Kjósum Samstöðu um lífið.

 

Ekki sundrungu hinna ótal framboða.  

Þeir sem skynja vána sem blasir við þjóðinni eftir kosningar, þegar vogunarsjóðirnir munu fá þrotabú gömlu bankanna í sínar hendur kjósa Samstöðu um lífið.

Þeir sem skynja neyð heimila landsins sem eru að kikna undan hinum stökkbreyttu skuldum, þeir sem skynja yfirvofandi hrun innviða landsins, þeir kjósa Samstöðu um lífið.

 

Hér á eftir fer gamall pistill um Samstöðu, og af hverju það skiptir okkur öllu að kjósa hana.

 

Samstaða um lífið er eina von þess lífs sem við þurfum að vernda.

 

Lítum yfir sviðið, fellum öll leiktjöld blekkingar og sýndar, og skoðum sjálf hvað er að gerast, og hvað mun gerast fái öfl tregðu og tortímingar að hafa sinn gang.

 

Á Íslandi erum við með stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka sem sömdu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um skuldaánauð barna okkar um ókomna tíð.  Greiðslubyrði ríkissjóðs vegna vaxta og afborgana átti að vera um 60%, strax og hefði farið mjög fljótlega yfir 70% þegar neikvæð áhrif slíkrar blóðtöku á hagkerfið hefðu komið fram. 

Sagan kann aðeins 2 dæmi um hraklegri nauðsamninga, þegar AGS tók Argentínu á lífi um síðustu aldamót og þegar Rómverjar ætluðu að knésetja Karþagó eftir seinna Púnverska stríðið.  Sagan kallar ekki allt ömmu sína en svona dæmi á hún fá, það eru takmörk fyrir hvað jafnvel hinir svívirðulegustu einvaldar hafa treyst sér til að leggja á þjóðir sínar. 

En ekki íslensku stjórnmálamönnum, þeir seldu börn okkar án þess að blikna.  Hvort sem rótin var illmennska, aumingjaskapur eða hrein og klár heimska, skiptir engu máli.  Þeir gerðu þetta, þeir skrifuðu undir nauðasamninginn, þeir brutu allar brýr við siðað samfélag. 

Samningurinn gekk ekki eftir vegna andstöðu þjóðarinnar í ICEsave, vegna hennar var beðið með að evruskuldvæða sýndarkrónurnar í eigu meintra erlendra krónubraskara.  Í stað þess var  sýndarkrónan látin bólgna út með hæstu vöxtum á byggðu bóli, allt að kröfu AGS.  Nokkurhundruð milljarðar eru orðnir að 1001 milljarði, og hækka eftir því sem lengur er beðið með að takast á við vandann.  

Og það er aðeins beðið eftir rétta tækifærinu.

 

Réttlæti var ekki leiðarstefið í uppgjöri skulda eftir Hrun.  Þeir sem áttu og réðu, þeir fengu sitt meira og minna á bónuskjörum en almenningur, sá hluti hans sem gat, var látinn greiða uppí topp.  Hinum var vísað á guð og gaddinn.  "Viltu í nefið, viltu í nefið vinur minn" sem Valgeir söng um uppboð og útburð í byrjun 20 aldar, var líka sungið í byrjun þeirrar 21..  Lengra hafði réttlætið ekki náð í 100 ár, börn og mæður voru ennþá borin út ef heimilið gat ekki staðið í skilum á lánum sínum.  

Svínin ráða för.  Við lifum ennþá í þjóðfélagi Dickens um skuldaánauð og skuldafangelsi.  

Fámenn klíka auðs og valda flaut ofaná eftir holskeflu Hrunsins, almenningur var rændur.

 

Óréttlæti er ekki hornsteinn siðaðs þjóðfélags, óréttlæti er bautasteinn þess.

 

Og ástandið á aðeins eftir að versna.  Gengið er ekki sjálfbært, viðskiptajöfnuðurinn er í mínus, þrátt fyrir gjaldeyrishöftin.  Á einhverjum tímapunkti leita eignir erlendra kröfuhafa úr landi og þá lækkar gengið, með tilheyrandi hækkun skulda vegna verðtryggingarinnar.

Sama gerist þegar viðskiptakjör versna vegna kreppunnar á Vesturlöndum, sama gerist þegar laun hækka, sama gerist þegar matvæli hækka í verði vegna uppskerubrests, allt virðist eiga endastöð í lánum fólks, þau hækka, þau hækka, þau hækka.

Sem þýðir enn og aftur að fólk þarf að semja um skuldir sínar, eigið fé, ef það er til staðar, hverfur í hítina, hringekjan endalausa sér til þess að þorri fólks mun aldrei eignast neitt. 

Hvernig þjóðfélag er það sem reiknar alltaf venjulegt fólk í mínus???? En þeir  ríku og voldugu hafa alltaf sitt á þurru, verða alltaf ríkari og voldugri eftir hvern skell almennings.

Það er ekki siðað þjóðfélag, það er ekki mennskt.

 

En þetta er þjóðfélagið sem við viljum, þjóðfélagið sem við ætlum að kjósa yfir okkur.  

Í Argentínu reis fólkið upp, rak leppa AGS frá völdum og hóf endurreisn landsins.  

Karþagómenn borguðu Rómverjum í þeirri von að endurreisa styrk sinn og reisn, ekki til að verða þrælar þeirra um aldur og eilífð.  

Við hinsvegar blekkjum sjálf okkur með því að halda að vandinn hverfi ef við bara pössum okkur á einu, að hugsa hvorki eða tala um hann.

Við erum eins og maðurinn sem fór út á sjó í lognmollunni sem ríkir í miðju fellibylsins.  Það þarf ekki að taka fram að til hans hefur ekki spurst síðan.

 

Það þarf heldur ekki að taka fram að við fáum ekki annað tækifæri sem þjóð ef við vöknum ekki og verjum samfélag okkar.  

Ef við gerum ekki það sem þarf að gera, sameinumst og náum saman um að verja framtíð barna okkar.  

 

Í dag er margt hugsjónafólk á  flokksfundi þar sem hróp sjálfsblekkingarinnar er að velferðin hafi verið varin.  Og nú blasi framtíðin við björt og bein. 

Fljótlega mun annar flokkur funda þar sem hugsjónafólk verður huggað með staðfestunni um að aðlaga landið að Evrópusambandinu.  

Síðan mun stóri flokkurinn funda með grasrót sinni og blása henni eldmóð í brjósti um að sigur hans sé handan hornsins og þá muni allt lagast með niðurskurði og lækkun skatta.  Niðurskurðurinn reyndar öruggur en lækkun skatta á öðrum en stóreignafólki ólíkleg.

Í öllum þessum flokkum verður talað um eitthvað fallegt og gott sem þeir munu gera ef þeir verða kosnir.  Og hugsjónafólk innan þeirra, fólkið sem vill landinu vel, mun hrífast með.  Því mánuðurnir fyrir kosningar er þeirra tími, tíminn þar sem rödd þess heyrist.

En það mun engu breyta því það er innan valdsins og á ekkert val en það að hlýða þeim sem sömdu um skuldaánauð barna okkar í þágu 1001 milljarðs.

Ljótleikinn mun blasa við eftir kosningar.

 

Fólk mun samt kjósa þennan ljótleika yfir sig, alla vega eins og staðan er í dag.

Andófið gegn fjórflokknum hefur ekki náð að móta valkost.

Það er ótaktískt og í hreinskilni sagt heimskt. 

 

Eða hvernig á að túlka áherslu þess á nýja stjórnarskrá eða þjóðnýtingu kvótans????  Að velja mál sundrungar þegar það þarf svo mjög á að halda að ná samhljóman við hinn þögla meirihluta þjóðarinnar sem þráir valkost en mun aldrei kjósa rugl.  Til þess eins að tryggja að valdinu verði ekki ógnað.  Að skuldaánauðin gangi eftir.

Að ekki sé minnst ógrátandi á sundrunguna, öll flokksbrotin sem mynda aðeins eitt óskiljanlegt gjamm í eyrum venjulegs fólks.  Eins og það sé nóg að segja eitthvað til að það gerist.  Þess vegna er rifist um það sem er sagt og þar með tryggt að ekkert sé gert.

 

Síðasta dæmið um hina algjöra ógæfu Andófsins er afsögn Lilju Mósesdóttur vegna einhvers sýndartaps á fylgi Samstöðu.   Fylgi er mælt í kosningum, ekki skoðanakönnunum.  Fylgi er afleiðing stefnu og trúverðugleika, trúverðugleika sem Lilja gaf Samstöðu.  Trúverðugleika meðal almennings sem hún ein hefur af öllu því góða fólki sem berst gegn óhæfu valdsins að ætla sér að skuldaþrælka börnin okkar um ókomna tíð. 

Trúðverðugleika  sem Lilja ávann sér með því að þora rísa upp gegn valdinu, eitthvað sem engin önnur persóna innan þess hefur þorað eða gert.  Og vegna þess að hún er sjálfum sér samkvæm í einörðum málflutningi sínum í þágu heimila landsins og í þágu framtíðar barna okkar.

Staðreynd, raunveruleiki sem Sýndin bar ofurliði.

 

Sýndin, röflið, tuðið.

Það þarf ákaflega  mikla grunnhyggni til að halda að röfl og tuð muni ná til að fella valdið. 

Samt eru ákaflega margir í hópi Andófsins fastir í hjólfari hennar og það hjólfar tætir upp velli Samstöðunnar svo valdið þarf ekkert að óttast.

Liljur vallarins eru þagnaðar.

Ljótleikinn blasir við.

 

Og fórnarlambið er lífið sem við sórum að vernda.

Manndómur okkar er ekki meiri en það.

Við kjósum að loka augum og sjá ekki það sem er.

 

Að eina von þjóðarinnar, að eina von barna okkar felst í Samstöðu um lífið.

Að allt þetta góða fólk sem er innan fjórflokksins og utan, að það nái að sameinast í staðfastri vörn fyrir framtíð barna okkar.

Að það víki egóinu til hliðar og átti sig á að það er fullorðið fólk með aðeins eina skyldu.

Að tryggja viðgang lífsins þegar að því er sótt.

 

Að fólk sameinist um það sem það getur sameinast um og láti hitt liggja milli hluta.

Að það sameinist um staðfasta vörn gegn skuldaánauðinni, að það sameinist um réttlæti handa almenningi, að það sameinist um Sýn á nýtt og betra Ísland.

 

Nýtt og betra Ísland er einfaldlega landið sem við viljum ala börn okkar uppí án átaka og sundrungar.

Forsenda þess er réttlæti, sanngirni og að allir fái sitt tækifæri til mannsæmandi lífs.  

Að það sé þjóðfélag mannúðar og mennsku.  

Þjóðfélag sem bregst við kreppum og efnahagserfiðleikum með það skýra markmið að leiðarljósi að enginn farist vegna þess sem gerst hefur, að öllum sé hjálpað af þeim mætti sem þjóðin býr yfir á hverjum tíma.

Að eitt sé yfir alla látið ganga, að við séum eitt, að við séum ein fjölskylda.

Að þjóðfélag okkar sé fallegt og gott.

Eins og við erum öll.

 

Draumsýn??

Já, en eina von barna okkar  er að við látum þessa draumsýn rætast.

Í dag er enginn annar valkostur.  

 

Við verðum að reyna.

Kveðja að austan.

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Hvernig á að kjósa?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er með umgangspest, hita og beinverki og með vitin stífluð og hugsa því kannski ekki skýrt

núna - en ég spyr þig Ómar minn,

um hvaða samstöðu ertu að tala?  Er það einhver flokkur sem venjulegt fólk getur kosið í vor?

Ljóðskáld lífsins (IP-tala skráð) 20.3.2013 kl. 16:56

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Veit það ekki Pétur.

Kosningafresturinn er ekki runnin út.

Í dag blasir við algjör sigur valdsins.

Og ef fólk er sátt við skuldaánauðina, þá mun þessi flokkur ekki bjóða fram.

Ef ekki, þá hljóta menn að jarða egóismann og ná saman um Samstöðu um lífið.

Til dæmis þeim sem þykir vænna um afkvæmi sín en egóið sitt.

Svo vitum við ekki hvað gerist í kvöld Pétur.

Það gæti alveg gerst að það yrði blásið í herlúðra lífsins, og mannskapurinn héldi í stríð við eigendur verðtryggingarinnar.

Það er allt til í dæminu en ég nenni hreinlega ekki að blogga um það lengur.  Endurnýti því gamla pistla og hvíli mig fram yfir páska.

Heyrir kannski að ég á ekki von á herkallinu.

En lífið kemur manni stundum á óvart.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 20.3.2013 kl. 17:29

3 identicon

http://raksig.blog.is/users/33/raksig/img/sjalfid.jpg

? (IP-tala skráð) 20.3.2013 kl. 18:05

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Vá, takk fyrir innlitið mitt kæra spurningarmerki.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 20.3.2013 kl. 20:01

5 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Sko það er mikið til í þessu spjalli þínu Ómar!!!!! en þett byggist allt á að þessi samtök komi sér saman eins og þú segir réttilega frá,ég sá það ekki,en ég er mjög áhugasamur um að þetta takist,of ef er maður til skoðunar,en maður hefur oft dreymt um að við gætum öll lifað mnndæmandi lífi og við gerum það en/Kveðja að sunnan

Haraldur Haraldsson, 20.3.2013 kl. 20:28

6 identicon

Vá?  Ef við viljum vera þjóð, þá verðum við að hafa sál, sem okkar sanna sjálf. 

Þjóðríki er forsenda þjóðarsálar.  Það er því engin tilviljun að auðhringadrottnarnir

og leppar þeirra ráðist alltaf á og reyni sem mest að veikla sjálf hverrar þjóðarsálar.

Það sást greinilegast þegar markvisst var reynt að mynda sektarkennd hjá íslenskri þjóð

vegna flokksvæddra glæpaverka fjármálaillvirkja og það á kostnað heimila landsins. 

? (IP-tala skráð) 20.3.2013 kl. 21:23

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Haraldur.

Þetta er eiginlega meir undir okkur sjálfum komið, hvað við viljum virkilega í lífinu.

Saga mannsins er síendurtekin saga styrjalda og átaka, ekki vegna þess að fjöldinn sem slíkur er blóðþyrstur, heldur eru þetta svona innbyggt í kerfið.  Eða samskiptamátann.

Það er staðreynd að ef við rjúfum ekki þennan vítahring, þá er stutt í næsta stríð.  Og þar sem vopn eru ekki lengur vopn, heldur gjöreyðingarvopn, þá munu fá okkar lifa af þessi átök.

Heldurðu Haraldur að fólkið sem upplifði átök og hörmungar seinna stríðs, hefði ekki viljað spóla til baka, ef það hefði fengið til þess tækifæri, og stöðvað átakaferlið í tíma?

Þetta voru ekki nema örfáir einstaklingar sem stóðu fyrir því, auk þess að hið svarta fjármagn sem ógnar tilveru okkar í dag, hafði klærnar í atburðarrásinni.  Fjármagnaði bæði nasista og bolsévika.

Þessi pistill minn snýst um það sem þetta fólk hefði viljað gert hafa, en gerði ekki.

Það bjargar enginn lífi manns en maður sjálfur Haraldur, það bjargar enginn framtíð barna manns en maður sjálfur.

Að treysta á aðra, eða treysta á einhverja flokka, eða stjórnvöld eða hagsmunahópa, er það sama og að gera ekki neitt.

Ástæða þess að hið góða hefur aldrei sigrað í heiminum, nema þá eftir miklar hörmungar, er hjarðeðli okkar á eftir leiðtogum ofbeldis og græðgi.

Það hvarflar aldrei að okkur að við getum myndað hjörð í þágu hins góða.

Við teljum það eitthvað svo flókið eða óyfirstíganlegt, en það er mjög einfalt að mynda hjörð.

Það þarf bara að rísa upp og stíga fyrsta skrefið.

Það þarf ekki nema 2 til að mynda hóp, og síðan ekki marga í viðbót til að mynda hjörð.

En þetta gerist hjá manni sjálfum, ekki með því að benda á aðra.

Vonandi gengur séra Halldóri vel að útskýra þetta fyrir fólki, mér hefur ekki tekist það.

En það þarf einhverjum að takast það.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 20.3.2013 kl. 21:58

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Aftur vá spurningamerki mitt góða.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 20.3.2013 kl. 21:58

9 identicon

Vá er fyrir dyrum.

? (IP-tala skráð) 20.3.2013 kl. 22:49

10 identicon

Það síðasta sem ég átti von á er að þú Ómar Geirsson gerðir lítið úr málflutningi mínum með þessum hætti "Síðasta dæmið um hina algjöra ógæfu Andófsins er afsögn Lilju Mósesdóttur vegna einhvers sýndartaps á fylgi Samstöðu."

Minnkandi fylgi SAMSTÖÐU fór saman með minnkandi áhuga fólks að koma til liðs flokkinn. Ég sagði opinberlega þegar ég stofnaði flokkinn að ég hefði ekki áhuga á að fara á þing með smáflokk á bak við mig, þar sem ég yrði þá áfram algjörlega áhrifalaus á þingi. SAMSTAÐA var stofnuð til að svara mikilli hvatningu fólks sem vildi sjá nýtt afl berjast fyrir hagsmunum almennings með lausnir að leiðarljósi. Þegar í ljós kom að hugur fylgdi ekki máli, þá var ekkert annað að gera en að sýna hugrekki og stokka spilin upp á nýtt.  

Lilja Mósesdóttir (IP-tala skráð) 21.3.2013 kl. 08:28

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Lilja, ég hefði frekar kosið að þú hefðir komið með þessa athugasemd þegar þessi pistill var saminn til að fókusa á mikilvægi þess að fólk næði saman.

Hann var saminn  25. ágúst í fyrra. 

Og er eitt allsherjar ákall til fólks til að sjá hvað raunverulega skipti máli í lífinu, og að við þyrftum að verja tilvist þess.

Á þann eina hátt sem virkar gegn því ógnarafli sem ógnar tilvist mennskunnar.  

Þessi pistill minn er góður, hann er vel skrifaður, myndrænn, með tilvísanir í sögulegar samsvaranir, dregur skýrt fram aðalatriðið þeirrar baráttu sem blasir við.

Þess vegna er lesandanum ljóst að þau orð sem ég vísa í hér á eftir og er framhald þess sem þú vitnar í, eru ekki orð út í loftið, þau eru ekki pólitískur áróður, þau byggjast á köldu mati manns sem er að semja ákall um von, trú og framtíð.  Þau eru óður til stjórnmálamanns sem pistlahöfundur taldi skipta miklu máli í því stríði sem hann sér framundan við þau öfl sem ætla að knésetja þjóðina, öfl sem eru hluti af alþjóðlegri ógn við mannkynið.

 Fylgi er mælt í kosningum, ekki skoðanakönnunum.  Fylgi er afleiðing stefnu og trúverðugleika, trúverðugleika sem Lilja gaf Samstöðu.  Trúverðugleika meðal almennings sem hún ein hefur af öllu því góða fólki sem berst gegn óhæfu valdsins að ætla sér að skuldaþrælka börnin okkar um ókomna tíð. 

Trúðverðugleika  sem Lilja ávann sér með því að þora rísa upp gegn valdinu, eitthvað sem engin önnur persóna innan þess hefur þorað eða gert.  Og vegna þess að hún er sjálfum sér samkvæm í einörðum málflutningi sínum í þágu heimila landsins og í þágu framtíðar barna okkar.

Staðreynd, raunveruleiki sem Sýndin bar ofurliði.

Orð sem ég stend við ennþá dag í dag, og eru skýring þess að ég er ekki meðlimur í Framboði um heimilin eða öllum hinum framboðunum sem falast hafa eftir stuðningi mínum.

Orðið "óhæfa" sem þú vísar í hér að ofan, er tilvísun í ákveðinn raunveruleika sem þú lýsir hér að ofan, í þá atburðarás og aðstæður sem knúðu þig til að " þá var ekkert annað að gera en að sýna hugrekki og stokka spilin upp á nýtt.  ".

Ég er að gagnrýna sýndarveruleikann sem hið velmeinandi (hef aldrei dregið það í efa) andófsfólk getur ekki rifið sig út úr og ég er að vara við þeirri þróun sundrungar og sundurlyndis sem fjandinn eini, fjármagnsvaldið, kyndir undir. 

Ég er að vara við atburðarrás, sem ég sá allt stefna í, og við þekkjum í dag sem andóf hinna ótal flokka.  Einskis nýtt, fyrirfram búið að tapa stríðinu við ógnarvaldið sem hefur heljartök á efnahagslífi landsmanna.

Ekki veit ég af hverju þú ert að taka upp á því að lesa bloggið mitt núna Lilja, þegar allt er búið, en það lásu það margir á því tímabili þegar það var eitt ákall út í gegn um þessa Samstöðu, um þessa Samstöðu um lífið, og lesendur mínir vissu allflestir hvað ég átti við með með myndlíkingu minni um Liljur Vallarins.  Ég nafngreini sjaldan fólk svo umræða um það yfirskyggi ekki markmið eða boðun pistlanna.

Það kemur samt fyrir og í öðrum pistli um Samstöðu um lífið, sem skrifaður var í desember þegar feigðarós andófsins var orðinn nokkuð skýr framundan, mælti ég þessi orð um nafngreindan einstakling.

 

Af hverju ætti Morgunblaðið að taka viðtal við Lilju Mósesdóttir, þegar það neyðist í þágu hagsmuna Sjálfstæðisflokksins að taka viðtal við leiðtogann í Reykjavík???  Hvaða tilgangi þjónaði það taka viðtal við Hönnu Birnu þegar fólk er nýbúið að lesa það sem Lilja kvað.  Lesendur Morgunblaðsins er eldra fólk, skynsamt fólk, fólk sem veit að þjóðin á í erfiðleikum.  Það sér og skilur skynsaman málflutning þegar það les hann.  Og slíkt getur Morgunblaðið ekki gert Sjálfstæðisflokknum.

En Mbl.is má eiga að reglulega eru birtar tilvísanir í skrif Lilju á Feisbók eða á bloggi hennar.  Oftar en í nokkurn annan þingmann.  Segir í raun allt sem segja þarf um raunverulega afstöðu Morgunblaðsins.

Það má ekki verja lífið, en það vill að lífið lifi af. 

Held að ég hafi náð að orða ákveðinn kjarna nokkuð vel.

Þú telur mig hafa gert lítið úr málflutningi þínum þegar ég reyndi að yrkja minn fegursta óð, sem segir mér einfaldlega, sem ég vissi reyndar fyrir, að ég er lélegt skáld.

En þeir sem lesa mig, vita að þegar ég geri lítið úr málflutningi fólks, þá geri ég lítið úr málflutningi fólks.  Þannig að undan svíður.  Ég geri það undir nafni, ég geri það beint, og ég tek slaginn við þá sem svíður málflutningur minn.

Ég tala enga tæpitungu, hef aldrei gert.

Þú getur lesið það í þessum nýlega pistli;

Það óvirða fleiri stjórnarskrána en Margrét Tryggvadóttir.

Þegar menn gera mér þann greiða að andæfa í athugasemdarkerfinu þá fylgi ég því eftir svo undan svíður ennþá meir.

Svona læt ég við þá sem ég tel ógna framtíð barna minna.

Þú ert ekki ein af þeim Lilja.

Vonin um framtíð þeirra fólst í verkum þínum.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 21.3.2013 kl. 09:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 104
  • Sl. sólarhring: 351
  • Sl. viku: 5595
  • Frá upphafi: 1327419

Annað

  • Innlit í dag: 93
  • Innlit sl. viku: 4998
  • Gestir í dag: 92
  • IP-tölur í dag: 91

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband