Var Sigmundur þá bara blaðra eftir allt saman???

 

Bústinn pabbastrákur sem fékk almannatengil til að kosta ímynd sína??

Ísland getur orðið fyrirmyndarland, við höfum allt til þess, en rænd og svívirt þjóð, sitjandi uppi með handbendi ræningjanna, býr aldrei í fyrirmyndarlandi, heldur rændu landi og svívirtu.

 

Sigmundur vakti vonir, því hann talaði um margt af viti og skynsemi.  Hann þekkti til hagsögunnar, hann þekkti til nútímasögu Evrópu.  

Hann vissi af hverju stefna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins myndi aldrei ganga upp, og hann gat sagt frá því þannig að hinn venjulegt fólk skyldi orð hans.  Í greinum sínum og ræðum útskýrði hann neikvæð áhrif niðurskurðar, hann útskýrði áhrif ofurskuldsetningar heimila og fyrirtækja, og hann útskýrði af hverju það yrði að bæta í, byggja upp, að taka á móti kreppubolanum með því eina ráði sem dygði, að taka í hornin á honum og snúa niður.

Milli Sigmundar annars vegar og formanna S-flokkanna, þeirra Jóhönnu og Bjarna var himinn og haf.  Sigmundur skildi, þau skildu ekki.

 

Það er rétt hjá Sigmundi að Ísland geti orðið fyrirmyndarland.

En það er ljóst að það mun ekki gerast í ríkisstjórnartíð hans.  Ekkert af því sem hann sagði fyrir kosningar, segir hann í dag.

Þegar á reyndi bauð hann uppá sömu stefnuna, sömu veruleikafirringuna, sama bullið og Jóhanna Sigurðardóttir.

Ef eitthvað er, óforskammaðri.

Eða hvað á að segja um þessi orð sem Morgublaðið hefur eftir honum undir yfirskriftinni; "Fjárlögin lýsa upphafi sóknar"!! 

 
"Þau boða lækkandi skuldir um leið og hafist er handa við endurreisn grunnstoðanna, heilbrigðisþjónustu og annarra velferðarmála. Álögur á millitekjufólk og lágtekjufólk eru minnkaðar og fyrri skerðingar á kjörum eldri borgara og öryrkja afnumdar. Grunnur er lagður að vexti, fjárfestingu, atvinnusköpun og kjarabótum.“"
 

Er eitt orð satt í þessu??

Er eitthvað sem á sér stoð í raunveruleikanum???

 

Það sem næst kemst  raunveruleikanum er leiðréttingin á kjörum eldri borgara og öryrkja, en eitthvað heyrist mér að fólk í þeim hópi sé ekki sátt við þá fullyrðingu að skerðingar ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur séu allar dregnar til baka.  En vissulega er þetta réttlætisspor og fyrir það ber að þakka.

En restin er í besta falli argasta háð um þann raunveruleika sem fjárlagafrumvarpið hýsir.

Og á þeim tímapunkti sem það er lagt fram, fjögur ár óhæfu ríkisstjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að baki, þá er það ekki bara vont, heldur upphaf af endinum.  Það vita það allir sem grípa inní stjórn skips sem er komið langleiðina uppí kletta, að þegar í brimgarðinn er komið, þá er of seint að snúa við.  Í besta falli er hægt að finna leið að landi sem hugsanlega gæti bjargað áhöfn þó skipið farist.

 

Sigmundur Davíð á eitt loforð eftir ósvikið, og það er atlaga hans að erlendu kröfuhafa bankanna.  

Margt bendir til þess að það hafi verið innantómt hjal eins og allt hitt.

Hjal til að ná völdum, án nokkurs vilja til þeirra átaka sem þarf til brjóta vogunarsjóði og leppa þeirra á bak aftur.

Þó er eitt sem bendir til að eitthvað verði gert.  Og það eru hin algjöru svik Sjálfstæðisflokksins  gagnvart skuldalækkun heimilanna sem flokkurinn ætlaði einmitt að ná í gegnum ríkisfjármálin.  Eftir standa tillögur Framsóknarflokksins sem sjálfstæðismönnum þóttu með öllu ótækar.

En verði þær líka sviknar, þá er allt svikið.  Sem bendir til að einhvers er að vænta.

 

Sigmundur Davíð hefur klúðrað öllum sínum málum, hann þagði í sumar, laug í kvöld.

Hann fékk sitt tækifæri, og hann misnotaði það.

Annað tækifæri mun hann ekki fá.

 

Nema, nema ......, hann taki slaginn við vogunarsjóðina.

Þar er efinn sem aðeins tíminn kann svar við.

Kveðja að austan.


mbl.is Ísland getur orðið „fyrirmyndarland“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hann fær samt 10 fyrir ræðuhöld, bla bla bla

hrefna coe (IP-tala skráð) 2.10.2013 kl. 21:37

2 identicon

Bíðum og sjáum enn um sinn... Það er nú einu sinni skákað í skjóli forsetans.

Hrúturinn (IP-tala skráð) 3.10.2013 kl. 01:09

3 identicon

Sigmundur var ekki að skilja og tala af viti og skynsemi í kosningabaráttunni. Margir héldu það vegna þess að þeir voru að heyra það sem þeir vildu heyra. Fagurgala og ævintýri, lýðskrum og fantasíur. Óraunhæf og óframkvæmanleg loforð hönnuð og matreidd sérstaklega til að ganga ljúflega í vitgrannan og trúgjarnan almúgann. Það eina sem vantaði uppá var loforð um frítt grillkjöt og þrjá sólarmánuði á hverju sumri þar sem hitinn fer ekki undir 20 gráður meðan framsókn situr á valdastólum.

Þegar raunveruleikinn er kaldur og fráhrindandi, ástandið ógnvekjandi og framtíðin dökk fara siðblindir draumasölumenn á kreik. Sigmundi tókst ætlunarverkið og situr sín fjögur ár á fagurgalanum meðan hann semur næsta draumapakka sem verður svo fallegur og miklu betri en pakkinn sem ekki virkaði að ekki er hægt að sleppa því að kjósa hann aftur. Hjá trúgjarnri þjóð með gullfiskaminni eru svik bara byggingarefni siðblindra í nýjan loforðapakka.

Þegar stærsta loforðið stjórnmálamanns snýst um það að kúga og stela frá útlendingum má segja að siðferði þjóðar sem kýs þann mann sé það lágt að hún á skilið að sitja uppi með bölið sem fylgir þessháttar svikulum stjórnendum og óheiðarlegum leiðtogum.

Oddur zz (IP-tala skráð) 3.10.2013 kl. 02:27

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Fékk hann almannatengil til að kosta ímynd sína? Hvaðan hefurðu það?

Jón Steinar Ragnarsson, 3.10.2013 kl. 06:56

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlitið gott fólk.

Jón Steinar, þú sérð nú að fyrsta setning mín auk fyrirsagnar, eru í spurningarhætti, varpaðar fram sem getgátur um eitthvað sem ég skil ekki.

Ég er að vísa í þekkta mynd sem andstæðingar Sigmundar draga upp af honum, og velti því fyrir mér hvort það sé þrátt fyrir allt eitthvað til í henni.

Sem ég hef reyndar ekki nokkra trú á en ef ekki, hvað þá?, hvað skýrir muninn á fyrir  kosningar, og eftir???

Þar sem ég veit að þú hefur lesið mig reglulega Jón Steinar, þá ættir þú að kannast við þetta stílbragð mitt, að nota myndræna lýsingu í upphafi, og koma svo með rökin fyrir þeirri ádeilu sem býr að baki.

Og tilgangurinn er að fá lesandann til að taka afstöðu, ef hann er ekki sammála hinni myndrænu lýsingu/fullyrðingu, hvað þá??  Hvað er það sem skýrir gjörðir/ stefnu???

Ef Steingrími Joð var ekki mútað í ársbyrjun 2009??, hvað skýrir þá Hari kari ferðalag hans með VG???

Ef Bjarni Ben er ekki laumuevrópusinni??, af hverju framfylgir hann þá efnahagsstefnu Brussel, með orðréttum frösum og réttlætingu Brusselmanna??

Og af hverju missti Sigmundur Davíð taktinn við raunveruleikann??

Og svo framvegis.

Ég hef ekkert fyrir mér um eitt eða neitt, er eins fjarri vettvang atburðanna og vera má, það eru rökin sem knýja vangaveltur mínar áfram ásamt ákaflega einföldum lífsskoðunum.

Annað var það nú ekki.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 3.10.2013 kl. 09:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 468
  • Sl. sólarhring: 716
  • Sl. viku: 6199
  • Frá upphafi: 1399367

Annað

  • Innlit í dag: 396
  • Innlit sl. viku: 5251
  • Gestir í dag: 365
  • IP-tölur í dag: 360

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband