Hvenær varð Samfylkingin fávitaflokkur???

 

Það eru ekki boðleg vinnubrögð að leggja til svokallaðar ráðgefandi spurningar í þjóðaratkvæði, hvort sem það er um stjórnarskrá eða fyrirkomulag sorphirðunar á hálendinu.  

Hafi það einhvern sá háttur einhvern tímann verið hafður við úrvinnslu lagafrumvarpa þá aflagðist sá siður 1958 en þá stofnaði Gallup fyrirtæki sem tók af sér að spyrja slíkra spurninga.

 

En þegar það var gert, ef það þá hefur verið gert, þá vissum menn um hvað þeir voru að spyrja þjóð sína. 

Bæði hvað stæði í spurningunum og til hvers átti að nota spurningarnar.

Og menn vissu hvað orðin í spurningunum þýddu, ef men spurðu til dæmis um þjóðareign eða sorphirðun, þá lá það fyrir hvað þessi orð stóðu fyrir.

Annað er hrein markleysa.

 

Hin svokallað þjóðaratkvæðagreiðsla um ráðgjafandi hugmyndir stjórnlagaráðs að drögum að stjórnarskrá er líklegast það bjánalegast sem nokkurt þjóðþing veraldarsögunnar hefur sent frá sér.  Meira að segja rómverska Senatið var gáfulegra þegar það skipaði hestinn hans Nerós ræðismann.  

Jafnvel frumlegustu grínsögur ná ekki að fanga absúrdið á bak við þessa þjóðaratkvæðagreiðslu. 

 

Og það er ekki hægt að verja bullið með neinum rökum.

Og allir með lágmarksskynsemi í kollinum hefðu vit á að þegja.  Líka þeir sem hafa minni en lágmarksskynsemi og líklegast allir sem mældustu yfir höfuð með vott af skynsemi myndu hafa vit á að þegja.

 

En ekki þeir þingmenn sem skipa þingflokk Samfylkingarinnar  í dag.  

Og röksnilldin,  öll hrákasmíðin og allur fáráðurinn í kringum málsmeðferðina er réttlátur með því að það sé verið að koma í veg fyrir ægivald Sjálfstæðisflokksins, sem þá núverandi stjórnarskrá á líklegast að tryggja þeim og því Sjálfstæðisflokkurinn á móti nýrri.

Það er einfaldlega ekki hægt að toppa þessa rökfærslu.

"Við gefumst ekki upp. Við munum halda áfram að vinna að gerð stjórnarskrárinnar í samvinnu og samráði við fólkið í landinu en ekki í bakherbergjum með einhverjum útvöldum. Sjálfstæðismenn stoppa okkur ekki í því,"

 

"og sagði sjálfstæðismenn hrædda við að almenningur fái að láta í ljós álit sitt á málinu. „Með klækjabrögðum hafa þeir komið í veg fyrir, að þeir halda, að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram samhliða forsetakosningum í júní,“ sagði Helgi og hvatti þingið til að leita leið til þess að atkvæðagreiðslan geti farið fram samhliða forsetakosningum, þrátt fyrir núverandi lagaákvæði um að slíkt sé ekki heimilt þannig að sjálfstæðismönnum takist ekki ætlunarverk sitt."

 

Það þarf  sérstaka tegund af heimsku að láta svona út úr sér.  Og heimskan felst ekki bara í að bulla svona, heldur telur hún líka að kjósendur Samfylkingarinnar falli fyrir svona rugli.

Að Samfylkingin sé orðinn fávitaflokkur.

 

Kannski veit þetta fólk hvað það er að segja, en ég held samt ekki. 

Samfylkingin er ekki fávitaflokkur en hún er óheppin með þingmenn.

Kveðja að austan.

 

 

 


mbl.is „Við gefumst ekki upp“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvenær varð Samfylkingin fávitaflokkur??? Þegar hún var stofnuð!

Aldís Ástvaldsdóttir (IP-tala skráð) 30.3.2012 kl. 01:28

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég er ekki hlynnt sjálfstæðisflokknum og mun aldrei aftur kjósa þann flokk.  En mikið er það aumlegt af ríkisstjórninni að klifa sífellt á því að sjálfstæðisflokkurinn sé að koma í veg fyrir þetta og hitt.  Þetta hrífur upp að vissu marki, svo fer þetta að verða skoplegt og að lokum til að fá fólk hreinlega til að kjósa Flokkinn.

Þau eru svo "úti á túni" eins og Jón Bjarnason sagði um Jóhönnu að það er bæði grátlegt og hlægilegt.  Grátlegt vegna þess að það er verið að ýta fólki að sjálfstæðisflokknum og hlægilegt vegna þess að fólk með smá skynsemi hættir að styðja þessa grátlegu flokka sem mynda ríkisstjórn í dag. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.3.2012 kl. 01:34

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Segi og skrifa.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.3.2012 kl. 01:34

4 identicon

Það má segja stjórnarliðum til hróss, að þeir fóru með ákaflega skemmtilegt tónverk rétt fyrir miðnætti. Það spannaði megnið af tónstíganum, allt frá mjóróma aumingjalegum nöldurtón sumra Samfylkinga, upp í skræki Álfheiðar, sem voru allavega áttund hærri en venjulega. Hápuntur verksins var þegar Jón Gunnarsson tók við tónsprotanum, og stjórnaði öllum þessum veinum í eina allsherjar tónorgíu.

Glæsilegt, ég stóð upp og klappaði í kortér.

Það verður vonlaust að toppa þetta verk.

Næsta mál er því að ríkisstjórnarflokkar Samfylkingar, Hreyfingarinnar (sem er víst enn á ný búin að skipta um kennitölu) og Vg samþykki skoðanakönnun í júlí eða ágúst. Ég kasta fram þeirri hugmynd að hún fari fram á Þjóðhátíð í Eyjum, til að tryggja a.m.k. 10.000 manns taki þátt. Þjóðhátíðarnefnd getur sett það skilyrði, um leið og fólkið kaupir miða á Þjóðhátíð, nauðbeygt ef það vill ferðast til Eyja, að fólk kjósi við síðuna á Herjólfi.

Aukabónus ef þessi ríkisstjórnarkór treður upp á hátíðinni sjálfri, undir traustri stjórn Árna Johnsen.

Sjálfstæðismenn virðast vera einkar lagnir við að draga fram skrækina í þessu liði.

Hilmar (IP-tala skráð) 30.3.2012 kl. 01:51

5 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Öfugt við Ásthildi er ég orðin Sjálfstæðis,, Gamla fólkið mitt yrði ánægt með mig nuna. Hvernig Ómar dregur dám að þessari þjóðaratkvæðagreiðsla um ráðgefandi osfrv. er sprenghlægileg. Það er góð leið,þegar gengur fram af manni,fáir ná líkingum eins vel. Það er vont að vera að atast hvað þá hatast út í menn,en manni finnst nú pínu til liðhlaupanna koma.Vona að gæfan verði okkur hliðholl. Mb.K.v.

Helga Kristjánsdóttir, 30.3.2012 kl. 02:15

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já Helga það er einmitt það sem ég óttast að sjálfstæðisflokkurinn græði á þessri vitleysu allri. því miður. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.3.2012 kl. 02:28

7 Smámynd: Hreinn Sigurðsson

Frábær pistill Ómar. Ég var á þingpöllum og sá þennan skrípaleik í beinni. Jón Gunnarsson var bestur.

Hreinn Sigurðsson, 30.3.2012 kl. 02:45

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hún hefur lengi verið vanvizkuflokkur:

Sjáið bara: Icesave og Esb.-- hennar ær og kýr.

Og vegna 111. landráðagreinarinnar berst hún fyrir þessum stórgölluðu drögum ólöglegs stjórnlagaráðs að stjórnarskrá.

Landráð eru á matseðlinum hjá henni kvölds og morgna, svik og svindl í meðlæti.

Skjaldborgina sér hún bara í sjónvarpinu, nema þegar hún hlynnir að útrásarliðinu.

PS. Já, Jón Gunnarsson var ágætur. Sigmundur Davíð var frábær á 4. tímanum, Gunnar Bragi Sveinsson fínn og málefnalegur, Bjarni Ben. öflugur og traustur í þessu, Ragnheiður Elín ágæt, Vigdís Hauks góð, Össur fáránlegur, Ólöf Nordal góð, Guðlaugur Þór afar fínn, Ásmundur Einar Daðason algerlega frábær, Lúðvík Geirsson skaut sig í fótinn, Helgi Hjörvar ósvífinn, Kristján Þór hægur, Þorgerður Katrín náði mér ekki, var auk þess að blanda sínu Eessbéi inn í þetta.

Ég horfði á þau í fjóra og háfan tíma af þingpöllunum í dag og í kvöld. Gasalegt ástand á þessu Samfylkingarliði, bara út úr öllum fókus frá A til Ö.

Blessaður, vinur.

Jón Valur Jensson, 30.3.2012 kl. 03:01

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Auk þess sem siðavandarinn Magnús Norðdahl er algerlega óþolandi á svæðinu.

Jón Valur Jensson, 30.3.2012 kl. 03:05

10 Smámynd: Sólbjörg

Endurtekið finnst stjórnarliðum á Íslandi ekkert að því að virða lög að vettugi og áfram skal haldið á sömu braut þó nýgenginn sé enn einn dómur um lögbrot ríkistjórnarinnar, þ.e. gengismálið og stjórnlagaþingsdómurinn. Kommúnisminn er kominn svo langt á veg hér að kinnroðalaust yfirlýsir Helgi Hjörvar á alþingi Íslendinga að reynt verði að finna leið til að brjóta lög. Hæstiréttur Íslands hefur staðfest að stjórnin er þegar margfaldur lögbrjótur en stjórnin heldur þjóðinni samt í gíslingu og neitar að fara frá völdum. Því má með réttu segja að þau eru ekkert annað "glæpagengi".

Sólbjörg, 30.3.2012 kl. 06:33

11 Smámynd: Óskar Guðmundsson

Einhvernvegin fór þetta stórkostlega lögbrot (skjalafalsa) framhjá mér þegar var verið að ræða Stjórnlagaráð.

Lítið dæmi: Í skýrslu yfirkjörstjórnarmanns í Reykjavík um það hvernig staðið var að „talningu“ atkvæða segir meðal annars: 

„Sumt innsláttarfólkið stundaði „skapandi“ úrlestur, giskaði á tölur, og breytti jafnvel svo passaði við frambjóðanda. Fyrir kom að eingöngu síðasta tala var „misskráð“ hjá kjósanda og tók innsláttarfólkið sér þá stundum vald til að setja inn „rétta“ tölu.“

(tekið af andriki.is)

Sé þetta raunin er kosningin ekki aðeins ólögmæt heldur skipun Jóhönnu á 25 "efstu" hreinlega orðið hennar gisk.

Óskar Guðmundsson, 30.3.2012 kl. 07:24

12 identicon

Verð að segja að ég er ekki alveg með á nótunum um hver tilgangurinn er með þessum stöðugu uppákomum hjá ríkisstjórnarflokkunum í öllum stærri málum.

Er það einhver minnimáttarkend og því stöðugt verið að reyna að sannfæra fólk um hvað þeir séu klárir stjórnmálamenn og miklir klækjarefir, ef svo er þá endar það alltaf með að þeir standa eftir með buxurnar fullar og báða fætur sundurskotna.

Að horfa á þingmenn Samfylkingarinnar, fullorðið fólk, fara hvert á fætur öðru í ræðustól og gyrða gjörsamlega niður um sig vitrænt er orðið óþægilegt og pínlegt. Sumt af þessu fólki hagar sér eins og að það sé á málfundi í menntaskóla og eru gæðin eftir því.

Sveinn Úlfarsson (IP-tala skráð) 30.3.2012 kl. 09:14

13 identicon

Ég er þakklát Sjálfstæðismönnum fyrir að móast við vitleysunni í þessari vælandi samfylkingu. Þetta sýndarplagg sem allt havaríið snerist um hefur ekkert upp á sig nema þau geti sagt að EITTHVAÐ hafi farið í þjóðaratkvæðagreiðslu - fyrir utan einhverjar restar af ESB þrá.

Það má líka benda þeim á sem tala um að það sé hagstæðara að láta kosningu um þessar aumu tillögur fljóta með forsetakosningunum að þessa dagana er verið að endurnýja alla ráðherrabílina. Áherslunar hjá þessari ríkisstjórn eru náttúrulega bara brandari.

Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 30.3.2012 kl. 12:46

14 identicon

Forgangsröðun ríkisstjórnar S/VG er án tengsla við veruleikann.  Hér er raun-atvinnuleysi 12-15%, hér blæðir heimilum út vegna stökkbreyttra og verðtryggðra okur-lána, hér hafa banka-glæpamenn verið endurreistir af Steingrími og Jóhönnu til að ræna almenning, miskunnarlaust.  Hér ríkir algjört skeytingarleysi um hina almennu borgara þessa lands, fjölskyldur og smáfyrirtæki.  Það eina sem blómstrar er eftirlitsiðnaður hins opinbera, sem allt lifandi vill drepa.  

En varðandi þetta stjórnlagaráðs-mál tek ég undir þessi orð Lilju Mósesdóttur á heimasíðu hennar, liljam.is, sem enn eina ferðina tjáir hlutina eins og þeir eru, umbúða- og vafningalaust:  

"Vinnubrögðin á Alþingi eru ástæða þess að traust almennings á því fer þverrandi. Ég studdi ráðgjafandi þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá. Spurningar meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar voru hins vegar ekki nógu vel unnar, fóru ekki til umsagnar hjá sérfræðingum og valdar með hagsmuni stjórnarflokkana að leiðarljósi án samráðs við stjórnarandstöðuna.

Það mátti t.d. ekki kanna hvort kjósendur samþykki að geta hvorki krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né um lög sem varða skattamál. Mikilvægt er að kjósendur geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um þjóðréttarskuldbindingar sem tengast nýtingu hugsanlegra olíuauðlinda og (Icesave) samninga sem leggja þungar byrðar á skattgreiðendur."

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 30.3.2012 kl. 13:17

15 identicon

Og hvað verklegar framkvæmdir varðar er það eina sem þessu liði dettur í hug er að byggja eitt rán-dýrt, ofur-hátækni sjúkrahús við Hringbraut fábjánanna, sem virkismúra utan um 101, boðið út á sameiginlega evrópska efnahagssvæðinu.  Á sama tíma og sjúkra- og heilbrigðisþjónusta landsmanna allra er skorin blóðugt niður.  Já, þetta eru fávitar, skinhelgir fávitar!

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 30.3.2012 kl. 13:36

16 identicon

Þetta helvíti gengur ekki lengur!

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 30.3.2012 kl. 13:40

17 identicon

Samspillingarikisstjórn nýfrjálshyggjukratanna og WC er klúður.  Til að breyða yfir klúðrið og slá ryk í augun á fólki þá er staglast á að þetta sé allt Sjálfstæðisflokknum að kenna og stundum fær Framsóknarflokkurinn að fylgja Sjálfstæðisflokknum á "sakamannabekkinn".

Hver vann mest í því að koma EES reglugerðum inn í kerfið okkar sem leiddi til allrar þessarar einkavæðingar á s.s. bönkum, símanum og orkufyrirtækjum? - (Forveri Samspillingarinnar) Alþýðuflokkurinn undir forystu Jóns Baldvins Hannibalssonar.  Hverjir börðust gegn fjölmiðlafrumvarpinu á sínum tíma, sem hefði stoppað samsöfnun fjölmiðla á eina hendi með tilheyrandi "ritsjórn"?  Var þá talað um málþóf á Alþingi?  Hverjir börðust fyrir því að Jón Ásgeir Jóhannesson, einn af mestu áhrifavöldunum í hruninu væri tekin til rannsóknar á sínum tíma?  Munið þið eftir Borganesræðunni svo kallaðri?  Þá var fjölmiðlum "sigað" á þáverandi forsætisráðherra.  Hverjir vildu skuldsetja þjóðina fyrir ólöglegri Icesave-kröfu, sem var kolfelt í þjóðaratkvæðisgreiðslu?  Hverjir klúðruðu kosningunni til stjórnlagaþings?  Ef þeir gátu klúðrað þeim kosningum þá má velta fyrir sér hvernig öðrum kosningum verður klúðrað.  Hverjir hafa endureinkavætt bankanna á þann hátt að núna veit enginn hver á þá?  Við vissum þó hverjir áttu bankana fyrir hrun.  Er þetta gegnsæið sem okkur var lofað?  Hvað varð um sk-g-jaldborg heimilanna?  Hverjir róa öllum árum til að koma landinu undir ríkjasamband Evrópu og eyða í það mannskap, starfsorku og tíma og fjármunum sem þjóðinni bráðliggur á að nota í annað þarfara?

Verður svarið við ofangreindum spurningum og vangaveltum alltaf - Þetta er allt Sjálfstæðismönnum að kenna?  Viljið þið fá Sjálfstæðisflokkinn aftur í stjórn?

Það er þó hægt að þakka núverandi ríkisstjórn fyrir eitt, hún auðveldar manni mjög hvað verður valið í næstu alþingiskosningum.

Jóhannes (IP-tala skráð) 30.3.2012 kl. 14:31

18 identicon

"Mikilvægt er að kjósendur geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um þjóðréttarskuldbindingar sem tengast nýtingu hugsanlegra olíuauðlinda og (Icesave) samninga sem leggja þungar byrðar á skattgreiðendur."

Nei, það vill ekki Samfylkingin með makker Björgólfs Thor, lepps Deutsche Bank, stjórnlagaráðsmanninn Vilhjálm Þorsteinsson sem gjaldkera og stjórnarformann sýndarveruleikans í EC-CCP.

Nei, það þjónar ekki sérhagsmunum spunadindlanna sem tóku skortstöðu gegn krónunni til að ráðast gegn lögeyri almennings þessa lands. 

Nei, þegar nánar er gáð að, þá eru þetta ekki fávitar, heldur skinhelgir andskotar alls almennings þessa lands!  Þetta eru þeir leppar og skreppar, sem Ómar Geirsson hefur lengi bent okkur á og hverra erinda þeir ganga, þeirra eigin siðspilltu sérhagsmuna undir pilsfaldi Jóhönnu, sem kosin var rússneskri kosningu sem formaður þessa hræsnisfulla tossabandalags.

Þetta helvíti gengur ekki lengur! 

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 30.3.2012 kl. 15:21

19 Smámynd: Elle_

Og að hlusta á þann sorglega hóp fólks í flokki Jóhönnu tala um lýðræði.  Lýðræði hvað?  Hvar var lýðræði þeirra í Brussel-umsókninni óleyfilegu og ICESAVE1 + 2 + 3??  Og Valgerður var aumkunarverð lýsandi lýðræðisvilja þeirra sjálfra og málþófi þeirra sem komu í veg fyrir ruglið. 

Jæja, þarna var ég sátt við Sjálfstæðisflokkinn, verð að játa það.  Málþóf eða ekki málþóf.  Það má nota til að koma í veg fyrir fullveldisafsal sem er vissulega ætlunin með óleyfistjórnarhópi Jóhönnu og co. gegn dómi Hæstaréttar. 

Elle_, 30.3.2012 kl. 15:59

20 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Þú ert þá að segja að það eigi ekki að hafa fólk með í ráðum þegar að stjórnarskrá sé samin. Þ.e. Alþingi þurif ekki að vita vilja þjóðarinnar gangavart því m.a. hvort að auðlindir eigi ævaranlega að vera í eigu þjóðarinnar þ.e. þær sem ekki eru í einkaeign. Það á kannski að vera bara opið og ríkinu heimilt að selja t.d. búta úr jöklum eða annað ef þeim svo þykir.  Eða að Alþingi eigi að kanna hvort að þjóin vill  hafa hér Ríkiskirkju. og svo framvegis. 

Þú ert semsagt á því að aðferð sem Sjálfstæðisflokkurinn boðaði í fyrradag að þeir séu að semja tillögu að stjórnarskrá sjálfir sé það sem er best.  Þú ert kannski eins og Þrándur í þessu myndbandi. 

Magnús Helgi Björgvinsson, 30.3.2012 kl. 16:41

22 Smámynd: Ómar Geirsson

Bingó, ég ætlaði að fara að segja að loksins hefði ég rétt fyrir mér, að ég setti fram fullyrðingu sem engin vafi lægi á.  En þá er það spurning um hvort undantekningin sanni regluna.

Magnús, hvar finnur þú stafkrók í þessum pistli mínum um að ég hafi eitthvað á móti endurskoðun stjórnarskráarinnar????  Ég viðurkenni að ég samdi hann seint í gærkveldi eða eiginlega í byrjun nætur, vegna þess að ég var langt fram á kvöld að brýna bora til jarðgangnagerðar með úrvalsfólki, hversdagshetjunum, og var því kannski syfjaður og syfjaðir menn geta talað Vaðlvísku, meint öfuga merkingu orða sinna, en ég las pistil minn yfir áðan og þrátt fyrir einstaka innsláttarvillur vegna þess að ég nennti ekki að lesa pistilinn  yfir í nótt, þá kom ég meiningu minni alveg frá mér óbrenglaðri.

Og sagði ekki styggðaryrði um vilja fólks til að nútímavæða stjórnarskrána.

Þannig að??????

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.3.2012 kl. 16:53

23 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Stundum held ég að fólk lesi hlutina eins og þeir vilja hafa þá, en ekki endilega það sem þar stendur.  Það er ótrúlega oft sem fólk annað hvort skilur ekki eða les vitlaust í það sem ritað er.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.3.2012 kl. 17:00

24 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk annars fyrir innlitið kæra fólki og ykkar ágætu innslög.

Vill samt grípa tækifærið og minna á að það er auðvelt að festast í gagnrýninni og þá um leið yfirsjást hið góða sem í kringum okkur gerist.

Já, ég veit að það þarf nákvæm leitartæki til að finna eitthvað gott frá stjórnvöldum okkar þessi árin, en þau eru samt aðeins dragbítur á okkar góða þjóðfélagi.  Grunnvandinn liggur í því að fólk sameinast ekki um að reka ræningjana af höndum sér.  

En það eru sprotar sem eru að gróa út um allt.  Og þá þarf að styðja. 

Hér fyrir austan brýna menn bora og vilja hefja jarðgangnagerð öllu mannlífi til heilla.  Hið sama þarf fólk í öðrum byggðarlögum að gera.  Við þurfum að að styðja hvort annað og þó málið varði okkur ekki beint þá er hugarfar gróskunnar, hugarfarið sem mun rífa Ísland upp á lappirnar á ný.

Ef við erum á móti ruglinu þá er engin betri  leið til að sanna slíkt en sú að við styðjum óruglaða baráttu venjulegs fólks fyrir lífshagsmunum byggða sinna.

Á feisinu er áhugahópur um gerð Norðfjarðargangna, hvunndagshetjur sem vill lifa í sátt við guð og góða menn, án þess að drepa sig þegar það ferðast milli byggða.

Eitt læk á þá síðu er eitt læk fyrir framtíð okkar allra.

Því það er aðeins eitt sem óvinurinn eini óttast, það er vakning hins venjulega manns.

Látum lækið verða að læknum sem breytir framtíð okkar allra.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.3.2012 kl. 17:04

25 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Það er kannski ekki langt í það að komið verði fyrir hnappi á hverju heimili, hnappi sem tengdur töflu niður á þingi, eða öllu heldur boxi með þrem hnöppum...þið vitið havð ég er að rugla, er það ekki ?

En jafnlýðræðislegar og þjóðaratkvæðagreiðslur eru, þá má ekki ganga of langt og byrja að nota þær sem skoðanakönnun, skoðanakönnun til að vingulhausar á þingi geti ákveðið sig eftir því hvort þeir muni ná vinsældum eða ekki, þær má aðeins nota þegar öll gögn liggja fyrir, viss meirihluti á þingi búinn að ákveða sig (viss minnihluti einnig auðvitað) í flestum tilfellu þar sem raunverulegt lýðræði ríkir, yrði ekki mikill munur á útkomunni í þessum tveim tilfellum, hvort menn svo skifta um skoðun eftir að hafa séð vilja þjóðarinnar, er annað mál, því þá veit fólk hvar þeir stóðu og hvort um skoðanabreytingu er að ræða.

Nei bara datt þetta svona í hug, er annars ekki vel inn í málinu.

MBKV

KH 

Kristján Hilmarsson, 30.3.2012 kl. 17:45

26 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Já ! er að fara að finna Norðfjarðargöng á FB

kv

KH

Kristján Hilmarsson, 30.3.2012 kl. 17:47

27 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Kristján.

Það er með feisið.  Og mundu eftir lækinu, sbr látum læk verða að læk.

Varðandi pistil minn að ofan þá er aðeins ein og aftur ein ástæða fyrir því að ég skrifaði hann, og það var djúpstæð hneykslun á þeirri orðræðu að mæta málefnalegri gagnrýni með upphrópunum og skrumi.

Og hugsum að þetta sé rétt, að íhaldið vilji ekki umræddar breytingar á stjórnarskránni þá er það á hreinu að ekki er grundvöllur fyrir breytingu.  Stjórnarskráin er akkeri lýðveldisins og henni er ekki breytt eftir geðþótta meirihluta, hvort sem það er agnarsmár meirihluti í anda Ragnars Reykás eða stór meirihluti í anda 98-2.   Eða eitthvað þar á milli.

Ef mönnum ber ekki gæfu til að ná sátt, þá axla menn ábyrgð á því, og breyta ekki.

Annað er til lengri tíma litið, vargöld, skálmöld, vígöld.

Og þeir sem skilja það ekki eru allra síst hæfir til að breyta einu og einu.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.3.2012 kl. 18:06

28 Smámynd: Elle_

Hinn óglæsilegi og ólýðræðislegi flokkur Jóhönnu kallar málefnaleg rök ´málþóf´ ef rökin eru andstæð heimtufrekjunni og yfirganginum í þeim sjálfum.  Þó það væri málþóf og sem það var ekki þarna, væri það ekki lögbrot eða stjórnarskrárbrot sem  Jóhanna og co. eru fagmenn í.

Elle_, 30.3.2012 kl. 18:52

29 Smámynd: Umrenningur

Sæll félagi.

Þú spyrð hvenær samfylkingin varð fávitaflokkur. Þetta flokksskrípi var stofnað 5. Maí 2000 og ég held bara að fávitahátturinn sé hluti af stofnsáttmálanum, þó finnst mér að fávísin hafi aukist með hverjum kosningum því miður. Því miður virðist þetta einnig eiga við aðra ónefnda flokka á þingi og þar af leiðandi Alþingi í heild.

Kveðja að sunnan

Umrenningur, 30.3.2012 kl. 20:00

30 Smámynd: Ómar Geirsson

Já, þetta er ekki félegt Umrenningur góður.  Ég er einn af þeim sem batt vonir við stofnun Samfylkingarinnar en svo fóru grímur að renna á mig.

Flokkurinn virtist svo illa höndla vitræna umræðu, frasar voru honum miklu tamari.

Alþingi á sína góðu punkta en ef það vottaði fyrir reisn þar þá hefði þjóðin losnað við þennan stjórnarskráar sirkus.

En það er þetta með asnann og ESB gullið, er að hugsa að pistla um það í morgunsárið, ef guðsfriðurinn lofar.  

Bið að heilsa á þær slóðir sem þú vafrar um.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.3.2012 kl. 20:05

31 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Elle.

Eiginlega skiptir engu máli lengur hvað Jóhanna segir, hún er algjörlega búin að vera sem stjórnmálamaður.  Og ofsalega fjarar hratt undan Samfylkingunni þessa dagana.

Og hver treystir sér að verja vitleysuna???

Ofsalega fáir fyrir utan ESB gullkálfana.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 30.3.2012 kl. 20:08

32 identicon

Gefum okkur það, umræðunnar vegna að þessi tillaga stjórnlagaráðs fari í svo kallaða ráðgefandi kosningu hjá þjóðinni og að tillaga yrði kolfeld með jafnmiklu hlutfalli og þeir voru sem tóku ekki tóku þátt í að kjósa til stjórnlagaþings (tala nú ekki um sama hlutfall og var í Icesave kosningunum).  Er einhver trygging fyrir því að núverandi stjórnvöld muni fara eftir niðurstöðum kosninganna?  Verður niðurstaðan ekki bara hundsuð, líkt og með dóm Hæstaréttar og einhverjum kennt um?

Jóhannes (IP-tala skráð) 30.3.2012 kl. 23:08

33 Smámynd: Elle_

Jú, Jóhannes, ekki við neinu öðru að búast en að niðurstaðan verði hundsuð meðan ólýðræðislegir valdníðsluflokkar eru við völd.  Og allar niðurstöður. 

Minnug ICESAVE: Þau vildu ekki að við hefðum neitt um það að segja.  Þó var það vel vitað að stór hluti þjóðarinnar harðneitaði að borga kúgunina.

Elle_, 30.3.2012 kl. 23:42

34 Smámynd: Ólafur Björn Ólafsson

Varð að bæta mér við í þessa umræðu...

Því miður er það mín reynsla að Samfylkingin hefur verið frá byrjun fram að þeim tíma sem hann loksins komst til valda að vera skoðanakönnunarbundinn. Þegar ég segi "skoðanakönnunarbundinn" þá meina ég að stefnuskrá flokksins virðist hafa verið að öllu leiti nema einu bundinn við skoðanakannanir.

Eini hlutinn sem ekki var bundinn skoðanakönnunum er ESB hlutinn. Núna hefur þessum flokki hrakað af því að yfirmönnum flokksins þykir sem fólkið í landinu sé ekki þjóðin. Reynsla mín sýnir það enda fjölmargir af félögum mínum flúnir frá þeirri áþján að þurfa að hafa þetta lið ríkjandi hér.

Mér varð það á í dag að segja á fésbókinni að ég hefði betur kosið sjálfstæðisflokkinn frekar enn þann flokk er ég kaus, ég stend við þau orð hér. Ég get hinsvegar lofað ykkur því að aldrei mun ég kjósa samfylkinguna, hvorki nú sem áður. Þessi hópur sem kallar sig "samfylkingu" er ekki hópur sem er mér að skapi enda fóru þeir fram með það sem ég kalla "hentistefnu" en það er stytting á "skoðanakannanastefnu" sem er sú stefna sem samfylkingin stundaði grimmt áður en þeir komust til valda.

Nú í dag vill þessi sami flokkur fara fram með skoðanakönnun en af því þeir eru í ríkisstjórn þá velja þeir um hvað er spurt og hvernig spurningarnar eru orðaðar svo hagstæð niðurstaða fáist. Þetta er lýsing mín á þessum hóp sem ætti að falla undir þetta frumvarp sem komið er fram á þingi þar sem fjallað er um að banna glæpagengi og merki þeirra.

Með kveðju

Kaldi

Ólafur Björn Ólafsson, 31.3.2012 kl. 00:01

35 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Sæll aftur Ómar,enginn bloggari orðar þetta sem þú, með að styðja hvert annað og þetta;",, grunnvandinn er að fólk sameinast ekki um að reka ræningjana af höndum sér"

Þótt allir vildu það,þá er fólk bundið við langan vinnudag,þarf að sinna börnum og heimili þar eftir. Fjölmiðlar eru ekki að hleypa okkar rödd að,þó með einni undantkningu,þegar Frosti Sigurjóns komst að hjá Agli silfursmiði,Frosti var stór góður. Við verðum að styðja andstöðuflokkana á Alþingi,svo gott að þeir snúist ekki,en nú líður að seinasta ári fávitaflokksins.

Tek undir með þér,að hugarfar gróskunnar ,hugarfarið sem mun rífa Ísland upp á lappirnar á ný. Með kveðju úr Kópavogi,sem geymir gamla áþekka sögu um valdníðslu.og í dag.

Helga Kristjánsdóttir, 31.3.2012 kl. 03:33

36 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Jóhannes.

Ég held að ef lögin um þessa þjóðaratkvæðagreiðslu hefði verið samþykkt þá hefði ekki verið hægt að svíkja eða hundsa niðurstöðu hennar.  Og það út af fyrir sig væri sögulegt, eitthvað sem Steingrímur gæti ekki svikið.

En það er mjög einföld ástæða fyrir því, það er ekki hægt að hundsa niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu sem enginn veit um hvað var eða hvernig á að túlka niðurstöðu hennar. 

Meira að segja á slæmum degi var véfréttin í Delfí skýrari en hrákasmíðin sem þjóðinni er boðið uppá.

Og þar sem Steingrímur hefur vissa æru að verja þá held ég að hann geti verið ánægður með þennan greiða Sjálstæðisflokksins.  

Staðreyndin er samt sú að það ætlaðist enginn til þess að þetta frumvarp yrði samþykkt, hugsanlega nafni minn Ragnarsson því hann er hrekklaus, en fáir aðrir.  

Þessi umræða er shjóv og fólk verður að fara að spyrja sig hvað að baki liggur.

Áður en það er orðið of seint og við tölum Brusselísku eftir nokkur ár.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 31.3.2012 kl. 09:52

37 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Ólafur.

Þetta er nú ekki svo slæmt að við vinstra megin við miðju þurfum að kjósa íhaldið, látum íhaldsfólk um það.  

Ég held að lýsing þín sé nokkuð raunsönn, allavega upplifði ég einmitt þetta sem þú kallar "skoðanakönnunarbundinn".  Og hristi oft hausinn því það þarf ekki mikla skynsemi til að vita að sá bílstjóri sem keyrir eftir skoðanakönnunum endar út á túni fastur í einhverri keldunni.

Og þó var Davíð alltaf að segja þeim þetta en þau hlustuðu ekki á hann.  

Ingibjörg var samt alvöruleiðtogi en hún bjó að þessari ógæfu flokksins að geta ekki hafta aðra stefnur en frasa.  Og að láta stjórnast af skoðanakönnunum.

Meira að segja helsta stefnumálið, aðildin af ESB, var gerð að frasa.  Kostirnir voru málaðir eins og að sótt væri um aðild að himnaríki, þá átti allt að verða svo gott og fínt.  En þegar að skoðanakannanir hikstuðu þá einhvern vegin gufaði sú umræða upp.

En í dag þurfum við ekki að hafa áhyggjur af hvað við kjósum Ólafur.  Aðeins tveir valkostir eru í boði, leiðin til lífs eða leiðin til Heljar.

Og að því gefnu að maður þjáist ekki að dauðhvöt, siðblindu eða þeirri forheimsku að trúa að maðurinn lifi á gulli einu saman, þá er augljóst að maður kýs lífið.

Fólk á vissulega eftir að móta valkostinn um lífið, þetta er ennþá dálítið reikult en allt í gerjun og í rétta átt.  

Við erum að uppgötva að deilur fortíðar eru úr sögunni, að við þurfum að sameinast gegn ógnum nútíðar.  Svona var þetta á fjórða áratugnum, illskan náði árangri því fólk var sundrað og reifst um það sem það hafði gaman að rífast um, en þegar það horfðist í augun á ógninni, þá sameinaðist það og braut hana á bak aftur.

Lærdómurinn af þeirri orrahríð er einfaldlega sá að því fyrr sem gripið er inní, því færri láta lífið.  Hefði hinn skynsami maður gripið fyrr inní, þá hefði þessir 80 milljónir sem dóu vegna stríðsins, hugsanlega lifað en þetta hefði líka getað farið verr, aðeins annar aðilinn bjó yfir kjarnorkuvopnum.

Núna vitum við um mátt drápsvopnanna og því ætti hvöt hins skynsama manns að vera sterkari, að hætta að röfla um keisarans skegg og sameinast gegn ógninni.

Ógnin sem blasir við þjóð okkar er sú sama og ógnar öðrum þjóðum.  Og lausnin er sú sama og á fjórða áratugnum, að standa saman og verja sig og sína.

Flóknara er það ekki.

Því vil ég enn og aftur minna á, að gagnrýni án þess að styðja þó þá sem reyna, er gagnrýni án innihalds.

Hér fyrir austan er agnarlítil birtingarmynd þess stríðs sem hinn venjulegi maður háir gagnvart öflum spillingar og ofríkis.

Stuðningur við þennan mann er stuðningur við okkur öll.  Ef barátta hans er of ómerkileg í okkar augum þá er barátta okkar of ómerkileg í augum annarra.

Og sá eini sem græðir er óvinurinn eini.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 31.3.2012 kl. 10:21

38 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessuð Helga.

Það er ekki alveg nóg að styðja andstöðuflokkana á þingi.  Vissulega hamla þeir gegn vitleysunni en við verðum samt að fara að horfa í augun við það að þetta er samt leikrit, allt saman þar sem flokkarnir gegna hver sínu hlutverki.

Og ég skal skýra þetta betur.

Umræðan í dag snýst um sýndarveruleik frasa og beins rugls.  Það er staðreynd sem þú gerir þér grein fyrir og ert mjög gröm út af.  Og þér er ekki einni um að ofbjóða, það lásu yfir 700 manns þessa grein mína, sem var skrifuð vegna þess að mér ofbauð, greinin var samt ekki tengd "heitri" frétt og fékk ekki stuðningspistla ætlaða til að kalla á lestur.

Hún er lesin því fólk hreinlega ofbýður, og það treystir engin skynsemisvera sér til að réttlæta ruglið.

Þú gætir því ímyndað þér Helga hvað þessi umræða myndi lifa lengi, eða réttara sagt í skamman tíma, ef andstöðuflokkarnir á þingi tækju ekki þátt í henni, héldu sig við staðreyndir og rök.  Hvað þá að þeir beittu afli gegn heimskunni með því að kalla hana réttu nöfnum líkt og gert er hér á þessari síðu.

Það er aðeins eins skýring á því og hún blasir við ef fólk aðeins íhugar innihaldið sem leynist innan umbúðirnar.  

Andstöðuflokkarnir eru hluti af leikritinu.  Af hverju??? Jú, þetta leikrit þjónar ákveðnum tilgangi og hann er mjög einfaldur, að tryggja að vissir hlutir gangi eftir og á meðan þeir ganga yfir þá þarf að fanga athygli lýðsins svo hann sameinist ekki gegn þeim skuldaþrældómi sem á hann er lagður í þágu innlendra og fyrst og fremst erlendra fjármagnseiganda.

Andstöðuflokkarnir eru hluti af kerfinu og fjármagnið á kerfið.

Það er aðeins tilviljun hvaða hlutverk einstakur fjórflokkur gegnir,, leikritið væri alveg það sama þó núverandi stjórnarflokkar væru í stjórnarandstöðu.

Og þeir sem vilja framtíð, að lífið sé lifandi fyrir börn þeirra og barnabörn, verða að fara átta sig á þessu.

Það má rökstyðja þetta ítarlega Helga en þjónar litlum tilgangi fyrir mig, hér og nú.  

Ég ætla að nefna samt tvennt, örstutt, það snertir þína baráttu í netheimum.

Annað er ESB andstaðan.  Mörgum finnst hún flott, hávær, en fyrir hvern er hún að berjast og hvaða árangri hefur hún skilað???

ESB er með allt niðrum sig, ríkisstjórnin lýgur til um eðli innlimunarviðræðanna en samt er landið á fullu að aðlaga sig ESB.

Hávær barátta, enginn árangur.   Spáðu í þetta og lestu bloggið hans Páls Vilhjálmssonar betur, sjáðu hvenær hann hvessir sig???  Það er gegn leiðréttingunni á verðtryggunni, ekki hvatning til lögsóknar á hendur ráðherrum sem ljúga en slíkt er bannað samkvæmt lögum þegar stjórnarathafnir eru annars vegar.

Annað, orð Ólöfu Nordal að það hefði þó verið gæfa þjóðarinnar að ríkisstjórnin hefði þurft að lúta boðvaldi AGS.  Og orð Bjarna Ben á síðasta flokksfundi þar sem hann sagði að við yfirbjóðum ekki þegar lausn á skuldum heimilanna eru ræddar, ólíkt sumum.

Þessir sumir var samflokksmaður hans Kristján Þór Júlíusson, harður stuðningsmaður heimilanna.

Spáðu betur í þetta Helga, það er svo mikið í húfi.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 31.3.2012 kl. 10:59

39 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Helga skrifar í nr.35, og þetta er mikilvægt innlegg kæru landar, tek mér bessaleyfi og paist/copy það hér: "Sæll aftur Ómar,enginn bloggari orðar þetta sem þú, með að styðja hvert annað og þetta;",, grunnvandinn er að fólk sameinast ekki um að reka ræningjana af höndum sér"

Þótt allir vildu það,þá er fólk bundið við langan vinnudag,þarf að sinna börnum og heimili þar eftir. Fjölmiðlar eru ekki að hleypa okkar rödd að,þó með einni undantkningu,þegar Frosti Sigurjóns komst að hjá Agli silfursmiði,Frosti var stór góður. Við verðum að styðja andstöðuflokkana á Alþingi,svo gott að þeir snúist ekki,en nú líður að seinasta ári fávitaflokksins.

Það er fyrst og fremst þetta feitletraða, sem mér finnst svo tímabært að einhver taki upp, því ef farið er aðeins dýpra í einmitt þetta með vinnuálagið, fjölmiðlastýringuna og ekki síst tilvitnuna í það sem Ómar kallar grunnvandann, þetta hangir saman af m.a ástæðunum sem Helga telur upp, en ekki síður af flokkspólítísku blekkingunum.

Flokkspólítísku blekkingunum, sem fá okkur til að vera í skotgröfunum, hendandi "drullukökum" hvert á annað vegna einhverra áhersla um það hvernig best sé að: "skaffa hráefni í", "hver eigi að baka", "skera í hvað stóra bita" og "hvar við eigum að sitja við kökuborðið"  allt þetta á meðan við "dröttumst" dauðþreytt að borðinu.

Sannleikurinn er nefnilega sá að fólk flest, sama í hvaða flokki það er, er sammála um grunngildin, grunngildin sem gera það að eitt land er gott að lifa í, gott að ala upp börn í, gott að mennta sig í, öruggt og tryggt bæði heilsufarslega og löglega, fyrir utan tiltölulega fáa öfgasinna til bæði vinstri og hægri, einnig finnast "grænir" öfgasinnar, þá er kjarninn í öllum flokkum og hreyfingum, einnig þau sem standa utan flokka, fólk sem veit hvað það vill fyrst og fremst, og ef það bara færi smástund upp úr "skotgröfunum" segði leiðtogunum og fjölmiðlunum að "halda kjafti" smástund, og byrjaði að spjalla saman um hvað séu grunngildi þess að eitt land er gott að búa í, yrði margur hissa á hversu lítill munurinn er.

Svo eins og ég sé þetta, þá er eina vonin til virkilegra breytinga, sú samstaða sem myndi ske þverrpólítískt, í stað þess að halda áfram hringdansinum með sveiflunum frá hægri til vinstri, sá hringdans hefur hingað til ekki gert Ísland að góðu landi að búa, allavega langt síðan það var það, og þá var það einungis vegna þess að menn voru sammála um að landið er til fyrir þjóðina, áherslurnar voru mismunandi, en það náðist samkomulag í hlutfalli við vilja kjósenda um bökun,skiftingu og gerð kökunnar, í dag er mesta hluta kökunnar stolið, stolið með hjálp þeirra sem eru kosnir til að passa hana, og í höndum örfárra bruðlara, sem líta á sameiginlega sjóði almennings sem "nammibúð" óhófs og bruðls.

þarna liggur byltingin geymd, hjá hinum almenna borgara, flokksbundnum eða ekki, ekki í einum flokki framar en öðrum, og allavega ekki í nýjum framboðum einum sér, við megum og eigum að hafa mismunandi skoðanir á því hvernig best sé að skifta, ráðstafa og stýra grunngildunum, það er kallað lýðræði, en fyrst þarf að endurheimta lýðræðið, það er fjarverandi núna, fjarverandi vegna vinnuálagsins, einokunnar fjölmiðla og flokkspólítísku blekkingarinnar sem gerir okkur að óvinum hvers annars, þannig vilja þeir nefnilega hafa það "ræningjarnir" sem eru með flokksforysturnar í "vasanum".

MBKV frá Noregi, landinu sem virðist ekki í sömu súpunni, ojú hér bara til nóg af peningum til að gefa lýðnum "brauð og sirkus" þannig að "ræningjarnir" hafa vinnufrið í skjóli þess.

KH

Kristján Hilmarsson, 31.3.2012 kl. 11:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 104
  • Sl. sólarhring: 766
  • Sl. viku: 5643
  • Frá upphafi: 1400400

Annað

  • Innlit í dag: 90
  • Innlit sl. viku: 4848
  • Gestir í dag: 89
  • IP-tölur í dag: 89

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband