Baráttumanni fórnað fyrir samtrygginguna.

 

Páll Vilhjálmsson hefur verið, að öðrum ólöstuðum, ötulasti andstæðingur þess sjónarspils og lyga sem kallað er aðildarviðræður við ESB.  Á öflugu bloggi sínu hefur hann haldið úti beinskeyttri gagnrýni á Evrópusambandið og afhjúpað lygavaðalinn sem einkennir allt ferlið kringum umsókn Íslands að ESB.

Enda hataður mjög af þeim sem þola illa sannleikann.

 

Páli varð á að segja of satt um VinstriGræna og var látinn víkja.

Andstæðingar umsóknarinnar að ESB skulu ekki í eina mínútu láta sér detta í hug að Páll hafi verið látinn segja af sér vegna þess að Smugan var logandi eða á öðrum stöðum þar sem menn með hérahjarta heigulsins safnast saman.

Samtryggingin sem rekur Heimssýn óttaðist að Páll héldi áfram að segja satt.

Að hann segði satt um hina raunverulegu ESB andstöðu Sjálfstæðisflokksins, að fjármagnið sem gerir út Hönnu Birnu og hefur tangarhald á Bjarna, að það vill í ESB, og það er vilji þess sem ræður þegar á reynir, ekki vilji almennra flokksmanna.

Það sást þegar á reyndi í ICEsave deilunni hver ræður í flokknum.

 

Að segja satt má ekki í klúbbi eins og Heimssýn.

Stjórnmál á Íslandi eru að stórum hluta leikrit þar sem flokkar skiptast reglulega á um hlutverk, en við skulum segja að svokallaður "æðri máttur" ráði í raun stefnunni.

Þessi "æðri máttur" er flókið samspil hagsmuna og valdajafnvægis sem við köllum dagsdaglega samtryggingu, eða samtryggingu fjórflokksins, eða "þjóðin ræður engu" þegar við erum í fýlu.

 

Það var þessi samtrygging sem rak Pál.  Því límið sem heldur henni saman er einn fyrir alla, og allir fyrir einn, hún stendur saman þegar að einum er vegið á annan hátt en þann sem er leyfður og er partur af leikritinu mikla sem leikið er daglega við Austurvöll.

Henni er líka mjög illa við sannleikann því sannleikurinn um hana rúmast illa innan þess sem við skilgreinum lýðræði.

Og að segja satt er meira guðlast en ef biskupinn færi með faðirvorið afturábak.

 

Sannleikurinn er nefnilega sá að það eru allir flokkar sáttir við þetta ferli.  

Það er mjög gott fyrir fjórflokkinn að hafa ESB umræðuna í svona limbói.  

Samfylkingin veit eins og er að ástandið er ekki mjög gott í Evrópu og krafan um skilyrðislausa aðild að sambandinu er ekki líkleg leið til að komast að kjötkötlum valdsins.  

Bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn vilja ekki uppgjör um ESB, málið er það tilfinningaþrungið að það er ekki víst að flokkslímið héldi saman.  Flokkseigendurnir eru ekki öruggir um að þeir geti kúgað hinn almenna flokksmann til hlýðni.  

 

Það er betra að þreyta almenning, ala hann á blekkingum og lygum, setja upp leikrit, með eða á móti, og á meðan aðlaga þjóðfélagið hægt og hljótt ESB þar til einn daginn er það aðeins formsatriði að staðfesta endalok sjálfstæðisins, og endalok lýðræðisins á Íslandi.

Þennan sannleik óttast samtryggingin.  

 

Hún veit eins og er að hún er örugg þó á hann sé bent á bloggsíðum eins og þessari, en það gæti gilt annað ef Páll tæki af skarið og segði satt um fleiri flokka en VinstriGræna.

Ef Páll benti á að það væru aðeins tveir utangarðsflokkar sem væru einarðlega á móti ESB, Samstaða og HægriGrænir.  Flokkar sem eru um það bil með eitt prósent fylgi.  

Hin raunverulega ESB andstaða í Íslandi er ekki stærri, sem útskýrir af hverju það er verið í dag að innlima landið í áföngum í ESB.

 

Hinsvegar er blekkingin um meinta andstöðu fjórflokksins við aðild að Evrópusambandinu það  vel útfærð og fólk almennt á Íslandi það auðtrúa að sannleikur bítur ekki á það ef hann fer gegn stefnu foringjanna, að skynsamur maður eins og Páll hefði aldrei hætt stöðu sinni fyrir sannleikann.

En hann vanmat tryggðina sem ríkir innan samtryggingarinnar.

VinstriGrænir eru svo aumir því leikritið krafðist að þeir sviku sín helgustu vé.  Þeir mega við svo litlu greyin, að núa þeim svikin um nasir er líkt og að stela sælgæti af barni sem er alið upp að rétthugsandi foreldrum, sem náttúrlega enginn gerir sem sér sælusvipinn á saklausa barninu.

Það var hinn sári grátur þeirra sem hinir fulltrúar fjórflokksins innan Heimssýnar höfðu ekki hjarta í að hlusta á.

 

Lærdómur þessa farsa er því sá að þú mátt segja satt, það trúir þér enginn hvort sem er, en þú mátt ekki stela sælgæti frá barni rétthugsandi foreldra sem gefa aðeins mandarínu í skóinn.

Og þú mátt ekki græta ESB svikarana í röðum VinstriGrænna.  Innri líðan þeirra er nógu slæm fyrir.

 

Þetta er svo mikilvægt að það þjónar málstað Heimssýnar mun betur að hafa gufu sem framkvæmdarstjóra og bloggsíðu sem örfáar hræður lesa.  

Heldur en að láta Pál skrifa svo eftir verður tekið.

 

Enda andstaðan aðeins í nösunum á þessu fólki.  Hún er eins og baráttan gegn fátækt, fólk vill vel en það veit innst inni að það mun aldrei gera það sem máli skiptir, að takast raunverulega á við hana því þá þarf að skerða eitt hár á ríkum manni og það gengur náttúrulega ekki.

Ekki frekar en það gengur að ganga gegn valdinu sem öllu ræður.

Það vill inn.

 

Og Ísland mun fara inn.

Það má bara ekki segja það.

Kveðja að austan.

 

 

 

 


mbl.is Hættur störfum hjá Heimssýn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú ert alltof svartsýnn Ómar.

Vissulega eru gufur í Heimsýn, eins og víðast hvar í þjóðfélaginu í dag, sem hræðast stimpilvél pólítískra hreintrúarmanna, ofstækisliðsins sem tröllríður miðlum eins og Daglegum Viðbjóði og Eyjunni.

Það er eitt, hitt er rótgróin andstaða þjóðarinnar við ESB, alveg eins og í Noregi. Þar hefur elítunni ekki tekist að heilaþvo þjóðina. Reyndar tekist svo illa upp í áróðrinum borguðum með Brusselgulli, að samtök ESB innlimunarsinna hafa verið lögð niður með manni og mús. Sem sagt, einum manni og einni mús, fleiri voru víst ekki eftir.

Bjarni þjáist af lífsreynsluskorti, en mig grunar að hann sé að læra. Sennilega hefur hann panikerað við hrunið, og hræðst framtíðina án ESB. Meðalgreindur maður hlýtur að hafa áttað sig á, að Íslandi hefur vegnað betur utan ESB, en ESB þjóðunum, sem hrynja hver á fætur annarri. Og Bjarni er meira en meðalgreindur. Eftir því sem vikurnar líða, verð ég vissari á því að hann sé heppilegri formaður en Hanna Birna, sem virðist hafa dottið í meðalmennskupott pólitískrar rétttrúar, þar sem enginn á að segja neitt sem gæti stuðað einhvern. Útgáfa af "samræðupólitík".

Vonandi að frammámenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar séu meiri menn en svo, að láta óaldalýð á blogginu hræða sig frá því að gera það sem er rétt, það er, að fylgja þjóðinni. Góður foringi leiðir þjóðina þangað sem hún vill fara.

Og vonandi hugsa þeir um arfleiðina, betra að hafa lifað og verið afgerandi, en að hljóta örlög Steingríms og Jóhönnu, að vera fyrirlitin, svona rétt áður en þau hverfa hljóðlega inn framtíðina, þar sem enginn man eftir þeim, og enginn saknar.

Og Páll Vilhjálms, hann á eftir að spjara sig.

Hilmar (IP-tala skráð) 12.12.2012 kl. 09:16

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Hilmar.

Staðreyndir koma bjartsýni eða svartsýni ekkert við, þær lýsa aðeins því sem er, sem aftur getur verið misbjart eða svart.

Það vottar ekki fyrir því að ég hafi áhyggjur af ESB aðild því ESB er að hrynja innan frá.  Það er stutt í að það verði barist á götum Evrópu.

Þó ungt fólk sé almennt tómt í dag, telur lífið vera Ipad og tíska, og hrífst þess vegna af Gnörrum allra landa, þá er það genetískt úr sama efni og áar þeirra.  

Og sjálfsbjargarhvötin er innbyggði í genin og því mun það vakna af dvalanum og verjast og berjast. Um allan hinn vestræna heim þar sem því er ætlað eymd og örbirgð svo hinir ofurríku verði stjarnfræðilega ríkir.

Það mun ekki sætta sig við hið nýja lénskerfi, lénskerfi fjármagnsins.

Þess vegna mun Ísland ekki enda í ESB, en það breytir því ekki að það er verið að innlima það hægt og hljótt í sambandið í dag, með fullu samþykki allra flokka á Alþingi.

Svo einfalt er það, óþarfi að deila um það, það er ósiður að rífast við staðreyndir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.12.2012 kl. 09:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.4.): 12
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 1863
  • Frá upphafi: 1438595

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 1569
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband