10.1.2013 | 16:00
Hinir svörtu blettir samfélagsins eru ekki stórir.
Ef mál úr fortíðinni er það stærsta sem hægt er að ræða í dag.
Það eru margar þjóðir að gera upp þessi mál úr fortíð sinni, síðasta dæmið sem við höfum úr heimspressunni er mál BBC, hvernig það brást við ítrekuðum ábendingum um barnaníð einnar af sjónvarpsstjörnum sínum. Stofnunin hefur axlað ábyrgð á málinu, beðist afsökunar og þeir sem stóðu fyrir þöggun í dag, urðu að segja af sér.
Fyrir ekki svo löngu komu fréttir frá Kanada þar sem stríðsbörnin svokölluðu, fátæk börn sem voru flutt frá Bretalandseyjum á stríðsárunum, sjálfsagt af góðum hug, en urðu fyrir skelfilegu harðæði og misnotkun eftir að til Kanada kom. Kanadastjórn baðst afsökunar, og bauð bætur.
Við þekkjum mál Breiðavíkurdrengjanna þar sem ríkisstjórn mannúðar og réttlætis bauð smánarbætur. Og komst upp með það.
Við þekkjum aðkomu Karls Vignis af Kumbaravogsdæminu, þar sem hann var nafngreindur í tengslum við illa meðferð og harðræði sem sum börn að minnsta kosti töldu sig hafa sætt þar.
Við þekkjum grein eftir Guðrúnu Sverrisdóttur, hjúkrunarfræðings frá 02.12 2007 þar sem hún rakti sögu frændsystkina sinna, Agnarsbarna og hvert hlutskipti þeirra varð eftir að þau voru vistuð á Kumbaravogi. Það gæti verið fróðlegt að rifja upp það sem Guðrún sagði.
" Eitt af mörgum vistbörnum Kumbaravogs var Elvar Jakobsson. Hann opnaði umræðuna í blaðaviðtali í febrúar sl. og sagði frá kynferðismisnotkun barnaníðingsins Karls Vignis á sér og öðrum börnum vistuðum á heimilinu. Elvar lagði fram ákæru á hendur Karli Vigni, sem í kjölfar yfirheyrslu hjá lögreglu viðurkenndi kynferðislega misnotkun sína til margra ára á Elvari og tveimur öðrum 8-10 ára gömlum drengjum á Kumbaravogi. Samviskulaus barnaníðingurinn var stundum með drengina þrjá samtímis. Hvernig varð svo lífshlaup litlu fórnarlambanna, sem engan talsmann höfðu? Tveir af þeim eru látnir, Þorsteinn Karl Eyland og frændi minn, Einar Þór Agnarsson, sem lést 24 ára gamall. Þeir voru báðir kynferðislega misnotaðir frá unga aldri á Kumbaravogi og skemmdir fyrir lífstíð. Sá þriðji, sem lifir, Elvar Jakobsson, byggði upp einskonar sjálfsvarnarkerfi svo hann gæti lifað áfram og reynt að vera hamingjusamur eins og hann segir. Jafnframt að skuggi æskuáranna sé aldrei langt undan, sem slái hann ofan í botnlaust svartholið.
Illmennið Karl Vignir hefur ekki oftalið fórnarlömbin og segir ekki frá ódæðisverkum á öðrum börnum frá Kumbaravogi í Vestmannaeyjum. Það skipti hann ekki máli hvort í hlut áttu stúlkur eða drengir. Í DV 30. maí sl. er sagt frá því að Karli Vigni hafi verið vikið úr söfnuði aðventista fyrir um 10 árum, vegna stúlku sem hann misnotaði margsinnis bæði áður og eftir að hún varð kynþroska. Málið var ekki kært. Í sama blaði er haft eftir fyrrverandi aðventupresti að Karl Vignir talaði um börn á þessum aldri sem konfektið sitt. Hvað skyldi hann hafa misnotað mörg börn, skaddað margar barnssálir og lagt mörg líf í rúst undanfarin 40-50 ár? Karl Vignir var aldrei stoppaður af! Hvert sem hann fór skildi hann eftir sig sviðna jörð. Óþokkaverkin voru hvorki kærð né barnaníðingnum fylgt eftir. Einfaldlega var honum sagt upp störfum vegna ónáttúru en þá skipti hann bara um vinnustað! Karl Vignir vissi sem var að þeir fiska sem róa."
Þetta var landsmönnum sagt seint á árinu 2007.
Þeim var líka sagt frá því hvernig arfi frændsystkina hennar var stolið, og það var líka sagt frá því hvernig dauða Einars Þórs Agnarssonar bar að í Daníelsslippi 1985.
En hvað varð úr???
Hver urðu eftirfylgni málsins.
Kynferðisleg misnotkun sönnuð, sterk rök færð fyrir þjófnaði, og hvernig rannsókn á líklegu morði var afgreidd sem "sjálfsvíg".
Hvað verra er hægt að upplýsa þjóðina um???
Spyrjum okkar þeirra spurningar og spyrjum okkur um hvað er verið að upplýsa þjóðina um í dag???
Er einhver að biðjast afsökunar???
Er verið að lofa rannsókn???
Er einhver að segja af sér???
Svarið við þessum spurningum er eitt stórt Nei.
Eitthvað óskilgreint sem heitir samfélag er sakfellt, ekki fólkið sem ábyrgðina bar á þessu máli, sem bara ábyrgðina á að Karl Vignir fékk óáreittur að valsa um.
Ekki er gerð tilraun til að leiðrétta glæpamistök fortíðar, enginn talar um réttlæti þó seint sé.
Og það þarf ekki að taka það fram að fjölmiðlar spyrja sig ekki þeirrar spurningar af hverju þeir þögðu, alveg þar til núna, þegar nær væri að fjalla um önnur níðingsverk. Til dæmis hvað hafa mörg börn verið svipt heimilum sínum vegna vaxtaþjófnaðarins, vegna þess að bankaþjófar komust upp með að innheimta fölsuð lán gengistryggingarinnar???
Það er þannig að það er fleira níð en klámníð, en grunsamlegur þessi ofuráhugi á máli sem hefur legið ljóst fyrir frá 2007, og allir þögðu, og þegar það kemur upp, er spiluð gömul plata en enginn spyr um réttlæti, og uppreisn æru fyrir fórnarlömb níðingsins. Og níðinganna því Karl Vignir var aðeins viðbót við sálarmorðið, og ekki var það hann sem stal arfi og ekki var það hann sem þaggaði niður morðrannsókn.
Er verið að stjórna þjóðinni með alþekktri taktík fjölmiðla í augu auðmanna sem mata almenning á hneykslismálum þegar valdaítök hinna ofurríku er í hættu í kosningum???
Eru þá svona mál dregin upp, í stað þess að ræða til dæmis hvað gerist þegar vogunarsjóðirnir fá sínu fram eftir kosningar?? Heldur fólk að það bitni ekki á börnum þegar þjóð er rænd???
Eða vaxtaþjófarnir, af hverju hafa þeir aldrei verið dregnir til ábyrgðar, látnir svara til saka í fjölmiðlum landsins??'
Ég veit það ekki, en mér ofbauð hræsnin sem kom fram í þessari frétt Mbl.is. Þarna er fólk í ríkisstjórn 2007 að þykjast koma ofan af fjöllum og ætlar að rannsaka eitthvað.
Af hverju byrjar það ekki að kynna sér stöðu mála í dag.
Það er dagurinn í dag sem skiptir máli fyrir morgundaginn, og samfélagið hefur lært, það er að hnika hlutum í betra horf.
"Ólöf segir að sem betur fer hafi margt breyst á síðustu árum. Þetta er kerfið eins og það var á 7., 8., og 9. áratugnum, á þeim tíma þegar við hugsuðum að svona væri ekki til á litla Íslandi. En það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan og í dag erum við komin mjög langt miðað við margar aðrar þjóðir. Barnahús var stofnað árið 1998 og Ólöf segir að um það leyti hafi mikil framfaraskref verið stigin. Síðan bókin Verndum þau kom fyrst út árið 2006 hefur Barnahús staðið fyrir yfir 100 námskeiðum fyrir fólk í barnastarfi, s.s. hjá íþróttafélögum, skólum, félagsmiðstöðvum og skátunum. Þá sækir allt starfsfólk KFUM og K námskeiðið áður en það hefur störf." (Ólöf Ásta Farestveit ).
Það má gera betur en ríkisstjórn sem kýs að fóðra fjármagnseigendur, vanrækir þennan málaflokk, eins og annað sem snýr að velferð barna. Þjónusta Bugl, sálfræðiþjónusta í skólum, allt heilbrigðs og stoðkerfið, allt í upplausn vegna fjárskorts.
En bara 30 milljarðar árlega í óþarfa vexti bara vegna AGS lánsins.
Það eru skýringar á hlutunum, en þær er ekki að leita hjá því góða fólki sem er að reyna að bæta og betra kerfið, að reyna að hjálpa skjólstæðingum sínum.
Skýringin er hjá siðblindum stjórnmálamönnum sem taka fjármagn fram yfir fólk.
Þess vegna er neyð í Evrópu, þess vegna hafa vaxtaþjófar komist upp með að rústa heimilum. Þess vegna búum við í þjóðfélagi rukkara.
Ef níðingsskapur gegn saklausum börnum er til þess að ráðherrar ríkisstjórnarinnar geti slegið sig til riddara, þá er mælirinn fullur.
Látum þá ekki komast upp með það.
Gerum þá hrædda svo þeir þori ekki öðru en að veita fórnarlömbum fortíðar uppreisn æru, veiti þeim réttlæti, og sanngjarnar bætur fyrir allar misgjörðirnar sem voru látnar viðgangast.
Ég ætla að birta grein Guðrúnar í athugasemdum hér á eftir.
Hún er hrollvekjandi, og krefst samhygð okkar.
Þó seint sé, þá er samt aldrei of seint.
Kveðja að austan.
Svartur blettur á samfélaginu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:52 | Facebook
Um bloggið
Ómar Geirsson
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.1.): 8
- Sl. sólarhring: 23
- Sl. viku: 1660
- Frá upphafi: 1412774
Annað
- Innlit í dag: 7
- Innlit sl. viku: 1479
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Kumbaravogsbörnin
Í minningu Einars Þórs Agnarssonar – og allra hinna
Ég hitti hjónin Hönnu Halldórsdóttur og Kristján Friðbergsson fyrst árið 1965, en þau veittu uppeldisheimilinu á Kumbaravogi forstöðu. Frændsystkini mín, fimm og níu ára gömul, voru vistuð á Kumbaravogi og ég hélt eins og staðan var að þetta væri börnunum fyrir bestu. Ég var unglingur og tók gæfuleysið á heimili þeirra afskaplega nærri mér. Við bjuggum í sama fjölbýlishúsinu
og þau voru eins og systkini mín. Engan óraði fyrir að þau yrðu þarna næstu 10 árin. Aðdragandi vistunar barnanna á vegum barnaverndarnefndar spannaði tvö til þrjú ár. Ástæðan var áfengisdrykkja foreldranna, brotið heimilislíf, veikindi, yfirvofandi hjónaskilnaður og fátækt. Úrræði voru ekki mörg á þessum árum. Stuðningur kerfisins við „brotin heimili“ var afskaplega fálmkenndur og ófaglegur. Börn voru miskunnarlaust tekin af foreldrum og systkinum sundrað, úrræði þeim til stuðnings voru lítil sem engin. Réttarstaða foreldra gagnvart „kerfinu“ og barnaverndarnefnd með upptöku mála og endurmat var afskaplega fjarlæg og veik, – réttarstaða barnanna sjálfra minni en engin.
Ég bar mjög mikla virðingu fyrir Kumbaravogshjónunum, sem voru aðventistar og ráku þetta upptökuheimili. Forstöðukonan, Hanna, fannst mér vera afskaplega viðkunnanleg með góða nærveru. Fjölskylda mín hélt að þarna fengju börnin gott atlæti og öryggi. Ég hélt alla tíð, öll þessi ár, að þau hjónin gerðu þetta af manngæsku og trúarlegri hugsjón. Heimsóknir fyrir aðstandendur voru eingöngu leyfðar fyrsta sunnudag hvers mánaðar. Mér var afskaplega vel tekið af húsráðendum og barnaskaranum. Þetta voru alltaf gleðistundir að sjá barnahópinn, hitta og faðma litlu frændsystkinin, sem hvorki kvörtuðu né sögðu frá neinu misjöfnu. Mikilvægasta mótunarskeið barna er frá vöggubarni til unglingsáranna. Litlu frændsystkini mín voru alla barnæskuna og unglingsárin vistuð fjarri foreldrum og tveimur eldri bræðrum og setti það mark sitt á þau öll ævilangt. Bænarbréfi móður þeirra til „háttvirts Barnaverndarráðs“ þar sem hún reyndi að fá börnin sín „lánuð“ um jól var synjað. Þau fengu aldrei leyfi öll þessi ár til að dvelja hjá eða heimsækja daglangt foreldra sína og bræður. Hvorki á jólum, páskum, afmælisdögum né öðrum tyllidögum. Beiðni foreldranna um að þau kæmu í fermingu næstelsta bróðurins var synjað. Það var ekki talið óhætt að leyfa litlu systkinunum að fara í fermingu eldri bróður. Þannig voru Kumbaravogsreglurnar. Á sama tíma var barnaníðingurinn Karl Vignir Þorsteinsson, sem dvaldi árlega á Kumbaravogi, að misnota og nauðga litla frænda mínum, Einari Þór, átta ára gömlum, innan veggja upptökuheimilisins.
Þagnarmúrinn var ekki rofinn fyrr en nýverið. Enginn vissi neitt fyrr en nú 40 árum síðar – eða hvað? Að sögn Kristjáns á Kumbaravogi „sendi“ hann Karl Vigni á einhverjum tímapunkti, af því að hann hafði einhverja „ónáttúru“, til Þórðar Möller geðlæknis. Fáfræðin á fósturheimilinu virðist allsráðandi og blinda auganu snúið að börnunum. Barnaníðingurinn var sendur til geðlæknis en ekki börnin. Karl Vignir var „heimilisvinur“ og þrátt fyrir „ónáttúruna“ leyfðist honum áframhaldandi aðgangur að Kumbaravogi og börnunum. Eitt af mörgum vistbörnum Kumbaravogs var Elvar Jakobsson. Hann opnaði umræðuna í blaðaviðtali í febrúar sl. og sagði frá kynferðismisnotkun barnaníðingsins Karls Vignis á sér og öðrum börnum vistuðum á heimilinu. Elvar lagði fram ákæru á hendur Karli Vigni, sem í kjölfar yfirheyrslu hjá lögreglu viðurkenndi kynferðislega misnotkun sína til margra ára á Elvari og tveimur öðrum 8-10 ára gömlum drengjum á Kumbaravogi. Samviskulaus barnaníðingurinn var stundum með drengina þrjá samtímis. Hvernig varð svo lífshlaup litlu fórnarlambanna, sem engan talsmann höfðu? Tveir af þeim eru látnir, Þorsteinn Karl Eyland og frændi minn, Einar Þór Agnarsson, sem lést 24 ára gamall. Þeir voru báðir kynferðislega misnotaðir frá unga aldri á Kumbaravogi og skemmdir fyrir lífstíð. Sá þriðji, sem lifir, Elvar Jakobsson, byggði upp einskonar
sjálfsvarnarkerfi svo hann gæti lifað áfram og reynt að vera hamingjusamur eins og hann segir. Jafnframt að skuggi æskuáranna sé aldrei langt undan, sem slái hann ofan í botnlaust svartholið.
Karl Vignir talaði um börn á þessum aldri sem konfektið sitt
Ummæli Kristjáns á Kumbaravogi í DV frá 30. maí sl. um kynferðislega misnotkun Karls Vignis á börnunum eru mjög misvísandi og ótrúverðug. Þar neitar Kristján „...að hann hafi nokkurn tíma grunað Karl Vigni um barnagirnd“. Síðar „úthýsir“ hann Karli Vigni frá uppeldisheimilinu „...en ekki vegna barnagirndar mannsins“. Ástæðan er ekki gefin upp. Samt sem áður segir Kristján „...það ekki hafa komið sér á óvart að Karl Vignir hafi játað að hafa margsinnis misnotað kynferðislega dreng sem var vistaður á heimilinu“. Illmennið Karl Vignir hefur ekki oftalið fórnarlömbin og segir ekki frá ódæðisverkum á öðrum börnum frá Kumbaravogi í Vestmannaeyjum. Það skipti hann ekki máli hvort í hlut áttu stúlkur eða drengir. Í DV 30. maí sl. er sagt frá því að Karli Vigni hafi verið „vikið úr söfnuði“ aðventista fyrir um 10 árum, vegna stúlku sem hann misnotaði „margsinnis bæði áður og eftir að hún varð kynþroska“. Málið var ekki kært. Í sama blaði er haft eftir fyrrverandi aðventupresti að „Karl Vignir talaði um börn á þessum aldri sem konfektið sitt“. Hvað skyldi hann hafa misnotað mörg börn, skaddað margar barnssálir og lagt mörg líf í rúst undanfarin 40-50 ár? Karl Vignir var aldrei stoppaður af! Hvert sem hann fór skildi hann eftir sig sviðna jörð. Óþokkaverkin voru hvorki kærð né barnaníðingnum fylgt eftir. Einfaldlega var honum sagt upp störfum vegna „ónáttúru“ en þá skipti hann bara um vinnustað! Karl Vignir vissi sem var „að þeir fiska sem róa“. Hvar voru bestu miðin? Hvar var helst lítilmagnann að finna? Hvar er óskastaður barnaníðings? Starfa við eftirlit og umönnun á Sólheimum í Grímsnesi? Vinna við umsjón í kirkju sem fjöldi barna sækir? Vaða um óáreittur á barnaheimilinu Kumbaravogi? Vera yfirmaður unglingsdrengja, töskubera, á hóteli hér í bæ? Hvað skyldi barnaníðingurinn aðhafast í dag? Karl Vignir getur lagst á bæn og þakkað fyrir það að búa í vernduðu umhverfi íslenskra laga. Hvað skyldi hafa verið gert við mann eins og hann t.d. í Texas? Samkvæmt máttvana lagabókstaf íslenskum er Karl Vignir laus allra mála. Málin fyrnd! Í skjóli laganna getur trúrækni barnaníðingurinn Karl Vignir raulað fyrir munni sér: „Ó Jesús kastar öllum mínum syndum á bakvið sig/og ég sé þær aldrei meir.“Háttvirt Alþingi
Talsvert af bréfum og skjölum hefur komið í ljós á Borgarskjalasafninu sem varðar persónulegar upplýsingar fyrrverandi vistbarna og hina ýmsu styrki til Kristjáns á Kumbaravogi. Í mars 1962 skrifar Kristján bréf til Símonar Jóh. Ágústssonar hjá Barnaverndarráði Íslands og leitar ráða hjá sálfræðingnum. Kristján vill fara í skóla og „læra það sem krafist er af forstöðumönnum uppeldisheimila í Danmörku sem er tveggja til þriggja ára nám“. Í sama bréfi segir Kristján: „En þar sem ég hef fyrir heimili að sjá [konu og tveim drengjum 6 og 8 ára] en er ekki efnaður maður, gæti ég þá fengið lán eða styrk til slíks náms hjá öðrum aðiljum en Menntamálaráði?“ Svo virðist sem hvorki lán né styrkur hafi gefist og ekkert varð úr tveggja til þriggja ára uppeldislegu sérnámi Kristjáns, sem starfaði um tíma hjá Æskulýðsráði Reykjavíkur og árið 1963 félagasamtökunum Vernd. Árið 1964 festir hann kaup á Kumbaravogi og skv. bréfum er hann farinn að leita leiða til að fá peningastyrki og samþykki Barnaverndarráðs til að stofna og reka upptökuheimili fyrir börn. Kristján er mikill „peningamaður“ þótt engir séu peningarnir, en það er enginn bóndi nema hann barmi sér. Kristján á Kumbaravogi var iðinn við bréfaskriftir til að afla fjár til heimilisins. Áður en starfsemin byrjaði á Kumbaravogi 1965 varð hann sér úti um styrk frá „háttvirtri fjárveitingarnefnd Alþingis til að standa straum af stofnkostnaði við heimili á Kumbaravogi í Árnessýslu fyrir umkomulaus börn“. Kristján hafði hvorki menntun né mannúð til að veita uppeldisheimili forstöðu til að sinna fjölda niðurbrotinna barna. En hann var búinn að kaupa Kumbaravog og með fimm meðmælabréf upp á vasann, sjálfum sér til framdráttar, sem hann sendir Símoni Jóh. Ágústssyni, sálfræðingi hjá Barnaverndarráði Íslands. Barnaverndarráð Íslands lagði blessun sína yfir reksturinn og menntamálaráðuneytið gaf út starfsleyfi árið 1965 fyrir barnaupptökuheimili á Kumbaravogi. Kumbaravogshjónin höfðu enga menntun hlotið, hvorki til kennslu né uppeldisstarfa. Hvernig gátu alls ómenntaðir einstaklingar fengið leyfi barnaverndarnefndar til að taka að sér 14 börn? Börnin 14, sem vistuð voru á Kumbaravogi á þessum árum, voru öll á svipuðum aldri og komu flest af brotnum heimilum. Á Kumbaravogi bjuggu einnig tveir synir hjónanna svo alls voru börnin 16 talsins.Tveimur árum eftir að starfsemin hófst var ráðist í viðbótarbyggingu við gamla húsið. Sumarið 1967 skrifar Símon Jóh. Ágústsson hjá Barnaverndarráði: „Viðbótarbygging er langt komin og verður tekin í notkun með haustinu. Fást þar leikstofur og húsnæði fyrir starfsfólk.“ Sú varð ekki raunin. Viðbótarbyggingin var tekin undir sérherbergi fyrir syni forstöðuhjónanna og sparistofu.
Sumarið 1970 var búið að byggja annað upptökuheimili á jörðinni. Í október 1970 biður Kristján um aukna fjárveitingu fyrir nýja húsið:
„...Fjárveitingarnefnd Alþingis hefur áður veitt mér styrk á fjárlögum, sem skylt er að þakka. Á þessu ári var mér veittur styrkur að fjárhæð kr. 75.000.00, en vegna mikilla útgjalda við að opna síðara heimilið er mér mjög mikil nauðsyn á að fá styrkinn hækkaðan í umbeðna fjárhæð... fer þess hér með á leit við fjárveitingarnefnd hæstvirts Alþingis að mér verði veittur styrkur á fjárlögum ársins 1971 að upphæð kr. 200.000.00 vegna stofnkostnaðar og reksturs barnaheimilisins í Kumbaravogi.“
Í dag er verðgildi 75 þúsund króna u.þ.b. 4,5 milljónir og verðgildi 200 þúsund króna er í kringum 12 milljónir. Allverulegar peningaupphæðir virðast hafa gengið til Kumbaravogsheimilisins í nafni meðlaga, hjálparkennslu- og húsbyggingastyrkja, fata- og peningagjafa.
26 fósturbörn
Nýbyggingin var ætluð 12 vistbörnum því fjöldinn var kominn í 26 börn. Umsjón með þeim rekstri höfðu hjón úr aðventistasöfnuðinum, maðurinn kennari, sem átti m.a. að sjá um hjálparkennslu beggja upptökuheimilanna. Hugsjónin um vernduð upptökuheimili með umhyggjusömum fósturforeldrum var ákaflega falleg en fjarlæg mynd. Upptökuheimili með fagmenntuðum stjórnendum hefði eflaust nýst fáeinum börnum, en ekki 14 eða 26 börnum. Hvað var haft að leiðarljósi á upptökuheimilinu, velferð barnanna eða var fégræðgin orðin hugsjóninni yfirsterkari? Venja var að ríkið borgaði tvöfalt eða þrefalt meðlag með barni sem var í barnaverndarforsjá. Í upplýsingum frá Félagsmálastofnun Reykjavíkur árið 1970 „fær Kristján Friðbergsson 7-8 þúsund krónur með hverju barni á mánuði“, sem að verðgildi dagsins í dag væri 50- 60 þúsund krónur á barn. Miðað við 26 börn gerir það u.þ.b. 1,5 milljónir á mánuði.Í skjölum sem fundust á Borgarskjalasafninu má lesa hin ýmsu betlibréf undirrituð af Kristjáni Friðbergssyni m.a. til Barnaverndarráðs Íslands, fjárveitingarnefndar Alþingis, menntamálaráðuneytisins, fræðslumálastjóra og Félagsmálastofnunar Reykjavíkur. Hann fór afskaplega frjálslega með sannleikann og beitti vistbörnunum óhikað fyrir vagninn, þessum „tornæmu“ og „greindarskertu“, sem þyrftu hjálparkennslu. Kristján harkaði út ár eftir ár sporslur og styrki m.a. til hjálparkennslu og húsbygginga. Forstöðumaðurinn sagði ekki frá daglegri vinnuskyldu vistbarnanna á upptökuheimilinu í umsóknunum og styrkjabeiðnunum til ríkisins. Vinnuskyldu við þúsund pútna hænsnabúið, heimilisþrifin, búrekstur rófu- og kartöfluræktunar, byggingarvinnuna og saumaverkstæðið og að vinnan hafi gengið fyrir lærdómnum.
Vinnuskylda
Lífsbaráttan hefur verið hörð og frásagnir fyrrverandi vistbarna Kumbaravogs líkjast helst völdum köflum úr Oliver Twist. Þrjár uppeldissystur, Erna Agnarsdóttir, María Haraldsdóttir og Jóhanna Agnarsdóttir, staðfesta frásögn Elvars á heimasíðu Breiðavíkursamtakanna sem ber yfirskriftina „Launalaus vinnuþrælkun til margra ára“.„Á Kumbaravogi störfuðum við krakkarnir við hænsnarækt (ég var ekki nema 11 ára þegar ég var látinn snúa hænur úr hálslið), rófurækt, kartöflurækt og ýmis önnur tilfallandi garðyrkju- og bústörf. Við byggðum þar að auki tvö stór hús með mörgum herbergjum á þremur árum, sem í dag eru notuð sem húsnæði fyrir dvalar- og hjúkrunarheimilið Kumbaravog. Við smíðuðum, einangruðum með glerull, skófum timbur, lögðum tjörupappa, negldum þakplötur og gengum í öll þau störf sem okkur var sagt að vinna, sama hvernig viðraði. Til viðbótar stóðum við vaktir við saumavélarnar í poka- og ábreiðuverksmiðjunni. Ef við vorum ekki að vinna fyrir forstöðumanninn við bústörf, byggingarvinnu eða framleiðslu sendi hann okkur á aðra bæi til að vinna sambærileg störf. Allt þetta gerðum við án þess að fá nokkurn tíma borgaða eina einustu krónu. Forstöðumaðurinn fékk hins vegar borgað með okkur frá Reykjavíkurborg, fékk greiðslur af fjárlögum, auk þess að fá greiðslur frá sveitungum sínum þegar hann sendi okkur í vinnu til þeirra. Um helgar var okkur ekið út um allt Suðurland til að betla pening fyrir einhverja góðgerðarstarfsemi. Ég á erfitt með að trúa því að allt það sem við krakkarnir söfnuðum á þeim ferðum hafi farið eitthvað annað en í vasa forstöðumannsins. Það var ekki nóg að borgin greiddi með okkur fullt gjald heldur gerði forstöðumaðurinn þar að auki stöðugt kröfur á föður minn um greiðslu fyrir skólagjöldum, fatnaði og öðru sem hann tíndi til. Að auki sendi hann reglulega greinar í dagblöð á þessum tíma og bað um styrk og aðstoð frá almenningi til að sjá barnaskaranum farborða. Þrátt fyrir góð viðbrögð fengum við fósturbörnin aldrei nokkurn tíma ný föt eða nýja skó. Við gengum allan tímann í fatnaði frá Hjálpræðishernum eða öðrum samtökum sem réttu honum hjálparhönd.“
Arfurinn
Jóhanna Agnarsdóttir var elst þriggja systkina á aldrinum sjö ára, fimm ára og tveggja ára þegar þau voru vistuð á Kumbaravogi. Hún og bróðir hennar voru þar í 10 og 15 ár, en miðbarnið, litla systirin, var fljótlega sett í fóstur á einkaheimili. Við andlát afa þeirra árið 1978, sem var efnaður maður, tók forstöðumaðurinn yfir arf systkinanna fyrir þeirra hönd sem fjárhaldsmaður án þeirra vitundar og samþykkis. Tveir erfingjanna voru ekki lögráða og því hefði dánarbúið átt að fara í opinber skipti. Annar erfinginn ólst ekki upp á Kumbarvogi heldur á einkaheimili. Í DV-viðtali frá 9. mars sl. segir Jóhanna frá samskiptum sínum við Kristján Friðbergsson og nokkurra ára málaferlum varðandi arfinn.Systkinin fjögur
Erna segir frá systkinunum fjórum, þegar þau voru fyrst tekin út af heimili foreldranna árið 1962. „Sá elsti, Ævar, 11 ára, var sendur á Jaðar en hin á Silungapoll í viku. Raggi var níu ára, ég sex ára og Einar á öðru árinu. Einar var oft með eyrnabólgu og grét mikið. Þá nægði að halda á honum til að hann róaðist. Á Silungapolli var hann hafður einn í lokuðu herbergi frá átta á kvöldin til átta næsta morgun. Hann vaknaði upp og grét þar til hann sofnaði, vaknaði aftur grátandi og þannig gekk þetta alla nóttina. Við systkini hans lágum hinum megin við þilið og máttum hlusta á grátinn í honum. Hurðarhúnarnir voru svo hátt uppi að börn náðu ekki upp í þá svo að ekki gat ég stolist til hans. Föðursystir okkar gekk í málið og við komumst heim. Þessi tími þarna var ólýsanleg kvöl. Ekki liðu þó nema þrjú ár þar til við komum á Silungapoll aftur.“ [Þá var Einar fimm ára og Erna níu ára þegar þau voru vistuð seinna skiptið á Silungapolli.] „Aginn var strangur og refsingarnar harðar. Eitt sinn þegar ég braut af mér var farið með mig út í skúr og ég látin afklæðast. Síðan var farið með mig allsnakta út á tún og köldu vatni sprautað yfir mig. Niðurlægingin var algjör og ég þorði ekki að vera óþekk þessa daga sem eftir voru. Konurnar frá Barnaverndarnefnd komu eftir viku og sóttu okkur til að fara með í aðra vistun, eða á Kumbaravog. Sú vistun stóð í tíu ár.“Kumbaravogsárin
Elvar og Jóhanna hafa lýst lífinu á Kumbaravogi í blöðum og viðtölum sl. mánuði. Erna bregður upp svipaðri mynd í sínum frásögnum:„Stórtæk atvinnustarfsemi var rekin á staðnum. Lítil sem engin utanaðkomandi hjálp var keypt inn á upptökuheimilið. Vinnan var látin ganga fyrir lærdómnum og hjálp við heimalærdóm var engin. Börnin urðu ókeypis vinnukraftur við heimilisþrifin, hænsnabúið, saumaverkstæðið, rófu- og kartöflurækt vor, sumar og haust, og síðar meir unnu börnin í byggingarvinnu við nýbyggingar Kumbaravogs. Erna, María og Jóhanna, átta og níu ára gamlar, sáu yfirleitt um dagleg þrif á heimilinu. Hænsnabúið taldi um eitt þúsund hænsni. Börnin sáu um að skófla hænsnaskítnum úr húsi, safna eggjum, þvo, flokka þau undir sölu sem og deyða hænsnin. Pokaverksmiðjan var í sérstöku húsi. Börnin voru látin vinna við saumavélarnar, þótt þau næðu varla niður á pedalann. Afurðirnar, kartöflupokar og heyyfirbreiðslur, voru seldar til bænda. Börnin sköpuðu mikil verðmæti með vinnuframlagi sínu sem aðalstarfskrafturinn og voru undirstaða bú- og atvinnurekstursins á Kumbaravogi.“
Einar Þór og „mamma litla“
Lífsferill litla frænda míns, Einars Þórs, á 24 ára stuttri ævi var ekki öfundsverður. Hann var fyrst tekinn af heimili sínu tæplega tveggja ára og aftur fimm ára. Hann var afskaplega mikill fjörkálfur, skýr, ljúfur og hláturmildur. Erna, systir hans, sem var fjórum árum eldri, varð strax hin ábyrgðarfulla „litla mamma“ gagnvart bróður sínum. Hún varð kjölfestan í lífi hans og verndari. Litla hetjan, níu ára að aldri, reyndi að hlífa honum með því að taka skellina á sig. Hún tók móðurhlutverkið alvarlega og verndaði hann á allan þann hátt sem hún gat. Það dugði samt ekki til. Barnaníðingurinn, sem lék lausum hala inni á upptökuheimilinu, misnotaði Einar Þór frá átta ára aldri. Erna segir frá mikilli hörku forstöðumannsins gagnvart Einari allt frá því hann kom á Kumbaravog fimm ára gamall. Hann lét illa að stjórn og það var alltaf verið að hegna honum. Ef hann ærslaðist og hló við matarborðið var hann lokaður inni á klósetti með matinn sinn. Að sjálfsögðu hefur þurft reglur og aga á þennan barnafjölda og ekki öfundsvert hlutverk, en refsingarnar urði þyngri með hverju árinu. Einu sinni sem oftar áttu börnin að vinna við byggingu nýja hússins. Einar var átta ára og hlýddi ekki. Þá tók Kristján hann upp á eyra og hnakka svo fæturnir snertu ekki jörðina og þannig var hann borinn fleiri tugi metra í ásýnd hinna barnanna. Oftar en ekki var höndum snúið aftur fyrir bak enda var hann alla tíð að fara úr axlarlið. „Brotnu börnin“ urðu „brotnir unglingar“. Unglingsárin komu með fullum þunga hjá Einari Þór sem var laskaður á sál og líkama og fullur mótþróa. Hann stalst á samkundu inni í þorpinu 13 ára gamall ásamt nokkrum öðrum unglingum frá Kumbaravogi. Þrír voru hirtir upp, tveimur var stungið inn á Litla-Hraun og einn var settur í fangageymslu lögreglunnar á Selfossi. Fyrsta áfengisdrykkjan hjá Einari var í kringum 14 ára aldurinn. Hann hafði strokið til Reykjavíkur og fann lögreglan hann drukkinn í miðborginni. Eftir samráð við forstöðumann Kumbaravogs var Einari Þór stungið inn á lokaða deild á Kleppsspítala. Deild 10 var lokuð deild fyrir langdrukkna fullorðna drykkjusjúklinga, þar var hann vistaður í nokkra daga. Seinna var hann sendur á unglingaheimili ríkisins og hámark refsingarinnar var þegar Einar Þór var sendur 14 ára gamall í nokkurra mánaða „hegningarvist“ í Breiðavík.„Trúnaðarmál“
Sögusviðið er Daníelsslippur í Reykjavík fyrir 22 árum. Bíll stendur í slippnum miðjum, slanga frá púströri liggur inn í bílinn og það er breitt yfir hann með segldúk. Inni í bílnum hvíla tveir ungir menn, báðir látnir. Bíllinn var fjarlægður úr slippnum með dráttarbíl frá Vöku og farið með hann inn í port lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu með lík piltanna innanborðs. Rannsóknarlögreglan sagði þá hafa svipt sig lífi, dánarorsökina vera koltvísýringseitrun. Annar piltanna var Einar Þór Agnarsson, frændi minn, 24 ára gamall. Systkini Einars Þórs, Ævar, Ragnar og Erna, eru enn í dag að berjast fyrir því að fá niðurstöðu rannsóknarinnar í hendur. Rannsóknar- og krufningsskýrslur varðandi þennan harmleik og dauða ungu mannanna eru merktar „trúnaðarmál“ og eingöngu ætlaðar embætti ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra!Ég er að reyna að skilja og hafa í huga að Kumbaravogsheimilið var barn síns tíma – en það eitt nægir ekki. Ótal spurningum er ósvarað. Það er löngu tímabært að fyrrverandi forstöðumaður Kumbaravogs, Kristján Friðbergsson, svari opinberlega lið fyrir lið hverjum þeim sakargiftum sem á hann eru bornar undanfarna mánuði og skýri sína hlið mála.
Ábyrgð hverra?
Mistökin voru margþætt. Foreldrarnir, sem fyrst og fremst báru ábyrgð á velferð barna sinna, brugðust þeim sökum vanmáttar og veikleika. Fósturforeldrarnir brugðust hugsjóninni – en fósturheimili af þessari stærðargráðu, með þennan barnafjölda, var dæmt til að mistakast. Barnaverndarráð, sem hafði vistunarmál og örlög barna og fjölskyldna í hendi sér, brást skjólsstæðingum sínum. Barnavernd stóð hvorki undir nafni né eftirlitsskyldu.Það er skylda ríkisvaldsins að standa að baki þeim brotnu börnum upptökuheimilanna sem í dag eru fullorðnir einstaklingar. Jafnframt er það skylda þess að láta rannsaka Kumbaravogsheimilið jafnhliða Breiðavík, sem og önnur upptökuheimili frá þessum tíma. Það er ekki hægt að gefa þessu fólki bernskuárin aftur en það er hægt að viðurkenna misgjörðir gagnvart þeim og veita þeim fébætur sem vott um iðrun og virðingu samfélagsins.
Mér finnst ég skulda frænda mínum þessa grein. Ég vissi ekki þá – sem ég veit í dag. Í minningu Einars Þórs lýk ég þessum skrifum með broti úr eftirmælum mínum sem birtust í mars 1985 að honum látnum.
„Við fráfall frænda míns unga rifjast upp löngu liðnar stundir. Þegar Einar fæddist var ég unglingsstelpa, alls óvön svona lítilli mannveru. Hann varð mér strax mjög kær. Ég sá hann vaxa frá vöggubarni til lítils hnokka sem var fullur atorku og fjörs, viðkvæmni og væntumþykju. Atvikin höguðu því svo að Einar var tekinn í fóstur ungur að árum, fjarri foreldrum, eldri bræðrum og öðrum skyldmennum. Seint verður sú gáta ráðin hvort ein eða önnur tilvik í lífi mannsins breyti þar öllu um lífsbrautina – einstaklingnum til góðs eða ills – gæfu eða glötunar. Von mín er sú að frændi minn, Einar Þór, sé nú loksins genginn þær brautir gæfu og friðar sem hann höndlaði ekki í þessum heimi.“
Höfundur er hjúkrunarkona á endurkomudeild slysadeildar í Fossvogi.
Ómar Geirsson, 10.1.2013 kl. 16:01
þetta er ljót saga og tekur á að lesa og maður verður hljóður mjög!!!ég verð að segja mig heppin af mínum ungdómsárum, 7 ára mysti ég föður minn Fórst með Togara 23/10-1942 og var á 2 sumur á Sælingdalslaug í Dölunum með 30 srákum og allt gekk vel útivist og sund og knatspyrna stunduð,með góðu fólki í forsvari mjög,þetta var rekið af Rauða krossi!!!svo var heimilð okkar erfitt börnin 4 og þau fengu að vera í sveit á sumrum hjá fændfólki!!!en 1943 fór ég í sveit hjá vadalausum að Kálfskinni við Eyjafjörð átti að vra eitt sumar en líkað vel og var þarna í 2.6 ár og í skóla og svp auðvitað mikli vinna og það bara gott að læra,skíði og alles!!gott fólk þarna,eftir heimkomu var ég alltaf í sveitavinnu á sumrum,og mikið hjá vandalausum einnig alstaðar gott að vera,en auðvitað vinnan númer eitt!!!!é segji þetta til að láta vita að sumir komu vel út sem betur fer/kveðja að sunnan!!!!
Haraldur Haraldsson, 10.1.2013 kl. 17:11
Sem betur fer gerðu það margir Haraldur, og sem betur fer er svona sögur undantekning í hinu stærra samhengi.
Það er málið þetta er ljót lesning, ég man að ég fann fyrir reiði yfir máttleysi mínu til að bregðast við, hvað gat einn einstaklingur gert???, þá var ég að reyna að standa í lappirnar í heila dag án þess að glíma við verki og þreytu.
Ég var aðallega reiður þess vegna, yfir að geta ekki gert neitt, en sorgmæddur vegna þess að þetta hafði gerst á landinu mínu, ekki í útlöndum eins og maður taldi sér alltaf í trú um.
Og mér sveið þöggunin, og svíður ennþá að aðalatriði málsins skulu ekki vera að takast á við fortíðina, gera hana upp, auðsýna réttlæti og yfirbót.
En það er ekki tilgangurinn með þessum fréttaflutningi í dag, ekki ennþá, en það getur breyst.
Nú skulum við sjá hvað Davíð gerir, einn góður leiðari gæti lyft Grettistaki.
Svo vil ég loks þakka þér fyrir þitt einlæga innlegg, það er gott að lesa svona frásögn, hún minnir mann á þjóðin á líka góðar minningar.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 10.1.2013 kl. 17:26
Fyrsta skipti sem ég tárast á moggablogginu... ólýsanlega sorglegt.
Þetta er enn eitthvað svo nálægt okkur.
Anderson, 10.1.2013 kl. 23:57
Já, það er það Andersen.
Og því miður höfum við sem þjóð brugðist þessum börnum, líka í dag þegar þau krefjast réttlætis.
Ég vona að þessi umfæða um Karl hreyfi aftur við þessu máli.
Og það verði ekki þaggað niður í þetta skipti.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 11.1.2013 kl. 06:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.