regluhindrunum ESB skrifræðisins sem fólu í sér dauða einyrkjans, þá máttu alveg biðja hann um að skjóta inn hnitmiðaða samantekt hingað í athugasemdarkerfið.
Svona til glöggvunar fyrir þá sem þekkja ekki muninn á hagræðingu nefndanna og skilvirkni efndanna.
Hið rétta andlit ríkisstjórnarinnar sást í sumar þegar Hanna Birna vitnaði í reglubákn ESB sem rök fyrir að afturkalla varnarbaráttu Ögmundar gagnvart uppkaupum fjármagns á lendum þjóðarinnar.
En ekki vitnaði hún í mannúðarsáttmála Evrópu sem vörn fyrir þeirri ákvörðun sinni að stöðva Útburðinn.
Hagræðing andskotans er fílabomban sem á að kæfa þjóðmálaumræðuna í skítafýlu og skítaumræðu á meðan málið eina, skuldaleiðrétting heimilanna verður úti í fjölmörgum nefndum sem eiga að skoða og kanna og meta hinar ýmsustu leiðir um ekki neitt.
Þess vegna neyðist ég til að taka þessa umræðu í einhverjum pistlum í viðbót, og gæti þegið óð mér til hjálpar.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 11.11.2013 kl. 22:24
Nú skal ég segja það hreint og beint, svo allir muni fyrr en síðar heyra, að það var hér áður fyrr ætíð von fyrir lítinn og sjálfstæðan arkitekt að fá til sín verkefni, eins og önnur einyrkja- og smáfyrirtæki, einungis vegna góðs faglegs orðspors, en með tilkomu EES samningsins hefur allt hægt og bítandi orðið verra, enda markvisst verið að drepa hina litlu og smáu á okkar dvergvaxna innanlandsmarkaði. Og nú er embættismanna bíró-teknó-krata-stóðið að uppkokka aðlagaða ESB byggingarreglugerð andskotans. Þar vantar ekki fínu orðin „sjálfbærni“, „vistvænt“, en af hverju í helvítinu fer þetta lið þá ekki í alvöru torfkofa? Nei, það dettur þessu flórstóði ekki í hug. Það röflar um BREEAM og DIN og guð má vita hvað, en megintilgangurinn er alltaf sá sami að efla gróða eftirlitsiðnaðarins, hins ósjálfbærasta og óvistvænasta af öllu og stór-verkfræðinga-graddar fá sér vottunarleyfi og græða á því og bankarnir græða á hækkandi byggingarkostnaði og allir græða … nema hinn sauðsvarti almenningur og þá … meine damen und herren … fer ríkið að lokum á hausinn. Comprendez?
Á vorum tímum er mest öll hin volaða arkitektastétt í lamasessi og kvíðakasti yfir nýrri byggingarreglugerð forræðishyggjumeistaranna, sem engum treysta til góðra verka, en gáiði að því … ergo sum, þá treysta færri og færri boðvaldi þeirra að ofan, enda eru þetta bara venjulegir sjálfskammtandi kerfisliðar, en alls engir guðir, ef grannt er skoðað. Það ætti öllu fólki með móavit og þúfna að vera augljóst.
Þegar gagnkvæmt traust ríkir ekki, þá dugar boðvaldið einungis til að níða skóinn undan samborgurunum. Það er svo klætt í búning fagurra orða. Það er í nafni heilagleika bírókratanna kallað „nýja“ Ísland en er hræsnisfyllsta útgáfa af „gamla“ Íslandi sem hægt er að ímynda sér, sjálf múmínútgáfa skinhelginnar.
En menn spyrja nú hver annan í hljóðum … hefurðu lesið óskapnaðinn? … Og svörin eru flest þau sömu, nei ekki enn, því menn bíða leiðbeiningarrita við leiðbeiningarritin um reglugerðina ógnarlöngu, sem líkist nú helst orðið ályktunum kaþólskra kirkjuskipana páfans á miðöldum, enda virðist nú stefnt að viðlíka ofur-veldi yfir-bírókrata. Þeir nota boðvald sitt til að reyna að drepa alla lifandi grósku hinna mörgu og smáu. Eigum við þá bara að beygja okkur í duftið og leggjast flatir fyrir ofur-veldi yfir-bírókratanna, sjálfs embættismanna aðalsins, sem bera sjálfir aldrei ábyrgð á einu né neinu af þeirra eigin aumkunarverðu verkum?
Nei fjandakornið. Fremur vil ég þá aumur spyrja þess hvort við eigum ekki að mótmæla líkt og Lúther forðum og negla eitt stykki mótmælabréf, sem aumir þrælar, á öll bænhús hins ósjálfbærasta af öllum ósjálfbærum valdhroka eftirlitsiðnaði seinni tíma?
Mál er að linni. Þjóðin fái að segja sitt um ESB aðlögunina – í síðasta lagi fyrir jólin 2012.
Við vitum það öll, að þetta helvíti gengur ekki lengur og við hæfi að enda þetta greinarkorn með ljóði Davíðs Stefánssonar, skáldsins frá Fagraskógi:
Það teygir sig vítt yfir bygðir og borg
og bólgnar af skipulagshroka,
en geigvænt er loftið af gjaldeyrissorg
og grátt eins og Lundúnaþoka.
En borgarinn fálmar sig bugaður inn
og biður um rétt til að lifa,
svo þjónninn, sem hímdi með hönd undir kinn,
má hamast að reikna og skrifa.
En þarna fær borgarinn skjal eftir skjal,
sem skráð er gegn réttlátri borgun,
og honum er vísað sal úr sal
og sagt – að koma á morgun,
og svona gengur það ár eftir ár,
því altaf er nóg að skrifa,
og altaf fær borgarinn skipulagsskrár
og skilríki fyrir að lifa.
Það lætur víst nærri, að þriðji -nú orðið annar- hver þegn
sé þjónn eða skrifstofugreifi,
en flestum er starfið þó mikið um megn
og margur fær siglingaleyfi.
En borgarinn snýst þarna hring eftir hring
og hlýðir í orði og verki,
og loks þegar alt er þar komið í kring
er klínt á hann – stimpilmerki.
Að stofnunin eflist hvern einasta dag
mun afkoma þegnanna sanna,
og auðvitað reikna þeir ríkinu í hag
sem ráðstafa lífi manna.
En varla mun borgarinn blessa þau tákn,
né bætur þeim skriftlærðu mæla,
sem vilja að alt þetta blekiðjubákn
sé bænahús – krjúpandi þræla.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 11.11.2013 kl. 23:08
VEGURINN EILÍFI EÐA VOTTUNARFERLI ESB
Um 500 árum fyrir Krist sagði sá mikli spekingur Lao Tze okkur söguna um Veginn eilífa og sú saga var þýdd snemma á síðustu öld yfir á íslensku af þeim bræðrum Yngva og Jakobi Jóhannessonum sem Bókin um veginn. Á okkar tímum og í okkar landi er okkur nú þarft að minnast þessara sígildu og sönnu orða Lao Tze og draga af þeim lærdóm, sem hliðstæðu við okkar tíma og hvaða leið íslensk þjóð skuli velja, Veginn eilífa eða krókóttar gróðaleiðir hnattræðisins, skv. vottunarferli ESB:3. Höllin ljómar af skrauti, en akrarnir eru vanhirtir og hlöðurnar tómar.
Að búast í skart og vera girtur biturlegu sverði, eta og drekka óhóflega og hafa fullar hendur fjár – það er ofmetnaður ræningja.
(Bókin um veginn, LIII)
Við þekkjum þetta allt. Hér varð hrun haustið 2008 og 4 árum síðar hefur hér ekkert breyst. Enn velja vanhæfir og drambsamir valdherrar stjórnsýslu ríkisins, samfylktir innan raða alls 4-flokksins, sér krókaleiðirnar fyrir hönd ofmetnaðarfullra ræningja. Nú heitir nýjasta krókaleiðin ESB. Þeir hafa gerst ofsatrúaðir ESB-Vottar til dýrðar sínum yfir-herrum. Ekkert hefur verið tekið á ræningjunum, enda voru þeir flestir drjúgir við að kaupa sér þingmenn innan raða samfylkts 4-flokksins og ræningjarnir voru vel tengdir hnattráðum auðdrottnum ofur-bankanna, þ.m.t. Deutsche Bank, sem gerir út á hnattræðis vísu, þó heimahöfnin sé skráð í Frankfurt þar sem höfuðstöðvar bankaveldis ESB eru. Allt skal gert til að forðast að taka á ofmetnaðarfullu ræningjunum, sem nú eru leppar ofur-bankanna.
Já áfram vilja valdherrar stjórnsýslu ríkisins, hinir ofsatrúuðu ESB-Vottar, velja sér krókaleiðina ESB og hneppa okkar litlu þjóð, okkur litla og venjulega fólkið í fjötra staðla og reglugerða og lagabálka og vottunarferla, í stíl kaþólskra kirkjuskipana páfans á myrkustu miðöldum, sem þjónar sem fyrr því gamla meginmarkmiði mið-evrópskra fursta og greifa og keisarahirða Habsburgara, að drepa niður alla millistétt og gera okkur öll að skattlögðum leiguliðum á okkar eigin landi.
Já áfram hljómar nú boðskapur hinna ofsatrúuðu ESB-Votta, sem velja sér krókaleiðina markaða gullbrydduðum og blóðrauðum Brusseldreglinum. Með gengdarlausum og tröllvöxnum áróðri, tilskipunum og reglugerðum og lagabálkum og vottunarferlum, skal nú drepa endanlega niður alla lifandi grósku einyrkja, lítilla og meðalstórra fyrirtækja og heimila landsins.
Já áfram þjóna staðlaðar reglugerðir og lög ESB-Vottanna, fyrst og fremst ofmetnaðarfullu ræningjunum, sem fyrr. Í þessu samhengi er vert að minna enn á orð Lao Tze:
Því meira verður um þjófa og ræningja sem lög og reglugerðir eru fleiri.
(Bókin um veginn, LVII, 2.)
Á sama tíma og valdherrar stjórnsýslu ríkisins … hvaða ríkis? Ríkis hverra? … hafa ekkert tekið á fjárglæpum hinna ofmetnaðarfullu ræningja, sem við vitum þó öll hverjir voru og hverjir eru, þá virðist það vera líf og yndi ESB-Vottanna að þrælpína almenning þessa lands með ofur-skattlagningu. Einnig um það hefur Lao Tze, vel kunnugur vondum verkum kínverskra keisara, skrifað um sem orsakir að ógæfu þjóða:
(Bókin um veginn, LXXV)
Með hliðsjón af þessari lokatilvitnun í speki Lao Tze, þá langar mig til að minnast á nýjustu tilskipun ESB-Vottanna um að votta skuli baðlaugar á hálendi Íslands. Detti nú af mér allar … Nei, nú er svo sannarlega löngu kominn tími til að láta sér lífið í skemmtilegu léttu rúmi liggja og hlæja opinberlega og hressilega að nakta keisaranum og öllum hans ofsatrúar ESB-Vottum.
Við skulum minnast þess að öll árátta ESB-Vottanna hefur það meginmarkmið að þjóna helst “sjálfbærni” gömlu auðhringadrottnanna og allra skriffinna hirða þeirra. Og við skulum einnig minnast þess að þetta er orðinn krókóttur gróðavegur hnattræðis auðræðis hringadrottnanna, sem hinir skinhelgu ofsatrúar ESB-Vottar boða okkur, alveg vinstri hægri til samfylkts moðsins í þeirra eigin svínastíum.
Og trúið mér, að ef fram heldur sem horfir, þá mun brátt sá verknaður að hlaupa berrassaður um íslenska náttúru verða settur í staðlað vottunarferli og form og svei mér þá ef það verður ekki líka staðlað samkvæmt samræmdu vottunarferli ESB-Vottanna hvernig venjulegt fólk megi og eigi að “geraða” í íslenskri náttúru. Og skriffinnarnir munu svo skrá það allt niður og skattleggja fyrir hönd hnattræðis auðræðis hringadrottnanna. Þá mun fólk minnast þess hvílík sæla það var þegar við fengum að vera í friði sem hobbitar, í friði og næði og að treysta bara hvert öðru án tilskipana og boðvaldsins að ofan, um það hvernig við megum eða eigum að “geraða” í okkar eigin náttúru.
Nú mæli ég með því að íslenskir karlar og íslenskar konur segi það hvert á sinn hátt og á hvaða hátt sem við viljum segja það, að við viljum bara fá að “geraða” á okkar eigin hátt í okkar eigin náttúru, í okkar eigin baðlaugum, til fullveldis, lýðræðis og velferðar og lífs fyrir börn okkar og barnabörn og alla ókomna framtíð íslenskrar þjóðar. Myndum nú SAMSTÖÐU um það – til fullveldis, lýðræðis og velferðar til lífs okkar um alla ókomna framtíð okkar sem þjóðar.
Vanhæfu Alþingi ber nú að hífa gungu og druslulegan sóma sinn eilítið upp og að vísa ESB-aðlöguninni til þjóðaratkvæðagreiðslu. Við erum öll að drepast úr leiðindum af völdum ESB-Vottanna. Við báðum aldrei um að fá þessa leiðinda gaura inn með gljáspeglandi og stálslegin leðurstígvélin milli stafs okkar og dyraops. Við höfum þraukað hér ein norður í Dumbshafi í nærfellt 1150 ár og skiljum ekki þennan undarlega áhuga sem hinir hnattráðu auðræðis hringadrottnar sýna okkur nú í gegnum sína ágengu ESB-Votta.
Höfnum krókóttum gróðavegum hnattræðisins og óhugnanlega ásælni auðdrottna ofur-bankanna og þeim yfirgangi sem þeir beita hér í gegnum leppa sína, ESB-Vottana, en veljum þann eina hreina og greiðfæra veg sem við þekkjum og höfum í gegnum sögu okkar lært að rata svo vel, veginn að heiman, sem er vegurinn okkar heim, til uppruna okkar, til ættlands okkar, móa, mela og smáblóma og hvítfyssandi lækja, hjalandi og flissandi af kátínu niður hlíðarnar og streymandi fram um láglendið og nærandi grasrót engja og túna, með tignarlegan fjallasalinn í bakgrunni með náttúrulegum fossaföllum og baðlaugum sínum og jarðhita. Og makrílinn og fjölbreytta fiskistofnana í 200 mílna landhelgi okkar, sem við háðum okkar einu stórstríð um, til lífsbjargar okkar, næringar og vaxtar.
Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar vill fá að slíta ESB aðlöguninni. Yfirgnæfandi meirihluti íslensku þjóðarinnar vill fá að “geraða” í al-síðasta lagi – í desember 2012. En allra helst strax í nóvember 2012. Og ef nokkur kostur væri, þá vitaskuld strax nú í október. Nú þolum við ekki mikið lengur við. Alla okkar íslensku náttúru og allar okkar íslensku náttúrulegu auðlindir viljum við, sem höfum þraukað hér í nærfellt 1150 ár, eiga sjálf sem fullvalda þjóð og skila því þannig til barna okkar og barnabarna og til heilla til allrar ókominnar framtíðar íslenskrar þjóðar.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 11.11.2013 kl. 23:20
Tek heils hugar undir orð þín Ómar um Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.
Sú ráðherfa er tilbúin til að selja landið undan fótum íslensks almennings.
Hvað á að kalla þannig ráða-manneskju????
Svo ringlaður er almenningur að hann lætur spila með sig alveg vinstri/hægri
meðan landið verður selt undan fótum hans og með stökkbreytta vafningana um kverkarnar.
Meðan svo er, þá er
"Sjálfstæðis"Flokkurinn réttnefndur því nafni sem Benito Mussolini gaf sínum flokki nafn.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 11.11.2013 kl. 23:54
Tekið skal fram að bæði greinin um Nýja byggingarreglugerð & eitt lítið ljóð (sjá aths. nr. 3)
og greinin um Veginn eilífa og vottunarferli ESB (sjá aths. nr. 4) birtust í blöðum fyrir rúmu ári síðan.
Síðan er allt við það sama hér á landi.
Ríkisráðið er eitt og það sama og í sama samtryggða grínflokknum með 6 mismunadi nöfnum til að blöffa almenning.
Hvenær vaknar sauðsvartur íslenskur almenningur og sér hið augljósa: Báknið snýst um báknið og ekkert annað nema sjálft sig og endurreista stórglæpamenn og bankaþjófa og glóbalíska auðdrottna sem voma yfir öllu.
Eru Íslendingar heybrækur?
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 12.11.2013 kl. 01:14
Sæll.
Hugmyndin er vissulega góð en felur í sér vissa mótsögn eins og þú réttilega bendir á: Bákn að berjast á móti bákni. Framkvæmdin er svo annað mál!! Hérlendis eru hagfræðingar svo slappir að þeim virðist ekki detta í hug að reyna að meta þann kostnað sem hlýst af reglugerðarbákni og þau tækifæri sem ekki verða til vegna alltof margra reglna. Í USA gera menn það þó:
http://www.cbn.com/cbnnews/finance/2011/September/Staggering-Cost-of-Regulations-Strangling-Economy-/
Vel má vera að með öðrum hætti sé hægt að komast að annarri tölu en það er ekki aðalatriðið, það sem máli skiptir er að hið opinbera, bæði hér og erlendis, er farið að skipta sér að hlutum sem því koma ekki við og þessi afskiptasemi, sem auðvitað á að gera lífið betra, gerir það ekki. Miðstýring efnahagslífsins virkar ekki. Að auki fylgir öllum þessum reglum það að þær gera ráð fyrir að neytendur viti ekkert í sinn haus og að hafa þurfi vit fyrir þeim. Er það virkilega málið? Er fólki ekki treystandi til að velja sér bíl, kvöldmat, ferðamáta, skó, fæðubótarefni eða skíðaferð?
Vandinn við þessa ríkisstjórn er sá að hún er alltof lík þeirri fyrri. Ég sá nýlega (í Fréttablaðinu held ég) að Bjarni og Sigmundur hefðu gagnrýnt fyrri ríkisstjórn fyrir aukaskatta á stóriðjuna (raforkuskatta eða eitthvað slíkt). Nú þegar þeir hafa tækifæri til þess að fella þau gjöld niður hreyfa þeir hvorki legg né lið. Ég hélt að Steingrímur 180° væri undantekningin en þetta virðist vera smitandi.
Við þurfum að losna við fólk af þingi og ráðherrastól sem getur ekki gert neitt annað en sinnt þessum störfum. Banna þarf fólki að sitja meira en tvö kjörtímabil á þingi eða í sveitarstjórn. Erfitt er að halda því fram að stjórnmálamenn landins hafi staðið sig vel og reynsla í þessu samhengi virðist vera neikvæð - þýðir í reynd að stjórnmálahræin hafa dottið úr sambandi við veruleikann. Borgarstjórn Rvk er t.d. að eyða sínum tíma (og peningum Reykvíkinga) í að endurnefna götur í borginni?!
Já Ómar á allri vitleysu er endir - það er sko rétt hjá þér: Þjóðargjaldþrot blasir við okkur og mörgum öðrum þjóðum á næstu árum vegna þess að menn halda að þeir geti látið eins og efnahagslögmálin eigi ekki við hið opinbera. Hið opinbera hérlendis t.d. skuldar hundruðir milljarða umfram eignir. Að því kemur að menn vilja ekki lengur lána peninga í slíkan pytt.
Helgi (IP-tala skráð) 12.11.2013 kl. 06:34
Takk Pétur minn.
Mig grunar að prósinn hér að ofan gegn reglubákni skrifræðisveldisins sem ofinn er úr frá hugljómun hins einfalda, vegferðina um veginn, hafi komið úr smiðju Ljóðskáldar lífsins, þvílíkt er orðkyngið.
Láttu þig ekki bregða, að sjá þennan prósa sem pistil hjá mér, þar sem fororð eru mín svo enginn rugli mér saman við Skáldið. Það er að enginn fari að halda ég sé orðinn ritfær á máli skálda.
En hið öskrandi ljón hefur líka mætt hér að ofan, og glefsað án þess að hugsa. Og gefur andstæðingum lífsins tækifæri á að afgreiða mátt orðanna með vísan í eitt vanhugsað.
En ástæða þess að ég nafngreindi Hönnu Birnu er sú að hún er innanríkisráðherra, og sýndi í verki það sem glittir í fyrir innan sýndarhjúpinn.
En þetta er ekki hún, þetta er ríkisstjórnin sem fetar hinar dimmu slóðir auðþjónkunar.
Hvað sem líður Pétur Örn, þá er þessi pistill seifaður, geymdur, ekki gleymdur, heldur mun verða vitnað í hann á komandi tímum byltingar lífsins, þegar menn ræða og rifja upp hvenær allt þetta hófst.
Pistill sem hreyfði við skáldinu, hóf vegferð þess um veginn eina.
Í upphafi var orðið.
Upphafið var orð.
Upphaf Byltingar lífsins voru orð.
Orð Skáldsins.
Orð knúin af réttlætiskennd og sannfæringu um Rétt lífs til lífs.
Hafið þið félagarnir, þú og Skáld lífsins þökk fyrir.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 12.11.2013 kl. 08:26
Blessaður Helgi.
Takk fyrir linkinn sem þú sendir, hann var lesinn og fór í möppu sem heitir Global-Úrval.
Ég les hér að ofan mikla samhljóman við gróskuna og gróandann sem Hagfræði lífsins sprettur uppúr.
Andstaða okkar við flókið skattkerfi og háar skattprósentur á sér sömu rætur og andstaða okkar við flókið regluverk og ofreglun mannlegs samfélags.
Slíkt kæfir gróskuna og gróandann, hneppir mannsandann í bönd, leiðir til áþjánar undir stjórn hinna örfáu.
En þetta er ekki nýtt, síður en svo.
Ævagamall fjandi sem hrjáð hefur mannkyn frá fyrstu dögum siðmenningarinnar.
Og hrjáir enn.
Getur ekki einu sinni afreglað án þess að regla afreglunina.
En íhaldsmenn gína við þessu, ganga glaðir í helsi sitt.
Skilja ekki andann, skilja ekki gróskuna.
Skilja ekki Skáld lífsins.
Og óð hans til lífsins.
Þess vegna mun ég birta þennan óð, og það má vel vera að ég skeyti þessari athugasemd þinni við hann.
Þar er margt þarft sagt.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 12.11.2013 kl. 08:43
Sæll Pétur
Það er hvergi minnst minnst á EB tilskipanir eða reglugerðir í lögum um mannvirki eða í byggingarreglugerð. Þetta virðast vera alíslensk lög og reglugerð sem við höfum sett okkur alveg sjálf en ekki að kröfu EB. Þar er vissulega vísað í staðla hægri vinstri en það er ekki EB sem heimtar það heldur er það okkar eigin smíð.
kveðja Árni
Árni Davíðsson, 12.11.2013 kl. 09:41
Sæll Árni
Ertu að meina að þetta sé sér-íslenskt helvíti sem kokkað hefur verið upp eftir hrunið?
Hvernig stendur þá á því að margir þingmenn hafa viðurkennt það að þeir taki við tilskipunum
og samþykki þær umhugsunarlaust á þingi? Vita þeir ekkert hvað þeir eru að gera?
Kveðja Pétur
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 12.11.2013 kl. 15:29
Eftir hrunið hef ég teiknað tvö lítil einbýlishús í Noregi samkvæmt norsku reglugerðinni.
Hún þykir af öllum þarlendum hið arfavitlausasta torf. Hún er þó sem barnaleikur
miðað við þann dólgshátt og forsjárhyggju sem Mannvirkjastofnun hefur í frammi
og sem einungis gagnast uppreistum og afskrifuðum stór-byggingarfyrirtækjum og bönkum
og það tilgangurinn að drepa niður alla einyrkja og smáfyrirtæki í byggingariðnaði
og sinna einungis stundlegri gróðafíkninni enda mun byggingarkostnaður aukast
um 15% með tilkomu Nýju Byggingareglugerðarinnar.
Frjáls samkeppni?
Hvað er nú það ... þegar einungis stórfyrirtæki og ríkisvaldið makkar saman með reglugerðum ættuðum úr neðra?
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 12.11.2013 kl. 15:42
Sæll Ómar minn
Þér er heimil ólin ... að nota hvað sem þú vilt af mínum skrifum. Mín er ánægjan kæri fóstbróðir.
Ég þarf að fara að teikna þriðja einbýlishúsið ... í Noregi ... blessunarlega.
Hér á okkar landi ráða enn að mestu leppar þjófa og ræningja.
Landið er í hershöndum Burlington hrægamma.
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 12.11.2013 kl. 15:48
Gangi þér vel með það Pétur, það þarf líka að tína upp mat á vegferðinni um veginn.
En ég hafði hugsað mér að enda þessa törn með því að láta kennslu þína um veginn vera mín endastöð í bili.
Þó Burlington eigi landið, þá endist glóð mín alltaf skemur í hvert skipti sem ég reyni.
Hef mun meiri ánægju af vegferðum.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 12.11.2013 kl. 16:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.