24.3.2013 | 15:59
Framboð um réttlæti.
Von þjóðarinnar felst í framboði um réttlæti. Réttlæti öllum til handa. Ekki bara sumum, "ekki bara handa mér og mínum, hinir voru eitthvað bara svo vitlausir eða á röngum stað á vitlausum tíma".
Sá sem skilur ekki þessa grunnstaðreynd mun engu breyta.
Framboð um réttlæti tilkynnir að allir sem misst hafa heimili sín eftir Hrun, fái heimili sín til baka. Jafnt syndugir sem hinir vammlausu. Síðan verði samið um skuldir fólks, þannig að fái haldið húsnæði sínu. Það var hægt að afskrifa hjá auðmönnum, hjá ríka fólkinu sem á stjórnmálastéttina, það er líka hægt að afskrifa hjá hinum venjulega manni. Og enn og aftur, alveg óháð hvort menn eru vammlausir eða syndugir.
Að átta sig á þessari staðreynd, er forsenda þess að menn verjist sterkasta vopni ógnaraflsins, sundrunginni, að etja einu hópi gegn öðrum.
Framboð um réttlæti tilkynnir að það muni standa vörð um það samfélag sem ól okkur upp og fóstraði, um heilbrigðiskerfið, um menntakerfið, um umönnun aldraða og sjúkra.
Framboð um réttlæti tilkynnir að það muni vinda ofanaf heljartökum óráða AGS og ýta undir grósku og velmegun, efla innlenda framleiðslu, ná niður matvælaverði og svo framvegis. Ráðin eru þekkt og augljós, má lesa um þau í stefnuskrám margra stjórnmálaflokka (svo dæmi sé tekið þá er kaflinn um gróskuna í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins mjög skynsamur), aðeins brenglun hugarfarsins, sem á rætur sínar að rekja til hagsmuna þeirra sem ætla að arðræna þjóðina og skuldaþrælka, útskýrir að þessar augljósu leiðir voru ekki farnar.
Brenglun hugarfarsins sem taldi fólki trú um að niðurskurður, ofurskuldsetning, skatthækkanir, væru leið uppbyggingar, en ekki samdráttar og kreppu eins og sagan kennir án undantekninga.
Framboð um réttlæti, um endurreisn landsins, um nýtt og betra Ísland, snýst gegn ógnaraflinu, hinu vanheilaga bandalagi innlendra auðmanna og vogunarsjóðanna.
Stór hluti af eignum þrotabúa bankanna er ránsfengur verðtryggingar og hávaxta AGS.
Stór hluti af eignarhaldi þrotabúanna á fyrirtækjum er tilkominn vegna ólöglegra gjörninga, eða vafasamra viðskiptahátta sem viðgengust vegna tengsla hins illa fengna auðs við stjórnmálastéttina.
Þessu eiga þrotabúin að skila, hvort sem þau gera það með samningum eða einhliða lögboði.
Framboð um réttlæti, um endurreisn landsins, um nýtt og betra Ísland tilkynnir að opinber rannsókn verði gerð á starfsemi þrotabúa eftir Hrun, hvort sem það er þrotabú gömlu bankanna, eða öðrum þeim þrotabúum sem hafa útdeilt eignum til vina og vandamanna. Eða innan gömlu auðklíkunnar.
Framboðið tilkynnir um opinbera rannsókn á starfsháttum nýju bankanna, hvernig þeir innheimtu ólögleg lán, innheimtu ólöglega vexti, hvernig þeir settu heimilum og fyrirtækjum afarkosti, hvernig þeir útdeildu eignum á hrakvirði til vina og vandamanna, til meðlima gömlu auðklíkunnar.
Framboðið tilkynnir að skipuð verði rannsóknarnefnd sem rannsaki allt viðskiptalífið fyrir Hrun, þar sem allir fjármagnsflutningar, eignatilfærslur, sýndarviðskipti og annað verði rannsakað. Sérstök árhersla verði lögð á ábyrgð endurskoðanda, lögmanna og annarra þeirra starfsmanna sem gerðu öll sýndarviðskiptin möguleg.
Þessar rannsóknir verða gerðar á forsendum neyðarlaga sem heimila slíkar rannsóknir og byggja á þeirri forsendu að það er glæpsamlegt að setja heila þjóð á hausinn, að eyðileggja efnahagslíf hennar og mergsjúga helstu fyrirtæki hennar þannig að aðeins skuldug skel er eftir.
Þó glæpaklíkan sem gerði þetta hafi látið breyta lögum sér til hagsbóta þá munu neyðarlögin afturkalla þann gjörning, lög sem áttu að gilda í heiðarlegu og opnu þjóðfélagi, verða þau lög sem til viðmiðunar verða höfð. Slíkt er nauðsynlegt til að hindra að glæpaklíkur kaupi upp stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka og geri eitthvað viðlíka í framtíðinni.
Neyðarréttur þjóða er æðsti réttur, gegn honum geta lög spillingar og auðs ekki gengið.
Framboð um réttlæti, um endurreisn landsins, um nýtt og betra Ísland mun þekkjast á því að það boðar til opins borgarafundar um slíkt framboð. Þar sem öllum flokkum, sem vilja nýtt og betra Ísland, sem vilja réttlæti handa heimilum landsins, sem vilja innlenda endurreisn á forsendum velferðar og heilbrigðs mannlífs, verði boðið að mæta og ná saman um eitt sameiginlegt, öflugt framboð þjóðarinnar gegn ógnaraflinu.
Hvort sem 5 eða 500 hundruð mæta er aukaatriði, framboðið er til.
Tilgangur þess og markmið mun tryggja að áður en yfir líkur muni það ná þeim árangri að vernda þjóðina gegn skuldaánauð og arðráni ógnaraflsins, og það mun tryggja mannsæmandi framtíð barna okkar.
Sá sem vill rétt, ætlar að gera rétt, mun gera rétt.
Og þegar þjóðin sér það, mun hún koma með í vegferðina miklu sem liggur að nýju og betra Íslandi.
Því það er upphafið sem ræður endinum.
Að menn haldi í rétt átt.
Hitt kemur að sjálfu sér.
Og þessi viðbót kemur úr öðrum pistli.
Alvöru framboð gegn þessari glæpaklíku, gegn þessu valdi sem rændi og svívirti þjóð sína, og neitaði henni um réttlæti eftir Hrun, tilkynnir að það muni láta þetta fólk sæta ábyrgð.
Að það sé líka refsað fyrir alvarlegustu glæpina.
Að réttarkerfið sé ekki aðeins fyrir verkfæri og smáþjófa.
Það er glæpur að gera þjóð sína gjaldþrota.
Það er glæpur að reyna koma skuldum sínum á almenning.
Það er glæpur að skuldaþrælka fólk með þjófatækjum eins og verðtryggingunni.
Skuldaánauð þjóða er glæpur.
Og fyrir þessa glæpi eiga menn að sæta ábyrgð.
Enginn á að komast upp með þetta, enginn mun komast upp með þetta þegar þjóðin loks sameinast í vörn sinni og tekur glæpaklíkuna í bóndabeygju og hendir henni síðan í svartholið.
Þjóðin býður eftir herkallinu.
Hingað til hafa fagmenn vogunarsjóðanna, þessir sem kallaðir eru efnahagsböðlar, náð að sundra öllum þreifingum fólks, náð að eyðileggja góðan málstað með alls konar smáframboðum sem eiga það sammerkt að bjóða sig fram sem lausn, en ekki lausnina á vanda þjóðarinnar.
Alvöru fólk hefur horfið þegjandi af sjónarsviðinu, aðrir sem gætu hafa ekki stigið fram.
Á ögurstundu þjóðarinnar hefur enginn risið upp og sagt, "Hingað og ekki lengra, nú er komið nóg".
Það er fundur annað kvöld.
Kannski mun herkallið hljóma þar.
Hver veit??
Það veit það enginn nema með því að mæta.
Mætum öll.
Öll sem hafa fengið nóg.
Kveðja að austan.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 20
- Sl. sólarhring: 29
- Sl. viku: 1244
- Frá upphafi: 1412798
Annað
- Innlit í dag: 11
- Innlit sl. viku: 1094
- Gestir í dag: 11
- IP-tölur í dag: 11
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.