11.10.2013 | 09:32
Fólk er heiðarlegt.
Það er ekki flóknara en það.
Undantekningarnar hins vegar koma óorði á fólk, líkt og ofdrykkjumaðurinn á okkur drykkjumennina.
Búðaþjófurinn á viðskiptavinina, skattsvikarinn á skattgreiðendur.
Undantekningarnar móta síðan viðbrögð okkar.
Við ofreglum samfélagið, tortryggjum einstaklinginn.
Sitjum uppi með reglugerðarbákn sem allt kæfir.
Og þetta reglubákn er svo heilagt að það má ekki snerta það.
Allt er skorið, sjúkrahús, skólar, samgöngur, áður en snert er á einni reglu, einu bákni.
Í reynd þenst reglubáknið út á niðurskurðartímum því settar eru reglur, og aukið eftirlit, svo "takmarkaðir" fjármunir nýtist sem best.
Með þeim afleiðingum að ennþá minna er til ráðstöfunar.
Nöturlegasta dæmið var uppgjörið við fórnarlömb "uppeldisstefnu" ríkisins þar sem ríkið bar ekki á móti siðferðislegri bótaskyldu, en bar við fjárskorti til að hægt væri að gera það á mannsæmandi hátt.
Og þar sem fjármunir voru takmarkaðir, var ekki hægt að bæta jafnt, það yrði að meta meint sálartjón einstaklingsins, eins og það væri yfir höfuð hægt, og upphæð bóta færi eftir matinu á hinu meinta tjóni.
Bæturnar voru smánarlegar en þeir sem mátu sálarástandið höfðu af því góðar tekjur. Kostnaðurinn við kerfið slagaði hátt uppí það sem sannarleg fórnarlömb uppeldisstefnu ríkisins fengu í bætur fyrir ónýta æsku, skemmda framtíð.
Það er í raun engin takmörk fyrir því hvað kerfið og kerfishugsunin getur lagst lágt til að sjúga til sín fjármuni þaðan sem þeirra er þörf.
Það er heldur engin takmörk fyrir hugmyndaflugi þess við að setja lög og reglur sem kæfa alla grósku og athafnasemi.
Þrátt fyrir allan niðurskurð síðustu ára hefur ekkert verið hreyft við hinni kerfislægu hugsun.
Á sama tíma og fólki á "vettvangi" fækkar, og fækkar, og á að fækka ennþá meira, þá fjölgar fólkinu á bak við skrifborðin sem vegur og metur, pappíra og blöð. Ekki vegna þess að það er ekki að gera eitthvað, heldur er flækjustig þjóðfélagsins orðið það mikið að sífellt fleiri þarf til að hlutirnir séu gerðir á "réttan hátt".
Fjölgun starfa í fjármálaeftirlitinu, sökum kröfunnar um aukið eftirlit, er ekki bara kostnaðaraukning fyrir ríkissjóð, heldur líka þurfa fjármálastofnanir að fjölga starfsfólki sem vinnur við pappírsgerð og pappírsskoðun, án nokkurs sjáanlegs tilgangs. Niðurstaðan er það sem kallast á stofnanamáli, "aukinn rekstrarkostnaður".
Samtökin Beint frá býli hafa bent á kæfandi yfirbyggingu og skýrslugerð sem fylgir innleiðingu reglna frá ESB sem eru hugsaðir til að glíma við Nestle og önnur risafyrirtæki matvælaiðnaðarins. Og svona má lengi, lengi, lengi telja.
Fyrir utan kostnaðinn þá hefur hið aukna eftirlit, sem er bein afleiðing EES samningsins, tvennt í för með sér.
Lélegri vöru því ef ekki er hægt að skera niður í pappírsframleiðslu, hvar er þá skorið niður?? Jú í öllu því sem viðkemur framleiðslunni.
Kæfing, hið smáa sem heldur hagkerfinu gangandi, á æ erfiðara með að uppfylla allar pappírskröfur kerfisins.
Afleiðingarnar eru stöðnun í hagkerfinu, skert þjónusta hins opinbera, einokun eða fákeppni stórfyrirtækja, og svo framvegis.
Eða Evrópusambandið í hnotskurn.
Allt vegna þess að við skiljum ekki að fólk er heiðarlegt, og vill vel.
Að náunginn er ágætur, og að fólk er gott fólk.
Í heiðarlegu og góðu samfélagi þarf fáar reglur og skýrar.
Flestir fara eftir þeim og kerfið á að hanna til að glíma við undantekningar, en ekki ganga út frá því að undantekningin sé hið algenga.
Þjófar og ræningjar hafa hag af því að telja okkur trú um hið gagnstæða, þeir hafa efni á lögfræðingnum sem fara í kringum reglurnar, sama hvað flóknar og ítarlegar þær eru.
Og þeir hafa efni á að fjármagna stjórnmálamennina sem ná völdum undir kjörorðinu, "Báknið burt", en skera síðan niður grunnþjónustuna á sama tíma þeir auka við reglubáknið.
Þeir kaupa fjölmiðlana og álitsgjafana sem hamra alltaf hinu sama, "skera niður, skera niður", ríkið ber ábyrgð á kreppunni, ekki þjófnaður okkar og arðrán.
Núverandi ríkisstjórn gengur erinda þessara hagsmuna, hún hreyfir ekki við bákninu, hreyfir ekki við vaxtaráninu, hreyfir ekki við sjálftöku fjármálakerfisins.
Eða eins og innanríkisráðherra orðaði svo smekklega, maður gengur ekki gegn "lögvörðum réttindum fjármálafyrirtækja".
Og ekki gengur ríkisstjórnin gegn EES samningnum, reglubákn ESB er innleitt sem aldrei fyrr.
Fólk er heiðarlegt, en fólk er trúgjarnt.
Því ránið viðgengst ekki í skjóli skriðdreka, heldur í skjóli lýðræðislegar stofnana, sem við sjálf berum ábyrgð á.
Trúgirni okkar skýrir ástandið í dag.
Og trúgirni okkar skýrir að það mun ekki breytast á morgun eða hinn.
En ég veit ekki um daginn þar á eftir.
Því trúgirni á sér endamörk, og heiðarlegt fólk vill heiðarlegt samfélag.
Það eru múrar sem stjórnmálastéttin kemst ekki yfir eða undir.
En hún mun reyna.
Kveðja að austan.
Heiðarleikakrukkan gaf góða raun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 9
- Sl. sólarhring: 14
- Sl. viku: 455
- Frá upphafi: 1412817
Annað
- Innlit í dag: 9
- Innlit sl. viku: 394
- Gestir í dag: 9
- IP-tölur í dag: 9
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll Ómar.
Trúgirni á sér engin endamörk fyrr en þjóremburígur víkur fyrir sannleikanum.Sem dæmi um þetta má lesa eftirfarandi fréttatilkynningar í nokkrum blöðum:
"Breskir vísindamenn sem grófu sig niður á 3ja metra dýpi í fyrra, fundu þar fyrir 200 ára koparvír. Þeir drógu af því þá ályktun að forfeður þeirra hefðu verið komnir með símakerfi fyrir meira en 150 árum."
Kananir voru ekki á því láta Tjallana slá neinar keilur og létu bandaríska fornleifafræðinga grafa niður á 6 metra dýpi og árangur um niðurstöður voru birtar í New York Times.
" Bandarískir fornleifafræðingar sem fundu leifar 250 ára gamalla koparvíra á 6 metra dýpi hafa komist að þeirri niðurstöðu að forfeður okkar hafi þegar útbúið háþróað samskiptanet 50 árum á undan Bretum."
Íslensk yfirvöld tilkynntu eftirfarandi einni viku síðar:
" Eftir að Grímur Gullfótur hafði á örskotsstundu, grafið 9 metra ofan í jörðina fyrir Fróða forvitna, sjálfmenntaðan fornleifarannsakanda, fann Fróði ekki nokkurn skapaðan hlut.
Fróði hefur komist að þeirri augljósu niðurstöðu, að fyrir 250 árum hafi Ísland verið komið með þráðlaust háhraðanet"
Sannleikurinn er eitt - en það er spurning hvernig hann eigi að meðhöndlast.
Eggert Guðmundsson, 11.10.2013 kl. 11:38
Sæll Ómar, kjarnyrtur pistill sem hefur að geima orð í tíma töluð og þó fyrr hefði verið. En það sem sárast er, að við þessi ósköp sem þú lýsir hefur "best" menntaða fólkið vinnu.
Með kveðju ennþá lengra að austan.
Magnús Sigurðsson, 11.10.2013 kl. 13:21
Held þetta sé besta grein sem ég hef lesið í mörg ár.
E (IP-tala skráð) 11.10.2013 kl. 14:16
Sammála.... mjög góð grein, og Eggert... frábær frásögn á trúgirni og sannleika.. þú bjargaðir deginum fyrir mér.. langt síðan ég hef hlegið jafn mikið...
Birna Kristjánsdóttir, 11.10.2013 kl. 15:56
Takk fyrir innlitið kæra fólk.
Eggert, mikið er ég sammála Birnu.
Ekki bara fyndin saga, heldur líka djúp.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 11.10.2013 kl. 16:12
Frábær bloggpistill Ómar sem minnir á hin sígildu visku Lao Tze í Bókinni um veginn:
"LVII: ÁN ÍHLUTUNARSEMI
1. Þjóðinni má stjórna með réttlæti, herliði með slægvisku og "dugnaði". En unnt er að hljóta ríkið með því að vera ekki íhlutunarsamur um hagi fólksins.
2. Hvernig veit ég þetta? Svo sem sagt verður:
Því fleira sem lögin banna, því fátækara verður fólkið.
Því fleira sem til er af vopnum, því meira verður um óeirðir í landi.
Því kænni og "duglegri" sem menn verða, því óeðlilegra verður allt.
Því meira verður um þjófa og ræningja sem lög og fyrirskipanir verða fleiri.
3. Þess vegna hefur vitur maður sagt:
Ég vil forðast íhlutunarsemi, þá mun fólkið breytast af sjálfu sér.
Ég vil hafa hljótt um mig, þá mun fólkið komast sjálfkrafa á rétta leið.
Ég vil sleppa öllu umstangi, þá mun fólkið auðgast af sjálfu sér.
Ég vil hafna öllum metorðum og fólkið mun venjast á einfaldleikann."
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 12.10.2013 kl. 02:14
Blessaður Pétur.
Það er eitthvað til í þessu, og já, ég held að pistillinn hafi verið góður, þó ég hafi oft pistlað betur.
Og ég er hégómagjarn, ekki sama um hvernig síðasti pistill fyrir hlé hljómar, því það rekst alltaf inn fólk fyrir slysni.
Ég held að milljarðarnir séu í höfn, voru það í gær. Dægurþrasið heldur áfram, og hvað sem sagt verður um það, þá er það ekki í anda Tze vinar okkar, minnir mig meir á annað erindið sem ég hef oft vitnað í úr góðu ljóði.
Hvað sem verður, þá verður það, en það sem verður er ekki gæfulegt, svona til tilsýndar.
En verður samt einhvern veginn.
Takk fyrir innlitið og lesturinn Pétur.
Heyrumst aftur fyrr en seinna.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 12.10.2013 kl. 03:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.