Er öruggt að Ólafur Ragnar muni samþykkja stjórnsýsluspillinguna???

 

Það er ljóst að ríkisfjármögnun Vaðlaheiðarganga er stjórnsýsluspilling af verstu gerð.  

Hún brýtur gegn lögum um ríkisábyrgð, hún sniðgengur stjórnsýslureglur um samgönguframkvæmdir, allur málatilbúnaður byggist á lygi, forsendurnar um meinta arðsemi ganganna  eru falsaðar. 

Í dag er leitun á svo gjörspilltu ríki sem myndi láta svona verklag viðgangast.  

 

Framboð Ólafs byggist á þeirri forsendu að hann er verndari íslenska lýðveldisins.  Og þá gegn gerræði framkvæmdarvaldsins eða löggjafans.  

 

Það er ljóst að Vaðlaheiðargöng brjóta grundavallarsáttmála íbúa Fjarðabyggðar við íslenska stjórnskipan.  Þeir borga sína skatta og skyldur langt um fram það sem þeir fá til baka frá fjárveitingarvaldinu.  Þessi umframskattur borgar upp Norðfjarðagöng á örfáum árum.  

Norðfjarðargöng er því ekki ölmusa, heldur eitthvað sem fólk og fyrirtæki sveitarfélagsins greiða fyrir beint með sköttum sínum.  

Sveitarfélagið er mikilvægasta sveitarfélag landsins í öflun gjaldeyristekna, og þá ekki miðað við höfðatölu heldur sem hlutfall af heild, eða á bilinu 25-28% af heildarútflutningi landsmanna koma úr Fjarðabyggð.  

Ákvörun Alþingis um að svína Vaðlaheiðargöngum fram yfir hina lífsnauðsynlegu Norðfjarðargöng er því ekki aðeins spilling á hæsta stigi, hún er líka heimskari en það sem heimskast er.  Hún er aðför að samfélagi sem er ein af gullgæsum hagkerfisins.  

 

Og hún er siðblind.  Eftir rútuslysið þar sem lánið bjargaði 11 manns frá hinu alvarlegasta, þá er ljóst að fjallvegur í um 600 metra hæð er ekki boðlegur fólki sem þarf daglega að komast milli byggða til að stunda atvinnu sína eða sækja sér aðra grunnþjónustu nútímasamfélags.  

Fólk sem setur mannslíf skör lægra en atkvæðasnap í stóru byggðarlagi er það lægsta og ómerkilegasta sem þrifist getur í mannlegu samfélagi.  

Það brýtur á grundvallarréttindum borgaranna og er algjörlega óhæft til að stjórna þessu landi.  

 

Ef Ólafur Ragnar Grímsson undirritar siðspillinguna þá er hann samsekur og í engu betri en fólkið sem hann sagðist ætla vernda þjóðina fyrir.  

Kosningabarátta hans er þá froða þess sem vill völd og segir þau fallegu orð sem hann telur að þurfi til að verða kosinn.  En meinar ekkert með þeim.

Er umbúðir án innihalds.  

 

Það er ekki oft að manneskja fær þá grundvallarspurningu til úrskurðar hvort það þekki rétta breytni og breyti rétt.  

Íslenska þjóðin er dofin og er ófær um svara svona grundvallarspurningu.  Hún kyngir því öllu og lætur sig litlu varða ef valdið níðist á náunganum í næsta húsi.  Á meðan hver og einn er ekki sjálfur ofsóttur eða sætir valdníðslu, þá yptir hann aðeins öxlum eða finnur sér sandhrúgu til að stinga höfðinu í. 

"Öldungar" þjóðarinnar brugðust í ICEsave málinu og þeir munu líka bregðast í þessu máli.  Þeir hafa ekki kjark til að rugga bátnum og standa á móti valdinu.  

 

En Ólafur Ragnar reis upp á ögurstundu þjóðarinnar og gerði þá það sem rétt var.  

Mun hann gera slíkt hið sama núna???

Málið sem slíkt er ekki stórt, en það snertir sjálfa tilveru þjóðarinnar.  

Og af því mun hann verða dæmdur.  

 

Bæjarstjóri Fjarðabyggðar orðaði kjarna þess vanda sem Ólafur stendur frammi fyrir.  "Það er ekki spurning um hvort, heldur hvenær alvarlegt slys verður".

Sem þýðir á mannamáli að ef alvarlegt slys verður á meðan Vaðlaheiðargöng stytta aksturinn til Akureyrar nettó um 3-5 mínútur, og Norðfjarðargöng ennþá í bið, þá er Alþingi Íslendinga og forsetinn sem undirritaði stjórnsýsluspillinguna, sekt um manndráp, og það ekki að gáleysi.  

Eina löggilta afsökunin í að ráðast ekki í Norðfjarðargöng er peningaskortur, og það er þannig að margar dauðagildrunnar eru látnar viðgangast vegna þess að ekki er til peningur að bæta úr þeim.  

En þegar það er til peningur í jarðgöng, þá hafa menn enga afsökun ef þeir nýta viðkomandi pening í atkvæðasnap en láta hina lífsnauðsynlegu framkvæmd sitja á hakanum.  

Það er siðblinda málsins og þegar við bætist brot á lögum um ríkisábyrgðarsjóð, bein aðför að réttri stjórnsýslu, lygar og blekkingar málsins, þá er ljóst að siðað fólk, siðuð þjóð getur ekki látið hina gjörspilltu komast enn einu sinni upp með athæfi sitt.  

Þeim ber skylda til að aðstoða náungann í neyð.

Annars eru þeir ekki fólk, annars eru þeir ekki ærleg manneskja.  

 

Þess vegna spyr ég, er öruggt að Ólafur Ragnar muni undirrita lög hinna gjörspilltu?????

Allavega veit ég að Dorrit myndi ekki gera það.  

 

En er hún sú eina á Íslandi sem þekkir muninn á réttu og röngu????

Hvar eru þið hin???

Kveðja að austan.

 

 

 


mbl.is Ekki þörf á að bjóða Vaðlaheiðargöng út aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Ómar. Takk fyrir þennan frábæra pistil, sem er mjög þörf áminning fyrir okkur öll, til að skapa réttlátt og siðað samfélag.

M.b.kv. 

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 16.6.2012 kl. 12:38

2 identicon

Þetta mál sannar nauðsyn þess að gera 'Island að einu kjördæmi.Ef þetta er ekki kjördæmapot þá veit ég ekki hvað það er

Sigurbjörn Kjartansson (IP-tala skráð) 16.6.2012 kl. 16:49

3 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Sigurbjörn. Ég er sammála þér í að landið þurfi að vera eitt kjördæmi, og hef verið lengi. Þetta land er of lítið og fámennt, til að annað geti gengið, eins og áratuga-reynsla hefur sýnt og sannað.

Og eina færa leiðin er að sekta þá ráðherra og þingmenn sem ekki virða stjórnarskrána, siðferðið og réttlætið, og að þeir verði skilyrðislaust að segja af sér, ef þeir hafa ekki siðferðisvit til að virða stjórnarskrána. Í dag er það látið viðgangast án athugasemda frá yfirvöldum (hvar sem þau er nú að finna), að kosningaloforð, eiðsvarin sannfæringar-trúmennska og stjórnarskráin eru þverbrotin og vanvirt.

Sumir (og greinilega of margir fyrir lýðræðis-þolmörk), eru gerðir út af spillingaröflunum, og með eigin siðblindu-samþykki, til að brjóta helstu kosningaloforð og stjórnarskrána, og láta sér það engu varða þótt þeir séu að mismuna landsmönnum, svíkja kjósendur og brjóta æðstu lög og stjórnsýsluskyldu landsins.

Svo er ætlast til að almenningur fari eftir lögum! Þvílík siðblinda og glæpastjórnsýsla!!!

Það er ekki undarlegt að maður velti fyrir sér til hvers landslög og ný stjórnarskrá eiga að vera, þegar ekki þarf að fara eftir þessu, að því er virðist, marklausa minnisblaða-bulli sem verið er að viðra á hátíðisdögum? Hverjar verða afleiðingar slíkrar siðblindu í samfélaginu?

Hefur fólk ekki fylgst með réttarhöldunum í Noregi? 

Hvað er verið að biðja um með svona lögbrota-stjórnsýslu, og er fólk tilbúið að taka þannig afleiðingum? Eða vantar bókstaflega allt í siðferðis og ábyrgðar-part heilabúa og hjarta þeirra sem ráða! Verði þeim að góðu, þegar afleiðingarnar koma skýrar í ljós!

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Og það eru manneskjurnar og heilsa þeirra sem eru raunverulegu verðmætin í lífinu. Og ekki bara nánir ættingjar og vinir háttsettra siðblindra manna, heldur heildin. Við þurfum enga stjórnsýslu, ef þetta er ekki virt.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 16.6.2012 kl. 19:32

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Takk fyrir góðann pistil, Ómar. Það mætti vissulega leggja þessa spurningu fyrir alla frambjóðendur til embættis forseta.

Þetta er röng hugsun hjá þér Sigurbjörn, eitt kjördæmi mun ekki útrýma kjördæmapoti. Það mun einungis færast til, til þess svæðis sem flest atkvæðin hefur. Þú veist væntanlega hvaða svæði það er á Íslandi.

Kjördæmapot er spilling og ekkert annað orð hægt að nota yfir það. Hvort kjördæmin eru sex eða eitt breytir engu þar um, potið mun bara færast til og leita uppi atkvæðin. Eina leiðin til að útrýma kjördæmapoti er að úthýsa þeim þingmönnum sem slíkt stunda og það er gert í alþingiskosningum. Því miður virðist staðan nú vera sú að endurnýja þurfi nær flesta þingmenn, en það verður þá bara að vera svo. Það er lágt gjald til að koma á heilbrigðara Alþingi og um leið heilbrigðara þjóðlífi!

Gunnar Heiðarsson, 16.6.2012 kl. 19:39

5 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Gunnar. Hvernig geta kosninga tryggt eitthvað skárra, þegar horft er til kosningaloforða-svikanna hjá öllum flokkum? Lýðveldið á Íslandi er ekki í gildi lengur, eftir mínum skilningi á orðinu lýðveldi.

Ef siðferðis-hugsun fær aðgang að stjórnsýslunni, þá er von, en ekki fyrr.

Og hvernig á að mæla siðferðið, og byggja það upp, þegar stjórnsýslan í heild sinni og ríkisfjölmiðlarnir brjóta siðferði og landslögin endalaust?

Pólitískt einkavina-hagsmuna-bull gengur ekki lengur, og það ættu landsmenn að vera búnir að læra. Eða þurfa þeir annað bankarán til að læra það? Og hvernig mun slíkt fara með réttlætiskennd og heilsu almennings? Hefur það verið tekið með í hagfræði-reikninginn? Og hver ætlar að borga þann reikning, sem tekur heilsu, líf og siðaða mannréttinda-tilveru af fólki?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 16.6.2012 kl. 20:04

6 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er satt hjá þér Anna, lýðræðið á vissulega undir högg að sækja. Spilling stjórnmálamanna, siðleysi í stjórnkerfinu og þrælsótti ríkisfjölmiðla við einstaka stjórnmálaflokka er ekki beinlínis umhverfi sem vekja vonir um betri tíð.

En hornsteinn lýðræðisins er atkvæði einstaklingsins. Enn hefur þessum hornstein ekki verið kippt undan okkur, þó vissulega margur stjórnmálamaðurinn hafi smánað hann og einstaka stjórnmálaflokkur vinni að því að gefa hann til Brussel. Þessi hornsteinn lýðræðisins er eina vopn kjósenda. Það er ekkert annað sem við höfum. Með þáttöku í starfi stjórnmálaflokka eða með því að koma skoðunum á framfæri, getum við lagt okkar á vogarskálar réttlætisins. Í kosningum getum við svo hengt þeim sem við teljum að fari óvarlega með vald sitt og beiti því rangt.

Á þessu byggist lýðræðið og á þessum forsendum verðum við að vinna, ef við viljum halda uppi lýðræðinu.

Ég skil vissulega þinn hugsanagang, það er erfitt að sýna sanngirni og fara að lögum þegar stjórnvöld eru frekust í ósanngirninni og lögbrotunum. En um leið og við fetum þeirra veg, erum við engu betri sjálf!

Það horfir vissulega ekki vel núna, þegar stjórnvöld láta hina víðfrægu Exelhegfræði ráða sínum gerðum, þeirri hagfræði sem hér setti allt á haus haustið 2008, þeirri hagfræði sem tekur ekki nokkurt tillit til hinna mannlegu þátta heldur tekur hverri tölu sem heilagri. Þegar stjórnvöld hafa ekki vit né þor til að kasta þessari Exelhagfræði af höndum sér og lætur hana ganga fyrir öllu. Þegar stjórnvöld hafa með öllu gleimt því að þjóðin er fólk en ekki einhverjar tölur á blaði.

En meðan við, þjóðin, fetum ekki sömu leið, meðan enn er til fólk sem trúir á framtíðina, er von. Þá von megum við ekki eyðileggja með því að taka upp sömu vinnubrögð og stór hluti þingmann viðhefur. Þá von megum við heldur ekki eyðileggja með því að vantreysta lýðræðinu og hinum heilaga kosningarétti okkar!

Gunnar Heiðarsson, 16.6.2012 kl. 20:51

7 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ég hef stundum velt fyrir mér þeirri hugsun hvort ekki ætti að breyta hjá okkur kosningalöggjöfinn. Að þeir sem mæta á kjörstað en skila auðu fái sína fulltrúa á Alþingi. Þ.e. að ef t.d. 20% kjósenda mæta á kjörstað og skila auðu, þá fækki einfaldlega þingmönnum um jafn háa prósentu.

Gunnar Heiðarsson, 16.6.2012 kl. 20:56

8 Smámynd: Kolbeinn Pálsson

aðeins spurning um hve margir undirrita bænarskjal um þjóðaratkvæði til forseta.

Kolbeinn Pálsson, 16.6.2012 kl. 22:39

9 Smámynd: Magnús Jónsson

Ómar:Ef manslíf ættu að ráð hvaða vegaframkvæmd væri ráðist í, væri það leiðin R,vík-Selfoss, tvöföldun næstum 60 mans hafa látið lífið á þeim vegarkafla.

Veggöng ætu að fylgja vegaáætlun, það þar að eiða nokkrum hættulegum leiðum með jarðgöngum, fyrst á að vera þín Norðfjarðargöng, svo göng í Arnarfyrði svo eiða megi Hrafnseyrarheiði, svo mega koma göng fyrir Seiðisfjörð, en það eru ekki til peningar fyrir öllu í einu, og það að eyrnamerkja það litla fé sem til er nánast óþörfum Vaðlaheiðargöngum, er slík hneisa að fátt sem alþingi hefur gert kemst nálægt því, settu undirskriftalistann í gang, ég skal skrifa undir.

Magnús Jónsson, 16.6.2012 kl. 23:31

10 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Sæll Ómar Geirsson.  Vel líst mér mál þitt, en alla gát þarf þó að hafa á.  Við höfum bara einn forseta en 64 þing menn, til hvers eru þeir ef forsetin á að gera allt.  Við erum með yfirhangandi Evrópusambandsaðild sem þíðir það að íslendingar verða ekki til nema í sögum eftir hundrað ár.  Ég legg til að fólk hér á síðunni lesi og skilji mál Gunnars Heiðarssonar   

          

Hrólfur Þ Hraundal, 17.6.2012 kl. 09:15

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir innlit og góða umræðu kæra fólk. 

Kjarninn er sá að kerfisbreyting eða stjórnsýslubreyting mun engu breyta í raun nema við náum sátt um ákveðin grunnviðmið. 

Þetta mál með Vaðlaheiðargöng er smátt í aurum en risastórt í siðferðislegum grunni þess sem ærleg manneskja vinnur eftir.  Að virða grundvallarrétt allra, að ná þokkalegri sátt við alla, þar með talið smærri byggðir og aðra sem ná ekki fjölda meirihlutans eða öðru því afli að ná sínum málum fram.  

Og gera eitthvað þegar alvara lífsins kallar á aðgerðir.  

Og þetta snýst ekki um undirskriftir, heldur Ákall sem fólk heyrir og tekur afstöðu til.  Rétt breytni er ferli sem á sér ekkert upphaf, og engan endi.  En dagar uppi ef enginn veitir henni eftirtekt og enginn telji hana þess virði að ræða.  

Hróflur, forsetinn er öryggisventill og á að virka sem slíkur.  Ekki bara gagnvart stórum málunum, heldur líka gagnvart málum þegar réttur fólks er fótum troðinn.  

Ólafur hóf sjálfur máls á þessu, það er hans að standa við orð sín.  Ég væri ekki að hafa fyrir því að skora á hann ef hann væri eins og allir hinir.

En gæti haft rangt fyrir mér.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 17.6.2012 kl. 13:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 20
  • Sl. viku: 449
  • Frá upphafi: 1412811

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 388
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband