Hvað er að gerast á Morgunblaðinu???

 

Hver skrifar frétt um gríska harmleikinn með fyrirsögninni , "Grikkir vongóðir um björgun".

Er verið að bjarga Grikkjum???

Er verið að aðstoða grískan almenning????

Hefur blaðamaður Morgunblaðsins enga hugmynd um hvað er verið að gera grísku þjóðinni???

 

Hæg eru samt heimatökin að vita um ástand mála í Grikklandi.   Nýlega birtist grein eftir Gústaf Adolf Skúlason í Morgunblaðinu þar sem hann sagði frá heimildamynd í sænska sjónvarpinu sem fjallaði um helför grísku þjóðarinnar.  Helför sem á sér aðeins eina skýringu, evruna.

Blaðamanni Morgunblaðsins til upplýsingar ætla ég að endurbirta kjarnann úr grein Gústafs.   

"Nýr fasteignaskattur er innheimtur með rafmagns- og vatnsreikningum. Þeir sem ekki hafa efni að borga skattinn verða að lifa án vatns í myrkri og kulda. Það var átakanlegt að sjá heima hjá einni fjölskyldu með þrjú börn, að máltíð dagsins voru nokkur harðsoðin egg. Snætt var í skímu kertaljóss, sem slökkt var á að lokinni máltíð. Allir eru þó ekki svo heppnir.

Á hafnarbakkanum rétti járniðnaðarmaðurinn Pilitridis fram höndina með þremur evrum og tíu sentum og var stoltur: „Ég get keypt mjólk í dag og boðið börnunum upp á morgunverð.“ Í barnaskólum tilkynna sífellt fleiri kennarar um börn, sem líður yfir sökum næringarskorts. Skólasálfræðingurinn Maria Neziri gat ekki tárum varist: „Ég veit ekki hvað sagt er í Evrópu en ástandið er verra hér en fólk gerir sér grein fyrir. Ég veit ekki hvaða Evrópu er verið að tala um, er það Evrópa bankanna eða íbúanna? Ástandið er hræðilegt, mörg barnanna eru föl og bleik, þau fá ekki mat heima. Eitt barn sagði að þjófar hefðu stolið vatninu.“

Að sögn rithöfundarins Petros Taisopoulos hafa Grikkir fengið áfall og öll tilveran er upp og niður. „Sagt er að Grikkir geri ekki heimavinnuna sína, séu latir og borgi ekki. Ég óttast að Grikkir séu á litlum fleka á miðju Atlantshafi og geti aldrei náð landi, alveg sama hversu mikið þeir vinna eða spara. Okkur er sagt að ef við í besta falli getum borgað vextina muni skuldirnar verða jafnháar árið 2020 eins og nú. Það telur fólk ekki vera lausn.“

„Kreppan er evrópsk ekki grísk, við erum bara um 2% af þjóðarframleiðslu ESB,“ segir ritstjóri Publicist, Giorgos Kirtsos. „Þýskaland er sífellt að verða ágengara. Þjóðverjar eru orðnir fjárhagslega sterkir og vilja ráða ferðinni. Þeir leyfa ekki reglur sem gefa skuldsettum ríkjum eins og Grikklandi andrúm. Þjóðverjar réðust á landið okkar, myrtu landsmenn og stálu gullforðanum. Þegar við höfðum jarðað þá föllnu fengu Þjóðverjar eftirstríðslán, sem þeir borga aldrei. Annaðhvort sýna ríki ESB góðan vilja og styðja hvert annað eða við getum grafið ESB. Þess er vænst af Grikkjum að við samþykkjum kröfur Þjóðverja og látum kalla okkur lata þjófa. Við eigum að líða fyrir að styrkja þýska heimsveldið.“

Á sama tíma og Svíþjóð lækkar söluskatt veitingahúsa niður í 12% hækkar gríska stjórnin skattinn upp í 23%. Millistéttin, sem áður fyllti veitingahúsin, er horfin af götunum og hundruð þúsunda smáfyrirtækja eru gjaldþrota. Fjórar milljónir Grikkja lifa við fátæktarmörk og 1,6 milljónir eru atvinnulausar. Ástandið versnar þegar fleiri ríkisstarfsmenn bætast í hóp þeirra 150 þúsunda, sem þegar hefur verið sagt upp. Í Aþenu hafa þeir efnamestu flutt heimili sín frá miðbænum til norðurhlutans vegna óróleika. Opnaðar hafa verið félagsmálabúðir fyrir fólk með skömmtunarseðla – 25 vikulega á mann. Daglega eru súpumötuneyti kirkju- og hjálparstofnana heimsótt af um 250 þúsund þurfandi börnum í Aþenu. Margir ellilífeyrisþegar gefa 300 evra mánaðarlífeyri til atvinnulausra barna sinna svo barnabörnin fái mat. Í staðinn standa afi og amma í matarbiðröðum.

„Við getum ekki refsað landi með því að taka burtu framtíð þess. Bara á síðasta ári hafa laun og ellilífeyrir lækkað yfir 30%,“ segir Anna Diamantopoulu, fyrrverandi nefndarmaður ESB. „Sem menntamálaráðherra hef ég lokað 2.500 skólum og 30 háskóladeildum... Í dag virka ekki stofnanir ESB... Öllu er stjórnað af tveimur stórum löndum, Þýskalandi og Frakklandi..."

 

Þetta er ekki lýsing á þriðja heims landi eftir náttúruhamfarir, þetta er lýsing á ástandinu í vöggu hinnar vestrænu siðmenningar sem nýtur í dag náðar Evrópusambandsins og blaðamaður Morgunblaðsins vogar sér að kalla björgun.

 

"Það er ljótt að hæðast að þeim sem eiga erfitt" sagði amma alltaf við mig.

Ég trúi því að amma blaðamannsins hafi sagt honum eitthvað svipað.

Þess vegna er framsetningin á þessari frétt um þýsku bankabjörgunina með öllu óskiljanleg.  Ég vona að hún eigi ekki rætur að rekja til blindrar evru trúar blaðamannsins, að hann hundsi þjáningar venjulegs fólks vegna pólitískra trúarbragða.

Vonandi sér hann að sér, og já, skammast sín.

 

Annars treysti ég á að Davíð flengi hann.

Kveðja að austan.

 

 

 


mbl.is Grikkir vongóðir um björgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fyrst: Ég er ekki evru-aðdáandi. En vandræði Grikkja eru óháð evru. Grískir ráðamenn fölsuðu meðvitað hagtölur landsins, skattainnheimtukerfi var/er varla til, spilling er landlæg, eftirlaunaaldur var 45 ár, og svo framveigis. Grikkir geta engum öðrum um kennt en sjálfum sér, en virðast enn ekki tilbúnir að horfast í augu við það. Og hvers vegna eiga aðrir evrópubúar að borga fyrir þá veislu sem Grikkir hafa haldið undanfarin ár?

Kári Sveinsson (IP-tala skráð) 9.2.2012 kl. 12:30

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Kári.

Þú mátt ekki taka það persónulega, því þú ert alls ekki sá eini sem vekur upp þessa spurn hjá mér, en stundum spái ég í hver ól eiginlega upp þá kynslóð sem nú tjáir sig um hin ýmsu mál, hvort sem það er um níðingsháttinn gagnvart fólki í skuldavandræðum eða þá fórnarlömb evrunnar eða annað sem menn kjós að rífast um.

Allavega hafa menn lítið hlustað á ömmur sínar sem lögðu ungum drengjum þá lífsspeki að vera ekki vondur við dýr eða gamalt fólk eða aðra þá sem geta ekki varið sig.  Þar á meðal fórnarlömb hamfara.

Sumir kalla þessa siðfræði kristna, bera hana þá saman við góða siði á dögum Rómar, þegar menn voru hundheiðnir, að mæta á vettvang hamfara með vagna og fjötra og kaupa upp alla sem voru til sölu, hvort sem það var vegna þess að menn borguðu skuldir með hluta af húshaldi sínu, eða áttu ekkert uppí skuldir sökum að eignir þeirra voru allar eyðilagðar, og urðu þá að selja sig og sína, eða menn áttu ekki fyrir mat, eða áttu ekki mat, og urðu því að bjarga lífi sínum með því að selja sig í ánauð, eða voru munaðarlausir eða varnarlausir, eða eitthvað.

Hin formlega neyðaraðstoð var alltaf undir stjórn og umsjón þrælasala.

Í dag er neyðaraðstoð hins vegar neyðaraðstoð, þá fá fórnarlömb hörmunga hjálp, þeir fá að borða og þeir fá klæði og húsnæði og svo framvegis.  Óháð efnahag, og óháð því hvort þeir gætu á einhvern hátt sjálfum sér um kennt um þær aðstæður sem þeir voru í.  Til dæmis lentu þeir Haitar sem höfðu leitað til Bandaríkjanna í von um betra líf, ekki í jarðskjálftanum mikla.  Af hverju voru þá ekki hinir búnir að flýja land líka, þá hefðu götur Port Prince verið auðar og enginn dáið.  Af hverju búa menn undir fjalli á snjóþungum stöðum eða ofaná sprungu á jarðskjálftasvæðum???

Og af hverju hrundu heilu hverfin en önnur ekki??'  Var það ekki vegna spillingar yfirvalda og gátu menn þá ekki sjálfum sér um kennt að hafa látið slíka spillingu líðast???

En þeir sem bjóða fram aðstoð í neyð eða reyna bjarga einhverjum frá vanda eða hörmungum, þeir spyrja ekki svona.  Þeim nægir að vita að hættunni, að vita að neyðinni.  Og þeir vita hjálp þeirra eða aðstoð kemur í veg fyrir að eitthvað verra gerist.

Þess vegna er talað um aðstoð, þess vegna er talað um björgun.

En í dag dettur engum í hug að kenna hina fornu Rómversku aðferð við aðstoð eða björgun þó hún hafi örugglega framlengt líf margra sem annars hefðu dáið drottni sínum.  En reyndar spurning hvort það hefði hreinlega ekki verið betra, menn áttu þó allavega vonina.

Nú ætla ég að spyrja þig Kári hvort þú hafir ekki lesið pistil minn, og þá sérstaklega það sem ég endurbirti úr góðri grein Gústafs???

Heldur þú að hann Petros hafi einhverja ábyrgð borið á evruupptökunni sem augljóslega er algjört glapræði fyrir þjóðfélag eins og það gríska???

Eða finnst þér rétt að refsa börnum með því að svipta þau menntun og heilsugæslu eða kallar þú það björgun eða hjálp????

Eða finnst þér að syndir feðranna eigi að bitna á börnum, að þeim eigi að vera kalt eða svöng í samfélagi þar sem auðmönnum var gert kleyft að fara með þjóðarauðinn úr landi í öruggt skjól þýskra banka????

Hver ól þig upp Kári minn, ég bara spyr.

Að lokum þetta, hvernig dettur þér í hug að trúa þeirri Sögn að Grískir ráðamenn hafi falsað eitthvað bókhald á þann hátt að enginn vissi um??? Hefur þú ekki þá heilbrigðu skynsemi til að sjá hverslags bull þetta er???

Grikkjum var leyft að taka upp evruna þó hagumhverfið væri eins og það væri.  Það var örugglega gert í góðri trú en afleiðingarnar voru skelfilegar.  

Siðað fólk hefði komið almenningi í Grikklandi til aðstoðar, hundheiðnir Rómverjar hefðu sent þrælalestir á vettvang.

Hvort heldur þú að hafi skeð???

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 9.2.2012 kl. 14:06

3 identicon

Sæll Ómar

Nú þekki ég nú engan sem er að níðast á Grikkjum - þvert á móti. Mér finnst það nokkuð langsótt hjá þér að líkja sjálfskaparvíti Grikkja við náttúruhamfarir. Grísk stjórnvöld hafa svo sem sjálf síðar viðurkennt að hafa falsað ýmsar þjóðhagstölur, svo það er nú ekkert bull. Fjölmargar þjóðir og stofnanir hafa komið Grikkjum til hjálpar, en á móti krafist að komið væri reglu á hagkerfið á Grikklandi, en Grikkir hafa verið tregir við það hingað til.

Varðandi uppeldi mitt, þá var ég meðal annars alinn upp við það að eyða ekki meiru en ég gæti borgað til baka og sýna þeim þakklæti sem veittu mér hjálpahönd. Hvorugt virðist eiga við um Grikki.

Þú talar um siðað fólk - hafa Grikkir hagað sér eins og siðað fólk? Varla.

Nú er þessi umræða sett ansi mikið á oddinn - ég tala hér um "Grikki" eins og eina einingu. Náttúrulega er það ekki réttlátt við þá Grikki sem hafa sýnt ábyrgð, en þeir hafa engu að síður búið við lýðræði í tæp 40 ár og bera því sameiginlega ábyrgð á hvernig komið er.

Kveðja að sunnan. :-)

Kári Sveinsson (IP-tala skráð) 9.2.2012 kl. 15:11

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Kári.

Þú hefur um margt fengið gott uppeldi og ef amma þín hefði kennt þér að það væri ljótt að vondur við þá sem liggja við höggi, þá værir þú líklegast alveg með þetta.

En þú ert algjörlega út á túni í þinni rökfærslu.

Grikkir hafa ekki staðið sig svona vel í stjórnun sinna efnahagsmála í 180 ára  sögu sinni sem sjálfstætt ríki. Skiptir ekki hvaða máli hvaða hagtölur eru skoðaðar.  Og þá er ég reyndar að tala um í aðdraganda evrunnar.  

Fram að því hafði gengið á ýmsu, og lífskjör mæld í kaupmætti á innflutning var ekki mikill.  En þeir höfðu í sig og á, ráku þokkalegt heilbrigðiskerfi og ágæta skóla.  Man viðtal við mann á tíunda áratug síðustu aldar sem bjó í Aþenu og sagði frá hvað innviðir samfélagsins hefðu komið sér á óvart.  Hélt eiginlega að þeir væru hálfgerðir molbúar og þá út frá hagtölum og þeirri ímynd sem þeir höfðu í alþjóðlegri umfjöllun.  

Grikkir ráku einnig öflugan her og frá því að ég man eftir mér þá voru þeir í endalausu skaki við Tyrki og það á þann hátt að menn óttuðust opið stríð.

Þú hlýtur að vera farinn að átta þig á að ríki reka ekki skóla eða sjúkrahús eða kaupa sér vopn og tól og ybba gogg við eitt mesta herveld Evrópu, ef þeir innheimta ekki skatta eða annað sem þú hefur látið ljúga þig fullan með.

Jú, var ég ekki líka búinn að taka það fram að þeir sultu ekki og börnum var ekki kalt???

Förum í nútímann, hvað breyttist????  Svarið er einfalt; samfélagsleg tilraun.  Bar þjóðin  ábyrgð á henni eða valdastéttin, hvernig átti óbreyttur múgurinn að sjá fyrir hamfarir evrunnar???  Þegar hagfræðingar og þeir sem vit áttu að hafa, sögðu að nú yrði allt betra og stöðugra.

Þú segir að Grikkir hafi eytt um efni fram, og hafi gert.  Málið er þegar þú hefur innlendan gjaldmiðil, þá eyðir þú ekki um efni fram.  Þú kaupir nákvæmlega það sem útflutningur þinn leyfir þér auk þess sem þú kríar út uppá krít.  Og þá ber sá sem lánar líka sína ábyrgð og þarf að sætta sig við að fá ekki til að baka ef hann lánar út í bláinn.  Enda áður fyrr á árum voru Grikkir snjallir að fá lánað og fara svo á hausinn.  En ekki síðustu áratugina, ekki eftir að mitt minni kom til, ég nenni ekki að fletta upp á hvenær það var síðast sem þeir lýstu yfir gjaldþroti.

En þegar þú tekur upp annan gjaldmiðil, þá er önnur ella á ferðinni.  Þá er öll eyðsla "erlend" í þeirri merkingu að umfram eyðsla ríkiskassa er öll tekin að láni, en ekki borguð með útþynningu á gjaldmiðli.

Og ef gjaldmiðillinn skapar falskan kaupmátt, þá er hagkerfið dæmt til að hrynja.  Þetta getur allt skynsamt fólk sagt sér en skynsamt fólk virðist hafa þagað eða ekki hefur verið hlustað á það.

Hvar liggur sökin??

Er sökin hjá almenningi sem eyddi einfaldlega þeim launum sem hann fékk útborgað??  Er sökin hjá stjórnmálamönnum sem héldu að þeir gætu alltaf endurfjármagnað skuldir sínar???+

Eða er sökin hjá kerfi sem var dæmt til að mistakast???

En málið er að þessi samfélagsleg tilraun, að láta tiltöluleg vanþróuð hagkerfi taka upp mynt þróaðs útflutningshagkerfis, hún var alltaf dauðdæmd.  

Og það eru hamfarir þegar reynt er að afneita staðreyndum og heilt þjóðfélag er tekið af lífi í stað þess að greina vandann og leysa hann.

Og meðan slíkur vandi er leystur, þá þarf samfélagið á aðstoð að halda.

Hin meinta aðstoð ESB felst í að bjarga lánardrottnum Grikkja, en ekki bara það, hinu frjálsu fjármagnsfluttningar gerðu fólkinu sem græddi á evrunni, hinni grísku yfirstétt (sem skapaði meginhluta viðskiptahallans með kaupum sínum á lúxusvörum) kleyft að fara með þjóðarauðinn úr landi.  Þeir peningar voru ekki til nema sem rafeind í tölvum og millifærsla þeirra var færð sjálfkrafa til skuldar í evrópska greiðslukerfinu.

Með öðrum orðum, gríska þjóðin var rænd innan frá og henni var sendur reikningurinn en ekki þeir sem ábyrgðina báru.  Það var ekki hann Petros sem heimilaði þessa fjármagnsflutninga, það var evrópukerfið en Petros þarf að borga með því að svelta börnin sín.

Kári, ef þú skilur ekki siðleysið á bak við þessa gjörninga og skilur ekki hvað fór úrskeiðis, þá ertu á svipuðu plani og þeir sem reyndu alltaf að verja aðra svona samfélagslega tilraun sem líka endaði með ósköpum.  Það svalt enginn í Ukraníu 1929 þó kommar hefðu stjórnað í 10 ár, sulturinn kom í kjölfar samyrkjuvæðingu Stalíns.  Þá bar óbreyttur almenningur enga ábyrgð en hann sat uppi með afleiðingarnar, hungrið og hungurdauðann.

En það var alltaf til fólk í Vestur Evrópu sem kenndi öllu öðru um en Stalín, þar á meðal fórnarlömbunum.  Ég hef rætt við aldraðan mann sem trúði og trúði og lokaði augum fyrir þjáningum meðbræðra sinna.  

Ég hélt aldrei að ég myndi upplifa sömu firringu í nútímanum, en svona getur manni skjátlast.

Að lokum, þú hlýtur að vera fjölmiðlamaður fyrst að þú heldur að það sé hægt að falsa bókhald fyrir framan nefið á fílefldu eftirliti.  Það þarf jú einhvern hrekklausan til að trúa tilbúninginum svo hann endurbirti vitleysuna almenningi sem aftur hefur sjaldnast tíma til að hugsa um hvað mikill þvættingur liggur að baki hinum meinta áróðri.

Grikkjum var leyft að fegra bókhaldið svo þeir kæmust með í evruævintýrið.  Embættismenn ESB eru ekki hálfvitar sem vita ekki hvað er að gerast í löndum ESB.

Láttu þig ekki dreyma um annað.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 9.2.2012 kl. 22:37

5 identicon

Sæll Ómar,

Það virðist vera mannlegt eðli að kenna öðrum um ógæfu sína frekar en líta í eigin barm.

Náttúrulega virkaði skattheimta að einhverju leyti, þeir fengu einhvers staðar á bili 70-80% inn af því sem þeir ættu. En vandinn var einmitt sá að hluti þess sem upp á vantaði var fjármagnað með erlendum lánum.

Varðandi herinn: Bandaríkjamenn voru ansi duglegir að gefa Grikkjum (og Tyrkjum) hernaðaraðstoð á dögum kalda stríðsins. :-)

Þú segir "Málið er þegar þú hefur innlendan gjaldmiðil, þá eyðir þú ekki um efni fram." Bíddu nú við: Bandaríkjamenn eru skuldugir upp yfir haus og síðast þegar ég athugað málið voru þeir enn með USD (innlendur gjaldmiðill), Argentínumenn fóru á hausinn fyrir um 10 árum síðan (líka með eigin gjaldmiðil) og svona mætti lengi telja. Með þínum rökum ættu t.d. Slóvenar líka að vera farnir á hausinn (svipuð landsframleiðsla á mann og í Grikklandi), en svo er ekki. M.ö.o. það er ekki gjaldmiðillinn sem skiptir öllu máli, heldur hvernig staðið er að efnahagsmálum.

Þú virðist ekki hafa kynnt þér það samkomulag við Grikki sem einmitt er verið að samþykkja þessa dagana. Meðal annars hafa lánadrottnar fallist á að afskrifa 100 milljarða skuld - þetta eru engir smápeningar. Annar hluti hjálparinnar verður greiddur í smáskömmtum eftir því sem lánsskilyrðin verða uppfyllt.

Varðandi falsaðar hagtölur - þetta er velþekkt, en ef þú treystir mér ekki, get ég t.d. bent á þessar greinar: http://euobserver.com/19/29258, http://www.ft.com/intl/cms/s/0/33b0a48c-ff7e-11de-8f53-00144feabdc0.html#axzz1ly8F3ao2 (það er af nógu að taka).

Þú gleymir líka að það var enginn sem þvingaði Grikki hvorki inn í ESB eða evruna (Úkraínumenn voru þvingaðir inn í Sovjet með valdi). Þvert á móti var t.d. fyrrverandi kanslari Þýskalands andsnúinn því að Grikkir yrðu evru-meðlimir. En ESB hefur lært af þessu, og ríki álíka spillt og Grikkland, t.d. Rúmenía og Búlgaría verða ekki evru-meðlimir um fyrirsjánlega framtíð.

Kári Sveinsson (IP-tala skráð) 10.2.2012 kl. 09:31

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Kári.

Rökvillan þín er að óbreyttur almúgur hefur ekki þau tök að standa gegn ákvörðunum valdaelítunnar.

Rökfærsla þín er á sama plani og þeirra sem reyndu að réttlæta ICEsave með tilvísan í hið meinta sukk Hrunáranna.  Það meinta sukk var aðeins fölsuð lífskjör ofurkrónunnar og þó váboðar væru, þá gat almenningur ekki merkt þá því þeir sem vit töldust hafa, það er stjórnendur landsins með stuðningi "sérfræðinga" töldu að þetta væru aðeins sker sem siglt yrði framhjá.

Það er hægt að stjórna þjóðum á annan hátt en með byssukjöftum, og jú, íbúar Ukraníu gátu risið upp en þeir gerðu það ekki. Og böðlarnir voru ekki byssumenn heldur ungt fólk sem trúði á hina samfélagslegu tilraun.  Um það getur þú lesið í þeirri ágætu bók, "Ég kaus frelsið".

Það sama er að gerast í Grikklandi, þar trúa menn ennþá á evruna og auka þar með hörmunar þjóðar sinnar þegar þeir reyna að eitthvað sem þeir telja að leysi vandann.

Að nota gjaldmiðil voldugasta iðnríkis Evrópu sem skiptimynt í vanþróuðu landbúnaðar og ferðamanna hagkerfi, er glæpur, engu betri en samyrkjubúskapur Stalíns.  Hvorutveggja kerfi sem nauðga staðreyndum raunveruleikans.

Og þú staðfestir að þú ert blaðamaður með því að linka til mín aulaútskýringu sem er hugsuð til að kasta ryki í umræðuna í trausti þess að fólk hugsi ekki heila hugsun.  Það falsar enginn bókhald í dag fyrir framan nefið á eftirlitsaðilum, en það er auðvelt að segja það, það er svo auðvelt að segja svo margt.

Meinloka þín er sú trú skottulæknisins að ef hann gefi eitur sem lækningu, og að sjúklingurinn bregst við með því að veikjast enn meir, að þá sé það sönnun þess að meira  eitur þurfi svo bata sé náð.  Og þessi samlíking mín styðst við raunverulega atburði kringum aldamótin 1900, þá var arzenik gefið sem lækningarmeðal við kveisum.  Með afleiðingum sem voru óhjákvæmilegar, dauði.

En þá ver kveisunni kennt um, það er það var rökleiðsla skottulæknisins.

Önnur ennþá verri meinloka þín er að tala um að ástandið í Grikklandi í dag sé vegna þess að þeir eru spilltir.  Fyrir utan hrokann að telja sig umkominn að segja öðrum menningarsamfélögum hvernig þau eiga að vera, þá fattar þú ekki aðalatriðið.

Það sem þú kallar spillingu, er staðreynd í grísku samfélagi og því er það Grikkjum ómögulegt að reka sitt þjóðfélag með öðrum gjaldmiðli en sínum eigin.  Og þegar þeir gerðu það, þá lifðu þeir ágætu lífi, og það benti ég þér kurteislega á.

Eitthvað sem þú getur ekki borið á móti og þá átt þú sem skynsemisvera að fatta rökvillu þína.  Það er ekkert að Grikkjum, þeir eru eins og þeir eru, það er evran sem er að drepa þá.

Og sá sem styður hið meinta morð Kári, hann er samsekur um glæp.

Eitthvað sem fólk sem hefur hlotið gott uppeldi, gerir sig ekki sekt um.

Þannig er það nú bara.

Kveðja að austan.

PS. Kaninn skuldar engum eitt eða neitt, hann borgar bara með dollurum, sem kosta hann lítið, aðeins smá pappír og blek.

Argentínumenn fóru á hausinn vegna sinnar "evrutilraunar".  Þeir hafa plummað sig vel eftir að þeir sögðu dollaranum upp (evrunni) og hagvöxtur er vandamál hjá þeim í dag, ekki skortur á honum, heldur að hann er of mikill.  En eigin gjaldmiðill lagar ekki rótgróna spillingu og það er áfram vandamál í Argentí­nu.

Þú fattar ekki þetta með erlendu lánin.  Grikkir fengu lánað en gjaldþrot ríkiskassa þeirra, sem voru allavega 5 á nítjándu öldinni, voru history í nútíma sögu landsins.  En óstjórn hafði sínar afleiðingar, þegar menn prenta pening fyrir meir verðmætum en þeir framleiða, þá rýrnar virði peninganna, ekki framleiðslunnar.

Með erlendum gjaldmiðili þá verður óráðssían hins vegar skuld, ekki rýrnun.

Og per se Kári, þá fatta ég ekki að þú skulir ekki sjá þesa staðreynd.  Því þú kannt að rökræða, og þar með að hugsa, og ert þar að leiðandi ekki blaðamaður, en nærð samt ekki heildarsamhenginu.

Og svo gleymir þú náttúrulega visku ömmu þinnar að siðuð manneskja heggur ekki þann sem liggur við höggi.

Kveðja.

Ómar Geirsson, 10.2.2012 kl. 10:11

7 identicon

Sæll Ómar,

Það er nú svo að þjóðfélög bera sameiginlega ábyrgð - annars væri þjóðfélag rangnefni. Að sjálfsögðu geta einstaklingar í svona þjóðfélögum fundist óréttlátt að glæpnir samfélagsmanna þeirra bitni á þeim, en það er "kostnaðurinn" við að tilheyra samfélagi. Þótt fáir Þjóðverjar með eigin hendi hafi myrt Gyðinga, báru þeirra tíma Þjóðverjar allir ábyrgð á þeim glæp. Nú er ekki hægt að líkja þjóðarmorðið á Gyðingum við að Grikkir um einhvern tíma þurfa að sætta sig við lífskjör eins og þau voru fyrir 20-30 árum síðan, en princippið er hið sama.

Kannski er rétta lausnin fyrir Grikki að hætta að nota evrur, kannski að yfirgefa ESB. Það er þeirra ákvörðun. Eftir stendur að menn eiga að borga það sem þeir skulda (barnalærdómur minn).

Svo gefur þú í skyn að vegna þess að mér finnst Grikkir eigi að borga skuldir sínar, þá sé ég samsekur morðingjum. Einkennilegt uppeldi sem amma þín hefur gefið þér - eða sennilega hitt, að þú ert kominn í rökþrot og grípur þess vegna til svona orðvals.

Kveðja.

Kári Sveinsson (IP-tala skráð) 10.2.2012 kl. 14:15

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Kári, það er svona með þetta meinta rökþrot.

Það er gott að nefna það þegar maður hefur ekkert annað að segja.

Þú átt engin svör við ábendingum mínum um hvernig ástandið var fyrir evru, þú alhæfðir fyrst um það en fattaðir svo hvernig rökfærsla þín byggðist á einhverju sem á við í dag en ekki í gær.

En það versta við þig Kári minn er að þú sérð ekki að ef þú hefur rétt fyrir þér, þá hafði gamli komminn líka rétt fyrir sér.  Stalínn drap engan, hann breytti vissulega leikreglunum en síðan var það þeim að kenna sem sultu í hel, að þeir sultu í hel.

Og þetta útburðarvæl í vestrænum hjálparstofnunum, sem björguðum mörgum mannslífum í Ukraníu á árunum 1932-1934, er aðeins rökþrota væl kapítalista því þeir sem dóu úr hungri, þeir báru sjálfir ábyrgð því þeir áttu heima þarna.

Það versta við vitleysu þína Kári er þessi fullyrðing, að  "mér finnst Grikkir eigi að borga skuldir sínar," því fattar ekki að hinar meintu skuldir Grikkja stafa af upptöku evrunnar sem bjó til skuldir frá fyrsta degi.

En það var ekki almenningur í Grikklandi sem bjó til þær skuldir, ekki frekar en almenningur á Íslandi bjó til skuldir útrásarinnar.  Við vorum krafin um þær skuldir, en almenningur á Íslandi sagði Nei.  Jafnvel þó til væru menn eins og þú sem sögðu að almenningur bæri ábyrgð á skuldum auðmanna.

Það er eins í Grikklandi, þeir sem segja að Grikkir beri ábyrgð á evruskuldum sínum, þeim mun verða fleygt út, því engin þjóð fremur sjálfsmorð til að greiða skuldir höfðingjanna.

Þetta veit sagan, aldrei í 5.000 ára skráðri sögu mannsins hefur fólk yfirgefið eigur sínar og heimili til að borga skuldir annarra.  Hafi slík innheimta verið reynd, þá hefur almenningur alltaf risið upp.

Í nútímanum reis hann upp á Íslandi, hann er að rísa upp í Grikklandi, nokkrum árum fyrr reis hann upp í Rúmeníu, svo að dæmi séu nefnd.

En þó þú þekkir ekki söguna eða hafi nokkra hugmyndu um hvað er að gerast í Grikklandi, aðra en þá  en að vísa í rök evruræningja, þá afsakar það þig ekki Kári að vita ekki hvenær maður heggur ekki þá sem liggja við höggi.

Enn og aftur, hvað var amma þín að gera þegar þú varst lítill???

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.2.2012 kl. 17:03

9 identicon

Sæll Ómar, 

Ég sé að þú ert svo blindaður af evru-hatri að engin rök vinna á þér. En ég reyni samt í síðasta skipti.

Var kreppan sem byrjaði í Bandaríkjunum 2008 evrunni að kenna? Þú segir "...hinar meintu skuldir Grikkja stafa af upptöku evrunnar sem bjó til skuldir frá fyrsta degi." Af hverju gerðist ekki álíka þá í öðrum löndum sem tóku upp evru - t.d. Hollandi, Austurríki, Slóveníu? Skuldir Grikkja komu ekki af himnum ofan (eða stigu upp ú helvíti). Skýringin er sorglega einföld. Grikkir (eða réttara gríska ríkið) steyptu sér út í óhemju lántökur (sem byrjuðu áður en evran var tekin upp) án þess að velta fyrir sér að nokkurn tíma þyrfti borga tilbaka. Þessa peninga hafa mismunandi Grískar stjórnir notað til að "kaupa" kjósendur - hækka laun og auka opinbera þjónustu, svo að segja að hinn almenni Grikki hafi ekki notið góðs af þessu fé er út í hött. Það má segja að þeir hafi spekúlerað rétt, því nú virðist sem hluti skulda þeirra verði afskrifaðar - reikningurinn sendur til skattgreiðanda í öðrum löndum.

Grundvallarvillan í þínum rökum er að evran er sökudólgurinn, en þú skilur ekki að evran er "bara" gjaldmiðill. Cirka fram að fyrri heimsstyrjöld höfðu flest ríki sama grundvallar gjaldmiðil, gull og eða silfur, og það í sjálfur sér hafði engin áhrif á skuldastöðu þeirra.

Bosníumenn (sem seint verða sakaðir um að vera ríkir) tóku upp þýsk mörk sem gjaldmiðil 1995 (núna heita þau convertible mark en hafa sama verðgildi og DM og eru fastbundin við evru). Ekki hafði sú gjaldmiðilsbreyting auknar skuldir í för með sér.

Sumir hér á Íslandi halda að öll vandamál hverfi ef Íslendingar henda krónunni og taka upp evrur eða dollara eða jafnvel norskar krónur. Þetta er algjört rugl - grundvallar vandamál í íslensku efnhagslífi verða hvorki minni (né stærri) ef skipt er um mynt. Sjúklingur á spítala verður hvorki fyrr né síðar frískur ef læknirinn ákveður að mæla lyfin í milli-pund í stað milli-gröm. Það er lyfjamagnið (verðmæti í efnahagskerfinu) sem skiptir máli, ekki mælieiningin (krónur eða evrur).

En af hverju voru sum evrópulönd þá að taka upp evrur ef mælieiningin skiptir ekki máli (spyrð þú)? Svarið er einfalt: Til að auðvelda viðskipti. Rétt eins og þegar lönd á meginlandi Evrópu fyrir um 200 árum byrjuðu að taka upp metrakerfið. Menn urðu hvorki ríkari né fátækari af því að þyngd kindakjöts nú er mæld í KG en ekki pundum. Pólítíska ástæðan fyrir evrunni er hins vegar sú að grundvallarhugmyndin að baki ESB er að binda löndin svo þétt saman efnahagslega að styrjaldir milli landanna verði ólíklegri, þetta var hugsjón þeirra de Gaulles og Adenauers. Mörg lönd sem síðar komu inn í ESB höfðu ekki þessa hugsjón, en vildu bara fá hlut í styrktarsjóðum ESB.

Þú virðist vera kominn með ömmur okkar á heilann - kenndi amma þín þér að það væri fínt taka lán og aldrei borga tilbaka? Amma þín var kannski útrásarvíkingur? Það myndi skýra margt í málsflutningi þínum.

Kveðjur, Kári.

Kári Sveinsson (IP-tala skráð) 11.2.2012 kl. 17:28

10 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir að gefast ekki upp á mér Kári minn. 

Ég kíki á þetta á morgun og finn örugglega leið til að benda þér á utanvega akstur þinn.  En óvænt umræða um forsendur biblíunnar tók eiginlega allan lausa tíma minn í dag.

Kveðja í bili.

Ómar Geirsson, 11.2.2012 kl. 18:53

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Kári.

Það er góð regla að byrja ekki að skjóta sig í fótinn áður en maður byrjar að rökræða. 

Glöggir menn sem lesa pistil minn og síðan þróun umræðunnar, þurfa ekki að hafa lesið fyrri pistla mína til að vita að mér er slétt sama um evruna sem slíka, grunntónninn er andúð mín að hengja almenning fyrir afglöp valdstéttar.  Eitthvað sem ég mótaði á unga aldri, eftir held ég að það séu tvær bækur sem mótuðu mig svona, Ég kaus frelsið og Ég lifi, sem báðar fjalla um örlög manneskjunnar gagnvart ómannúðlegu kerfi. 

Önnur góð regla er að láta ekki viðmælanda sinn stjórna umræðunni.  Þú ert örugglega búinn að gleyma því, annars værir þú ekki svona í bólinu, að okkar debat byrjaði vegna ágreinings um hvort um "Björgun" væri að ræða.  Ég held því alltaf inní umræðunni með ömmu tali mínu og mótamma þín sem talar alltaf um að það eigi að borga skuldir, hún verður alltaf forneskjulegri og forneskjulegri með hverjum hring.  Uppá hughrif að gera ert þú komin frá þjóðlegum íslenskum sið að bera fólk út yfir í skuldaþrældóm hinna fornu Rómverja með viðkomu í skuldafangelsum Dickens.  Þú kveikir aldrei að það er ekki sama hvað þú gerir fólki þó það skuldi eða hvaða siðferði býr að baki að refsa heilum þjóðum fyrir gerðir yfirstéttar.

Hjálp eða aðstoð er eitthvað sem er gert vegna neyðar, óháð því hvernig neyð er til komin eitthvað sem þú átt að vita þó amma þín hafi aldrei minnst á það.

Og í ákafa þínum við að réttlæta meiðingarnar gagnvart grískum almenningi þá fórst þú strax rangt með.  Því spilling og vanhæfni Grikkja getur ekki útskýrt núverandi ástand, því þá hefði það verið viðvarandi frá því að sögur hófust, það er eitthvað annað sem kemur til.  Þú fullyrðir strax rangt þegar þú slóst þessu fram "skattainnheimtukerfi var/er varla til" og flæktir þig bara með því að reyna að halda þig við þá rökfærslu, í stað þess að bakka strax út úr henni.

Nú er það allt frá, eftir stendur að ef ég skil þig rétt, að upptaka erlends gjaldmiðils sé ekki skýringin heldur þessi sér gríski vandi, og vitnar í þjóðir sem hafa lifað af gjaldmiðlabreytinguna.  Jæja, gott og vel fókusum á það og þá vona ég að þú finnir ekki fleiri kanínur til að réttlæta stuðning þinn við óhæfu.

Í fyrsta lagi ert þú mjög seinheppinn þegar þú segir  "Af hverju gerðist ekki álíka þá í öðrum löndum sem tóku upp evru - t.d. Hollandi, Austurríki, Slóveníu? ", þessi rök hefðu getað gengið ef árið væri til dæmis 2006 og evruóveðrið var ekki skollið á.  Þá mætti ræða þessa röksemd, það er eyða nokkrum orðum á hana en láttu ekki svona Kári, það er allt í rúst á evrusvæðinu og kreppan breiðist út til æ fleiri landa.  Það mátti kannski ræða þetta þegar kreppan byrjaði í Grikklandi en þá voru strax fleiri lönd dregin inní umræðuna.  Það gekk eftir, Írland, Portúgal, Spánn, Ítalía og aðeins tímaspursmál hvenær Belgía bætist við, síðan er stutt í Frakka og Hollendinga og Þýskaland er risi á brauðfótum því bæði er landið alltof háð útflutningi og það til kreppuevrulandanna og síðan er bankakerfið þeirra í rúst.

Það er vitað að ef Seðlabanki Evrópu hefði ekki dælt út evrum í des og aftur núna í feb þá væri bankakerfi álfunnar hrunið. 

Fyrirfram stóðu þessi lönd misvel og til dæmis var fátt athugavert við ríkisfjármál Spánar til dæmis eða Írlands, en þau soguðust inní kreppuvítahringinn eitt af öðru og það bendir aðeins til eins hlutar, það er ef menn ráða yfir rökhugsun, og það er struktúrvanda í gjaldmiðlinum, því hann er eini sameiginlegi flötur þessara ríkja.  Héðan af mun aðeins massív peningaprentun halda evrunni á floti og ekki víst að dugi til.  

Þetta eru bara staðreyndir, það þarf ekki að rífast um þetta Kári.  Og kemur því ekkert við að mér er dálítið nöp við evruna eftir að ég fór til Spánar 2008, og komst að því að gömlu góðu dagar pesotans voru úr sögunni.

En þetta snertir samt ekki kjarna málsin en kjarninn er vandinn við að hafa erlendan gjaldmiðil.  Og hann er tvennskonar. 

Sá fyrri er að ef allt fer í loft upp í efnahagnum, sama af hvaða ástæðum það er þá getur of hátt skráður gjaldmiðil sem er gjaldgengur í viðskiptum í öðrum löndum (hann leitar alltaf út á krepputímum) kæft efnhagslífið því það er ekki lengur samkeppnishæft. 

Og sá seinni er að ef þjóðfélag safna skuldum, sama af hvaða ástæðum það er, þá þarf ekki nema vantraust að myndast milli þeirra og lánardrottna og þá eru viðkomandi ríki gjaldþrota.  Tilbrigði við þetta er að skuldir þarf alltaf að greiða í erlendri mynt og það þýðir að skuldaþol ríkja er miklu minna, líklegast liggja mörkin einhvers staðar við 60% af þjóðarframleiðslu en í sjálfu sér eru engin takmörk fyrir því hvað þú getur skuldað í þinni eigin mynt, kostnaðurinn er aðeins pappír og blek, og já óðaverðbólga ef menn halda að gjaldmiðill sé verðmæti.

Og þetta eru grunnástæður þess að ríki eiga mjög erfitt með að hafa erlenda gjaldmiðla, agi í ríkisfjármálum dugar alls ekki til, það þarf að passa upp á alla eignaþenslu, aðstreymi lánsfjár, hafa litlar sveiflur í tekjöflun svo eitthvað sé nefnt.  Og reynslan er sú að fyrr eða síðar þá lenda ríki í efnahags erfiðleikum og ef almenningur viðkomandi landa er ekki tilbúinn að sætta sig við tekjuskerðingu þá er innri gengisfelling eiginlega ómöguleg þó vissulega sé allt hægt.  Til dæmis að láta fólk vinna kauplaust eins og var gert á þeim tímum þar sem gjaldmiðlar voru tengdir við gull og silfur.  

En reynslan er sú að fastgengi hrynur alltaf fyrr eða síðar og ríki í samdrætti ráða  illa við erlendan gjaldmiðil.  

En hvað er ekki hægt ef viljinn er fyrir hendi, þó eitthvað hafi ekki heppnast í þúsund ár þá getur það alveg heppnast í framtíðinni.  

Hinsvegar þegar ríki hafi ekki þann aga og struktúr sem þarf til að notkun á öðrum gjaldmiðli gangi upp, þá þýðir ekki fyrir þau að reyna slíkt.  Og það er nákvæmlega það sem gerðist hjá Grikkjum.  Það var gjörsamlega útilokað að landið gæti notað aðra mynt, hvað þá mynt þróaðs útflutningshagkerfi eins og Þýskalands.  

Þetta er bara svipað eins og að ætla sér klífa Mont Everest á morgun og byggja á þeirri reynslu að hafa farið í lyftu uppí Hallgrímskirkjuturn fyrir 15 árum síðan.  

Allar heimsins "bjögunaraðgerðir" geta ekki breytt þessari staðreynd, Grikkir ráða ekki við evruna, jafnvel þó evran gæti plummað sig ágætlega, sem hún gerir reyndar ekki.  

Málið fyrir siðaða manneskju er því einfalt, á að aðstoða grískan almenning á meðan landinu er hjálpað til baka inní raunveruleikann eða á að níðast á honum, þrælka eins og gert var í eldgamla daga.

Og aldrei þessu vant ætla ég að leyfa þér að svara þessari spurningu sjálfum en ekki að þurfa nota ömmu þína sem Skálkaskjól, ég er búinn að fá nóg að ræða Skálkaskjól þessa dagana.

Að lokum um seinheppni þína í rökleiðslu.   

"Sumir hér á Íslandi halda að öll vandamál hverfi ef Íslendingar henda krónunni og taka upp evrur eða dollara eða jafnvel norskar krónur. Þetta er algjört rugl - grundvallar vandamál í íslensku efnhagslífi verða hvorki minni (né stærri) ef skipt er um mynt. Sjúklingur á spítala verður hvorki fyrr né síðar frískur ef læknirinn ákveður að mæla lyfin í milli-pund í stað milli-gröm. Það er lyfjamagnið (verðmæti í efnahagskerfinu) sem skiptir máli, ekki mælieiningin (krónur eða evrur)."

Flott myndræn lýsing hjá þér en þú ert að upplýsa rangan mann um hana.   Ég á bæði bloggfærslur um þessi einföldu sannindi auk ótal rökræðna, og ég hóf þær löngu fyrir evruhrunið 2009.  Ef þú trúir mér ekki og vilt leggja undir þokkalegt tímakaup þá skal ég peista einhverja tugi rökræðna þar sem ég hamra á þessu.

Svo ég rifji það upp það sem ég sagði oft á bloggSilfrinu í gamla daga að evran gæti vissulega gengið en til þess þyrfti aga í ríkisfjámálum og kjarasamninga sem væru sveigjanlegir og færu aldrei framúr framleiðniaukningu þjóðarinnar.  En ef við gætum það, þá gætum við alveg eins rekið krónuna.

En ef eitthvað fer úrskeiðis eins og við Hrunið, þá er nauðsynlegt að geta látið gjaldmiðilinn falla.  Annað er bein ávísun á hörmungar.  

Og hvað annað hefur jákvætt gerst í efnhagsmálum á Íslandi frá Hruni annað en að krónan bjargaði útflutningnum????

Nei, Kári þú átt að kynna þér þann sem þú spjallar við áður en þú velur þér bömmerturnar.

Hafir þú áhuga á að hugsa hlutina út frá öðrum sjónarhól og setja þig inní þær rökfærslur sem hér liggja að baki, af hverju það er rangt að bregðast við vanda Grikkja eða vanda heimilanna á Íslandi, á þann hátt sem er og var gert, þá skaltu, ekki lesa þetta blogg heldur kíkja á Silfur Egils þegar það er endursýnt í kvöld.  Þar var fróðlegt viðtal við mann sem varar við hvað er að gerast og tengir þá núverandi atburðarrás við líkindi úr sögunni.

Þó ég hafi ágæta réttlætiskennd þá var hún ekki nógu sterkt hreyfiafl til að ég feiminn og óframfærinn fari að láta öllum illum látum í bloggheimi.  Það þurfti meira til.

Og þetta meira til var viðtal að mig minnir í Morgunblaðinu þar sem þekktur fræðimaður, (man ekki í hverju) vakti athygli á líkindinum milli þess sem hefur gerst í nútímasögu frá  aldamótunum 2000 til þessa dags (viðtalið var sirka haustið 2008, þó fyrir fall Lehams bræðra) og þess sem gerðist frá aldamótunum 1900 til þess að fyrra stríð sprakk út 1914.  Þar sem ég þekki ágætlega til sögu þá kveikti ég og sá að nú lágu Danir í því, að "höfðingjarnir" (valdastéttir eða hvað sem kjósum að kalla þá sem stýra atburðrás í meginatriðum) eru langt komnir með að endurtaka söguna og þar sem þriðja stríð er bein útrýming lífs í þeirri mynd sem við þekkjum það þá er framtíðin ekki frýnileg.

Og þá fór ég að blogga því aðeins almenn þátttaka almennings getur skapað ferla sem vinna gegn þeim ferlum sem að lokum munu skapa allsherjar stríðsástand í heiminum.

Það er misjafnt hvernig við sjáum ljósið Kári, en ef við föttum ekki forsendur mannúðar og mennsku, um hvað við megum og hvað við ekki, þá er þetta glatað.

Og þeir sem eiga líf sem þarf að vernda geta ekki leyft sér þá hugsun.

Eða það finnst mér.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 12.2.2012 kl. 20:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ómar Geirsson

Höfundur

Ómar Geirsson
Ómar Geirsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Screenshot (49)
  • Screenshot (49)
  • ...img_0104a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 469
  • Sl. sólarhring: 715
  • Sl. viku: 6200
  • Frá upphafi: 1399368

Annað

  • Innlit í dag: 397
  • Innlit sl. viku: 5252
  • Gestir í dag: 365
  • IP-tölur í dag: 360

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband